Sunnudagur 28. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Þegar fólk festist í tíma

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Lindu Björg Árnadóttur

Stundum sér maður fólk sem hefur fest í tíma. Fötin, hárið og allt fas er einhvern veginn svolítið 1987 eða eitthvað annað ártal.
Þá getur maður verið nokkuð viss um að viðkomandi ár hefur verið alveg sérstaklega gott hjá þessum einstaklingi. Hann einfaldlega ríghangir í því og vill alls ekki sleppa.

Þetta getur líka gerst hjá stærri hópum af fólki og jafnvel heilu þjóðunum. Þetta gerðist til dæmis hjá Áströlum sem á áttunda áratugnum upplifðu í fyrsta sinn að Ástralía væri „hip og kúl“ vegna þess að poppmenningarafurðir eins og Mad Max, AC/DC, INXS og fleiri höfðu orðið vinsælar um allan heim. Ástralar héngu á þessum áratug ansi lengi og eru nýfarnir að klippa af sér „mulletið“ svona rétt áður en það dettur aftur inn í tísku.

Ef maður heldur í eitthvert tímabil fortíðar og vill ekki sleppa þá hlýtur maður að halda að þessi tími hafi og muni vera besti tími lífs manns og að allt eftir það verði minna gaman.
Það er ekki gaman að fara í gegnum lífið og vera á þeirri skoðun að bestu tímarnir séu liðnir.

Einu sinni las ég viðtal við Karl Lagerfeld sem alltaf hafði eitthvað merkilegt að segja. En hann sagði í kringum 1998 í viðtali að munurinn á hans kynslóð og þeirri sem þá var ung væri sá að unga fólkið þá teldi sig hafa upplifað bestu stundir lífs síns en að kynslóð Karls teldi að enn væru bestu stundirnar í lífinu ólifaðar.

Ég sat eitt sinn að sumri til í garðinum við Hótel Ritz í París með einhverju tískufólki, þar á meðal ljósmyndaranum þekkta Michel Comte. Þá kom þangað 92 ára gamall maður sérstaklega til að hitta hann. Hann var samlandi ljósmyndarans og hafði unnið sem búningahönnuður alla ævi og verið aðstoðarmaður Cecil Beaton og saman gerðu þeir búningana við stórmyndir á borð við My Fair Lady, Gigi og fleiri.
Hann hafði ákveðið að hefja nýjan starfsferil, honum hafði fundist það vera tímabært og ætlaði sér að verða ljósmyndari í framtíðinni. Hann hafði áhuga á að fá ráðleggingar frá ljósmyndaranum fræga varðandi hvers konar myndavél hann ætti að fá sér, svona í upphafi ferilsins.
Þetta atvik hefur setið í mér. Mér finnst svo stórkostlegt þegar fólk hættir ekki að vera skapandi með aldrinum. Gefst ekki upp. Sér alltaf spennandi framtíð fyrir sér, að hætti Karls.

- Auglýsing -

Þegar fólk festist í tíma er það fast í að líta til baka, til fortíðar. Fast í góða tímanum sem er liðinn.
Hvað með að hafa það að markmiði, eins og Karl talaði um, að ákveða að bestu tímarnir séu alltaf fram undan? Að tækifærin bíði handan við hornið. Að við getum enn þá gert nýja hluti og upplifað eitthvað nýtt? Verið skapandi?

Það eina sem þarf er annað viðhorf! Það kostar ekki neitt.

Höfundur er dósent og doktorsnemi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -