Föstudagur 3. febrúar, 2023
2.8 C
Reykjavik

Hrikaleg lífsreynsla á Landspítalanum: „Með dáið barn inni í mér í sex daga“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Ég skalf úr hræðslu, hver mínúta var sem klukkutími á meðan ég beið eftir skoðuninni. Allt hafði gengið vel, ég var komin með þessa fínu kúlu, sönnun þess að barn væri að vaxa inni í mér. Slæma tilfinningin var samt alltaf viðvarandi; eitthvað var að.

„Því miður, það er enginn hjartsláttur.“ Læknirinn horfði á mig vorkunnaraugum á meðan ég grét, bað mig vinsamlegast um að fá mér sæti og hætta að gráta svo hún gæti útskýrt fyrir mér næstu skref. Ég var bara enn ein konan sem hafði misst barnið sitt. Hún endurtók tölfræði um tíðni fósturláta og tónninn varð ergilegri því lengur sem ég grét. Ég var ófær um að fylgja fyrirmælum. Aftur skyldi ég mæta eftir helgi til að fá upplýsingar um meðferðarúrræði. Ég var send heim með látið barnið inni í mér, heima skyldi ég bíða eftir frekari þjónustu. Syrgjandi móðir með látið fóstur átti ekki að hafa áhrif á helgarfrí starfsmanna.

Ég fylgdist með hamingjusömum verðandi foreldrum streyma út úr sónarskoðun með myndir af verðandi erfingjum í fanginu. Þremur dögum eftir það áfall að missa barnið mitt sat ég, gjörsamlega niðurbrotin, í sömu biðstofu og foreldrar sem áttu von á heilbrigðum börnum. Ég átti að bíða í þrjá daga í viðbót eftir tíma í aðgerð. Sex dagar sem ég beið, vitandi að barnið mitt væri látið inni í mér. Mannekla og helgarfrí voru sögð ástæða þess að ég fengi ekki fullnægjandi þjónustu. Enginn bað mig afsökunar, alltaf voru endurteknar tölur um líkurnar á að missa fóstur. Mér var aldrei sýnd nein samúð á Landspítalanum enda var ég í þeirra augum bara partur af tölfræði, nafn á lista.
Eftir aðgerð var greint góðkynja krabbameinsæxli í fylgjunni sem gat orðið lífshættulegt ef ekki yrði fylgst vel með mér. Mér var sagt að mæta vikulega í blóðprufur, sem ég síðan gerði í marga mánuði. Á hverjum miðvikudegi beið ég eftir símtali frá spítalanum þar sem ég yrði upplýst um niðurstöður úr blóðprufum sem segðu til um hvort sjúkdómurinn væri að taka sig upp aftur eða ekki.
Aldrei fékk ég samband við hjúkrunarfræðing eða lækni sem ég gæti talað við ef eitthvað kæmi upp á. Ef gleymdist að hringja með niðurstöður, sem gerðist nokkrum sinnum, þurfti ég að hringja í spítalann og útskýra þennan flókna sjúkdóm sem fáir virtust skilja og bíða eftir því að hjúkrunarfræðingur hringdi þegar tími gæfist. Þrátt fyrir þessa greiningu, sem fylgdi ótti og óvissa, var ég enn þá í þeirra huga bara nafn á lista sem þurfti að klára, ekki manneskja.

Eftir þessa reynslu á spítalanum hef ég heyrt ótal sögur frá mæðrum í sömu sporum sem hafa fengið svipað viðmót. Hvernig er hægt að útskýra að heilbrigðisstarfsmenn séu skilningslausir og kaldir í garð foreldra sem ganga í gegnum missi?
Það að upplifa mig sem dramatíska og erfiða gerði reynslu mína af fósturmissi miklu verri. Ef ég vissi ekki betur myndi ég telja að spítalinn væri öruggur staður þar sem allar tilfinningar væru leyfðar og virtar, en það hefur sýnt sig í reynslu foreldra, að það er svo sannarlega ekki raunin. Fósturmissir er eitt það erfiðasta sem foreldri gengur í gegnum, þú ert að missa lífið sem átti að verða, barnið sem þú áttir að eignast. Tölur og tíðni skipta ekki máli þegar þú stendur í þessum sporum, sorgin er yfirgnæfandi. Á tímum þegar fólk þarfnast umhyggju, sýnir starfsfólk spítalans algjört skilningsleysi. Mér var gert það ljóst að ég ætti ekki rétt á að syrgja, þetta væri nú bara fósturlát sem væri hluti af því sem konur á barneignaraldri ganga í gegnum. Það lengdi sorgarferli mitt til muna að vera meðvituð um þá staðreynd. Það tók marga mánuði og mikla sjálfsvinnu að sættast við missinn, en það sem situr í mér enn í dag er viðhorfið sem ég fékk á spítalanum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -