Mánudagur 14. október, 2024
-1.5 C
Reykjavik

Djöfulsins snillingur: „Enn ein raunarollan um það hversu vondir Íslendingar eru“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Djöfulsins snillingur er verk leikflokks sem kallar sig því ábúðarmikla heiti Reykjavík Ensemble og kveðst alþjóðlegur í þokkabót (fjölþjóðlegur hefði verið betra fyrir minn smekk). Þær Pálína Jónsdóttir og Ewa Marcinek eru höfundar og Pálína leikstjóri. Leikendur eru fimm talsins; ég sakna þess að ekki skuli að finna neinar upplýsingar um þá utan nöfnin tóm á heimasíðu Tjarnarbíós, því þeir koma bersýnilega úr ólíkum áttum, ekki aðeins hvað þjóðernið varðar.

Verkið fjallar um unga, erlenda konu, Urielu, sem birtist allt í einu hér uppi á klakanum og á sér þann draum stærstan að komast að sem listamaður hjá Þjóðarsirkusnum. Hún er nánast nakin þegar hún stígur fyrst fram og trúir okkur fyrir vonum sínum. Það geislar á einhvern hátt af henni og við finnum að barnsleg löngun hennar til að skapa eitthvað fagurt er einlæg og sönn.

Á Íslandi rekst hún á ótal múra, aðallega sem útlendingur, en leikhúsið – sem Þjóðarsirkusinn á að tákna – er ekki heldur rúmt inngangs. Ég skal játa að fyrst leist mér ekki á blikuna; á þetta nú að verða enn ein raunarollan um það hversu vondir Íslendingar eru við erlenda gesti og innflytjendur, hugsaði ég í ótuktarskap mínum og byrjaði að kvíða framhaldinu. En það bráði fljótt af mér, bæði vegna þess að ádeilan var borin fram með góðlátlegu háði (oftast nær) og svo fór leikurinn að snúast um efni sem er ævagamalt og síungt sé vel á því haldið. Uriela reynist harðari af sér en í fyrstu virðist, hún er tilbúin til að berjast við drauga kerfisins af einurð, en hún mætir einnig andstöðu í sjálfhverfu leiklistarheimsins. Hún kynnist ungum leikara, Gunnari, sjarmerandi náunga, sem hún vonast til að tengjast, en hann er að leita að allt öðru en hún; hann hugsar aðeins um eigin frama, aðdáun áhorfenda sem hann þarf til að staðfesta sína eigin veiku sjálfsmynd.

Leikhúsgagnrýni Jón Viðars og fleira áhugavert efni má lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -