Sunnudagur 28. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Þegar tryggingar snúast um fólk

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tryggingafélagið VÍS hefur nýlega vakið athygli fyrir að boða nýjung á bílatryggingamarkaði, svokallaðan Ökuvísi. Ætlunin er að þróa einfalt og hentugt app fyrir íslenskar aðstæður sem aðstoðar fólk við að fylgjast með akstri sínum og hvetur það til að keyra vel. Tryggingafélagið mun með appinu afla upplýsinga um ökumenn – gefa þeim nokkurs konar aksturseinkunn – og verðleggja tryggingar í samræmi við þær upplýsingar sem skráðar eru um akstur viðskiptavinanna.

Það má segja að það hafi einungis verið tímaspursmál hvenær fyrsta íslenska tryggingafélagið myndi feta sig í þessa átt. Hin félögin munu fylgja á eftir og á fleiri sviðum. Tæknilausnir munu í náinni framtíð opna á ótal möguleika á því að sníða tryggingar – og verðið á þeim – að einstaklingum. Sumt af því hefur þegar komið fram erlendis á undanförnum árum. Tryggingar snúast um þrenns konar óvissu: hvort og hvenær tjón verður – og hversu kostnaðarsamt það er. Þótt Ökuvísir og aðrar tæknilausnir láti ekki þessa óvissu hverfa þá eru allar þær upplýsingar sem félögin geta mögulega aflað sér ákaflega kærkomnar fyrir óvissumat þeirra. Það er ekki skrítið að allar klær séu úti til að afla sem mestra upplýsinga. 

Efasemdir um að tryggingafélög ættu að færa sig í þessa átt hafa verið settar fram á sviði stjórnmálaheimspeki og siðfræði undanfarin ár og af sífellt meiri þunga. Efasemdirnar eru einkum af tvennu tagi. Annars vegar eru þær fremur tæknilegar og snúast fyrst og fremst um ólíkar hliðar persónuverndar. Sem betur fer hefur lagarammi í þeim málaflokki styrkst og hefur það heldur slegið á þær áhyggjur. Enn eru þó margir sem segja að tækniþróunin sé svo hröð að lögin muni einungis fylgja í humátt á eftir. Hin gerð efasemdanna er gildishlaðnari. Hún nær yfir býsna vítt svið en segja má að hið sameiginlega stef felist í því að einkalíf sé mikilvægt þar sem allar takmarkanir á því hefti möguleika okkar á að þroska dómgreind okkar. Það sé aðeins hið opinbera á fáum og takmörkuðum sviðum sem megi vera með handleiðslu og eftirlit með borgurum, sama hversu góðar ætlanir liggi á bakvið þau höft sem einkaaðilar vilja setja.

Líklega er það rétt að innleiðing hans mun leiða til fækkunar slysa

Vissulega verður að viðurkennast að VÍS getur bent á margt jákvætt þegar kemur að Ökuvísinum og þeirri hugsun sem liggur á bakvið hann. Líklega er það rétt að innleiðing hans mun leiða til fækkunar slysa og þar af leiðandi minni samfélagslegs kostnaðar. Það má því færa sterk nytjarök fyrir því að boðið sé upp á slíkar lausnir. Og það má líklega einnig segja sem svo að þetta gæti verið verra. Hér er aðeins um að ræða upplýsingar um takmarkað svið tilveru okkar en ekki víðtækar heilsufars- og lífsstílsupplýsingar eins og þekkist víða erlendis á tryggingamarkaði. Þá kemur einnig fram að fyrirtækið lofar að upplýsingarnar verði ekki seldar áfram til þriðja aðila eða að engum óþarfa upplýsingum verði safnað.

Þessar jákvæðu hliðar breyta þó ekki þeirri skoðun minni að það kunni að vera full ástæða fyrir fólk að fara varlega í að ýta undir þessa þróun. Það hvarflar ekki að mér að leggja til að löggjafinn eigi að bregðast við svona vöruþróun á tryggingamarkaði umfram það sem persónuverndarlöggjöf segir til um. Neytendur sjálfir eiga að segja til um hvort þeim hugnist í raun hvert tryggingamarkaðurinn stefnir. Og hér er mikilvægt að neytendur ígrundi vandlega þessa þróun og láti ekki aðeins veskið taka ákvörðun fyrir sig. Það er eftirsóknarvert að efla stöðugt hæfni sína að taka réttar og skynsamar ákvarðanir. Jafnvel þegar enginn fylgist með eða tekur eftir því. Ef við venjum okkur á góða hegðun einungis vegna þess að fylgst er með okkur er hætt við dómgreind okkar verði ekki upp á marga fiska þegar við lendum í aðstæðum þegar enginn sér til okkar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -