Þriðjudagur 11. febrúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

KUL og Teitur Magnússon & Æðisgengið á KEX

Það verður mikið um mikið um dýrðir og töfra á Kex Hostel í kvöld.

Í kvöld, föstudaginn 28. júní, verður mikið um dýrðir og töfra á Kex Hostel þegar hljómsveitirnar KUL og Teitur Magnússon & Æðisgengið bregða á leik fyrir gesti.

Hljómsveitin KUL var stofnuð í fyrra af reynsluboltum úr íslensku tónlistarlífi. Meðlimir sveitarinnar, þeir Heiðar, Helgi, Hálfdán og Skúli eru þekktir fyrir sín þrumuskot í meðal annars Botnleðju, Sign og Benny Crespo’s Gang. Gestir geta átt von á rokki og róli og það gerir KUL gerir vel.

Hlýr, tímalaus en jafnframt hrár – „það er enginn asi á Teiti“. Svo lýsti gagnrýnandinn Ingimar Bjarnason tónlistinni á síðustu plötu Teits Magnússonar, Orna, sem kom út á síðasta ári við mikinn fögnuð tónlistarunnenda. Með honum leikur Æðisgengið – þar er vægt til orða tekið valinn maður í hverju í rúmi.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20.30 og er frítt inn.

Brotnar siðareglur og skilorðsbundið fangelsi

Í hverri viku tiltekur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góða viku og slæma viku. Að þessu sinni eru það Ásmundur Friðriksson annars vegar og Jón Ingi Gíslason hinsvegar sem eru hinir útnefndu.

 

Góð vika – Ásmundur Friðriksson

Óhætt er að segja að margir hafi átt góða viku. Íbúar Austurlands hafa notið veðurblíðu síðustu daga. Karlalið Víkings í knattspyrnu átti frábæra endurkoma í Eyjum þegar Víkingur sigraði ÍBV og varð fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu.

Eflaust hafa þó fáir glaðst eins mikið og þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson þegar Forsætisnefnd Alþingis féllst á að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefði brotið siðareglur fyrir alþingismenn með ummælum sínum um akstursgreiðslur hans. Ekki glöddust þó allir og sagði flokksbróðir Þórhildar Sunnu, Jón Þór Ólafsson, að „þessi afgreiðsla væri til þess fallin að fela mögulega spillingu og þagga niðri í þeim sem vilja uppræta hana“.

Slæm vika – Jón Ingi Gíslason

Svandís Svavarsdóttir hefur ekki beinlínis átt sjö dagana sæla vegna sykurskatts sem hún hefur boðað til. Ummæli hennar um að hlutfall of feitra væri hátt á Íslandi vakti líka reiði og var Svandís sökuð um að kynda undir báli fitufordóma. Vika Jóns Ársæls Þórðarsonar varð heldur engin skemmtiferð þegar honum var stefnt af einum viðmælenda sinna úr þáttunum Paradísarheimt.

Nafni hans Jón Ingi Gíslason, formaður Kennarafélags Reykjavíkur, toppaði þó allt þegar hann var í Héraðsdómi dæmdur í skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 19.350.000 sekt í ríkissjóðs vegna stórfellds skattalagabrots. Þetta varð ekki beint til að auka hróður Jóns sem hafði áður verið vikið úr áhrifastöðum innan Framsóknar vegna málsins.

Tímarit sem fyllir börn eldmóði, áhuga og gleði

||
Ágústa Margrét Arnardóttir er ritstjóri HVAÐ

Ágústa Margrét Arnardóttir, búsett á Djúpavogi, er ritstjóri HVAÐ, nýs barna- og ungmennatímarits sem kom út í fyrsta sinn í byrjun júní 2019. Lögð er áhersla á efni fyrir lesendur á aldrinum 8-18 ára þótt efnið höfði til lesenda á öllum aldri.

 

„Mér datt aldrei í hug að ég myndi einhvern tíma gefa út barna- og ungmennatímarit, en ég er gríðarlega hugmyndarík, hvatvís og ofvirk þannig að líf mitt kemur mér alltaf á óvart,“ segir Ágústa þegar hún er spurð um tilurð þess að hún hóf tímaritaútgáfu. „Ég tók eftir því fyrst fyrir um sex árum að það væri vöntun á hvetjandi og eflandi tímaritum fyrir börn, öðru hvoru hugsaði ég svo að þetta og hitt væri sniðugt í þannig blað. Ég kláraði svo mitt fimmta fæðingarorlof í septmeber í fyrra og ákvað að prófa þetta bara.“

HVAÐ er fjölbreytt tímarit og í það skrifa um fjörutíu einstaklingar á öllum aldri, pistla, uppskriftir, sögur, viðtöl og fleira. „Það er mikið um innsent efni frá börnum sem eru að kynna sín áhugamál, sín svæði og fleira fyrir lesendum en eldri pistlahöfundar skrifa sína pistla með „hvað myndi ég vilja segja mér þegar ég var 8-18 ára“. Þetta eru hvetjandi pistlar um til dæmis vináttu, líkamsímynd og mikilvægi þess að virða og elska sig sjálf og margt fleira sem og upplýsandi pistlar um kynfæri, fjármál, tískuljósmyndir og hvernig á að baka túnfífla, svo fátt eitt sé nefnt.“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt

Ágústa stofnaði hönnunar- og framleiðslufyrirtækið Arfleifð þegar fyrsta barnið hennar og mannsins hennar sem er sjómaður var sex mánaða, svo eignuðust þau þrjú börn á þremur árum. „Ég reyndi mitt allra besta við að reka fyrirtækið, sinna börnum, heimili og lífinu, að miklu leyti ein. Þetta var nokkurra ára rússíbani sem endaði með að ég hrundi andlega og líkamlega. Eftir á að hyggja var þetta þrot sem ég komst í mun alvarlegra en ég gerði mér grein fyrir því eftirköstin eru enn. Ég hef ekki sama úthald, orku og getu og ég hafði. Ég þurfti að breyta algjörlega um lífsstíl, ég hætti að drekka, fékk ADHD-greiningu og samkvæmt læknisráði átti ég að láta viðburði og stór verkefni á pásu,“ segir Ágústa. „Ég þurfti í raun að læra að lifa upp á nýtt, sætta mig við alls konar, fara í gegnum fortíðina, endurskipuleggja framtíðina og læra að lifa í núinu. Það má segja að þetta ferli hafi ekki síst verið kveikjan að HVAÐ. Ég hef lesið svo margt uppbyggilegt og merkilegt, er að læra markþjálfun og ætla mér að vinna við að hvetja fólk. Úr því að ég gat fundið hugarró, sátt og innihaldsríkara líf þá geta það allir.“

„Ég þurfti í raun að læra að lifa upp á nýtt, sætta sig við alls konar, fara í gegnum fortíðina, endurskipuleggja framtíðina og læra að lifa í núinu.“

Hún segir að í nútímasamfélagi sé allt of mikill hraði, neysluhyggja, yfirborðskennd, viðmiðun og vonbrigði, bæði hjá fullorðnum og börnum. „Börn verða fyrir stanslausu áreiti á öllum miðlum, bíómyndum, auglýsingum, inni á heimilum, í skólum og samfélaginu öllu. Kvíði, streita og vanlíðan er að aukast hjá börnum og ég var þannig barn – mér leið oft illa. Ég var „vandræðaunglingur“, byrjaði að drekka á þrettánda ári til að fylla í eitthvað tóm og flýja raunveruleikann. Ég skammaðist mín fyrir svo margt, bar enga virðingu fyrir mér eða öðrum. Ég eyðilagði hluti, sambönd og mig sjálfa. Þetta var allt sprottið út frá vanlíðan og of lítilli trú á sjálfa mig,“ segir Ágústa.

Fylgdi syni sínum í skólanum allan daginn í fjóra mánuði

Í þessu fyrsta tölublaði HVAÐ er ítarlegt viðtal við Heiðar Loga Elíasson, brimbrettakappa með meiru. „Jákvæðni hans, kraftur og eldmóður urðu mér innblástur fyrir nokkrum árum, þegar hann var um tvítugt og ég um 35 ára þriggja barna móðir að takast á við þrotið mitt. Ég tók hann mér til fyrirmyndar og nú er ég orðin fertug og fimm barna móðir sem fer í blautgalla og hoppar í sjóinn, ár og vötn til að tengjast náttúrunni og skemmta sér. Þetta er eitthvað sem ég gerði aldrei en langaði alltaf. Af einhverjum ástæðum var ég búin að búa mér til allt of mikið af hindrunum og hafði afsakanir fyrir öllu. Stærstu afsakanir mínar voru að ég ætti of mörg börn, of lítinn tíma, of lítinn pening og fleira. Fyrir tveimur árum var mér svo enn meira kippt inn í raunveruleikann. Sonur minn sem þá var í 3. bekk var í kolvitlausum farvegi. Hann sýndi alls konar hegðun sem benti til mikilla erfiðleika og vanlíðunar. Það var búið að prófa ýmsar aðferðir til að reyna að „láta“ hann haga sér betur og líða betur en ekkert breyttist, honum leið verr og verr, ef eitthvað.“

Ágústa ákvað að fara með honum í tvær til fjórar vikur í skólann til að reyna að sjá hvað „væri að honum“. Það endaði þannig að hún setti Arfleifð á pásu, droppaði öllu og mætti með honum í allar kennslustundir, frímínútur, tómstundir og fleira í tæplega fjóra mánuði „Ég sá ótrúlega vel að það var margt að hjá honum en ekki að honum. Við tók tveggja ára ferli til að finna hans farveg og vellíðan. Útivist, samvera, áhugamál, ástríða fyrir einhverju, leikur, hvatning, ábyrgð og fleira var partur af því sem gjörbreytti hans líðan og okkar allra. Því þegar barni, eða fullorðnum, líður illa hefur það áhrif á alla í kring. Það sem ég sá einnig var að það var líka svo ofboðslega margt að hjá mér, fjölskyldunni, skólanum og samfélaginu. Öll mín hugsun breyttist.“

Öll fjölskyldan breytti um stefnu í lífinu fyrir nokkrum árum og tekur þátt í blaðaútgáfunni með Ágústu.

Eftir þetta snýst líf Ágústu og fjölskyldu um að finna farveg hvers og eins einstaklings í fjölskyldunni og fjölskyldunnar sem heildar. Þau fóru að stunda vatnasport, mun meiri útivist, flakk og ferðalög, breyttu kauphegðun og flæði inn á heimilið, fóru að safna upplifunum í stað eigna og svo ótal margt sem hefur skilað þeim vellíðan, hugarró og sátt.

1100 kílómetra ferðalag vel þess virði

Börn Ágústu eru með henni í blaðaútgáfunni. „Ég hannaði þessa útgáfu og allt sem fylgir út frá börnunum og fjölskyldunni. Þau skrifa öll eitthvað í blaðið og hafa verið að selja það hús úr húsi á landsbyggðinni. Ég fór einu sinni ein til Reykjavíkur að vinna að þessu en annars hafa þau komið með mér. Ég og Vigdís, elsta dóttir mín, keyrðum frá Djúpavogi til Reykjavíkur og til baka, alls 1100 kílómetra, til þess að hitta Heiðar Loga í þrjár klukkustundir. Það ferðalag var margfalt þess virði og magnað tækifæri að hitta og heyra sögu hans, sem er í 1. tölublaðinu. Ég er ritstjóri og skrifa í blaðið en mitt helsta verk var að fá efni frá öllum og setja það saman á einn aðgengilegan stað. Íris Ösp Sveinbjörnsdóttir er grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi HVAÐ. Fyrsta tölublaðið var í um níu mánuði í vinnslu og á lokasprettinum leið okkur eins og við værum að eignast barn saman. „Meðgangan“ gekk vel, við fórum fram yfir settan útgáfudag en eins og eðililegt er með fyrsta barn og lærðum alveg ólýsanlega mikið af þessu ölllu.“

Ágústa hefur horft mikið til tímaritanna ABC og Æskunnar sem vinsæl voru þegar hún var barn. „Ég sendi inn helling af sögum, teikningum og óskaði eftir pennavinum þegar ég var barn og þau fylltu mig innblæstri í þessari útgáfu. HVAÐ er vettvangur barna og ungmenna til að láta ljós sitt skína. Í stað plakata með tónlistarfólki og íþróttamönnum eru falleg og uppbyggileg kvót og heilræði sem sóma sér vel uppi á vegg í ramma. Og í stað krossgátna og þrauta eru hvetjandi verkefni, áskoranir og markmiðaeyðufyllingar sem gaman og gagnlegt er að fylla inn í. Þannig að þetta er svona nútímaútfærsla á þessum gömlu tímaritum í bland við brandara, leiki og lífið í landinu frá börnum og ungmennum.“

Vill sporna við skjátíma

Langflestir sem Ágústa talaði við í sambandi við HVAÐ hafa verið jákvæðir og til í að taka þátt. Ævar Þór, rithöfundur og vísindamaður, Alda Karen, Sölvi Tryggva, Pálína Ósk, Þorgrímur Þráins, Erna í Ernulandi, Ólafur Stefánsson, Fanney Þóris, Rakel Rán  og fleiri skrifa pistla. „Þetta er fólk sem vinnur við að hvetja og upplýsa. Þau vita að börn og ungmenni þurfa að fá upplýsingar beint í æð og þau höfðu trú á þessu hjá mér. Það er ómetanlegt. Ég vil með hefðbundinni prentútgáfu í stað netútgáfu reyna að sporna við skjátíma og mín hugsun er að ég verði að prófa þetta. Ég trúi því innilega að ef HVAÐ fær tækifæri, fær kynningu og verði aðgengilegt í verslunum þá muni það blómstra.“

Prentsmiðjan Oddi prentar blaðið og Ágústa segir að starfsfólkið þar hafi verið með eindæmum þolinmótt, ráðagott og dásamlegt í samskiptum.

„Það var markmið okkar allra að hafa þetta metnaðarfullt og faglegt. Við höfum fengið mikið hrós fyrir innihald, útlit, gæði, pappír, prentun og fleira. Það var ekkert mál að vinna þetta frá Djúpavogi, ekki síst af því að það var frábært fólk í hverju verki. Reynsla mín úr fyrri rekstri, menntun, námskeið og fleira hjálpaði mikið.“

Óskin er að blaðið ýti undir heilbrigði og heilindi, sjálfstæða hugsun, efli og hvetji lesendur til dáða.

Næst á dagskrá hjá fjölskyldunni er viðburður og sala á Humarhátíð á Hornafirði þar sem þau verða með sérstakt HVAD-svæði – skapandi og hvetjandi svæði þar sem innihald blaðsins er fært í raunveruleikann. Alls konar áskoranir, föndur og fleira. „HVAÐ er ekki bara tímarit, það er lífsstíll sem hvetur til samveru, útivistar og að njóta. Einnig verðum við með sölu á Lummudögum í Skagafirði. Við vonumst til að vera með sem mest af svona viðburðum og ýmis námskeið eru í bígerð fyrir veturinn. Markmið okkar með HVAÐ eru stór og falleg, ég er þó raunsæ og veit að í rekstri, og lífinu, getur allt gerst. Jafnaðargeð, þolinmæði og æðruleysi í bland við kæruleysi, hvatvísi og trú er nauðsynlegt veganesti í öllum verkefnum sem maður tekur sér fyrir hendur.“

Kemur út tvisvar á ári

Í loforði til lesenda og stefnu HVAÐ segir að óskin sé að þegar börn og ungmenni skoði blaðið finni þau fyrir eldmóði, áhuga og gleði og að HVAÐ ýti undir heilbrigði og heilindi, sjálfstæða hugsun, efli og hvetji lesendur til dáða. Í tímaritinu eru líka upplýsingar um staði sem börn og ungmenni geta leitað til – hjálparsími Rauða krossins, Bergið, SÁÁ og fleira. Blaðið mun koma út tvisvar á ári til að byrja með, í júní og nóvember, það er til sölu á heimasíðunni hvadtimarit.is, í barnavöruversluninni Hreiður í Kópavogi, verslunum Pennans, Nettó og Hagkaupa og kostar alls staðar 2.500 kr. HVAÐ er einnig á Facebook og Instagram undir Hvadtimarit.

„Líkami okkar elskar fitu“

|
Helga Katrín Stefánsdóttir við dragsterinn Batman. Ingólfur Arnarsson er eigandi þessa tryllitækis. Vélin er 11

Tíðni ofþyngdar hjá íslenskum grunnskólabörnum hefur farið lækkandi síðustu ár. Prófessor segir vitundarvakningu um heilsu hafa skilað árangi

 

Valdís Bjarnadóttir og Sólveig Jakobsdóttir útskrifuðust með BS-gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands í vor. Í lokaverkefni sínu skoðuðu þær ofþyngd grunnskólabarna í 6. bekk, 8. bekk og 10. bekk á Íslandi út frá íslenskum hluta fjölþjóðlegu könnunarinnar Heilsa og líðan skólabarna (HBSC) sem er gerð á fjögurra ára fresti í yfir fjörutíu löndum. Í ritgerðinni voru sex mismunandi bakgrunnsbreytur skoðaðar út frá félagslegum þáttum íslenskra barna og unglinga og bornar saman við nýjustu tölur úr könnun HBSC á Íslandi frá árunum 2017 og 2018.

Niðurstöður sýndu m.a. að 15,6% íslenskra grunnskólabarna í 6., 8. og 10. bekk voru skilgreind í ofþyngd. Til samanburðar sýna gögn að 23,7% barna í 4. bekk grunnskóla voru talin vera í ofþyngd árið 2012. Út frá niðurstöðum HBSC á Íslandi, eykst tíðni barna í ofþyngd með aldri og því má áætla að tíðni barna í 6., 8., og 10. bekk hafi verið svipuð eða hærri en 23,7% árið 2012. Það bendir því flest til þess að tíðni ofþyngdar hjá grunnskólabörnum fari lækkandi.

Ársæll Már Arnarsson prófessor stýrir HBSC á Íslandi og í samtali við Mannlíf segir hann að hið opinbera og skólakerfið í heild hafi tekið við sér á undanförnum árum og stuðlað að aukinni fræðslu og heilsueflingu. „Við erum farin að sjá heilsueflandi samfélög, heilsueflandi skóla og leiksskóla. Það hefur orðið vitundarvakning í samfélaginu um það í hverju heilbrigði felst,“ segir hann en bætir við að mikilvægt sé að halda því til haga að þyngd er aðeins lítill hluti af heilbrigði.

Ársæll Már Arnarsson prófessor stýrir HBSC á Íslandi. Mynd / Kristinn Ingvarsson

„Það getur valdið miklu verra heilsutjóni að stunda alls konar óheilbrigðar megrunaraðferðir en að vera einhverjum nokkrum kílóum í yfirþyngd.“

„Okkar rannsóknir hafa til dæmis sýnt að sérstaklega unglingsstelpur hafa mjög neikvæða líkamsmynd og margar hverjar sem ekki eru í neinni yfirþyngd nota mjög óheilbrigðar aðferðir til þess að viðhalda þyngd. Það er eitthvað sem ég hef til lengri tíma meiri áhyggjur af en ofþyngd. Það getur valdið miklu verra heilsutjóni að stunda alls konar óheilbrigðar megrunaraðferðir en að vera einhverjum nokkrum kílóum í yfirþyngd.“

Megrunarkúrar varasamir

Ársæll bendir enn fremur á að langtímarannsóknir frá Svíþjóð sýni að því oftar sem unglingsstelpur fara í megrunarkúra, þeim mun þyngri verða þær. „Augljóslega eru þungar stelpur meira í megrun. Ef fylgst er með hópi stelpna í langan tíma og byrjað á ákveðnum þyngdarpunkti kemur í ljós að þeim mun oftar sem þær fara í megrun þeim mun meira þyngjast þær,“ útskýrir Ársæll.

Aðspurður hvers vegna líkaminn bregðist þannig við megrunarkúrum segir hann að það hafi með erfðaefni okkar að gera.

„Það er af því að líkami okkar elskar fitu. Fita er frábær leið til að geyma orkuforða og þessi eiginleiki að geta bætt á sig fitu til að eiga fyrir mögru tímabilin hefur þjónað okkur alla þróunarsöguna. Nú er einfaldlega vandamálið að síðustu áratugi hafa ekki verið nein mögur tímabil, þannig að fitan hefur bara safnast á okkur. Þegar maður er að fara í megrunarkúra þá segir maður öllum sínum erfðafræðiforritum stríð á hendur, það auðvitað gengur ekki upp. Líkaminn lækkar bara brennsluhraðann og svo segir hann við þig að gefast upp hreinlega. Auk þess borðar fólk sem stundar megrunarkúra mun verr en þeir sem halda sínu striki. Eins og ég segi, líkaminn elskar fitu, það er fátt sem honum þykir vænna um.“

 

Einkasýning Sögu Sigurðar í Bismút

Ljósmyndarinn Saga Sigurðardóttir opnar málverkasýningu í dag.

 

Allir eru hjartanlega velkomnir á opnun sýningarinnar Breathe In, sem er fyrsta einkasýning Sögu Sigurðardóttur. Saga er fædd 1986 og nam ljósmyndun við University of Arts í London.

Hún er þekktust fyrir ljósmyndir sínar en sýnir nú í fyrsta skipti málverk á einkasýningu í Bismút á Hverfisgötu.

Sýningin verður opnuð í dag, föstudaginn 28. júní, klukkan 17, og stendur til 19. júlí. Aðgangur er ókeypis.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Í stríði við stofnanir og stóriðju

Ragnheiður Þorgrímsdóttir. Mynd/Unnur Magna

Ragnheiður Þorgrímsdóttir, bóndi á Kúludalsá í Hvalfirði, hefur þurft að láta fella nítján hross síðan sumarið 2007 vegna veikinda sem hún telur stafa af flúormengun frá álverinu á Grundartanga. Síðast var hross fellt þann 11. júní síðastliðinn.

 

Ragnheiður höfðaði mál gegn Norðuráli vegna mengunarslyss sem varð í álverinu árið 2006, tapaði því fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á síðasta ári og í síðustu viku staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms og fríaði Norðurál allri ábyrgð. Ragnheiður er þó ekki af baki dottin og segist munu halda áfram að berjast fyrir réttlætinu, hrossin eigi það inni hjá henni.

Ragnheiður er að vonum ósátt við dóm Landsréttar, telur hann byggja á að málsgögnin hafi ekki fengið hlutlæga meðferð.

„Gögnum Norðuráls var gert hærra undir höfði en þeim gögnum sem snerta veikindi hrossanna,“ segir hún. „Öll orðræðan var Norðuráli í hag og röksemdafærslan sérkennileg. Litið var fram hjá orðum dýralæknisins sem bar vitni fyrir Landsrétti og gjörþekkir aðstæður á Kúludalsá. Það er mjög aðfinnsluvert.“

Gerðist eins og hendi væri veifað

Forsaga málsins er sú að vorið 2007 byrjuðu hross á Kúludalsá að veikjast án sýnilegrar ástæðu. Ragnheiður segist hafa byrjað á því að leita orsakanna heimafyrir, en hún hafi ekki verið að gera neitt öðruvísi en áður og skýringanna því ekki að leita þar. Hrossin héldu áfram að veikjast og lyf við hófsperru, sem dýralæknir ávísaði gerðu ekkert gagn.

„ … þetta gerðist bara eins og hendi væri veifað. Allt í einu fóru hrossin að veikjast hvert af öðru.“

„Það höfðu aldrei sést svona veikindi hér áður,“ segir Ragnheiður. „Og þetta gerðist bara eins og hendi væri veifað. Allt í einu fóru hrossin að veikjast hvert af öðru. Sjúkdómseinkenni hrossanna voru að þau urðu stirð í hreyfingum og gátu jafnvel ekki hreyft sig, það kom bjúgur á skrokkinn, á makkann sem varð þykkur, stífur og jafnvel kúptur og á bóg, lend og höfuð. Einkennin virtust hvorki tengjast holdafari né aldri hrossanna. Hófar aflöguðust á sumum hrossanna og einnig varð vart við útbrot á skrokkum nokkurra, auk eyðingar jaxla. Allt bent á einkenni flúoreitrunar. Ekkert þeirra drapst samt úr þessu, en ég þurfti að láta fella þau því maður lætur ekki dýr kveljast til dauða, það segir sig sjálft.“

Frétti af mengunarslysinu fyrir tilviljun

Ragnheiður leitaði til Matvælastofnunar sem sagðist ekki mundu hafa nein afskipti af málinu þar sem greinilega væri ekki um smitsjúkdóm að ræða og málið því ekki á þeirra könnu. Og þar við sat. Hrossin héldu áfram að veikjast og það þurfti að fella fleiri hesta án þess að nokkur skýring fengist á veikindum þeirra. Það var ekki fyrr en Ragnheiður heyrði af svokölluðu slysi sem orðið hafði í álverinu við Grundartanga sumarið 2006 að hún fór að átta sig á samhenginu.

„Svo heyrði ég af tilviljun af mengunarslysi sem hafði orðið í álverinu síðsumars 2006, það hafði ekkert verið sagt frá því,“ segir Ragnheiður. „Það bilaði reykhreinsivirki og búnaðurinn komst ekki í fullt lag fyrr en undir næstu áramót. Enginn veit hversu mikið af flúor fór út í andrúmsloftið í allan þennan tíma því engar mælingar voru gerðar til að meta afleiðingar slyssins.

„Umhverfisstofnun vissi af slysinu en ákvað samt að láta íbúa í firðinum ekki vita.“

Umhverfisstofnun vissi af slysinu en ákvað samt að láta íbúa í firðinum ekki vita. Þetta var kallað „slys“ en var í rauninni varla slys þar sem svo langur tími leið þar til búnaðurinn komst í fullt lag. Á sama tíma var verið að stækka álverið mjög mikið og verulegur flúor hafði mælst í heyi á nærliggjandi bæ fyrr um sumarið sem bendir til að flúormengun hafi verið mikil áður en slysið varð.“

Eftirlitsmaðurinn sagðist ekki hafa vit á hestum

Eftir þessa uppgötvun, vorið 2009, ákvað Ragnheiður að biðja Umhverfisstofnun að gera rannsókn á veikindum hrossanna.

„Reyndar hafði ég fyrst samband við Matvælastofnun sem vísaði málinu til Umhverfisstofnunar þar sem hún gæfi starfsleyfið fyrir álverið. Umhverfisstofnun tók við málinu og svo leið og beið. Það var ekki fyrr en ári seinna sem Umhverfisstofnun sendi hingað mann einn föstudagseftirmiðdag til þess að skoða málið. Hann sat hérna í fjóra klukkutíma við eldhúsborðið og spjallaði við mig og dóttur mína um allt og ekkert. Þegar ég spurði hvort hann vildi ekki sjá hrossin sagðist hann ekki hafa neitt vit á hestum en kom samt með mér og kíkti á þau. Hann vorkenndi hrossunum óskaplega og svo bara fór hann og ég frétti ekkert meira. Loksins heyrði ég af því að hann hefði sent Matvælastofnun fyrirspurn um málið, en enn gerðist ekkert frekar.“

Þrátt fyrir að hafa tapað málinu fyrir Landsrétti er Ragnheiður ekki af baki dottin og segist munu halda áfram að berjast fyrir réttlætinu, hrossin eigi það inni hjá henni. Mynd / Unnur Magna

Það var ekki fyrr en nærri ári síðar, vorið 2011 sem málin fóru á einhverja hreyfingu eftir að Fréttastofa RÚV hafði fjallað um málið.

„Þeir gerðu frétt sem kom í sjónvarpinu og ýtti allhressilega við Umhverfisstofnun þannig að stuttu seinna hafnaði hún rannsókn,“ útskýrir Ragnheiður. „Ég var eðlilega mjög ósátt við þessa höfnun, ekki síst þegar ég komst að því að maðurinn sem Umhverfisstofnun hafði sent hingað hafði ekki einu sinni skrifað skýrslu um heimsóknina. Stofnunin var búin að halda málinu hjá sér í tvö ár án þess að gera nokkurn skapaðan hlut nema senda eina fyrirspurn til Matvælastofnunar sem Sigríður Björnsdóttir sérgreinadýralæknir hrossasjúkdóma svaraði eftir átta mánuði. Á grundvelli svara hennar, sem hún byggði talsvert á minni lýsingu á hrossunum, hafnaði Umhverfisstofnun rannsókn. Þetta eru náttúrlega forkastanleg vinnubrögð, svo ekki sé meira sagt.“

Afar yfirborðsleg skoðun

Þegar hér var komið var árið orðið 2011 og Ragnheiður hafði staðið í þessu stappi í fjögur ár án þess að nokkuð mjakaðist áleiðis. Hún sneri sér því aftur til Matvælastofnunar og fór fram á rannsókn af hennar hálfu og gaf þrjú hross til að rannsaka ítarlega. Eftir langa mæðu sendi stofnunin loks Sigríði Björnsdóttur, dýralækni hrossasjúkdóma, á vettvang. Að sögn Ragnheiðar var skoðun hennar afar yfirborðsleg, hún hafi skoðað tuttugu og eitt hross á klukkutíma, ekki tekið nein sýni og ekki haft meðferðis nein áhöld til að skoða ástand hófa þeirra og tanna. Engu að síður kvað hún upp þann úrskurð að veikindin væru af völdum efnaskiptasjúkdómsins EMS og að hann stafaði af offóðrun og hreyfingarleysi. Birt var skýrsla um málið sem Ragnheiður mótmælti harðlega, en Matvælastofnun tók ekkert mark á mótmælum hennar. Og hún sat uppi með þann stimpil að hún kynni ekki að hugsa um hrossin sín.

„Þessir hestar eru meðal þeirra fimm sem Sigríður Björnsdóttir hjá MAST taldi hættulega feita og líklega til að fá EMS-sjúkdóminn. Enginn þessara fimm hesta hefur veikst enn sem komið er og eru þó liðin nærri átta ár frá heimsókn hennar á bæinn,“ segir Ragnheiður um hestana á myndinni. Aðsend mynd

„Ég er fædd hér og alin upp, hef haldið hross í áratugi og veit alveg hvernig á að fóðra hross,“ segir Ragnheiður með þunga. „Hrossin hafa alltaf verið mitt uppáhald og ég hef alltaf verið innan um þau og ég vissi að þessi niðurstaða dýralæknis Matvælastofnunar átti ekki við nein rök að styðjast.“

Skýrsla sérfræðinga virt að vettugi

Ragnheiður hélt áfram að leita orsaka veikindanna og biðla til opinberra stofnana um rannsókn á flúormengun. Árið 2012 samþykkti þáverandi atvinnuvegaráðherra loks að rannsaka orsakir veikinda hrossanna. Jakob Kristinsson, doktor emeritus í eiturefnafræði við Háskóla Íslands, og Sigurður Sigurðarson fyrrverandi yfirdýralæknir voru sérfræðingarnir sem atvinnuvegaráðuneytið fékk til að meta málið. Þeir skiluðu niðurstöðu rannsókna sinna í júní árið 2016 og sú niðurstaða var afgerandi. Samkvæmt rannsóknum þeirra, sem stóðu yfir í þrjú ár, eru mestar líkur á að síendurtekin veikindi hrossanna á Kúludalsá megi rekja til flúormengunar frá álverinu og nær útilokað er að veikindin megi rekja til rangrar meðhöndlunar Ragnheiðar, eins og dýralæknir Matvælastofnunar hafði haldið fram. Ragnheiður segir þá niðurstöðu hafa verið mikinn létti og henni hafi liðið eins og réttlætið hefði loks náð fram að ganga. Hún óskaði eftir því að Matvælastofnun drægi skýrslu sína um ástæður veikinda hrossanna til baka vegna þessrar niðurstöðu en stofnunin hafnaði því. Ragnheiður greip þá til þess ráðs að kæra Norðurál fyrir brot á starfsleyfissamningi vegna mengunarslyssins en tapaði því máli, eins og áður sagði bæði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti.

Hvernig líður henni eftir þennan nýuppkveðna dóm Landsréttar? Hefur þessi barátta ekki verið hræðilega slítandi?

„Jú, jú, hún hefur verið það,“ segir Ragnheiður hugsi. „Ég hugsa að ég geri mér kannski ekki alveg grein fyrir því sjálf hvernig mér líður. Ég er bara í baráttunni og maður er ekkert að velta því fyrir sér í miðju stríði hvernig manni líður. Maður heldur bara áfram.“

Dómstólar virðast taka ákvörðun fyrir fram

Talandi um að halda áfram, eru einhverjar leiðir færar fyrir Ragnheiði til að ná fram réttlæti? Hvert verður næsta skref?

„Ég veit það ekki,“ segir hún og andvarpar. „Það er jú til eitthvað sem heitir Hæstiréttur. Ég veit ekki hvort hann vill taka þetta mál upp en mér finnst sjálfsagt að reyna það. Vegna þess að mér finnst, eftir að hafa séð dómsorð Landsréttar og þar áður dómsorð Héraðsdóms Reykjavíkur, að þessir dómstólar séu ekkert að dæma í þessu máli. Mér finnst eins og þeir hafi tekið ákvörðun um niðurstöðuna fyrir fram og ég get alveg rökstutt það. Til dæmis með því hvernig þeir nota málsgögnin sem koma frá mér. Þeir nota þau nefnilega ekki og í allri orðræðu þeirra skín í gegn að það sem kemur frá Norðuráli sé áreiðanlegt og hlutlaust. Þeir styðjast við rangar upplýsingar frá lögmanni Norðuráls, meðal annars um að ég hafi neitað að láta fara fram flúormælingar á jörðinni, og nefna það í dómsorðum. Nokkur vitni gáfu vitnisburð frá minni hlið og ég kom sjálf fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, en þegar ég las dómsorðin frá Héraðsdómi var ekki á þeim að sjá að ég hefði verið þarna. Það lítur helst út fyrir að þau hafi ekkert hlustað á mig.

„Mér finnst þetta oft minna á rannsóknarrétt kaþólsku kirkjunnar á miðöldum og valdníðslu hans.“

Núna fyrir Landsrétti kom dýralæknir, sem hefur verið dýralæknir hérna í 37 ár og gjörþekkir aðstæður, fram og lýsti því á mjög afgerandi hátt hvernig heilsa hrossanna hefði breyst eftir mengunarslysið. Hann tók einnig fyrir skýrslu Sigríðar Björnsdóttur sem hann sagði að væri handónýt, það væri ekkert í henni sem gæfi tilefni til þess að halda því fram að hrossin væru með EMS. Enda þarf að greina hvert einasta hross með því að setja það í sykurþolspróf til greina þann sjúkdóm. Það var ekki gert og ég veit reyndar ekki til þess að eitt einasta hross á Íslandi hafi farið í slíkt próf. Samt heldur Sigríður Björnsdóttir því fram að þetta sé útbreiddur sjúkdómur á Íslandi. Mér finnst þetta oft minna á Rannsóknarrétt kaþólsku kirkjunnar á miðöldum og valdníðslu hans.“

Ragnheiður segir að það sem henni finnist eiginlega óhuggulegast í þessu máli sé hversu margir séu tilbúnir til þess að samþykkja það sem Sigríður segir. „Dómarnir hafa svo líka auðvitað áhrif,“ segir hún. „Fólk hefur tilhneigingu til að treysta þeim.“

Kveðjustund. Ragnheiður Þorgrímsdóttir hefur þurft að láta fella nítján hross síðan sumarið 2007 vegna veikinda sem hún telur stafa af flúormengun frá álverinu á Grundartanga. Síðast var hross fellt þann 11. júní, en það var hryssan Óskadís sem sést hér á myndinni með Ragnheiði.

En hefur Ragnheiður aldrei í öllu þessu ferli efast um eigin málstað? Hafa þessar sífelldu hafnanir á málaumleitunum hennar ekki haft nein áhrif á sjálfsmynd hennar?

„Nei, ég held ég hafi bara ágætis sjálfsmynd,“ segir hún. „En ég er ekki óraunsæ samt. Ég veit auðvitað að það getur öllum skjátlast en aftur á móti hef ég þessi hross fyrir framan mig á hverjum einasta degi og hef lesið mér mikið til og ég sé alveg að þetta sem Sigríður heldur fram stenst engan veginn. Hvorki varðandi það hvernig veikindi hrossanna lýsa sér né hvernig aðbúnaður og meðferð þeirra er. Ef mín hross eiga að veikjast vegna þess að þau eru offóðruð eða ekki hreyfð nógu mikið þá ættu langflest hross á Íslandi að vera fárveik, þau búa öll við svipaðar aðstæður og mín og flest þeirra eru mun feitari en mín.

Ég tel að það séu miklir hagsmunir í húfi fyrir marga að þetta mál vinnist ekki fyrir dómstólum. Nú snýst umræðan æ meir um umhverfisvernd og loftslagsmál en álfyrirtækin hafa mikið til fengið að vera í friði með sína mengun. Það eru álver í nágrenni við dýrahald og matvælaframleiðslu á fleiri stöðum á landinu. Það er nokkuð öruggt að Norðurál er búið að eyða meira í málskostnað heldur það sem ég kref fyrirtækið um í bætur fyrir hrossin mín, enda mæta þeir með fleiri en einn lögmann fyrir dóm. Ef ég vinn málið gætu fleiri bændur fylgt á eftir, flúor mælist víða hár í til dæmis sauðfé sem er ræktað til manneldis og er líka talinn hafa slæm áhrif á frjósemi kinda.“

Þurfti að leggja hestanámskeiðin niður

Auk þess að vera tilfinningalega tengd hrossunum hafa veikindi þeirra einnig bitnað á atvinnu Ragnheiðar þar sem hún rak um árabil námskeið fyrir börn þar sem þessir hestar léku lykilhlutverk. Eftir það stóra skarð sem hefur verið höggvið í raðir þeirra hefur hún neyðst til að leggja þá starfsemi niður.

„Þessir hestar sem ég notaði á námskeiðunum eru flestir farnir yfir móðuna miklu,“ segir hún. „Og ég þurfti því að leggja námskeiðin niður. Maður gerir ekki út á dauða hesta. Það er nefnilega töluverður vandi að finna hesta sem maður getur notað fyrir börn sem aldrei hafa kynnst hestum. Þeir verða að vera svo öruggir og lífsreyndir og ef ég ætlaði að fara að kaupa þannig hesta myndi það ekki borga sig fyrir mig, fyrir nú utan það að mér finnst ekki að ég eigi að vera að flytja hesta hingað. Ég get reynt að halda utan um þá sem eru eftir en mér finnst alrangt að flytja hesta inn í þetta umhverfi.“

Þannig að þetta mál hefur höggvið skarð í fjárhaginn líka?

„Ég náttúrlega vann fyrir mér sem kennari í áratugi,“ útskýrir Ragnheiður. „Og þótt eftirlaunin séu ekki há get ég tórt á þeim og svo brá ég á það ráð að stofna ferðaþjónustu eftir að hestarnir fóru að veikjast, til að drýgja tekjurnar og hafa efni á því að halda býlinu við. Það er líka mjög hressandi að kynnast fólki alls staðar að úr heiminum og það hefur hjálpað mér heilmikið. Það er svo gott fyrir sálina að vinna störf þar sem maður er að gleðja aðra og auka lífsgæði fólks. Það gefur mér mikið.“

„Þá urðu þeir vondir“

Ragnheiður heldur úti vefsíðunni namshestar.is þar sem hún hefur farið ítarlega í saumana á málinu alveg frá upphafi og hún segir það líka hafa hjálpað sér heilmikið að geta skrifað sig frá þessu.

„Bara það að koma þessu frá sér léttir á manni,“ útskýrir hún. „Það felst í því ákveðin sálgæsla.“

En hefur Ragnheiður staðið í einhverjum beinum samskiptum við Norðurál vegna málsins?

„Árið 2009, þegar ég tilkynnti Umhverfisstofnun um veikindi hrossanna og bað um rannsókn, sendi ég Norðuráli líka bréf, þar sem þeir hafa alltaf sagt að þeir vilji fá að vita af því ef eitthvað sé að hérna í grenndinni sem hægt væri að tengja þeim. Þeir báðu mig í framhaldi af því að láta sig fá öll gögn um málið til að þeir gætu látið sína sérfræðinga fara yfir þau. Ég svaraði þeim skriflega að svona ynni maður ekki, þeir væru ekki aðilinn sem ætti að fara yfir gögn varðandi mengun frá þeim. Þá urðu þeir vondir og ég var þar með komin út á klakann hjá þeim,“ segir Ragnheiður og skellir upp úr.

„Gögnum Norðuráls var gert hærra undir höfði en þeim gögnum sem snerta veikindi hrossanna,“ segir Ragnheiður. „Öll orðræðan var Norðuráli í hag og röksemdafærslan sérkennileg. Litið var fram hjá orðum dýralæknisins sem bar vitni fyrir Landsrétti og gjörþekkir aðstæður á Kúludalsá. Það er mjög aðfinnsluvert.“

Barátta Ragnheiðar minnir um margt á kvikmyndina Kona fer í stríð, er hún búin að sjá myndina og samsamaði hún sig aðalpersónunni að einhverju leyti?

„Ég veit það nú ekki,“ segir hún og brosir. „En mér fannst allavega mjög gaman að horfa á myndina. Ég er samt ekki jafnstórtæk og hún.“

Segir lögmann Norðuráls hafa blekkt Landsrétt

Ragnheiður hefur staðið í stríði við opinberar stofnanir síðan árið 2009, finnst henni ekki slítandi að tala endalaust fyrir daufum eyrum?

„Ég held það sé nú ekki hægt að tala um dauf eyru, því þeir vita örugglega alveg upp á sig skömmina,“ segir hún ákveðin. „Ég er ekki í nokkrum einasta vafa um það að menn vita að það er eitthvað að hérna sem ekki er hægt að skýra með mínum klaufaskap eða EMS-sjúkdómi. Þeir ætla bara ekki að taka undir það, vilja ekki sjá það. Það gefur mér kraft til að halda áfram að ég veit að þetta er vegna mengunar. Það kom greinilega fram í niðurstöðum sérfræðinga atvinnuvegaráðuneytisins að flúormengun sé líkleg orsök veikinda hrossanna enda mælist fjórfalt flúormagn í beinsýnum hrossanna hér miðað við hross á ómenguðum svæðum. Og þó hrossin hafi verið á aldrinum 8 til 26 vetra þegar þau voru felld, er flúormagnið svipað í þeim öllum, sem merkir að þau urðu fyrir flúorálagi á sama tíma.

„Ég hef sjálf látið mæla flúor í grasi og heyi og þær tölur eru til og hægt að nýta þær.“

Jakob og Sigurður eru auðvitað traustir vísindamenn sem forðast upphrópanir en þeir sögðu að það þyrfti frekari rannsóknir, sem eðlilegt er. Eftir að skýrsla þeirra kom út vildi Umhverfisstofnun bæta Kúludalsá inn á vöktunarplan vegna álversins, en þeir gera aldrei neitt með þær niðurstöður sem koma út úr vöktuninni, þannig að ég sá ekki ástæðu til þess að fara á byrjunarreit gagnvart stofnuninni, heldur vildi ég að hún héldi áfram þar sem rannsókn atvinnuvegaráðuneytisins hætti. Ég hef sjálf látið mæla flúor í grasi og heyi og þær tölur eru til og hægt að nýta þær. Í fundargerð sem gerð var um þennan fund stóð hins vegar að ég hefði neitað Umhverfisstofnun um mælingar á bænum. Ég skrifaði þeim strax og bað þá vinsamlegast að segja satt, ég hefði ekki neitað þeim, heldur sagt að ég vildi að þeir héldu fyrrnefndri rannsókn áfram. Umhverfisstofnun tók þessa beiðni til greina. Lögmanni Norðuráls fannst samt bitastætt að taka þessa klausu úr samhengi og leggja hana fyrir Landsrétt og margendurtók þetta atriði. Þannig að ég stend við það að þarna hafi ekki verið heiðarlegur málflutningur heldur reynt að láta minn málstað líta illa út. Þeir hafa ekki neitt á mig og fara þessa lúalegu leið til að finna einhvern höggstað á mér.“

Ragnheiður segist vera ósátt við dóm Landsréttar, telur hann byggja á að málsgögnin hafi ekki fengið hlutlæga meðferð og nefnir annað dæmi. „Í starfsleyfi Norðuráls frá 2003 stendur skýrum stöfum að hreinsibúnaður eigi alltaf að vera í gangi, en í mengunarslysinu lá búnaðurinn niðri í einu hreinsivirkinu í allt að einn og hálfan sólarhring. Þetta er mjög sérkennileg niðurstaða hjá Landsrétti.“

Álverið á Grundartanga. „Svo heyrði ég af tilviljun af mengunarslysi sem hafði orðið í álverinu síðsumars 2006, það hafði ekkert verið sagt frá því,“ segir Ragnheiður. „Það bilaði reykhreinsivirki og búnaðurinn komst ekki í fullt lag fyrr en undir næstu áramót. … Þetta var kallað „slys“ en var í rauninni varla slys þar sem svo langur tími leið þar til búnaðurinn komst í fullt lag.“

Þessi barátta hefur væntanlega litað allt líf Ragnheiðar síðustu árin, er hún ekkert nálægt því að gefast upp?

„Ég hef sem betur fer alltaf getað hlegið og tekið þátt í einhverju skemmtilegu,“ segir hún. „Ég læt þetta ekki draga mig niður í svartnætti, alls ekki. Það sem kannski hefur verið erfiðast er að upplifa að sumir kunningjar, fólk sem þekkir mig, virðist trúa því sem stofnanirnar halda fram, að þetta sé mér að kenna. Það hef ég tekið nærri mér. En þú skalt ekki voga þér að reyna að láta mig líta út eins og eitthvert fórnarlamb í þessu viðtali. Ég er ekki fórnarlamb, ég er baráttukona og ég mun halda áfram að berjast.

„Náttúran og dýrin eru undirstaða búsetu í þessu landi og ég mun halda áfram að taka slaginn fyrir þeirra hönd, svo lengi sem á þarf að halda.“

Álverið hefur haft gríðarlegt olnbogarými hér, á kostnað umhverfisins alls. Ég vil að það verði hægt að stunda búskap á þessu svæði í framtíðinni. Náttúran og dýrin eru undirstaða búsetu í þessu landi og ég mun halda áfram að taka slaginn fyrir þeirra hönd, svo lengi sem á þarf að halda.“

Myndir / Unnur Magna og aðsendar myndir
Myndband / Hallur Karlsson, Hákon Davíð Björnsson og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Öryggi lykillinn að vellíðan flóttafólks

Mynd / Bára Huld Beck

Útlendingastofnun hefur nú leitað á náðir sveitarfélaganna og biðlað til þeirra að gerður verði þjónustusamningur við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Einungis þrjú sveitarfélög á landinu hafa gert slíka samninga.

 

Útlendingastofnun sendi bréf um miðjan mars síðastliðinn til allra sveitarfélaga á landinu til að kanna áhuga þeirra á að gera samning við stofnunina um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sambærilega við þá sem stofnunin hefur nú þegar gert við Reykjavíkurborg, Reykjanesbæ og Hafnarfjarðarbæ.

Samkvæmt Útlendingastofnun taldi ekkert þeirra sveitarfélaga, sem svarað hefur erindinu, sig að svo stöddu í stakk búið til að bætast í hóp sveitarfélaga sem veita umsækjendum um vernd þjónustu en mörg þeirra hafi þó lýst yfir jákvæðri afstöðu til verkefnisins.

Auk Reykjanesbæjar hefur Reykjavíkurborg boðist til að kynna reynslu sína af verkefninu fyrir öðrum sveitarfélögum. Útlendingastofnun hyggst ræða það við dómsmálaráðuneytið hvernig best megi standa að slíkri kynningu fyrir önnur sveitarfélög en ekki er komin tímasetning á hana.

Ísabella Ósk Másdóttir, sérfræðingur á kynningarsviði Rauða krossins, segir að mikilvægast sé að þjónusta við umsækjendur um vernd sé sambærileg óháð því hver veitir hana og því skipti í raun ekki máli í hvaða sveitarfélagi fólk býr. Mismunur í þjónustustigi sé alltaf áskorun líkt og er núna þar sem þjónusta sveitarfélaganna er á mun breiðari grunni en þjónustan sem Útlendingastofnun veitir.

„Það hafa verið gerðar kannanir hjá Rauða krossinum sem gefa vísbendingar um að staðsetning geti haft áhrif á líðan fólks á meðan á málsmeðferð stendur. Það sem er lykilatriði þar, er aðgengið að þjónustu, þ.e. ef aðgengið er skert þá upplifir fólk staðsetningu mögulega sem einangrun og það hefur neikvæð áhrif á líðan og öryggistilfinningu,“ segir Ísabella. En ef þjónustan er góð þá líði fólki eins vel og hægt er miðað við aðstæður. Þau hjá Rauða krossinum sjái til að mynda að fólk sem býr hjá félags- og fjölskylduþjónustu Reykjanesbæjar kvarti ekki undan staðsetningu þar sem öll sú þjónusta sem þau þurfa sé í nærumhverfinu.

Hægt er að lesa fréttaskýringuna í fullri lengd á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Í skýjunum með góðar viðtökur

Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda Hamborgafabrikkunnar segist vera himinlifandi með þær góðu viðtökur sem Stefán Karl – Síðasta kvöldmáltíðin hefur hlotið en um er að ræða nýjung á matseðli sem á sér fallega sögu.

 

„Honum hefur verið tekið gríðarlega vel,“ segir hann. „Enda rosalega góður borgari á ferð, í raun fyrsti almennilega djúpsteikti kjúklingaborgarinn sem við erum með á matseðli. En það sem gerir hann svona sérstaklega góðan er að við notum lærakjöt, sem er bæði feitt og safaríkt, og setjum það svo í nachos- rasp.“

Að sögn Jóhannesar á þessi vel heppnaða nýjung á matseðli sér fallega sögu því borgarinn er samstarfsverkefni sem Hamborgarafabrikkan og Stefán Karl Stefánsson heitinn fóru af stað með. „Forsagan er sú að Stefán stofnaði snjallbýli, Sprettu ehf. fyrir svolitlu síðan. Merkilegt fyrirtæki sem ræktar svokallaðar sprettur sem eru litlar mat- og kryddjurtir sem verða ekki stórar eins og þessar jurtir sem þú sérð í búðum og eru fyrir vikið bragðmiklar og fullar af næringarefnum. Það var útgangspunkturinn í samstarfinu. Stefán langaði að vekja athygli á þessu með því að velja með okkur góðar sprettur á nýjan borgara á Fabrikkunni.“

„ … það sem gerir hann svona sérstaklega góðan er að við notum lærakjöt, sem er bæði feitt og safaríkt, og setjum það svo í nachos-rasp.“

Jóhannes segir að verkefnið hafi hins vegar lagst í dvala þegar í ljós kom að Stefán glímdi við alvarleg veikindi. „Ári eftir að Stefán féll frá hafði Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ekkja hans, samband. Henni fannst kominn tími til að klára verkefnið.“

Kokkateymi veitingastaðarins, undir stjórn Eyþórs Rúnarssonar, hófst því handa með þeim Steinunni Ólínu og Soffíu Steingrímsdóttur hjá Sprettu við að þróa borgarann. Fyrir valinu urðu pikklaðir gulrótarstrimlar og svo tvennskonar sprettur: Klifurbaunagras, sem Jóhannes segir að sé villt spretta sem minni í útliti á hárið á Alberti Einstein og Red Rambo, bragðmikil spretta sem hafi verið í sérstöku uppáhaldi hjá Stefáni, en hún er notuð í botninn á borgaranum og út í majónesið sem útskýrir bleikan lit þess. „Steinunn Ólína bætti svo við uppskrift að döðlu- og lauk-chutney og Eyþór „tvíkaði“ hana aðeins til. Herlegheitin eru síðan borin fram með stökkum frönskum og nýrri tegund af brauði. Útkoman er einn mest seldi borgarinn okkar frá upphafi.“

Stefán Karl – Síðasta kvöldmáltíðin.

Borgarinn ber heitið Stefán Karl – Síðasta kvöldmáltíðin en Jóhannes segir hugmyndina vera frá Stefáni Karli sjálfum komin. „Hann stakk upp á því við okkur. Hann var svo æðrulaus gagnvart dauðanum. Grínaðist með hann alveg fram á síðustu stundu og missti aldrei húmorinn. Okkur finnst því við hæfi að halda heitinu, það er í hans anda.“

Nóg að gera

Hamborgarafabrikkan hefur verið lunkin við að koma með sniðug heiti á rétti sína. Er von á fleiri slíkum á næstunni? „Klárlega. Þetta er eitthvað sem við reynum að gera tvisvar til fjórum sinnum á ári, búa til skemmtilegar tengingar við dægurhetjur og fólk sem Íslendingum þykir vænt um,“ svarar Jóhannes hress í bragði. „Það er þegar kominn langur listi af góðum hugmyndum en ekki búið að negla neitt niður.“

Spurður hvort fleira standi til segir hann að það sé búið að vera í nógu að snúast í sumar. „Það hefur verið líflegt á útisvæði Fabrikkunar við Kringluna, vægast sagt, stappað nánast alla daga, sérstaklega þegar sést til sólar og svo auðvitað hina dagana líka, enda skjólsælt svæði.  Annars er bara bjart fram undan.“

Stúdió Birtíngur
Í samstarfi við Hamborgarafabrikkuna

 

Flottar og vel snyrtar neglur í sumar

Gott er að gefa sér tíma í góða handsnyrtingu endrum og sinnum. Fallega lakkaðar neglur gefa heildarútlitinu mun fágaðra yfirbragð – þær eru punkturinn yfir i-ið.

 

Handsnyrting – Skref fyrir skref  

  1. Byrjaðu á að strjúka yfir neglurnar með asentoni – bæði til að fjarlægja gamalt naglalakk og líka alla olíu á nöglunum, þannig helst naglalakkið lengur fallegt.
  2. Notaðu þjöl á neglurnar til að fá það form sem þér þykir fallegast en gættu þess þjala bara í eina átt til að koma í veg fyrir sprungur.
  3. Næst skaltu leggja neglurnar í bleyti í nokkrar mínútur í volgt sápuvatn til að mýkja naglaböndin. Berðu svo þartilgerða olíu eða á krem á naglaböndin til að mýkja þau enn frekar, nuddaðu vel og notaðu svo naglapinna til að þrýsta þeim niður. Varastu að rífa eða klippa naglaböndin því þau vernda gegn sýkingum.
  4. Gott er að lífga upp á húðina og fjarlægja dauðar húðfrumur með skrúbbi og skola af. Berðu síðan handáburð á hendurnar og leyfðu honum að smjúga inn í nokkrar mínútur. Með því að bera handáburðinn á áður má komast hjá því að naglalakkið klessist. Þurrkaðu neglurnar með rökum klút til að fjarlægja leifar af kremi.
  5. Þá er komið að því að lakka neglurnar. Byrjaðu á undirlakki, gott er að velja til dæmis styrkjandi lakk, og leyfðu því að þorna í eina mínútu. Síðan er komið að lit að þínu vali. Lakkaðu að minnsta kosti tvær umferðir af litaða lakkinu; byrjaðu í miðjunni, strjúktu fyrst upp og svo frá miðju til hliðanna. Leyfðu lakkinu að þorna í tvær mínútur á milli umferða. Að lokum er nauðsynlegt að nota yfirlakk. Þá helst handsnyrtingin falleg og glansandi lengur. Hægt er að fá yfirlökk sem þorna sérstaklega hratt. Gott ráð er að strjúka yfirlakkinu einnig þvert yfir brúnina á nöglunum til að koma í veg fyrir að lakkið brotni upp.
  6. Að lokum er sniðugt að dýfa eyrnapinna eða mjóum bursta í naglalakkseyði og fjarlægja öll þau mistök sem gætu hafa orðið.

Myndir / Unsplash
Texti / Hildur Friðriksdóttir

Þora þingmenn?

Höfundur / Ólafur Stephensen

Virðing Alþingis hefur sjaldan verið minni en á undanförnum mánuðum. Botninum var náð þegar popúlískur smáflokkur hélt þinginu í gíslingu vikum saman með lengsta málþófi þingsögunnar. Þegar við bættist að drjúgur hluti þeirra sem þannig fóru með tíma þingsins hafði skömmu áður orðið sér og vinnustaðnum ærlega til skammar með fylliríisröfli, rembu og fordómum má segja að höfuðið hafi verið bitið af skömminni.

 

Vit á mínútu: Lítið

Orkupakkaumræðan var 138 klukkustundir. Það eru 18,4 vinnudagar venjulegs launamanns. Tæpar fjórar vinnuvikur. Á sínum tíma ræddu þingmenn EES-samninginn allan í 102 klukkutíma áður en hann var leiddur í lög.

Höfundur þessarar greinar lagði það einu sinnig á sig að lesa alla EES-umræðuna í Alþingistíðindum vegna bókarskrifa. Hefði mátt komast af með minna? Alveg örugglega. Á austurríska þinginu var sami samningur ræddur í átta klukkustundir. Í sænska þinginu var umræðan 14 og hálfur tími. Finnskir þingmenn létu sér duga tvo daga til að ræða samninginn, norskir þrjá. Var meira vit á mínútu í þeim umræðum? Ekki nokkur einasti vafi.

Myndum við hafa þau í vinnu?

Það væri ofmælt að segja að orkupakkaumræðan hafi verið innihaldslaus. En innihaldinu hefði mátt koma til skila á tveimur dögum eða þremur í lengsta lagi. Enda voru Miðflokksmenn ekki í málþófinu til að varpa ljósi á eitt eða neitt, heldur til að hindra að sá meirihluti, sem augljóslega er fyrir málinu á Alþingi, fengi sitt fram.

Alþingi er vinnustaður, þar sem allir fá borgað úr vasa skattgreiðenda. Á öðrum vinnustöðum þarf líka oft að ræða málin áður en ákvarðanir eru teknar. Það er óhætt að fullyrða að starfsmenn venjulegra vinnustaða, sem temdu sér annað eins gauf og málalengingar og þvældust með sama hætti fyrir samstarfsmönnum sínum yrðu reknir hratt og örugglega. Kannski er ástæða fyrir því að þingmönnum gengur oft illa að finna vinnu sem þeir telja við hæfi eftir að þingferli þeirra lýkur.

Af hverju sagði enginn stopp?

Alþingi hefur sérstöðu á meðal þjóðþinga að því leyti hvað litlar takmarkanir eru á því hversu oft menn geta kvatt sér hljóðs og hve lengi hægt er að teygja umræður. Í flestum siðuðum ríkjum er málþóf á borð við það sem Miðflokkurinn stundaði í vor bara ekki í boði. Engu að síður er það nú svo að í þingskaparlögum eru ákvæði um að bæði þingforseti og níu þingmenn saman geti lagt til að umræðu skuli lokið. Atkvæði um slíkar tillögur skulu greidd umræðulaust og ræður einfaldur meirihluti því hvort þær eru samþykktar.

Nú var löngu orðið ljóst að allir voru orðnir hundleiðir á málþófi Miðflokksins um orkupakkann, meira að segja hinir stjórnarandstöðuflokkarnir. Af hverju var engin tillaga borin fram um að ljúka umræðunni? Ef ekki í lengsta málþófi sögunnar, hvenær þá?

Svarið er einfalt. Þingmenn þora ekki að skapa slíkt fordæmi af því að þeir vilja ekki hafa af sjálfum sér möguleikann á að beita orðbeldinu (svo fengið sé að láni ágætt nýyrði frá Guðmundi Andra Thorssyni) til að halda löggjafarsamkundunni í gíslingu einhvern tímann í framtíðinni. Reyndar má líka halda því fram að það hefði þótt til marks um hræsni að Steingrímur J. Sigfússon bæri fram slíka tillögu, miðað við sögulega frammistöðu hans í málþófi á árum áður. Blikna þó málalengingar Steingríms og Hjörleifs fóstra hans Guttormssonar í nýjasta samanburðinum.

Atvinnutvískinnungurinn

Hér erum við komin að ákveðnum kjarna málsins; minnisleysinu eða tvískinnungnum sem virðist atvinnusjúkdómur á Alþingi. Stjórnarþingmenn og ráðherrar láta gjarnan stór orð falla um ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar og stjórnarandstaðan um það hvernig stjórnarmeirihlutinn geti komizt upp með hvað sem er og misnoti vald sitt. Um leið og hlutverkin hafa snúizt við er allt gleymt og hvorir um sig taka upp nákvæmlega sömu hætti og þeir gagnrýndu jafnvel bara nokkrum vikum áður.

Eitt eftirminnilegasta dæmið um þetta er þegar úrskurðarnefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu 2011 að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefði brotið jafnréttislög með mannaráðningu. Sjö árum fyrr hafði sama kærunefnd komizt að sömu niðurstöðu í sambærilegu máli, þar sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hafði stigið í spínatið. Þá taldi Jóhanna sjálfsagt og eðlilegt að ráðherra segði af sér, en henni þóttu slíkar kröfur fráleitar þegar hún sat sjálf í súpunni. Sambærileg dæmi eru því miður fleiri en komið verður tölu á.

Skilvirkari vinnubrögð

Ein leiðin til að endurreisa virðingu Alþingis er að alþingismenn láti af þessum dæmalausa tvískinnungi og fari að taka mark á sjálfum sér, jafnvel þótt þeir skipti um hlutverk á þinginu.

Önnur er að bæta vinnubrögðin á þinginu, meðal annars með því að setja skýrar reglur um takmörkun ræðutíma, hversu oft þingmenn geta kvatt sér hljóðs og fjölda andsvara. Þannig væri hægt að gera umræður í þinginu miklu vandaðri, markvissari og skilvirkari. Málþófið ætti að gera útlægt.

Í þriðja lagi þarf að bæta vinnubrögð stjórnarráðsins þannig að stjórnarfrumvörp skili sér tímanlega til þingsins.

Þetta myndi skila því að þingið gæti fjallað jafnt og þétt og skipulega um mál og rætt þau efnislega, í stað þess að fáein mál séu rædd dögum saman og svo séu jafnvel stór og mikilvæg mál afgreidd í kippu, með hraði og á öllum tímum sólarhrings við þinglok án mikillar umræðu eða nauðsynlegrar vinnu í nefndum. Síðarnefndu vinnubrögðin, sem enn eru ástunduð þrátt fyrir ótal heitstrengingar um annað, auka hættu á alls konar mistökum við lagasmíðina. Með þessum breytingum yrði Alþingi skilvirkari vinnustaður og við bærum öll meiri virðingu fyrir stofnuninni og fólkinu sem við höfum þar í vinnu.

Fá lýðskrumarar frítt spil?

Breytingar af þessu tagi eru þeim mun mikilvægari sem hér eru komnir fram á sjónarsviðið lýðskrumsflokkar að evrópskri fyrirmynd. Sagan sýnir að þeir hika ekki við að misnota leikreglur lýðræðisins og nýta sér veikleika í regluverkinu. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir að sjálfsvirðing eða sómakennd sjái til þess að þeir virði óskrifaðar reglur – ramminn verður að vera skriflegur og skýr og úrræði til staðar ef frá honum er vikið. Sá yfirgnæfandi meirihluti Alþingis, sem hafði ímugust á því hvernig málfrelsið var misnotað á þinginu í vor, verður að þora að gera breytingar til að endurreisa virðingu þingsins.

Atvinnuleysi tvöfaldaðist milli ára

Mynd: Rikisendurskodun.is

Sam­kvæmt árstíðaleiðrétt­ingu Hag­stofu Íslands var atvinnuleysi í maí 4,7%. Það eru um 10 þúsund manns. Atvinnuþáttaka var þá 81,1% sem er 1,3% lægra en í apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu Hagstofunnar.

„Samkvæmt óleiðréttum mælingum voru að jafnaði 210.200 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í maí 2019,” segir í tilkynningunni. „Af vinnuaflinu reyndust 197.500 vera starfandi og 12.700 án vinnu og í atvinnuleit.” Hlutfall starfandi var því 77,4% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 6,1%.

At­vinnu­laus­ir í maí 2018 voru um 6.200 manns eða 3% af vinnuaflinu. Það er tvöföldun á milli ára. Alls voru 44.900 utan vinnu­markaðar í maí 2019 en höfðu verið 42.700 í maí 2018.

Skiptir viðurinn og stærðin máli?

Fróðleikur um mismunandi víntunnur og áhrif þeirra á vínið sjálft.

 

Það var fyrst hjá Gaulverjum sem viðartunnan leit dagsins ljós fyrir rúmlega 2000 árum, þá var hún aðallega notuð fyrir mjöð eða öl. Rómverjar, Grikkir og allir sem höfðu þurft að flytja vín á milli staða áður notuðu leirílát, „amfórur“ sem eru að komast aftur í tísku. Tunnugerð hefur verið mjög öflug alla tíð síðan og þessi 2000 ára saga tunnunnar hefur sett sitt mark á nútímavíngerð. Líklega hafa margar mismunandi tegundir af víði verið notaðar og einnig hafa stærðirnar á tunnunum verið mismunandi eftir því hvar þær voru framleiddar enda hafa þær fengið mörg nöfn alla vega í Frakklandi þaðan sem tunnunotkunin er upprunnin.

Viðurinn

Í dag er nánast eingöngu notuð eik í tunnugerð en það hefur ekki alltaf verið tilfellið, allar tegundir sem voru við höndina voru notaðar. Í seinni heimsstyrjöldinni var til dæmis notaður hlynur eða akasíuvíður í Suður-Frakklandi, aðalástaðan fyrir því var sá að norðurhluti landsins var undir hæl Þjóðverja og ómögulegt að ná í eik. Árangurinn var reyndar slakur en ekki hægt að gera annað á þessum tímum.

Í dag er nánast eingöngu notuð eik í tunnugerð.

Á Ítalíu hefur villikirsuberjaviður verið notaður eins og í balsamedik en þó sjaldan. Eikin getur verið frá Frakklandi eða Bandaríkjunum og er munur þar á milli. Franska eikin kemur frá skógum í eign franska ríkisins því hún verður að vera fullþroska þegar hún er notuð en eik getur orðið 250-300 ára gömul og þar þarf að huga að endurnýjun með frekar löngu fyrirvara. Hún er þéttari en ameríska eikin og gefur af sér ristaða bragðtóna í vínið.

Amerísk eik er lausari í sér, með lausari trefjar og gefur meira af sætum vanillu- og kókóstónum. Tunnan er brennd að innan, mismikið en algengast er „medium +“ óalgengt er að óbrennd tunna sé notuð nema með sérmeðhöndlun (t.d. látin liggja í vatni) til að forðast hörðu tannínin.

Stærðin

Allar stærðir eru notaðar, allt eftir því hvað víngerðarmaðurinn velur, hvort hann kýs að hafa mikinn eða lítinn eikarkeim af víninu en það er ekki bara bragðið heldur samsetningu á þrúgunum eða frá hvaða ekrum þrúgurnar koma. Í aldanna rás hafa sum héruð og sérstaklega í Frakklandi, fest sig í ákveðnar stærðir sem allar bera ákveðið nafn.

Algengastar eru þó „barrique bordelaise“ frá Bordeaux sem er 225 lítrar, og „barrique bourguignonne“ sem er 228 lítrar. Önnur nöfn sem heyrast enn mjög víða eru „pièce“ (140-420 l ), „botte/botta“ (450-500 l), „feuillette“ (114-120 l), „muid“ (13-600 l – aðallega í Norður-Frakklandi. Portvínstunnan er kölluð „pipe“ og er 522 l, svo eru tunnurnar sem notaðar eru undir sérrí 600 l. Loks er „foudre“, 1000 l eða meira, sem eru fastir á sínum stað og eru notaðir eins og stál- eða sementstankarnir til að gerja vínið í eða geyma.

Myndir / Unsplash

 

Fjölgun á skráðum kynferðisbrotum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Mikil fjölgun var á skráðum kynferðisafbrotum í maí síðast liðinn. Það má einna helst rekja til aðgerða lögreglunnar í vændismálum. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir maí 2019.

 

Undanfarnar vikur hefur lögreglan verið í sérstökum aðgerðum tengt mansali en vændi er ein af birtingarmyndum þess. Þetta er einn af þeim þáttum í skipulagðri brotastarfsemi sem lögreglan leggur mikla áherslu á.

Mikil fækkun var á skráðum fíkniefnabrotum. Það sem af er ári hafa verið skráð um 10% færri fíkniefnabrot en voru skráð að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár á undan.  Það hafa ekki verið skráð jafn fá fíkniefnabrot síðan apríl 2016. Heilt yfir fækkaði tilkynningum um þjófnað á milli mánaða en tilkynningum um þjófnað á reiðhjólum fjölgaði nokkuð á milli mánaða.

Fjöldi skráðra hegningarlagabrota voru 717 á höfuðborgarsvæðinu í maí. Hann hefur haldist nokkuð stöðugur síðustu þrjá mánuði.

Heitar teskeiðar og laukur í baráttunni gegn lúsmýi

Einn af fáum leiðum fylgikvillum sumarsins eru flugna- og skordýrabitin. Nú þegar ásókn lúsmýs eykst stöðugt hér á landi er vert að kynna sér helstu lausnir til varnar óþægindum.

 

Örfá ár eru síðan fyrsta lúsmýið fannst í Hvalfirði en nú hefur það gert vart við sig á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Sumarbústaðafólk hefur þurft að yfirgefa bústaði sína víða á Suðurlandi vegna ónæðis frá mýinu en stungur þess geta valdið svæsnum ofnæmisviðbrögðum. Til eru dæmi um fólk sem hefur selt sumarbústaði sína vegna faraldursins svo ljóst er að smádýrin valda miklum usla.

Lúsmýið er rúmur millimetri að stærð og sést vart með berum augum en líkist helst frjókornum sem virðast fjúka um loftið en stekkur á menn og dýr, nærist á blóði og skilur svo eftir sig ljót sár. Mýið bítur jafnt utan- sem innandyra og smýgur inn í fatnað sem og í hársvörð svo erfitt er að verjast bitum. Húðin verður rauð, bólgin og hnúðakennd en mikill kláði fylgir í kjölfarið. Að öðru leyti ættu bitsár ekki að valda óþægindum nema viðkomandi hafi ofnæmi fyrir skordýrabiti.

Lúsmýið er rúmur millimetri að stærð og sést vart með berum augum.

Hægt er að taka ólyfseðilsskyld ofnæmislyf við óþægindunum en jafnframt er gott að bera sterakrem á sárin. Vifta í svefnherbergi fælir mýið frá en tvennum sögum fer af því hvort flugnafæla beri árangur á þessa tegund bitdýrs. Ótal húsráð er að finna til að varast pláguna, meðal annars að skera lauk í sneiðar og raða upp í gluggasyllur, tea tree-olía á jafnframt að vera árangursrík ásamt B-vítamíni sem raðað er í kringum rúmið, after bit-pennar og flugnasprey standa jafnframt fyrir sínu en sjóðandi heit teskeið sett á sárið á líka að hjálpa.

Fyrst eftir bit er best að láta sárið í friði og til að draga úr bólgumyndun er gott að kæla með ísmolum í þvottastykki. Hægt er að draga úr kláða með staðdeyfandi kremi. Sé viðkomandi bitinn í munn eða kok getur slímhúð bólgnað og stíflað öndunarveg. Ef útbrot og bólga eykst í stað þess að hjaðna skal alltaf leita læknis.

Flestir verða fyrir skordýrabiti að nóttu til og þegar vafi leikur á um hvers kyns bit sé að ræða er gott að athuga hvort fleiri bit finnist víðar á líkamanum. Flær stinga sem dæmi nokkur bit í senn og þá er hægt að finna bit vítt og breitt um líkamann. Eins er algengt að vera bitinn af hópi mýflugna þegar sofið er við opinn glugga. Besta vörn gegn skordýrabiti er að vera vel klæddur. Síðar ermar, buxur og skór geta komið í veg fyrir bit.

Sítrónur geta kælt og dregið úr kláða.
  • Hunangsflugur, geitungar, flær og mý eru algengust skordýra á Íslandi en sífellt fleiri bætast í hópinn ár hvert.
  • Best er að fjarlægjast býflugur- eða geitunga með því að ganga hægt í burtu. Varist að slá til flugna því þannig eykst hættan á að þær bregðist við með árás.
  • Moskítóflugur finnast alls staðar í veröldinni, mest þar sem hiti og raki er mikill og allra mest í fenjum og mýrum.
  • Nuddið ferskri sítrónu eða eplaediki á stungusvæðið, það kælir, sótthreinsar og slær á kláða.
  • Smyrjið tannkremi á sárið og látið þorna í um það bil hálftíma.

Þingkona Sjálfstæðisflokksins æst í að einkavæða Íslandspóst: „Þó fyrr hefði verið“

Mynd: Althingi.is

„Mikið er ég sammála og þó fyrr hefði verið segi ég nú bara,” skrifar Bryndís Haraldsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, á Facebook. Hún tekur hér undir Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, sem vill selja Íslandspóst sem fyrst. 

„Ég skil ekki af hverju ríkið á flutningafyrirtæki,” skrifar Bryndís og bætir við: „En það er það sem Íslandspóstur raunverulega er.” Alþingi veitti félaginu lán í september 2018 til að bregðast við greiðsluvanda. Alls 500 milljónir króna á 6,2% vöxtum til eins árs. Uppsafnað tap Íslandspóst milli 2013-2018 er 246 milljónir króna samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðanda á rekstri Íslandspósts ohf. 

„Ég átta mig á því að það er ekki virk samkeppni í öllum þeim þjónustuþáttum sem Íslandspóstur veitir og auðvitað þurfum við að tryggja dreifingu um land allt.” skrifar Bryndís. Fjárhagsvandi Íslandspósts ohf. stafar meðal annars af því að dreifing pakkasendinga frá útlöndum hefur reynst félaginu kostnaðarsöm. Þá hefur samdráttur í bréfsendingum ekki fengist að fullu bættur með hækkun á gjaldskrá. Heildarfjárfestingar félagsins á árinu 2018 voru of miklar miðað við greiðslugetu þess.

„Það er hægt að gera með útboði þar sem einkaaðilar geta leitað hagkvæmustu og bestu leiðanna til að veita góða þjónustu á þess sviði,” bætir Bryndís við að lokum.

Bjarni vill selja Íslandspóst sem fyrst

„Þegar búið er að koma lagaumgjörð um þessa starfsemi í betra horf, eins og við höfum verið að gera núna, þá sé ekkert því til fyrirstöðu að ríkið selji þennan rekstur,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, m.a. í viðtali við Fréttablaðið. „Hins vegar held ég að það hafi ekki verið aðstæður til þess undanfarin misseri eða ár að hefja undirbúning að slíkri sölu vegna þess hvernig reksturinn hefur gengið.”

„Okkur er það ljóst núna að til dæmis alþjónustukvöðin sem hvílt hefur á fyrirtækinu hefur ekki verið nógu vel fjármögnuð sem birtist meðal annars í nýlegum úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunar,“ sagði Bjarni. Ríkisendurskoðandi telur að félagið megi ganga lengra í hagræðingu í starfsemi sinni. Þá megi sameina betur dreifikerfi bréfa og pakka í þéttbýli í stað þess að reka þar tvöfalt dreifikerfi

Aðstoðarkona Bjarna sat í stjórn Íslandspósts

Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, sat í stjórn Íslandspósts frá 2014 þar til nú í vor og var lengst af varaformaður stjórnar. Þrátt fyrir það kemur fram í skýrslu ríkisendurskoðunar að fjármálaráðuneytið hafi ítrekað kallað eftir greiningum og upplýsingum um málefni Íslandspósts án þess að greiningarvinnan skilaði sér til ráðuneytisins.

Stjórnendur Íslandspóst tregir til að veita Ríkisendurskoðun svör

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, bendir á í grein sem hún birti í Morgunblaðinu á dögunum að stjórn Íslandspósts hafi dregið að veita Ríkisendurskoðun svör við fyrirspurnum og beinlínis óskað eftir því að Ríkisendurskoðun haldi upplýsingum frá Alþingi.

„Skýrsla rík­is­end­ur­skoðunar er væg­ast sagt svört og því má velta fyr­ir sér hvort fé­lagið sé heppi­legt til samn­inga­gerðar við ríkið,“ skrifar Helga Vala. „Öllum var kunn­ugt um bága fjár­hags­stöðu fé­lags­ins enda hafði Alþingi samþykkt að lána hinu ógreiðslu­færa op­in­bera hluta­fé­lagi 1.500 millj­ón­ir króna á fjár­lög­um þessa árs til að fé­lagið gæti sinnt sinni grunn­skyldu, að koma bréf­um og böggl­um milli húsa.

Alþingi var hins veg­ar ekki kunn­ugt um hvernig á því stóð að fé­lagið stóð svona illa né var það upp­lýst um hver aðdrag­andi þess var utan ein­staka skýr­ing­ar stjórn­enda. Þá var einnig óljóst hver bar ábyrgð, hvað stjórn fé­lags­ins vissi um ástandið og hvað ráðuneyt­in tvö sem með mál­efni fé­lags­ins fara, fjár­málaráðuneytið og sam­gönguráðuneytið vissu um stöðu fé­lags­ins,“ skrifaði hún meðal annars.

Smáforrit um útilistaverk í Reykjavík

Nýtt ókeypis smáforrit um útilistaverk frá Listasafni Reykjavíkur.

Listasafn Reykjavíkur hefur sett á laggirnar smáforrit þar sem hægt er á einfaldan og skemmtilegan hátt að fræðast um öll útilistaverk sem Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með í borgarlandinu ásamt fleiri verkum.

Forritinu má hlaða niður endurgjaldslaust í snjalltæki, bæði fyrir iOS og Android stýrikerfi. Forritið er bæði á íslensku – Útilistaverk í Reykjavík og ensku – Reykjavík Art Walk – allt eftir stillingu snjalltækisins.

Í forritinu er hægt að skoða myndir, lesa texta og hlusta á hljóðleiðsagnir ásamt því að fara í skemmtilega leiki. Forritið má nálgast það bæði í App Store og í Google Play. Það hentar bæði fyrir börn og fullorðna.

 

64% nýrra íbúða óseldar

Einungis þriðjungur nýrra íbúða í miðborginni hefur verið seldur. Um 330 af 519 íbúðum eru óseldar sem er um 64% af framboðinu. Fjárfestar hafa endurmetið stöðuna og telja möguleika á minni hagnaði vegna dræmrar sölu.

 

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu. Einn fjárfestir miðar við að sala taki 18 mánuði vegna aðstæðna. Fyrri áætlun stóð í 12 mánuðum. Töfunum gæti þá fylgt mikill vaxtarkostnaður.

Þær 330 íbúðir sem eru til sölu eru í tíu nýjum fjölbýlishúsum í miðborginni. Fyrstu íbúðirnar komu á markað árið 2017. Búist er við 240 nýjum íbúðum á markaðinn á næstunni. Meirihluti þeirra verða tilbúnar í sölu á næstu 12 mánuðum.

Þá eru hátt í tvö þúsund íbúðir á teikniborðinu og hafa þær allar verið settar á ís.

Umdeilt myndband Madonnu á að vekja fólk til umhugsunar um skotárásir

Mynd / EPA

Madonna sendi frá sér umdeilt myndband í gær sem er ádeila á skotárásir og byssulöggjöf Bandaríkjanna.

 

Tónlistarkonan Madonna segir að umdeilt tónlistarmyndband við lag hennar God Control eigi að vekja fólk til umhugsunar. Myndbandið birtist á Youtube-síðu Madonnu í gær og síðan þá hefur hún hlotið mikla gagnrýni frá fólki sem þykir myndbandið of gróft. Madonna hefur þó einnig hlotið mikið lof fyrir myndbandið. Í myndbandinu má sjá fólk skotið til bana á skemmtistað.

Tónlistarmyndbandið hefur vakið reiði meðal þeirra sem lifðu af skotárás sem gerð var á skemmtistaðnum Pulse í Orlando í júní árið 2016. Þar létust 49 og tugir særðust. Patience Carter er ein þeirra sem lifði af. Hún segir nýja myndband Madonnu svo sannarlega vera óhugnanlegt. „Ég gat ekki hoft á meira en 45 sekúndur,“ skrifaði Carter á Twitter. Hún tekur þó fram að hún kunni að meta tilraun Madonnu til að vekja athygli á málstaðnum.

Viðbrögð Madonnu við gagnrýninni er að benda á að tilgangur myndbandsins sé að vekja fólk til umhugsunar um skotárásir og byssulöggjöf. Í viðtali við People segir hún skotárásir vera stærsta vandamál Bandaríkjanna. „Ég gerði þetta myndband til að vekja athygli á þessu vandamáli sem þarf að taka á. Ég þoli þetta ekki lengur.“

Myndband Madonnu við lagið God Control má sjá hér fyrir neðan.

„Betra að hafa elskað og misst en aldrei elskað“

Leiðari úr 25. tölublaði Vikunnar 2019.

Fyrirsögn þessa pistils er upprunalega línur úr ljóði eftir Alfred Tennyson en hann þekkti sannarlega bæði ást og missi. Fjölskylda hans átti í miklum erfiðleikum einkum vegna þunglyndis og drykkjuskapar föður hans og þrír bræður Alfreds stríddu einnig við andleg veikindi. Ungur missti Alfred besta vin sinn og stuðningsmann, Arthur Hallam, og var eftir það mjög brotinn. Hann varð ástfanginn af Emily Sellwood en faðir hennar taldi bóhemískan lífsstíl skáldsins ekki sæmandi dóttur sinni svo elskendurnir skrifuðust á í leyni árum saman. Þau fengu loks að giftast og hjónabandið varð hamingjuríkt. Ljóðið In Memoriam þar sem þessar línur koma fyrir er ort í minningu Arthurs og þessi orð hans urðu strax fleyg. Skiljanlega því þau tala beint inn í hjörtu allra þeirra sem hafa misst ástvin og syrgja.

Huggunin í djúpri sorg felst alltaf í minningunum, í krafti þeirra tilfinninga sem manneskjan bar í brjósti. Anna Lilja Flosadóttir grípur einmitt til þeirra í forsíðuviðtali við Vikuna. Hún missti mann sinn, Eirík Inga Grétarsson, ótímabært úr ósæðaflysjun, sjaldgæfum sjúkdómi sem læknar hér hefðu átt að greina en gerðu ekki.

Lát hans var ekki síður sorglegt vegna þess að þau höfðu gengið í gegnum mikla fjárhagsörðugleika vegna vanefnda annarrar manneskju og ekki bætti hrunið úr skák. Þau misstu í raun allt sitt. Þótt vissulega sé ekki hægt að bera saman hluti og fólk er samt gríðarlegt áfall að fara úr efnahagslegu öryggi og velgengni til fátæktar á örfáum mánuðum. Það er óskaplega slítandi og erfitt að vita ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér og hafa ekki hugmynd um hvort maður nái að mæta nauðþurftum sínum. Allt þetta hafði ekki góð áhrif á heilsu Eiríks. Læknarnir töldu að um magabólgur væri að ræða og sendu hann því ekki í frekari rannsóknir eins og hefði þurft.

Eftir mikið basl og erfiðleika ákváðu hann og Anna Lilja að flytja til Spánar. Þar væri ódýrara að lifa og þau sáu fram á streituminna líf. Fjórum dögum eftir að þau lentu var Eiríkur allur. Kona hans sneri allslaus aftur heim og er enn að vinna úr áfallinu. Að sögn hefur hún notið velvildar og styrks frá mörgum en íslenskt velferðar- og heilbrigðiskerfi brást bæði seint og illa við. Hún er þó loks komin með öruggt húsaskjól og það er vissulega framför. Landlæknir hefur fjallað um mál Eiríks og það er hans mat að læknarnir hafi átt að senda hann áfram til frekari greiningar fremur en skrifa einkennin á meltingartruflanir. Kannski er ekki undarlegt þótt Anna Lilja sé reið og finnist að hefði mátt koma í veg fyrir lát manns hennar. En það er engu að síður staðreynd og hennar bíður það verkefni að sætta sig við orðinn hlut og leita huggunar í að hafa upplifað heita ást.

Sjá einnig: Draumurinn varð að martröð

Villhjálmur Bretaprins: „Fullkomnlega sáttur ef börnin mín eru samkynhneigð“

||
||

„Ég er fullkomnlega sáttur ef börnin mín eru samkynhneigð,” sagði Vilhjálmur Bretaprins í heimsókn sinni til LGBT-góðgerðasamtaka í London.

„Ég styð börnin mín í öllu sem þau gera en það er erfitt að sjá allar þær hindranir, hatur og fordóma sem þau gætu orðið fyrir,” hefur breska blaðið The Guardian eftir Villhjámi. Hann segir þau Katrínu hertogaynju hafa rætt þessi mál og þá fordóma sem hinsegin fólk verður fyrir.  Prinsinn nefnir árás sem tvær konur urðu fyrir í London nýlega. Árásin átti sér stað í strætó í London fyrr í mánuðinum. Hópur manna réðst á tvær konur á heimleið eftir gleðigöngu því þær neituðu beiðni þeirra um að kyssast. „Mér blöskraði við þessu,” sagði Vilhjálmur. 

„Ég hef áhyggjur af þeim fordómum sem börnin yrðu fyrir og hversu erfiðara lífið þeirra myndi verða,“ segir Vilhjálmur. Hann segir stöðu barna sinna valda honum áhyggjum. Þau séu opinberar pesónur og því fylgi mikil streita.

Albert Kennedy Trust (Akt) eru góðgerðasamtökin sem Vilhjálmur heimsótti. Þau aðstoða ungt fólk sem hefur misst heimili sitt sökum kynhneigðar.

KUL og Teitur Magnússon & Æðisgengið á KEX

Það verður mikið um mikið um dýrðir og töfra á Kex Hostel í kvöld.

Í kvöld, föstudaginn 28. júní, verður mikið um dýrðir og töfra á Kex Hostel þegar hljómsveitirnar KUL og Teitur Magnússon & Æðisgengið bregða á leik fyrir gesti.

Hljómsveitin KUL var stofnuð í fyrra af reynsluboltum úr íslensku tónlistarlífi. Meðlimir sveitarinnar, þeir Heiðar, Helgi, Hálfdán og Skúli eru þekktir fyrir sín þrumuskot í meðal annars Botnleðju, Sign og Benny Crespo’s Gang. Gestir geta átt von á rokki og róli og það gerir KUL gerir vel.

Hlýr, tímalaus en jafnframt hrár – „það er enginn asi á Teiti“. Svo lýsti gagnrýnandinn Ingimar Bjarnason tónlistinni á síðustu plötu Teits Magnússonar, Orna, sem kom út á síðasta ári við mikinn fögnuð tónlistarunnenda. Með honum leikur Æðisgengið – þar er vægt til orða tekið valinn maður í hverju í rúmi.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20.30 og er frítt inn.

Brotnar siðareglur og skilorðsbundið fangelsi

Í hverri viku tiltekur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góða viku og slæma viku. Að þessu sinni eru það Ásmundur Friðriksson annars vegar og Jón Ingi Gíslason hinsvegar sem eru hinir útnefndu.

 

Góð vika – Ásmundur Friðriksson

Óhætt er að segja að margir hafi átt góða viku. Íbúar Austurlands hafa notið veðurblíðu síðustu daga. Karlalið Víkings í knattspyrnu átti frábæra endurkoma í Eyjum þegar Víkingur sigraði ÍBV og varð fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu.

Eflaust hafa þó fáir glaðst eins mikið og þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson þegar Forsætisnefnd Alþingis féllst á að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefði brotið siðareglur fyrir alþingismenn með ummælum sínum um akstursgreiðslur hans. Ekki glöddust þó allir og sagði flokksbróðir Þórhildar Sunnu, Jón Þór Ólafsson, að „þessi afgreiðsla væri til þess fallin að fela mögulega spillingu og þagga niðri í þeim sem vilja uppræta hana“.

Slæm vika – Jón Ingi Gíslason

Svandís Svavarsdóttir hefur ekki beinlínis átt sjö dagana sæla vegna sykurskatts sem hún hefur boðað til. Ummæli hennar um að hlutfall of feitra væri hátt á Íslandi vakti líka reiði og var Svandís sökuð um að kynda undir báli fitufordóma. Vika Jóns Ársæls Þórðarsonar varð heldur engin skemmtiferð þegar honum var stefnt af einum viðmælenda sinna úr þáttunum Paradísarheimt.

Nafni hans Jón Ingi Gíslason, formaður Kennarafélags Reykjavíkur, toppaði þó allt þegar hann var í Héraðsdómi dæmdur í skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 19.350.000 sekt í ríkissjóðs vegna stórfellds skattalagabrots. Þetta varð ekki beint til að auka hróður Jóns sem hafði áður verið vikið úr áhrifastöðum innan Framsóknar vegna málsins.

Tímarit sem fyllir börn eldmóði, áhuga og gleði

||
Ágústa Margrét Arnardóttir er ritstjóri HVAÐ

Ágústa Margrét Arnardóttir, búsett á Djúpavogi, er ritstjóri HVAÐ, nýs barna- og ungmennatímarits sem kom út í fyrsta sinn í byrjun júní 2019. Lögð er áhersla á efni fyrir lesendur á aldrinum 8-18 ára þótt efnið höfði til lesenda á öllum aldri.

 

„Mér datt aldrei í hug að ég myndi einhvern tíma gefa út barna- og ungmennatímarit, en ég er gríðarlega hugmyndarík, hvatvís og ofvirk þannig að líf mitt kemur mér alltaf á óvart,“ segir Ágústa þegar hún er spurð um tilurð þess að hún hóf tímaritaútgáfu. „Ég tók eftir því fyrst fyrir um sex árum að það væri vöntun á hvetjandi og eflandi tímaritum fyrir börn, öðru hvoru hugsaði ég svo að þetta og hitt væri sniðugt í þannig blað. Ég kláraði svo mitt fimmta fæðingarorlof í septmeber í fyrra og ákvað að prófa þetta bara.“

HVAÐ er fjölbreytt tímarit og í það skrifa um fjörutíu einstaklingar á öllum aldri, pistla, uppskriftir, sögur, viðtöl og fleira. „Það er mikið um innsent efni frá börnum sem eru að kynna sín áhugamál, sín svæði og fleira fyrir lesendum en eldri pistlahöfundar skrifa sína pistla með „hvað myndi ég vilja segja mér þegar ég var 8-18 ára“. Þetta eru hvetjandi pistlar um til dæmis vináttu, líkamsímynd og mikilvægi þess að virða og elska sig sjálf og margt fleira sem og upplýsandi pistlar um kynfæri, fjármál, tískuljósmyndir og hvernig á að baka túnfífla, svo fátt eitt sé nefnt.“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt

Ágústa stofnaði hönnunar- og framleiðslufyrirtækið Arfleifð þegar fyrsta barnið hennar og mannsins hennar sem er sjómaður var sex mánaða, svo eignuðust þau þrjú börn á þremur árum. „Ég reyndi mitt allra besta við að reka fyrirtækið, sinna börnum, heimili og lífinu, að miklu leyti ein. Þetta var nokkurra ára rússíbani sem endaði með að ég hrundi andlega og líkamlega. Eftir á að hyggja var þetta þrot sem ég komst í mun alvarlegra en ég gerði mér grein fyrir því eftirköstin eru enn. Ég hef ekki sama úthald, orku og getu og ég hafði. Ég þurfti að breyta algjörlega um lífsstíl, ég hætti að drekka, fékk ADHD-greiningu og samkvæmt læknisráði átti ég að láta viðburði og stór verkefni á pásu,“ segir Ágústa. „Ég þurfti í raun að læra að lifa upp á nýtt, sætta mig við alls konar, fara í gegnum fortíðina, endurskipuleggja framtíðina og læra að lifa í núinu. Það má segja að þetta ferli hafi ekki síst verið kveikjan að HVAÐ. Ég hef lesið svo margt uppbyggilegt og merkilegt, er að læra markþjálfun og ætla mér að vinna við að hvetja fólk. Úr því að ég gat fundið hugarró, sátt og innihaldsríkara líf þá geta það allir.“

„Ég þurfti í raun að læra að lifa upp á nýtt, sætta sig við alls konar, fara í gegnum fortíðina, endurskipuleggja framtíðina og læra að lifa í núinu.“

Hún segir að í nútímasamfélagi sé allt of mikill hraði, neysluhyggja, yfirborðskennd, viðmiðun og vonbrigði, bæði hjá fullorðnum og börnum. „Börn verða fyrir stanslausu áreiti á öllum miðlum, bíómyndum, auglýsingum, inni á heimilum, í skólum og samfélaginu öllu. Kvíði, streita og vanlíðan er að aukast hjá börnum og ég var þannig barn – mér leið oft illa. Ég var „vandræðaunglingur“, byrjaði að drekka á þrettánda ári til að fylla í eitthvað tóm og flýja raunveruleikann. Ég skammaðist mín fyrir svo margt, bar enga virðingu fyrir mér eða öðrum. Ég eyðilagði hluti, sambönd og mig sjálfa. Þetta var allt sprottið út frá vanlíðan og of lítilli trú á sjálfa mig,“ segir Ágústa.

Fylgdi syni sínum í skólanum allan daginn í fjóra mánuði

Í þessu fyrsta tölublaði HVAÐ er ítarlegt viðtal við Heiðar Loga Elíasson, brimbrettakappa með meiru. „Jákvæðni hans, kraftur og eldmóður urðu mér innblástur fyrir nokkrum árum, þegar hann var um tvítugt og ég um 35 ára þriggja barna móðir að takast á við þrotið mitt. Ég tók hann mér til fyrirmyndar og nú er ég orðin fertug og fimm barna móðir sem fer í blautgalla og hoppar í sjóinn, ár og vötn til að tengjast náttúrunni og skemmta sér. Þetta er eitthvað sem ég gerði aldrei en langaði alltaf. Af einhverjum ástæðum var ég búin að búa mér til allt of mikið af hindrunum og hafði afsakanir fyrir öllu. Stærstu afsakanir mínar voru að ég ætti of mörg börn, of lítinn tíma, of lítinn pening og fleira. Fyrir tveimur árum var mér svo enn meira kippt inn í raunveruleikann. Sonur minn sem þá var í 3. bekk var í kolvitlausum farvegi. Hann sýndi alls konar hegðun sem benti til mikilla erfiðleika og vanlíðunar. Það var búið að prófa ýmsar aðferðir til að reyna að „láta“ hann haga sér betur og líða betur en ekkert breyttist, honum leið verr og verr, ef eitthvað.“

Ágústa ákvað að fara með honum í tvær til fjórar vikur í skólann til að reyna að sjá hvað „væri að honum“. Það endaði þannig að hún setti Arfleifð á pásu, droppaði öllu og mætti með honum í allar kennslustundir, frímínútur, tómstundir og fleira í tæplega fjóra mánuði „Ég sá ótrúlega vel að það var margt að hjá honum en ekki að honum. Við tók tveggja ára ferli til að finna hans farveg og vellíðan. Útivist, samvera, áhugamál, ástríða fyrir einhverju, leikur, hvatning, ábyrgð og fleira var partur af því sem gjörbreytti hans líðan og okkar allra. Því þegar barni, eða fullorðnum, líður illa hefur það áhrif á alla í kring. Það sem ég sá einnig var að það var líka svo ofboðslega margt að hjá mér, fjölskyldunni, skólanum og samfélaginu. Öll mín hugsun breyttist.“

Öll fjölskyldan breytti um stefnu í lífinu fyrir nokkrum árum og tekur þátt í blaðaútgáfunni með Ágústu.

Eftir þetta snýst líf Ágústu og fjölskyldu um að finna farveg hvers og eins einstaklings í fjölskyldunni og fjölskyldunnar sem heildar. Þau fóru að stunda vatnasport, mun meiri útivist, flakk og ferðalög, breyttu kauphegðun og flæði inn á heimilið, fóru að safna upplifunum í stað eigna og svo ótal margt sem hefur skilað þeim vellíðan, hugarró og sátt.

1100 kílómetra ferðalag vel þess virði

Börn Ágústu eru með henni í blaðaútgáfunni. „Ég hannaði þessa útgáfu og allt sem fylgir út frá börnunum og fjölskyldunni. Þau skrifa öll eitthvað í blaðið og hafa verið að selja það hús úr húsi á landsbyggðinni. Ég fór einu sinni ein til Reykjavíkur að vinna að þessu en annars hafa þau komið með mér. Ég og Vigdís, elsta dóttir mín, keyrðum frá Djúpavogi til Reykjavíkur og til baka, alls 1100 kílómetra, til þess að hitta Heiðar Loga í þrjár klukkustundir. Það ferðalag var margfalt þess virði og magnað tækifæri að hitta og heyra sögu hans, sem er í 1. tölublaðinu. Ég er ritstjóri og skrifa í blaðið en mitt helsta verk var að fá efni frá öllum og setja það saman á einn aðgengilegan stað. Íris Ösp Sveinbjörnsdóttir er grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi HVAÐ. Fyrsta tölublaðið var í um níu mánuði í vinnslu og á lokasprettinum leið okkur eins og við værum að eignast barn saman. „Meðgangan“ gekk vel, við fórum fram yfir settan útgáfudag en eins og eðililegt er með fyrsta barn og lærðum alveg ólýsanlega mikið af þessu ölllu.“

Ágústa hefur horft mikið til tímaritanna ABC og Æskunnar sem vinsæl voru þegar hún var barn. „Ég sendi inn helling af sögum, teikningum og óskaði eftir pennavinum þegar ég var barn og þau fylltu mig innblæstri í þessari útgáfu. HVAÐ er vettvangur barna og ungmenna til að láta ljós sitt skína. Í stað plakata með tónlistarfólki og íþróttamönnum eru falleg og uppbyggileg kvót og heilræði sem sóma sér vel uppi á vegg í ramma. Og í stað krossgátna og þrauta eru hvetjandi verkefni, áskoranir og markmiðaeyðufyllingar sem gaman og gagnlegt er að fylla inn í. Þannig að þetta er svona nútímaútfærsla á þessum gömlu tímaritum í bland við brandara, leiki og lífið í landinu frá börnum og ungmennum.“

Vill sporna við skjátíma

Langflestir sem Ágústa talaði við í sambandi við HVAÐ hafa verið jákvæðir og til í að taka þátt. Ævar Þór, rithöfundur og vísindamaður, Alda Karen, Sölvi Tryggva, Pálína Ósk, Þorgrímur Þráins, Erna í Ernulandi, Ólafur Stefánsson, Fanney Þóris, Rakel Rán  og fleiri skrifa pistla. „Þetta er fólk sem vinnur við að hvetja og upplýsa. Þau vita að börn og ungmenni þurfa að fá upplýsingar beint í æð og þau höfðu trú á þessu hjá mér. Það er ómetanlegt. Ég vil með hefðbundinni prentútgáfu í stað netútgáfu reyna að sporna við skjátíma og mín hugsun er að ég verði að prófa þetta. Ég trúi því innilega að ef HVAÐ fær tækifæri, fær kynningu og verði aðgengilegt í verslunum þá muni það blómstra.“

Prentsmiðjan Oddi prentar blaðið og Ágústa segir að starfsfólkið þar hafi verið með eindæmum þolinmótt, ráðagott og dásamlegt í samskiptum.

„Það var markmið okkar allra að hafa þetta metnaðarfullt og faglegt. Við höfum fengið mikið hrós fyrir innihald, útlit, gæði, pappír, prentun og fleira. Það var ekkert mál að vinna þetta frá Djúpavogi, ekki síst af því að það var frábært fólk í hverju verki. Reynsla mín úr fyrri rekstri, menntun, námskeið og fleira hjálpaði mikið.“

Óskin er að blaðið ýti undir heilbrigði og heilindi, sjálfstæða hugsun, efli og hvetji lesendur til dáða.

Næst á dagskrá hjá fjölskyldunni er viðburður og sala á Humarhátíð á Hornafirði þar sem þau verða með sérstakt HVAD-svæði – skapandi og hvetjandi svæði þar sem innihald blaðsins er fært í raunveruleikann. Alls konar áskoranir, föndur og fleira. „HVAÐ er ekki bara tímarit, það er lífsstíll sem hvetur til samveru, útivistar og að njóta. Einnig verðum við með sölu á Lummudögum í Skagafirði. Við vonumst til að vera með sem mest af svona viðburðum og ýmis námskeið eru í bígerð fyrir veturinn. Markmið okkar með HVAÐ eru stór og falleg, ég er þó raunsæ og veit að í rekstri, og lífinu, getur allt gerst. Jafnaðargeð, þolinmæði og æðruleysi í bland við kæruleysi, hvatvísi og trú er nauðsynlegt veganesti í öllum verkefnum sem maður tekur sér fyrir hendur.“

Kemur út tvisvar á ári

Í loforði til lesenda og stefnu HVAÐ segir að óskin sé að þegar börn og ungmenni skoði blaðið finni þau fyrir eldmóði, áhuga og gleði og að HVAÐ ýti undir heilbrigði og heilindi, sjálfstæða hugsun, efli og hvetji lesendur til dáða. Í tímaritinu eru líka upplýsingar um staði sem börn og ungmenni geta leitað til – hjálparsími Rauða krossins, Bergið, SÁÁ og fleira. Blaðið mun koma út tvisvar á ári til að byrja með, í júní og nóvember, það er til sölu á heimasíðunni hvadtimarit.is, í barnavöruversluninni Hreiður í Kópavogi, verslunum Pennans, Nettó og Hagkaupa og kostar alls staðar 2.500 kr. HVAÐ er einnig á Facebook og Instagram undir Hvadtimarit.

„Líkami okkar elskar fitu“

|
Helga Katrín Stefánsdóttir við dragsterinn Batman. Ingólfur Arnarsson er eigandi þessa tryllitækis. Vélin er 11

Tíðni ofþyngdar hjá íslenskum grunnskólabörnum hefur farið lækkandi síðustu ár. Prófessor segir vitundarvakningu um heilsu hafa skilað árangi

 

Valdís Bjarnadóttir og Sólveig Jakobsdóttir útskrifuðust með BS-gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands í vor. Í lokaverkefni sínu skoðuðu þær ofþyngd grunnskólabarna í 6. bekk, 8. bekk og 10. bekk á Íslandi út frá íslenskum hluta fjölþjóðlegu könnunarinnar Heilsa og líðan skólabarna (HBSC) sem er gerð á fjögurra ára fresti í yfir fjörutíu löndum. Í ritgerðinni voru sex mismunandi bakgrunnsbreytur skoðaðar út frá félagslegum þáttum íslenskra barna og unglinga og bornar saman við nýjustu tölur úr könnun HBSC á Íslandi frá árunum 2017 og 2018.

Niðurstöður sýndu m.a. að 15,6% íslenskra grunnskólabarna í 6., 8. og 10. bekk voru skilgreind í ofþyngd. Til samanburðar sýna gögn að 23,7% barna í 4. bekk grunnskóla voru talin vera í ofþyngd árið 2012. Út frá niðurstöðum HBSC á Íslandi, eykst tíðni barna í ofþyngd með aldri og því má áætla að tíðni barna í 6., 8., og 10. bekk hafi verið svipuð eða hærri en 23,7% árið 2012. Það bendir því flest til þess að tíðni ofþyngdar hjá grunnskólabörnum fari lækkandi.

Ársæll Már Arnarsson prófessor stýrir HBSC á Íslandi og í samtali við Mannlíf segir hann að hið opinbera og skólakerfið í heild hafi tekið við sér á undanförnum árum og stuðlað að aukinni fræðslu og heilsueflingu. „Við erum farin að sjá heilsueflandi samfélög, heilsueflandi skóla og leiksskóla. Það hefur orðið vitundarvakning í samfélaginu um það í hverju heilbrigði felst,“ segir hann en bætir við að mikilvægt sé að halda því til haga að þyngd er aðeins lítill hluti af heilbrigði.

Ársæll Már Arnarsson prófessor stýrir HBSC á Íslandi. Mynd / Kristinn Ingvarsson

„Það getur valdið miklu verra heilsutjóni að stunda alls konar óheilbrigðar megrunaraðferðir en að vera einhverjum nokkrum kílóum í yfirþyngd.“

„Okkar rannsóknir hafa til dæmis sýnt að sérstaklega unglingsstelpur hafa mjög neikvæða líkamsmynd og margar hverjar sem ekki eru í neinni yfirþyngd nota mjög óheilbrigðar aðferðir til þess að viðhalda þyngd. Það er eitthvað sem ég hef til lengri tíma meiri áhyggjur af en ofþyngd. Það getur valdið miklu verra heilsutjóni að stunda alls konar óheilbrigðar megrunaraðferðir en að vera einhverjum nokkrum kílóum í yfirþyngd.“

Megrunarkúrar varasamir

Ársæll bendir enn fremur á að langtímarannsóknir frá Svíþjóð sýni að því oftar sem unglingsstelpur fara í megrunarkúra, þeim mun þyngri verða þær. „Augljóslega eru þungar stelpur meira í megrun. Ef fylgst er með hópi stelpna í langan tíma og byrjað á ákveðnum þyngdarpunkti kemur í ljós að þeim mun oftar sem þær fara í megrun þeim mun meira þyngjast þær,“ útskýrir Ársæll.

Aðspurður hvers vegna líkaminn bregðist þannig við megrunarkúrum segir hann að það hafi með erfðaefni okkar að gera.

„Það er af því að líkami okkar elskar fitu. Fita er frábær leið til að geyma orkuforða og þessi eiginleiki að geta bætt á sig fitu til að eiga fyrir mögru tímabilin hefur þjónað okkur alla þróunarsöguna. Nú er einfaldlega vandamálið að síðustu áratugi hafa ekki verið nein mögur tímabil, þannig að fitan hefur bara safnast á okkur. Þegar maður er að fara í megrunarkúra þá segir maður öllum sínum erfðafræðiforritum stríð á hendur, það auðvitað gengur ekki upp. Líkaminn lækkar bara brennsluhraðann og svo segir hann við þig að gefast upp hreinlega. Auk þess borðar fólk sem stundar megrunarkúra mun verr en þeir sem halda sínu striki. Eins og ég segi, líkaminn elskar fitu, það er fátt sem honum þykir vænna um.“

 

Einkasýning Sögu Sigurðar í Bismút

Ljósmyndarinn Saga Sigurðardóttir opnar málverkasýningu í dag.

 

Allir eru hjartanlega velkomnir á opnun sýningarinnar Breathe In, sem er fyrsta einkasýning Sögu Sigurðardóttur. Saga er fædd 1986 og nam ljósmyndun við University of Arts í London.

Hún er þekktust fyrir ljósmyndir sínar en sýnir nú í fyrsta skipti málverk á einkasýningu í Bismút á Hverfisgötu.

Sýningin verður opnuð í dag, föstudaginn 28. júní, klukkan 17, og stendur til 19. júlí. Aðgangur er ókeypis.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Í stríði við stofnanir og stóriðju

Ragnheiður Þorgrímsdóttir. Mynd/Unnur Magna

Ragnheiður Þorgrímsdóttir, bóndi á Kúludalsá í Hvalfirði, hefur þurft að láta fella nítján hross síðan sumarið 2007 vegna veikinda sem hún telur stafa af flúormengun frá álverinu á Grundartanga. Síðast var hross fellt þann 11. júní síðastliðinn.

 

Ragnheiður höfðaði mál gegn Norðuráli vegna mengunarslyss sem varð í álverinu árið 2006, tapaði því fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á síðasta ári og í síðustu viku staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms og fríaði Norðurál allri ábyrgð. Ragnheiður er þó ekki af baki dottin og segist munu halda áfram að berjast fyrir réttlætinu, hrossin eigi það inni hjá henni.

Ragnheiður er að vonum ósátt við dóm Landsréttar, telur hann byggja á að málsgögnin hafi ekki fengið hlutlæga meðferð.

„Gögnum Norðuráls var gert hærra undir höfði en þeim gögnum sem snerta veikindi hrossanna,“ segir hún. „Öll orðræðan var Norðuráli í hag og röksemdafærslan sérkennileg. Litið var fram hjá orðum dýralæknisins sem bar vitni fyrir Landsrétti og gjörþekkir aðstæður á Kúludalsá. Það er mjög aðfinnsluvert.“

Gerðist eins og hendi væri veifað

Forsaga málsins er sú að vorið 2007 byrjuðu hross á Kúludalsá að veikjast án sýnilegrar ástæðu. Ragnheiður segist hafa byrjað á því að leita orsakanna heimafyrir, en hún hafi ekki verið að gera neitt öðruvísi en áður og skýringanna því ekki að leita þar. Hrossin héldu áfram að veikjast og lyf við hófsperru, sem dýralæknir ávísaði gerðu ekkert gagn.

„ … þetta gerðist bara eins og hendi væri veifað. Allt í einu fóru hrossin að veikjast hvert af öðru.“

„Það höfðu aldrei sést svona veikindi hér áður,“ segir Ragnheiður. „Og þetta gerðist bara eins og hendi væri veifað. Allt í einu fóru hrossin að veikjast hvert af öðru. Sjúkdómseinkenni hrossanna voru að þau urðu stirð í hreyfingum og gátu jafnvel ekki hreyft sig, það kom bjúgur á skrokkinn, á makkann sem varð þykkur, stífur og jafnvel kúptur og á bóg, lend og höfuð. Einkennin virtust hvorki tengjast holdafari né aldri hrossanna. Hófar aflöguðust á sumum hrossanna og einnig varð vart við útbrot á skrokkum nokkurra, auk eyðingar jaxla. Allt bent á einkenni flúoreitrunar. Ekkert þeirra drapst samt úr þessu, en ég þurfti að láta fella þau því maður lætur ekki dýr kveljast til dauða, það segir sig sjálft.“

Frétti af mengunarslysinu fyrir tilviljun

Ragnheiður leitaði til Matvælastofnunar sem sagðist ekki mundu hafa nein afskipti af málinu þar sem greinilega væri ekki um smitsjúkdóm að ræða og málið því ekki á þeirra könnu. Og þar við sat. Hrossin héldu áfram að veikjast og það þurfti að fella fleiri hesta án þess að nokkur skýring fengist á veikindum þeirra. Það var ekki fyrr en Ragnheiður heyrði af svokölluðu slysi sem orðið hafði í álverinu við Grundartanga sumarið 2006 að hún fór að átta sig á samhenginu.

„Svo heyrði ég af tilviljun af mengunarslysi sem hafði orðið í álverinu síðsumars 2006, það hafði ekkert verið sagt frá því,“ segir Ragnheiður. „Það bilaði reykhreinsivirki og búnaðurinn komst ekki í fullt lag fyrr en undir næstu áramót. Enginn veit hversu mikið af flúor fór út í andrúmsloftið í allan þennan tíma því engar mælingar voru gerðar til að meta afleiðingar slyssins.

„Umhverfisstofnun vissi af slysinu en ákvað samt að láta íbúa í firðinum ekki vita.“

Umhverfisstofnun vissi af slysinu en ákvað samt að láta íbúa í firðinum ekki vita. Þetta var kallað „slys“ en var í rauninni varla slys þar sem svo langur tími leið þar til búnaðurinn komst í fullt lag. Á sama tíma var verið að stækka álverið mjög mikið og verulegur flúor hafði mælst í heyi á nærliggjandi bæ fyrr um sumarið sem bendir til að flúormengun hafi verið mikil áður en slysið varð.“

Eftirlitsmaðurinn sagðist ekki hafa vit á hestum

Eftir þessa uppgötvun, vorið 2009, ákvað Ragnheiður að biðja Umhverfisstofnun að gera rannsókn á veikindum hrossanna.

„Reyndar hafði ég fyrst samband við Matvælastofnun sem vísaði málinu til Umhverfisstofnunar þar sem hún gæfi starfsleyfið fyrir álverið. Umhverfisstofnun tók við málinu og svo leið og beið. Það var ekki fyrr en ári seinna sem Umhverfisstofnun sendi hingað mann einn föstudagseftirmiðdag til þess að skoða málið. Hann sat hérna í fjóra klukkutíma við eldhúsborðið og spjallaði við mig og dóttur mína um allt og ekkert. Þegar ég spurði hvort hann vildi ekki sjá hrossin sagðist hann ekki hafa neitt vit á hestum en kom samt með mér og kíkti á þau. Hann vorkenndi hrossunum óskaplega og svo bara fór hann og ég frétti ekkert meira. Loksins heyrði ég af því að hann hefði sent Matvælastofnun fyrirspurn um málið, en enn gerðist ekkert frekar.“

Þrátt fyrir að hafa tapað málinu fyrir Landsrétti er Ragnheiður ekki af baki dottin og segist munu halda áfram að berjast fyrir réttlætinu, hrossin eigi það inni hjá henni. Mynd / Unnur Magna

Það var ekki fyrr en nærri ári síðar, vorið 2011 sem málin fóru á einhverja hreyfingu eftir að Fréttastofa RÚV hafði fjallað um málið.

„Þeir gerðu frétt sem kom í sjónvarpinu og ýtti allhressilega við Umhverfisstofnun þannig að stuttu seinna hafnaði hún rannsókn,“ útskýrir Ragnheiður. „Ég var eðlilega mjög ósátt við þessa höfnun, ekki síst þegar ég komst að því að maðurinn sem Umhverfisstofnun hafði sent hingað hafði ekki einu sinni skrifað skýrslu um heimsóknina. Stofnunin var búin að halda málinu hjá sér í tvö ár án þess að gera nokkurn skapaðan hlut nema senda eina fyrirspurn til Matvælastofnunar sem Sigríður Björnsdóttir sérgreinadýralæknir hrossasjúkdóma svaraði eftir átta mánuði. Á grundvelli svara hennar, sem hún byggði talsvert á minni lýsingu á hrossunum, hafnaði Umhverfisstofnun rannsókn. Þetta eru náttúrlega forkastanleg vinnubrögð, svo ekki sé meira sagt.“

Afar yfirborðsleg skoðun

Þegar hér var komið var árið orðið 2011 og Ragnheiður hafði staðið í þessu stappi í fjögur ár án þess að nokkuð mjakaðist áleiðis. Hún sneri sér því aftur til Matvælastofnunar og fór fram á rannsókn af hennar hálfu og gaf þrjú hross til að rannsaka ítarlega. Eftir langa mæðu sendi stofnunin loks Sigríði Björnsdóttur, dýralækni hrossasjúkdóma, á vettvang. Að sögn Ragnheiðar var skoðun hennar afar yfirborðsleg, hún hafi skoðað tuttugu og eitt hross á klukkutíma, ekki tekið nein sýni og ekki haft meðferðis nein áhöld til að skoða ástand hófa þeirra og tanna. Engu að síður kvað hún upp þann úrskurð að veikindin væru af völdum efnaskiptasjúkdómsins EMS og að hann stafaði af offóðrun og hreyfingarleysi. Birt var skýrsla um málið sem Ragnheiður mótmælti harðlega, en Matvælastofnun tók ekkert mark á mótmælum hennar. Og hún sat uppi með þann stimpil að hún kynni ekki að hugsa um hrossin sín.

„Þessir hestar eru meðal þeirra fimm sem Sigríður Björnsdóttir hjá MAST taldi hættulega feita og líklega til að fá EMS-sjúkdóminn. Enginn þessara fimm hesta hefur veikst enn sem komið er og eru þó liðin nærri átta ár frá heimsókn hennar á bæinn,“ segir Ragnheiður um hestana á myndinni. Aðsend mynd

„Ég er fædd hér og alin upp, hef haldið hross í áratugi og veit alveg hvernig á að fóðra hross,“ segir Ragnheiður með þunga. „Hrossin hafa alltaf verið mitt uppáhald og ég hef alltaf verið innan um þau og ég vissi að þessi niðurstaða dýralæknis Matvælastofnunar átti ekki við nein rök að styðjast.“

Skýrsla sérfræðinga virt að vettugi

Ragnheiður hélt áfram að leita orsaka veikindanna og biðla til opinberra stofnana um rannsókn á flúormengun. Árið 2012 samþykkti þáverandi atvinnuvegaráðherra loks að rannsaka orsakir veikinda hrossanna. Jakob Kristinsson, doktor emeritus í eiturefnafræði við Háskóla Íslands, og Sigurður Sigurðarson fyrrverandi yfirdýralæknir voru sérfræðingarnir sem atvinnuvegaráðuneytið fékk til að meta málið. Þeir skiluðu niðurstöðu rannsókna sinna í júní árið 2016 og sú niðurstaða var afgerandi. Samkvæmt rannsóknum þeirra, sem stóðu yfir í þrjú ár, eru mestar líkur á að síendurtekin veikindi hrossanna á Kúludalsá megi rekja til flúormengunar frá álverinu og nær útilokað er að veikindin megi rekja til rangrar meðhöndlunar Ragnheiðar, eins og dýralæknir Matvælastofnunar hafði haldið fram. Ragnheiður segir þá niðurstöðu hafa verið mikinn létti og henni hafi liðið eins og réttlætið hefði loks náð fram að ganga. Hún óskaði eftir því að Matvælastofnun drægi skýrslu sína um ástæður veikinda hrossanna til baka vegna þessrar niðurstöðu en stofnunin hafnaði því. Ragnheiður greip þá til þess ráðs að kæra Norðurál fyrir brot á starfsleyfissamningi vegna mengunarslyssins en tapaði því máli, eins og áður sagði bæði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti.

Hvernig líður henni eftir þennan nýuppkveðna dóm Landsréttar? Hefur þessi barátta ekki verið hræðilega slítandi?

„Jú, jú, hún hefur verið það,“ segir Ragnheiður hugsi. „Ég hugsa að ég geri mér kannski ekki alveg grein fyrir því sjálf hvernig mér líður. Ég er bara í baráttunni og maður er ekkert að velta því fyrir sér í miðju stríði hvernig manni líður. Maður heldur bara áfram.“

Dómstólar virðast taka ákvörðun fyrir fram

Talandi um að halda áfram, eru einhverjar leiðir færar fyrir Ragnheiði til að ná fram réttlæti? Hvert verður næsta skref?

„Ég veit það ekki,“ segir hún og andvarpar. „Það er jú til eitthvað sem heitir Hæstiréttur. Ég veit ekki hvort hann vill taka þetta mál upp en mér finnst sjálfsagt að reyna það. Vegna þess að mér finnst, eftir að hafa séð dómsorð Landsréttar og þar áður dómsorð Héraðsdóms Reykjavíkur, að þessir dómstólar séu ekkert að dæma í þessu máli. Mér finnst eins og þeir hafi tekið ákvörðun um niðurstöðuna fyrir fram og ég get alveg rökstutt það. Til dæmis með því hvernig þeir nota málsgögnin sem koma frá mér. Þeir nota þau nefnilega ekki og í allri orðræðu þeirra skín í gegn að það sem kemur frá Norðuráli sé áreiðanlegt og hlutlaust. Þeir styðjast við rangar upplýsingar frá lögmanni Norðuráls, meðal annars um að ég hafi neitað að láta fara fram flúormælingar á jörðinni, og nefna það í dómsorðum. Nokkur vitni gáfu vitnisburð frá minni hlið og ég kom sjálf fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, en þegar ég las dómsorðin frá Héraðsdómi var ekki á þeim að sjá að ég hefði verið þarna. Það lítur helst út fyrir að þau hafi ekkert hlustað á mig.

„Mér finnst þetta oft minna á rannsóknarrétt kaþólsku kirkjunnar á miðöldum og valdníðslu hans.“

Núna fyrir Landsrétti kom dýralæknir, sem hefur verið dýralæknir hérna í 37 ár og gjörþekkir aðstæður, fram og lýsti því á mjög afgerandi hátt hvernig heilsa hrossanna hefði breyst eftir mengunarslysið. Hann tók einnig fyrir skýrslu Sigríðar Björnsdóttur sem hann sagði að væri handónýt, það væri ekkert í henni sem gæfi tilefni til þess að halda því fram að hrossin væru með EMS. Enda þarf að greina hvert einasta hross með því að setja það í sykurþolspróf til greina þann sjúkdóm. Það var ekki gert og ég veit reyndar ekki til þess að eitt einasta hross á Íslandi hafi farið í slíkt próf. Samt heldur Sigríður Björnsdóttir því fram að þetta sé útbreiddur sjúkdómur á Íslandi. Mér finnst þetta oft minna á Rannsóknarrétt kaþólsku kirkjunnar á miðöldum og valdníðslu hans.“

Ragnheiður segir að það sem henni finnist eiginlega óhuggulegast í þessu máli sé hversu margir séu tilbúnir til þess að samþykkja það sem Sigríður segir. „Dómarnir hafa svo líka auðvitað áhrif,“ segir hún. „Fólk hefur tilhneigingu til að treysta þeim.“

Kveðjustund. Ragnheiður Þorgrímsdóttir hefur þurft að láta fella nítján hross síðan sumarið 2007 vegna veikinda sem hún telur stafa af flúormengun frá álverinu á Grundartanga. Síðast var hross fellt þann 11. júní, en það var hryssan Óskadís sem sést hér á myndinni með Ragnheiði.

En hefur Ragnheiður aldrei í öllu þessu ferli efast um eigin málstað? Hafa þessar sífelldu hafnanir á málaumleitunum hennar ekki haft nein áhrif á sjálfsmynd hennar?

„Nei, ég held ég hafi bara ágætis sjálfsmynd,“ segir hún. „En ég er ekki óraunsæ samt. Ég veit auðvitað að það getur öllum skjátlast en aftur á móti hef ég þessi hross fyrir framan mig á hverjum einasta degi og hef lesið mér mikið til og ég sé alveg að þetta sem Sigríður heldur fram stenst engan veginn. Hvorki varðandi það hvernig veikindi hrossanna lýsa sér né hvernig aðbúnaður og meðferð þeirra er. Ef mín hross eiga að veikjast vegna þess að þau eru offóðruð eða ekki hreyfð nógu mikið þá ættu langflest hross á Íslandi að vera fárveik, þau búa öll við svipaðar aðstæður og mín og flest þeirra eru mun feitari en mín.

Ég tel að það séu miklir hagsmunir í húfi fyrir marga að þetta mál vinnist ekki fyrir dómstólum. Nú snýst umræðan æ meir um umhverfisvernd og loftslagsmál en álfyrirtækin hafa mikið til fengið að vera í friði með sína mengun. Það eru álver í nágrenni við dýrahald og matvælaframleiðslu á fleiri stöðum á landinu. Það er nokkuð öruggt að Norðurál er búið að eyða meira í málskostnað heldur það sem ég kref fyrirtækið um í bætur fyrir hrossin mín, enda mæta þeir með fleiri en einn lögmann fyrir dóm. Ef ég vinn málið gætu fleiri bændur fylgt á eftir, flúor mælist víða hár í til dæmis sauðfé sem er ræktað til manneldis og er líka talinn hafa slæm áhrif á frjósemi kinda.“

Þurfti að leggja hestanámskeiðin niður

Auk þess að vera tilfinningalega tengd hrossunum hafa veikindi þeirra einnig bitnað á atvinnu Ragnheiðar þar sem hún rak um árabil námskeið fyrir börn þar sem þessir hestar léku lykilhlutverk. Eftir það stóra skarð sem hefur verið höggvið í raðir þeirra hefur hún neyðst til að leggja þá starfsemi niður.

„Þessir hestar sem ég notaði á námskeiðunum eru flestir farnir yfir móðuna miklu,“ segir hún. „Og ég þurfti því að leggja námskeiðin niður. Maður gerir ekki út á dauða hesta. Það er nefnilega töluverður vandi að finna hesta sem maður getur notað fyrir börn sem aldrei hafa kynnst hestum. Þeir verða að vera svo öruggir og lífsreyndir og ef ég ætlaði að fara að kaupa þannig hesta myndi það ekki borga sig fyrir mig, fyrir nú utan það að mér finnst ekki að ég eigi að vera að flytja hesta hingað. Ég get reynt að halda utan um þá sem eru eftir en mér finnst alrangt að flytja hesta inn í þetta umhverfi.“

Þannig að þetta mál hefur höggvið skarð í fjárhaginn líka?

„Ég náttúrlega vann fyrir mér sem kennari í áratugi,“ útskýrir Ragnheiður. „Og þótt eftirlaunin séu ekki há get ég tórt á þeim og svo brá ég á það ráð að stofna ferðaþjónustu eftir að hestarnir fóru að veikjast, til að drýgja tekjurnar og hafa efni á því að halda býlinu við. Það er líka mjög hressandi að kynnast fólki alls staðar að úr heiminum og það hefur hjálpað mér heilmikið. Það er svo gott fyrir sálina að vinna störf þar sem maður er að gleðja aðra og auka lífsgæði fólks. Það gefur mér mikið.“

„Þá urðu þeir vondir“

Ragnheiður heldur úti vefsíðunni namshestar.is þar sem hún hefur farið ítarlega í saumana á málinu alveg frá upphafi og hún segir það líka hafa hjálpað sér heilmikið að geta skrifað sig frá þessu.

„Bara það að koma þessu frá sér léttir á manni,“ útskýrir hún. „Það felst í því ákveðin sálgæsla.“

En hefur Ragnheiður staðið í einhverjum beinum samskiptum við Norðurál vegna málsins?

„Árið 2009, þegar ég tilkynnti Umhverfisstofnun um veikindi hrossanna og bað um rannsókn, sendi ég Norðuráli líka bréf, þar sem þeir hafa alltaf sagt að þeir vilji fá að vita af því ef eitthvað sé að hérna í grenndinni sem hægt væri að tengja þeim. Þeir báðu mig í framhaldi af því að láta sig fá öll gögn um málið til að þeir gætu látið sína sérfræðinga fara yfir þau. Ég svaraði þeim skriflega að svona ynni maður ekki, þeir væru ekki aðilinn sem ætti að fara yfir gögn varðandi mengun frá þeim. Þá urðu þeir vondir og ég var þar með komin út á klakann hjá þeim,“ segir Ragnheiður og skellir upp úr.

„Gögnum Norðuráls var gert hærra undir höfði en þeim gögnum sem snerta veikindi hrossanna,“ segir Ragnheiður. „Öll orðræðan var Norðuráli í hag og röksemdafærslan sérkennileg. Litið var fram hjá orðum dýralæknisins sem bar vitni fyrir Landsrétti og gjörþekkir aðstæður á Kúludalsá. Það er mjög aðfinnsluvert.“

Barátta Ragnheiðar minnir um margt á kvikmyndina Kona fer í stríð, er hún búin að sjá myndina og samsamaði hún sig aðalpersónunni að einhverju leyti?

„Ég veit það nú ekki,“ segir hún og brosir. „En mér fannst allavega mjög gaman að horfa á myndina. Ég er samt ekki jafnstórtæk og hún.“

Segir lögmann Norðuráls hafa blekkt Landsrétt

Ragnheiður hefur staðið í stríði við opinberar stofnanir síðan árið 2009, finnst henni ekki slítandi að tala endalaust fyrir daufum eyrum?

„Ég held það sé nú ekki hægt að tala um dauf eyru, því þeir vita örugglega alveg upp á sig skömmina,“ segir hún ákveðin. „Ég er ekki í nokkrum einasta vafa um það að menn vita að það er eitthvað að hérna sem ekki er hægt að skýra með mínum klaufaskap eða EMS-sjúkdómi. Þeir ætla bara ekki að taka undir það, vilja ekki sjá það. Það gefur mér kraft til að halda áfram að ég veit að þetta er vegna mengunar. Það kom greinilega fram í niðurstöðum sérfræðinga atvinnuvegaráðuneytisins að flúormengun sé líkleg orsök veikinda hrossanna enda mælist fjórfalt flúormagn í beinsýnum hrossanna hér miðað við hross á ómenguðum svæðum. Og þó hrossin hafi verið á aldrinum 8 til 26 vetra þegar þau voru felld, er flúormagnið svipað í þeim öllum, sem merkir að þau urðu fyrir flúorálagi á sama tíma.

„Ég hef sjálf látið mæla flúor í grasi og heyi og þær tölur eru til og hægt að nýta þær.“

Jakob og Sigurður eru auðvitað traustir vísindamenn sem forðast upphrópanir en þeir sögðu að það þyrfti frekari rannsóknir, sem eðlilegt er. Eftir að skýrsla þeirra kom út vildi Umhverfisstofnun bæta Kúludalsá inn á vöktunarplan vegna álversins, en þeir gera aldrei neitt með þær niðurstöður sem koma út úr vöktuninni, þannig að ég sá ekki ástæðu til þess að fara á byrjunarreit gagnvart stofnuninni, heldur vildi ég að hún héldi áfram þar sem rannsókn atvinnuvegaráðuneytisins hætti. Ég hef sjálf látið mæla flúor í grasi og heyi og þær tölur eru til og hægt að nýta þær. Í fundargerð sem gerð var um þennan fund stóð hins vegar að ég hefði neitað Umhverfisstofnun um mælingar á bænum. Ég skrifaði þeim strax og bað þá vinsamlegast að segja satt, ég hefði ekki neitað þeim, heldur sagt að ég vildi að þeir héldu fyrrnefndri rannsókn áfram. Umhverfisstofnun tók þessa beiðni til greina. Lögmanni Norðuráls fannst samt bitastætt að taka þessa klausu úr samhengi og leggja hana fyrir Landsrétt og margendurtók þetta atriði. Þannig að ég stend við það að þarna hafi ekki verið heiðarlegur málflutningur heldur reynt að láta minn málstað líta illa út. Þeir hafa ekki neitt á mig og fara þessa lúalegu leið til að finna einhvern höggstað á mér.“

Ragnheiður segist vera ósátt við dóm Landsréttar, telur hann byggja á að málsgögnin hafi ekki fengið hlutlæga meðferð og nefnir annað dæmi. „Í starfsleyfi Norðuráls frá 2003 stendur skýrum stöfum að hreinsibúnaður eigi alltaf að vera í gangi, en í mengunarslysinu lá búnaðurinn niðri í einu hreinsivirkinu í allt að einn og hálfan sólarhring. Þetta er mjög sérkennileg niðurstaða hjá Landsrétti.“

Álverið á Grundartanga. „Svo heyrði ég af tilviljun af mengunarslysi sem hafði orðið í álverinu síðsumars 2006, það hafði ekkert verið sagt frá því,“ segir Ragnheiður. „Það bilaði reykhreinsivirki og búnaðurinn komst ekki í fullt lag fyrr en undir næstu áramót. … Þetta var kallað „slys“ en var í rauninni varla slys þar sem svo langur tími leið þar til búnaðurinn komst í fullt lag.“

Þessi barátta hefur væntanlega litað allt líf Ragnheiðar síðustu árin, er hún ekkert nálægt því að gefast upp?

„Ég hef sem betur fer alltaf getað hlegið og tekið þátt í einhverju skemmtilegu,“ segir hún. „Ég læt þetta ekki draga mig niður í svartnætti, alls ekki. Það sem kannski hefur verið erfiðast er að upplifa að sumir kunningjar, fólk sem þekkir mig, virðist trúa því sem stofnanirnar halda fram, að þetta sé mér að kenna. Það hef ég tekið nærri mér. En þú skalt ekki voga þér að reyna að láta mig líta út eins og eitthvert fórnarlamb í þessu viðtali. Ég er ekki fórnarlamb, ég er baráttukona og ég mun halda áfram að berjast.

„Náttúran og dýrin eru undirstaða búsetu í þessu landi og ég mun halda áfram að taka slaginn fyrir þeirra hönd, svo lengi sem á þarf að halda.“

Álverið hefur haft gríðarlegt olnbogarými hér, á kostnað umhverfisins alls. Ég vil að það verði hægt að stunda búskap á þessu svæði í framtíðinni. Náttúran og dýrin eru undirstaða búsetu í þessu landi og ég mun halda áfram að taka slaginn fyrir þeirra hönd, svo lengi sem á þarf að halda.“

Myndir / Unnur Magna og aðsendar myndir
Myndband / Hallur Karlsson, Hákon Davíð Björnsson og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Öryggi lykillinn að vellíðan flóttafólks

Mynd / Bára Huld Beck

Útlendingastofnun hefur nú leitað á náðir sveitarfélaganna og biðlað til þeirra að gerður verði þjónustusamningur við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Einungis þrjú sveitarfélög á landinu hafa gert slíka samninga.

 

Útlendingastofnun sendi bréf um miðjan mars síðastliðinn til allra sveitarfélaga á landinu til að kanna áhuga þeirra á að gera samning við stofnunina um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sambærilega við þá sem stofnunin hefur nú þegar gert við Reykjavíkurborg, Reykjanesbæ og Hafnarfjarðarbæ.

Samkvæmt Útlendingastofnun taldi ekkert þeirra sveitarfélaga, sem svarað hefur erindinu, sig að svo stöddu í stakk búið til að bætast í hóp sveitarfélaga sem veita umsækjendum um vernd þjónustu en mörg þeirra hafi þó lýst yfir jákvæðri afstöðu til verkefnisins.

Auk Reykjanesbæjar hefur Reykjavíkurborg boðist til að kynna reynslu sína af verkefninu fyrir öðrum sveitarfélögum. Útlendingastofnun hyggst ræða það við dómsmálaráðuneytið hvernig best megi standa að slíkri kynningu fyrir önnur sveitarfélög en ekki er komin tímasetning á hana.

Ísabella Ósk Másdóttir, sérfræðingur á kynningarsviði Rauða krossins, segir að mikilvægast sé að þjónusta við umsækjendur um vernd sé sambærileg óháð því hver veitir hana og því skipti í raun ekki máli í hvaða sveitarfélagi fólk býr. Mismunur í þjónustustigi sé alltaf áskorun líkt og er núna þar sem þjónusta sveitarfélaganna er á mun breiðari grunni en þjónustan sem Útlendingastofnun veitir.

„Það hafa verið gerðar kannanir hjá Rauða krossinum sem gefa vísbendingar um að staðsetning geti haft áhrif á líðan fólks á meðan á málsmeðferð stendur. Það sem er lykilatriði þar, er aðgengið að þjónustu, þ.e. ef aðgengið er skert þá upplifir fólk staðsetningu mögulega sem einangrun og það hefur neikvæð áhrif á líðan og öryggistilfinningu,“ segir Ísabella. En ef þjónustan er góð þá líði fólki eins vel og hægt er miðað við aðstæður. Þau hjá Rauða krossinum sjái til að mynda að fólk sem býr hjá félags- og fjölskylduþjónustu Reykjanesbæjar kvarti ekki undan staðsetningu þar sem öll sú þjónusta sem þau þurfa sé í nærumhverfinu.

Hægt er að lesa fréttaskýringuna í fullri lengd á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Í skýjunum með góðar viðtökur

Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda Hamborgafabrikkunnar segist vera himinlifandi með þær góðu viðtökur sem Stefán Karl – Síðasta kvöldmáltíðin hefur hlotið en um er að ræða nýjung á matseðli sem á sér fallega sögu.

 

„Honum hefur verið tekið gríðarlega vel,“ segir hann. „Enda rosalega góður borgari á ferð, í raun fyrsti almennilega djúpsteikti kjúklingaborgarinn sem við erum með á matseðli. En það sem gerir hann svona sérstaklega góðan er að við notum lærakjöt, sem er bæði feitt og safaríkt, og setjum það svo í nachos- rasp.“

Að sögn Jóhannesar á þessi vel heppnaða nýjung á matseðli sér fallega sögu því borgarinn er samstarfsverkefni sem Hamborgarafabrikkan og Stefán Karl Stefánsson heitinn fóru af stað með. „Forsagan er sú að Stefán stofnaði snjallbýli, Sprettu ehf. fyrir svolitlu síðan. Merkilegt fyrirtæki sem ræktar svokallaðar sprettur sem eru litlar mat- og kryddjurtir sem verða ekki stórar eins og þessar jurtir sem þú sérð í búðum og eru fyrir vikið bragðmiklar og fullar af næringarefnum. Það var útgangspunkturinn í samstarfinu. Stefán langaði að vekja athygli á þessu með því að velja með okkur góðar sprettur á nýjan borgara á Fabrikkunni.“

„ … það sem gerir hann svona sérstaklega góðan er að við notum lærakjöt, sem er bæði feitt og safaríkt, og setjum það svo í nachos-rasp.“

Jóhannes segir að verkefnið hafi hins vegar lagst í dvala þegar í ljós kom að Stefán glímdi við alvarleg veikindi. „Ári eftir að Stefán féll frá hafði Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ekkja hans, samband. Henni fannst kominn tími til að klára verkefnið.“

Kokkateymi veitingastaðarins, undir stjórn Eyþórs Rúnarssonar, hófst því handa með þeim Steinunni Ólínu og Soffíu Steingrímsdóttur hjá Sprettu við að þróa borgarann. Fyrir valinu urðu pikklaðir gulrótarstrimlar og svo tvennskonar sprettur: Klifurbaunagras, sem Jóhannes segir að sé villt spretta sem minni í útliti á hárið á Alberti Einstein og Red Rambo, bragðmikil spretta sem hafi verið í sérstöku uppáhaldi hjá Stefáni, en hún er notuð í botninn á borgaranum og út í majónesið sem útskýrir bleikan lit þess. „Steinunn Ólína bætti svo við uppskrift að döðlu- og lauk-chutney og Eyþór „tvíkaði“ hana aðeins til. Herlegheitin eru síðan borin fram með stökkum frönskum og nýrri tegund af brauði. Útkoman er einn mest seldi borgarinn okkar frá upphafi.“

Stefán Karl – Síðasta kvöldmáltíðin.

Borgarinn ber heitið Stefán Karl – Síðasta kvöldmáltíðin en Jóhannes segir hugmyndina vera frá Stefáni Karli sjálfum komin. „Hann stakk upp á því við okkur. Hann var svo æðrulaus gagnvart dauðanum. Grínaðist með hann alveg fram á síðustu stundu og missti aldrei húmorinn. Okkur finnst því við hæfi að halda heitinu, það er í hans anda.“

Nóg að gera

Hamborgarafabrikkan hefur verið lunkin við að koma með sniðug heiti á rétti sína. Er von á fleiri slíkum á næstunni? „Klárlega. Þetta er eitthvað sem við reynum að gera tvisvar til fjórum sinnum á ári, búa til skemmtilegar tengingar við dægurhetjur og fólk sem Íslendingum þykir vænt um,“ svarar Jóhannes hress í bragði. „Það er þegar kominn langur listi af góðum hugmyndum en ekki búið að negla neitt niður.“

Spurður hvort fleira standi til segir hann að það sé búið að vera í nógu að snúast í sumar. „Það hefur verið líflegt á útisvæði Fabrikkunar við Kringluna, vægast sagt, stappað nánast alla daga, sérstaklega þegar sést til sólar og svo auðvitað hina dagana líka, enda skjólsælt svæði.  Annars er bara bjart fram undan.“

Stúdió Birtíngur
Í samstarfi við Hamborgarafabrikkuna

 

Flottar og vel snyrtar neglur í sumar

Gott er að gefa sér tíma í góða handsnyrtingu endrum og sinnum. Fallega lakkaðar neglur gefa heildarútlitinu mun fágaðra yfirbragð – þær eru punkturinn yfir i-ið.

 

Handsnyrting – Skref fyrir skref  

  1. Byrjaðu á að strjúka yfir neglurnar með asentoni – bæði til að fjarlægja gamalt naglalakk og líka alla olíu á nöglunum, þannig helst naglalakkið lengur fallegt.
  2. Notaðu þjöl á neglurnar til að fá það form sem þér þykir fallegast en gættu þess þjala bara í eina átt til að koma í veg fyrir sprungur.
  3. Næst skaltu leggja neglurnar í bleyti í nokkrar mínútur í volgt sápuvatn til að mýkja naglaböndin. Berðu svo þartilgerða olíu eða á krem á naglaböndin til að mýkja þau enn frekar, nuddaðu vel og notaðu svo naglapinna til að þrýsta þeim niður. Varastu að rífa eða klippa naglaböndin því þau vernda gegn sýkingum.
  4. Gott er að lífga upp á húðina og fjarlægja dauðar húðfrumur með skrúbbi og skola af. Berðu síðan handáburð á hendurnar og leyfðu honum að smjúga inn í nokkrar mínútur. Með því að bera handáburðinn á áður má komast hjá því að naglalakkið klessist. Þurrkaðu neglurnar með rökum klút til að fjarlægja leifar af kremi.
  5. Þá er komið að því að lakka neglurnar. Byrjaðu á undirlakki, gott er að velja til dæmis styrkjandi lakk, og leyfðu því að þorna í eina mínútu. Síðan er komið að lit að þínu vali. Lakkaðu að minnsta kosti tvær umferðir af litaða lakkinu; byrjaðu í miðjunni, strjúktu fyrst upp og svo frá miðju til hliðanna. Leyfðu lakkinu að þorna í tvær mínútur á milli umferða. Að lokum er nauðsynlegt að nota yfirlakk. Þá helst handsnyrtingin falleg og glansandi lengur. Hægt er að fá yfirlökk sem þorna sérstaklega hratt. Gott ráð er að strjúka yfirlakkinu einnig þvert yfir brúnina á nöglunum til að koma í veg fyrir að lakkið brotni upp.
  6. Að lokum er sniðugt að dýfa eyrnapinna eða mjóum bursta í naglalakkseyði og fjarlægja öll þau mistök sem gætu hafa orðið.

Myndir / Unsplash
Texti / Hildur Friðriksdóttir

Þora þingmenn?

Höfundur / Ólafur Stephensen

Virðing Alþingis hefur sjaldan verið minni en á undanförnum mánuðum. Botninum var náð þegar popúlískur smáflokkur hélt þinginu í gíslingu vikum saman með lengsta málþófi þingsögunnar. Þegar við bættist að drjúgur hluti þeirra sem þannig fóru með tíma þingsins hafði skömmu áður orðið sér og vinnustaðnum ærlega til skammar með fylliríisröfli, rembu og fordómum má segja að höfuðið hafi verið bitið af skömminni.

 

Vit á mínútu: Lítið

Orkupakkaumræðan var 138 klukkustundir. Það eru 18,4 vinnudagar venjulegs launamanns. Tæpar fjórar vinnuvikur. Á sínum tíma ræddu þingmenn EES-samninginn allan í 102 klukkutíma áður en hann var leiddur í lög.

Höfundur þessarar greinar lagði það einu sinnig á sig að lesa alla EES-umræðuna í Alþingistíðindum vegna bókarskrifa. Hefði mátt komast af með minna? Alveg örugglega. Á austurríska þinginu var sami samningur ræddur í átta klukkustundir. Í sænska þinginu var umræðan 14 og hálfur tími. Finnskir þingmenn létu sér duga tvo daga til að ræða samninginn, norskir þrjá. Var meira vit á mínútu í þeim umræðum? Ekki nokkur einasti vafi.

Myndum við hafa þau í vinnu?

Það væri ofmælt að segja að orkupakkaumræðan hafi verið innihaldslaus. En innihaldinu hefði mátt koma til skila á tveimur dögum eða þremur í lengsta lagi. Enda voru Miðflokksmenn ekki í málþófinu til að varpa ljósi á eitt eða neitt, heldur til að hindra að sá meirihluti, sem augljóslega er fyrir málinu á Alþingi, fengi sitt fram.

Alþingi er vinnustaður, þar sem allir fá borgað úr vasa skattgreiðenda. Á öðrum vinnustöðum þarf líka oft að ræða málin áður en ákvarðanir eru teknar. Það er óhætt að fullyrða að starfsmenn venjulegra vinnustaða, sem temdu sér annað eins gauf og málalengingar og þvældust með sama hætti fyrir samstarfsmönnum sínum yrðu reknir hratt og örugglega. Kannski er ástæða fyrir því að þingmönnum gengur oft illa að finna vinnu sem þeir telja við hæfi eftir að þingferli þeirra lýkur.

Af hverju sagði enginn stopp?

Alþingi hefur sérstöðu á meðal þjóðþinga að því leyti hvað litlar takmarkanir eru á því hversu oft menn geta kvatt sér hljóðs og hve lengi hægt er að teygja umræður. Í flestum siðuðum ríkjum er málþóf á borð við það sem Miðflokkurinn stundaði í vor bara ekki í boði. Engu að síður er það nú svo að í þingskaparlögum eru ákvæði um að bæði þingforseti og níu þingmenn saman geti lagt til að umræðu skuli lokið. Atkvæði um slíkar tillögur skulu greidd umræðulaust og ræður einfaldur meirihluti því hvort þær eru samþykktar.

Nú var löngu orðið ljóst að allir voru orðnir hundleiðir á málþófi Miðflokksins um orkupakkann, meira að segja hinir stjórnarandstöðuflokkarnir. Af hverju var engin tillaga borin fram um að ljúka umræðunni? Ef ekki í lengsta málþófi sögunnar, hvenær þá?

Svarið er einfalt. Þingmenn þora ekki að skapa slíkt fordæmi af því að þeir vilja ekki hafa af sjálfum sér möguleikann á að beita orðbeldinu (svo fengið sé að láni ágætt nýyrði frá Guðmundi Andra Thorssyni) til að halda löggjafarsamkundunni í gíslingu einhvern tímann í framtíðinni. Reyndar má líka halda því fram að það hefði þótt til marks um hræsni að Steingrímur J. Sigfússon bæri fram slíka tillögu, miðað við sögulega frammistöðu hans í málþófi á árum áður. Blikna þó málalengingar Steingríms og Hjörleifs fóstra hans Guttormssonar í nýjasta samanburðinum.

Atvinnutvískinnungurinn

Hér erum við komin að ákveðnum kjarna málsins; minnisleysinu eða tvískinnungnum sem virðist atvinnusjúkdómur á Alþingi. Stjórnarþingmenn og ráðherrar láta gjarnan stór orð falla um ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar og stjórnarandstaðan um það hvernig stjórnarmeirihlutinn geti komizt upp með hvað sem er og misnoti vald sitt. Um leið og hlutverkin hafa snúizt við er allt gleymt og hvorir um sig taka upp nákvæmlega sömu hætti og þeir gagnrýndu jafnvel bara nokkrum vikum áður.

Eitt eftirminnilegasta dæmið um þetta er þegar úrskurðarnefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu 2011 að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefði brotið jafnréttislög með mannaráðningu. Sjö árum fyrr hafði sama kærunefnd komizt að sömu niðurstöðu í sambærilegu máli, þar sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hafði stigið í spínatið. Þá taldi Jóhanna sjálfsagt og eðlilegt að ráðherra segði af sér, en henni þóttu slíkar kröfur fráleitar þegar hún sat sjálf í súpunni. Sambærileg dæmi eru því miður fleiri en komið verður tölu á.

Skilvirkari vinnubrögð

Ein leiðin til að endurreisa virðingu Alþingis er að alþingismenn láti af þessum dæmalausa tvískinnungi og fari að taka mark á sjálfum sér, jafnvel þótt þeir skipti um hlutverk á þinginu.

Önnur er að bæta vinnubrögðin á þinginu, meðal annars með því að setja skýrar reglur um takmörkun ræðutíma, hversu oft þingmenn geta kvatt sér hljóðs og fjölda andsvara. Þannig væri hægt að gera umræður í þinginu miklu vandaðri, markvissari og skilvirkari. Málþófið ætti að gera útlægt.

Í þriðja lagi þarf að bæta vinnubrögð stjórnarráðsins þannig að stjórnarfrumvörp skili sér tímanlega til þingsins.

Þetta myndi skila því að þingið gæti fjallað jafnt og þétt og skipulega um mál og rætt þau efnislega, í stað þess að fáein mál séu rædd dögum saman og svo séu jafnvel stór og mikilvæg mál afgreidd í kippu, með hraði og á öllum tímum sólarhrings við þinglok án mikillar umræðu eða nauðsynlegrar vinnu í nefndum. Síðarnefndu vinnubrögðin, sem enn eru ástunduð þrátt fyrir ótal heitstrengingar um annað, auka hættu á alls konar mistökum við lagasmíðina. Með þessum breytingum yrði Alþingi skilvirkari vinnustaður og við bærum öll meiri virðingu fyrir stofnuninni og fólkinu sem við höfum þar í vinnu.

Fá lýðskrumarar frítt spil?

Breytingar af þessu tagi eru þeim mun mikilvægari sem hér eru komnir fram á sjónarsviðið lýðskrumsflokkar að evrópskri fyrirmynd. Sagan sýnir að þeir hika ekki við að misnota leikreglur lýðræðisins og nýta sér veikleika í regluverkinu. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir að sjálfsvirðing eða sómakennd sjái til þess að þeir virði óskrifaðar reglur – ramminn verður að vera skriflegur og skýr og úrræði til staðar ef frá honum er vikið. Sá yfirgnæfandi meirihluti Alþingis, sem hafði ímugust á því hvernig málfrelsið var misnotað á þinginu í vor, verður að þora að gera breytingar til að endurreisa virðingu þingsins.

Atvinnuleysi tvöfaldaðist milli ára

Mynd: Rikisendurskodun.is

Sam­kvæmt árstíðaleiðrétt­ingu Hag­stofu Íslands var atvinnuleysi í maí 4,7%. Það eru um 10 þúsund manns. Atvinnuþáttaka var þá 81,1% sem er 1,3% lægra en í apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu Hagstofunnar.

„Samkvæmt óleiðréttum mælingum voru að jafnaði 210.200 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í maí 2019,” segir í tilkynningunni. „Af vinnuaflinu reyndust 197.500 vera starfandi og 12.700 án vinnu og í atvinnuleit.” Hlutfall starfandi var því 77,4% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 6,1%.

At­vinnu­laus­ir í maí 2018 voru um 6.200 manns eða 3% af vinnuaflinu. Það er tvöföldun á milli ára. Alls voru 44.900 utan vinnu­markaðar í maí 2019 en höfðu verið 42.700 í maí 2018.

Skiptir viðurinn og stærðin máli?

Fróðleikur um mismunandi víntunnur og áhrif þeirra á vínið sjálft.

 

Það var fyrst hjá Gaulverjum sem viðartunnan leit dagsins ljós fyrir rúmlega 2000 árum, þá var hún aðallega notuð fyrir mjöð eða öl. Rómverjar, Grikkir og allir sem höfðu þurft að flytja vín á milli staða áður notuðu leirílát, „amfórur“ sem eru að komast aftur í tísku. Tunnugerð hefur verið mjög öflug alla tíð síðan og þessi 2000 ára saga tunnunnar hefur sett sitt mark á nútímavíngerð. Líklega hafa margar mismunandi tegundir af víði verið notaðar og einnig hafa stærðirnar á tunnunum verið mismunandi eftir því hvar þær voru framleiddar enda hafa þær fengið mörg nöfn alla vega í Frakklandi þaðan sem tunnunotkunin er upprunnin.

Viðurinn

Í dag er nánast eingöngu notuð eik í tunnugerð en það hefur ekki alltaf verið tilfellið, allar tegundir sem voru við höndina voru notaðar. Í seinni heimsstyrjöldinni var til dæmis notaður hlynur eða akasíuvíður í Suður-Frakklandi, aðalástaðan fyrir því var sá að norðurhluti landsins var undir hæl Þjóðverja og ómögulegt að ná í eik. Árangurinn var reyndar slakur en ekki hægt að gera annað á þessum tímum.

Í dag er nánast eingöngu notuð eik í tunnugerð.

Á Ítalíu hefur villikirsuberjaviður verið notaður eins og í balsamedik en þó sjaldan. Eikin getur verið frá Frakklandi eða Bandaríkjunum og er munur þar á milli. Franska eikin kemur frá skógum í eign franska ríkisins því hún verður að vera fullþroska þegar hún er notuð en eik getur orðið 250-300 ára gömul og þar þarf að huga að endurnýjun með frekar löngu fyrirvara. Hún er þéttari en ameríska eikin og gefur af sér ristaða bragðtóna í vínið.

Amerísk eik er lausari í sér, með lausari trefjar og gefur meira af sætum vanillu- og kókóstónum. Tunnan er brennd að innan, mismikið en algengast er „medium +“ óalgengt er að óbrennd tunna sé notuð nema með sérmeðhöndlun (t.d. látin liggja í vatni) til að forðast hörðu tannínin.

Stærðin

Allar stærðir eru notaðar, allt eftir því hvað víngerðarmaðurinn velur, hvort hann kýs að hafa mikinn eða lítinn eikarkeim af víninu en það er ekki bara bragðið heldur samsetningu á þrúgunum eða frá hvaða ekrum þrúgurnar koma. Í aldanna rás hafa sum héruð og sérstaklega í Frakklandi, fest sig í ákveðnar stærðir sem allar bera ákveðið nafn.

Algengastar eru þó „barrique bordelaise“ frá Bordeaux sem er 225 lítrar, og „barrique bourguignonne“ sem er 228 lítrar. Önnur nöfn sem heyrast enn mjög víða eru „pièce“ (140-420 l ), „botte/botta“ (450-500 l), „feuillette“ (114-120 l), „muid“ (13-600 l – aðallega í Norður-Frakklandi. Portvínstunnan er kölluð „pipe“ og er 522 l, svo eru tunnurnar sem notaðar eru undir sérrí 600 l. Loks er „foudre“, 1000 l eða meira, sem eru fastir á sínum stað og eru notaðir eins og stál- eða sementstankarnir til að gerja vínið í eða geyma.

Myndir / Unsplash

 

Fjölgun á skráðum kynferðisbrotum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Mikil fjölgun var á skráðum kynferðisafbrotum í maí síðast liðinn. Það má einna helst rekja til aðgerða lögreglunnar í vændismálum. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir maí 2019.

 

Undanfarnar vikur hefur lögreglan verið í sérstökum aðgerðum tengt mansali en vændi er ein af birtingarmyndum þess. Þetta er einn af þeim þáttum í skipulagðri brotastarfsemi sem lögreglan leggur mikla áherslu á.

Mikil fækkun var á skráðum fíkniefnabrotum. Það sem af er ári hafa verið skráð um 10% færri fíkniefnabrot en voru skráð að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár á undan.  Það hafa ekki verið skráð jafn fá fíkniefnabrot síðan apríl 2016. Heilt yfir fækkaði tilkynningum um þjófnað á milli mánaða en tilkynningum um þjófnað á reiðhjólum fjölgaði nokkuð á milli mánaða.

Fjöldi skráðra hegningarlagabrota voru 717 á höfuðborgarsvæðinu í maí. Hann hefur haldist nokkuð stöðugur síðustu þrjá mánuði.

Heitar teskeiðar og laukur í baráttunni gegn lúsmýi

Einn af fáum leiðum fylgikvillum sumarsins eru flugna- og skordýrabitin. Nú þegar ásókn lúsmýs eykst stöðugt hér á landi er vert að kynna sér helstu lausnir til varnar óþægindum.

 

Örfá ár eru síðan fyrsta lúsmýið fannst í Hvalfirði en nú hefur það gert vart við sig á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Sumarbústaðafólk hefur þurft að yfirgefa bústaði sína víða á Suðurlandi vegna ónæðis frá mýinu en stungur þess geta valdið svæsnum ofnæmisviðbrögðum. Til eru dæmi um fólk sem hefur selt sumarbústaði sína vegna faraldursins svo ljóst er að smádýrin valda miklum usla.

Lúsmýið er rúmur millimetri að stærð og sést vart með berum augum en líkist helst frjókornum sem virðast fjúka um loftið en stekkur á menn og dýr, nærist á blóði og skilur svo eftir sig ljót sár. Mýið bítur jafnt utan- sem innandyra og smýgur inn í fatnað sem og í hársvörð svo erfitt er að verjast bitum. Húðin verður rauð, bólgin og hnúðakennd en mikill kláði fylgir í kjölfarið. Að öðru leyti ættu bitsár ekki að valda óþægindum nema viðkomandi hafi ofnæmi fyrir skordýrabiti.

Lúsmýið er rúmur millimetri að stærð og sést vart með berum augum.

Hægt er að taka ólyfseðilsskyld ofnæmislyf við óþægindunum en jafnframt er gott að bera sterakrem á sárin. Vifta í svefnherbergi fælir mýið frá en tvennum sögum fer af því hvort flugnafæla beri árangur á þessa tegund bitdýrs. Ótal húsráð er að finna til að varast pláguna, meðal annars að skera lauk í sneiðar og raða upp í gluggasyllur, tea tree-olía á jafnframt að vera árangursrík ásamt B-vítamíni sem raðað er í kringum rúmið, after bit-pennar og flugnasprey standa jafnframt fyrir sínu en sjóðandi heit teskeið sett á sárið á líka að hjálpa.

Fyrst eftir bit er best að láta sárið í friði og til að draga úr bólgumyndun er gott að kæla með ísmolum í þvottastykki. Hægt er að draga úr kláða með staðdeyfandi kremi. Sé viðkomandi bitinn í munn eða kok getur slímhúð bólgnað og stíflað öndunarveg. Ef útbrot og bólga eykst í stað þess að hjaðna skal alltaf leita læknis.

Flestir verða fyrir skordýrabiti að nóttu til og þegar vafi leikur á um hvers kyns bit sé að ræða er gott að athuga hvort fleiri bit finnist víðar á líkamanum. Flær stinga sem dæmi nokkur bit í senn og þá er hægt að finna bit vítt og breitt um líkamann. Eins er algengt að vera bitinn af hópi mýflugna þegar sofið er við opinn glugga. Besta vörn gegn skordýrabiti er að vera vel klæddur. Síðar ermar, buxur og skór geta komið í veg fyrir bit.

Sítrónur geta kælt og dregið úr kláða.
  • Hunangsflugur, geitungar, flær og mý eru algengust skordýra á Íslandi en sífellt fleiri bætast í hópinn ár hvert.
  • Best er að fjarlægjast býflugur- eða geitunga með því að ganga hægt í burtu. Varist að slá til flugna því þannig eykst hættan á að þær bregðist við með árás.
  • Moskítóflugur finnast alls staðar í veröldinni, mest þar sem hiti og raki er mikill og allra mest í fenjum og mýrum.
  • Nuddið ferskri sítrónu eða eplaediki á stungusvæðið, það kælir, sótthreinsar og slær á kláða.
  • Smyrjið tannkremi á sárið og látið þorna í um það bil hálftíma.

Þingkona Sjálfstæðisflokksins æst í að einkavæða Íslandspóst: „Þó fyrr hefði verið“

Mynd: Althingi.is

„Mikið er ég sammála og þó fyrr hefði verið segi ég nú bara,” skrifar Bryndís Haraldsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, á Facebook. Hún tekur hér undir Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, sem vill selja Íslandspóst sem fyrst. 

„Ég skil ekki af hverju ríkið á flutningafyrirtæki,” skrifar Bryndís og bætir við: „En það er það sem Íslandspóstur raunverulega er.” Alþingi veitti félaginu lán í september 2018 til að bregðast við greiðsluvanda. Alls 500 milljónir króna á 6,2% vöxtum til eins árs. Uppsafnað tap Íslandspóst milli 2013-2018 er 246 milljónir króna samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðanda á rekstri Íslandspósts ohf. 

„Ég átta mig á því að það er ekki virk samkeppni í öllum þeim þjónustuþáttum sem Íslandspóstur veitir og auðvitað þurfum við að tryggja dreifingu um land allt.” skrifar Bryndís. Fjárhagsvandi Íslandspósts ohf. stafar meðal annars af því að dreifing pakkasendinga frá útlöndum hefur reynst félaginu kostnaðarsöm. Þá hefur samdráttur í bréfsendingum ekki fengist að fullu bættur með hækkun á gjaldskrá. Heildarfjárfestingar félagsins á árinu 2018 voru of miklar miðað við greiðslugetu þess.

„Það er hægt að gera með útboði þar sem einkaaðilar geta leitað hagkvæmustu og bestu leiðanna til að veita góða þjónustu á þess sviði,” bætir Bryndís við að lokum.

Bjarni vill selja Íslandspóst sem fyrst

„Þegar búið er að koma lagaumgjörð um þessa starfsemi í betra horf, eins og við höfum verið að gera núna, þá sé ekkert því til fyrirstöðu að ríkið selji þennan rekstur,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, m.a. í viðtali við Fréttablaðið. „Hins vegar held ég að það hafi ekki verið aðstæður til þess undanfarin misseri eða ár að hefja undirbúning að slíkri sölu vegna þess hvernig reksturinn hefur gengið.”

„Okkur er það ljóst núna að til dæmis alþjónustukvöðin sem hvílt hefur á fyrirtækinu hefur ekki verið nógu vel fjármögnuð sem birtist meðal annars í nýlegum úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunar,“ sagði Bjarni. Ríkisendurskoðandi telur að félagið megi ganga lengra í hagræðingu í starfsemi sinni. Þá megi sameina betur dreifikerfi bréfa og pakka í þéttbýli í stað þess að reka þar tvöfalt dreifikerfi

Aðstoðarkona Bjarna sat í stjórn Íslandspósts

Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, sat í stjórn Íslandspósts frá 2014 þar til nú í vor og var lengst af varaformaður stjórnar. Þrátt fyrir það kemur fram í skýrslu ríkisendurskoðunar að fjármálaráðuneytið hafi ítrekað kallað eftir greiningum og upplýsingum um málefni Íslandspósts án þess að greiningarvinnan skilaði sér til ráðuneytisins.

Stjórnendur Íslandspóst tregir til að veita Ríkisendurskoðun svör

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, bendir á í grein sem hún birti í Morgunblaðinu á dögunum að stjórn Íslandspósts hafi dregið að veita Ríkisendurskoðun svör við fyrirspurnum og beinlínis óskað eftir því að Ríkisendurskoðun haldi upplýsingum frá Alþingi.

„Skýrsla rík­is­end­ur­skoðunar er væg­ast sagt svört og því má velta fyr­ir sér hvort fé­lagið sé heppi­legt til samn­inga­gerðar við ríkið,“ skrifar Helga Vala. „Öllum var kunn­ugt um bága fjár­hags­stöðu fé­lags­ins enda hafði Alþingi samþykkt að lána hinu ógreiðslu­færa op­in­bera hluta­fé­lagi 1.500 millj­ón­ir króna á fjár­lög­um þessa árs til að fé­lagið gæti sinnt sinni grunn­skyldu, að koma bréf­um og böggl­um milli húsa.

Alþingi var hins veg­ar ekki kunn­ugt um hvernig á því stóð að fé­lagið stóð svona illa né var það upp­lýst um hver aðdrag­andi þess var utan ein­staka skýr­ing­ar stjórn­enda. Þá var einnig óljóst hver bar ábyrgð, hvað stjórn fé­lags­ins vissi um ástandið og hvað ráðuneyt­in tvö sem með mál­efni fé­lags­ins fara, fjár­málaráðuneytið og sam­gönguráðuneytið vissu um stöðu fé­lags­ins,“ skrifaði hún meðal annars.

Smáforrit um útilistaverk í Reykjavík

Nýtt ókeypis smáforrit um útilistaverk frá Listasafni Reykjavíkur.

Listasafn Reykjavíkur hefur sett á laggirnar smáforrit þar sem hægt er á einfaldan og skemmtilegan hátt að fræðast um öll útilistaverk sem Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með í borgarlandinu ásamt fleiri verkum.

Forritinu má hlaða niður endurgjaldslaust í snjalltæki, bæði fyrir iOS og Android stýrikerfi. Forritið er bæði á íslensku – Útilistaverk í Reykjavík og ensku – Reykjavík Art Walk – allt eftir stillingu snjalltækisins.

Í forritinu er hægt að skoða myndir, lesa texta og hlusta á hljóðleiðsagnir ásamt því að fara í skemmtilega leiki. Forritið má nálgast það bæði í App Store og í Google Play. Það hentar bæði fyrir börn og fullorðna.

 

64% nýrra íbúða óseldar

Einungis þriðjungur nýrra íbúða í miðborginni hefur verið seldur. Um 330 af 519 íbúðum eru óseldar sem er um 64% af framboðinu. Fjárfestar hafa endurmetið stöðuna og telja möguleika á minni hagnaði vegna dræmrar sölu.

 

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu. Einn fjárfestir miðar við að sala taki 18 mánuði vegna aðstæðna. Fyrri áætlun stóð í 12 mánuðum. Töfunum gæti þá fylgt mikill vaxtarkostnaður.

Þær 330 íbúðir sem eru til sölu eru í tíu nýjum fjölbýlishúsum í miðborginni. Fyrstu íbúðirnar komu á markað árið 2017. Búist er við 240 nýjum íbúðum á markaðinn á næstunni. Meirihluti þeirra verða tilbúnar í sölu á næstu 12 mánuðum.

Þá eru hátt í tvö þúsund íbúðir á teikniborðinu og hafa þær allar verið settar á ís.

Umdeilt myndband Madonnu á að vekja fólk til umhugsunar um skotárásir

Mynd / EPA

Madonna sendi frá sér umdeilt myndband í gær sem er ádeila á skotárásir og byssulöggjöf Bandaríkjanna.

 

Tónlistarkonan Madonna segir að umdeilt tónlistarmyndband við lag hennar God Control eigi að vekja fólk til umhugsunar. Myndbandið birtist á Youtube-síðu Madonnu í gær og síðan þá hefur hún hlotið mikla gagnrýni frá fólki sem þykir myndbandið of gróft. Madonna hefur þó einnig hlotið mikið lof fyrir myndbandið. Í myndbandinu má sjá fólk skotið til bana á skemmtistað.

Tónlistarmyndbandið hefur vakið reiði meðal þeirra sem lifðu af skotárás sem gerð var á skemmtistaðnum Pulse í Orlando í júní árið 2016. Þar létust 49 og tugir særðust. Patience Carter er ein þeirra sem lifði af. Hún segir nýja myndband Madonnu svo sannarlega vera óhugnanlegt. „Ég gat ekki hoft á meira en 45 sekúndur,“ skrifaði Carter á Twitter. Hún tekur þó fram að hún kunni að meta tilraun Madonnu til að vekja athygli á málstaðnum.

Viðbrögð Madonnu við gagnrýninni er að benda á að tilgangur myndbandsins sé að vekja fólk til umhugsunar um skotárásir og byssulöggjöf. Í viðtali við People segir hún skotárásir vera stærsta vandamál Bandaríkjanna. „Ég gerði þetta myndband til að vekja athygli á þessu vandamáli sem þarf að taka á. Ég þoli þetta ekki lengur.“

Myndband Madonnu við lagið God Control má sjá hér fyrir neðan.

„Betra að hafa elskað og misst en aldrei elskað“

Leiðari úr 25. tölublaði Vikunnar 2019.

Fyrirsögn þessa pistils er upprunalega línur úr ljóði eftir Alfred Tennyson en hann þekkti sannarlega bæði ást og missi. Fjölskylda hans átti í miklum erfiðleikum einkum vegna þunglyndis og drykkjuskapar föður hans og þrír bræður Alfreds stríddu einnig við andleg veikindi. Ungur missti Alfred besta vin sinn og stuðningsmann, Arthur Hallam, og var eftir það mjög brotinn. Hann varð ástfanginn af Emily Sellwood en faðir hennar taldi bóhemískan lífsstíl skáldsins ekki sæmandi dóttur sinni svo elskendurnir skrifuðust á í leyni árum saman. Þau fengu loks að giftast og hjónabandið varð hamingjuríkt. Ljóðið In Memoriam þar sem þessar línur koma fyrir er ort í minningu Arthurs og þessi orð hans urðu strax fleyg. Skiljanlega því þau tala beint inn í hjörtu allra þeirra sem hafa misst ástvin og syrgja.

Huggunin í djúpri sorg felst alltaf í minningunum, í krafti þeirra tilfinninga sem manneskjan bar í brjósti. Anna Lilja Flosadóttir grípur einmitt til þeirra í forsíðuviðtali við Vikuna. Hún missti mann sinn, Eirík Inga Grétarsson, ótímabært úr ósæðaflysjun, sjaldgæfum sjúkdómi sem læknar hér hefðu átt að greina en gerðu ekki.

Lát hans var ekki síður sorglegt vegna þess að þau höfðu gengið í gegnum mikla fjárhagsörðugleika vegna vanefnda annarrar manneskju og ekki bætti hrunið úr skák. Þau misstu í raun allt sitt. Þótt vissulega sé ekki hægt að bera saman hluti og fólk er samt gríðarlegt áfall að fara úr efnahagslegu öryggi og velgengni til fátæktar á örfáum mánuðum. Það er óskaplega slítandi og erfitt að vita ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér og hafa ekki hugmynd um hvort maður nái að mæta nauðþurftum sínum. Allt þetta hafði ekki góð áhrif á heilsu Eiríks. Læknarnir töldu að um magabólgur væri að ræða og sendu hann því ekki í frekari rannsóknir eins og hefði þurft.

Eftir mikið basl og erfiðleika ákváðu hann og Anna Lilja að flytja til Spánar. Þar væri ódýrara að lifa og þau sáu fram á streituminna líf. Fjórum dögum eftir að þau lentu var Eiríkur allur. Kona hans sneri allslaus aftur heim og er enn að vinna úr áfallinu. Að sögn hefur hún notið velvildar og styrks frá mörgum en íslenskt velferðar- og heilbrigðiskerfi brást bæði seint og illa við. Hún er þó loks komin með öruggt húsaskjól og það er vissulega framför. Landlæknir hefur fjallað um mál Eiríks og það er hans mat að læknarnir hafi átt að senda hann áfram til frekari greiningar fremur en skrifa einkennin á meltingartruflanir. Kannski er ekki undarlegt þótt Anna Lilja sé reið og finnist að hefði mátt koma í veg fyrir lát manns hennar. En það er engu að síður staðreynd og hennar bíður það verkefni að sætta sig við orðinn hlut og leita huggunar í að hafa upplifað heita ást.

Sjá einnig: Draumurinn varð að martröð

Villhjálmur Bretaprins: „Fullkomnlega sáttur ef börnin mín eru samkynhneigð“

||
||

„Ég er fullkomnlega sáttur ef börnin mín eru samkynhneigð,” sagði Vilhjálmur Bretaprins í heimsókn sinni til LGBT-góðgerðasamtaka í London.

„Ég styð börnin mín í öllu sem þau gera en það er erfitt að sjá allar þær hindranir, hatur og fordóma sem þau gætu orðið fyrir,” hefur breska blaðið The Guardian eftir Villhjámi. Hann segir þau Katrínu hertogaynju hafa rætt þessi mál og þá fordóma sem hinsegin fólk verður fyrir.  Prinsinn nefnir árás sem tvær konur urðu fyrir í London nýlega. Árásin átti sér stað í strætó í London fyrr í mánuðinum. Hópur manna réðst á tvær konur á heimleið eftir gleðigöngu því þær neituðu beiðni þeirra um að kyssast. „Mér blöskraði við þessu,” sagði Vilhjálmur. 

„Ég hef áhyggjur af þeim fordómum sem börnin yrðu fyrir og hversu erfiðara lífið þeirra myndi verða,“ segir Vilhjálmur. Hann segir stöðu barna sinna valda honum áhyggjum. Þau séu opinberar pesónur og því fylgi mikil streita.

Albert Kennedy Trust (Akt) eru góðgerðasamtökin sem Vilhjálmur heimsótti. Þau aðstoða ungt fólk sem hefur misst heimili sitt sökum kynhneigðar.

Raddir