Sunnudagur 28. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Ég ligg í helju með rauðvínsbelju

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Guðríði Torfadóttur (Gurrý) – og Dag Sigurðarson

„Ég er að opna rauðvínsflösku og fara með æðruleysisbænina.“ Þetta var svarið sem ég fékk frá vinkonu minni í síðustu viku þegar ég spurði hana hvernig hún hefði það. Það er alla vega skárra en að opna flöskuna og grenja. Í dag er lífið skrýtið. Það er erfitt, leiðinlegt, áhugavert, það er of mikið að gera, eða of lítið að gera og ekki bætir úr skák að veturinn er rétt handan við hornið. Þetta er drulluerfitt og við megum alveg eiga vonlausa daga – en það þarf samt að rífa sig upp úr þeim því ekkert gerist að sjálfu sér. Ef þú skóflar í þig stórum bragðaref yfir línulegri dagskrá eða hellir í þig einni flösku af rauðvíni skiptir það kannski ekki öllu máli – ef þessi kvöld verða ekki of mörg.

Þegar lífið kastar í okkur áskorunum eigum við það til að missa sjónar á því sem skiptir máli. Við gleymum að borða eða borðum of mikið, við sofum of lítið eða sofum of mikið. Við gleymum æfingunni sem við ætluðum að taka eða jógatímanum sem við ætluðum að fara í. Við gleymum því sem við höfðum lofað sjálfum okkur að gera.

Við erum með þrjá hornsteina sem enginn getur tekið frá okkur og við ættum alltaf að hafa hugann við og sinna – sama hvað er í gangi í lífinu og sama hvaða áföll dynja yfir. Hornsteinarnir okkar eru svefn, hreyfing og matur. Mín skoðun er sú að þessir hornsteinar séu allir jafnmikilvægir og að þeir þurfi að vera í jafnvægi.

Svefninn er líklega erfiðastur að eiga við og það eru svo margir þættir sem hafa áhrif á hann, hvort sem það eru börnin sem halda fyrir manni vöku, streita, kvíði eða aðrir áhrifaþættir. Þegar kemur að svefni er mikilvægast að halda rútínu. Að fara upp í rúm og á fætur á sama tíma, þannig að þótt þú sofir ekki allan tímann þá hvílist líkaminn og hugurinn og þú nærð að slaka á. En mundu að þetta er tímabundið ástand, þannig að ekki búa til streitu eða hafa áhyggjur af því að ná ekki nægum svefni, taktu frekar hina hornsteinana og reyndu að vinna í að rækta þá betur til að vega upp á móti.

Hreyfing er ákvörðun
Það þarf ekki að gera mikið til að okkur líði betur. Einfaldasta leiðin er að hreyfa sig – og þótt það sé skemmtilegt og hvetjandi að hafa líkamsræktarsal til afnota og einkaþjálfara sem segir þér nákvæmlega hvað þú átt að gera, er það ekki nauðsynlegt. Möguleikarnir eru endalausir og það hefur aldrei verið auðveldara að fá aðgang að æfingum án endurgjalds. Veldu bara eitthvað sem þér líst á og notaðu það. Hreyfing er einfaldlega bara ákvörðun og það þarf að tímasetja hana. Vertu búin/n að ákveða klukkan hvað þú ætlar að æfa og stattu við það. Ekki leyfa huganum að stoppa þig af eða búa til afsakanir.

- Auglýsing -

Ef þú ert búin/n á því – taktu stutta æfingu.
Ef þú ert nýbúin/n að borða – taktu styrktaræfingar.
Ef það er kalt úti – klæddu þig vel,
Ef allir á heimilinu eru að gera þig snælduvitlausa/n – farðu út að hlaupa.
Ef þú átt engan búnað – notaðu líkama þinn.
Ef þú treystir þér ekki til að byrja æfingar – farðu í rösklegan göngutúr eða gerðu jógastöður.
Ef ekkert virkar – talaðu við einkaþjálfara á netinu sem mætir heim til þín í gegnum skjá og getur talað við þig.

Borðum mat, ekki drasl
Mataræði er auðvitað mikilvægt og mitt einfaldasta ráð er: slepptu því að borða fyrir svefninn. Að borða rétt fyrir svefn eða að fara að sofa með fullan maga hefur slæm áhrif á svefninn og tekur hornsteinana úr jafnvægi. Ekki henda hollustunni fyrir borð núna, heldur hafðu hana alltaf í huga og reyndu eftir besta megni að fylgja henni eftir. Hollur morgunmatur setur tóninn fyrir restina af deginum og alls ekki sleppa máltíð. Ef þú ert að vinna heima er frekar einfalt að henda 2-3 eggjum á pönnu og steikja grænmeti með. Þetta tekur u.þ.b. sjö mínútur, uppvask meðtalið.

Við erum líklega flestöll að verða pirruð og langþreytt á þessu ástandi sem er í gangi, en það er ekkert annað í boði en að halda haus og gera eins mikið af því sem er gott fyrir okkur – og eins lítið og hægt er af því sem er slæmt fyrir okkur. Prófaðu að gera lista:
Hvað er gott fyrir mig sem ég get gert daglega?
Hvað er slæmt fyrir mig sem ég geri oft og vil minnka eða sleppa?

- Auglýsing -

Að lokum mun þetta COVID-skítavesen klárast og væri ekki glatað að koma út úr því með bjúg, bólgur og bauga niður á brjóst og þurfa þá að fara að drullast af stað?
Þetta er einfalt: drekktu vatn, hvíldu þig, farðu í göngutúr og taktu einhverja æfingu daglega!

Mitt framlag í nóvember er að vera með jógatíma kl. 8:30-9:00 alla virka morgna sem allir geta tekið þátt í í gegnum Facebook-síðuna mína; Gurrý þjálfari. Líkt og góður morgunmatur, getur létt æfing sett tóninn fyrir daginn. Ég skora á þig að stilla inn og taka þátt. Ef þú vilt síðan taka þetta skrefinu lengra þá þjálfa ég mitt fólk í YAMA heilsurækt á Zoom. Vertu í bandi ef þú vilt slást í hópinn.

Baráttukveðjur,
Gurrý

Höfundur er þjálfari og eigandi Yama Heilsurækt

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -