Laugardagur 27. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Dreymdi alltaf um að fá Rut Kára til að hanna heimilið sitt

Hannes Steindórsson er löggiltur fasteignasali hjá Lind fasteignasölu. Hannes er einn af eigendum fasteignasölunnar. Hann býr með Lísu Maríu Markúsdóttur viðskiptafræðingi og á þrjú dásamleg börn, Evu Nadíu, þriggja ára frekjudós að hans eigin sögn, Steindór Örn, tíu ára fótbolta- og fimleikastrák og Söru Nadíu, tólf ára „going on 16“ fótboltastelpu. Hannes er Kópavogsbúi og býr í Þrymsölum 16 Kópavogi.

Hvað heillar þig mest við starfið?  „Fjölbreytileikinn og fólkið, er á tuttugu og þriggja manna vinnustað og vinn með frábæru fólki, hef unnið með sama fólkinu í tíu ár eða meira, vinn með vinum mínum, hitti nýtt fólk alla daga ársins og alltaf ný og ný verkefni. Fasteignasalar hitta eitt til tvö þúsund manns á ári hverju sem tengist vinnu þeirra. Svo er alltaf rosalega gaman að selja fyrstu kaupendum, alltaf svo mikil spenna að fá sitt fyrsta heimili.“

Getur þú lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér? „Vakna kl 07:00, keyri yngstu dóttur mína í leikskóla og stóru börnin í skóla, mæti í vinnu vanalega um 08.30. Byrja alla daga á að svara póstum gærkvöldsins og fer yfir plan dagsins, vanalega er ég á skrifstofunni fyrir hádegi og svo sýni ég eignir og skoða eignir ásamt að fara á fundi eftir hádegi. Vinnudagurinn er oftast til 18:00, þá reyni ég að fara út að hjóla eða í ræktina.“

Hannes Steindórsson er löggiltur fasteignasali

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili? „Það er fjölskyldan, fólkið, minningarnar, sagan, gömul húsgögn með sögu og svo margt, margt fleira.“

Geturðu líst þínum stíl?  „Minn stíll er frekar einfaldur, fáir hlutir, lítið dót, stílhreint, hlýlegt.“

Áttu þinn uppáhalds arkitekt? ,,Í raun ekki er mjög hrifinn af mörgum, Sigvaldi var rosalega flottur og margir góðir á Íslandi, ég er hrifinn af einfaldri hönnun og góðu skipulagi, mér finnst til dæmis nýjar íbúðir í dag margar hverjar mjög vel nýttar.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð? „Í dag er ég mjög hrifinn af Berglindi Berndsen og Hönnu Stínu Ólafsdóttur, mig dreymdi alltaf líka um að fá Rut Kára til að hanna heimilið mitt en það eru svo margir góðir á Íslandi.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Mig dreymir um að eiga gufubað og heitan pott á heimilið, sé fyrir mér að koma heim eftir langan vinnudag og fara í gufu.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Ég held að uppáhaldsliturinn minn sé rauður.“

Að leggjast í sófann hjá mömmu er best

 Hvar líður þér best? „Heima hjá mér með fólkinu mínu (klassískt svar). Mér líður alltaf vel hjá mömmu og pabba, að fara í heimsókn og leggjast í sófann hjá mömmu er best. Mér líður líka mjög vel í vinnunni og á fjallahjóli einn í miðjum skógi eða á skíðum.“

Nú er sumarið komið og margir huga að garðinum, er eitthvað sem þig langar að eignast í garðinn?  „Er mjög lítill garðyrkjumaður, slæ garðinn það er allt sem ég geri þar, ef ég fengi mér blóm sem þyrfti að hugsa um þá myndu þau visna fljótt.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Margir svo góðir í dag.

Grillmarkaðurinn er alltaf svalur, Ghandi er einn af mínum uppáhalds. Besti matur sem ég hef fengið nýlega var á Bastard (gamla Vegamót).“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar?  „Stílhreint og einfalt finnst mér alltaf fallegast.“

Að lifa lífinu lifandi er að … „vera allskonar, gera allskonar og njóta.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir

 

Allir sem einn dagurinn  – leikgleðin í fyrirrúmi og allir brostu breitt

Allir sem einn dagurinn sem er knattspyrnuhátíð KR í samstarfi við Alvogen fór fram á dögunum og var þátttakan með besta móti. Mikið var um dýrðir og  heppnaðist dagurinn afar vel í alla staði.

Fjölskyldur flykktust að og tóku þátt, allir voru með, foreldrar, börn og aðstandendur.

Fjölskyldur flykktust að og tóku þátt, allir voru með, foreldrar, börn og aðstandendur. Góðir gestir komu í heimsókn, meðal annars Ari Ólafsson sem tók lagið við mikinn fögnuð viðstaddra, landsliðsgestir komu í heimsókn, Rúnar Alex, landsliðsmarkmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sem er á leiðinni á HM til Rússlands og boðið var upp á fyrirlestur fyrir foreldra sem Brynjar Þór og Þórunn Helga fluttu. Allir iðkendur voru leystir út með gjöfum, glæsilegum fótbolta frá Alvogen. Boðið var upp á grillaðar pylsur sem runnu ljúft ofan í maga gesta.

Við hittum tvo af skipuleggjendum dagsins, Sigurð Örn Jónsson, formann Barna- og unglingaráðs KR (BUR), og Kristján Schram sem einnig er í ráðinu ásamt öðru góðu fólki og spurðum þá spjörunum úr um markmiðið dagsins og yfirskriftina.

Góðar fyrirmyndir í hnotskurn
Hvert er markmið ykkar með því að halda þennan dag, Allir sem einn? „Markmiðið er skemmta og fræða unga iðkendur knattspyrnu hjá KR.  Yngstu iðkendurnir byrja daginn með því að fara í skemmtilega knattþrautir og leiki með leikmönnum meistaraflokkanna beggja.  Þar fá þeir að leika sér með þeim leikmönnum sem þeir líta upp til og eru fyrirmyndir þeirra.  Eldri iðkendur fá fræðslu um ýmis mál – mataræði, sálfræði, uppbyggilegan lífsstíl, að vera góður liðsfélagi, að spila knattspyrnu erlendis og fleira.

„Þessi dagur væri klárlega ekki haldinn án þeirra stuðnings.  En þeir eru miklu meira en stuðningsaðili því þeir hafa einnig mjög sterkar skoðanir á hvað er gert á deginum og hvernig hann er skipulagður …  Þetta er ekki bara enn einn skemmtidagurinn heldur er það fræðslan sem aðgreinir hann frá öðrum svipuðum atburðum.“

Foreldrar eru einnig hvattir til að vera með sínum börnum í báðum þessum hluta dagsins – þeir geta grætt jafnmikið á þessum degi og börnin í skemmtun og fræðslu. Svo eru alltaf skemmtiatriði og Alvogen hefur ár hvert gefið mjög glæsilegar gjafir til allra iðkenda.“

Góðir gestir komu í heimsókn, meðal annars Rúnar Alex, landsliðsmarkmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sem er á leiðinni á HM til Rússlands.

Fræðslan í forgrunni
Alvogen hefur styrkt þennan dag, getið þið aðeins sagt okkur frá ykkar samstarfi og hversu lengi Alvogen hefur tekið þátt í þessum degi með ykkur?  „Þetta er fjórða árið sem þessi dagur er haldinn.  Þessi dagur væri klárlega ekki haldinn án þeirra stuðnings.  En þeir eru miklu meira en stuðningsaðili því þeir hafa einnig mjög sterkar skoðanir á hvað er gert á deginum og hvernig hann er skipulagður.  Til dæmis er fræðsluhluti dagsins að mestu kominn frá þeim og við teljum núna að það sé einn mikilvægasti hluti dagsins og gefur deginum mun meiri vigt fyrir vikið.  Þetta er ekki bara enn einn skemmtidagurinn heldur er það fræðslan sem aðgreinir hann frá öðrum svipuðum atburðum.“

Þátttakan var með besta móti.

Heppin að búa yfir sterkum kjarna foreldra
Hvernig gengur almennt að fá foreldra og velunnara til að taka þátt í starfi félagsins?  „Við erum heppin í Vesturbænum að búa að því að hafa sterkan kjarna foreldra sem er virkur í KR-starfinu.  Auðvitað mætti hópurinn vera stærri en við fáum alltaf jákvæð svör við hverri fyrirspurn um aðstoð á degi sem þessum.“

Ari Ólafsson tók lagið við mikinn fögnuð viðstaddra,

Getið þið aðeins sagt okkur frá dagskrá dagsins, hvað var um að vera og hvernig var þátttakan? „Fyrir utan knattþrautir fyrir yngstu iðkendurna þá talaði Brynjar Þór, fyrirliði fimmfaldra Íslandsmeistara KR í körfubolta, um hvernig maður verður rað-Íslandsmeistari. Það gerist hvorki bara á einni nóttu né án sérstaks undirbúnings.  Svo talaði Þórunn Helga, fyrirliði meistaraflokks kvenna í knattspyrnu, um hvernig sé að spila knattspyrnu erlendis og hvernig sé hægt að undirbúa sig undir það.  En hún spilaði háskólabolta í Bandaríkjunum og svo í mörg ár í Brasilíu og Noregi eftir það.“

Krakkarnir skemmtu sér konunglega.

Sjáið þið fyrir ykkur að þessi dagur eigi eftir að blómstra enn frekar í framtíðinni, innan félagsins?  „Klárlega. Við vildum gjarnan að aðrar deildir komi að þessum degi fyrir utan knattspyrnuna til að gera hann enn stærri, en um fimm hundruð manns koma árlega,“ segja þeir félagar glaðir í bragði.

Mikið var um dýrðir og  heppnaðist dagurinn afar vel í alla staði.


Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

Viðskiptavinir skapa sín eigin listaverk

Þrjú ár eru nú síðan þau Herdís Arnalds og Marinó Páll Valdimarsson stofnuðu Literal Streetart sem eru borgar -og götumyndir. Síðustu mánuði hafa þau svo unnið hörðum höndum af nýrri afurð sem þau nefna Codeart en hún samanstendur af einfaldri línuteikningu með sérstakri merkingu hvers viðskiptavinar.

„Hugmyndin að Literal Streetart kviknaði þegar við vorum á rölti í gegnum IKEA og sáum götukort af stórborgum á við London og Tokyo til sölu,” segir Marinó og heldur áfram. „Við stunduðum bæði nám erlendis í litlum bæjum í Evrópu og Bandaríkjunum og áttum erfitt með að finna svipuð kort af bæjunum okkar.

„Við fórum því í það að hanna kort af okkar eigin bæjum og gáfum ættingjum og vinum kort af sínum heimaslóðum eða stöðum sem því þótti vænt um.”

„Eftir góðar móttökur hófumst við síðan handa við að búa til vefsíðu sem gerði hverjum sem er kleift að hanna frá grunni kort af uppáhaldsstaðnum þínum. Kortin hafa slegið
í gegn á Íslandi og hafa pantanir af nánast hvaða smábæ á landinu borist til okkar.

Nýju vöruna köllum við Codeart vegna þess að þú skapar listaverkið í samvinnu við tölvukóða.” Fyrsta serían af Codeart ber nafnið Ráf og samanstendur af einfaldri línuteikningu sem riðlast af handahófskenndu ráfi þúsunda lína. Þú velur orð eða setningu sem hefur sérstaka merkingu fyrir þig. Innsláttur þinn er síðan dulkóðaður og gerður að algjörlega einstökum kóða sem tryggir það að myndin þín verður einnig einstök. Inni á vefsíðunni okkar www.literalcodeart.com getur þú prófað að búa til þitt eigið verk og séð hvernig orðin þín verða að fallegu listaverki.”

Viðtalið í heild má lesa í 21. tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Hallur Karlsson.

Góð upplifun og leiðsögn í leiðinni

Sveitabærinn Hraðastaðir nýtur sívaxandi vinsælda en hann er staðsettur rétt fyrir utan borgarmörkin eða við Mosfellsdal. Undanfarin ár hefur starfsemi bæjarins breyst mikið en í dag er þar starfræktur húsdýragarður og hestaleiga, en síðastliðin fjögur ár hafa systurnar Linda og Sara staðið fyrir svokölluðum sveitasælunámskeiðum ætluðum börnum frá sex ára aldri.

Námskeiðin hafa notið mikilla vinsælda en þar gefst krökkum kostur á að kynnast sveitalífinu og annast dýrin á bænum.

Námskeiðin standa yfir í þrjár klukkustundir, fimm daga í senn en algengt sé að krakkar komi á fleiri en eitt námskeið yfir sumartímann. Linda ítrekar mikilvægi þess að börnin læri að meðhöndla dýrin rétt frá fyrstu kynnum. „Krakkarnir fá strax leiðsögn í því hvernig best sé að halda á smádýrunum en við erum bæði með kanínur og kettlinga ásamt stærri dýrum. Auk þess læra þau að fóðra öll dýrin, moka undan þeim og kemba hestunum. Krakkarinir fá jafnframt góðan tíma á hverjum degi til að vera saman og halda á dýrunum og fara í leiki ef þeir vilja. Hvert barn fær að fara tvisvar á hestbak á hverju námskeiði. Að okkar mati er þetta góð upplifun fyrir krakkana og fá þeir að kynnast allskyns dýrum og sveitalífinu ásamt því að eignast nýja vini. Við tökum fullt af myndum fyrir foreldrana auðvitað með leyfi þeirra og birtum þær inná facebook síðunni okkar og instagram undir notendanafninu hradastadir.”

Viðtalið í heild má lesa í 21. tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Ferðaþjónustuaðilar bera ábyrgð ef eitthvað bjátar á

|
|

Formaður félags leiðsögumanna segir það á ábyrgð fyrirtækja sem standa fyrir skipulögðum ferðum ef eitthvað komi upp á. Nýverið kom upp atvik þar sem fyrirtæki fór ekki að settum reglum.

Indriði H. Þorláksson, formaður Félags leiðsögumanna. Mynd / Skjáskot tekið úr viðtali í Kastljósinu.

Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri sem nýverið tók við sem formaður Félags leiðsögumanna, segir að ef eitthvað komi upp á í skipulögðum ferðum sé það á ábyrgð þeirra sem að þeim standi. Hann leggur áherslu á að fyrirtæki í ferðaþjónustu verði að gera sér grein fyrir ábyrgðinni sem á þeim hvílir. „Það gildi engin lög um réttindi eða kröfur gerðar til þeirra sem vilja kalla sig leiðsögumenn,“ nefnir hann sem dæmi. „Í raun getur sá sem skipuleggur og selur ferðir dubbað hver sem er upp sem leiðsögumann.“

„Viðkomandi fyrirtæki sem gerir ferðina út er líka ábyrgt fyrir athöfnum þeirra sem það ræður til starfa.“

Á sunnudagskvöld hafði Varðskipið Týr afskipti af farþegabát hvalaskoðunarfyrirtækisins Láki Tours austur af Rifi, en fyrirtækið gerir út frá Snæfellsnesi. Leyfi var fyrir 30 manns í bátnum en um borð voru 40 farþegar og fjögurra manna áhöfn, að því er fram kom í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Gísli Ólafsson, skipstjóri og eigandi fyrirtækisins, lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að hann hafi sótt um tryggingu eins og alltaf fyrir 45 farþega á bátinn en tryggingafélag hans sent inn vitlausa tilkynningu til samgöngustofu. Fyrirtækið sé með leyfi fyrir 45 manns en 40 hafi verið um borð. En í tilkynningu Landhelgisgæslunnar segir enn fremur að tveir af fjórum í áhöfn hafi ekki verið lögskráðir og enginn þeirra með réttindi til að gegn stöðu vélstjóra.

Gísli skipstjóri er sjálfur með vélstjóra- og skipstjóraréttindi fyrir báta að 12 metrum. Báturinn sem Landhelgisgæslan stöðvaði var hins vegar fjórum metrum lengri. Gísli sagðist vera með réttindi fyrir stærri báta en hafi átt eftir að fá skírteinið afhent. Hann sagði mistökin liggja hjá Samgöngustofu en lögskráningarkerfið hafi legið niðri um helgina. Hann tók fram í samtali við mbl.is að farþegar hafi ekki verið í neinni hættu.

Indriði áréttar ábyrgðarhluta fyrirtækja í ferðaþjónustu. „Það er ekki ábyrgðarlaust að ráða til starfa fólk án þess að vita hvort það er fullfært um að gegna því hlutverki sem það er ráðið til. Viðkomandi fyrirtæki sem gerir ferðina út er líka ábyrgt fyrir athöfnum þeirra sem það ræður til starfa,“ segir hann og bendir á að leiðsögumenn og fyrirtækin séu ábyrg fyrir þeim sem þeir leiðsegja. „Að þessu leyti er staðan í ferðaþjónustu arfaslök. Engar reglur gilda. Það eru til skólar sem útskrifa leiðsögumenn og miða við ákveðinn staðal sem er viðurkenndur í Evrópu. En það er engin kvöð sem hvílir á þeim sem ráða leiðsögumenn að ráða þá í þjónustu sína. Þeir hafa algjörlega frjálsar hendur. En þótt þetta sé ekki niðurskrifað í lögum þá eru almenn ábyrgðarsjónarmið fyrir hendi í ferðaþjónustu,“ segir Indriði

Ekki náðist í Samgöngustofu vegna málsins.

Lögreglustjóri segir að verklagsreglum lögreglu hafi verið breytt

|||
|||

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir verklagsreglum hafa verið breytt nýlega sem leggi skýrari línur um hvernig bregðast skuli við þegar að lögreglufulltrúar fá á sig kæru um alvarlega glæpi á borð við kynferðisbrot gagnvart börnum.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.

Halldóra Baldursdóttir, móðir stúlku sem kærði lögreglumann fyrir kynferðisbrot, gagnrýndi vinnubrögð lögreglunnar í ítarlegu viðtali í Mannlífi í síðustu viku. Sakborningnum var t.a.m. ekki vikið úr starfi meðan á rannsókn stóð og telur Halldóra brotalamir á allri málsmeðferðinni.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“

Hún skýrði meðal annars frá því í viðtalinu að þegar aðstæður í sumarbústaðnum þar sem brotin fóru fram voru loks rannsakaðar hafi lögreglumaðurinn, sakborningurinn sjálfur, farið á vettvang með rannsakendum. Að sögn núverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins er það ekki venjan. „Lögregla rannsakar venjulega brotavettvang án þess að sakborningar eða vitni séu viðstödd, en undantekningar kunna að vera á því,“ segir Sigríður Björk.

Þá gagnrýndi Halldóra að lögreglumaðurinn skyldi fá að starfa áfram, og það í sama sveitarfélagi og þær mæðgur bjuggu, þrátt fyrir þrjár kærur um kynferðisbrot gagnvart ungum stúlkum. „Reglur hvað þetta varðar hafa tekið breytingum á undanförnum árum en í dag er þetta mat í höndum lögreglustjóra,“ segir Sigríður. „Hjá LRH er það verklag að öll mál af þessu tagi eru skoðuð og farið yfir málsatvik og tiltækar upplýsingar sem Embættið hefur rétt á að fá. Ef kæra berst á hendur lögreglumanni þá er það metið í hverju tilviki fyrir sig hvort rétt sé að færa viðkomandi til í starfi, leysa viðkomandi tímabundið undan starfsskyldum eða veita viðkomandi lausn frá embætti um stundarsakir á grundvelli tiltækra gagna. Lausn frá embætti um stundarsakir er endurskoðuð af svokallaðri 27. greinar nefnd, en einnig hefur það gerst að samhliða því er slík ákvörðun kærð til fagráðuneytis. Ef rannsókn leiðir ekki til ákæru og viðkomandi metur það svo að á honum hafi verið vikið að ósekju, er unnt að stefna viðkomandi stofnun fyrir dóm og óska skaðabóta.“

Fái lögreglumaður hins vegar fangelsisdóm er skýrt kveðið á um að hann fái ekki að halda starfi sínu.

„Lögregla rannsakar venjulega brotavettvang án þess að sakborningar eða vitni séu viðstödd.“

Lögreglumanni ber að meta eigið hæfi

Lögreglumaður sem kærður hefur verið fyrir kynferðisbrot geti þó áfram starfað við rannsóknir á kynferðisbrotamálum og gæta þurfi varúðar þegar lögreglumenn séu færðir til í starfi. „Sé mál gegn lögreglumanni fellt niður eða hann sýknaður í dómi þá á hann rétt á að halda sínu starfi enda er hver sá maður sem borinn er sökum saklaus uns sekt er sönnuð. Hingað til hefur sú framkvæmd verið viðurkennd að forstöðumaður geti fært starfsmenn í aðrar deildir eða önnur verkefni, svo fremi að launakjör og stöðuheiti séu óbreytt. Eitt mál er nú fyrir Hæstarétti þar sem mun reyna á þessi ákvæði en framkvæmdin var staðfest fyrir héraðsdómi,“ bendir Sigríður á.

Halldóra lýsti því enn fremur hvernig hún nýlega var sett í óþægilega stöðu þegar hún óskaði eftir aðstoð lögreglu og lögreglumaðurinn sem dóttir hennar hafði kært fyrir kynferðisbrot mætti á vettvang. Á jafnlitlu landi og Íslandi eru þetta aðstæður sem geta hæglega komið upp, en skyldi viðkomandi lögreglumanni ekki bera skylda til að sýna borgaranum þá tillitssemi að biðjast undan því að fara í útkallið? „Með því að víkja lögreglumönnum tímabundið frá störfum meðan mál sem geta leitt til fangelsisdóms eru til rannsóknar er komið í veg fyrir að svona staða geti komið upp. Ef mál er fellt niður eða viðkomandi sýknaður á hann rétt að halda starfi sínu eins og áður sagði,“ útskýrir Sigríður. „Ef ekki hafa verið sett sérstök skilyrði fyrir því að viðkomandi annist ekki ákveðin verkefni, er ekki tilefni til tiltals, hins vegar þarf embættismaður að meta hæfi sitt hverju sinni, með tilliti til frændskapar eða annarra atriða sem áhrif geta haft á störf hans eða þjónustu viðkomandi yfirvalds.“

Aðskilin mál en leitað eftir líkindum

Dóttir Halldóru sagði lögreglumanninn hafa brotið á sér í sumarbústaðarferð en með í för voru vinahjón mannsins og kona hans. Þegar hún kærði lögreglumanninn hafi verið tekin skýrsla af vinahjónunum á skrifstofu eiginmannsins en sá er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera. „Skýrslutökur á rannsóknarstigi fara fram fyrir luktum dyrum og helst á lögreglustöð sé þess kostur eða öðru sérútbúnu húsnæði,“ segir Sigríður Björk. „Skýrslutaka fer stundum fram á brotavettvangi eða öðrum stöðum, en ávallt skal gæta þess að spyrja án nærveru annarra. Það er sjaldgæft að skýrslutaka yfir vitnum fari fram á starfsstöð viðkomandi.“

Halldóra hefur óskað eftir því við Nefnd um eftirlit með lögreglu að málsmeðferðin verði skoðuð. Eitt að því sem hún gagnrýndi harðlega var að þrátt fyrir að þrjár stúlkur hefðu kært lögreglumanninn hefðu málin ekki verið rannsökuð saman og ekkert brugðist við fullyrðingum lögreglumannsins um að stúlkurnar þrjár hefðu uppi samsæri gegn sér. Spurð hvort til greina kæmi að þrjár sambærilegar kærur um kynferðisbrot gagnvart börnum yrðu rannsakaðar sem eitt mál segir Sigríður Björk það ekki vera. „Hvert tilvik er rannsakað sérstaklega. Ef brotaþolar eru fleiri en einn og ætluð brot eru aðgreind eru venjulega stofnuð aðgreind mál. Við rannsóknina er skoðað sérstaklega hvort líkindi séu með ætluðum brotum, en litið er til þess við mat á sönnun.“

Sigríður Björk undirstrikar að hún geti ekki tjáð sig um þetta einstaka mál og svari því aðeins almennum spurningum um verklagsreglur við sambærilegar aðstæður, miðað við stöðu mála í dag en þær hafi tekið miklum breytingum síðustu ár. „Nú er þessum málum undantekningarlaust beint til héraðssaksóknara og Nefndar um eftirlit með lögreglu,“ segir Sigríður en sú nefnd tók til starfa á síðasta ári. „Berist LRH kvörtun eða kæra á hendur lögreglumanni er nefndin upplýst um það.“ Um hlutverk nefndarinnar er fjallað í VII. kafla lögreglulaga nr. 90/1996.

________________________________________________________

Mál Helgu Elínar og Halldóru

Brotalamir á rannsókninni

Halldóra Baldursdóttir og dóttir hennar Helga Elín. Halldóra gagnrýnir meðal annars að sakborningi hafi ekki verið vikið úr starfi meðan á rannsókn stóð. Mynd / Hallur Karlsson

Halldóra Baldursdóttir, móðir stúlkunnar sem kærði lögreglumann fyrir kynferðisbrot, telur að brotalamir séu á allri málsmeðferðinni. Hún gagnrýnir meðal annars að sakborningi hafi ekki verið vikið úr starfi meðan á rannsókn stóð. Þetta kom fram í ítarlegu viðtali við Halldóru í Mannlífi á föstudag í síðustu viku.

Sjá einnig: Segist ekki hafa brugðist dóttur Halldóru

Embætti ríkislögreglustjóra hefur andmælt þeirri fullyrðingu Halldóru að ríkislögreglustjóri, Haraldur Johannessen, hafi brugðist dóttur Halldóru, eins og fram kemur í framangreindu viðtali. Í tölvupósti sem embættið sendi ritstjórn Mannlífs, og lesa má í fullri lengd á www.man.is, segir meðal annars að ríkislögreglustjóri hafi farið þess á leit við ríkissaksóknara í tilefni af umfjöllun um málið í fjölmiðlum að fá afhent rannsóknargögn málsins til þess að unnt væri að taka ákvörðun um hvort leysa skyldi lögreglumanninn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Ríkissaksóknari hafnaði erindi Embættis ríkislögreglustjóra með vísan til heimildarskorts í lögum og fékk því Embættið ekki rannsóknargögn málsins. Þar sem beiðni um rannsóknargögn var synjað hafi ekki verið grundvöllur til að byggja á að mati Embættisins hvort leysi ætti lögreglumanninn frá embætti og var ríkissaksóknara gerð grein fyrir því.

Í sama tölvupósti bendir Embætti ríkislögreglustjóra á að vegna alvarleika málsins hafi Embætti ríkislögreglustjóra beint því til þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, með bréfi 8. nóvember 2011, að meta hvort hann leysti lögreglumanninn undan vinnuskyldu, „en það er á forræði lögreglustjóra að ákveða um tilfærslu í starfi og við hvaða verkefni lögreglumaður starfar.“

Mannlíf náði í kjölfarið tali af Stefáni Eiríkssyni, sem starfaði sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins meðan á rannsókn málsins stóð. Stefán kveðst ekki hafa fylgst með umfjöllun um málið og neitar að tjá sig um það. „Þetta er ekki mál sem ég hef heimild til að tjá mig um,“ svaraði hann blaðamanni Mannlífs.

Sýndi ekki kjark og þor til að standa með barninu

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.

Halldóra furðar sig á viðbrögðum Embættis ríkislögreglustjóra. Hún segir „óskiljanlegt“ og „sárara en orð fá lýst“, að hann firri sig ábyrgð á því að hafa ekki vikið lögreglumanninum frá störfum, þrátt fyrir ítrekaðar kærur fyrir kynferðisofbeldi. Í tölvupósti sem hún sendi ritstjórn Mannlífs segir hún ekki vafamál á því hver beri ábyrgð á að lögreglumaðurinn í umræddu kynferðisbrotamáli starfi enn innan lögreglunnar.

Sjá einnig: Á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti

Í því samhengi bendir Halldóra á svar sem hún fékk frá innanríkisráðuneytinu, þegar hún kvartaði undan undan viðbrögðum yfirstjórnar lögreglu í málinu. Í svari sínu bendir ráðuneytið á að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga n.r 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skuli það stjórnvald sem skipar í embætti veita og lausn frá því um stundarsakir

. Með öðrum orðum kemur fram það sé á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu.

Enn fremur kemur fram í svari ráðuneytisins að ekki sé ómögulegt fyrir veitingarvaldshafa að meta hvort forsendur séu til þess að veita embættismönnum lausn um stundarsakir þótt honum sé synjað um afhendingu gagna í sakamáli. En eins og áður sagði taldi Embætti ríkislögreglustjóra ómögulegt að veita umræddum lögreglumanni lausn um stundarsakir þar sem embættinu hafði verið synjað um upplýsingar um rannsókn sakamálsins á hendur manninum. Svar ráðuneytisins má lesa í heild sinni á www.man.is

Halldóra segir um Embætti ríkislögreglustjóra: „Þetta er mín upplifun og mitt mat og er mér óskiljanlegt að ríkislögreglustjóri telji sig geta mótmælt því. Hann sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu.“

Tæplega 200 kílóum af kjörseðlum eytt í Reykjavík

Mikið grín var gert að stærð kjörseðla í Reykjavík fyrir nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar, enda sextán flokkar í framboði og lengd kjörseðlanna eftir því. Samkvæmt upplýsingum frá Helgu Björk Laxdal, skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjórnar, lét yfirkjörstjórn í Reykjavík prenta 93.000 kjörseðla samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórnar.

„Þar kemur fram að gera skal ráð fyrir jafnmörgum seðlum í hverri kjördeild og kjósendur eru á kjörskrá og minnst 10% fram yfir,“ segir Helga og bætir við. „Það voru 90 kjördeildir í Reykjavík og 1000 til 1200 kjósendur í hverri þeirra að jafnaði.“

Þá segir Helga að fimm hundruð kjörseðlar hafi rúmast í hvern kassa sem pakkað var niður í sem hver um sig vó sautján kíló. Því má áætla að heildarþyngd kjörseðlanna hafi verið 186 kíló.

Sjá einnig: Tvífarar frambjóðendanna: Þau eru sláandi lík.

Á öruggum stað

Samkvæmt fyrrnefndum lögum um kosningar til sveitarstjórnar skulu kjörseðlar vera úr haldgóðum pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum, að minnsta kosti 125 g/m að þyngd. Þá kveða þau einnig um að yfirkjörstjórn skuli eyða kjörseðlum eftir tilskilinn tíma eftir að kosningu lýkur.

„Kjörseðlarnir og önnur kjörgögn eru nú geymd á öruggum stað undir innsigli fram yfir kærufrest sem eru sjö dagar, eða að fullnaðarúrskurði uppkveðnum varðandi kosninguna, ef kosning hefur verið kærð. Að þeim tíma loknum, skal yfirkjörstjórn eyða hinum innsigluðu kjörseðlum samkvæmt ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórna. Kjörseðlunum er því eytt og þeir endurunnir í samræmi við öryggiskröfur,“ segir Helga, en ekki er gefið upp hvar kjörseðlarnir eru geymdir þangað til. „Kjörseðlarnir eru geymdir á öruggum stað sem yfirkjörstjórn velur og innsiglar. Nánari staðsetning er ekki gefin upp af öryggisástæðum.“

Kosningar í Reykjavík í tölum

Á kjörskrá: 90.135
Hve margir kusu: 60.422
Kjörsókn í prósentum: 67,04%

Stærstu flokkar:

Sjálfstæðisflokkur – 30,77% – 8 borgarfulltrúar
Samfylkingin – 25,88% – 7 borgarfulltrúar
Viðreisn – 8,16% – 2 borgarfulltrúar
Píratar – 7,73% – 2 borgarfulltrúar

Söðlaði um, gerðist eplabóndi og býður nú í ævintýraferð

|||
|||

Erla Hjördís Gunnarsdóttir söðlaði um fyrir þremur árum, pakkaði niður í töskur og gerðist eggja- og eplabóndi í smábænum Álavík í Noregi ásamt eiginmanni sínum. Nú býður hún Íslendingum í ævintýralega eplaferð um vesturströnd Noregs.

Aðalmynd: Hér sést Erla (til vinstri) ásamt Ingibjörgu Pétursdóttur, forritara hjá Bændasamtökum Íslands. Í bakgrunni eru dætur Erlu, þær Dagbjört Dís og Glódís Björt.

Kári Kiljan, yngsta barn Erlu, ánægður með uppskeruna í Álavík.

„Ég er skipuleggjandi og fararstjóri og var búin að hugsa þetta nokkrum sinnum, að auglýsa slíka ferð þar sem ég er eggja- og eplabóndi í smábæ í Harðangursfirðinum og hafði tekið eftir miklum áhuga gesta á okkur, sérstaklega á eplaræktinni. Þannig að mín hugmynd er að geta kynnt eplaræktina enn frekar fyrir Íslendingum og leyfa þeim að taka þátt í uppskerunni með því að ganga um eplaakurinn, tína sér nesti í poka og komast þannig í sannkallað návígi við eplin,“ segir fjölmiðlakonan og bóndinn Erla Hjördís Gunnarsdóttir. Erla skipuleggur nú eplauppskeru- og ævintýraferð til Noregs dagana 3. til 7. október. Það eru þó ekki aðeins eplin sem spila stórt hlutverk í ferðinni.

„Að auki ætlum við að heimsækja bændur sem selja beint frá býli, heimsækja eplavínsverksmiðju, stoppa á ekta norsku sveitakaffihúsi og fá þjóðlegar veitingar, kynnast jarðgangna- og brúargerð á heimsmælikvarða, skoða tignarlega norska fossa, fá kynnisferð um Oleana-prjónaverksmiðjuna sem er ein af fáum fataframleiðendum í Noregi sem enn framleiða allar sínar vörur í heimalandinu, skoða stafkirkju í Bergen og kynnast borginni betur ásamt fleiru,“ segir Erla full tilhlökkunar og bætir við: „Þetta verður sannkölluð ævintýraferð á vesturströnd Noregs, nánar tiltekið í kringum Bergen og Harðangursfjörðinn.“

500 eplatré og 7500 varphænur

Erla telur að ferð sem þessi höfði til Íslendinga þar sem lítið sé um skipulagðar ferðir á milli þessara nágrannalanda. Sjálf er hún hugfangin af Noregi eftir að hún og fjölskylda hennar, sem telur eiginmann og þrjú börn stökk ofan í djúpu laugina fyrir þremur árum síðan.

„Við fjölskyldan fluttum hingað fyrir þremur árum af hreinni ævintýramennsku og við hjónin ákváðum að gerast bændur sem við höfðum ekki prófað áður heima. Þetta tækifæri kom í gegnum vinnuna mína hjá Bændasamtökum Íslands og eftir dágóða umhugsun ákváðum við að slá til og prófa því við vissum að þetta tækifæri myndi ekki koma aftur,“

segir Erla og sér ekki eftir því að hafa látið slag standa þegar færi gafst.

„Við erum hér í smábænum Álavík sem telur nálægt þúsund íbúum og er sveitabærinn staðsettur í miðju bæjarins. Við erum með 7500 varphænur og um 500 eplatré og með okkar eigin rekstur í kringum búskapinn. Við prófuðum einnig að rækta hindber í gróðurhúsi en það var ekki arðbært svo við snerum snarlega út úr því. Hér var okkur rosalega vel tekið og hefur gengið mjög vel með börnin okkar þrjú svo við sjáum ekki eftir að hafa stokkið á þetta tækifæri, við verðum öll reynslunni ríkari eftir þessa upplifun.“

Ekki leiðinlegt útsýni hjá bændunum í Álavík.

Hjartað slær á Íslandi

Hún segir þó að Ísland togi enn í fjölskylduna, enda mikið og stórt bakland sem þau eiga þar af ættmennum og vinum.

„Við litum alltaf á þetta sem tímabundið ævintýri og gerum enn og hjartað slær óneitanlega heima á Íslandi. Við tökum eitt ár í einu, aðallega vegna þess að hænurnar eru rétt rúmt ár inni í húsi og síðan er þeim skipt út. Svo það verður að koma í ljós hvað við gerum, hér er ákaflega gott að vera en heima er best og fyrir okkur er það Ísland.“

Þeir sem vilja fræðast meira um ferðina geta haft samband við Erlu í gegnum netfangið [email protected] eða í síma 563 0320.

15 tonn af eplum

Erla og fjölskylda hennar rækta 15 tonn af eplum á ári en í Harðangursfirði eru kjöraðstæður til ávaxtaræktunar, sérstaklega epla-, peru-, plómu- og kirsuberjaræktunar.

Fjölskyldan ræktar nokkrar mismunandi tegundir af eplum.

Myndir / Úr einkasafni

„Ég rek ekki mína pólitísku stefnu“

||||
||||

Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, heldur mörgum boltum á lofti. Auk þess að vera í krefjandi og tímafreku starfi hefur hún nýlokið MBA-gráðu við Háskólann í Reykjavík eftir tveggja ára nám sem hún stundaði samhliða starfinu og rekstri stórs heimilis.

„Ég er að vinna fyrir fólk sem er í pólitík og það vill svo heppilega til að ég deili einhverjum grundvallargildum með fólkinu sem ég vinn fyrir, en ég hef aldrei litið þannig á það að ég sjálf sé í pólitík. Ég rek ekki mína pólitísku stefnu.“

„Ég er bara vel gift,“ segir Svanhildur, spurð að því hver sé lykillinn að því að láta þetta allt saman ganga upp og vísar þar til eiginmanns síns, Loga Bergmann Eiðssonar fjölmiðlamanns. Svanhildur átti sjálf glæstan feril í fjölmiðlum áður en hún söðlaði um árið 2009 og gerðist framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins og síðar aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar. Hvað kom til að hún tók þá ákvörðun að breyta algjörlega um starfsvettvang?

„Ég hætti á Stöð 2 veturinn 2008-2009 og fór þá í leyfi til að ljúka námi í lögfræði. Þegar því var lokið áttaði ég mig á því að mig langaði ekki að fara aftur í fjölmiðlaumhverfið. Það var ekki mjög spennandi á þeim tíma, rétt eftir hrun, þegar andrúmsloftið var þannig að ef maður var ekki að lemja fólk með naglaspýtu í beinni þá var maður ekki að vinna vinnuna sína.“

Svanhildur dregur við sig svarið þegar hún er spurð hvort hún hafi alltaf verið pólitísk.
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þjóðmálum,“ segir hún. „Ég man eftir því að hafa verið í fyrsta bekk í menntaskóla að hnakkrífast við bekkjarfélaga minn sem var mikill framsóknarmaður af Norð-Vesturlandi. Við vorum alls ekki sammála um landbúnaðarstefnuna á þeim tíma og mig minnir að við höfum verið að rífast um einhverja fríverslunarsamninga. En ég tók ekki þátt í neinu flokksstarfi fyrr en ég var að ljúka menntaskólanum. Svo kemur lífið fyrir mann og ég áttaði mig á því að ég hafði meiri áhuga á því að vinna á fjölmiðlum og vera þeim megin við borðið, heldur en að vera í pólitíkinni.“

„Ég hef alveg skoðanir og ég reyni að hafa áhrif, eins og fólk gerir yfirleitt. Ég segi það sem mér finnst um hlutina en á endanum er ég að vinna fyrir einhvern sem er sjálfur kjörinn fulltrúi og ber á ábyrgð á þeim verkum sem hann ákveður að koma í framkvæmd.“

Lífsgildin hægra megin
Svanhildur segist alltaf hafa verið sjálfstæðiskona. „Já, mín lífsgildi eru bara þar,“ segir hún ákveðin. „Þau eru hægra megin í lífinu, þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé reyndar merkileg blanda af þessari markaðsdrifnu hugsun og mjög mikilli velferðarstefnu. Fólki finnst það örugglega hljóma ofsalega furðulega, en ég veit ekki um aðra flokka sem teljast til hægri flokka sem eru jafnmikið í því að tala fyrir og framkvæma í ríkisstyrktum velferðarmálum.“

Spurð hvort pólitík hafi verið mikið rædd á heimili hennar þegar hún var að alast upp segir Svanhildur að  hún hafi ekki upplifað það sem pólitíska umræðu á þeim tíma en allir hlutir sem skipta máli hafi alltaf verið mikið ræddir á heimili foreldra hennar.
„Mamma og pabbi hafa áhuga á öllu mögulegu og það þótti bara eðlilegt ég læsi öll dagblöð alveg frá því að ég lærði að lesa, fimm ára gömul. Ég er alin upp í sveit og las allt sem ég náði í, þar á meðal dagblöðin og Familie Journal og Andrés Önd á dönsku. Maður las bara allt lesefni sem maður fann og mamma og pabbi voru mjög dugleg að ræða hlutina við mann. Það er mjög fínt veganesti og það er ennþá þannig að mér líður stundum eins og ég sé í viðtali þegar mamma og pabbi koma í bæinn og fara að spyrja mig út í hlutina. Það eru allir hlutir ræddir og ég held að það sé bara mjög normalt á hverju heimili.“

„Ég hef takmarkað þol fyrir netrifrildum, forðast fjölmenni ef ég get og mannamót vaxa mér oft í augum. Ég á ekki í neinum vandræðum með að tala fyrir framan fólk og svoleiðis, en ég er hræðilega léleg í „smalltalki“,“ segir Svanhildur.

Ástæða fyrir að fólk er pirrað
En þið Logi, eruð þið alltaf sammála um pólitíkina? „Ég ætla nú ekki að fara að tala fyrir Loga,“ svarar Svanhildur og hlær. „Við erum oft sammála þótt við séum ekkert alltaf nákvæmlega á sama máli, en það veldur engum vandkvæðum í sambandinu. Við erum bara mjög heppin með það að geta rætt alls konar hluti, hvort sem þeir snerta pólitík eða fjölmiðla eða hvað sem er. Þetta eru okkar ær og kýr, þjóðmál og fjölmiðlar eru það sem við höfum lifað og hrærst í eiginlega síðan við fórum út á vinnumarkaðinn.“

Svanhildur og Logi eru bæði þjóðþekktir einstaklingar og oft milli tannanna á fólki, hvernig gengur að takast á við það?
„Veistu það að ég finn bara ekkert fyrir því,“ segir Svanhildur. „Ég skil aldrei þessar spurningar um það að vera á milli tannanna á fólki því ég einfaldlega spái ekkert í það og er ekkert mikið að leggja mig eftir því. Mér finnst líka fólk almennt vera frekar kurteist í samskiptum og ef það bregst þýðir það yfirleitt bara að fólk hefur farið eitthvað öfugt fram úr rúminu þann daginn. Það er yfirleitt hægt að tala við alla og mér finnst þetta ekki vera neitt sérstakt vandamál. Fólk getur alveg haft mjög eindregnar skoðanir á alls konar hlutum en þá getur maður líka svarað því. Stundum vantar fólk einfaldlega upplýsingar eða það er búið að vera að rekast með einhver mál í kerfinu í of langan tíma og þarf bara smávegis hjálp. Það er oft innistæða fyrir því að fólk er pirrað.“

Rek ekki mína pólitísku stefnu

Svanhildur hefur starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn í níu ár og hefur í umræðunni oft verið orðuð við framboð fyrir flokkinn, er hún eitthvað farin að velta fyrir sér eigin pólitískum ferli?
„Nei, mér finnst ekki fara saman að vera aðstoðarmaður ráðherra og vera með eigið pólitískt agenda,“ segir hún. „Ég er allavega ekki farin í framboð ennþá þótt það sé búið að vera nóg af kosningum síðustu ár.
Ég vinn fyrir fólk sem er í pólitík og það vill svo heppilega til að ég deili einhverjum grundvallargildum með fólkinu sem ég vinn fyrir, en ég hef aldrei litið þannig á það að ég sjálf sé í pólitík. Ég rek ekki mína pólitísku stefnu. Ég hef alveg skoðanir og ég reyni að hafa áhrif, eins og fólk gerir yfirleitt. Ég segi það sem mér finnst um hlutina en á endanum er ég að vinna fyrir einhvern sem er sjálfur kjörinn fulltrúi og ber á ábyrgð á þeim verkum sem hann ákveður að koma í framkvæmd.“

Lokar sig inni á klósetti

Nú er Svanhildur farin að tala eins og stjórnmálamaður í stað þess að svara spurningunni, langar hana til að leggja stjórnmál fyrir sig sem atvinnu í framtíðinni?
„Þegar ég var sextán ára að rífast við þennan framsóknarmann, vin minn, þá fannst mér alveg frábær hugmynd að verða til dæmis forsætisráðherra. Með aldrinum hef ég kannski orðið minna spennt fyrir því. Ég lít þannig á að það að fara í framboð sé mjög stór ákvörðun og mér finnst að mann megi eiginlega ekki langa meira til neins í heiminum en að bjóða sig fram ef maður gerir það. Þetta er ekki bara starf, þetta er lífsstíll og yfirtekur allt, alla dagskrá og fjölskyldulíf og samskipti við vinahópa. Það eru svo margir í kringum mig sem eru í pólitík eða hafa verið í pólitík og hafa jafnvel hætt í pólitík þannig að ég er búin að sjá allar hliðar á þessu og þetta er ekkert venjulegt starf. Þegar maður sér fram á það að fá innantökur ef maður er ekki í framboði er held ég kominn rétti tíminn til að gera það, en þangað til maður er nánast tilbúinn til þess að henda öllu frá sér þá á maður ekki að fara í þetta starf. Þetta er svona „sjáðu mig, sjáðu mig!“-umhverfi og fólk þarf helst að vera eins og gangandi auglýsingaskrifstofa, með stöðuga virkni á samfélagsmiðlum og alltaf tilbúið í allt. Ég hef takmarkað þol fyrir netrifrildum, forðast fjölmenni ef ég get og mannamót vaxa mér oft í augum. Ég á ekki í neinum vandræðum með að tala fyrir framan fólk og svoleiðis, en ég er hræðilega léleg í „smalltalki“. Ég er meira innhverf en úthverf og sæki þess vegna orku í einveru. Þegar mest var að gera á síðustu árum, í vinnunni, skólanum og á heimilinu áttaði ég mig á því að ég var stundum farin að loka mig inni á klósetti, bara til að fá smá frið. Ég á mjög góðar vinkonur sem ég deili flestu með og þegar ég sagði þeim frá þessu komst ég að því að þetta var eitthvað sem þær könnuðust margar við. Bara að ná nokkrum mínútum með sjálfri sér, hvort sem er heima eða utan heimilis.“

„Ég skil aldrei þessar spurningar um það að vera á milli tannanna á fólki því ég einfaldlega spái ekkert í það og er ekkert mikið að leggja mig eftir því.“

Samtalið beinist að þeirri umræðu að það sé miklu erfiðara fyrir konur að komast áfram í pólitík, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins, er það upplifun Svanhildar?
„Ég ætla ekkert að fara að dæma aðra flokka,“ segir hún. „En mér hefur ekki sýnst það eitthvað sérstaklega erfitt að vera kona í Sjálfstæðisflokknum. Við erum til dæmis með tvær frábærar konur í forystu. Stundum hefur niðurstaða prófkjöra verið allavega en það hefur að mínu áliti verið rætt kerfisbundið um það innan flokksins og reynt að taka á því og mér finnst það ekki hafa verið sama vandamálið núna og stundum áður í kosningum. Ég held að starfsumhverfið sé ekkert endilega erfiðara fyrir konur, en það er hins vegar þannig að fólk sem ekki er tilbúið til að vera á vaktinni meira og minna allan sólarhringinn og láta starfið alltaf ganga fyrir á erfitt með það. Stjórnmálastarf þvælist dálítið fyrir fólki sem er ekki tilbúið að giftast vinnunni sinni. Ég held að núorðið gildi það nokkuð jafnt um konur og karla.“

Ýmislegt verið mjög óviðeigandi

Svanhildur er orðin hundleið á þessum spurningum mínum um pólitík, lái henni hver sem vill, og við snúum talinu að kvennabyltingunum margumtöluðu og hvaða áhrif hún telur að þær muni hafa til frambúðar.
„Ég held að þær muni hafa varanleg áhrif,“ segir hún. „Þegar þú ferð að sjá heildarmyndina af því hvernig framkoman hefur verið ertu miklu fljótari að koma auga á það þegar hlutir eru ekki eins og þeir eiga að vera. Þol fólks fyrir einhverri fáránlegri framkomu er miklu minna og það er alveg frábært. Ég held að á síðustu árum hafi orðið talsvert mikil hugarfarsbreyting, bæði í því hvernig fólk talar um hluti og hvers konar framkomu það þolir. Ég held að nánast allir geri sér grein fyrir því að það eru ákveðin mörk sem þú verður að virða. Ég hef hlustað talsvert á karla tala saman um þessa hluti og mér finnst það mjög áhugavert. Þeir eru líka að átta sig á því að það hefur ýmislegt verið í gangi sem er algjörlega óviðeigandi. Það var að mjög mörgu leyti meiriháttar upplifun að verða vitni að þessu.“

Eins og fram kom í upphafi er Svanhildur að ljúka MBA-gráðu, þýðir það að hún sé að hugsa um að skipta um starfsvettvang? „Ég veit það ekki. Ég verð náttúrlega ekki aðstoðarmaður að eilífu,“ segir hún sposk. „Ég ákvað bara að klára þetta og reyna svo að ná örlitlu jafnvægi í heimilislíf og vinnu. En auðvitað fer maður í nám af því að maður er tilbúinn að víkka sjóndeildarhringinn og prófa eitthvað nýtt.“

Fjölmiðlabakterían ólæknandi

„Ég hef alltaf sótt í vinnu sem er svolítið flæðandi og ég held ég sé komin að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa verið þrjátíu ár á vinnumarkaði, að ég sé ekki mikil níu til fimm týpa. Mér finnst gaman að vera í álagsverkefnum sem reyna mikið á mann og þurfa öðru hvoru að gera hið ómögulega.“

Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór?
„Það er frábær spurning sem ég hef velt fyrir mér af og til í dálítið mörg ár. Ég hef alltaf sótt í vinnu sem er svolítið flæðandi og ég held ég sé komin að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa verið þrjátíu ár á vinnumarkaði, að ég sé ekki mikil níu til fimm týpa. Mér finnst gaman að vera í álagsverkefnum sem reyna mikið á mann og þurfa öðru hvoru að gera hið ómögulega.“

Saknarðu fjölmiðlanna?
„Ef ég hefði ekki Loga sem ákveðinn glugga inn í fjölmiðlaheiminn þá kannski myndi ég sakna þeirra meira. Ef manni finnst gaman að kynna sér hluti og hefur áhuga á öllu mögulegu er fjölmiðlavinnan besta starf í heimi. Mér fannst fyndið þegar ég var að byrja að vinna á fjölmiðlum að heyra talað um fjölmiðlabakteríuna en svo uppgötvar maður smám saman að eiginlega allir sem einhvern tímann hafa unnið á fjölmiðli virðast sýkjast af þessari bakteríu og aldrei læknast fullkomlega. Ég finn það alveg á sjálfri mér.“

„Ég hef alveg skoðanir og ég reyni að hafa áhrif, eins og fólk gerir yfirleitt. Ég segi það sem mér finnst um hlutina en á endanum er ég að vinna fyrir einhvern sem er sjálfur kjörinn fulltrúi og ber á ábyrgð á þeim verkum sem hann ákveður að koma í framkvæmd.“

Fyrr í spjalli okkar Svanhildar hafði komið fram að hún ætti mun auðveldara með að tjá sig í skrifuðu máli en að tala um hlutina, er það eitthvað sem hún vildi þróa frekar? Er kannski skáldsaga í skúffunni?
„Nei, ég er ekki með skáldsögu í skúffunni,“ segir hún og hlær. „Logi er aftur á móti með eina svoleiðis sem hann klárar kannski núna. Mér finnst mjög gaman að skrifa. Ég fæ bara eitthvað út úr góðum texta, bæði að lesa hann og skrifa. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað ég myndi skrifa ef ég færi út í það. Ég veit það bara ekki. Ég veit ekki hvort ég á skáldsögu í mér.“

Raðlækari og íþróttanörd

Annað áhugamál Svanhildar er fornleifafræði, kom aldrei til greina að leggja þá grein fyrir sig?
„Ég hef mikinn áhuga á fornleifafræði og ég held að allir fornleifafræðingar á Twitter haldi að ég sé einhver ruglaður eltihrellir. Ég fylgi mörgum fornleifafræðingum á Twitter og fornleifastofnun og er eiginlega raðlækari á allt sem snertir fornleifar. Hrafnhildur dóttir mín virðist hafa erft þennan áhuga á fortíðinni og gömlum hlutum og þegar við ætlum að eiga góðan tíma saman þá förum við og röltum um kirkjugarða og hún biður mig að útskýra fyrir sér hvernig hlutirnir voru í gamla daga og hvers vegna það dóu svona mörg börn þá.“

Talandi um börn í „gamla daga“, hvernig barn var Svanhildur sjálf?
„Ég var íþróttanörd,“ segir hún og skellir upp úr. „Ég æfði frjálsar íþróttir, var mjög góð í kúluvarpi, en spilaði líka blak, handbolta og körfubolta og bara allt sem ég komst í.“

Svanhildur er ekki lengur í neinum hópíþróttum lengur en hefur lyft í nokkur ár.
„Mér hefur alltaf fundist mjög gaman að lyfta og ákvað að prófa að æfa lyftingar. Það féll eins og flís við rass, þetta hentaði mér frá fyrsta degi. Ég fer á fætur fyrir sex á morgnana, er búin með æfinguna fyrir klukkan átta og kem þá heim og kem stelpunum í skólann. Ég er ein að lyfta og það er tími sem ég á alveg sjálf. Ég fer ekki í jóga, stunda ekki hugleiðslu en lyftingarnar eru mín hugleiðsla. Maður gerir kannski ekkert nema hnébeygjur í klukkutíma, með stöng á öxlunum og tónlist í eyrunum og hugsar ekki neitt. Fyrir mig er þetta andleg hvíld og líkamlega góð áreynsla.“

Ekki mikið atvinnuöryggi

Þessi klukkutíma á morgnana er væntanlega eini tíminn sem Svanhildur á ein með sjálfri sér yfir daginn, eða hvað? Er ekki álagið á aðstoðarmann ráðherra mikið?
„Það auðvitað venst eins og annað. Það sem er verst við það er að það getur verið erfitt að setja mörk um það hvenær ég er í vinnunni og hvenær ég er ekki í vinnunni. Þegar ég var að klára síðasta kúrsinn í MBA-náminu fór ég í frí og setti „out of office։-skilaboð á tölvupóstinn minn, sem ég geri nánast aldrei, og áttaði mig á það væri kannski svolítið ruglað að reyna að vera ínáanlegur öllum stundum. Maður er líka að vinna verkefni á furðulegustu tímum og eitt það furðulegasta sem ég hef gert var þegar ég settist niður þegar allt var búið á gamlárskvöld og allir farnir að sofa til að skrifa ræðu fyrir nýársdag. En það eru nú alls konar störf sem eru þannig að fólk er í þeim bæði vakið og sofið.“

En þú ert ekkert á leiðinni eitthvert annað?
„Ég hef reglulega síðustu ár búist við því að ég væri alveg að verða atvinnulaus, eða gæti orðið það. Atvinnuöryggið í pólitísku starfi er ekki mikið, allra síst undanfarin ár hér á Íslandi. Þannig að ég geri auðvitað alltaf ráð fyrir því að þurfa að finna mér vinnu einhvern tímann, en á meðan starfið er að meðaltali meira skemmtilegt en leiðinlegt þá heldur maður áfram. Plúsinn við mitt starf er að maður upplifir reglulega einhverja sögulega viðburði og er í hringiðunni þegar eitthvað merkilegt gerist. Maður verður bara að passa sig á að verða ekki svo samdauna umhverfinu að maður átti sig ekki á því.“

„Ég neita því ekki að í undirmeðvitundinni blundar hugsunin að þótt mig langi ekki að vera að lemja einhvern með naglaspýtu í beinni þá er fjölmiðlaumhverfið alltaf það sem ég dregst að í einhverri mynd,“ segir Svanhildur.

Ekki röflandi besserwisser

Svanhildur ætlar greinilega ekki að svara ákveðið af eða á hvort hún sé að hugsa sér til hreyfings úr fjármálaráðuneytinu svo ég breyti um taktík og spyr: Hvar sérðu þig fyrir þér þegar þú verður sextíu og fimm ára?
„Ja, ég vona allavega að ég verði ekki svona leiðinlegur röflandi besserwisser sem er alltaf að segja yngra fólki hvað það sé vitlaust,“ svarar Svanhildur. „Fyrst og fremst ætla ég að vona það að ég verði ekki að horfa á heiminn í gegnum einhver mjög skrýtin gleraugu og geti náð að taka inn breytingar og nýjar upplýsingar og nýjar skoðanir og svo framvegis. Án þess að vera alltaf með fingurinn á lofti. Mér finnst það sjúklega leiðinlegt. Mér finnst gott að hafa fólk sem getur sagt manni að það sé búið að prófa einhverja hluti. Mér finnst vanta fleira fólk með gott stofnanaminni sem getur vísað í söguna, en að segja að hlutir verði að vera einhvern veginn af því einu sinni voru þeir þannig er bara fullkomlega óþolandi.“

Heldurðu að þú verðir ekki bara orðin forseti þá?
„Ég hef nú ekki endilega hugsað það þannig. Það er svo lítill aldursmunur á mér og Guðna að miðað við hefðir Íslendinga í forsetamálum er ég ekkert viss um að embættið verði laust þegar ég verð sextíu og fimm ára.

Að öllu gamni slepptu þá hugsar maður auðvitað stundum um það hvar maður verði staddur þá. Að vera rúmlega sextugur er ekki lengur neitt rosalega langt fram í framtíðinni hjá mér. Og ég spyr mig stundum hvað mig langi til að vera að gera eftir tuttugu ár. Ég bara veit það ekki ennþá. Þau störf sem ég hef tekið að mér hafa verið skemmtileg en ég hef ekki sótt um vinnu síðan 1999 þegar ég sótti um vinnu á Morgunblaðinu og Ríkisútvarpinu og endaði á því að vinna fyrir svæðisútvarpið á Akureyri. Síðan hef ég meira svona lent í vinnu og það er ekkert víst að maður hafi neitt rosalega gott af því. Það hefur eiginlega verið lúxusvandamál að þurfa ekki að hugsa neitt mikið um það hvað gerist á næsta ári eða þarnæsta.

Ég neita því ekki að í undirmeðvitundinni blundar hugsunin að þótt mig langi ekki að vera að lemja einhvern með naglaspýtu í beinni þá er fjölmiðlaumhverfið alltaf það sem ég dregst að í einhverri mynd.
Maður auðvitað vonar að maður sjálfur og fólkið í kringum mann haldi heilsu. Þegar ég verð sextíu og fimm ára verður Logi sjötíu og þriggja og örugglega búinn að fara í hnjáliðaskipti á báðum hnjám, en það sem maður vill helst af öllu er að maður verði hamingjusamur og það er það sem ég vil fyrir mig og fjölskylduna. Helst af öll vill maður ná einhverju jafnvægi sem gerir það að verkum að fólk sé bara sæmilega sátt við lífið og í sínu eigin skinni. Allt annað er eiginlega aukaatriði.“

________________________________________________________________

Logi um Svanhildi: Tinnabókaprófessor með athyglisbrest

Svanhildur fullyrðir að Logi Bergmann Eiðsson eigi skilið fálkaorðu fyrir að endast til að búa með henni svo mér lék forvitni á að vita hvernig sambúðin liti út frá hans sjónarhóli. Hann segir það ýkjur að hann ætti orðu skilda, en viðurkennir þó að sambúðin geti stundum tekið á. „Það er stundum pínu áskorun að vera giftur Svanhildi,“ segir Logi. „Hún er svolítið utan við sig og intróvert og svona, en þetta venst mjög vel. Við skynjum hvort annað vel og finnum hvað hitt þarf og hvernig við höfum það, þannig að þetta gengur nú alltaf býsna vel.“

Spurður hvað taki mest á í sambúðinni segir Logi nokkrar sögur.
„Við keyptum okkur nýjan þurrkara og eftir tvo mánuði hringdi hún í mig og spurði hvernig ætti að kveikja á honum, sem segir allt um það hver sér um þvottinn á þessu heimili. Hún hefur líka til að bera stórkostlega óþolinmæði gagnvart hlutum sem virka ekki, en annars er hún alveg fáránlega geðgóð.“

Logi tiltekur dæmi um þessa óþolinmæði:
„Einu sinni var hún brjáluð yfir því að bíllinn væri bilaður, svissinn virkaði ekki, en það kom í ljós að hún var með lyklana að hinum bílnum okkar. Svo er líka algengt að hún rjúki út á morgnana, orðin of sein, en finni ekki bílinn af því hún gleymdi honum einhvers staðar daginn áður. Þetta er svona mildur fullorðinsathyglisbrestur í bland við Tinnabókaprófessor.“

Eftir þessi tvö ár sem Svanhildur hefur verið í náminu segist Logi draga mörkin við legnám í framtíðinni. Annað nám komi ekki til greina. Þetta sé orðið gott. Hann er hins vegar sannfærður um að Svanhildur muni aldrei fara út í pólitík.
„Hún mun aldrei bjóða sig fram og ég þakka guði fyrir það,“ fullyrðir hann. „Það þyrfti eitthvað mikið að gerast til að hún léti tilleiðast. Það eina sem gæti fengið hana til þess er hvað hún hefur gríðarlega sterka réttlætiskennd. Svo er hún líka bara allt of bóngóð. Hún er alltaf að bjarga einhverju fyrir einhvern og á meðan sit ég bara bitur eiginmaður einn heima. Nei, ég er að grínast, það er einn af hennar bestu kostum hvað hún er hjálpsöm.“

Fallegt einbýlishús í Suðurhlíðum Kópavogs

Opið hús laugardaginn 2. júní milli klukkan 16.00 til 16.30.

Í Suðurhlíðum Kópavogs, við Furuhjalla 1, stendur þetta fallega, tvílyfta einbýlishús á besta stað. Útsýnið frá húsinu er einstakt, yfir Garðholt og Keili sem ljúft er að njóta. Garðurinn sem prýðir húsið er fallegur og gróinn með góðum palli þar sem yndislegt er að vera á góðviðrisdögum. Einnig fylgir húsinu heitur pottur og gróðurhús með köldu og heitu vatni sem og stórum ofnum, sem er kærkomin viðbót, sérstaklega fyrir fólk með græna fingur og þá sem vilja njóta.

Einstök veðursæld og fjölbreytt afþreying í nánd
Í nánd við hverfið eru mjög öflugir þjónustukjarnar meðal annars Smáratorg og Smáralind svo eitthvað sé nefnt ásamt þróttmiklu atvinnulífi. Einstök veðursæld er í Suðurhlíðum Kópavogs, stutt í fallegar gönguleiðir, skóla og alla helstu þjónustu. Kópavogsbær býður upp á fjölmargt og fjölbreytilegt frístundastarf fyrir alla aldurshópa. Íþróttasvæði Breiðabliks liggur næst hverfinu.

Bjartar stofur með mikill lofthæð
Í húsinu er nýlegar og vandaðar innréttingar og skipulagið er eins og best verður á kosið. Hvíti liturinn er í forgrunni og parket og viður spila stórt hlutverk í húsinu. Á efri hæð hússins eru meðal annars bjartar og rúmgóðar stofur með mikilli lofthæð og loftið prýðir fallegur viður. Þar er útgengi út á svalir þar sem útsýnið skartar sínu fegursta. Einnig er glæsilegur arinn í stofu sem gerir mikið fyrir rýmið. Á efri hæðinni er einnig rúmgott og vel skipulagt eldhús sem inniheldur jafnframt búr sem getur verið kostur og býður upp á ákveðna möguleika.

Hlýleikinn og notagildið í fyrirrúmi
Á neðri hæðinni eru þrjú stór og rúmgóð svefnherbergi ásamt stóru flísalögðu baðherbergi sem nýtist vel. Gengið er út í garð á tveim stöðum, þar sem pallurinn er ásamt heita pottinum og gróðurhúsinu. Falleg og hlýleg sólstofa er einnig á neðri hæðinni sem eykur nýtinguna á húsinu enn frekar.

Jafnframt er stórt aukaherbergi með sérútgangi og baðherbergi. Í því eru lagnir til staðar til að bæta við eldhúsinnréttingu  sem býður upp á fleiri nýtingarmöguleika, til dæmis aukaíbúð ef vilji er fyrir því. Stærð hússins er 272,6 fermetrar með bílskúr og fylgir húsinu stílhreint og stórt, upphitað bílaplan sem rúmar fjóra bíla. Sjón er sögu ríkari og vert er að skoða þessa eign.

Þessi fallega eign er til sölu hjá REMAX Senter og er ásett verð er 108 milljónir. Allar frekari upplýsingar um eignina veita: Guðmundur Hallgrímsson, löggiltur fasteignasali, í síma 898-5115 / [email protected]  og Gunnar Sverrir, löggiltur fasteignasali, í síma 862-2001 / [email protected].

 

Óvenjulegt að sakborningar séu með á vettvangi

|
|

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins segir lögreglu yfirleitt rannsaka brotavettvang án þess að sakborningar sé viðstaddir. Í máli Helgu Elínar og Halldóru, sem Mannlíf hefur fjallað um, fór sakborningur, lögreglumaður sem var kærður fyrir barnaníð, með lögreglu á vettvang.

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Sigríður Björk Guðjónsdóttir.

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, segir verklagsreglum hafa verið breytt nýlega sem leggi skýrari línur um hvernig bregðast skuli við þegar að lögreglufulltrúar fá á sig kæru um alvarlega glæpi á borð við kynferðisbrot gagnvart börnum. Lögreglustjórinn verður í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur út á morgun.

Þar verður jafnframt farið yfir mál mæðgnanna Halldóru Baldursdóttur og Helgu Elínar sem hefur vakið upp reiði í samfélaginu. Helga Elín var kynferðislega misnotuð á barnsaldri. Meintur gerandi, lögreglumaður, starfar enn innan lögreglunnar þrátt fyrir að hafa verið kærður fyrir brot gegn þremur stúlkum.
Þá verða viðbrögð embættis ríkislögreglustjóra, Haralds Johannessen rakin sem og viðbrögð Stefáns Eiríkssonar.
Stefán starfaði sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins þegar umræddur lögreglumaður var kærður fyrir þrjú kynferðisbrot gegn börnum.

Þetta og meira um málið í nýjasta tölublaði Mannlífi á morgun, föstudaginn 1. júní.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni.“

54 ára og á von á sínu fimmta barni

Fyrirsætan og leikkonan Brigitte Nielsen, sem verður 55 ára 15. júlí næstkomandi, tilkynnti það á Instagram í gær að hún ætti von á barni með eiginmanni sínum, fyrrverandi fyrirsætunni Mattia Dessi. Mattia er 39 ára.

Brigitte birti mynd af sér á samfélagsmiðlinum þar sem hún sést strjúka óléttubumbuna og við myndina skrifaði hún:

„Fjölskyldan stækkar.“

family getting larger ❤️ #me #family #brigittenielsen #babybump

A post shared by Brigitte Nielsen (@realbrigittenielsen) on

Við aðra mynd skrifaði hún:

„Gleðilegir tímar. Jákvæðir straumar.“

happy time ❤️ positive vibes #happyness #positivevibes

A post shared by Brigitte Nielsen (@realbrigittenielsen) on

Þetta verður fyrsta barn Mattia en fimmta barn Brigitte. Hún á fyrir synina Julian, 34 ára, Killian, 28 ára, Douglas, 25 ára og Raoul, 23 ára.

Brigitte og Mattia gengu í það heilaga árið 2006 og fimm árum síðar sagði Brigitte í viðtali við The Guardian að hana langaði í annað barn.

#sunnyday #sun #summer #husband #cute #husbandandwife #family #brigittenielsen #selfie

A post shared by Brigitte Nielsen (@realbrigittenielsen) on

„Ég myndi elska það út af öllu sem ég hef lært. Það væri eins og að byrja upp á nýtt. En er ég of gömul? Ég er ung í anda og myndi gera hlutina öðruvísi. Mattia og ég höfum rætt þetta en ég veit ekki hve líklegt þetta er.“

Ótrúlega vel skipulögð 22 fermetra íbúð

||||||||||
||||||||||

22 fermetrar er ekki mikið þegar talað er um heila íbúð og einhverjir sem telja það hentugri stærð á bílskúr en heimili. Hönnunarteymið A Little Design frá Taívan hefur svo sannarlega afsannað það.

Teymið tók að sér að hanna og inrétta 22ja fermetra íbúð eftir óskum viðskiptavinar síns og náði að koma ótrúlega miklu fyrir í þessu litla rými.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir af íbúðinni og takið eftir að í henni er bæði þvottavél og baðkar þrátt fyrir pláss af skornum skammti.

Skila brúðargjöfum fyrir tæpan milljarð

Leikkonan Meghan Markle og Harry Bretaprins, nú hertogahjónin af Sussex, gengu í það heilaga þann 19. maí síðastliðinn.

Sjá einnig: Segir brúðarkjól Meghan hafa verið fullkominn.

Meghan og Harry hafa nú í nægu að snúast að skila öllum brúðargjöfunum sem þau fengu, en verðmæti þeirra er tæpur milljarður króna.

En af hverju? Jú, strangar reglur gilda um gjafir til konungsfjölskyldunnar og mega þau ekki taka við gjöfum frá fólki eða fyrirtækjum sem þau þekkja ekki. Er þetta gert svo meðlimir konungsfjölskyldunnar séu ekki misnotaðir í auglýsingaskyni, en líklegt er að mikið af brúðargjöfunum hafi verið sendar í þeirri von að Meghan og Harry myndu auglýsa muni óbeint á samfélagsmiðlum og opinberlega.

Sjá einnig: Heiðruðu Díönu prinsessu með brúðkaupsmyndunum.

Gildir þessi regla um alla meðlimi konungsfjölskyldunnar en drottningin sjálf má ekki fá gjafir út af öryggisástæðum.

Meghan og Harry báðu fólk sérstaklega um að gefa pening í góðgerðarmál vegna brúðkaupsins en það voru greinilega ekki allir sem fengu þau skilaboð.

Fáir miðar eftir á Guns N’ Roses

Allt bendir til þess að það verði fjölmennt á tónleikum Guns N’ Roses á Íslandi sem fara fram þann 24. júlí næstkomandi. Að sögn tónleikahaldara eru aðeins um 1200 miðar eftir í stúku og tæplega 3000 miðar eftir í stæði. Um verður að ræða stærsta tónleikaviðburð Íslandssögunnar þar sem flutt verður inn langstærsta svið sem hefur verið sett saman hér á landi og það sama má segja hljóðkerfið. Þá verða þrír risaskjáir settir upp til að aðdáendur geti fylgst með hverju einasta smáatriði.

Mikið hefur verið fjallað um tónleikaferð Not In This Lifetime… tónleikaferð Guns N’ Roses sem er sú fyrsta síðan á síðustu öld sem inniheldur lykilmenn sveitarinnar, þá Axl Rose, Slash og Duff McKagan. Verða tónleikarnir á Laugardalsvelli þeir síðustu í Evrópulegg tónleikaferðalagsins sem hefur staðið yfir í rúm tvö ár.

Nú þegar er tónleikaferðalagið orðið það fjórða tekjuhæsta í tónlistarsögunni og enn er tími til að bæta þann árangur. Frá því að fyrstu tónleikarnir í Not In This Lifetime… tónleikaferðalaginu fóru fram í apríl í Bandaríkjunum árið 2016, hafa um 4,2 milljónir aðdáenda sveitarinnar borið hana augum á tónleikastöðum um allan heim. Nú stefnir hratt í að 22 þúsund Íslendingar bætist í þann hóp áður en langt um líður.

Miða á Guns N’ Roses er enn hægt að nálgast á show.is

Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má fylgjast með uppsetningu tónleika Guns N’ Roses sem fóru fram í Melbourne í Ástralíu fyrra, en uppsetningin er sú sama og verður á Laugardalsvellinum í sumar.

„Hann sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu“

||
||

Halldóra Baldursdóttur, móðir Helgu Elínar, furðar sig á viðbrögðum embættis ríkislögreglustjóra. Hún segir ekkert vafamál á því hver beri ábyrgð á að lögreglumaðurinn í umræddu kynferðisbrotamáli starfi enn innan lögreglunnar.

Mæðgurnar Halldóra og Helga. Halldóra var í viðtali í 12. tölublaði Mannlífs en þar greinir hún frá því að árið dóttir hennar hafi verið misnotuð á barnsaldri. Meintur gerandi starfar enn innan lögreglunnar.

„Þetta er mín upplifun og mitt mat, og er mér óskiljanlegt að ríkislögreglustjóri telji sig geta mótmælt því.“ Þetta segir Halldóra Baldursdóttir í bréfi sem hún sendi rétt í þessu á ritstjórn Mannlífs.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“

Halldóra var í viðtali í 12. tölublaði Mannlífs en þar greinir Halldóra frá því að árið 2007 hafi dóttur hennar, Helgu Elínu sem þá var tíu ára gömul, verið boðið í sumarbústaðaferð með skólasystur sinni, móður hennar og stjúpföður. Í kjölfar þessarar ferðar hafi breytingar orðið á hegðun Helgu en Halldóra tengdi þær ekki við ferðina. Fjórum árum eftir umrædda sumarbústaðaferð, þann 5. október 2011 var Halldóra boðuð á fund í skóla dóttur sinnar. Þar kom í ljós að dóttir hennar hafði trúað vinkonu sinni fyrir því að stjúpfaðir skólasystur þeirra hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi í sumarbústaðaferð fjórum árum áður. Málið var strax sett í farveg, það kært til lögreglu og rannsókn hófst, en um það bil einu ári eftir að málið var kært var það fellt niður og gerir Halldóra ýmsar athugasemdir við rannsókn þess. Meðal annars að sakborningur, sem var starfandi lögreglumaður, hafi ekki verið leystur frá störfum meðan á rannsókn málsins stóð. Hún segir að ríkislögreglustjóri hafi algjörlega brugðist þeim mæðgum í málinu.

Sjá einnig: Segist ekki hafa brugðist dóttur Halldóru

Þessu andmælti embætti ríkislögreglustjóra, eins og Mannlíf greindi frá. Eru þau andmæli tilefni skrifa Halldóru nú. „Nú hefur ríkislögreglustjóri andmælt því að hafa brugðist dóttur minni eins og ég lýsi í viðtali við Mannlíf sem birtist s.l. föstudag. Í þessu viðtali er ég að segja frá upplifun minni og þrautagöngu okkar mæðgnanna. Í viðtalinu segi ég: „Þegar málið kom upp sendi ég póst á þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu sem vísaði erindinu á Harald Johannessen ríkislögreglustjóra, sem algerlega brást okkur að mínu mati og vildi ekkert fyrir okkur gera.“

„Það er meðal annars á þessum bréfum sem upplifun mín byggir á að ríkilögreglustjóri hafi brugðist okkur í þessu máli. Hann tók ekki af skarið, sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu eins og hann hafði samkvæmt þessum bréfum vald til.“

Halldóra heldur áfram: „Ég ætla mér ekki að standa í orðaskaki við ríkislögreglustjóra í fjölmiðlum vegna upplifunar minnar á þessu máli en vegna ummæla hans, sem birtist í fjölmiðlum, tel ég rétt að koma eftirfarandi á framfæri: Í bréfi Innanríkisráðuneytisins til mín dags. 08. júní 2012 segir:

„Samkv. 5. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skipar ríkislögreglustjóri lögreglumenn til starfa til fimm ára í senn. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skal það stjórnvald sem skipar í embætti veita og lausn frá því um stundasakir. Þannig er það á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti um stundasakir eða að fullu. Svo sem fram kemur í gögnum málsins taldi embætti ríkislögreglustjóra sér ómögulegt að veita viðkomandi lögreglumanni lausn um stundasakir þar sem embættinu var synjað um upplýsingar um rannsókn sakamáls á hendur honum.

Embætti ríkislögreglustjóra upplýsti ráðuneytið um ofangreint með bréfi dags. 21. nóvember sl. Með bréfi dags 13. mars sl. upplýsti ráðuneytið embætti ríkislögreglustjóra um þá afstöðu sína að það væri mat ráðuneytisins að engin réttarfarsleg rök væru fyrir hendi sem réttlætt gætu afhendingu rannsóknargagna í málum sem þessum. Þá kom það fram það mat ráðuneytisins að synjun á afhendingu gagna sakamáls leiði ekki til þess að ómögulegt verði fyrir veitingarvaldshafann að meta hvort forsendur séu til þess að veita embættismönnum lausn um stundasakir ….. „

Einnig kemur fram í bréfi Umboðsmanns alþingis til mín vegna málsins dagsett 5. mars 2012 að: „….Samkvæmt framangreindu er það innanríkisráðherra sem er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu. Það er hins vegar á herðum ríkislögreglustjóra að veita lögreglumönnum lausn frá embætti en lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að fara með daglega stjórn lögreglunnar í sínu umdæmi.“

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hafnar því að hafa brugðist Helgu Elínu dóttur Halldóru.

Sjá einnig: Á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti

Halldóra segir því ekkert vafamál á því hver beri ábyrgð á að lögreglumaðurinn í umræddu kynferðisbrotamáli starfi enn þann dag í dag innan lögreglunnar. „Það er meðal annars á þessum bréfum sem upplifun mín byggir á að ríkilögreglustjóri hafi brugðist okkur í þessu máli. Hann tók ekki af skarið, sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu eins og hann hafði samkvæmt þessum bréfum vald til.

Hann setti þar með ekki þær kröfur til sinna manna að það sé óásættanlegt með öllu að starfandi lögreglumenn fái á sig ítrekaðar kærur fyrir barnaníð. Hins vegar hefur embættisskipun mannsins verið endurnýjuð.“

Halldóra segir að í kjölfarið hafi fylgt bréfaskriftir og ráðaleysi í öllu kerfinu. „Á meðan sat dóttir mín og beið réttlætis sem aldrei kom. Málinu lauk með niðurfellingu málsins þar sem rannsókn þess var, að mínu mati og margra annarra, mjög ábótavant.

Málið í heild sinni er enn og aftur að mínu mati stór áfellisdómur á allt kerfið, þar með talinn sjálfan ríkislögreglustjóra sem enn firrir sig ábyrgð í stað þess að vinna að réttlæti í málinu.“

Hún segir að þetta sé sér óskiljanlegt og sárara en orð fá lýst. Að lokum, þá segir ríkislögreglustjóri í fréttatilkynningu sinni: „Embættið fékk fyrst fregnir af málinu í fjölmiðlum og átti frumkvæði af því að óska upplýsinga um málið frá ríkissaksóknara, en embættinu hafði ekki verið tilkynnt um málið.“ Hið rétta er að 4. nóvember 2011 sendi ég ríkislögreglustjóra tölvupóst um málið en það var ekki fyrr en 7. nóvember 2011, eða þrem dögum síðar, sem fjölmiðlar fjölluðu fyrst um málið.“

Æfðu eins og Jennifer Lopez í 30 mínútur

Í meðfylgjandi myndbandi fer einkaþjálfarinn David Kirsch yfir þrjátíu mínútna æfingu sem kemur svo sannarlega á óvart.

David þessi er einkaþjálfari stórstjörnunnar Jennifer Lopez og sýnir okkur ýmsar æfingar sem söng- og leikkonan elskar. Þessar æfingar eru langt því frá að vera léttar og taka vel á öllum vöðvum líkamans.

Í myndbandinu eru notuð létt handlóð og sérstakar mottur til að geta rennt fótum og höndum auðveldlega um gólfið. Í staðinn fyrir lóð er hægt að fylla flöskur af vatni eða bara sleppa lóðunum. Í staðinn fyrir motturnar er hægt að nota lítið handklæði eða þvottapoka.

Góða skemmtun!

Stjörnurnar í Roseanne þá og nú

||||||||
||||||||

Þættirnir um hina spaugilegu Roseanne voru teknir af dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar ABC í vikunni eftir að aðalleikkona þáttanna, sjálf Roseanne Barr, tísti svívirðingum yfir Valerie Jarrett, fyrrverandi ráðgjafa Baracks Obama.

Roseanne tísti að Valerie liti út eins og afkvæmi bræðralags múslima og Apaplánetunnar. Forsvarsmenn ABC tóku þáttinn í kjölfarið af dagskrá þar sem svona orðræða samrýmdist ekki hugsjónum og gildum fyrirtækisins. Roseanne eyddi tístinu, bað Valerie afsökunar en eftir stendur að þátturinn, sem gekk í endurnýjun lífdaga í lok mars á þessu ári, verður ekki sýndur meira.

Við ákváðum að líta aðeins á stjörnur þáttanna, sem margar hverjar komu saman aftur í nýju þáttunum, en serían gekk upprunalega á árunum 1988 til 1997.

Roseanne Barr

Roseanne var aðeins 35 ára þegar hún varð aðalstjarnan og framleiðandi þáttanna. Nú er hún 65 ára og hefur sagt í viðtölum að hún hafi eingöngu ráðið sig í þáttinn til að hafa efni á fíkniefnum, áfengi og sígarettum.

John Goodman

Leikarinn góðkunni er jafnaldri Roseanne en lengi hefur verið talað um að þeim hafi ekki komið vel saman á setti. Hann lék eiginmann hennar, Dan Conner, sem lést í gömlu þáttunum en handritshöfundar náðu að skrifa sig út úr því þegar serían byrjaði aftur.

Laurie Metcalf

Það má segja að þetta hafi verið árið hennar Laurie, en hún var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna síðast fyrir hlutverk sitt í Lady Bird. Laurie er svo sem ekki ókunnug verðlaunaathöfnum og fékk til að mynda þrenn Emmy-verðlaun fyrir túlkun sína á Jackie Harris, systur Roseanne.

Sara Gilbert

Það var Sara sem fékk hugmyndina að því að blása aftur lífi í Roseanne-þættina og fékk alla saman aftur, en hún leikur Darlene, dóttur Roseanne og Dans.

Johnny Galecki

Johnny í hlutverki David Healy, gaursins sem giftist og barnaði Darlene, lék bara í einum þætti af nýju Roseanne-þáttunum þar sem hann er, eins og margir vita, ein af aðalstjörnunum í grínþættinum Big Bang Theory.

Michael Fishman

Michael landaði hlutverki D.J. Conner aðeins sex ára gamall og fékk meðal annars Young Artist-verðlaunin árið 1995, þá fjórtán ára, fyrir bestu frammistöðu ungs leikara í gamanþáttaseríu.

Lecy Goranson

Lecy lék Becky Conner í fyrstu fimm seríunum af Roseanne. Eftir það fór hún í skóla og tók Sarah Chalke við henni í seríum 6 og 7. Lecy sneri stuttlega aftur í seríu átta en þurfti aftur frá að hverfa og þá tók Sarah við aftur.

Sarah Chalke

Sarah var ávallt kölluð Becky númer 2 en handritshöfundar leystu það þannig í nýju þáttunum að Sarah léki konu sem væri að biðja Becky um að vera staðgöngumóðir sín.

Fangar fegurðina í sambandi móður og barns

|||||||||
|||||||||

Ljósmyndarinn Caitlin Domanico byrjaði að fanga myndir af móðurhlutverkinu árið 2007, en hún missti sjálf móður sína árið 2003 þegar hún var aðeins tuttugu ára gömul.

„Ég var heilluð af nánu sambandi sem sést vel á milli nýrrar móður og barns. Þegar ég horfi til baka get ég sagt að samband mitt við mína eigin móður hafði mikil áhrif á mig,“ segir ljósmyndarinn í samtali við Huffington Post.

Caitlin hefur tekið aragrúa mynda sem fanga þetta samband á milli móður og barns og vakti til að mynda athygli fyrir myndaseríuna United We Feed sem sýndi mæður gefa börnum sínum næringu á ýmsan hátt. Svo var það árið 2017 að hún gaf út bókina Photographing Motherhood: How to Document the Lives of Women and Their Families ásamt ljósmyndaranum Jade Beall en í bókinni voru myndir af mæðrum á ýmsum stigum lífsins. Caitlin segir fegurðina liggja í smáatriðunum.

„Smáatriðin fanga auga mitt – hvernig barn heldur í hálsmen móður sinnar á meðan það nærist, hvernig móðir strýkur tær barns síns mjúklega, hvernig barn nálgast hár móður sinnar og snýr því upp á fingur sér,“ segir ljósmyndarinn og bætir við:

„Ég reyni að skrásetja þessa agnarsmáu hluti sem komast svo fljótt í vana, eru svo hefðbundnir og virðast vera svo venjulegur þangað til einn daginn – á augnabliki er virðist – hverfa þeir er börnin okkar vaxa úr grasi.“

Aðalmarkmið Caitlin er að gefa fjölskyldum góðar minningar með myndum sínum og hvetur foreldra til að stilla sér oftar upp með börnum sínum á mynd.

„Ég vona að myndirnar veki upp góðar minningar úr barnæsku eða frá fyrstu árum barnsins. Ég vona að þetta veiti fólki innblástur til að stíga fyrir framan myndavélina, hvernig sem það er klætt og þó það sé ekki farðað eða með fullkomið hár og hvað sem vigtin sýnir.“

Myndir / Caitlin Domanico

Á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti

||
||

Ríkislögreglustjóri bar ábyrgð á að veita lögreglumanni sem var kærður fyrir barnaníð lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Þetta kemur fram í bréfi Innanríkisráðuneytisins til móður barnsins.

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. Haraldur hefur hafnað því að hafa brugðist Helgu Elínu, dóttur Halldóru.

Það er á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í svari þáverandi Innanríkisráðuneytis við bréfi frá Halldóru Baldursdóttur, sem ritstjórn Mannlífs hefur undir höndum og er dagsett 8. júní 2012.

Í bréfinu kvartaði Halldóra undan viðbrögðum yfirstjórnar lögreglu við kæru á hendur lögreglumanni vegna meints hans kynferðisbrots á dóttur hennar, sem var tíu ára þegar hið meinta brot var framið.

Í svari sínu bendir Innanríkisráðuneytið á að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga n.r 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skuli það stjórnvald sem skipar í embætti veita og lausn frá því um stundarsakir. En samkvæmt 5. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skipar ríkislögreglustjóri lögreglumenn til starfa til fimm ára í senn.

Ennfremur kemur fram í svari Innanríkisráðuneytisins að þótt veitingarvaldshafa sé synjað um afhendingu gagna í sakamáli, þá telji ráðuneytið ekki ómögulegt fyrir veitingarvaldshafa að meta hvort forsendur séu til þess að veita embættismönnum lausn um stundarsakir.
En embætti ríkislögreglustjóra taldi sér ómögulegt að veita umræddum lögreglumanni lausn um stundarsakir þar sem embættinu hafði verið synjað um upplýsingar um rannsókn sakamálsins á hendur manninum.

Með hliðsjón af ofangreindum atriðum mat ráðuneytið það sem svo að það væri á ábyrgð ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu.

Hér er bréfið sem ritstjórn Mannlífs hefur undir höndum:

 

Dreymdi alltaf um að fá Rut Kára til að hanna heimilið sitt

Hannes Steindórsson er löggiltur fasteignasali hjá Lind fasteignasölu. Hannes er einn af eigendum fasteignasölunnar. Hann býr með Lísu Maríu Markúsdóttur viðskiptafræðingi og á þrjú dásamleg börn, Evu Nadíu, þriggja ára frekjudós að hans eigin sögn, Steindór Örn, tíu ára fótbolta- og fimleikastrák og Söru Nadíu, tólf ára „going on 16“ fótboltastelpu. Hannes er Kópavogsbúi og býr í Þrymsölum 16 Kópavogi.

Hvað heillar þig mest við starfið?  „Fjölbreytileikinn og fólkið, er á tuttugu og þriggja manna vinnustað og vinn með frábæru fólki, hef unnið með sama fólkinu í tíu ár eða meira, vinn með vinum mínum, hitti nýtt fólk alla daga ársins og alltaf ný og ný verkefni. Fasteignasalar hitta eitt til tvö þúsund manns á ári hverju sem tengist vinnu þeirra. Svo er alltaf rosalega gaman að selja fyrstu kaupendum, alltaf svo mikil spenna að fá sitt fyrsta heimili.“

Getur þú lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér? „Vakna kl 07:00, keyri yngstu dóttur mína í leikskóla og stóru börnin í skóla, mæti í vinnu vanalega um 08.30. Byrja alla daga á að svara póstum gærkvöldsins og fer yfir plan dagsins, vanalega er ég á skrifstofunni fyrir hádegi og svo sýni ég eignir og skoða eignir ásamt að fara á fundi eftir hádegi. Vinnudagurinn er oftast til 18:00, þá reyni ég að fara út að hjóla eða í ræktina.“

Hannes Steindórsson er löggiltur fasteignasali

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili? „Það er fjölskyldan, fólkið, minningarnar, sagan, gömul húsgögn með sögu og svo margt, margt fleira.“

Geturðu líst þínum stíl?  „Minn stíll er frekar einfaldur, fáir hlutir, lítið dót, stílhreint, hlýlegt.“

Áttu þinn uppáhalds arkitekt? ,,Í raun ekki er mjög hrifinn af mörgum, Sigvaldi var rosalega flottur og margir góðir á Íslandi, ég er hrifinn af einfaldri hönnun og góðu skipulagi, mér finnst til dæmis nýjar íbúðir í dag margar hverjar mjög vel nýttar.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð? „Í dag er ég mjög hrifinn af Berglindi Berndsen og Hönnu Stínu Ólafsdóttur, mig dreymdi alltaf líka um að fá Rut Kára til að hanna heimilið mitt en það eru svo margir góðir á Íslandi.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Mig dreymir um að eiga gufubað og heitan pott á heimilið, sé fyrir mér að koma heim eftir langan vinnudag og fara í gufu.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Ég held að uppáhaldsliturinn minn sé rauður.“

Að leggjast í sófann hjá mömmu er best

 Hvar líður þér best? „Heima hjá mér með fólkinu mínu (klassískt svar). Mér líður alltaf vel hjá mömmu og pabba, að fara í heimsókn og leggjast í sófann hjá mömmu er best. Mér líður líka mjög vel í vinnunni og á fjallahjóli einn í miðjum skógi eða á skíðum.“

Nú er sumarið komið og margir huga að garðinum, er eitthvað sem þig langar að eignast í garðinn?  „Er mjög lítill garðyrkjumaður, slæ garðinn það er allt sem ég geri þar, ef ég fengi mér blóm sem þyrfti að hugsa um þá myndu þau visna fljótt.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Margir svo góðir í dag.

Grillmarkaðurinn er alltaf svalur, Ghandi er einn af mínum uppáhalds. Besti matur sem ég hef fengið nýlega var á Bastard (gamla Vegamót).“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar?  „Stílhreint og einfalt finnst mér alltaf fallegast.“

Að lifa lífinu lifandi er að … „vera allskonar, gera allskonar og njóta.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir

 

Allir sem einn dagurinn  – leikgleðin í fyrirrúmi og allir brostu breitt

Allir sem einn dagurinn sem er knattspyrnuhátíð KR í samstarfi við Alvogen fór fram á dögunum og var þátttakan með besta móti. Mikið var um dýrðir og  heppnaðist dagurinn afar vel í alla staði.

Fjölskyldur flykktust að og tóku þátt, allir voru með, foreldrar, börn og aðstandendur.

Fjölskyldur flykktust að og tóku þátt, allir voru með, foreldrar, börn og aðstandendur. Góðir gestir komu í heimsókn, meðal annars Ari Ólafsson sem tók lagið við mikinn fögnuð viðstaddra, landsliðsgestir komu í heimsókn, Rúnar Alex, landsliðsmarkmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sem er á leiðinni á HM til Rússlands og boðið var upp á fyrirlestur fyrir foreldra sem Brynjar Þór og Þórunn Helga fluttu. Allir iðkendur voru leystir út með gjöfum, glæsilegum fótbolta frá Alvogen. Boðið var upp á grillaðar pylsur sem runnu ljúft ofan í maga gesta.

Við hittum tvo af skipuleggjendum dagsins, Sigurð Örn Jónsson, formann Barna- og unglingaráðs KR (BUR), og Kristján Schram sem einnig er í ráðinu ásamt öðru góðu fólki og spurðum þá spjörunum úr um markmiðið dagsins og yfirskriftina.

Góðar fyrirmyndir í hnotskurn
Hvert er markmið ykkar með því að halda þennan dag, Allir sem einn? „Markmiðið er skemmta og fræða unga iðkendur knattspyrnu hjá KR.  Yngstu iðkendurnir byrja daginn með því að fara í skemmtilega knattþrautir og leiki með leikmönnum meistaraflokkanna beggja.  Þar fá þeir að leika sér með þeim leikmönnum sem þeir líta upp til og eru fyrirmyndir þeirra.  Eldri iðkendur fá fræðslu um ýmis mál – mataræði, sálfræði, uppbyggilegan lífsstíl, að vera góður liðsfélagi, að spila knattspyrnu erlendis og fleira.

„Þessi dagur væri klárlega ekki haldinn án þeirra stuðnings.  En þeir eru miklu meira en stuðningsaðili því þeir hafa einnig mjög sterkar skoðanir á hvað er gert á deginum og hvernig hann er skipulagður …  Þetta er ekki bara enn einn skemmtidagurinn heldur er það fræðslan sem aðgreinir hann frá öðrum svipuðum atburðum.“

Foreldrar eru einnig hvattir til að vera með sínum börnum í báðum þessum hluta dagsins – þeir geta grætt jafnmikið á þessum degi og börnin í skemmtun og fræðslu. Svo eru alltaf skemmtiatriði og Alvogen hefur ár hvert gefið mjög glæsilegar gjafir til allra iðkenda.“

Góðir gestir komu í heimsókn, meðal annars Rúnar Alex, landsliðsmarkmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sem er á leiðinni á HM til Rússlands.

Fræðslan í forgrunni
Alvogen hefur styrkt þennan dag, getið þið aðeins sagt okkur frá ykkar samstarfi og hversu lengi Alvogen hefur tekið þátt í þessum degi með ykkur?  „Þetta er fjórða árið sem þessi dagur er haldinn.  Þessi dagur væri klárlega ekki haldinn án þeirra stuðnings.  En þeir eru miklu meira en stuðningsaðili því þeir hafa einnig mjög sterkar skoðanir á hvað er gert á deginum og hvernig hann er skipulagður.  Til dæmis er fræðsluhluti dagsins að mestu kominn frá þeim og við teljum núna að það sé einn mikilvægasti hluti dagsins og gefur deginum mun meiri vigt fyrir vikið.  Þetta er ekki bara enn einn skemmtidagurinn heldur er það fræðslan sem aðgreinir hann frá öðrum svipuðum atburðum.“

Þátttakan var með besta móti.

Heppin að búa yfir sterkum kjarna foreldra
Hvernig gengur almennt að fá foreldra og velunnara til að taka þátt í starfi félagsins?  „Við erum heppin í Vesturbænum að búa að því að hafa sterkan kjarna foreldra sem er virkur í KR-starfinu.  Auðvitað mætti hópurinn vera stærri en við fáum alltaf jákvæð svör við hverri fyrirspurn um aðstoð á degi sem þessum.“

Ari Ólafsson tók lagið við mikinn fögnuð viðstaddra,

Getið þið aðeins sagt okkur frá dagskrá dagsins, hvað var um að vera og hvernig var þátttakan? „Fyrir utan knattþrautir fyrir yngstu iðkendurna þá talaði Brynjar Þór, fyrirliði fimmfaldra Íslandsmeistara KR í körfubolta, um hvernig maður verður rað-Íslandsmeistari. Það gerist hvorki bara á einni nóttu né án sérstaks undirbúnings.  Svo talaði Þórunn Helga, fyrirliði meistaraflokks kvenna í knattspyrnu, um hvernig sé að spila knattspyrnu erlendis og hvernig sé hægt að undirbúa sig undir það.  En hún spilaði háskólabolta í Bandaríkjunum og svo í mörg ár í Brasilíu og Noregi eftir það.“

Krakkarnir skemmtu sér konunglega.

Sjáið þið fyrir ykkur að þessi dagur eigi eftir að blómstra enn frekar í framtíðinni, innan félagsins?  „Klárlega. Við vildum gjarnan að aðrar deildir komi að þessum degi fyrir utan knattspyrnuna til að gera hann enn stærri, en um fimm hundruð manns koma árlega,“ segja þeir félagar glaðir í bragði.

Mikið var um dýrðir og  heppnaðist dagurinn afar vel í alla staði.


Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

Viðskiptavinir skapa sín eigin listaverk

Þrjú ár eru nú síðan þau Herdís Arnalds og Marinó Páll Valdimarsson stofnuðu Literal Streetart sem eru borgar -og götumyndir. Síðustu mánuði hafa þau svo unnið hörðum höndum af nýrri afurð sem þau nefna Codeart en hún samanstendur af einfaldri línuteikningu með sérstakri merkingu hvers viðskiptavinar.

„Hugmyndin að Literal Streetart kviknaði þegar við vorum á rölti í gegnum IKEA og sáum götukort af stórborgum á við London og Tokyo til sölu,” segir Marinó og heldur áfram. „Við stunduðum bæði nám erlendis í litlum bæjum í Evrópu og Bandaríkjunum og áttum erfitt með að finna svipuð kort af bæjunum okkar.

„Við fórum því í það að hanna kort af okkar eigin bæjum og gáfum ættingjum og vinum kort af sínum heimaslóðum eða stöðum sem því þótti vænt um.”

„Eftir góðar móttökur hófumst við síðan handa við að búa til vefsíðu sem gerði hverjum sem er kleift að hanna frá grunni kort af uppáhaldsstaðnum þínum. Kortin hafa slegið
í gegn á Íslandi og hafa pantanir af nánast hvaða smábæ á landinu borist til okkar.

Nýju vöruna köllum við Codeart vegna þess að þú skapar listaverkið í samvinnu við tölvukóða.” Fyrsta serían af Codeart ber nafnið Ráf og samanstendur af einfaldri línuteikningu sem riðlast af handahófskenndu ráfi þúsunda lína. Þú velur orð eða setningu sem hefur sérstaka merkingu fyrir þig. Innsláttur þinn er síðan dulkóðaður og gerður að algjörlega einstökum kóða sem tryggir það að myndin þín verður einnig einstök. Inni á vefsíðunni okkar www.literalcodeart.com getur þú prófað að búa til þitt eigið verk og séð hvernig orðin þín verða að fallegu listaverki.”

Viðtalið í heild má lesa í 21. tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Hallur Karlsson.

Góð upplifun og leiðsögn í leiðinni

Sveitabærinn Hraðastaðir nýtur sívaxandi vinsælda en hann er staðsettur rétt fyrir utan borgarmörkin eða við Mosfellsdal. Undanfarin ár hefur starfsemi bæjarins breyst mikið en í dag er þar starfræktur húsdýragarður og hestaleiga, en síðastliðin fjögur ár hafa systurnar Linda og Sara staðið fyrir svokölluðum sveitasælunámskeiðum ætluðum börnum frá sex ára aldri.

Námskeiðin hafa notið mikilla vinsælda en þar gefst krökkum kostur á að kynnast sveitalífinu og annast dýrin á bænum.

Námskeiðin standa yfir í þrjár klukkustundir, fimm daga í senn en algengt sé að krakkar komi á fleiri en eitt námskeið yfir sumartímann. Linda ítrekar mikilvægi þess að börnin læri að meðhöndla dýrin rétt frá fyrstu kynnum. „Krakkarnir fá strax leiðsögn í því hvernig best sé að halda á smádýrunum en við erum bæði með kanínur og kettlinga ásamt stærri dýrum. Auk þess læra þau að fóðra öll dýrin, moka undan þeim og kemba hestunum. Krakkarinir fá jafnframt góðan tíma á hverjum degi til að vera saman og halda á dýrunum og fara í leiki ef þeir vilja. Hvert barn fær að fara tvisvar á hestbak á hverju námskeiði. Að okkar mati er þetta góð upplifun fyrir krakkana og fá þeir að kynnast allskyns dýrum og sveitalífinu ásamt því að eignast nýja vini. Við tökum fullt af myndum fyrir foreldrana auðvitað með leyfi þeirra og birtum þær inná facebook síðunni okkar og instagram undir notendanafninu hradastadir.”

Viðtalið í heild má lesa í 21. tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Ferðaþjónustuaðilar bera ábyrgð ef eitthvað bjátar á

|
|

Formaður félags leiðsögumanna segir það á ábyrgð fyrirtækja sem standa fyrir skipulögðum ferðum ef eitthvað komi upp á. Nýverið kom upp atvik þar sem fyrirtæki fór ekki að settum reglum.

Indriði H. Þorláksson, formaður Félags leiðsögumanna. Mynd / Skjáskot tekið úr viðtali í Kastljósinu.

Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri sem nýverið tók við sem formaður Félags leiðsögumanna, segir að ef eitthvað komi upp á í skipulögðum ferðum sé það á ábyrgð þeirra sem að þeim standi. Hann leggur áherslu á að fyrirtæki í ferðaþjónustu verði að gera sér grein fyrir ábyrgðinni sem á þeim hvílir. „Það gildi engin lög um réttindi eða kröfur gerðar til þeirra sem vilja kalla sig leiðsögumenn,“ nefnir hann sem dæmi. „Í raun getur sá sem skipuleggur og selur ferðir dubbað hver sem er upp sem leiðsögumann.“

„Viðkomandi fyrirtæki sem gerir ferðina út er líka ábyrgt fyrir athöfnum þeirra sem það ræður til starfa.“

Á sunnudagskvöld hafði Varðskipið Týr afskipti af farþegabát hvalaskoðunarfyrirtækisins Láki Tours austur af Rifi, en fyrirtækið gerir út frá Snæfellsnesi. Leyfi var fyrir 30 manns í bátnum en um borð voru 40 farþegar og fjögurra manna áhöfn, að því er fram kom í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Gísli Ólafsson, skipstjóri og eigandi fyrirtækisins, lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að hann hafi sótt um tryggingu eins og alltaf fyrir 45 farþega á bátinn en tryggingafélag hans sent inn vitlausa tilkynningu til samgöngustofu. Fyrirtækið sé með leyfi fyrir 45 manns en 40 hafi verið um borð. En í tilkynningu Landhelgisgæslunnar segir enn fremur að tveir af fjórum í áhöfn hafi ekki verið lögskráðir og enginn þeirra með réttindi til að gegn stöðu vélstjóra.

Gísli skipstjóri er sjálfur með vélstjóra- og skipstjóraréttindi fyrir báta að 12 metrum. Báturinn sem Landhelgisgæslan stöðvaði var hins vegar fjórum metrum lengri. Gísli sagðist vera með réttindi fyrir stærri báta en hafi átt eftir að fá skírteinið afhent. Hann sagði mistökin liggja hjá Samgöngustofu en lögskráningarkerfið hafi legið niðri um helgina. Hann tók fram í samtali við mbl.is að farþegar hafi ekki verið í neinni hættu.

Indriði áréttar ábyrgðarhluta fyrirtækja í ferðaþjónustu. „Það er ekki ábyrgðarlaust að ráða til starfa fólk án þess að vita hvort það er fullfært um að gegna því hlutverki sem það er ráðið til. Viðkomandi fyrirtæki sem gerir ferðina út er líka ábyrgt fyrir athöfnum þeirra sem það ræður til starfa,“ segir hann og bendir á að leiðsögumenn og fyrirtækin séu ábyrg fyrir þeim sem þeir leiðsegja. „Að þessu leyti er staðan í ferðaþjónustu arfaslök. Engar reglur gilda. Það eru til skólar sem útskrifa leiðsögumenn og miða við ákveðinn staðal sem er viðurkenndur í Evrópu. En það er engin kvöð sem hvílir á þeim sem ráða leiðsögumenn að ráða þá í þjónustu sína. Þeir hafa algjörlega frjálsar hendur. En þótt þetta sé ekki niðurskrifað í lögum þá eru almenn ábyrgðarsjónarmið fyrir hendi í ferðaþjónustu,“ segir Indriði

Ekki náðist í Samgöngustofu vegna málsins.

Lögreglustjóri segir að verklagsreglum lögreglu hafi verið breytt

|||
|||

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir verklagsreglum hafa verið breytt nýlega sem leggi skýrari línur um hvernig bregðast skuli við þegar að lögreglufulltrúar fá á sig kæru um alvarlega glæpi á borð við kynferðisbrot gagnvart börnum.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.

Halldóra Baldursdóttir, móðir stúlku sem kærði lögreglumann fyrir kynferðisbrot, gagnrýndi vinnubrögð lögreglunnar í ítarlegu viðtali í Mannlífi í síðustu viku. Sakborningnum var t.a.m. ekki vikið úr starfi meðan á rannsókn stóð og telur Halldóra brotalamir á allri málsmeðferðinni.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“

Hún skýrði meðal annars frá því í viðtalinu að þegar aðstæður í sumarbústaðnum þar sem brotin fóru fram voru loks rannsakaðar hafi lögreglumaðurinn, sakborningurinn sjálfur, farið á vettvang með rannsakendum. Að sögn núverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins er það ekki venjan. „Lögregla rannsakar venjulega brotavettvang án þess að sakborningar eða vitni séu viðstödd, en undantekningar kunna að vera á því,“ segir Sigríður Björk.

Þá gagnrýndi Halldóra að lögreglumaðurinn skyldi fá að starfa áfram, og það í sama sveitarfélagi og þær mæðgur bjuggu, þrátt fyrir þrjár kærur um kynferðisbrot gagnvart ungum stúlkum. „Reglur hvað þetta varðar hafa tekið breytingum á undanförnum árum en í dag er þetta mat í höndum lögreglustjóra,“ segir Sigríður. „Hjá LRH er það verklag að öll mál af þessu tagi eru skoðuð og farið yfir málsatvik og tiltækar upplýsingar sem Embættið hefur rétt á að fá. Ef kæra berst á hendur lögreglumanni þá er það metið í hverju tilviki fyrir sig hvort rétt sé að færa viðkomandi til í starfi, leysa viðkomandi tímabundið undan starfsskyldum eða veita viðkomandi lausn frá embætti um stundarsakir á grundvelli tiltækra gagna. Lausn frá embætti um stundarsakir er endurskoðuð af svokallaðri 27. greinar nefnd, en einnig hefur það gerst að samhliða því er slík ákvörðun kærð til fagráðuneytis. Ef rannsókn leiðir ekki til ákæru og viðkomandi metur það svo að á honum hafi verið vikið að ósekju, er unnt að stefna viðkomandi stofnun fyrir dóm og óska skaðabóta.“

Fái lögreglumaður hins vegar fangelsisdóm er skýrt kveðið á um að hann fái ekki að halda starfi sínu.

„Lögregla rannsakar venjulega brotavettvang án þess að sakborningar eða vitni séu viðstödd.“

Lögreglumanni ber að meta eigið hæfi

Lögreglumaður sem kærður hefur verið fyrir kynferðisbrot geti þó áfram starfað við rannsóknir á kynferðisbrotamálum og gæta þurfi varúðar þegar lögreglumenn séu færðir til í starfi. „Sé mál gegn lögreglumanni fellt niður eða hann sýknaður í dómi þá á hann rétt á að halda sínu starfi enda er hver sá maður sem borinn er sökum saklaus uns sekt er sönnuð. Hingað til hefur sú framkvæmd verið viðurkennd að forstöðumaður geti fært starfsmenn í aðrar deildir eða önnur verkefni, svo fremi að launakjör og stöðuheiti séu óbreytt. Eitt mál er nú fyrir Hæstarétti þar sem mun reyna á þessi ákvæði en framkvæmdin var staðfest fyrir héraðsdómi,“ bendir Sigríður á.

Halldóra lýsti því enn fremur hvernig hún nýlega var sett í óþægilega stöðu þegar hún óskaði eftir aðstoð lögreglu og lögreglumaðurinn sem dóttir hennar hafði kært fyrir kynferðisbrot mætti á vettvang. Á jafnlitlu landi og Íslandi eru þetta aðstæður sem geta hæglega komið upp, en skyldi viðkomandi lögreglumanni ekki bera skylda til að sýna borgaranum þá tillitssemi að biðjast undan því að fara í útkallið? „Með því að víkja lögreglumönnum tímabundið frá störfum meðan mál sem geta leitt til fangelsisdóms eru til rannsóknar er komið í veg fyrir að svona staða geti komið upp. Ef mál er fellt niður eða viðkomandi sýknaður á hann rétt að halda starfi sínu eins og áður sagði,“ útskýrir Sigríður. „Ef ekki hafa verið sett sérstök skilyrði fyrir því að viðkomandi annist ekki ákveðin verkefni, er ekki tilefni til tiltals, hins vegar þarf embættismaður að meta hæfi sitt hverju sinni, með tilliti til frændskapar eða annarra atriða sem áhrif geta haft á störf hans eða þjónustu viðkomandi yfirvalds.“

Aðskilin mál en leitað eftir líkindum

Dóttir Halldóru sagði lögreglumanninn hafa brotið á sér í sumarbústaðarferð en með í för voru vinahjón mannsins og kona hans. Þegar hún kærði lögreglumanninn hafi verið tekin skýrsla af vinahjónunum á skrifstofu eiginmannsins en sá er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera. „Skýrslutökur á rannsóknarstigi fara fram fyrir luktum dyrum og helst á lögreglustöð sé þess kostur eða öðru sérútbúnu húsnæði,“ segir Sigríður Björk. „Skýrslutaka fer stundum fram á brotavettvangi eða öðrum stöðum, en ávallt skal gæta þess að spyrja án nærveru annarra. Það er sjaldgæft að skýrslutaka yfir vitnum fari fram á starfsstöð viðkomandi.“

Halldóra hefur óskað eftir því við Nefnd um eftirlit með lögreglu að málsmeðferðin verði skoðuð. Eitt að því sem hún gagnrýndi harðlega var að þrátt fyrir að þrjár stúlkur hefðu kært lögreglumanninn hefðu málin ekki verið rannsökuð saman og ekkert brugðist við fullyrðingum lögreglumannsins um að stúlkurnar þrjár hefðu uppi samsæri gegn sér. Spurð hvort til greina kæmi að þrjár sambærilegar kærur um kynferðisbrot gagnvart börnum yrðu rannsakaðar sem eitt mál segir Sigríður Björk það ekki vera. „Hvert tilvik er rannsakað sérstaklega. Ef brotaþolar eru fleiri en einn og ætluð brot eru aðgreind eru venjulega stofnuð aðgreind mál. Við rannsóknina er skoðað sérstaklega hvort líkindi séu með ætluðum brotum, en litið er til þess við mat á sönnun.“

Sigríður Björk undirstrikar að hún geti ekki tjáð sig um þetta einstaka mál og svari því aðeins almennum spurningum um verklagsreglur við sambærilegar aðstæður, miðað við stöðu mála í dag en þær hafi tekið miklum breytingum síðustu ár. „Nú er þessum málum undantekningarlaust beint til héraðssaksóknara og Nefndar um eftirlit með lögreglu,“ segir Sigríður en sú nefnd tók til starfa á síðasta ári. „Berist LRH kvörtun eða kæra á hendur lögreglumanni er nefndin upplýst um það.“ Um hlutverk nefndarinnar er fjallað í VII. kafla lögreglulaga nr. 90/1996.

________________________________________________________

Mál Helgu Elínar og Halldóru

Brotalamir á rannsókninni

Halldóra Baldursdóttir og dóttir hennar Helga Elín. Halldóra gagnrýnir meðal annars að sakborningi hafi ekki verið vikið úr starfi meðan á rannsókn stóð. Mynd / Hallur Karlsson

Halldóra Baldursdóttir, móðir stúlkunnar sem kærði lögreglumann fyrir kynferðisbrot, telur að brotalamir séu á allri málsmeðferðinni. Hún gagnrýnir meðal annars að sakborningi hafi ekki verið vikið úr starfi meðan á rannsókn stóð. Þetta kom fram í ítarlegu viðtali við Halldóru í Mannlífi á föstudag í síðustu viku.

Sjá einnig: Segist ekki hafa brugðist dóttur Halldóru

Embætti ríkislögreglustjóra hefur andmælt þeirri fullyrðingu Halldóru að ríkislögreglustjóri, Haraldur Johannessen, hafi brugðist dóttur Halldóru, eins og fram kemur í framangreindu viðtali. Í tölvupósti sem embættið sendi ritstjórn Mannlífs, og lesa má í fullri lengd á www.man.is, segir meðal annars að ríkislögreglustjóri hafi farið þess á leit við ríkissaksóknara í tilefni af umfjöllun um málið í fjölmiðlum að fá afhent rannsóknargögn málsins til þess að unnt væri að taka ákvörðun um hvort leysa skyldi lögreglumanninn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Ríkissaksóknari hafnaði erindi Embættis ríkislögreglustjóra með vísan til heimildarskorts í lögum og fékk því Embættið ekki rannsóknargögn málsins. Þar sem beiðni um rannsóknargögn var synjað hafi ekki verið grundvöllur til að byggja á að mati Embættisins hvort leysi ætti lögreglumanninn frá embætti og var ríkissaksóknara gerð grein fyrir því.

Í sama tölvupósti bendir Embætti ríkislögreglustjóra á að vegna alvarleika málsins hafi Embætti ríkislögreglustjóra beint því til þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, með bréfi 8. nóvember 2011, að meta hvort hann leysti lögreglumanninn undan vinnuskyldu, „en það er á forræði lögreglustjóra að ákveða um tilfærslu í starfi og við hvaða verkefni lögreglumaður starfar.“

Mannlíf náði í kjölfarið tali af Stefáni Eiríkssyni, sem starfaði sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins meðan á rannsókn málsins stóð. Stefán kveðst ekki hafa fylgst með umfjöllun um málið og neitar að tjá sig um það. „Þetta er ekki mál sem ég hef heimild til að tjá mig um,“ svaraði hann blaðamanni Mannlífs.

Sýndi ekki kjark og þor til að standa með barninu

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.

Halldóra furðar sig á viðbrögðum Embættis ríkislögreglustjóra. Hún segir „óskiljanlegt“ og „sárara en orð fá lýst“, að hann firri sig ábyrgð á því að hafa ekki vikið lögreglumanninum frá störfum, þrátt fyrir ítrekaðar kærur fyrir kynferðisofbeldi. Í tölvupósti sem hún sendi ritstjórn Mannlífs segir hún ekki vafamál á því hver beri ábyrgð á að lögreglumaðurinn í umræddu kynferðisbrotamáli starfi enn innan lögreglunnar.

Sjá einnig: Á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti

Í því samhengi bendir Halldóra á svar sem hún fékk frá innanríkisráðuneytinu, þegar hún kvartaði undan undan viðbrögðum yfirstjórnar lögreglu í málinu. Í svari sínu bendir ráðuneytið á að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga n.r 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skuli það stjórnvald sem skipar í embætti veita og lausn frá því um stundarsakir

. Með öðrum orðum kemur fram það sé á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu.

Enn fremur kemur fram í svari ráðuneytisins að ekki sé ómögulegt fyrir veitingarvaldshafa að meta hvort forsendur séu til þess að veita embættismönnum lausn um stundarsakir þótt honum sé synjað um afhendingu gagna í sakamáli. En eins og áður sagði taldi Embætti ríkislögreglustjóra ómögulegt að veita umræddum lögreglumanni lausn um stundarsakir þar sem embættinu hafði verið synjað um upplýsingar um rannsókn sakamálsins á hendur manninum. Svar ráðuneytisins má lesa í heild sinni á www.man.is

Halldóra segir um Embætti ríkislögreglustjóra: „Þetta er mín upplifun og mitt mat og er mér óskiljanlegt að ríkislögreglustjóri telji sig geta mótmælt því. Hann sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu.“

Tæplega 200 kílóum af kjörseðlum eytt í Reykjavík

Mikið grín var gert að stærð kjörseðla í Reykjavík fyrir nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar, enda sextán flokkar í framboði og lengd kjörseðlanna eftir því. Samkvæmt upplýsingum frá Helgu Björk Laxdal, skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjórnar, lét yfirkjörstjórn í Reykjavík prenta 93.000 kjörseðla samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórnar.

„Þar kemur fram að gera skal ráð fyrir jafnmörgum seðlum í hverri kjördeild og kjósendur eru á kjörskrá og minnst 10% fram yfir,“ segir Helga og bætir við. „Það voru 90 kjördeildir í Reykjavík og 1000 til 1200 kjósendur í hverri þeirra að jafnaði.“

Þá segir Helga að fimm hundruð kjörseðlar hafi rúmast í hvern kassa sem pakkað var niður í sem hver um sig vó sautján kíló. Því má áætla að heildarþyngd kjörseðlanna hafi verið 186 kíló.

Sjá einnig: Tvífarar frambjóðendanna: Þau eru sláandi lík.

Á öruggum stað

Samkvæmt fyrrnefndum lögum um kosningar til sveitarstjórnar skulu kjörseðlar vera úr haldgóðum pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum, að minnsta kosti 125 g/m að þyngd. Þá kveða þau einnig um að yfirkjörstjórn skuli eyða kjörseðlum eftir tilskilinn tíma eftir að kosningu lýkur.

„Kjörseðlarnir og önnur kjörgögn eru nú geymd á öruggum stað undir innsigli fram yfir kærufrest sem eru sjö dagar, eða að fullnaðarúrskurði uppkveðnum varðandi kosninguna, ef kosning hefur verið kærð. Að þeim tíma loknum, skal yfirkjörstjórn eyða hinum innsigluðu kjörseðlum samkvæmt ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórna. Kjörseðlunum er því eytt og þeir endurunnir í samræmi við öryggiskröfur,“ segir Helga, en ekki er gefið upp hvar kjörseðlarnir eru geymdir þangað til. „Kjörseðlarnir eru geymdir á öruggum stað sem yfirkjörstjórn velur og innsiglar. Nánari staðsetning er ekki gefin upp af öryggisástæðum.“

Kosningar í Reykjavík í tölum

Á kjörskrá: 90.135
Hve margir kusu: 60.422
Kjörsókn í prósentum: 67,04%

Stærstu flokkar:

Sjálfstæðisflokkur – 30,77% – 8 borgarfulltrúar
Samfylkingin – 25,88% – 7 borgarfulltrúar
Viðreisn – 8,16% – 2 borgarfulltrúar
Píratar – 7,73% – 2 borgarfulltrúar

Söðlaði um, gerðist eplabóndi og býður nú í ævintýraferð

|||
|||

Erla Hjördís Gunnarsdóttir söðlaði um fyrir þremur árum, pakkaði niður í töskur og gerðist eggja- og eplabóndi í smábænum Álavík í Noregi ásamt eiginmanni sínum. Nú býður hún Íslendingum í ævintýralega eplaferð um vesturströnd Noregs.

Aðalmynd: Hér sést Erla (til vinstri) ásamt Ingibjörgu Pétursdóttur, forritara hjá Bændasamtökum Íslands. Í bakgrunni eru dætur Erlu, þær Dagbjört Dís og Glódís Björt.

Kári Kiljan, yngsta barn Erlu, ánægður með uppskeruna í Álavík.

„Ég er skipuleggjandi og fararstjóri og var búin að hugsa þetta nokkrum sinnum, að auglýsa slíka ferð þar sem ég er eggja- og eplabóndi í smábæ í Harðangursfirðinum og hafði tekið eftir miklum áhuga gesta á okkur, sérstaklega á eplaræktinni. Þannig að mín hugmynd er að geta kynnt eplaræktina enn frekar fyrir Íslendingum og leyfa þeim að taka þátt í uppskerunni með því að ganga um eplaakurinn, tína sér nesti í poka og komast þannig í sannkallað návígi við eplin,“ segir fjölmiðlakonan og bóndinn Erla Hjördís Gunnarsdóttir. Erla skipuleggur nú eplauppskeru- og ævintýraferð til Noregs dagana 3. til 7. október. Það eru þó ekki aðeins eplin sem spila stórt hlutverk í ferðinni.

„Að auki ætlum við að heimsækja bændur sem selja beint frá býli, heimsækja eplavínsverksmiðju, stoppa á ekta norsku sveitakaffihúsi og fá þjóðlegar veitingar, kynnast jarðgangna- og brúargerð á heimsmælikvarða, skoða tignarlega norska fossa, fá kynnisferð um Oleana-prjónaverksmiðjuna sem er ein af fáum fataframleiðendum í Noregi sem enn framleiða allar sínar vörur í heimalandinu, skoða stafkirkju í Bergen og kynnast borginni betur ásamt fleiru,“ segir Erla full tilhlökkunar og bætir við: „Þetta verður sannkölluð ævintýraferð á vesturströnd Noregs, nánar tiltekið í kringum Bergen og Harðangursfjörðinn.“

500 eplatré og 7500 varphænur

Erla telur að ferð sem þessi höfði til Íslendinga þar sem lítið sé um skipulagðar ferðir á milli þessara nágrannalanda. Sjálf er hún hugfangin af Noregi eftir að hún og fjölskylda hennar, sem telur eiginmann og þrjú börn stökk ofan í djúpu laugina fyrir þremur árum síðan.

„Við fjölskyldan fluttum hingað fyrir þremur árum af hreinni ævintýramennsku og við hjónin ákváðum að gerast bændur sem við höfðum ekki prófað áður heima. Þetta tækifæri kom í gegnum vinnuna mína hjá Bændasamtökum Íslands og eftir dágóða umhugsun ákváðum við að slá til og prófa því við vissum að þetta tækifæri myndi ekki koma aftur,“

segir Erla og sér ekki eftir því að hafa látið slag standa þegar færi gafst.

„Við erum hér í smábænum Álavík sem telur nálægt þúsund íbúum og er sveitabærinn staðsettur í miðju bæjarins. Við erum með 7500 varphænur og um 500 eplatré og með okkar eigin rekstur í kringum búskapinn. Við prófuðum einnig að rækta hindber í gróðurhúsi en það var ekki arðbært svo við snerum snarlega út úr því. Hér var okkur rosalega vel tekið og hefur gengið mjög vel með börnin okkar þrjú svo við sjáum ekki eftir að hafa stokkið á þetta tækifæri, við verðum öll reynslunni ríkari eftir þessa upplifun.“

Ekki leiðinlegt útsýni hjá bændunum í Álavík.

Hjartað slær á Íslandi

Hún segir þó að Ísland togi enn í fjölskylduna, enda mikið og stórt bakland sem þau eiga þar af ættmennum og vinum.

„Við litum alltaf á þetta sem tímabundið ævintýri og gerum enn og hjartað slær óneitanlega heima á Íslandi. Við tökum eitt ár í einu, aðallega vegna þess að hænurnar eru rétt rúmt ár inni í húsi og síðan er þeim skipt út. Svo það verður að koma í ljós hvað við gerum, hér er ákaflega gott að vera en heima er best og fyrir okkur er það Ísland.“

Þeir sem vilja fræðast meira um ferðina geta haft samband við Erlu í gegnum netfangið [email protected] eða í síma 563 0320.

15 tonn af eplum

Erla og fjölskylda hennar rækta 15 tonn af eplum á ári en í Harðangursfirði eru kjöraðstæður til ávaxtaræktunar, sérstaklega epla-, peru-, plómu- og kirsuberjaræktunar.

Fjölskyldan ræktar nokkrar mismunandi tegundir af eplum.

Myndir / Úr einkasafni

„Ég rek ekki mína pólitísku stefnu“

||||
||||

Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, heldur mörgum boltum á lofti. Auk þess að vera í krefjandi og tímafreku starfi hefur hún nýlokið MBA-gráðu við Háskólann í Reykjavík eftir tveggja ára nám sem hún stundaði samhliða starfinu og rekstri stórs heimilis.

„Ég er að vinna fyrir fólk sem er í pólitík og það vill svo heppilega til að ég deili einhverjum grundvallargildum með fólkinu sem ég vinn fyrir, en ég hef aldrei litið þannig á það að ég sjálf sé í pólitík. Ég rek ekki mína pólitísku stefnu.“

„Ég er bara vel gift,“ segir Svanhildur, spurð að því hver sé lykillinn að því að láta þetta allt saman ganga upp og vísar þar til eiginmanns síns, Loga Bergmann Eiðssonar fjölmiðlamanns. Svanhildur átti sjálf glæstan feril í fjölmiðlum áður en hún söðlaði um árið 2009 og gerðist framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins og síðar aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar. Hvað kom til að hún tók þá ákvörðun að breyta algjörlega um starfsvettvang?

„Ég hætti á Stöð 2 veturinn 2008-2009 og fór þá í leyfi til að ljúka námi í lögfræði. Þegar því var lokið áttaði ég mig á því að mig langaði ekki að fara aftur í fjölmiðlaumhverfið. Það var ekki mjög spennandi á þeim tíma, rétt eftir hrun, þegar andrúmsloftið var þannig að ef maður var ekki að lemja fólk með naglaspýtu í beinni þá var maður ekki að vinna vinnuna sína.“

Svanhildur dregur við sig svarið þegar hún er spurð hvort hún hafi alltaf verið pólitísk.
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þjóðmálum,“ segir hún. „Ég man eftir því að hafa verið í fyrsta bekk í menntaskóla að hnakkrífast við bekkjarfélaga minn sem var mikill framsóknarmaður af Norð-Vesturlandi. Við vorum alls ekki sammála um landbúnaðarstefnuna á þeim tíma og mig minnir að við höfum verið að rífast um einhverja fríverslunarsamninga. En ég tók ekki þátt í neinu flokksstarfi fyrr en ég var að ljúka menntaskólanum. Svo kemur lífið fyrir mann og ég áttaði mig á því að ég hafði meiri áhuga á því að vinna á fjölmiðlum og vera þeim megin við borðið, heldur en að vera í pólitíkinni.“

„Ég hef alveg skoðanir og ég reyni að hafa áhrif, eins og fólk gerir yfirleitt. Ég segi það sem mér finnst um hlutina en á endanum er ég að vinna fyrir einhvern sem er sjálfur kjörinn fulltrúi og ber á ábyrgð á þeim verkum sem hann ákveður að koma í framkvæmd.“

Lífsgildin hægra megin
Svanhildur segist alltaf hafa verið sjálfstæðiskona. „Já, mín lífsgildi eru bara þar,“ segir hún ákveðin. „Þau eru hægra megin í lífinu, þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé reyndar merkileg blanda af þessari markaðsdrifnu hugsun og mjög mikilli velferðarstefnu. Fólki finnst það örugglega hljóma ofsalega furðulega, en ég veit ekki um aðra flokka sem teljast til hægri flokka sem eru jafnmikið í því að tala fyrir og framkvæma í ríkisstyrktum velferðarmálum.“

Spurð hvort pólitík hafi verið mikið rædd á heimili hennar þegar hún var að alast upp segir Svanhildur að  hún hafi ekki upplifað það sem pólitíska umræðu á þeim tíma en allir hlutir sem skipta máli hafi alltaf verið mikið ræddir á heimili foreldra hennar.
„Mamma og pabbi hafa áhuga á öllu mögulegu og það þótti bara eðlilegt ég læsi öll dagblöð alveg frá því að ég lærði að lesa, fimm ára gömul. Ég er alin upp í sveit og las allt sem ég náði í, þar á meðal dagblöðin og Familie Journal og Andrés Önd á dönsku. Maður las bara allt lesefni sem maður fann og mamma og pabbi voru mjög dugleg að ræða hlutina við mann. Það er mjög fínt veganesti og það er ennþá þannig að mér líður stundum eins og ég sé í viðtali þegar mamma og pabbi koma í bæinn og fara að spyrja mig út í hlutina. Það eru allir hlutir ræddir og ég held að það sé bara mjög normalt á hverju heimili.“

„Ég hef takmarkað þol fyrir netrifrildum, forðast fjölmenni ef ég get og mannamót vaxa mér oft í augum. Ég á ekki í neinum vandræðum með að tala fyrir framan fólk og svoleiðis, en ég er hræðilega léleg í „smalltalki“,“ segir Svanhildur.

Ástæða fyrir að fólk er pirrað
En þið Logi, eruð þið alltaf sammála um pólitíkina? „Ég ætla nú ekki að fara að tala fyrir Loga,“ svarar Svanhildur og hlær. „Við erum oft sammála þótt við séum ekkert alltaf nákvæmlega á sama máli, en það veldur engum vandkvæðum í sambandinu. Við erum bara mjög heppin með það að geta rætt alls konar hluti, hvort sem þeir snerta pólitík eða fjölmiðla eða hvað sem er. Þetta eru okkar ær og kýr, þjóðmál og fjölmiðlar eru það sem við höfum lifað og hrærst í eiginlega síðan við fórum út á vinnumarkaðinn.“

Svanhildur og Logi eru bæði þjóðþekktir einstaklingar og oft milli tannanna á fólki, hvernig gengur að takast á við það?
„Veistu það að ég finn bara ekkert fyrir því,“ segir Svanhildur. „Ég skil aldrei þessar spurningar um það að vera á milli tannanna á fólki því ég einfaldlega spái ekkert í það og er ekkert mikið að leggja mig eftir því. Mér finnst líka fólk almennt vera frekar kurteist í samskiptum og ef það bregst þýðir það yfirleitt bara að fólk hefur farið eitthvað öfugt fram úr rúminu þann daginn. Það er yfirleitt hægt að tala við alla og mér finnst þetta ekki vera neitt sérstakt vandamál. Fólk getur alveg haft mjög eindregnar skoðanir á alls konar hlutum en þá getur maður líka svarað því. Stundum vantar fólk einfaldlega upplýsingar eða það er búið að vera að rekast með einhver mál í kerfinu í of langan tíma og þarf bara smávegis hjálp. Það er oft innistæða fyrir því að fólk er pirrað.“

Rek ekki mína pólitísku stefnu

Svanhildur hefur starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn í níu ár og hefur í umræðunni oft verið orðuð við framboð fyrir flokkinn, er hún eitthvað farin að velta fyrir sér eigin pólitískum ferli?
„Nei, mér finnst ekki fara saman að vera aðstoðarmaður ráðherra og vera með eigið pólitískt agenda,“ segir hún. „Ég er allavega ekki farin í framboð ennþá þótt það sé búið að vera nóg af kosningum síðustu ár.
Ég vinn fyrir fólk sem er í pólitík og það vill svo heppilega til að ég deili einhverjum grundvallargildum með fólkinu sem ég vinn fyrir, en ég hef aldrei litið þannig á það að ég sjálf sé í pólitík. Ég rek ekki mína pólitísku stefnu. Ég hef alveg skoðanir og ég reyni að hafa áhrif, eins og fólk gerir yfirleitt. Ég segi það sem mér finnst um hlutina en á endanum er ég að vinna fyrir einhvern sem er sjálfur kjörinn fulltrúi og ber á ábyrgð á þeim verkum sem hann ákveður að koma í framkvæmd.“

Lokar sig inni á klósetti

Nú er Svanhildur farin að tala eins og stjórnmálamaður í stað þess að svara spurningunni, langar hana til að leggja stjórnmál fyrir sig sem atvinnu í framtíðinni?
„Þegar ég var sextán ára að rífast við þennan framsóknarmann, vin minn, þá fannst mér alveg frábær hugmynd að verða til dæmis forsætisráðherra. Með aldrinum hef ég kannski orðið minna spennt fyrir því. Ég lít þannig á að það að fara í framboð sé mjög stór ákvörðun og mér finnst að mann megi eiginlega ekki langa meira til neins í heiminum en að bjóða sig fram ef maður gerir það. Þetta er ekki bara starf, þetta er lífsstíll og yfirtekur allt, alla dagskrá og fjölskyldulíf og samskipti við vinahópa. Það eru svo margir í kringum mig sem eru í pólitík eða hafa verið í pólitík og hafa jafnvel hætt í pólitík þannig að ég er búin að sjá allar hliðar á þessu og þetta er ekkert venjulegt starf. Þegar maður sér fram á það að fá innantökur ef maður er ekki í framboði er held ég kominn rétti tíminn til að gera það, en þangað til maður er nánast tilbúinn til þess að henda öllu frá sér þá á maður ekki að fara í þetta starf. Þetta er svona „sjáðu mig, sjáðu mig!“-umhverfi og fólk þarf helst að vera eins og gangandi auglýsingaskrifstofa, með stöðuga virkni á samfélagsmiðlum og alltaf tilbúið í allt. Ég hef takmarkað þol fyrir netrifrildum, forðast fjölmenni ef ég get og mannamót vaxa mér oft í augum. Ég á ekki í neinum vandræðum með að tala fyrir framan fólk og svoleiðis, en ég er hræðilega léleg í „smalltalki“. Ég er meira innhverf en úthverf og sæki þess vegna orku í einveru. Þegar mest var að gera á síðustu árum, í vinnunni, skólanum og á heimilinu áttaði ég mig á því að ég var stundum farin að loka mig inni á klósetti, bara til að fá smá frið. Ég á mjög góðar vinkonur sem ég deili flestu með og þegar ég sagði þeim frá þessu komst ég að því að þetta var eitthvað sem þær könnuðust margar við. Bara að ná nokkrum mínútum með sjálfri sér, hvort sem er heima eða utan heimilis.“

„Ég skil aldrei þessar spurningar um það að vera á milli tannanna á fólki því ég einfaldlega spái ekkert í það og er ekkert mikið að leggja mig eftir því.“

Samtalið beinist að þeirri umræðu að það sé miklu erfiðara fyrir konur að komast áfram í pólitík, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins, er það upplifun Svanhildar?
„Ég ætla ekkert að fara að dæma aðra flokka,“ segir hún. „En mér hefur ekki sýnst það eitthvað sérstaklega erfitt að vera kona í Sjálfstæðisflokknum. Við erum til dæmis með tvær frábærar konur í forystu. Stundum hefur niðurstaða prófkjöra verið allavega en það hefur að mínu áliti verið rætt kerfisbundið um það innan flokksins og reynt að taka á því og mér finnst það ekki hafa verið sama vandamálið núna og stundum áður í kosningum. Ég held að starfsumhverfið sé ekkert endilega erfiðara fyrir konur, en það er hins vegar þannig að fólk sem ekki er tilbúið til að vera á vaktinni meira og minna allan sólarhringinn og láta starfið alltaf ganga fyrir á erfitt með það. Stjórnmálastarf þvælist dálítið fyrir fólki sem er ekki tilbúið að giftast vinnunni sinni. Ég held að núorðið gildi það nokkuð jafnt um konur og karla.“

Ýmislegt verið mjög óviðeigandi

Svanhildur er orðin hundleið á þessum spurningum mínum um pólitík, lái henni hver sem vill, og við snúum talinu að kvennabyltingunum margumtöluðu og hvaða áhrif hún telur að þær muni hafa til frambúðar.
„Ég held að þær muni hafa varanleg áhrif,“ segir hún. „Þegar þú ferð að sjá heildarmyndina af því hvernig framkoman hefur verið ertu miklu fljótari að koma auga á það þegar hlutir eru ekki eins og þeir eiga að vera. Þol fólks fyrir einhverri fáránlegri framkomu er miklu minna og það er alveg frábært. Ég held að á síðustu árum hafi orðið talsvert mikil hugarfarsbreyting, bæði í því hvernig fólk talar um hluti og hvers konar framkomu það þolir. Ég held að nánast allir geri sér grein fyrir því að það eru ákveðin mörk sem þú verður að virða. Ég hef hlustað talsvert á karla tala saman um þessa hluti og mér finnst það mjög áhugavert. Þeir eru líka að átta sig á því að það hefur ýmislegt verið í gangi sem er algjörlega óviðeigandi. Það var að mjög mörgu leyti meiriháttar upplifun að verða vitni að þessu.“

Eins og fram kom í upphafi er Svanhildur að ljúka MBA-gráðu, þýðir það að hún sé að hugsa um að skipta um starfsvettvang? „Ég veit það ekki. Ég verð náttúrlega ekki aðstoðarmaður að eilífu,“ segir hún sposk. „Ég ákvað bara að klára þetta og reyna svo að ná örlitlu jafnvægi í heimilislíf og vinnu. En auðvitað fer maður í nám af því að maður er tilbúinn að víkka sjóndeildarhringinn og prófa eitthvað nýtt.“

Fjölmiðlabakterían ólæknandi

„Ég hef alltaf sótt í vinnu sem er svolítið flæðandi og ég held ég sé komin að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa verið þrjátíu ár á vinnumarkaði, að ég sé ekki mikil níu til fimm týpa. Mér finnst gaman að vera í álagsverkefnum sem reyna mikið á mann og þurfa öðru hvoru að gera hið ómögulega.“

Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór?
„Það er frábær spurning sem ég hef velt fyrir mér af og til í dálítið mörg ár. Ég hef alltaf sótt í vinnu sem er svolítið flæðandi og ég held ég sé komin að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa verið þrjátíu ár á vinnumarkaði, að ég sé ekki mikil níu til fimm týpa. Mér finnst gaman að vera í álagsverkefnum sem reyna mikið á mann og þurfa öðru hvoru að gera hið ómögulega.“

Saknarðu fjölmiðlanna?
„Ef ég hefði ekki Loga sem ákveðinn glugga inn í fjölmiðlaheiminn þá kannski myndi ég sakna þeirra meira. Ef manni finnst gaman að kynna sér hluti og hefur áhuga á öllu mögulegu er fjölmiðlavinnan besta starf í heimi. Mér fannst fyndið þegar ég var að byrja að vinna á fjölmiðlum að heyra talað um fjölmiðlabakteríuna en svo uppgötvar maður smám saman að eiginlega allir sem einhvern tímann hafa unnið á fjölmiðli virðast sýkjast af þessari bakteríu og aldrei læknast fullkomlega. Ég finn það alveg á sjálfri mér.“

„Ég hef alveg skoðanir og ég reyni að hafa áhrif, eins og fólk gerir yfirleitt. Ég segi það sem mér finnst um hlutina en á endanum er ég að vinna fyrir einhvern sem er sjálfur kjörinn fulltrúi og ber á ábyrgð á þeim verkum sem hann ákveður að koma í framkvæmd.“

Fyrr í spjalli okkar Svanhildar hafði komið fram að hún ætti mun auðveldara með að tjá sig í skrifuðu máli en að tala um hlutina, er það eitthvað sem hún vildi þróa frekar? Er kannski skáldsaga í skúffunni?
„Nei, ég er ekki með skáldsögu í skúffunni,“ segir hún og hlær. „Logi er aftur á móti með eina svoleiðis sem hann klárar kannski núna. Mér finnst mjög gaman að skrifa. Ég fæ bara eitthvað út úr góðum texta, bæði að lesa hann og skrifa. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað ég myndi skrifa ef ég færi út í það. Ég veit það bara ekki. Ég veit ekki hvort ég á skáldsögu í mér.“

Raðlækari og íþróttanörd

Annað áhugamál Svanhildar er fornleifafræði, kom aldrei til greina að leggja þá grein fyrir sig?
„Ég hef mikinn áhuga á fornleifafræði og ég held að allir fornleifafræðingar á Twitter haldi að ég sé einhver ruglaður eltihrellir. Ég fylgi mörgum fornleifafræðingum á Twitter og fornleifastofnun og er eiginlega raðlækari á allt sem snertir fornleifar. Hrafnhildur dóttir mín virðist hafa erft þennan áhuga á fortíðinni og gömlum hlutum og þegar við ætlum að eiga góðan tíma saman þá förum við og röltum um kirkjugarða og hún biður mig að útskýra fyrir sér hvernig hlutirnir voru í gamla daga og hvers vegna það dóu svona mörg börn þá.“

Talandi um börn í „gamla daga“, hvernig barn var Svanhildur sjálf?
„Ég var íþróttanörd,“ segir hún og skellir upp úr. „Ég æfði frjálsar íþróttir, var mjög góð í kúluvarpi, en spilaði líka blak, handbolta og körfubolta og bara allt sem ég komst í.“

Svanhildur er ekki lengur í neinum hópíþróttum lengur en hefur lyft í nokkur ár.
„Mér hefur alltaf fundist mjög gaman að lyfta og ákvað að prófa að æfa lyftingar. Það féll eins og flís við rass, þetta hentaði mér frá fyrsta degi. Ég fer á fætur fyrir sex á morgnana, er búin með æfinguna fyrir klukkan átta og kem þá heim og kem stelpunum í skólann. Ég er ein að lyfta og það er tími sem ég á alveg sjálf. Ég fer ekki í jóga, stunda ekki hugleiðslu en lyftingarnar eru mín hugleiðsla. Maður gerir kannski ekkert nema hnébeygjur í klukkutíma, með stöng á öxlunum og tónlist í eyrunum og hugsar ekki neitt. Fyrir mig er þetta andleg hvíld og líkamlega góð áreynsla.“

Ekki mikið atvinnuöryggi

Þessi klukkutíma á morgnana er væntanlega eini tíminn sem Svanhildur á ein með sjálfri sér yfir daginn, eða hvað? Er ekki álagið á aðstoðarmann ráðherra mikið?
„Það auðvitað venst eins og annað. Það sem er verst við það er að það getur verið erfitt að setja mörk um það hvenær ég er í vinnunni og hvenær ég er ekki í vinnunni. Þegar ég var að klára síðasta kúrsinn í MBA-náminu fór ég í frí og setti „out of office։-skilaboð á tölvupóstinn minn, sem ég geri nánast aldrei, og áttaði mig á það væri kannski svolítið ruglað að reyna að vera ínáanlegur öllum stundum. Maður er líka að vinna verkefni á furðulegustu tímum og eitt það furðulegasta sem ég hef gert var þegar ég settist niður þegar allt var búið á gamlárskvöld og allir farnir að sofa til að skrifa ræðu fyrir nýársdag. En það eru nú alls konar störf sem eru þannig að fólk er í þeim bæði vakið og sofið.“

En þú ert ekkert á leiðinni eitthvert annað?
„Ég hef reglulega síðustu ár búist við því að ég væri alveg að verða atvinnulaus, eða gæti orðið það. Atvinnuöryggið í pólitísku starfi er ekki mikið, allra síst undanfarin ár hér á Íslandi. Þannig að ég geri auðvitað alltaf ráð fyrir því að þurfa að finna mér vinnu einhvern tímann, en á meðan starfið er að meðaltali meira skemmtilegt en leiðinlegt þá heldur maður áfram. Plúsinn við mitt starf er að maður upplifir reglulega einhverja sögulega viðburði og er í hringiðunni þegar eitthvað merkilegt gerist. Maður verður bara að passa sig á að verða ekki svo samdauna umhverfinu að maður átti sig ekki á því.“

„Ég neita því ekki að í undirmeðvitundinni blundar hugsunin að þótt mig langi ekki að vera að lemja einhvern með naglaspýtu í beinni þá er fjölmiðlaumhverfið alltaf það sem ég dregst að í einhverri mynd,“ segir Svanhildur.

Ekki röflandi besserwisser

Svanhildur ætlar greinilega ekki að svara ákveðið af eða á hvort hún sé að hugsa sér til hreyfings úr fjármálaráðuneytinu svo ég breyti um taktík og spyr: Hvar sérðu þig fyrir þér þegar þú verður sextíu og fimm ára?
„Ja, ég vona allavega að ég verði ekki svona leiðinlegur röflandi besserwisser sem er alltaf að segja yngra fólki hvað það sé vitlaust,“ svarar Svanhildur. „Fyrst og fremst ætla ég að vona það að ég verði ekki að horfa á heiminn í gegnum einhver mjög skrýtin gleraugu og geti náð að taka inn breytingar og nýjar upplýsingar og nýjar skoðanir og svo framvegis. Án þess að vera alltaf með fingurinn á lofti. Mér finnst það sjúklega leiðinlegt. Mér finnst gott að hafa fólk sem getur sagt manni að það sé búið að prófa einhverja hluti. Mér finnst vanta fleira fólk með gott stofnanaminni sem getur vísað í söguna, en að segja að hlutir verði að vera einhvern veginn af því einu sinni voru þeir þannig er bara fullkomlega óþolandi.“

Heldurðu að þú verðir ekki bara orðin forseti þá?
„Ég hef nú ekki endilega hugsað það þannig. Það er svo lítill aldursmunur á mér og Guðna að miðað við hefðir Íslendinga í forsetamálum er ég ekkert viss um að embættið verði laust þegar ég verð sextíu og fimm ára.

Að öllu gamni slepptu þá hugsar maður auðvitað stundum um það hvar maður verði staddur þá. Að vera rúmlega sextugur er ekki lengur neitt rosalega langt fram í framtíðinni hjá mér. Og ég spyr mig stundum hvað mig langi til að vera að gera eftir tuttugu ár. Ég bara veit það ekki ennþá. Þau störf sem ég hef tekið að mér hafa verið skemmtileg en ég hef ekki sótt um vinnu síðan 1999 þegar ég sótti um vinnu á Morgunblaðinu og Ríkisútvarpinu og endaði á því að vinna fyrir svæðisútvarpið á Akureyri. Síðan hef ég meira svona lent í vinnu og það er ekkert víst að maður hafi neitt rosalega gott af því. Það hefur eiginlega verið lúxusvandamál að þurfa ekki að hugsa neitt mikið um það hvað gerist á næsta ári eða þarnæsta.

Ég neita því ekki að í undirmeðvitundinni blundar hugsunin að þótt mig langi ekki að vera að lemja einhvern með naglaspýtu í beinni þá er fjölmiðlaumhverfið alltaf það sem ég dregst að í einhverri mynd.
Maður auðvitað vonar að maður sjálfur og fólkið í kringum mann haldi heilsu. Þegar ég verð sextíu og fimm ára verður Logi sjötíu og þriggja og örugglega búinn að fara í hnjáliðaskipti á báðum hnjám, en það sem maður vill helst af öllu er að maður verði hamingjusamur og það er það sem ég vil fyrir mig og fjölskylduna. Helst af öll vill maður ná einhverju jafnvægi sem gerir það að verkum að fólk sé bara sæmilega sátt við lífið og í sínu eigin skinni. Allt annað er eiginlega aukaatriði.“

________________________________________________________________

Logi um Svanhildi: Tinnabókaprófessor með athyglisbrest

Svanhildur fullyrðir að Logi Bergmann Eiðsson eigi skilið fálkaorðu fyrir að endast til að búa með henni svo mér lék forvitni á að vita hvernig sambúðin liti út frá hans sjónarhóli. Hann segir það ýkjur að hann ætti orðu skilda, en viðurkennir þó að sambúðin geti stundum tekið á. „Það er stundum pínu áskorun að vera giftur Svanhildi,“ segir Logi. „Hún er svolítið utan við sig og intróvert og svona, en þetta venst mjög vel. Við skynjum hvort annað vel og finnum hvað hitt þarf og hvernig við höfum það, þannig að þetta gengur nú alltaf býsna vel.“

Spurður hvað taki mest á í sambúðinni segir Logi nokkrar sögur.
„Við keyptum okkur nýjan þurrkara og eftir tvo mánuði hringdi hún í mig og spurði hvernig ætti að kveikja á honum, sem segir allt um það hver sér um þvottinn á þessu heimili. Hún hefur líka til að bera stórkostlega óþolinmæði gagnvart hlutum sem virka ekki, en annars er hún alveg fáránlega geðgóð.“

Logi tiltekur dæmi um þessa óþolinmæði:
„Einu sinni var hún brjáluð yfir því að bíllinn væri bilaður, svissinn virkaði ekki, en það kom í ljós að hún var með lyklana að hinum bílnum okkar. Svo er líka algengt að hún rjúki út á morgnana, orðin of sein, en finni ekki bílinn af því hún gleymdi honum einhvers staðar daginn áður. Þetta er svona mildur fullorðinsathyglisbrestur í bland við Tinnabókaprófessor.“

Eftir þessi tvö ár sem Svanhildur hefur verið í náminu segist Logi draga mörkin við legnám í framtíðinni. Annað nám komi ekki til greina. Þetta sé orðið gott. Hann er hins vegar sannfærður um að Svanhildur muni aldrei fara út í pólitík.
„Hún mun aldrei bjóða sig fram og ég þakka guði fyrir það,“ fullyrðir hann. „Það þyrfti eitthvað mikið að gerast til að hún léti tilleiðast. Það eina sem gæti fengið hana til þess er hvað hún hefur gríðarlega sterka réttlætiskennd. Svo er hún líka bara allt of bóngóð. Hún er alltaf að bjarga einhverju fyrir einhvern og á meðan sit ég bara bitur eiginmaður einn heima. Nei, ég er að grínast, það er einn af hennar bestu kostum hvað hún er hjálpsöm.“

Fallegt einbýlishús í Suðurhlíðum Kópavogs

Opið hús laugardaginn 2. júní milli klukkan 16.00 til 16.30.

Í Suðurhlíðum Kópavogs, við Furuhjalla 1, stendur þetta fallega, tvílyfta einbýlishús á besta stað. Útsýnið frá húsinu er einstakt, yfir Garðholt og Keili sem ljúft er að njóta. Garðurinn sem prýðir húsið er fallegur og gróinn með góðum palli þar sem yndislegt er að vera á góðviðrisdögum. Einnig fylgir húsinu heitur pottur og gróðurhús með köldu og heitu vatni sem og stórum ofnum, sem er kærkomin viðbót, sérstaklega fyrir fólk með græna fingur og þá sem vilja njóta.

Einstök veðursæld og fjölbreytt afþreying í nánd
Í nánd við hverfið eru mjög öflugir þjónustukjarnar meðal annars Smáratorg og Smáralind svo eitthvað sé nefnt ásamt þróttmiklu atvinnulífi. Einstök veðursæld er í Suðurhlíðum Kópavogs, stutt í fallegar gönguleiðir, skóla og alla helstu þjónustu. Kópavogsbær býður upp á fjölmargt og fjölbreytilegt frístundastarf fyrir alla aldurshópa. Íþróttasvæði Breiðabliks liggur næst hverfinu.

Bjartar stofur með mikill lofthæð
Í húsinu er nýlegar og vandaðar innréttingar og skipulagið er eins og best verður á kosið. Hvíti liturinn er í forgrunni og parket og viður spila stórt hlutverk í húsinu. Á efri hæð hússins eru meðal annars bjartar og rúmgóðar stofur með mikilli lofthæð og loftið prýðir fallegur viður. Þar er útgengi út á svalir þar sem útsýnið skartar sínu fegursta. Einnig er glæsilegur arinn í stofu sem gerir mikið fyrir rýmið. Á efri hæðinni er einnig rúmgott og vel skipulagt eldhús sem inniheldur jafnframt búr sem getur verið kostur og býður upp á ákveðna möguleika.

Hlýleikinn og notagildið í fyrirrúmi
Á neðri hæðinni eru þrjú stór og rúmgóð svefnherbergi ásamt stóru flísalögðu baðherbergi sem nýtist vel. Gengið er út í garð á tveim stöðum, þar sem pallurinn er ásamt heita pottinum og gróðurhúsinu. Falleg og hlýleg sólstofa er einnig á neðri hæðinni sem eykur nýtinguna á húsinu enn frekar.

Jafnframt er stórt aukaherbergi með sérútgangi og baðherbergi. Í því eru lagnir til staðar til að bæta við eldhúsinnréttingu  sem býður upp á fleiri nýtingarmöguleika, til dæmis aukaíbúð ef vilji er fyrir því. Stærð hússins er 272,6 fermetrar með bílskúr og fylgir húsinu stílhreint og stórt, upphitað bílaplan sem rúmar fjóra bíla. Sjón er sögu ríkari og vert er að skoða þessa eign.

Þessi fallega eign er til sölu hjá REMAX Senter og er ásett verð er 108 milljónir. Allar frekari upplýsingar um eignina veita: Guðmundur Hallgrímsson, löggiltur fasteignasali, í síma 898-5115 / [email protected]  og Gunnar Sverrir, löggiltur fasteignasali, í síma 862-2001 / [email protected].

 

Óvenjulegt að sakborningar séu með á vettvangi

|
|

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins segir lögreglu yfirleitt rannsaka brotavettvang án þess að sakborningar sé viðstaddir. Í máli Helgu Elínar og Halldóru, sem Mannlíf hefur fjallað um, fór sakborningur, lögreglumaður sem var kærður fyrir barnaníð, með lögreglu á vettvang.

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Sigríður Björk Guðjónsdóttir.

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, segir verklagsreglum hafa verið breytt nýlega sem leggi skýrari línur um hvernig bregðast skuli við þegar að lögreglufulltrúar fá á sig kæru um alvarlega glæpi á borð við kynferðisbrot gagnvart börnum. Lögreglustjórinn verður í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur út á morgun.

Þar verður jafnframt farið yfir mál mæðgnanna Halldóru Baldursdóttur og Helgu Elínar sem hefur vakið upp reiði í samfélaginu. Helga Elín var kynferðislega misnotuð á barnsaldri. Meintur gerandi, lögreglumaður, starfar enn innan lögreglunnar þrátt fyrir að hafa verið kærður fyrir brot gegn þremur stúlkum.
Þá verða viðbrögð embættis ríkislögreglustjóra, Haralds Johannessen rakin sem og viðbrögð Stefáns Eiríkssonar.
Stefán starfaði sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins þegar umræddur lögreglumaður var kærður fyrir þrjú kynferðisbrot gegn börnum.

Þetta og meira um málið í nýjasta tölublaði Mannlífi á morgun, föstudaginn 1. júní.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni.“

54 ára og á von á sínu fimmta barni

Fyrirsætan og leikkonan Brigitte Nielsen, sem verður 55 ára 15. júlí næstkomandi, tilkynnti það á Instagram í gær að hún ætti von á barni með eiginmanni sínum, fyrrverandi fyrirsætunni Mattia Dessi. Mattia er 39 ára.

Brigitte birti mynd af sér á samfélagsmiðlinum þar sem hún sést strjúka óléttubumbuna og við myndina skrifaði hún:

„Fjölskyldan stækkar.“

family getting larger ❤️ #me #family #brigittenielsen #babybump

A post shared by Brigitte Nielsen (@realbrigittenielsen) on

Við aðra mynd skrifaði hún:

„Gleðilegir tímar. Jákvæðir straumar.“

happy time ❤️ positive vibes #happyness #positivevibes

A post shared by Brigitte Nielsen (@realbrigittenielsen) on

Þetta verður fyrsta barn Mattia en fimmta barn Brigitte. Hún á fyrir synina Julian, 34 ára, Killian, 28 ára, Douglas, 25 ára og Raoul, 23 ára.

Brigitte og Mattia gengu í það heilaga árið 2006 og fimm árum síðar sagði Brigitte í viðtali við The Guardian að hana langaði í annað barn.

#sunnyday #sun #summer #husband #cute #husbandandwife #family #brigittenielsen #selfie

A post shared by Brigitte Nielsen (@realbrigittenielsen) on

„Ég myndi elska það út af öllu sem ég hef lært. Það væri eins og að byrja upp á nýtt. En er ég of gömul? Ég er ung í anda og myndi gera hlutina öðruvísi. Mattia og ég höfum rætt þetta en ég veit ekki hve líklegt þetta er.“

Ótrúlega vel skipulögð 22 fermetra íbúð

||||||||||
||||||||||

22 fermetrar er ekki mikið þegar talað er um heila íbúð og einhverjir sem telja það hentugri stærð á bílskúr en heimili. Hönnunarteymið A Little Design frá Taívan hefur svo sannarlega afsannað það.

Teymið tók að sér að hanna og inrétta 22ja fermetra íbúð eftir óskum viðskiptavinar síns og náði að koma ótrúlega miklu fyrir í þessu litla rými.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir af íbúðinni og takið eftir að í henni er bæði þvottavél og baðkar þrátt fyrir pláss af skornum skammti.

Skila brúðargjöfum fyrir tæpan milljarð

Leikkonan Meghan Markle og Harry Bretaprins, nú hertogahjónin af Sussex, gengu í það heilaga þann 19. maí síðastliðinn.

Sjá einnig: Segir brúðarkjól Meghan hafa verið fullkominn.

Meghan og Harry hafa nú í nægu að snúast að skila öllum brúðargjöfunum sem þau fengu, en verðmæti þeirra er tæpur milljarður króna.

En af hverju? Jú, strangar reglur gilda um gjafir til konungsfjölskyldunnar og mega þau ekki taka við gjöfum frá fólki eða fyrirtækjum sem þau þekkja ekki. Er þetta gert svo meðlimir konungsfjölskyldunnar séu ekki misnotaðir í auglýsingaskyni, en líklegt er að mikið af brúðargjöfunum hafi verið sendar í þeirri von að Meghan og Harry myndu auglýsa muni óbeint á samfélagsmiðlum og opinberlega.

Sjá einnig: Heiðruðu Díönu prinsessu með brúðkaupsmyndunum.

Gildir þessi regla um alla meðlimi konungsfjölskyldunnar en drottningin sjálf má ekki fá gjafir út af öryggisástæðum.

Meghan og Harry báðu fólk sérstaklega um að gefa pening í góðgerðarmál vegna brúðkaupsins en það voru greinilega ekki allir sem fengu þau skilaboð.

Fáir miðar eftir á Guns N’ Roses

Allt bendir til þess að það verði fjölmennt á tónleikum Guns N’ Roses á Íslandi sem fara fram þann 24. júlí næstkomandi. Að sögn tónleikahaldara eru aðeins um 1200 miðar eftir í stúku og tæplega 3000 miðar eftir í stæði. Um verður að ræða stærsta tónleikaviðburð Íslandssögunnar þar sem flutt verður inn langstærsta svið sem hefur verið sett saman hér á landi og það sama má segja hljóðkerfið. Þá verða þrír risaskjáir settir upp til að aðdáendur geti fylgst með hverju einasta smáatriði.

Mikið hefur verið fjallað um tónleikaferð Not In This Lifetime… tónleikaferð Guns N’ Roses sem er sú fyrsta síðan á síðustu öld sem inniheldur lykilmenn sveitarinnar, þá Axl Rose, Slash og Duff McKagan. Verða tónleikarnir á Laugardalsvelli þeir síðustu í Evrópulegg tónleikaferðalagsins sem hefur staðið yfir í rúm tvö ár.

Nú þegar er tónleikaferðalagið orðið það fjórða tekjuhæsta í tónlistarsögunni og enn er tími til að bæta þann árangur. Frá því að fyrstu tónleikarnir í Not In This Lifetime… tónleikaferðalaginu fóru fram í apríl í Bandaríkjunum árið 2016, hafa um 4,2 milljónir aðdáenda sveitarinnar borið hana augum á tónleikastöðum um allan heim. Nú stefnir hratt í að 22 þúsund Íslendingar bætist í þann hóp áður en langt um líður.

Miða á Guns N’ Roses er enn hægt að nálgast á show.is

Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má fylgjast með uppsetningu tónleika Guns N’ Roses sem fóru fram í Melbourne í Ástralíu fyrra, en uppsetningin er sú sama og verður á Laugardalsvellinum í sumar.

„Hann sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu“

||
||

Halldóra Baldursdóttur, móðir Helgu Elínar, furðar sig á viðbrögðum embættis ríkislögreglustjóra. Hún segir ekkert vafamál á því hver beri ábyrgð á að lögreglumaðurinn í umræddu kynferðisbrotamáli starfi enn innan lögreglunnar.

Mæðgurnar Halldóra og Helga. Halldóra var í viðtali í 12. tölublaði Mannlífs en þar greinir hún frá því að árið dóttir hennar hafi verið misnotuð á barnsaldri. Meintur gerandi starfar enn innan lögreglunnar.

„Þetta er mín upplifun og mitt mat, og er mér óskiljanlegt að ríkislögreglustjóri telji sig geta mótmælt því.“ Þetta segir Halldóra Baldursdóttir í bréfi sem hún sendi rétt í þessu á ritstjórn Mannlífs.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“

Halldóra var í viðtali í 12. tölublaði Mannlífs en þar greinir Halldóra frá því að árið 2007 hafi dóttur hennar, Helgu Elínu sem þá var tíu ára gömul, verið boðið í sumarbústaðaferð með skólasystur sinni, móður hennar og stjúpföður. Í kjölfar þessarar ferðar hafi breytingar orðið á hegðun Helgu en Halldóra tengdi þær ekki við ferðina. Fjórum árum eftir umrædda sumarbústaðaferð, þann 5. október 2011 var Halldóra boðuð á fund í skóla dóttur sinnar. Þar kom í ljós að dóttir hennar hafði trúað vinkonu sinni fyrir því að stjúpfaðir skólasystur þeirra hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi í sumarbústaðaferð fjórum árum áður. Málið var strax sett í farveg, það kært til lögreglu og rannsókn hófst, en um það bil einu ári eftir að málið var kært var það fellt niður og gerir Halldóra ýmsar athugasemdir við rannsókn þess. Meðal annars að sakborningur, sem var starfandi lögreglumaður, hafi ekki verið leystur frá störfum meðan á rannsókn málsins stóð. Hún segir að ríkislögreglustjóri hafi algjörlega brugðist þeim mæðgum í málinu.

Sjá einnig: Segist ekki hafa brugðist dóttur Halldóru

Þessu andmælti embætti ríkislögreglustjóra, eins og Mannlíf greindi frá. Eru þau andmæli tilefni skrifa Halldóru nú. „Nú hefur ríkislögreglustjóri andmælt því að hafa brugðist dóttur minni eins og ég lýsi í viðtali við Mannlíf sem birtist s.l. föstudag. Í þessu viðtali er ég að segja frá upplifun minni og þrautagöngu okkar mæðgnanna. Í viðtalinu segi ég: „Þegar málið kom upp sendi ég póst á þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu sem vísaði erindinu á Harald Johannessen ríkislögreglustjóra, sem algerlega brást okkur að mínu mati og vildi ekkert fyrir okkur gera.“

„Það er meðal annars á þessum bréfum sem upplifun mín byggir á að ríkilögreglustjóri hafi brugðist okkur í þessu máli. Hann tók ekki af skarið, sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu eins og hann hafði samkvæmt þessum bréfum vald til.“

Halldóra heldur áfram: „Ég ætla mér ekki að standa í orðaskaki við ríkislögreglustjóra í fjölmiðlum vegna upplifunar minnar á þessu máli en vegna ummæla hans, sem birtist í fjölmiðlum, tel ég rétt að koma eftirfarandi á framfæri: Í bréfi Innanríkisráðuneytisins til mín dags. 08. júní 2012 segir:

„Samkv. 5. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skipar ríkislögreglustjóri lögreglumenn til starfa til fimm ára í senn. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skal það stjórnvald sem skipar í embætti veita og lausn frá því um stundasakir. Þannig er það á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti um stundasakir eða að fullu. Svo sem fram kemur í gögnum málsins taldi embætti ríkislögreglustjóra sér ómögulegt að veita viðkomandi lögreglumanni lausn um stundasakir þar sem embættinu var synjað um upplýsingar um rannsókn sakamáls á hendur honum.

Embætti ríkislögreglustjóra upplýsti ráðuneytið um ofangreint með bréfi dags. 21. nóvember sl. Með bréfi dags 13. mars sl. upplýsti ráðuneytið embætti ríkislögreglustjóra um þá afstöðu sína að það væri mat ráðuneytisins að engin réttarfarsleg rök væru fyrir hendi sem réttlætt gætu afhendingu rannsóknargagna í málum sem þessum. Þá kom það fram það mat ráðuneytisins að synjun á afhendingu gagna sakamáls leiði ekki til þess að ómögulegt verði fyrir veitingarvaldshafann að meta hvort forsendur séu til þess að veita embættismönnum lausn um stundasakir ….. „

Einnig kemur fram í bréfi Umboðsmanns alþingis til mín vegna málsins dagsett 5. mars 2012 að: „….Samkvæmt framangreindu er það innanríkisráðherra sem er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu. Það er hins vegar á herðum ríkislögreglustjóra að veita lögreglumönnum lausn frá embætti en lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að fara með daglega stjórn lögreglunnar í sínu umdæmi.“

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hafnar því að hafa brugðist Helgu Elínu dóttur Halldóru.

Sjá einnig: Á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti

Halldóra segir því ekkert vafamál á því hver beri ábyrgð á að lögreglumaðurinn í umræddu kynferðisbrotamáli starfi enn þann dag í dag innan lögreglunnar. „Það er meðal annars á þessum bréfum sem upplifun mín byggir á að ríkilögreglustjóri hafi brugðist okkur í þessu máli. Hann tók ekki af skarið, sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu eins og hann hafði samkvæmt þessum bréfum vald til.

Hann setti þar með ekki þær kröfur til sinna manna að það sé óásættanlegt með öllu að starfandi lögreglumenn fái á sig ítrekaðar kærur fyrir barnaníð. Hins vegar hefur embættisskipun mannsins verið endurnýjuð.“

Halldóra segir að í kjölfarið hafi fylgt bréfaskriftir og ráðaleysi í öllu kerfinu. „Á meðan sat dóttir mín og beið réttlætis sem aldrei kom. Málinu lauk með niðurfellingu málsins þar sem rannsókn þess var, að mínu mati og margra annarra, mjög ábótavant.

Málið í heild sinni er enn og aftur að mínu mati stór áfellisdómur á allt kerfið, þar með talinn sjálfan ríkislögreglustjóra sem enn firrir sig ábyrgð í stað þess að vinna að réttlæti í málinu.“

Hún segir að þetta sé sér óskiljanlegt og sárara en orð fá lýst. Að lokum, þá segir ríkislögreglustjóri í fréttatilkynningu sinni: „Embættið fékk fyrst fregnir af málinu í fjölmiðlum og átti frumkvæði af því að óska upplýsinga um málið frá ríkissaksóknara, en embættinu hafði ekki verið tilkynnt um málið.“ Hið rétta er að 4. nóvember 2011 sendi ég ríkislögreglustjóra tölvupóst um málið en það var ekki fyrr en 7. nóvember 2011, eða þrem dögum síðar, sem fjölmiðlar fjölluðu fyrst um málið.“

Æfðu eins og Jennifer Lopez í 30 mínútur

Í meðfylgjandi myndbandi fer einkaþjálfarinn David Kirsch yfir þrjátíu mínútna æfingu sem kemur svo sannarlega á óvart.

David þessi er einkaþjálfari stórstjörnunnar Jennifer Lopez og sýnir okkur ýmsar æfingar sem söng- og leikkonan elskar. Þessar æfingar eru langt því frá að vera léttar og taka vel á öllum vöðvum líkamans.

Í myndbandinu eru notuð létt handlóð og sérstakar mottur til að geta rennt fótum og höndum auðveldlega um gólfið. Í staðinn fyrir lóð er hægt að fylla flöskur af vatni eða bara sleppa lóðunum. Í staðinn fyrir motturnar er hægt að nota lítið handklæði eða þvottapoka.

Góða skemmtun!

Stjörnurnar í Roseanne þá og nú

||||||||
||||||||

Þættirnir um hina spaugilegu Roseanne voru teknir af dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar ABC í vikunni eftir að aðalleikkona þáttanna, sjálf Roseanne Barr, tísti svívirðingum yfir Valerie Jarrett, fyrrverandi ráðgjafa Baracks Obama.

Roseanne tísti að Valerie liti út eins og afkvæmi bræðralags múslima og Apaplánetunnar. Forsvarsmenn ABC tóku þáttinn í kjölfarið af dagskrá þar sem svona orðræða samrýmdist ekki hugsjónum og gildum fyrirtækisins. Roseanne eyddi tístinu, bað Valerie afsökunar en eftir stendur að þátturinn, sem gekk í endurnýjun lífdaga í lok mars á þessu ári, verður ekki sýndur meira.

Við ákváðum að líta aðeins á stjörnur þáttanna, sem margar hverjar komu saman aftur í nýju þáttunum, en serían gekk upprunalega á árunum 1988 til 1997.

Roseanne Barr

Roseanne var aðeins 35 ára þegar hún varð aðalstjarnan og framleiðandi þáttanna. Nú er hún 65 ára og hefur sagt í viðtölum að hún hafi eingöngu ráðið sig í þáttinn til að hafa efni á fíkniefnum, áfengi og sígarettum.

John Goodman

Leikarinn góðkunni er jafnaldri Roseanne en lengi hefur verið talað um að þeim hafi ekki komið vel saman á setti. Hann lék eiginmann hennar, Dan Conner, sem lést í gömlu þáttunum en handritshöfundar náðu að skrifa sig út úr því þegar serían byrjaði aftur.

Laurie Metcalf

Það má segja að þetta hafi verið árið hennar Laurie, en hún var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna síðast fyrir hlutverk sitt í Lady Bird. Laurie er svo sem ekki ókunnug verðlaunaathöfnum og fékk til að mynda þrenn Emmy-verðlaun fyrir túlkun sína á Jackie Harris, systur Roseanne.

Sara Gilbert

Það var Sara sem fékk hugmyndina að því að blása aftur lífi í Roseanne-þættina og fékk alla saman aftur, en hún leikur Darlene, dóttur Roseanne og Dans.

Johnny Galecki

Johnny í hlutverki David Healy, gaursins sem giftist og barnaði Darlene, lék bara í einum þætti af nýju Roseanne-þáttunum þar sem hann er, eins og margir vita, ein af aðalstjörnunum í grínþættinum Big Bang Theory.

Michael Fishman

Michael landaði hlutverki D.J. Conner aðeins sex ára gamall og fékk meðal annars Young Artist-verðlaunin árið 1995, þá fjórtán ára, fyrir bestu frammistöðu ungs leikara í gamanþáttaseríu.

Lecy Goranson

Lecy lék Becky Conner í fyrstu fimm seríunum af Roseanne. Eftir það fór hún í skóla og tók Sarah Chalke við henni í seríum 6 og 7. Lecy sneri stuttlega aftur í seríu átta en þurfti aftur frá að hverfa og þá tók Sarah við aftur.

Sarah Chalke

Sarah var ávallt kölluð Becky númer 2 en handritshöfundar leystu það þannig í nýju þáttunum að Sarah léki konu sem væri að biðja Becky um að vera staðgöngumóðir sín.

Fangar fegurðina í sambandi móður og barns

|||||||||
|||||||||

Ljósmyndarinn Caitlin Domanico byrjaði að fanga myndir af móðurhlutverkinu árið 2007, en hún missti sjálf móður sína árið 2003 þegar hún var aðeins tuttugu ára gömul.

„Ég var heilluð af nánu sambandi sem sést vel á milli nýrrar móður og barns. Þegar ég horfi til baka get ég sagt að samband mitt við mína eigin móður hafði mikil áhrif á mig,“ segir ljósmyndarinn í samtali við Huffington Post.

Caitlin hefur tekið aragrúa mynda sem fanga þetta samband á milli móður og barns og vakti til að mynda athygli fyrir myndaseríuna United We Feed sem sýndi mæður gefa börnum sínum næringu á ýmsan hátt. Svo var það árið 2017 að hún gaf út bókina Photographing Motherhood: How to Document the Lives of Women and Their Families ásamt ljósmyndaranum Jade Beall en í bókinni voru myndir af mæðrum á ýmsum stigum lífsins. Caitlin segir fegurðina liggja í smáatriðunum.

„Smáatriðin fanga auga mitt – hvernig barn heldur í hálsmen móður sinnar á meðan það nærist, hvernig móðir strýkur tær barns síns mjúklega, hvernig barn nálgast hár móður sinnar og snýr því upp á fingur sér,“ segir ljósmyndarinn og bætir við:

„Ég reyni að skrásetja þessa agnarsmáu hluti sem komast svo fljótt í vana, eru svo hefðbundnir og virðast vera svo venjulegur þangað til einn daginn – á augnabliki er virðist – hverfa þeir er börnin okkar vaxa úr grasi.“

Aðalmarkmið Caitlin er að gefa fjölskyldum góðar minningar með myndum sínum og hvetur foreldra til að stilla sér oftar upp með börnum sínum á mynd.

„Ég vona að myndirnar veki upp góðar minningar úr barnæsku eða frá fyrstu árum barnsins. Ég vona að þetta veiti fólki innblástur til að stíga fyrir framan myndavélina, hvernig sem það er klætt og þó það sé ekki farðað eða með fullkomið hár og hvað sem vigtin sýnir.“

Myndir / Caitlin Domanico

Á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti

||
||

Ríkislögreglustjóri bar ábyrgð á að veita lögreglumanni sem var kærður fyrir barnaníð lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Þetta kemur fram í bréfi Innanríkisráðuneytisins til móður barnsins.

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. Haraldur hefur hafnað því að hafa brugðist Helgu Elínu, dóttur Halldóru.

Það er á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í svari þáverandi Innanríkisráðuneytis við bréfi frá Halldóru Baldursdóttur, sem ritstjórn Mannlífs hefur undir höndum og er dagsett 8. júní 2012.

Í bréfinu kvartaði Halldóra undan viðbrögðum yfirstjórnar lögreglu við kæru á hendur lögreglumanni vegna meints hans kynferðisbrots á dóttur hennar, sem var tíu ára þegar hið meinta brot var framið.

Í svari sínu bendir Innanríkisráðuneytið á að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga n.r 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skuli það stjórnvald sem skipar í embætti veita og lausn frá því um stundarsakir. En samkvæmt 5. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skipar ríkislögreglustjóri lögreglumenn til starfa til fimm ára í senn.

Ennfremur kemur fram í svari Innanríkisráðuneytisins að þótt veitingarvaldshafa sé synjað um afhendingu gagna í sakamáli, þá telji ráðuneytið ekki ómögulegt fyrir veitingarvaldshafa að meta hvort forsendur séu til þess að veita embættismönnum lausn um stundarsakir.
En embætti ríkislögreglustjóra taldi sér ómögulegt að veita umræddum lögreglumanni lausn um stundarsakir þar sem embættinu hafði verið synjað um upplýsingar um rannsókn sakamálsins á hendur manninum.

Með hliðsjón af ofangreindum atriðum mat ráðuneytið það sem svo að það væri á ábyrgð ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu.

Hér er bréfið sem ritstjórn Mannlífs hefur undir höndum:

 

Raddir