2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Best í heimi

Eftir Óttar M. Norðfjörð

Íslendingar tala stundum niður Ísland á hátt sem ég hef ekki heyrt neina aðra þjóð gera um sjálfa sig. Ég bý á Spáni og auðvitað pönkast fólk hér líka á landi og þjóð, en það ristir ekki eins djúpt og hjá okkur. Kannski er það vegna þess að við vitum öll innst inni að það er viss klikkun að búa á Íslandi. Eftir móðuharðindin fyrir rúmum 200 árum var í alvöru talað um að flytja alla Íslendinga til Jótlands. Pælið í því.

En þetta er ekki pistill um fáránleika Íslands, heldur lofsöngur um það. Sem íbúi á Spáni hef ég nefnilega öðlast annað sjónarhorn á gamla heimalandið og nýlegar reynslusögur hafa minnt mig á allt það góða þar. Manneskja nákomin mér þurfti til dæmis að komast í segulómun á Íslandi og fékk tíma eftir tvo daga. Slíkt tæki marga mánuði á Spáni. Þegar vinur minn stofnaði fyrirtæki á Íslandi kom kennitalan netleiðis seinna sama dag. Á Spáni tekur þetta ár og óteljandi heimsóknir á furðulegar skrifstofur sem enginn skilur hvers vegna eru til. Og þegar við hjónin eignuðumst son okkar hér úti þurfti ég að eyða fyrstu dögum ævi hans í að fara um Barcelona til að skrá hann í kerfið, á meðan á Íslandi gerist þetta sjálfkrafa. Og já, Íslendingar fá líka ljósmóður heim til sín til að tékka á barninu. Á Spáni kemur engin ljósmóðir í heimsókn. Hvernig Ísland tæklaði síðan kórónuveiruna, svo tekið er eftir hér úti, er einungis nýjasta dæmið um afrek þessarar litlu, skrítnu eyju.

Svo næst þegar við bölvum skítaveðrinu, verðlagi sem meikar augljóslega engan sens, yfirvofandi heimsendaeldgosum og öllu hinu, gleymum ekki öllu því góða sem landið okkar hefur fram að færa. Ísland er að vissu leyti besta land í heimi. Að minnsta kosti miðað við höfðatölu.

AUGLÝSING


Viltu birta pistil á mannlif.is? Sendu okkur línu.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum