Miðvikudagur 23. október, 2024
3 C
Reykjavik

Þegir eftir klukkan 10 á kvöldin

|
|

Júníus Meyvant hefur mörg járn í eldinum þessa dagana. Ný plata, Across the Borders, kemur út í dag og svo eru það tónleikar hér á landi í lok janúar og byrjun febrúar. Hann leggur síðan af stað í tónleikaferð um Evrópu í febrúar. Þá er Júníus kominn með útgefanda í Bandaríkjunum.

„Nýja platan heitir Across the Borders. Það er vísun í að við erum alltaf að leita að nýjum landamærum tengdum því sem við gerum í lífinu og síðan er þetta vísun í þá sem reyna virkilega bókstaflega að leita að nýjum landamærum til að komast á betri stað en geta það ekki. Oft erum við þannig gerð að við búum til landamæri sem er tengt mannlegu eðli. Við erum hrædd við breytingar og okkur líður vel í sama fari en maður þarf stundum að breyta til til að þroskast,“ byrjar Júníus Meyvant á að útskýra fyrir blaðamanni.
Júníus mun spila og syngja lög af nýju plötunni á tónleikum í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum og í Reykjanesbæ í lok janúar og í byrjun febrúar. „Þetta verða eiginlega allt ný lög. Síðan reyni ég alltaf að segja sögur í kringum lögin; mér finnst svo gaman að sögum og ég reyni að hafa þetta aðeins persónulegra en ella í stað þess að bara spila og syngja og hneigja mig síðan.“
Eftir það mun hann halda ásamt hljómsveit sinni til Evrópu í febrúar þar sem hann kemur fram í ýmsum löndum. „Tónleikaferðir eru þannig að ég fer þá í rosa rútínu. Þá er eins og ég fari í nokkurs konar vinnubúðir. Ég fer alltaf mjög snemma að sofa en ég passa svefninn því annars fer röddin í klessu. Ég sleppi öllu nammiáti því að nammiát fer illa með röddina og passa mig líka á að þegja eftir klukkan 10 á kvöldin. Það er ýmislegt sem ég leyfi mér ekki á tónleikaferðum.“

Júníus Meyvant gerði í vetur útgáfusamning við bandaríska útgáfufyrirtækið Glassnote Records um útgáfu nýju plötunnar í Bandaríkjunum og öðrum markaðssvæðum sem útgáfufyrirtækið leggur áherslu á. Myndir / Sigga Ella

Nýr útgáfusamningur
Júníus er á mála hjá íslenska útgáfufyrirtækinu Record Records sem sér um útgáfumál hans hér á landi og í Evrópu. Hann gerði svo í vetur útgáfusamning við bandaríska útgáfufyrirtækið Glassnote Records um útgáfu nýju plötunnar í Bandaríkjunum og öðrum markaðssvæðum sem útgáfufyrirtækið leggur áherslu á.
„Þessi samningur þýðir að við erum komin með bakhjarl inn í Bandaríkin sem er mjög erfiður markaður en við erum hjá þeim í „publishing-deildinni“ sem sér um að koma lögum mínum á framfæri í kvikmyndir og auglýsingar. Við erum einnig komin með fleiri til að vinna að mínum málum. Ég er með umboðsmann og tvö bókunarfyrirtæki (booking agencies) hér og þar en stundum þyrfti maður í rauninni 10 umboðsmenn. Þetta er allt spurning um hvern maður hefur á bak við sig. Það er hægt að vera með rosa gott efni en það gerist ekki neitt ef maður er ekki með rétt fólk. Ég er þess vegna mjög heppinn og líka það að hafa fengið samning kominn á þennan aldur, en ég er 36 ára, en það er ekki sjálfgefið því að þetta er oft „youth before talent“-veröld.“

Stóð á krossgötum
Júníus býr ásamt eiginkonu sinni, tveimur börnunum og hundinum Prinsi, sem hann kallar Skúla, í Vestmannaeyjum. „Við erum nýbúin að kaupa þar hús,“ segir Júníus en hann ólst upp í Vestmannaeyjum og vann lengi sem leiðsögumaður í ferðaþjónustufyrirtæki foreldra sinna í Eyjum.
Júníus, sem heitir annars Unnar Gísli Sigurmundsson, segist hafa valið lisamannsafnið Júníus Meyvant fyrir níu árum eða um það leyti sem sonur hans fæddist. „Ég stóð þá á krossgötum og var í hljómsveit sem hét Jack London. Ég var að fletta nafnabók, Hvað á barnið að heita?, og sá nafnið Júníus. Mér hefur alltaf þótt Meyvant vera fallegt og sterkt nafn og einhvern veginn fór þetta vel saman: Júníus Meyvant. Ég fór að hugsa um hvort ég ætti að láta son minn heita þessu nafni en ég var hins vegar löngu búinn að ákveða að láta hann heita í höfuðið á pabba mínum. Þannig varð þetta til. Ég vildi listamannsnafn sem myndi virka bæði heima og í útlöndum. Það er erfitt fyrir útlendinga að segja Unnar Gísli Sigurmundsson. Tungan fer í eitthvað flipp.“

Teygir sig út í pönk og popp

Hljómsveitin Kælan Mikla kemur fram á tónleikum á Gauknum í kvöld. Þar mun hljómsveitin meðal annars spila lög af þriðju breiðskífu sinni, Nótt eftir nótt sem er nýkomin út. Fram undan er svo tónleikaferð um Evrópu.

„Við höfum verið að spila saman síðan árið 2013. Þetta byrjaði sem hálfgert grín í ljóðakeppni á Borgarbókasafninu en síðan sprakk þetta út og við erum búnar að spila mikið eftir það,“ segir Laufey Soffía, einn þriggja hljómsveitarmeðlima Kælunnar Miklu og nefnir sem dæmi að bandið hafi spilað í fyrra í Royal Festival Hall í London, sem hafi verið svolítið stórt og svo á 40 ára afmæli The Cure í Hyde Park. Svo hafa þær ferðast frekar mikið.

„Við spilum ekki svo oft á Íslandi þannig að tónleikarnir á Gauknum í kvöld verða svolítið sérstakir,“ segir hún en á tónleikunum mun bandið meðal annars spila lög af nýju plötunni Nótt eftir nótt. Hljómsveitarmeðlimirnir þrír semja alla tónlistina sem hljómsveitin flytur. „Við höfum þróað tónlistina mikið frá upphafi. Við byrjuðum með frekar hrátt tilraunapönk en núna er þetta orðið miklu þéttara og farið að teygja sig í aðrar áttir. Þetta er svolítið drungaleg tónlist sem teygir sig meðal annars út í pönk og popp. Við erum að reyna að stækka áheyrendahópinn þannig að tónlistin nái líka betur til hvers sem er frekar en að einblína bara á eina stefnu.“

Að sögn Laufeyjar heldur hljómsveitin svo í tónleikaferð um Evrópu í lok mánaðarins og kemur víða fram í febrúar. „Við munum spila lög af nýju plötunni og svo erum við að fara að gefa út tvö tónlistarmyndbönd sem koma út á næstunni,“ segir hún en þess má geta að á Gauknum í kvöld koma einnig fram rapparinn Countess Malaise og bandaríski tónlistarmaðurinn Some Ember.

Kælan Mikla spilar á Gauknum í kvöld. Mynd / Verði ljós

„Það kom aldrei annað til greina en að gefa henni þetta frelsi“

||
Ronja Sif Magnúsdóttir.||

Ronja Sif Magnúsdóttir er átta ára lífsglöð trans stelpa sem var fullviss um sitt rétta kyn um svipað leyti og hún fór að tala. Hún fékk nýtt nafn þegar hún var fjögurra ára og hefur blómstrað síðan sem er ekki síst að þakka víðsýni foreldranna og frábærum viðtökum samfélagsins í kringum þau. Hindranirnar eru samt æði margar fyrir trans fólk og ein þeirra er þátttaka þeirra í íþróttum og sundi.

Fjölskyldan býr á sveitabæ í Flóahreppi. Faðir Ronju, Magnús Baldursson, er vélvirki hjá kælismiðjunni Frost og móðir hennar, Stefanía Ósk Benediktsdóttir, er leiðbeinandi í leikskólanum Krakkaborg. Ronja á tvö systkini, Ásdísi Evu, tólf ára, og Sölva Þór, fjögurra ára, sem er á leikskólanum Krakkaborg. Þær systur ganga í Flóaskóla og Ronja æfir frjálsar íþróttir og glímu með íþróttafélaginu Þjótanda.

„Hún æfði fimleika í fyrra með ungmennafélagi Stokkseyrar og henni hefur verið tekið vel hjá báðum félögum. Hún hefur keppt á einu litlu fimleikamóti og keppti þá með stelpunum. Hún fer í klefa með stelpunum og það gerir hún einnig í leikfimi og sundi í skólanum. Hún fer inn á salernið í klefanum til að fara í sundfötin. Henni finnst það sjálfri best. Eins og er hafa ekki komið upp nein vandamál,“ segir Stefanía og er hæstánægð með móttökurnar sem Ronja hefur fengið í samfélaginu í kringum þau.

Ronja Sif með foreldrum sínum og systkinum, Ásdísi Evu, tólf ára, og Sölva Þór, fjögurra ára. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hún segist ekki vita hvernig staðan gagnvart öðru hérlendu trans íþróttafólki sé, telur það geta verið misjafnt eftir íþróttafélögum. „En upplifun okkar með allt sem tengist Ronju hefur verið góð. Auðvitað á að koma eins fram við alla. Ég ráðlegg forsvarsfólki allra íþróttafélaga að taka trans börnum eins og þau eru, gefa þeim tækifæri á þeirra forsendum og útbúa búningsaðstöðu sem þau upplifa sig örugg í. Þetta eru bara börn. Ég hef heyrt neikvæðar sögur, til dæmis af trans stelpu sem átti ekki að fá að spila með stelpunum því hún væri svo sterklega vaxin.

Það er ósanngjarnt þegar trans fólki að neitað um þátttöku í keppnum og íþróttum

Ég á erfitt með að trúa þessu, ég meina, erum við ekki öll misjafnlega vaxin? Ætti að banna strák að keppa í fótbolta því hann væri of hávaxinn eða of lágvaxinn? Þetta þarf ekki að vera svona flókið – bara að leyfa öllum að vera eins og þeir eru og æfa íþróttir með þeim sem þá langar til. Við erum of gjörn að setja allt í einhver fyrirframákveðin hólf. Ronja stundar íþróttir sér til gamans og er ekkert endilega með einhverja atvinnumennsku í huga núna en ef hún yrði tilneydd að hætta íþróttaiðkun vegna einhverra reglugerða myndi henni auðvitað ekki líða vel. Það er ósanngjarnt þegar trans fólki að neitað um þátttöku í keppnum og íþróttum. Og varðandi til dæmis sundstaði, þar sem sundmenning er mikil hér á landi, þá er málið litlu flóknara en að bæta við unisex-klefum. Gera þannig ráð fyrir öllum,“ segir Stefanía og á þar við kynhlutlausa einstaklingsbúningsklefa sem eru sums staðar í notkun en þeir hafa til dæmis veitt trans og kynsegin fólki ákveðið skjól bæði gegn árásum og háði. Þessir klefar hafa gert sumu trans fólki, sem annars forðast sund, kleift að geta farið þangað á ný.

Við lýstum barninu okkar fyrir henni og eftir gott spjall var okkur sagt að hún væri skólabókardæmi um trans stelpu. Við ættum bara að gefa henni frelsi til að vera eins og hún vildi vera.

Frelsi og nýtt nafn eftir fræðslu

Þrjú ár eru síðan Ronja fékk frelsi til að vera stelpa en aðspurð segir Stefanía að Ronja hafi sagst vera stelpa frá því hún fór að tala að einhverju viti.

„Um þriggja til fjögurra ára aldurinn var hún farin að stelast í fötin hjá systur sinni, setti buff á höfuðið til að nota sem sítt hár og vildi nánast bara klæðast sokkabuxum og stuttbuxum því það virkaði líkt og hún væri í pilsi. Þegar hún var rúmlega fjögurra ára fórum við á fund með forsvarsfólki leikskólans sem vildi ræða hegðun hennar við okkur. Starfsfólk deildarinnar vissi ekki hvernig það átti að svara henni því hún sagðist vilja vera stelpa. Það vildi heyra hvernig við svöruðum henni og samræma þannig gerðir okkar allra. En málið var að við vissum heldur ekkert hvernig við áttum að tala við hana né hvað við áttum að segja. Við hittum sálfræðing sem benti okkur á að fá fund með Sigríði Birnu Valsdóttur, ráðgjafa hjá Samtökunum ´78, sem er sérhæfð í málefnum trans barna og -ungmenna,“ segir Stefanía og þau fengu fund með henni í lok nóvember 2015. Eftir hann gerðust hlutirnir hratt.

Strax í desember var hún farin að klæðast kjólum og milli jóla og nýárs var hún komin með nýtt nafn.

„Við lýstum barninu okkar fyrir henni og eftir gott spjall var okkur sagt að hún væri skólabókardæmi um trans stelpu. Við ættum bara að gefa henni frelsi til að vera eins og hún vildi vera. Við ættum einnig að segja öllum nákomnum frá frelsinu sem við gáfum henni. Tala við starfsfólk leikskólans og halda foreldrafund til að fræða foreldra deildarinnar. Við keyrðum heim úr bænum frekar ringluð enda vorum við ekki alveg viss um hvað trans væri. Auðvitað viljum við börnunum okkar það besta í heiminum svo það kom aldrei annað til greina en að gefa henni þetta frelsi. Eftir að hún fékk það gerðist allt rosalega hratt. Strax í desember var hún farin að klæðast kjólum og milli jóla og nýárs var hún komin með nýtt nafn.“

Gengu í gegnum sorgarferli

Með fram því að sjá stelpuna sína blómstra í nýfengnu frelsi gengu foreldrar Ronju samt sem áður í gegnum ákveðið sorgarferli sem Stefanía segir eðlilegt í þessum aðstæðum. „Fyrst fannst mér ég eiginlega ekki mega vera sorgmædd því Ronja var miklu hamingjusamari og við höfðum í raun ekkert misst. Hluti af fræðslunni sem við fengum hjá Samtökunum ´78 var að sorgarferlið væri eðlilegt og við ættum að leyfa okkur að fara í gegnum það. Við vorum komin með framtíðarsýn af strák sem á stuttum tíma var orðin stelpa.“

Eins og fyrr segir tók samfélagið breytingunni vel strax frá byrjun. Leikskólinn breytti nafninu strax í tölvukerfinu, breytti öllum merkingum á hólfum og skúffum. Það sama má segja þegar Ronja byrjaði í skóla – nafninu var breytt áður skólaárið hófst og fræðsla var haldin fyrir starfsfólkið.

„Þar sem lögin banna Þjóðskrá að breyta nafni milli kynja fyrr en kynleiðréttingarferli er komið ákveðið langt á veg verðum við að semja við hverja stofnun fyrir sig um nafnabreytingu. Heilsugæslustöðin hefur til dæmis einnig breytt nafninu í kerfinu þeirra fyrir Ronju. Ég veit ekki hvað liggur að baki þessum lögum en þannig er staðan og ekkert sem við getum gert að svo stöddu. Okkur finnst þetta mjög leiðinlegt, það hlýtur að vera hægt að leyfa nafnabreytingu milli kynja með einhverjum skilyrðum, einhverjum reglum um að fólk geri þetta ekki endalaust fram og til baka. Það er ekki gaman fyrir þessa einstaklinga að fara til dæmis inn á heilbrigðisstofnun og vera kallaðir upp með sínu gamla nafni, hvað þá að þurfa að hafa sitt gamla nafn í skilríkjum á borð við vegabréf. Það er einfaldlega bara sárt fyrir þá,“ segir Stefanía.

Þegar Ronja fer að komast á kynþroskaaldurinn þarf hún að fá tíma hjá BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítalans) og hitta geðlækni til að fá samþykki fyrir „blockerum“, eins og það kallast, sem stoppar kynþroskann hennar. „Hún má ekki fara í neina aðgerð fyrr en hún er orðin sjálfráða og því alveg tíu ár í að hún megi breyta nafninu sínu í Þjóðskrá. Sem er virkilega langur tími. Þangað til er það undir náð og miskunn skólayfirvalda, hvort hún verður kölluð Ronja í sínum skólum í framtíðinni eða ekki. Til dæmis var hræðilegt að heyra um þegar skólayfirvöld í Menntaskólaum við Sund neituðu að breyta nafni trans stráksins Dalvins Smára Imsland í kerfi sínu. Einstaklingar sem vinna á svona stofnunum ættu ekki að láta fordóma bitna á aðilum sem eru ekki innan rammans.“

„Og varðandi til dæmis sundstaði, þar sem sundmenning er mikil hér á landi, þá er málið litlu flóknara en að bæta við unisex-klefum. Gera þannig ráð fyrir öllum.“

Svarar fullum hálsi

Stefanía segir að þau hafi lært mikið á þessum fjórum árum, mest hjá Hugrúnu Vignisdóttur sálfræðingi og Sigríði Birnu hjá Samtökunum ´78 sem hafi verið ómetanlegar í þessu ferli. Einnig þótti þeim afar fróðlegt að sækja ráðstefnuna Undir regnboganum, ráðstefnu um málefni trans barna á Íslandi sem haldið var í Iðnó í mars á síðasta ári. „Þar fengum við að heyra í foreldrum ungrar trans stelpu. Það er alltaf gott að vita að maður er ekki einn í svona stöðu. Einnig heyrðum við sögu ungra trans einstaklinga. Þau voru virkilega hugrökk að standa fyrir framan fullan sal af fólki og segja sína sögu.“

Flestir ættingjar og vinir fjölskyldunnar brugðust vel við frelsi Ronju þótt sumir hafi tekið fréttunum með tortryggni í fyrstu. „Flestir tóku þessu vel og Ronja veitti því litla eftirtekt að einhverjir væru ósáttir, ef svo má að orði komast. En ef hún var einhvern tímann kölluð strákur svaraði hún fullum hálsi að hún væri stelpa. Stóra systir Ronju, Ásdís Eva, tók þessu ótrúlega vel. Það eina sem truflaði hana í þessu öllu voru áhyggjur af því að Ronju yrði strítt. Ronja hefur alveg lent í einhverjum árekstrum í skólanum en þá fengum við góð ráð hjá Hugrúnu. Hún lét okkur kenna Ronju hvernig væri best að tækla þegar börn rifja upp að hún hafi verið strákur. Ronja ræður þá hvort hún vilji svara eða segja að hún vilji ekki ræða þetta.

Foreldrar mínir voru ekki sátt fyrst þegar við létum þau vita af frelsinu sem við gáfum Ronju. Þeim fannst við ýta undir þetta og við lentum í smárifrildi sem varð til þess að engin samskipti urðu okkar á milli í níu mánuði. Þá veiktist mamma, fékk krabbamein í háls, og fór í bráðaaðgerð. Eftir erfitt bataferli var hún komin með ventil til að geta tjáð sig. Þarna áttuðum við okkur á að lífið væri of dýrmætt til að eyða því í einhverja fýlu. Foreldrar mínir fóru að taka Ronju eins og hún er og allt hefur verið gott milli okkar síðan. En það fannst svo aftur krabbamein hjá mömmu síðasta vor og hún tapaði þeirri baráttu 14. ágúst 2018.“

Ronja Sif fékk nýtt nafn þegar hún var fjögurra ára og hefur blómstrað síðan. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Flóahreppur frábær

Þau hjónin hafa bjarta framtíðarsýn fyrir Ronju. „Trans börn eru bara eins og öll önnur börn. Þrátt fyrir að ýmsar hindranir geti orðið í veginum sjáum við framtíð Ronju í björtu ljósi. Vissulega höfum við einhverjar áhyggjur eins og eðlilegt er að foreldrar hafi af börnum sínum en ekkert endilega meiri áhyggjur af Ronju en af hinum börnunum okkar. Munu þau verða fyrir einelti? Hvernig mun þeim ganga í skóla? Og svo framvegis. Við sjáum einstaklega skapandi og frjálsa stelpu sem fer sínar eigin leiðir í lífinu. Hún er virkilega sterk og ekkert stoppar hana í að verða sú mannekja sem hún vill verða.

Með því að vera opin um málefnið vonumst við til að geta frætt aðra.

Við hjónin erum afskapalega ánægð með samfélagið sem við búum í. Flóahreppur er lítið samfélag og ég held að það sé ástæðan fyrir því að henni var tekið svona vel. Það eru allir vinir og félagar hérna. Ég tel að öll fræðsla sé góð. Fordómar eru ekkert annað en fáfræði. Við höfum alltaf verið opin með ferlið sem við gengum í gegnum með Ronju og vonandi hjálpar það öðrum foreldrum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við tjáum okkur opinberlega. Við höfum einnig sagt sögu okkar á fræðslufundum Hugrúnar Vignisdóttur og hitt aðra foreldra í sömu stöðu. Með því að vera opin um málefnið vonumst við til að geta frætt aðra. Umræðan og fræðslan er orðin meiri í dag og fólk því opnara fyrir öllum einstaklingum hvort sem þeir eru trans, samkynhneigðir eða eitthvað annað. Við vitum ekki hvernig Ronju hefði verið tekið fyrir til dæmis 20 árum síðan. Sjálf tökum við bara einn dag í einu og vinnum úr þeim verkefnum sem koma upp, þegar þau koma upp og höfum því litlar áhyggjur af framtíðinni. Vonandi verður fólk orðið enn fróðara um trans og hnökrarnir færri þegar Ronja verður orðin eldri. Við höfum upplifað afar fátt neikvætt eða leiðinlegt gagnvart henni Ronju Sif og fyrir það erum við þakklát.“

„Gagnrýnin gekk nærri mér“

Margir þekkja Guðríði Torfadóttur, Gurrý, úr þáttunum geysivinsælu Biggest Loser. Hún segir óvægna gagnrýni í tengslum við þáttinn hafa vissulega tekið á en hennar eina markmið hafi alltaf verið að hjálpa öðrum í átt að betri heilsu.

Gurrý byrjaði upprunalega að æfa, átján ára gömul, til að létta sig eftir fyrstu meðgöngu hennar. Hún hefur stundað Bootcampt, Crossfit, jóga, lyftingar og flest það sem er í boði í heilsurækt. Hún hefur til dæmis nýlokið handstöðunámskeiði. Hún segir fjölbreytnina hafa haldið sér við efnið og þess vegna sé hún enn þá að, tuttugu og einu ári seinna.

Gurrí er með B.S.-gráðu í viðskiptafræði en þegar henni lauk fór hún beint í ÍAK-einkaþjálfaranám hjá Keili. Þar að auki er hún með jógakennararéttindi.

Hún vann með háskólanámi í Baðhúsinu við að þjálfa og ætlaði að stunda það sem áhugamál en fann fljótt að sig langaði að sameina áhugamálið og starfsvettvang. Þegar hún fékk vinnu hjá Sportmönnum við að sjá um Reebok-vörumerkið segist hún hafa fundið hilluna sína. Á þessum tíma opnaði Reebok-fitness heilsuræktarstöð og hún naut þess að kenna þar samhliða því að vera framkvæmdastjóri fyrirtækisins í fjögur ár.

Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt og þannig þrífst ég best.

Gurrý sagði skilið við Reebok í fyrrahaust og fór aftur í upprunann, í  einkaþjálfun og að kenna fólki í gegnum fjarþálfunina, gurry.is.

„Ég íhugaði vel hvað ég vildi fara að vinna við og fann að ég þurfti að fara að gera eitthvað annað og læra nýja hluti. Í haust byrjaði ég að vinna hjá Heilsuhúsinu en þar sameinast aftur áhugi minn á heilsu og þörfin fyrir að vera í sölu- og markaðsmálum. Þar hefur líka opnast fyrir mér nýr heimur í fæðubótarefnum en bætiefni og vítamín hafa þróast rosalega og ég hafði ekki hugmynd um hvað það er til mikið af góðum bætiefnum sem geta hjálpað til með hollu mataræði. Þannig að ég er alltaf að læra eitthvað nýtt og þannig þrífst ég best,“ segir Gurrý.

Óvægin gagnrýni

Talið berst að Biggest Loser þar sem Gurrý var ein tveggja þjálfara. Þættirnir fóru ekki varhluta af gagnrýni og Gurrý fékk að finna fyrir henni. Hún segir samt sem áður þættina hafa verið eitt af skemmtilegri verkefnum sem hún hefur tekið þátt í.

Sumir halda ég sé svo mikill nagli og meira að segja nánir vinir höfðu aldrei áhyggjur en ég er mannleg.

„Starfsfólkið hjá SagaFilm og keppendur gerðu þetta að mögnuðu verkefni sem  ég er mjög þakklát fyrir að fá að hafa fengið að vera með í. Það er líka draumur að fá að vinna með fólki sem er komið til að vinna 100% í sér og er tilbúið til að taka sér frí frá vinnu, yfirgefa fjölskyldu og vini og taka þetta alla leið. Þó svo að öllum hafi ekki tekist það þá eru þetta hetjur sem ég ber mikla virðingu fyrir. Það að opna líf sitt og erfiðleika sína fyrir alþjóð er ekki fyrir hvern sem er og það sem er best við þetta er að Biggest Loser var alveg raunverulegt og ekkert leikið. Svona er þetta. Svo fannst mér allt í kringum sjónvarpsvinnuna mjög skemmtilegt og gæti alveg hugsað mér að vinna aftur í sjónvarpi.“

En var ekki erfitt að sitja undir gagnrýnisröddum?

„Ef ég hefði verið spurð að þessu fyrir tveimur árum þá hefði ég sagt nei en gagnrýnin og umtalið var mikið í síðustu seríu og jú það var mjög erfitt og gekk nærri mér ef ég á að vera alveg heiðarleg í svari. Sumir halda ég sé svo mikill nagli og meira að segja nánir vinir höfðu aldrei áhyggjur en ég er mannleg og þegar gagnrýni er orðin að persónulegum árásum þá er ekki hægt annað en að verða fyrir áhrifum á neikvæðan hátt.

Sumar gagnrýnisraddir voru ekki málefnalegar á meðan aðrar voru það.

Fólk má hafa skoðanir og ég virði það og Biggest Loser er umdeilt sem ég skil líka en sumar gagnrýnisraddir voru ekki málefnalegar á meðan aðrar voru það. Ég tók þátt í Biggest Loser af einni ástæðu sem var að hjálpa fólki og ég sé ekki eftir neinu og myndi gera þetta allt aftur.“

Að borða hreinan mat og skipuleggja sig er lykill að árangri

Við spyrjum hvað hún ráðleggur fólki að gera til að koma sér af til þess að lifa heilbrigðara líferni?

„Mitt besta ráð er að skipuleggja sig vel og ákveða æfingatímann og helst hafa hann alltaf á sama tíma.“ Hún segir helstu mistökin vera að fólk ætli sér of mikið í einu og það endi oft ekki vel.
„Ég hef séð fólk ná góðum árangri með því að æfa tvisvar sinnum í viku. Hugsaðu þetta þannig að þú planar æfingarnar svo að þú komist alltaf, hlakkir til og þetta sé ekki kvöð. Það er betra að skipuleggja tvær góðar æfingar í viku og mæta alltaf en að plana fjórum sinnum í viku og enda með því að skrópa eða komast ekki og þannig fá samviskubit eða einfaldlega gefast upp.

Maturinn er svo stór partur af þessu og ég er alltaf að komast betur og betur að því að því einfaldara sem markmið er, því betra. Taktu út gos í fjórar vikur og sjáðu hvað gerist, settu svo markmið að borða grænmeti í öll mál, hvað gerist þá o.s.frv.

Viðtalið við Gurrí er að finna í þriðja tölublaði Vikunnar.

Ef þú ætlar að græja þetta allt í einu, skrá þig í ketó, æfa sex sinnum í viku, henda öllu út – sykri, mjólkurvörum, hveiti og ég veit ekki hvað og hvað þá þori ég að veðja þetta dugar í nokkrar vikur eða mesta lagi í nokkra mánuði. Eitt sem mér finnst líka mikilvægt að benda á er að það þarf að halda helgardögunum líka eðlilegum. Það virkar ekki neitt að vera harður við sig í fimm daga og leyfa sér svo allt í tvo. Þá er betra að halda tempói og prófa líka að tyggja matinn í botn, það eitt og sér svínvirkar,“ segir Gurrý í viðtali við Vikuna

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Amanda Knox fær bætur frá ítalska ríkinu

Í dag komst Mannréttindadómsstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að ítalska ríkið braut gegn Amöndu Knox.

Mannréttindadómsstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að að Ítalska ríkið hafi brotið á hinni bandarísku Amöndu Knox í máli hennar. Knox var ásamt kærasta sínum, Raffaela Silicito, fundin sek um morð á meðleigjanda sínum, Meredith Kercher, árið 2007.

Knox og Silicito voru þá sýknuð árið 2011. Sumarið 2013 ákvað hæstiréttur Ítalíu að rétta í málinu á ný og voru þau Knox og Silicito fundin sek á ný. Bæði voru þau þá sýknuð af morðinu í annað sinn árið 2015. Þau héldu alltaf fram sakleysi sínu.

Knox stefndi ítalska ríkinu fyrir mannréttindadómstól Evrópu árið 2016 en hún hefur alltaf haldið því fram að hún hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð í ítalska réttarkerfinu. Knox, sem stundaði nám á Ítalíu árið 2007, var yfirheyrð í marga klukkutíma á ítölsku án túlks vegna morðsins á Kercher. Þá var henni ekki útvegaður lögfræðingur fyrr en eftir yfirheyrslur. Knox hefur einnig haldið því fram að hún hafi verið beitt ofbeldi á meðan á yfirheyrslum stóð.

Málið vakti mikla athygli og hafa Netflix-þættir um málið til að mynda notið mikilla vinsælda síðan þeir komu út árið 2016.

Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi í dag ítalska ríkið til að greiða Knox rúmar 18.000 evrur í skaðabætur vegna óréttlátrar málsmeðferðar.

Birtir fótósjoppaðar myndir af sér á samfélagsmiðlum

|
|

Donald Trump hefur undanfarið birt nokkrar ljósmyndir af sér á samfélagsmiðlum sem vakið hafa athygli vegna þess að þeim virðist hafa verið breytt með myndvinnsluforritum.

Undanfarna mánuði hafa ýmis myndræn skilaboð frá Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, verið áberandi á Facebook og Twitter-síðum hans en það sem hefur vakið athygli margra er að myndirnar af Trump virðast vera fótósjoppaðar. Blaðamaður Gizmodo vekur til að mynda athygli á þessu í ítarlegri grein.

Ef myndirnar sem um ræðir eru grandskoðaðar má sjá að þeim hefur verið breytt lítillega í myndvinnsluforritum til að láta forsetann líta út fyrir að vera grennri og frísklegri en hann er. Þá hefur húðlit hans einnig verið breytt í sumum tilfellum en mikið grín hefur verið gert að forsetanum í gegnum tíðina vegna notkunnar hans á brúnkukremi. Í grein blaðamanns Gizmodo má þá sjá upprunalegu myndirnar við hlið þeirra fótósjoppuðu til samanburðar.

„Myndin lítur út fyrir að vera nokkuð eðlileg við fyrstu sín. En um leið og þú berð hana saman við þá upprunalegu, sem er hægt að nálgast á Flickr-síðu Hvíta hússins, þá getur þú séð hverju hefur verið breytt,“ skrifar blaðamaður Gizmodo við um eina myndina. „Og undarlegasta breytingin er sú að fingur Trumps hefur verið lengdur örlítið. Í alvöru,“ bætir hann við.

Samanburð á nokkrum ljósmyndum af Trump má sjá á vef Gizmodo.

„Vorum ekki viss um hvað trans væri“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Ronja Sif Magnúsdóttir er átta ára lífsglöð trans stelpa sem var fullviss um sitt rétta kyn um svipað leyti og hún fór að tala. Hún fékk nýtt nafn þegar hún var fjögurra ára og hefur blómstrað síðan sem er ekki síst að þakka víðsýni foreldranna og frábærum viðtökum samfélagsins í kringum þau.

„Um þriggja til fjögurra ára aldurinn var Ronja farin að stelast í fötin hjá systur sinni, setti buff á höfuðið til að nota sem sítt hár og vildi nánast bara klæðast sokkabuxum og stuttbuxum því það virkaði líkt og hún væri í pilsi,“ segir Stefanía Ósk Benediktsdóttir, móðir Ronju.

„Þegar hún var rúmlega fjögurra ára fórum við á fund með forsvarsfólki leikskólans sem vildi ræða hegðun hennar við okkur. Starfsfólk deildarinnar vissi ekki hvernig það átti að svara henni því hún sagðist vilja vera stelpa. Það vildi heyra hvernig við svöruðum henni og samræma þannig gerðir okkar allra. En málið var að við vissum heldur ekkert hvernig við áttum að tala við hana né hvað við áttum að segja. Við hittum sálfræðing sem benti okkur á að fá fund með Sigríði Birnu Valsdóttur, ráðgjafa hjá Samtökunum ´78, sem er sérhæfð í málefnum trans barna og ungmenna,“ segir Stefanía og þau fengu fund með henni í lok nóvember 2015.

Eftir hann gerðust hlutirnir hratt. „Við lýstum barninu okkar fyrir henni og eftir gott spjall var okkur sagt að hún væri skólabókardæmi um trans stelpu. Við ættum bara að gefa henni frelsi til að vera eins og hún vildi vera. Við ættum einnig að segja öllum nákomnum frá frelsinu sem við gáfum henni. Tala við starfsfólk leikskólans og halda foreldrafund til að fræða foreldra deildarinnar. Við keyrðum heim úr bænum frekar ringluð enda vorum við ekki alveg viss um hvað trans væri.

Við keyrðum heim úr bænum frekar ringluð enda vorum við ekki alveg viss um hvað trans væri.

Auðvitað viljum við börnunum okkar það besta í heiminum svo það kom aldrei annað til greina en að gefa henni þetta frelsi. Eftir að hún fékk það gerðist allt rosalega hratt. Strax í desember var hún farin að klæðast kjólum og milli jóla og nýárs var hún komin með nýtt nafn.“

Samfélagið í Flóahreppi hefur tekið Ronju frábærlega og ekki síst íþróttafélögin á svæðinu sem hafa ekki hikað við að leyfa henni að æfa og keppa með stelpunum. Ítarlegt viðtal er við móður Ronju, Stefaníu Ósk, í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Tekur einn dag í einu

Steinunn Stefánsdóttir hætti sem aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins 2013 í kjölfar breytinga á yfirstjórn blaðsins. Þremur árum seinna varð hún ekkja og í framhaldi af því tók hún líf sitt til endurskoðunar. Í dag er hún lausráðin við skriftir og þýðingar með frábærum árangri því á dögunum hlaut hún Fjöruverðlaunin fyrir bókina Þjáningarfrelsið.

Steinunn er stödd í lest á Eyrarsundsbrúnni þegar blaðamaður hefur samband við hana en hún segist vera mikill flakkari og njóta sín best ef hún er á ferðinni. Hún er þó ekki flutt úr landi eins og svo margir, heldur er hún að heimsækja dætur sínar sem búa í Kaupmannahöfn og Lundi.

„Ég er mikið á flakki, já,“ segir hún og hlær. „Á síðasta ári reiknast mér til að ég hafi verið í burtu að heiman einn þriðja af árinu Það helgast að sumu leyti af því að í sumar sem leið starfaði ég sem landvörður. Eitt af ævintýrum ársins 2018 var að taka námskeið í landvörslu og starfa sem slíkur á vestursvæði Vatnajökulsstöðvar í framhaldi af því, aðallega á Kirkjubæjarklaustri en einnig í Lakagígum og fannst það ekki lítið töff að vera trúað fyrir einni helstu náttúruperlu landsins.“

Eitt af ævintýrum ársins 2018 var að taka námskeið í landvörslu og starfa sem slíkur á vestursvæði Vatnajökulsstöðva.

Spurð hvort hún sé sem sagt alveg búin að gefast upp á fjölmiðlunum tekur Steinunn sér örlitla umhugsunarpásu áður en hún svarar.

„Ég myndi ekki segja gefast upp, það er bara komið nýtt tímabil í líf mitt,“ segir hún.

„Ég vil alls ekki kalla það uppgjöf. Ég er flakkari í eðli mínu og allt líf mitt hefur verið í tímabilum, ekki síst varðandi störf. Og þótt fjölmiðlatímabilið sé lengsta tímabilið sem eftir mig liggur þá nær það ekki fimmtán árum. Ég byrjaði á DV árið 2000 og hætti á Fréttablaðinu í mars 2013 svo þú sérð að þetta er ekki stór hluti af starfsævinni.“

Eins og sést af þessu voru árin 2013-2016 frekar sviptingasöm í lífi Steinunnar en hún segir þó viðskilnaðinn við Fréttablaðið í kjölfar þess að Mikael Torfason var ráðinn inn sem ritstjóri við hlið Ólafs Stephensen og hennar starf þar með gert óþarft, að hennar mati ekki hafa verið mikið áfall – þó.

Þegar þetta gerðist allt saman þá áttaði ég mig á því að ég var rosalega vel undirbúin fyrir nákvæmlega þetta ferli, var í rauninni búin að skrifa handritið í huganum löngu áður.

„Já og nei,“ segir hún og dregur örlítið við sig svarið. „Ég vissi í raun og veru allan tímann að þetta myndi enda einhvern veginn svona. Umhverfið í þessum heimi er svo sviptingasamt. Ég hafði auðvitað ekki hugmynd um að það yrði Mikael sem kæmi inn, það gat verið hver sem er, og það gat líka alveg eins verið að yfirstjórnin tæki allt í einu þá ákvörðun að hún nennti ekki lengur að hafa mig. Þegar þetta gerðist allt saman þá áttaði ég mig á því að ég var rosalega vel undirbúin fyrir nákvæmlega þetta ferli, var í rauninni búin að skrifa handritið í huganum löngu áður.“

Steinunn prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Vikunnar.

En breytingum á högum Steinunnar var ekki þar með lokið, sumarið 2016 lést eiginmaður hennar Arthur Morthens skyndilega þegar þau voru í sumarfríi í Danmörku. Hann hafði átt við veikindi að stríða lengi en engu að síður var fráfall hans óvænt. Steinunn talar nánar um fráfall hans í forsíðuviðtali við Vikuna en hún hlaut Fjöruverðlaunin nýlega og er auk þess tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunna.

Hvað er fleira á döfinni hjá henni?

„Það er svo sem ekkert sérstakt á döfinni,“ segir Steinunn hugsi. „Ég stefni enn þá að því að klára lokaritgerðina í þýðingarfræðinni og vona að ég finni tíma í það fljótlega. Annars er ég bara opin fyrir öllu. Einu föstu verkefnin sem ég er með núna eru þýðingar fyrir vefsíðu Norðurlandaráðs og pistlaskrif fyrir Mannlíf og ég sækist ekki eftir fleiri verkefnum, þau koma til mín óbeðin og ég segi yfirleitt já þegar ég er beðin að taka eitthvað að mér. Annars er ég bara í því að bregðast við þegar eitthvað skemmtilegt stendur til boða. Ég tek lífið svolítið svona einn dag í einu núorðið, mér finnst þetta allt saman bara svo óskaplega skemmtilegt.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

Spegill á samfélagið og okkur sjálf

Alexandra Briem, varaborgarfulltrúi Pírata í Reykjavík, segist lesa mikið af vísindaskáldskap og þá ekki hasarsins vegna þótt vissulega geti hann verið skemmtilegur heldur aðallega vegna þeirra áleitnu spurninga sem slíkar bókmenntir velta upp. Þetta séu þær bækur sem hafi yfirleitt mest áhrif á hana.

„Einn helsti styrkleiki bókmennta er að leyfa okkur að setja okkur í spor annarra og upplifa aðstæður sem eru okkur e.t.v. alla jafna framandi og vísindaskáldskapur er kannski sú bókmenntagrein sem gengur hvað lengst í því,“ útskýrir hún.

„Hann notar ýktar og jafnvel fjarstæðukenndar aðstæður til að afhjúpa siðferðisleg álitamál, aðstæður sem gegna því hlutverki að skilja hismið frá kjarnanum og er, þegar best lætur spegill á samfélagið og okkur sjálf. Fyrir mig sem lesanda er mjög mikilvægt hvernig slíkur skáldskapur fær mann oft til að hugleiða hvað sé rétt og hvað sé rangt með því að velta upp allskyns áleitnum spurningum og hvernig hann getur styrkt mann í eigin sannfæringu eða jafnvel fengið mann til að skipta algjörlega um skoðun á einhverju. Lesturinn verður þá um leið hálfgerð sjálfsskoðun mér finnst skipta máli.“

Spurð um hvaða bækur séu áhrifaríkastar nefnir hún bókaflokkinn Menningin (Culture) eftir Iain M. Banks. Hann sé efstur á lista fyrir utan dæmigerðar bækur eins og Handbók puttaferðalangsins um Vetrarbraut-ina (Hitchhikers Galaxy through the Galaxy).

„Þetta eru flóknar bækur sem lýsa samfélagi sem er svo miklu þróaðra en það sem við þekkjum að meira að segja áhöfnin á Enterprise virðist vera hálfgerðir steinaldarmenn í samanburði,“ lýsir hún.

Hvenær má svo grípa inn í náttúrulega þróun annarra samfélaga?

„Í bókunum hefur mannfólkið sest að í flennistórum hringlaga byggingum og býr við gríðarlegt sjálfstæði í einkalífinu, sem sést m.a. af því hvernig það getur skipt um kyn og aldur og jafnvel búið í algjörum sýndarveruleika á meðan nánast öllu samfélaginu er stýrt af gervigreindum, sem takmarkar aftur áhrif fólks í samfélaginu. Þarna er því verið að velta upp alls konar áhugaverðum spurningum eins og t.d. hversu réttlætanlegt það sé að setja stjórnina í hendur gervigreindar, ef það rænir okkur möguleikanum á frumkvæði og vexti?

Og ef það er þannig að fólk hefur frelsi í eigin lífi en möguleikarnir til að láta til sín taka eru fáir, er það líf þá mikils virði? Hvenær má svo grípa inn í náttúrulega þróun annarra samfélaga? Hvert er lokamarkmið siðmenningarinnar? Og svo framvegis. Þannig að bæði er verið að skoða framsæknar og jákvæðar hugmyndir í þessum bókaflokki eftir Banks en líka hætturnar sem geta fylgt þeim.“ Alexandra kveðst eindregið mæla með honum.

Bragðgóð blómkálsbaka

Kjöt og íslenskt grænmeti *** Local Caption *** allt í einu fati
Kjöt og íslenskt grænmeti *** Local Caption *** allt í einu fati

Þegar hráefnið er fyrsta flokks er óþarfi að flækja hlutina mikið, yfirleitt er það einfaldasta best. Fátt jafnast á til dæmis á við ferkst grænmeti eins og sannast hér þar sem uppskrift er gefin að blómkálsböku frá Persíu.

Blómkálsbaka frá Persíu
fyrir 2-3

3 msk. olía
½ rauðlaukur, sneiddur
2 hvítlauksgeirar
1 lítið blómkálshöfuð, hlutað niður í munnbita
1 tsk. kummin
½ tsk. paprikuduft
¼ tsk. túrmerik
5-6 egg (fer eftir stærð)
1 msk. hveiti
1 dl mjólk
½ dl rifinn parmesanostur

Steikið lauk og hvítlauk í olíu þar til laukurinn fer að mýkjast. Bætið blómkáli á pönnuna og steikið áfram í 5-8 mín. Setjið krydd út í og látið steikjast í 1-2 mín.

Blandið eggjum, hveiti, mjólk og osti saman í skál og hellið þessu yfir blómkálið. Lækkið hitann og látið þetta eldast í rólegheitum þar til eggin eru stíf. Flýta má ferlinu með því að stinga pönnunni inn í heitan ofn eða undir grill.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir og Sigríður Björk Bragadóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Tískutrend sem mættu hverfa á braut

Viss tískutrend sem mega gjarnan vera skilin eftir árið 2018 að mati undirritaðrar. Hér er listi yfir það sem mætti kveðja á þessu ári.

Pínulítil næntís-sólgleraugu mega gjarnan verða skilin eftir árið 2018. Ofurfyrirsætan Bella Hadid nær ekki einu sinni að „púlla“ þau og þá er nú mikið sagt.
Þær konur sem ólust upp á tíunda áratugnum hefði aldrei grunað að hjólabuxurnar svokölluðu yrðu tískutrend ársins 2018. Við munum aldrei skilja það.
Gallabuxnatískan var stórfurðuleg á síðasta ári og því rifnari og tættari, því betra. Við skiljum við þetta ósmekklega trend og sjáum það vonandi ekki aftur.
Útvíðar gallabuxur. Hugsanlega kúl á áttunda áratugnum, mögulega í lagi á þeim tíunda en ekki einu sinni Victoria Beckham getur sannfært okkur um að klæðast bootcut-sniði í dag.
Rándýru tískuvörumerkin á borð við Gucci komu á markað með loðfóðraða loafers-skó á árinu. Segjum bless við þá á nýju ári. Loafers mega lifa en ekki með ópraktísku loðfóðri sem hentar slabbveðri sérlega illa.
Síðustu árin hefur tískubransinn og innanhússhönnunarheimurinn verið gegnsýrður af svokölluðum millenial-pink eða fölbleika litnum. Við erum persónulega búnar að fá nóg í bili.
Rándýrir, klunnalegir og logo-merktir strigaskór hafa fengið nægan tíma í sviðsljósinu. Hver er til í að borga rúmar áttatíu þúsund krónur fyrir ljóta strigaskó? Ekki við.
Við sem héldum að mittistöskur kæmu aldrei aftur, en vá, hvað okkur skjátlaðist. Nú er nóg komið.
Hönnunartöskur úr plasti eru bara vitleysa og við tökum ekki þátt í henni.
Neon-litir höfðu betur mátt halda sig í kringum aldamótin. Kim Kardashian nær ekki einu sinni að selja okkur að þetta sé smart.
Svokallaðir chokerar eða mellubönd fengu uppreist æru á síðustu tveimur árum. Við erum ekki þar í liði.

Dóttir fjöldamorðingja: „Þú vilt ekki trúa að þetta sé satt“

|
|

Dóttir BTK-morðingjans svokallaða hefur nú skrifað bók um upplifun sína í kringum mál föður síns sem myrti tíu manns á árunum 1974 til 1991.

Margir muna eflaust eftir máli Bandaríkjamannsins Dennis Rader sem játaði í júní árið 2005 að hafa myrt tíu manns. Morðin framdi hann á árunum 1974 til 1991 í Wichita í Kansasríki. Dennis Rader var kallaður BTK morðinginn en BTK stendur fyrir „bind, torture, kill“ – fjötra, pynta, drepa, en flest fórnarlömbin kyrkti hann. Fjallað var mikið um mál Rader í fjölmiðlum.

Rader fékk tíu samfellda lífstíðardóma án möguleika á reynslulausn en dauðarefsing var ekki heimil í Kansasríki á þeim tíma sem hann hlaut dóm.

Bókin A Serial Killer‘s Daughter kemur út í lok janúar.

Dóttir Rader, Kerri Rawson, var 26 ára árið 2005 þegar hún komst að leyndarmáli föður síns – að hann væri fjöldamorðingi. Hún segir sögu sína í nýrri bók,  A Serial Killer‘s Daughter.

Í bókinni lýsir hún hryllingnum og reiðinni sem hún upplifði í bland við það að þykja ennþá vænt um föður sinn. Í bókinni fjallar hún einnig um hvaða afleiðingar málið hefur haft fyrir alla fjölskyldu hennar. Rawson segir að það hafi tekið hana rúm tíu ár áður en hún gat talað um málið upphátt.

Í viðtali við ABC news lýsir hún stundinni þegar fulltrúi frá FBI bankaði upp á hjá henni til að gera húsleit og tilkynnti henni í leiðinni að faðir hennar væri BTK-morðinginn sem hún hafði heyrt um og lesið um í fjölmiðlum.

Ég reyndi nánast að hylma yfir með honum.

„Ég þurfti að styðja mig við vegginn. Herbergið hringsnerist og ég sagði við lögregluna: „það er að líða yfir mig“. Það var verið að spyrja mig ýmissa spurninga um föður minn, um fjarvistir og fleira…og ég reyndi nánast að hylma yfir með honum. Þú villt ekki trúa að þetta sé satt. Að pabbi þinn sé fær um að gera þetta.“

Þess má geta að bók Rawson er væntanleg 29. janúar.

Fimm leiðir til að láta ferilskrána þína vekja athygli

Það er nauðsynlegt að vanda til verka þegar sótt er um draumastarfið og flott ferilskrá spilar þá afar stórt hlutverk að sögn hönnuðarins Birgittu Rúnar Sveinbjörnsdóttur.

Hönnuðurinn Birgitta Rún Sveinbjörnsdóttir hjá Bold CV segir afar mikilvægt að hafa góða og fallega ferilskrá þegar sótt er um draumastarfið. Hjá Bold CV sérhæfir Birgitta sig í að hjálpa fólki að gera vandaðar ferilskrár sem skera sig úr öðrum ferilskrám í umsóknarferlinu.

„Með eftirtektaverðri ferilskrá eykur fólk líkurnar á að fá atvinnuviðtal,“ segir hún.

„Ferilskráin er „first impression“ af þér sem mögulegum starfsmanni. Flott framsetning sem sker sig úr sýnir fyrst og fremst metnað fyrir að vilja koma vel fram en einnig ákveðið hugrekki í að þora að vera aðeins öðruvísi en aðrir,“ segir Birgitta.

Ég hef fengið reynslumikið og flott fólk til mín sem hefur verið að leita að starfi lengi en sáu svo að það var eitthvað ekki að virka.

„Þó að reynslan skipti mestu máli þá getur flott útlit og góð framsetning gert ákveðna reynslu meira áberandi en aðra. Ég hef fengið reynslumikið og flott fólk til mín sem hefur verið að leita að starfi lengi en sáu svo að það var eitthvað ekki að virka. Með öðruvísi ferilskrá sem skar sig úr meðal annarra urðu atvinnuviðtölin mun fleiri.“

Birgitta mælir með að fólk stígi út fyrir kassann þegar kemur að atvinnuumsóknum.

„Ferilskrár eru enn þann dag í dag mjög staðlaðar og útlitið í takt við það. En margt fólk er þó að átta sig á öðrum möguleikum og þorir að „branda“ sjálfan sig almennilega.“

Meðfylgjandi eru fimm ráð frá Birgittu um hvernig hægt er að tryggja að ferilskráin þín veki athygli.

Gerðu reynsluna myndræna ef hægt er

Sýndu reynslu í einhvers konar stjörnugjöf eða prósentugjöf. Hversu fær ertu í tölvuforritum á skalanum 1 – 5 sem dæmi?

Notaðu punkta í staðinn fyrir samfelldan texta

Atvinnuveitandinn skimar yfir ferilskrána og er fljótari að fara yfir hana ef hún er skýr og með stuttum setningum.

Notaðu liti og form

Litir geta gefið vinnuveitandanum ákveðna tilfinningu. Ferilskráin verður eftirminnilegri fyrir vikið og oft skemmtilegri yfirlestrar.

Reyndu að halda þig við eina blaðsíðu

Hægt er að skipta einni blaðsíðu upp í nokkra hluta þannig að margra ára reynsla komist fyrir en fái að njóta sín á sama tíma.

Hafðu starfstitilinn sýnilegan

Starfstitillinn skiptir oft meira máli en fyrirtækið sem þú vannst hjá. Vinnuveitandinn vill fá að vita hvaða ábyrgð þú hafðir og hvaða hindrunum þú sigraðist á sem starfsmaður.

Leitin að næsta leiðtoga demókrata

Leitin að næsta leiðtoga demókrata er hafin. Leiðtoginn sem á að tryggja þeim forsetaembættið í forsetakosningunum 2020. Hér vestanhafs hófst undirbúningur að forsetakosningum um það bil og kosningunum í nóvember lauk. Allar líkur eru á því að prófkjör demókrata verði fjölmennt partý.

Það gefur augaleið að demókratar þurfa að tefla fram sterkum frambjóðanda sem getur sigrað Donald Trump sem er fjarri lagi hefðbundinn frambjóðandi. Trump er til alls líklegur og erfitt að kortleggja. Fer fram hjá hefðbundinni fjölmiðlabaráttu og notar samfélagsmiðla eins og Twitter óspart. Pólitísk skilaboð um að hann stæði með fólkinu í landinu gegn kerfinu virtist virka síðast þó kvarnað hafi úr trúverðugleika þeirra með litlum efndum. Líklegt er að Trump verði óvæginn, beiti hvaða aðferð sem er til að vinna og haldi áfram sínu þjóðernissinnaða innflytjendarausi. Því er það kostur ef sá frambjóðandi sem verður fyrir valinu geti mætt honum af þunga á þessu svelli.

Elizabeth Warren.

Mörg nöfn eru í hattinum. Nokkur hafa þegar lýst yfir framboði þar á meðal öldungardeildarþingkonurnar Elizabeth Warren og Kamala Harris. Elizabeth Warren, fyrrum prófessor við Harvard, hefur verið hörð í gagnrýni sinni á fjármálakerfið, spillingu og óheflaðan kapítalisma. Efnislega er óumdeilt að hún er mjög hæfur frambjóðandi en hana skortir ákveðinn pólitískan sjarma, þetta óáþreifanlega sem fær fólk til að hrífast með. Helsti löstur hennar er að hún er of lík Hillary Clinton. Kamala Harris er frá Kaliforníu og þykir hafa stjörnueiginleika, hefur barist fyrir frjálslyndum borgaréttindum í þinginu og fékk mikla athygli í Brett Kavanaugh yfirheyrslunum.

Joseph R. Biden

Aðrir sem þykja líklegir eru Joseph Biden, varaforseti Obama, Eric Garcetti sem er borgarstjóri Kaliforníu og Bernie Sanders. Bernie bauð sig fram gegn Hillary Clinton í prófkjöri demókrata fyrir forsetakosningar 2016. Hann er sósíalisti, óhefðbundinn frambjóðandi og maður fólksins. Lengst af í hópi þeirra þingmanna sem hafa staðið utan flokka.

Bernie var mjög sterkur á samfélagsmiðlum í sinni baráttu með slagorðið „feel the Bern“ og hefur laðað til sín marga unga fylgjendur sem styðja sósíalískar velferðaráherslum. Joseph Biden á marga fylgjendur innan demókrataflokksins og hann hefur tvisvar áður reynt við forsetaframboð. Þá hefur John Kerry einnig verið nefndur og Hillary Clinton, en bæði þykja ólíkleg enn sem komið er.

Beto O´Rourke.

Annar mögulegur frambjóðandi er Beto O´Rourke þingmaður frá Texas. Ungur, með mikinn pólitískan sjarma og vakti athygli fyrir að ná til ungra kjósenda og að safna miklum fjármunum í baráttu sinni fyrir öldungardeildarþingsæti í Texas í nýliðnum kosningum. Öllum að óvörum var hann í miklum sjens að vinna Ted Cruz sem er stórt nafn í Texas, sem almennt er vel rautt ríki. Beto þykir þó of miðjusinnaður fyrir marga.

Bernie Sanders sterkur frambjóðandi

Af þeim nöfnum sem eru í hattinum hlýtur Bernie Sanders að vera sterkasti frambjóðandinn enn sem komið er. Hann er maður réttlætisins, nokkuð óhefðbundinn á bandarískan mælikvarða og ókerfislægur í sínum skoðunum, rétt eins og Donald Trump. Hans helsti löstur er aldurinn. Hvort að Bernie Sanders sé hið sterka mótvægi til að fella Donald Trump verður þó að koma í ljós, en hann hefur þegar ákveðinn grunn til að byggja á sem aðrir frambjóðendur hafa ekki.

Alexandria Ocasio-Cortez

Margir skemmtilegir nýir þingmenn demókrata eru einnig að vekja mikla lukku meðal ungs fólk og  hrífa til sín fylgi og aðdáun. Þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez hefur verið mest áberandi í þeim hópi. Því gæti það verið sterkur leikur að fá ungan spútnik frambjóðanda sem varaforsetaefni fyrir þann demókrata sem tekst á við Donald Trump árið 2020, sérstaklega ef „hefðbundnari“ frambjóðandi verður fyrir valinu. Það verður að segja að mikið liggur við og því sjálfsagt mikil pressa á demókrötum að fella Trump.

Sjá einnig: Ný þingkona hristir upp í húsinu

Meginatriðið hlýtur að vera að sameinast um sterkasta frambjóðanda sem er líklegur til að sigra og tefla fram öflugri strategíu. Að lesa í hið pólitíska landslag hverju sinni segir líka mikið um hvort hentugra sé að fá hefðbundinni pólitískan frambjóðanda t.d. eins og Elizabeth Warren eða meira fútt eins og fylgir Bernie Sanders þrátt fyrir háan aldur. Tilfinningin er sú að pólitískur sjarmi, sterk skilaboð með réttlætisívafi og hæfnin til að hrífa fólk með sér muni skipta miklu máli í forsetakosningunum 2020. Í öllu falli munu demókratar hafa úr mörgum að velja.

Tek fagnandi á móti Buffalo-skónum aftur

Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir, vörumerkjastjóri Ölgerðarinnar, heldur úti síðunni gydadrofn.com en þar fjallar hún um lífsstíl, heilsu, ferðalög og tísku. Það var því ekki úr vegi að skyggnast inn í fataskáp Gyðu Drafnar enda margt fagurt þar að finna.

Gyða Dröfn er fædd og uppalin á Akureyri en hefur undafarin ár verið búsett í Garðabæ. Hún lærði sálfræði við Háskóla Íslands með áherslu á markaðsfræði sem hún segir að reynist sér vel í núverandi starfi.

„Ég myndi segja að stílinn minn væri frekar kvenlegur og fínlegur og undir sterkum asískum áhrifum. Ég elska létt og flæðandi efni í ljósum litum, í bland við asísk munstur og snið. Ég er yfirleitt alltaf í einhverju ljósu að ofan og nota mikið léttar skyrtur og kimonoa. Ég er líka mjög hrifin af því að Buffalo-skór eru komnir aftur í tísku og mig dauðlangar að fjárfesta í pari. Þar sem ég er ekki mjög hávaxin er þetta trend einstaklega praktískt fyrir mig. Þessu fylgir ákveðin nostalgía þar sem ég átti Buffalo-skó þegar ég var yngri og tek því fagnandi á móti þeim aftur.“

Ég elska létt og flæðandi efni í ljósum litum, í bland við asísk munstur og snið.

Aðspurð hvaðan Gyða Dröfn sæki innblástur segist hún horfa mikið til Instagram.

„Ég fylgist bæði með einstaklingum og verslunum þar og fæ innblástur af myndum frá þeim. Annars versla ég mikið bæði erlendis og á Netinu en einnig hér heima. Erlendis eru verslanirnar & Other Stories og Urban Outfitters í miklu uppáhaldi. Ég skoða mikið vefverslanirnar Asos og Na-kd, og kíki svo oftast í Zara, Vero Moda, Springfield, Gallerí og Húrra hér heima. Ég á alltaf mjög erfitt með mig þegar kemur að kimonoum og ég held ég eigi í kringum fimmtán stykki. Það er bara eitthvað við sniðið og fallegu mynstrin á þeim sem ég stenst alls ekki.“

„Sú flík sem hefur hvað mesta tilfinningalega gildið verður eiginlega að vera annar kimono, sem að kemur kannski ekki á óvart þar sem um 1/3 af skápnum mínum er kimonoar. En þennan keypti ég í Miami, sem er einmitt uppáhaldsborgin mín og kærastans og ég klæddist honum kvöldið sem við trúlofuðum okkur.“
„Ég fjárfesti nýlega í síðum, dökkbláum kjól úr mesh-efni af síðunni na-kd.com. Hann var ætlaður fyrir utanlandsferð sem er á döfinni á næstunni, en hann var svo fallegur að ég stóðst ekki mátið og notaði hann á viðburði um daginn. Ég fékk ótal spurningar um hann enda er hann bæði fallegur og þægilegur.“
„Uppáhaldsflíkin mín í augnablikinu er þessi gullfallegi kimono sem ég fékk í afmælisgjöf. Ég stenst ekki fallega kimonoa og þessi er alveg einstakur. Á afmælinu mínu fyrr á árinu hélt ég veislu með japönsku þema og langaði í fallegan kimono til að klæðast í veislunni. Ég fann þennan á Netinu en hann var mjög dýr svo ég tímdi ekki að splæsa í hann. Kærastinn minn ákvað þá að gefa mér hann í afmælisgjöf sem gladdi mig einstaklega mikið. Ég hef notað hann mjög mikið og hann er án efa það allra fallegasta sem ég á.“
„Ég er óvenjulega lítið fyrir að nota fylgihluti og er til dæmis afskaplega sjaldan með skartgripi. En nýlega hef ég tekið ástfóstri við scrunchies-hárteygjur og þær eru uppáhaldsfylgihluturinn í augnablikinu. Ég keypti mér nokkrar í mismunandi litum og munstrum sem ég para við mismunandi klæðnað.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Ætlar ekki að drekka áfengi næstu 18 árin

Leikkonan Anne Hathaway ætlar ekki að drekka áfengi næstu 18 árin.

Bandaríska leikkonan Anne Hathaway er hætt að drekka áfengi og ætlar ekki að drekka næstu 18 árin. Hathaway ákvað að gefa alla drykkju upp á bátinn vegna sonar síns sem er tveggja ára. Þessu greindi hún frá í spjallþætti Ellen DeGeneres.

Ástæðan fyrir edrúmennskunni mun vera sú að hún vill ekki vera drukkin né með timburmenn í kringum son sinn.

„Ég hætti að drekka í október, í 18 ár. Ég ætla að hætta að drekka á meðan sonur minn býr heima,“ útskýrði hún og sagði að það hafi verið einn morgunn þar sem hún þurfti að koma syni sínum í leikskólann í þynnku sem hafi gert útslagið. „Það var nóg fyrir mig.“

Þess má geta að Hathaway er gift leikaranum og framleiðandanum Adam Shulman.

Hathaway hefur í viðtölum greint frá því að móðurhlutverkið eigi vel við hana og hún leggur mikla áherslu á að verja frítíma sínum með fjölskyldunni.

„Fjölskylda, fjölskylda, fjölskylda. Ég er sátt þegar hlutirnir eru einfaldir,“ sagði leikkonan í viðtali við Review Journal á dögunum þegar hún var spurð út í hvernig fullkominn sunnudagur er að hennar mati. „Við förum í almenningsgarðinn, syngjum, leikum okkur og höfum gaman. Ég nýt mín best með fjölskyldunni nálægt hafinu.“

Sjokkerandi að fá Óskarstilnefningu

Leikarinn Rami Malek, sem fer með hlutverk tónlistarmannsins Freddie Mercury, söngvara Queen, í kvikmyndinni Bohemian Rhapsody, segir það draumi líkast að vera tilnefndur til Óskarsverðlauna.

Leikarinn Rami Malek er tilnefndur sem besti leikarinn fyrir hlutverk sitt í Bohemian Rhapsody. Myndin er einnig tilnefnd sem besta myndin á hátíðinni. Alls hlýtur myndin fimm Óskarstilnefningar.

Bohem­ian Rhapso­dy var afar sig­ur­sæl á Gold­en Globe-verðlauna­hátíðinni sem haldin var í byrjun janúar en mynd­in var val­in besta mynd­in og Rami Malek var valinn besti leik­ar­inn. Þrátt fyrir að hafa hlotið Golden Globe-verðlaun nýlega brá honum við að heyra að hann væri tilnefndur til Óskarsverðlauna.

„Það er eitthvað við það að heyra að þú sér tilnefndur til Óskarsverðlauna, það er alltaf að fara að vera ótrúlega sjokkerandi,“ sagði hann í viðtali við Entertainment Weekly.

„Þetta er bara eitthvað sem þú býst ekki við að gerist. Þetta er eins og fjarlægur draumur sem leikarar eiga sér.“

Óskarsverðlaunahátíðin verður haldin 24. febrúar. Listann yfir tilnefningar er hægt að skoða í heild sinni á vef Óskarsverðlaunahátíðarinnar.

Ertu að fara að flytja?

|
|

Hér kemur sitt af hverju um gamla hjátrú og úr Feng Shui-fræðunum um búferlaflutninga.

Mánudagur

Sjötta skilningarvitið á að vera hvað virkast á mánudögum, hann er fínn dagur til flutninga.

Þriðjudagur

Skynjun, innsæi og greind, ásamt hugkvæmni, fylgja þriðjudeginum. Fínasti dagur til að flytja.

Miðvikudagur

Alls konar ástríður eru sagðar fylgja miðvikudögum, bæði góðar og slæmar.

Fimmtudagur

Peningar eru taldir fylgja fimmtudögum og því ættu þeir dagar að teljast harla góðir til búferlaflutninga.

Föstudagur

Ást og peningar fylgja föstudögum – ekki slæmur dagur, eiginlega bara tilvalinn.

Laugardagur

Góður dagur til flutninga, sérstaklega ef flutt er í gamalt hús.

Sunnudagur

Afar mikil gæfa er talin fylgja því að flytja á sunnudögum.

Til að tryggja gæfu

Taktu með þér:

Salt og brauð í fyrstu ferðina í nýja húsið til að hindra ógæfu. Saltið er tákn peninga og brauðið er táknrænt fyrir mat. Einnig er sagt að maður eigi alltaf fyrir salti í grautinn ef salt er með í fyrstu för.

Skildu eftir:

– Gamla sópinn því honum mun fylgja neikvæðni inn á nýja heimilið.

– Peninga í fyrri húsakynnum til að færa nýjum íbúum gæfu.

Feng Shui-fræðingar mæla með að skilja gamla sópinn eftir.

Í flutningunum:

Þegar verið er að bera húsgögn út af gamla heimilinu er talið best að byrja á því að bera sterkbyggt borð eða stól út en það á að tryggja stöðugleika.

Eftir flutningana:

Haltu svo gott innflutningspartí til að tryggja að gleði ríki á nýja heimilinu.

Litir á veggi nýja heimilisins

Guli liturinn hentar t.d. vel á herbergi sem snúa í norðaustur eða suðvestur og ef herbergi snýr í norður eru bláir, svartir eða gráir litir taldir heillavænlegastir.

Kynntu þér sögu hússins

Feng Shui-fræðingar segja að gott sé að þekkja sögu hússins sem flytja á í og vita eitthvað um fyrri íbúa þess. Hvort þeir voru hamingjusamir eða ekki. Þar sem hefur ríkt óregla og vitað er til að rifrildi, skilnaður og ofbeldi hefur átt sér stað er nauðsynlegt að gera eitthvað við íbúðina. Skrúbba allt í bak og fyrir og mála. Þeir sem hafa trú á miðlum geta beðið einn slíkan um að hreinsa út.

Kristall í gluggana

Gott er samkvæmt fræðunum að styrkja hverja átt fyrir sig með því að hengja kristala í gluggana þannig að sólin skíni í gegnum þá.

Hreyfing fyrir flæðið

Öll glaðleg orka; mikill hlátur, fjörug tónlist, partí og slíkt (svona á meðan ekki er slegist) og húsdýr, er góð fyrir flæðið á heimilinu.

Heilbrigð skynsemi

Best af öllu er að nota heilbrigða skynsemi og fara ekki blint eftir öllu. Ef þér líður vel á heimili þínu er tilganginum náð.

Þorrablót með öllu tilheyrandi

Bryggjan brugghús heldur heljarinnar þorrablót með öllu tilheyrandi.

Á þorrablóti Bryggjunnar brugghúss verður boðið upp á glæsilegt hlaðborð með súrmeti, lambalæri, hangikjöti, síld og gómsætu meðlæti. Glæsileg skemmtidagsdagskrá setur punktinn yfir i-ið.

Það er hin bráðfyndna Saga Garðarsdóttir sem fer með veislustjórn á þorrablótinu þann 26. janúar en Anna Svava Knútsdóttir verður svo veislustjóri þann 8. og 9. febrúar. Þá er það Helgi Björnsson sem heldur uppi stuðinu ásamt hljómsveit.

Þeir sem halda hátíðlega upp á bóndadaginn geta svo skellt sér í nýja matar- og bjórskóla Bryggjunnar brugghúss sem haldinn er alla fimmtudaga. Hægt er að kaupa gjafabréf í skólann og þeir bændur sem fá slíkt gjafabréf fá að auki bjórglas merkt Bryggjunni brugghús. Tilvalin bóndadagsgjöf í upphafi þorranns.

Nytjamarkaðir að fyllast vegna Marie Kondo?

|
|

Tiltektarþættirnir Tydying Up With Marie Kondo njóta mikilla vinsælda víða um heim en Kondo hvetur fólk til að losa sig við það dót sem ekki veitir því gleði.

Netflix-þættir japanska tiltektargúrúsins Marie Kondo, Tydying Up With Marie Kondo (Taktu til með Marie Kondo), hafa notið mikilla vinsælda undanfarið víða um heim. Svo mikilla vinsælda að margt fólk er að losa sig við dót og drasl eins og enginn sé morgundagurinn að sögn nokkurra starfsmanna nytjamarkaða í Bretlandi.

„Ertu að urlast yfir óreiðinu á heimilinu? Þá gæti verið orðið tímabært að grisja og ein besta aðferðin til þess að fara í gegnum dótið og losa sig við það sem veitir þér enga gleði.“ Þannig hljómar í stuttu máli heimspeki Marie Kondo.

Marie Kondo hefur gefið út fjórar bækur um tiltekt og skipulag.

Í frétt BBC kemur fram að margir nytjamarkaðir í Bretlandi hafa verið að fyllast í janúarmánuði. „Við sjáum venjulega aukningu á framlögum í janúar, en þetta árið hefur þetta verið ótrúlegt,“ segir Sue Ryder sem rekur nytjamarkað í Camden í Lundúnum.

Að hennar sögn hafa um 30 stórir pokar verið að skila sér á nytjamarkaðinn á dag. Það er helmingi meira en búist var við að sögn Ryder. Hún vill meina að þetta séu afleiðingar þess að speki Kondo nýtur mikilla vinsælda núna.

Hvað með Íslendinga?

Gæti verið einhver tenging við þessa tiltektarþætti.

Hvað með nytjamarkaði á Íslandi? Starfsmaður Nytjamarkaðar ABC barnahjálpar segir janúarmánuð hafa verið annasaman og að mjög margt fólk sé augljóslega að taka til á heimilinu þessa stundina. Það er þó ómögulegt að segja til um hvort tiltektarþættir Marie Kondo hafi eitthvað með málið að gera.

„Það er allt alveg stútfullt hjá okkur og það gæti verið einhver tenging við þessa tiltektarþætti. En að vísu er fólk líka að versla mikið hjá okkur og fólk vill kaupa notað í staðin fyrir nýtt. Þar koma umhverfissjónarmiðin inn í,“ segir starfsmaður nytjamarkaðar ABC.

Starfsmaður nytjamarkaðar Hertex í Garðastræti hafði einnig svipaða sögu að segja en tók fram að erfitt væri að segja til um hvort þættir Marie Kondo væru að ýta undir tiltektardugnað landsmanna.

Sjá einnig: Misbýður boðskapur Marie Kondo

Þegir eftir klukkan 10 á kvöldin

|
|

Júníus Meyvant hefur mörg járn í eldinum þessa dagana. Ný plata, Across the Borders, kemur út í dag og svo eru það tónleikar hér á landi í lok janúar og byrjun febrúar. Hann leggur síðan af stað í tónleikaferð um Evrópu í febrúar. Þá er Júníus kominn með útgefanda í Bandaríkjunum.

„Nýja platan heitir Across the Borders. Það er vísun í að við erum alltaf að leita að nýjum landamærum tengdum því sem við gerum í lífinu og síðan er þetta vísun í þá sem reyna virkilega bókstaflega að leita að nýjum landamærum til að komast á betri stað en geta það ekki. Oft erum við þannig gerð að við búum til landamæri sem er tengt mannlegu eðli. Við erum hrædd við breytingar og okkur líður vel í sama fari en maður þarf stundum að breyta til til að þroskast,“ byrjar Júníus Meyvant á að útskýra fyrir blaðamanni.
Júníus mun spila og syngja lög af nýju plötunni á tónleikum í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum og í Reykjanesbæ í lok janúar og í byrjun febrúar. „Þetta verða eiginlega allt ný lög. Síðan reyni ég alltaf að segja sögur í kringum lögin; mér finnst svo gaman að sögum og ég reyni að hafa þetta aðeins persónulegra en ella í stað þess að bara spila og syngja og hneigja mig síðan.“
Eftir það mun hann halda ásamt hljómsveit sinni til Evrópu í febrúar þar sem hann kemur fram í ýmsum löndum. „Tónleikaferðir eru þannig að ég fer þá í rosa rútínu. Þá er eins og ég fari í nokkurs konar vinnubúðir. Ég fer alltaf mjög snemma að sofa en ég passa svefninn því annars fer röddin í klessu. Ég sleppi öllu nammiáti því að nammiát fer illa með röddina og passa mig líka á að þegja eftir klukkan 10 á kvöldin. Það er ýmislegt sem ég leyfi mér ekki á tónleikaferðum.“

Júníus Meyvant gerði í vetur útgáfusamning við bandaríska útgáfufyrirtækið Glassnote Records um útgáfu nýju plötunnar í Bandaríkjunum og öðrum markaðssvæðum sem útgáfufyrirtækið leggur áherslu á. Myndir / Sigga Ella

Nýr útgáfusamningur
Júníus er á mála hjá íslenska útgáfufyrirtækinu Record Records sem sér um útgáfumál hans hér á landi og í Evrópu. Hann gerði svo í vetur útgáfusamning við bandaríska útgáfufyrirtækið Glassnote Records um útgáfu nýju plötunnar í Bandaríkjunum og öðrum markaðssvæðum sem útgáfufyrirtækið leggur áherslu á.
„Þessi samningur þýðir að við erum komin með bakhjarl inn í Bandaríkin sem er mjög erfiður markaður en við erum hjá þeim í „publishing-deildinni“ sem sér um að koma lögum mínum á framfæri í kvikmyndir og auglýsingar. Við erum einnig komin með fleiri til að vinna að mínum málum. Ég er með umboðsmann og tvö bókunarfyrirtæki (booking agencies) hér og þar en stundum þyrfti maður í rauninni 10 umboðsmenn. Þetta er allt spurning um hvern maður hefur á bak við sig. Það er hægt að vera með rosa gott efni en það gerist ekki neitt ef maður er ekki með rétt fólk. Ég er þess vegna mjög heppinn og líka það að hafa fengið samning kominn á þennan aldur, en ég er 36 ára, en það er ekki sjálfgefið því að þetta er oft „youth before talent“-veröld.“

Stóð á krossgötum
Júníus býr ásamt eiginkonu sinni, tveimur börnunum og hundinum Prinsi, sem hann kallar Skúla, í Vestmannaeyjum. „Við erum nýbúin að kaupa þar hús,“ segir Júníus en hann ólst upp í Vestmannaeyjum og vann lengi sem leiðsögumaður í ferðaþjónustufyrirtæki foreldra sinna í Eyjum.
Júníus, sem heitir annars Unnar Gísli Sigurmundsson, segist hafa valið lisamannsafnið Júníus Meyvant fyrir níu árum eða um það leyti sem sonur hans fæddist. „Ég stóð þá á krossgötum og var í hljómsveit sem hét Jack London. Ég var að fletta nafnabók, Hvað á barnið að heita?, og sá nafnið Júníus. Mér hefur alltaf þótt Meyvant vera fallegt og sterkt nafn og einhvern veginn fór þetta vel saman: Júníus Meyvant. Ég fór að hugsa um hvort ég ætti að láta son minn heita þessu nafni en ég var hins vegar löngu búinn að ákveða að láta hann heita í höfuðið á pabba mínum. Þannig varð þetta til. Ég vildi listamannsnafn sem myndi virka bæði heima og í útlöndum. Það er erfitt fyrir útlendinga að segja Unnar Gísli Sigurmundsson. Tungan fer í eitthvað flipp.“

Teygir sig út í pönk og popp

Hljómsveitin Kælan Mikla kemur fram á tónleikum á Gauknum í kvöld. Þar mun hljómsveitin meðal annars spila lög af þriðju breiðskífu sinni, Nótt eftir nótt sem er nýkomin út. Fram undan er svo tónleikaferð um Evrópu.

„Við höfum verið að spila saman síðan árið 2013. Þetta byrjaði sem hálfgert grín í ljóðakeppni á Borgarbókasafninu en síðan sprakk þetta út og við erum búnar að spila mikið eftir það,“ segir Laufey Soffía, einn þriggja hljómsveitarmeðlima Kælunnar Miklu og nefnir sem dæmi að bandið hafi spilað í fyrra í Royal Festival Hall í London, sem hafi verið svolítið stórt og svo á 40 ára afmæli The Cure í Hyde Park. Svo hafa þær ferðast frekar mikið.

„Við spilum ekki svo oft á Íslandi þannig að tónleikarnir á Gauknum í kvöld verða svolítið sérstakir,“ segir hún en á tónleikunum mun bandið meðal annars spila lög af nýju plötunni Nótt eftir nótt. Hljómsveitarmeðlimirnir þrír semja alla tónlistina sem hljómsveitin flytur. „Við höfum þróað tónlistina mikið frá upphafi. Við byrjuðum með frekar hrátt tilraunapönk en núna er þetta orðið miklu þéttara og farið að teygja sig í aðrar áttir. Þetta er svolítið drungaleg tónlist sem teygir sig meðal annars út í pönk og popp. Við erum að reyna að stækka áheyrendahópinn þannig að tónlistin nái líka betur til hvers sem er frekar en að einblína bara á eina stefnu.“

Að sögn Laufeyjar heldur hljómsveitin svo í tónleikaferð um Evrópu í lok mánaðarins og kemur víða fram í febrúar. „Við munum spila lög af nýju plötunni og svo erum við að fara að gefa út tvö tónlistarmyndbönd sem koma út á næstunni,“ segir hún en þess má geta að á Gauknum í kvöld koma einnig fram rapparinn Countess Malaise og bandaríski tónlistarmaðurinn Some Ember.

Kælan Mikla spilar á Gauknum í kvöld. Mynd / Verði ljós

„Það kom aldrei annað til greina en að gefa henni þetta frelsi“

||
Ronja Sif Magnúsdóttir.||

Ronja Sif Magnúsdóttir er átta ára lífsglöð trans stelpa sem var fullviss um sitt rétta kyn um svipað leyti og hún fór að tala. Hún fékk nýtt nafn þegar hún var fjögurra ára og hefur blómstrað síðan sem er ekki síst að þakka víðsýni foreldranna og frábærum viðtökum samfélagsins í kringum þau. Hindranirnar eru samt æði margar fyrir trans fólk og ein þeirra er þátttaka þeirra í íþróttum og sundi.

Fjölskyldan býr á sveitabæ í Flóahreppi. Faðir Ronju, Magnús Baldursson, er vélvirki hjá kælismiðjunni Frost og móðir hennar, Stefanía Ósk Benediktsdóttir, er leiðbeinandi í leikskólanum Krakkaborg. Ronja á tvö systkini, Ásdísi Evu, tólf ára, og Sölva Þór, fjögurra ára, sem er á leikskólanum Krakkaborg. Þær systur ganga í Flóaskóla og Ronja æfir frjálsar íþróttir og glímu með íþróttafélaginu Þjótanda.

„Hún æfði fimleika í fyrra með ungmennafélagi Stokkseyrar og henni hefur verið tekið vel hjá báðum félögum. Hún hefur keppt á einu litlu fimleikamóti og keppti þá með stelpunum. Hún fer í klefa með stelpunum og það gerir hún einnig í leikfimi og sundi í skólanum. Hún fer inn á salernið í klefanum til að fara í sundfötin. Henni finnst það sjálfri best. Eins og er hafa ekki komið upp nein vandamál,“ segir Stefanía og er hæstánægð með móttökurnar sem Ronja hefur fengið í samfélaginu í kringum þau.

Ronja Sif með foreldrum sínum og systkinum, Ásdísi Evu, tólf ára, og Sölva Þór, fjögurra ára. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hún segist ekki vita hvernig staðan gagnvart öðru hérlendu trans íþróttafólki sé, telur það geta verið misjafnt eftir íþróttafélögum. „En upplifun okkar með allt sem tengist Ronju hefur verið góð. Auðvitað á að koma eins fram við alla. Ég ráðlegg forsvarsfólki allra íþróttafélaga að taka trans börnum eins og þau eru, gefa þeim tækifæri á þeirra forsendum og útbúa búningsaðstöðu sem þau upplifa sig örugg í. Þetta eru bara börn. Ég hef heyrt neikvæðar sögur, til dæmis af trans stelpu sem átti ekki að fá að spila með stelpunum því hún væri svo sterklega vaxin.

Það er ósanngjarnt þegar trans fólki að neitað um þátttöku í keppnum og íþróttum

Ég á erfitt með að trúa þessu, ég meina, erum við ekki öll misjafnlega vaxin? Ætti að banna strák að keppa í fótbolta því hann væri of hávaxinn eða of lágvaxinn? Þetta þarf ekki að vera svona flókið – bara að leyfa öllum að vera eins og þeir eru og æfa íþróttir með þeim sem þá langar til. Við erum of gjörn að setja allt í einhver fyrirframákveðin hólf. Ronja stundar íþróttir sér til gamans og er ekkert endilega með einhverja atvinnumennsku í huga núna en ef hún yrði tilneydd að hætta íþróttaiðkun vegna einhverra reglugerða myndi henni auðvitað ekki líða vel. Það er ósanngjarnt þegar trans fólki að neitað um þátttöku í keppnum og íþróttum. Og varðandi til dæmis sundstaði, þar sem sundmenning er mikil hér á landi, þá er málið litlu flóknara en að bæta við unisex-klefum. Gera þannig ráð fyrir öllum,“ segir Stefanía og á þar við kynhlutlausa einstaklingsbúningsklefa sem eru sums staðar í notkun en þeir hafa til dæmis veitt trans og kynsegin fólki ákveðið skjól bæði gegn árásum og háði. Þessir klefar hafa gert sumu trans fólki, sem annars forðast sund, kleift að geta farið þangað á ný.

Við lýstum barninu okkar fyrir henni og eftir gott spjall var okkur sagt að hún væri skólabókardæmi um trans stelpu. Við ættum bara að gefa henni frelsi til að vera eins og hún vildi vera.

Frelsi og nýtt nafn eftir fræðslu

Þrjú ár eru síðan Ronja fékk frelsi til að vera stelpa en aðspurð segir Stefanía að Ronja hafi sagst vera stelpa frá því hún fór að tala að einhverju viti.

„Um þriggja til fjögurra ára aldurinn var hún farin að stelast í fötin hjá systur sinni, setti buff á höfuðið til að nota sem sítt hár og vildi nánast bara klæðast sokkabuxum og stuttbuxum því það virkaði líkt og hún væri í pilsi. Þegar hún var rúmlega fjögurra ára fórum við á fund með forsvarsfólki leikskólans sem vildi ræða hegðun hennar við okkur. Starfsfólk deildarinnar vissi ekki hvernig það átti að svara henni því hún sagðist vilja vera stelpa. Það vildi heyra hvernig við svöruðum henni og samræma þannig gerðir okkar allra. En málið var að við vissum heldur ekkert hvernig við áttum að tala við hana né hvað við áttum að segja. Við hittum sálfræðing sem benti okkur á að fá fund með Sigríði Birnu Valsdóttur, ráðgjafa hjá Samtökunum ´78, sem er sérhæfð í málefnum trans barna og -ungmenna,“ segir Stefanía og þau fengu fund með henni í lok nóvember 2015. Eftir hann gerðust hlutirnir hratt.

Strax í desember var hún farin að klæðast kjólum og milli jóla og nýárs var hún komin með nýtt nafn.

„Við lýstum barninu okkar fyrir henni og eftir gott spjall var okkur sagt að hún væri skólabókardæmi um trans stelpu. Við ættum bara að gefa henni frelsi til að vera eins og hún vildi vera. Við ættum einnig að segja öllum nákomnum frá frelsinu sem við gáfum henni. Tala við starfsfólk leikskólans og halda foreldrafund til að fræða foreldra deildarinnar. Við keyrðum heim úr bænum frekar ringluð enda vorum við ekki alveg viss um hvað trans væri. Auðvitað viljum við börnunum okkar það besta í heiminum svo það kom aldrei annað til greina en að gefa henni þetta frelsi. Eftir að hún fékk það gerðist allt rosalega hratt. Strax í desember var hún farin að klæðast kjólum og milli jóla og nýárs var hún komin með nýtt nafn.“

Gengu í gegnum sorgarferli

Með fram því að sjá stelpuna sína blómstra í nýfengnu frelsi gengu foreldrar Ronju samt sem áður í gegnum ákveðið sorgarferli sem Stefanía segir eðlilegt í þessum aðstæðum. „Fyrst fannst mér ég eiginlega ekki mega vera sorgmædd því Ronja var miklu hamingjusamari og við höfðum í raun ekkert misst. Hluti af fræðslunni sem við fengum hjá Samtökunum ´78 var að sorgarferlið væri eðlilegt og við ættum að leyfa okkur að fara í gegnum það. Við vorum komin með framtíðarsýn af strák sem á stuttum tíma var orðin stelpa.“

Eins og fyrr segir tók samfélagið breytingunni vel strax frá byrjun. Leikskólinn breytti nafninu strax í tölvukerfinu, breytti öllum merkingum á hólfum og skúffum. Það sama má segja þegar Ronja byrjaði í skóla – nafninu var breytt áður skólaárið hófst og fræðsla var haldin fyrir starfsfólkið.

„Þar sem lögin banna Þjóðskrá að breyta nafni milli kynja fyrr en kynleiðréttingarferli er komið ákveðið langt á veg verðum við að semja við hverja stofnun fyrir sig um nafnabreytingu. Heilsugæslustöðin hefur til dæmis einnig breytt nafninu í kerfinu þeirra fyrir Ronju. Ég veit ekki hvað liggur að baki þessum lögum en þannig er staðan og ekkert sem við getum gert að svo stöddu. Okkur finnst þetta mjög leiðinlegt, það hlýtur að vera hægt að leyfa nafnabreytingu milli kynja með einhverjum skilyrðum, einhverjum reglum um að fólk geri þetta ekki endalaust fram og til baka. Það er ekki gaman fyrir þessa einstaklinga að fara til dæmis inn á heilbrigðisstofnun og vera kallaðir upp með sínu gamla nafni, hvað þá að þurfa að hafa sitt gamla nafn í skilríkjum á borð við vegabréf. Það er einfaldlega bara sárt fyrir þá,“ segir Stefanía.

Þegar Ronja fer að komast á kynþroskaaldurinn þarf hún að fá tíma hjá BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítalans) og hitta geðlækni til að fá samþykki fyrir „blockerum“, eins og það kallast, sem stoppar kynþroskann hennar. „Hún má ekki fara í neina aðgerð fyrr en hún er orðin sjálfráða og því alveg tíu ár í að hún megi breyta nafninu sínu í Þjóðskrá. Sem er virkilega langur tími. Þangað til er það undir náð og miskunn skólayfirvalda, hvort hún verður kölluð Ronja í sínum skólum í framtíðinni eða ekki. Til dæmis var hræðilegt að heyra um þegar skólayfirvöld í Menntaskólaum við Sund neituðu að breyta nafni trans stráksins Dalvins Smára Imsland í kerfi sínu. Einstaklingar sem vinna á svona stofnunum ættu ekki að láta fordóma bitna á aðilum sem eru ekki innan rammans.“

„Og varðandi til dæmis sundstaði, þar sem sundmenning er mikil hér á landi, þá er málið litlu flóknara en að bæta við unisex-klefum. Gera þannig ráð fyrir öllum.“

Svarar fullum hálsi

Stefanía segir að þau hafi lært mikið á þessum fjórum árum, mest hjá Hugrúnu Vignisdóttur sálfræðingi og Sigríði Birnu hjá Samtökunum ´78 sem hafi verið ómetanlegar í þessu ferli. Einnig þótti þeim afar fróðlegt að sækja ráðstefnuna Undir regnboganum, ráðstefnu um málefni trans barna á Íslandi sem haldið var í Iðnó í mars á síðasta ári. „Þar fengum við að heyra í foreldrum ungrar trans stelpu. Það er alltaf gott að vita að maður er ekki einn í svona stöðu. Einnig heyrðum við sögu ungra trans einstaklinga. Þau voru virkilega hugrökk að standa fyrir framan fullan sal af fólki og segja sína sögu.“

Flestir ættingjar og vinir fjölskyldunnar brugðust vel við frelsi Ronju þótt sumir hafi tekið fréttunum með tortryggni í fyrstu. „Flestir tóku þessu vel og Ronja veitti því litla eftirtekt að einhverjir væru ósáttir, ef svo má að orði komast. En ef hún var einhvern tímann kölluð strákur svaraði hún fullum hálsi að hún væri stelpa. Stóra systir Ronju, Ásdís Eva, tók þessu ótrúlega vel. Það eina sem truflaði hana í þessu öllu voru áhyggjur af því að Ronju yrði strítt. Ronja hefur alveg lent í einhverjum árekstrum í skólanum en þá fengum við góð ráð hjá Hugrúnu. Hún lét okkur kenna Ronju hvernig væri best að tækla þegar börn rifja upp að hún hafi verið strákur. Ronja ræður þá hvort hún vilji svara eða segja að hún vilji ekki ræða þetta.

Foreldrar mínir voru ekki sátt fyrst þegar við létum þau vita af frelsinu sem við gáfum Ronju. Þeim fannst við ýta undir þetta og við lentum í smárifrildi sem varð til þess að engin samskipti urðu okkar á milli í níu mánuði. Þá veiktist mamma, fékk krabbamein í háls, og fór í bráðaaðgerð. Eftir erfitt bataferli var hún komin með ventil til að geta tjáð sig. Þarna áttuðum við okkur á að lífið væri of dýrmætt til að eyða því í einhverja fýlu. Foreldrar mínir fóru að taka Ronju eins og hún er og allt hefur verið gott milli okkar síðan. En það fannst svo aftur krabbamein hjá mömmu síðasta vor og hún tapaði þeirri baráttu 14. ágúst 2018.“

Ronja Sif fékk nýtt nafn þegar hún var fjögurra ára og hefur blómstrað síðan. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Flóahreppur frábær

Þau hjónin hafa bjarta framtíðarsýn fyrir Ronju. „Trans börn eru bara eins og öll önnur börn. Þrátt fyrir að ýmsar hindranir geti orðið í veginum sjáum við framtíð Ronju í björtu ljósi. Vissulega höfum við einhverjar áhyggjur eins og eðlilegt er að foreldrar hafi af börnum sínum en ekkert endilega meiri áhyggjur af Ronju en af hinum börnunum okkar. Munu þau verða fyrir einelti? Hvernig mun þeim ganga í skóla? Og svo framvegis. Við sjáum einstaklega skapandi og frjálsa stelpu sem fer sínar eigin leiðir í lífinu. Hún er virkilega sterk og ekkert stoppar hana í að verða sú mannekja sem hún vill verða.

Með því að vera opin um málefnið vonumst við til að geta frætt aðra.

Við hjónin erum afskapalega ánægð með samfélagið sem við búum í. Flóahreppur er lítið samfélag og ég held að það sé ástæðan fyrir því að henni var tekið svona vel. Það eru allir vinir og félagar hérna. Ég tel að öll fræðsla sé góð. Fordómar eru ekkert annað en fáfræði. Við höfum alltaf verið opin með ferlið sem við gengum í gegnum með Ronju og vonandi hjálpar það öðrum foreldrum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við tjáum okkur opinberlega. Við höfum einnig sagt sögu okkar á fræðslufundum Hugrúnar Vignisdóttur og hitt aðra foreldra í sömu stöðu. Með því að vera opin um málefnið vonumst við til að geta frætt aðra. Umræðan og fræðslan er orðin meiri í dag og fólk því opnara fyrir öllum einstaklingum hvort sem þeir eru trans, samkynhneigðir eða eitthvað annað. Við vitum ekki hvernig Ronju hefði verið tekið fyrir til dæmis 20 árum síðan. Sjálf tökum við bara einn dag í einu og vinnum úr þeim verkefnum sem koma upp, þegar þau koma upp og höfum því litlar áhyggjur af framtíðinni. Vonandi verður fólk orðið enn fróðara um trans og hnökrarnir færri þegar Ronja verður orðin eldri. Við höfum upplifað afar fátt neikvætt eða leiðinlegt gagnvart henni Ronju Sif og fyrir það erum við þakklát.“

„Gagnrýnin gekk nærri mér“

Margir þekkja Guðríði Torfadóttur, Gurrý, úr þáttunum geysivinsælu Biggest Loser. Hún segir óvægna gagnrýni í tengslum við þáttinn hafa vissulega tekið á en hennar eina markmið hafi alltaf verið að hjálpa öðrum í átt að betri heilsu.

Gurrý byrjaði upprunalega að æfa, átján ára gömul, til að létta sig eftir fyrstu meðgöngu hennar. Hún hefur stundað Bootcampt, Crossfit, jóga, lyftingar og flest það sem er í boði í heilsurækt. Hún hefur til dæmis nýlokið handstöðunámskeiði. Hún segir fjölbreytnina hafa haldið sér við efnið og þess vegna sé hún enn þá að, tuttugu og einu ári seinna.

Gurrí er með B.S.-gráðu í viðskiptafræði en þegar henni lauk fór hún beint í ÍAK-einkaþjálfaranám hjá Keili. Þar að auki er hún með jógakennararéttindi.

Hún vann með háskólanámi í Baðhúsinu við að þjálfa og ætlaði að stunda það sem áhugamál en fann fljótt að sig langaði að sameina áhugamálið og starfsvettvang. Þegar hún fékk vinnu hjá Sportmönnum við að sjá um Reebok-vörumerkið segist hún hafa fundið hilluna sína. Á þessum tíma opnaði Reebok-fitness heilsuræktarstöð og hún naut þess að kenna þar samhliða því að vera framkvæmdastjóri fyrirtækisins í fjögur ár.

Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt og þannig þrífst ég best.

Gurrý sagði skilið við Reebok í fyrrahaust og fór aftur í upprunann, í  einkaþjálfun og að kenna fólki í gegnum fjarþálfunina, gurry.is.

„Ég íhugaði vel hvað ég vildi fara að vinna við og fann að ég þurfti að fara að gera eitthvað annað og læra nýja hluti. Í haust byrjaði ég að vinna hjá Heilsuhúsinu en þar sameinast aftur áhugi minn á heilsu og þörfin fyrir að vera í sölu- og markaðsmálum. Þar hefur líka opnast fyrir mér nýr heimur í fæðubótarefnum en bætiefni og vítamín hafa þróast rosalega og ég hafði ekki hugmynd um hvað það er til mikið af góðum bætiefnum sem geta hjálpað til með hollu mataræði. Þannig að ég er alltaf að læra eitthvað nýtt og þannig þrífst ég best,“ segir Gurrý.

Óvægin gagnrýni

Talið berst að Biggest Loser þar sem Gurrý var ein tveggja þjálfara. Þættirnir fóru ekki varhluta af gagnrýni og Gurrý fékk að finna fyrir henni. Hún segir samt sem áður þættina hafa verið eitt af skemmtilegri verkefnum sem hún hefur tekið þátt í.

Sumir halda ég sé svo mikill nagli og meira að segja nánir vinir höfðu aldrei áhyggjur en ég er mannleg.

„Starfsfólkið hjá SagaFilm og keppendur gerðu þetta að mögnuðu verkefni sem  ég er mjög þakklát fyrir að fá að hafa fengið að vera með í. Það er líka draumur að fá að vinna með fólki sem er komið til að vinna 100% í sér og er tilbúið til að taka sér frí frá vinnu, yfirgefa fjölskyldu og vini og taka þetta alla leið. Þó svo að öllum hafi ekki tekist það þá eru þetta hetjur sem ég ber mikla virðingu fyrir. Það að opna líf sitt og erfiðleika sína fyrir alþjóð er ekki fyrir hvern sem er og það sem er best við þetta er að Biggest Loser var alveg raunverulegt og ekkert leikið. Svona er þetta. Svo fannst mér allt í kringum sjónvarpsvinnuna mjög skemmtilegt og gæti alveg hugsað mér að vinna aftur í sjónvarpi.“

En var ekki erfitt að sitja undir gagnrýnisröddum?

„Ef ég hefði verið spurð að þessu fyrir tveimur árum þá hefði ég sagt nei en gagnrýnin og umtalið var mikið í síðustu seríu og jú það var mjög erfitt og gekk nærri mér ef ég á að vera alveg heiðarleg í svari. Sumir halda ég sé svo mikill nagli og meira að segja nánir vinir höfðu aldrei áhyggjur en ég er mannleg og þegar gagnrýni er orðin að persónulegum árásum þá er ekki hægt annað en að verða fyrir áhrifum á neikvæðan hátt.

Sumar gagnrýnisraddir voru ekki málefnalegar á meðan aðrar voru það.

Fólk má hafa skoðanir og ég virði það og Biggest Loser er umdeilt sem ég skil líka en sumar gagnrýnisraddir voru ekki málefnalegar á meðan aðrar voru það. Ég tók þátt í Biggest Loser af einni ástæðu sem var að hjálpa fólki og ég sé ekki eftir neinu og myndi gera þetta allt aftur.“

Að borða hreinan mat og skipuleggja sig er lykill að árangri

Við spyrjum hvað hún ráðleggur fólki að gera til að koma sér af til þess að lifa heilbrigðara líferni?

„Mitt besta ráð er að skipuleggja sig vel og ákveða æfingatímann og helst hafa hann alltaf á sama tíma.“ Hún segir helstu mistökin vera að fólk ætli sér of mikið í einu og það endi oft ekki vel.
„Ég hef séð fólk ná góðum árangri með því að æfa tvisvar sinnum í viku. Hugsaðu þetta þannig að þú planar æfingarnar svo að þú komist alltaf, hlakkir til og þetta sé ekki kvöð. Það er betra að skipuleggja tvær góðar æfingar í viku og mæta alltaf en að plana fjórum sinnum í viku og enda með því að skrópa eða komast ekki og þannig fá samviskubit eða einfaldlega gefast upp.

Maturinn er svo stór partur af þessu og ég er alltaf að komast betur og betur að því að því einfaldara sem markmið er, því betra. Taktu út gos í fjórar vikur og sjáðu hvað gerist, settu svo markmið að borða grænmeti í öll mál, hvað gerist þá o.s.frv.

Viðtalið við Gurrí er að finna í þriðja tölublaði Vikunnar.

Ef þú ætlar að græja þetta allt í einu, skrá þig í ketó, æfa sex sinnum í viku, henda öllu út – sykri, mjólkurvörum, hveiti og ég veit ekki hvað og hvað þá þori ég að veðja þetta dugar í nokkrar vikur eða mesta lagi í nokkra mánuði. Eitt sem mér finnst líka mikilvægt að benda á er að það þarf að halda helgardögunum líka eðlilegum. Það virkar ekki neitt að vera harður við sig í fimm daga og leyfa sér svo allt í tvo. Þá er betra að halda tempói og prófa líka að tyggja matinn í botn, það eitt og sér svínvirkar,“ segir Gurrý í viðtali við Vikuna

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Amanda Knox fær bætur frá ítalska ríkinu

Í dag komst Mannréttindadómsstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að ítalska ríkið braut gegn Amöndu Knox.

Mannréttindadómsstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að að Ítalska ríkið hafi brotið á hinni bandarísku Amöndu Knox í máli hennar. Knox var ásamt kærasta sínum, Raffaela Silicito, fundin sek um morð á meðleigjanda sínum, Meredith Kercher, árið 2007.

Knox og Silicito voru þá sýknuð árið 2011. Sumarið 2013 ákvað hæstiréttur Ítalíu að rétta í málinu á ný og voru þau Knox og Silicito fundin sek á ný. Bæði voru þau þá sýknuð af morðinu í annað sinn árið 2015. Þau héldu alltaf fram sakleysi sínu.

Knox stefndi ítalska ríkinu fyrir mannréttindadómstól Evrópu árið 2016 en hún hefur alltaf haldið því fram að hún hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð í ítalska réttarkerfinu. Knox, sem stundaði nám á Ítalíu árið 2007, var yfirheyrð í marga klukkutíma á ítölsku án túlks vegna morðsins á Kercher. Þá var henni ekki útvegaður lögfræðingur fyrr en eftir yfirheyrslur. Knox hefur einnig haldið því fram að hún hafi verið beitt ofbeldi á meðan á yfirheyrslum stóð.

Málið vakti mikla athygli og hafa Netflix-þættir um málið til að mynda notið mikilla vinsælda síðan þeir komu út árið 2016.

Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi í dag ítalska ríkið til að greiða Knox rúmar 18.000 evrur í skaðabætur vegna óréttlátrar málsmeðferðar.

Birtir fótósjoppaðar myndir af sér á samfélagsmiðlum

|
|

Donald Trump hefur undanfarið birt nokkrar ljósmyndir af sér á samfélagsmiðlum sem vakið hafa athygli vegna þess að þeim virðist hafa verið breytt með myndvinnsluforritum.

Undanfarna mánuði hafa ýmis myndræn skilaboð frá Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, verið áberandi á Facebook og Twitter-síðum hans en það sem hefur vakið athygli margra er að myndirnar af Trump virðast vera fótósjoppaðar. Blaðamaður Gizmodo vekur til að mynda athygli á þessu í ítarlegri grein.

Ef myndirnar sem um ræðir eru grandskoðaðar má sjá að þeim hefur verið breytt lítillega í myndvinnsluforritum til að láta forsetann líta út fyrir að vera grennri og frísklegri en hann er. Þá hefur húðlit hans einnig verið breytt í sumum tilfellum en mikið grín hefur verið gert að forsetanum í gegnum tíðina vegna notkunnar hans á brúnkukremi. Í grein blaðamanns Gizmodo má þá sjá upprunalegu myndirnar við hlið þeirra fótósjoppuðu til samanburðar.

„Myndin lítur út fyrir að vera nokkuð eðlileg við fyrstu sín. En um leið og þú berð hana saman við þá upprunalegu, sem er hægt að nálgast á Flickr-síðu Hvíta hússins, þá getur þú séð hverju hefur verið breytt,“ skrifar blaðamaður Gizmodo við um eina myndina. „Og undarlegasta breytingin er sú að fingur Trumps hefur verið lengdur örlítið. Í alvöru,“ bætir hann við.

Samanburð á nokkrum ljósmyndum af Trump má sjá á vef Gizmodo.

„Vorum ekki viss um hvað trans væri“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Ronja Sif Magnúsdóttir er átta ára lífsglöð trans stelpa sem var fullviss um sitt rétta kyn um svipað leyti og hún fór að tala. Hún fékk nýtt nafn þegar hún var fjögurra ára og hefur blómstrað síðan sem er ekki síst að þakka víðsýni foreldranna og frábærum viðtökum samfélagsins í kringum þau.

„Um þriggja til fjögurra ára aldurinn var Ronja farin að stelast í fötin hjá systur sinni, setti buff á höfuðið til að nota sem sítt hár og vildi nánast bara klæðast sokkabuxum og stuttbuxum því það virkaði líkt og hún væri í pilsi,“ segir Stefanía Ósk Benediktsdóttir, móðir Ronju.

„Þegar hún var rúmlega fjögurra ára fórum við á fund með forsvarsfólki leikskólans sem vildi ræða hegðun hennar við okkur. Starfsfólk deildarinnar vissi ekki hvernig það átti að svara henni því hún sagðist vilja vera stelpa. Það vildi heyra hvernig við svöruðum henni og samræma þannig gerðir okkar allra. En málið var að við vissum heldur ekkert hvernig við áttum að tala við hana né hvað við áttum að segja. Við hittum sálfræðing sem benti okkur á að fá fund með Sigríði Birnu Valsdóttur, ráðgjafa hjá Samtökunum ´78, sem er sérhæfð í málefnum trans barna og ungmenna,“ segir Stefanía og þau fengu fund með henni í lok nóvember 2015.

Eftir hann gerðust hlutirnir hratt. „Við lýstum barninu okkar fyrir henni og eftir gott spjall var okkur sagt að hún væri skólabókardæmi um trans stelpu. Við ættum bara að gefa henni frelsi til að vera eins og hún vildi vera. Við ættum einnig að segja öllum nákomnum frá frelsinu sem við gáfum henni. Tala við starfsfólk leikskólans og halda foreldrafund til að fræða foreldra deildarinnar. Við keyrðum heim úr bænum frekar ringluð enda vorum við ekki alveg viss um hvað trans væri.

Við keyrðum heim úr bænum frekar ringluð enda vorum við ekki alveg viss um hvað trans væri.

Auðvitað viljum við börnunum okkar það besta í heiminum svo það kom aldrei annað til greina en að gefa henni þetta frelsi. Eftir að hún fékk það gerðist allt rosalega hratt. Strax í desember var hún farin að klæðast kjólum og milli jóla og nýárs var hún komin með nýtt nafn.“

Samfélagið í Flóahreppi hefur tekið Ronju frábærlega og ekki síst íþróttafélögin á svæðinu sem hafa ekki hikað við að leyfa henni að æfa og keppa með stelpunum. Ítarlegt viðtal er við móður Ronju, Stefaníu Ósk, í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Tekur einn dag í einu

Steinunn Stefánsdóttir hætti sem aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins 2013 í kjölfar breytinga á yfirstjórn blaðsins. Þremur árum seinna varð hún ekkja og í framhaldi af því tók hún líf sitt til endurskoðunar. Í dag er hún lausráðin við skriftir og þýðingar með frábærum árangri því á dögunum hlaut hún Fjöruverðlaunin fyrir bókina Þjáningarfrelsið.

Steinunn er stödd í lest á Eyrarsundsbrúnni þegar blaðamaður hefur samband við hana en hún segist vera mikill flakkari og njóta sín best ef hún er á ferðinni. Hún er þó ekki flutt úr landi eins og svo margir, heldur er hún að heimsækja dætur sínar sem búa í Kaupmannahöfn og Lundi.

„Ég er mikið á flakki, já,“ segir hún og hlær. „Á síðasta ári reiknast mér til að ég hafi verið í burtu að heiman einn þriðja af árinu Það helgast að sumu leyti af því að í sumar sem leið starfaði ég sem landvörður. Eitt af ævintýrum ársins 2018 var að taka námskeið í landvörslu og starfa sem slíkur á vestursvæði Vatnajökulsstöðvar í framhaldi af því, aðallega á Kirkjubæjarklaustri en einnig í Lakagígum og fannst það ekki lítið töff að vera trúað fyrir einni helstu náttúruperlu landsins.“

Eitt af ævintýrum ársins 2018 var að taka námskeið í landvörslu og starfa sem slíkur á vestursvæði Vatnajökulsstöðva.

Spurð hvort hún sé sem sagt alveg búin að gefast upp á fjölmiðlunum tekur Steinunn sér örlitla umhugsunarpásu áður en hún svarar.

„Ég myndi ekki segja gefast upp, það er bara komið nýtt tímabil í líf mitt,“ segir hún.

„Ég vil alls ekki kalla það uppgjöf. Ég er flakkari í eðli mínu og allt líf mitt hefur verið í tímabilum, ekki síst varðandi störf. Og þótt fjölmiðlatímabilið sé lengsta tímabilið sem eftir mig liggur þá nær það ekki fimmtán árum. Ég byrjaði á DV árið 2000 og hætti á Fréttablaðinu í mars 2013 svo þú sérð að þetta er ekki stór hluti af starfsævinni.“

Eins og sést af þessu voru árin 2013-2016 frekar sviptingasöm í lífi Steinunnar en hún segir þó viðskilnaðinn við Fréttablaðið í kjölfar þess að Mikael Torfason var ráðinn inn sem ritstjóri við hlið Ólafs Stephensen og hennar starf þar með gert óþarft, að hennar mati ekki hafa verið mikið áfall – þó.

Þegar þetta gerðist allt saman þá áttaði ég mig á því að ég var rosalega vel undirbúin fyrir nákvæmlega þetta ferli, var í rauninni búin að skrifa handritið í huganum löngu áður.

„Já og nei,“ segir hún og dregur örlítið við sig svarið. „Ég vissi í raun og veru allan tímann að þetta myndi enda einhvern veginn svona. Umhverfið í þessum heimi er svo sviptingasamt. Ég hafði auðvitað ekki hugmynd um að það yrði Mikael sem kæmi inn, það gat verið hver sem er, og það gat líka alveg eins verið að yfirstjórnin tæki allt í einu þá ákvörðun að hún nennti ekki lengur að hafa mig. Þegar þetta gerðist allt saman þá áttaði ég mig á því að ég var rosalega vel undirbúin fyrir nákvæmlega þetta ferli, var í rauninni búin að skrifa handritið í huganum löngu áður.“

Steinunn prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Vikunnar.

En breytingum á högum Steinunnar var ekki þar með lokið, sumarið 2016 lést eiginmaður hennar Arthur Morthens skyndilega þegar þau voru í sumarfríi í Danmörku. Hann hafði átt við veikindi að stríða lengi en engu að síður var fráfall hans óvænt. Steinunn talar nánar um fráfall hans í forsíðuviðtali við Vikuna en hún hlaut Fjöruverðlaunin nýlega og er auk þess tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunna.

Hvað er fleira á döfinni hjá henni?

„Það er svo sem ekkert sérstakt á döfinni,“ segir Steinunn hugsi. „Ég stefni enn þá að því að klára lokaritgerðina í þýðingarfræðinni og vona að ég finni tíma í það fljótlega. Annars er ég bara opin fyrir öllu. Einu föstu verkefnin sem ég er með núna eru þýðingar fyrir vefsíðu Norðurlandaráðs og pistlaskrif fyrir Mannlíf og ég sækist ekki eftir fleiri verkefnum, þau koma til mín óbeðin og ég segi yfirleitt já þegar ég er beðin að taka eitthvað að mér. Annars er ég bara í því að bregðast við þegar eitthvað skemmtilegt stendur til boða. Ég tek lífið svolítið svona einn dag í einu núorðið, mér finnst þetta allt saman bara svo óskaplega skemmtilegt.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

Spegill á samfélagið og okkur sjálf

Alexandra Briem, varaborgarfulltrúi Pírata í Reykjavík, segist lesa mikið af vísindaskáldskap og þá ekki hasarsins vegna þótt vissulega geti hann verið skemmtilegur heldur aðallega vegna þeirra áleitnu spurninga sem slíkar bókmenntir velta upp. Þetta séu þær bækur sem hafi yfirleitt mest áhrif á hana.

„Einn helsti styrkleiki bókmennta er að leyfa okkur að setja okkur í spor annarra og upplifa aðstæður sem eru okkur e.t.v. alla jafna framandi og vísindaskáldskapur er kannski sú bókmenntagrein sem gengur hvað lengst í því,“ útskýrir hún.

„Hann notar ýktar og jafnvel fjarstæðukenndar aðstæður til að afhjúpa siðferðisleg álitamál, aðstæður sem gegna því hlutverki að skilja hismið frá kjarnanum og er, þegar best lætur spegill á samfélagið og okkur sjálf. Fyrir mig sem lesanda er mjög mikilvægt hvernig slíkur skáldskapur fær mann oft til að hugleiða hvað sé rétt og hvað sé rangt með því að velta upp allskyns áleitnum spurningum og hvernig hann getur styrkt mann í eigin sannfæringu eða jafnvel fengið mann til að skipta algjörlega um skoðun á einhverju. Lesturinn verður þá um leið hálfgerð sjálfsskoðun mér finnst skipta máli.“

Spurð um hvaða bækur séu áhrifaríkastar nefnir hún bókaflokkinn Menningin (Culture) eftir Iain M. Banks. Hann sé efstur á lista fyrir utan dæmigerðar bækur eins og Handbók puttaferðalangsins um Vetrarbraut-ina (Hitchhikers Galaxy through the Galaxy).

„Þetta eru flóknar bækur sem lýsa samfélagi sem er svo miklu þróaðra en það sem við þekkjum að meira að segja áhöfnin á Enterprise virðist vera hálfgerðir steinaldarmenn í samanburði,“ lýsir hún.

Hvenær má svo grípa inn í náttúrulega þróun annarra samfélaga?

„Í bókunum hefur mannfólkið sest að í flennistórum hringlaga byggingum og býr við gríðarlegt sjálfstæði í einkalífinu, sem sést m.a. af því hvernig það getur skipt um kyn og aldur og jafnvel búið í algjörum sýndarveruleika á meðan nánast öllu samfélaginu er stýrt af gervigreindum, sem takmarkar aftur áhrif fólks í samfélaginu. Þarna er því verið að velta upp alls konar áhugaverðum spurningum eins og t.d. hversu réttlætanlegt það sé að setja stjórnina í hendur gervigreindar, ef það rænir okkur möguleikanum á frumkvæði og vexti?

Og ef það er þannig að fólk hefur frelsi í eigin lífi en möguleikarnir til að láta til sín taka eru fáir, er það líf þá mikils virði? Hvenær má svo grípa inn í náttúrulega þróun annarra samfélaga? Hvert er lokamarkmið siðmenningarinnar? Og svo framvegis. Þannig að bæði er verið að skoða framsæknar og jákvæðar hugmyndir í þessum bókaflokki eftir Banks en líka hætturnar sem geta fylgt þeim.“ Alexandra kveðst eindregið mæla með honum.

Bragðgóð blómkálsbaka

Kjöt og íslenskt grænmeti *** Local Caption *** allt í einu fati
Kjöt og íslenskt grænmeti *** Local Caption *** allt í einu fati

Þegar hráefnið er fyrsta flokks er óþarfi að flækja hlutina mikið, yfirleitt er það einfaldasta best. Fátt jafnast á til dæmis á við ferkst grænmeti eins og sannast hér þar sem uppskrift er gefin að blómkálsböku frá Persíu.

Blómkálsbaka frá Persíu
fyrir 2-3

3 msk. olía
½ rauðlaukur, sneiddur
2 hvítlauksgeirar
1 lítið blómkálshöfuð, hlutað niður í munnbita
1 tsk. kummin
½ tsk. paprikuduft
¼ tsk. túrmerik
5-6 egg (fer eftir stærð)
1 msk. hveiti
1 dl mjólk
½ dl rifinn parmesanostur

Steikið lauk og hvítlauk í olíu þar til laukurinn fer að mýkjast. Bætið blómkáli á pönnuna og steikið áfram í 5-8 mín. Setjið krydd út í og látið steikjast í 1-2 mín.

Blandið eggjum, hveiti, mjólk og osti saman í skál og hellið þessu yfir blómkálið. Lækkið hitann og látið þetta eldast í rólegheitum þar til eggin eru stíf. Flýta má ferlinu með því að stinga pönnunni inn í heitan ofn eða undir grill.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir og Sigríður Björk Bragadóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Tískutrend sem mættu hverfa á braut

Viss tískutrend sem mega gjarnan vera skilin eftir árið 2018 að mati undirritaðrar. Hér er listi yfir það sem mætti kveðja á þessu ári.

Pínulítil næntís-sólgleraugu mega gjarnan verða skilin eftir árið 2018. Ofurfyrirsætan Bella Hadid nær ekki einu sinni að „púlla“ þau og þá er nú mikið sagt.
Þær konur sem ólust upp á tíunda áratugnum hefði aldrei grunað að hjólabuxurnar svokölluðu yrðu tískutrend ársins 2018. Við munum aldrei skilja það.
Gallabuxnatískan var stórfurðuleg á síðasta ári og því rifnari og tættari, því betra. Við skiljum við þetta ósmekklega trend og sjáum það vonandi ekki aftur.
Útvíðar gallabuxur. Hugsanlega kúl á áttunda áratugnum, mögulega í lagi á þeim tíunda en ekki einu sinni Victoria Beckham getur sannfært okkur um að klæðast bootcut-sniði í dag.
Rándýru tískuvörumerkin á borð við Gucci komu á markað með loðfóðraða loafers-skó á árinu. Segjum bless við þá á nýju ári. Loafers mega lifa en ekki með ópraktísku loðfóðri sem hentar slabbveðri sérlega illa.
Síðustu árin hefur tískubransinn og innanhússhönnunarheimurinn verið gegnsýrður af svokölluðum millenial-pink eða fölbleika litnum. Við erum persónulega búnar að fá nóg í bili.
Rándýrir, klunnalegir og logo-merktir strigaskór hafa fengið nægan tíma í sviðsljósinu. Hver er til í að borga rúmar áttatíu þúsund krónur fyrir ljóta strigaskó? Ekki við.
Við sem héldum að mittistöskur kæmu aldrei aftur, en vá, hvað okkur skjátlaðist. Nú er nóg komið.
Hönnunartöskur úr plasti eru bara vitleysa og við tökum ekki þátt í henni.
Neon-litir höfðu betur mátt halda sig í kringum aldamótin. Kim Kardashian nær ekki einu sinni að selja okkur að þetta sé smart.
Svokallaðir chokerar eða mellubönd fengu uppreist æru á síðustu tveimur árum. Við erum ekki þar í liði.

Dóttir fjöldamorðingja: „Þú vilt ekki trúa að þetta sé satt“

|
|

Dóttir BTK-morðingjans svokallaða hefur nú skrifað bók um upplifun sína í kringum mál föður síns sem myrti tíu manns á árunum 1974 til 1991.

Margir muna eflaust eftir máli Bandaríkjamannsins Dennis Rader sem játaði í júní árið 2005 að hafa myrt tíu manns. Morðin framdi hann á árunum 1974 til 1991 í Wichita í Kansasríki. Dennis Rader var kallaður BTK morðinginn en BTK stendur fyrir „bind, torture, kill“ – fjötra, pynta, drepa, en flest fórnarlömbin kyrkti hann. Fjallað var mikið um mál Rader í fjölmiðlum.

Rader fékk tíu samfellda lífstíðardóma án möguleika á reynslulausn en dauðarefsing var ekki heimil í Kansasríki á þeim tíma sem hann hlaut dóm.

Bókin A Serial Killer‘s Daughter kemur út í lok janúar.

Dóttir Rader, Kerri Rawson, var 26 ára árið 2005 þegar hún komst að leyndarmáli föður síns – að hann væri fjöldamorðingi. Hún segir sögu sína í nýrri bók,  A Serial Killer‘s Daughter.

Í bókinni lýsir hún hryllingnum og reiðinni sem hún upplifði í bland við það að þykja ennþá vænt um föður sinn. Í bókinni fjallar hún einnig um hvaða afleiðingar málið hefur haft fyrir alla fjölskyldu hennar. Rawson segir að það hafi tekið hana rúm tíu ár áður en hún gat talað um málið upphátt.

Í viðtali við ABC news lýsir hún stundinni þegar fulltrúi frá FBI bankaði upp á hjá henni til að gera húsleit og tilkynnti henni í leiðinni að faðir hennar væri BTK-morðinginn sem hún hafði heyrt um og lesið um í fjölmiðlum.

Ég reyndi nánast að hylma yfir með honum.

„Ég þurfti að styðja mig við vegginn. Herbergið hringsnerist og ég sagði við lögregluna: „það er að líða yfir mig“. Það var verið að spyrja mig ýmissa spurninga um föður minn, um fjarvistir og fleira…og ég reyndi nánast að hylma yfir með honum. Þú villt ekki trúa að þetta sé satt. Að pabbi þinn sé fær um að gera þetta.“

Þess má geta að bók Rawson er væntanleg 29. janúar.

Fimm leiðir til að láta ferilskrána þína vekja athygli

Það er nauðsynlegt að vanda til verka þegar sótt er um draumastarfið og flott ferilskrá spilar þá afar stórt hlutverk að sögn hönnuðarins Birgittu Rúnar Sveinbjörnsdóttur.

Hönnuðurinn Birgitta Rún Sveinbjörnsdóttir hjá Bold CV segir afar mikilvægt að hafa góða og fallega ferilskrá þegar sótt er um draumastarfið. Hjá Bold CV sérhæfir Birgitta sig í að hjálpa fólki að gera vandaðar ferilskrár sem skera sig úr öðrum ferilskrám í umsóknarferlinu.

„Með eftirtektaverðri ferilskrá eykur fólk líkurnar á að fá atvinnuviðtal,“ segir hún.

„Ferilskráin er „first impression“ af þér sem mögulegum starfsmanni. Flott framsetning sem sker sig úr sýnir fyrst og fremst metnað fyrir að vilja koma vel fram en einnig ákveðið hugrekki í að þora að vera aðeins öðruvísi en aðrir,“ segir Birgitta.

Ég hef fengið reynslumikið og flott fólk til mín sem hefur verið að leita að starfi lengi en sáu svo að það var eitthvað ekki að virka.

„Þó að reynslan skipti mestu máli þá getur flott útlit og góð framsetning gert ákveðna reynslu meira áberandi en aðra. Ég hef fengið reynslumikið og flott fólk til mín sem hefur verið að leita að starfi lengi en sáu svo að það var eitthvað ekki að virka. Með öðruvísi ferilskrá sem skar sig úr meðal annarra urðu atvinnuviðtölin mun fleiri.“

Birgitta mælir með að fólk stígi út fyrir kassann þegar kemur að atvinnuumsóknum.

„Ferilskrár eru enn þann dag í dag mjög staðlaðar og útlitið í takt við það. En margt fólk er þó að átta sig á öðrum möguleikum og þorir að „branda“ sjálfan sig almennilega.“

Meðfylgjandi eru fimm ráð frá Birgittu um hvernig hægt er að tryggja að ferilskráin þín veki athygli.

Gerðu reynsluna myndræna ef hægt er

Sýndu reynslu í einhvers konar stjörnugjöf eða prósentugjöf. Hversu fær ertu í tölvuforritum á skalanum 1 – 5 sem dæmi?

Notaðu punkta í staðinn fyrir samfelldan texta

Atvinnuveitandinn skimar yfir ferilskrána og er fljótari að fara yfir hana ef hún er skýr og með stuttum setningum.

Notaðu liti og form

Litir geta gefið vinnuveitandanum ákveðna tilfinningu. Ferilskráin verður eftirminnilegri fyrir vikið og oft skemmtilegri yfirlestrar.

Reyndu að halda þig við eina blaðsíðu

Hægt er að skipta einni blaðsíðu upp í nokkra hluta þannig að margra ára reynsla komist fyrir en fái að njóta sín á sama tíma.

Hafðu starfstitilinn sýnilegan

Starfstitillinn skiptir oft meira máli en fyrirtækið sem þú vannst hjá. Vinnuveitandinn vill fá að vita hvaða ábyrgð þú hafðir og hvaða hindrunum þú sigraðist á sem starfsmaður.

Leitin að næsta leiðtoga demókrata

Leitin að næsta leiðtoga demókrata er hafin. Leiðtoginn sem á að tryggja þeim forsetaembættið í forsetakosningunum 2020. Hér vestanhafs hófst undirbúningur að forsetakosningum um það bil og kosningunum í nóvember lauk. Allar líkur eru á því að prófkjör demókrata verði fjölmennt partý.

Það gefur augaleið að demókratar þurfa að tefla fram sterkum frambjóðanda sem getur sigrað Donald Trump sem er fjarri lagi hefðbundinn frambjóðandi. Trump er til alls líklegur og erfitt að kortleggja. Fer fram hjá hefðbundinni fjölmiðlabaráttu og notar samfélagsmiðla eins og Twitter óspart. Pólitísk skilaboð um að hann stæði með fólkinu í landinu gegn kerfinu virtist virka síðast þó kvarnað hafi úr trúverðugleika þeirra með litlum efndum. Líklegt er að Trump verði óvæginn, beiti hvaða aðferð sem er til að vinna og haldi áfram sínu þjóðernissinnaða innflytjendarausi. Því er það kostur ef sá frambjóðandi sem verður fyrir valinu geti mætt honum af þunga á þessu svelli.

Elizabeth Warren.

Mörg nöfn eru í hattinum. Nokkur hafa þegar lýst yfir framboði þar á meðal öldungardeildarþingkonurnar Elizabeth Warren og Kamala Harris. Elizabeth Warren, fyrrum prófessor við Harvard, hefur verið hörð í gagnrýni sinni á fjármálakerfið, spillingu og óheflaðan kapítalisma. Efnislega er óumdeilt að hún er mjög hæfur frambjóðandi en hana skortir ákveðinn pólitískan sjarma, þetta óáþreifanlega sem fær fólk til að hrífast með. Helsti löstur hennar er að hún er of lík Hillary Clinton. Kamala Harris er frá Kaliforníu og þykir hafa stjörnueiginleika, hefur barist fyrir frjálslyndum borgaréttindum í þinginu og fékk mikla athygli í Brett Kavanaugh yfirheyrslunum.

Joseph R. Biden

Aðrir sem þykja líklegir eru Joseph Biden, varaforseti Obama, Eric Garcetti sem er borgarstjóri Kaliforníu og Bernie Sanders. Bernie bauð sig fram gegn Hillary Clinton í prófkjöri demókrata fyrir forsetakosningar 2016. Hann er sósíalisti, óhefðbundinn frambjóðandi og maður fólksins. Lengst af í hópi þeirra þingmanna sem hafa staðið utan flokka.

Bernie var mjög sterkur á samfélagsmiðlum í sinni baráttu með slagorðið „feel the Bern“ og hefur laðað til sín marga unga fylgjendur sem styðja sósíalískar velferðaráherslum. Joseph Biden á marga fylgjendur innan demókrataflokksins og hann hefur tvisvar áður reynt við forsetaframboð. Þá hefur John Kerry einnig verið nefndur og Hillary Clinton, en bæði þykja ólíkleg enn sem komið er.

Beto O´Rourke.

Annar mögulegur frambjóðandi er Beto O´Rourke þingmaður frá Texas. Ungur, með mikinn pólitískan sjarma og vakti athygli fyrir að ná til ungra kjósenda og að safna miklum fjármunum í baráttu sinni fyrir öldungardeildarþingsæti í Texas í nýliðnum kosningum. Öllum að óvörum var hann í miklum sjens að vinna Ted Cruz sem er stórt nafn í Texas, sem almennt er vel rautt ríki. Beto þykir þó of miðjusinnaður fyrir marga.

Bernie Sanders sterkur frambjóðandi

Af þeim nöfnum sem eru í hattinum hlýtur Bernie Sanders að vera sterkasti frambjóðandinn enn sem komið er. Hann er maður réttlætisins, nokkuð óhefðbundinn á bandarískan mælikvarða og ókerfislægur í sínum skoðunum, rétt eins og Donald Trump. Hans helsti löstur er aldurinn. Hvort að Bernie Sanders sé hið sterka mótvægi til að fella Donald Trump verður þó að koma í ljós, en hann hefur þegar ákveðinn grunn til að byggja á sem aðrir frambjóðendur hafa ekki.

Alexandria Ocasio-Cortez

Margir skemmtilegir nýir þingmenn demókrata eru einnig að vekja mikla lukku meðal ungs fólk og  hrífa til sín fylgi og aðdáun. Þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez hefur verið mest áberandi í þeim hópi. Því gæti það verið sterkur leikur að fá ungan spútnik frambjóðanda sem varaforsetaefni fyrir þann demókrata sem tekst á við Donald Trump árið 2020, sérstaklega ef „hefðbundnari“ frambjóðandi verður fyrir valinu. Það verður að segja að mikið liggur við og því sjálfsagt mikil pressa á demókrötum að fella Trump.

Sjá einnig: Ný þingkona hristir upp í húsinu

Meginatriðið hlýtur að vera að sameinast um sterkasta frambjóðanda sem er líklegur til að sigra og tefla fram öflugri strategíu. Að lesa í hið pólitíska landslag hverju sinni segir líka mikið um hvort hentugra sé að fá hefðbundinni pólitískan frambjóðanda t.d. eins og Elizabeth Warren eða meira fútt eins og fylgir Bernie Sanders þrátt fyrir háan aldur. Tilfinningin er sú að pólitískur sjarmi, sterk skilaboð með réttlætisívafi og hæfnin til að hrífa fólk með sér muni skipta miklu máli í forsetakosningunum 2020. Í öllu falli munu demókratar hafa úr mörgum að velja.

Tek fagnandi á móti Buffalo-skónum aftur

Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir, vörumerkjastjóri Ölgerðarinnar, heldur úti síðunni gydadrofn.com en þar fjallar hún um lífsstíl, heilsu, ferðalög og tísku. Það var því ekki úr vegi að skyggnast inn í fataskáp Gyðu Drafnar enda margt fagurt þar að finna.

Gyða Dröfn er fædd og uppalin á Akureyri en hefur undafarin ár verið búsett í Garðabæ. Hún lærði sálfræði við Háskóla Íslands með áherslu á markaðsfræði sem hún segir að reynist sér vel í núverandi starfi.

„Ég myndi segja að stílinn minn væri frekar kvenlegur og fínlegur og undir sterkum asískum áhrifum. Ég elska létt og flæðandi efni í ljósum litum, í bland við asísk munstur og snið. Ég er yfirleitt alltaf í einhverju ljósu að ofan og nota mikið léttar skyrtur og kimonoa. Ég er líka mjög hrifin af því að Buffalo-skór eru komnir aftur í tísku og mig dauðlangar að fjárfesta í pari. Þar sem ég er ekki mjög hávaxin er þetta trend einstaklega praktískt fyrir mig. Þessu fylgir ákveðin nostalgía þar sem ég átti Buffalo-skó þegar ég var yngri og tek því fagnandi á móti þeim aftur.“

Ég elska létt og flæðandi efni í ljósum litum, í bland við asísk munstur og snið.

Aðspurð hvaðan Gyða Dröfn sæki innblástur segist hún horfa mikið til Instagram.

„Ég fylgist bæði með einstaklingum og verslunum þar og fæ innblástur af myndum frá þeim. Annars versla ég mikið bæði erlendis og á Netinu en einnig hér heima. Erlendis eru verslanirnar & Other Stories og Urban Outfitters í miklu uppáhaldi. Ég skoða mikið vefverslanirnar Asos og Na-kd, og kíki svo oftast í Zara, Vero Moda, Springfield, Gallerí og Húrra hér heima. Ég á alltaf mjög erfitt með mig þegar kemur að kimonoum og ég held ég eigi í kringum fimmtán stykki. Það er bara eitthvað við sniðið og fallegu mynstrin á þeim sem ég stenst alls ekki.“

„Sú flík sem hefur hvað mesta tilfinningalega gildið verður eiginlega að vera annar kimono, sem að kemur kannski ekki á óvart þar sem um 1/3 af skápnum mínum er kimonoar. En þennan keypti ég í Miami, sem er einmitt uppáhaldsborgin mín og kærastans og ég klæddist honum kvöldið sem við trúlofuðum okkur.“
„Ég fjárfesti nýlega í síðum, dökkbláum kjól úr mesh-efni af síðunni na-kd.com. Hann var ætlaður fyrir utanlandsferð sem er á döfinni á næstunni, en hann var svo fallegur að ég stóðst ekki mátið og notaði hann á viðburði um daginn. Ég fékk ótal spurningar um hann enda er hann bæði fallegur og þægilegur.“
„Uppáhaldsflíkin mín í augnablikinu er þessi gullfallegi kimono sem ég fékk í afmælisgjöf. Ég stenst ekki fallega kimonoa og þessi er alveg einstakur. Á afmælinu mínu fyrr á árinu hélt ég veislu með japönsku þema og langaði í fallegan kimono til að klæðast í veislunni. Ég fann þennan á Netinu en hann var mjög dýr svo ég tímdi ekki að splæsa í hann. Kærastinn minn ákvað þá að gefa mér hann í afmælisgjöf sem gladdi mig einstaklega mikið. Ég hef notað hann mjög mikið og hann er án efa það allra fallegasta sem ég á.“
„Ég er óvenjulega lítið fyrir að nota fylgihluti og er til dæmis afskaplega sjaldan með skartgripi. En nýlega hef ég tekið ástfóstri við scrunchies-hárteygjur og þær eru uppáhaldsfylgihluturinn í augnablikinu. Ég keypti mér nokkrar í mismunandi litum og munstrum sem ég para við mismunandi klæðnað.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Ætlar ekki að drekka áfengi næstu 18 árin

Leikkonan Anne Hathaway ætlar ekki að drekka áfengi næstu 18 árin.

Bandaríska leikkonan Anne Hathaway er hætt að drekka áfengi og ætlar ekki að drekka næstu 18 árin. Hathaway ákvað að gefa alla drykkju upp á bátinn vegna sonar síns sem er tveggja ára. Þessu greindi hún frá í spjallþætti Ellen DeGeneres.

Ástæðan fyrir edrúmennskunni mun vera sú að hún vill ekki vera drukkin né með timburmenn í kringum son sinn.

„Ég hætti að drekka í október, í 18 ár. Ég ætla að hætta að drekka á meðan sonur minn býr heima,“ útskýrði hún og sagði að það hafi verið einn morgunn þar sem hún þurfti að koma syni sínum í leikskólann í þynnku sem hafi gert útslagið. „Það var nóg fyrir mig.“

Þess má geta að Hathaway er gift leikaranum og framleiðandanum Adam Shulman.

Hathaway hefur í viðtölum greint frá því að móðurhlutverkið eigi vel við hana og hún leggur mikla áherslu á að verja frítíma sínum með fjölskyldunni.

„Fjölskylda, fjölskylda, fjölskylda. Ég er sátt þegar hlutirnir eru einfaldir,“ sagði leikkonan í viðtali við Review Journal á dögunum þegar hún var spurð út í hvernig fullkominn sunnudagur er að hennar mati. „Við förum í almenningsgarðinn, syngjum, leikum okkur og höfum gaman. Ég nýt mín best með fjölskyldunni nálægt hafinu.“

Sjokkerandi að fá Óskarstilnefningu

Leikarinn Rami Malek, sem fer með hlutverk tónlistarmannsins Freddie Mercury, söngvara Queen, í kvikmyndinni Bohemian Rhapsody, segir það draumi líkast að vera tilnefndur til Óskarsverðlauna.

Leikarinn Rami Malek er tilnefndur sem besti leikarinn fyrir hlutverk sitt í Bohemian Rhapsody. Myndin er einnig tilnefnd sem besta myndin á hátíðinni. Alls hlýtur myndin fimm Óskarstilnefningar.

Bohem­ian Rhapso­dy var afar sig­ur­sæl á Gold­en Globe-verðlauna­hátíðinni sem haldin var í byrjun janúar en mynd­in var val­in besta mynd­in og Rami Malek var valinn besti leik­ar­inn. Þrátt fyrir að hafa hlotið Golden Globe-verðlaun nýlega brá honum við að heyra að hann væri tilnefndur til Óskarsverðlauna.

„Það er eitthvað við það að heyra að þú sér tilnefndur til Óskarsverðlauna, það er alltaf að fara að vera ótrúlega sjokkerandi,“ sagði hann í viðtali við Entertainment Weekly.

„Þetta er bara eitthvað sem þú býst ekki við að gerist. Þetta er eins og fjarlægur draumur sem leikarar eiga sér.“

Óskarsverðlaunahátíðin verður haldin 24. febrúar. Listann yfir tilnefningar er hægt að skoða í heild sinni á vef Óskarsverðlaunahátíðarinnar.

Ertu að fara að flytja?

|
|

Hér kemur sitt af hverju um gamla hjátrú og úr Feng Shui-fræðunum um búferlaflutninga.

Mánudagur

Sjötta skilningarvitið á að vera hvað virkast á mánudögum, hann er fínn dagur til flutninga.

Þriðjudagur

Skynjun, innsæi og greind, ásamt hugkvæmni, fylgja þriðjudeginum. Fínasti dagur til að flytja.

Miðvikudagur

Alls konar ástríður eru sagðar fylgja miðvikudögum, bæði góðar og slæmar.

Fimmtudagur

Peningar eru taldir fylgja fimmtudögum og því ættu þeir dagar að teljast harla góðir til búferlaflutninga.

Föstudagur

Ást og peningar fylgja föstudögum – ekki slæmur dagur, eiginlega bara tilvalinn.

Laugardagur

Góður dagur til flutninga, sérstaklega ef flutt er í gamalt hús.

Sunnudagur

Afar mikil gæfa er talin fylgja því að flytja á sunnudögum.

Til að tryggja gæfu

Taktu með þér:

Salt og brauð í fyrstu ferðina í nýja húsið til að hindra ógæfu. Saltið er tákn peninga og brauðið er táknrænt fyrir mat. Einnig er sagt að maður eigi alltaf fyrir salti í grautinn ef salt er með í fyrstu för.

Skildu eftir:

– Gamla sópinn því honum mun fylgja neikvæðni inn á nýja heimilið.

– Peninga í fyrri húsakynnum til að færa nýjum íbúum gæfu.

Feng Shui-fræðingar mæla með að skilja gamla sópinn eftir.

Í flutningunum:

Þegar verið er að bera húsgögn út af gamla heimilinu er talið best að byrja á því að bera sterkbyggt borð eða stól út en það á að tryggja stöðugleika.

Eftir flutningana:

Haltu svo gott innflutningspartí til að tryggja að gleði ríki á nýja heimilinu.

Litir á veggi nýja heimilisins

Guli liturinn hentar t.d. vel á herbergi sem snúa í norðaustur eða suðvestur og ef herbergi snýr í norður eru bláir, svartir eða gráir litir taldir heillavænlegastir.

Kynntu þér sögu hússins

Feng Shui-fræðingar segja að gott sé að þekkja sögu hússins sem flytja á í og vita eitthvað um fyrri íbúa þess. Hvort þeir voru hamingjusamir eða ekki. Þar sem hefur ríkt óregla og vitað er til að rifrildi, skilnaður og ofbeldi hefur átt sér stað er nauðsynlegt að gera eitthvað við íbúðina. Skrúbba allt í bak og fyrir og mála. Þeir sem hafa trú á miðlum geta beðið einn slíkan um að hreinsa út.

Kristall í gluggana

Gott er samkvæmt fræðunum að styrkja hverja átt fyrir sig með því að hengja kristala í gluggana þannig að sólin skíni í gegnum þá.

Hreyfing fyrir flæðið

Öll glaðleg orka; mikill hlátur, fjörug tónlist, partí og slíkt (svona á meðan ekki er slegist) og húsdýr, er góð fyrir flæðið á heimilinu.

Heilbrigð skynsemi

Best af öllu er að nota heilbrigða skynsemi og fara ekki blint eftir öllu. Ef þér líður vel á heimili þínu er tilganginum náð.

Þorrablót með öllu tilheyrandi

Bryggjan brugghús heldur heljarinnar þorrablót með öllu tilheyrandi.

Á þorrablóti Bryggjunnar brugghúss verður boðið upp á glæsilegt hlaðborð með súrmeti, lambalæri, hangikjöti, síld og gómsætu meðlæti. Glæsileg skemmtidagsdagskrá setur punktinn yfir i-ið.

Það er hin bráðfyndna Saga Garðarsdóttir sem fer með veislustjórn á þorrablótinu þann 26. janúar en Anna Svava Knútsdóttir verður svo veislustjóri þann 8. og 9. febrúar. Þá er það Helgi Björnsson sem heldur uppi stuðinu ásamt hljómsveit.

Þeir sem halda hátíðlega upp á bóndadaginn geta svo skellt sér í nýja matar- og bjórskóla Bryggjunnar brugghúss sem haldinn er alla fimmtudaga. Hægt er að kaupa gjafabréf í skólann og þeir bændur sem fá slíkt gjafabréf fá að auki bjórglas merkt Bryggjunni brugghús. Tilvalin bóndadagsgjöf í upphafi þorranns.

Nytjamarkaðir að fyllast vegna Marie Kondo?

|
|

Tiltektarþættirnir Tydying Up With Marie Kondo njóta mikilla vinsælda víða um heim en Kondo hvetur fólk til að losa sig við það dót sem ekki veitir því gleði.

Netflix-þættir japanska tiltektargúrúsins Marie Kondo, Tydying Up With Marie Kondo (Taktu til með Marie Kondo), hafa notið mikilla vinsælda undanfarið víða um heim. Svo mikilla vinsælda að margt fólk er að losa sig við dót og drasl eins og enginn sé morgundagurinn að sögn nokkurra starfsmanna nytjamarkaða í Bretlandi.

„Ertu að urlast yfir óreiðinu á heimilinu? Þá gæti verið orðið tímabært að grisja og ein besta aðferðin til þess að fara í gegnum dótið og losa sig við það sem veitir þér enga gleði.“ Þannig hljómar í stuttu máli heimspeki Marie Kondo.

Marie Kondo hefur gefið út fjórar bækur um tiltekt og skipulag.

Í frétt BBC kemur fram að margir nytjamarkaðir í Bretlandi hafa verið að fyllast í janúarmánuði. „Við sjáum venjulega aukningu á framlögum í janúar, en þetta árið hefur þetta verið ótrúlegt,“ segir Sue Ryder sem rekur nytjamarkað í Camden í Lundúnum.

Að hennar sögn hafa um 30 stórir pokar verið að skila sér á nytjamarkaðinn á dag. Það er helmingi meira en búist var við að sögn Ryder. Hún vill meina að þetta séu afleiðingar þess að speki Kondo nýtur mikilla vinsælda núna.

Hvað með Íslendinga?

Gæti verið einhver tenging við þessa tiltektarþætti.

Hvað með nytjamarkaði á Íslandi? Starfsmaður Nytjamarkaðar ABC barnahjálpar segir janúarmánuð hafa verið annasaman og að mjög margt fólk sé augljóslega að taka til á heimilinu þessa stundina. Það er þó ómögulegt að segja til um hvort tiltektarþættir Marie Kondo hafi eitthvað með málið að gera.

„Það er allt alveg stútfullt hjá okkur og það gæti verið einhver tenging við þessa tiltektarþætti. En að vísu er fólk líka að versla mikið hjá okkur og fólk vill kaupa notað í staðin fyrir nýtt. Þar koma umhverfissjónarmiðin inn í,“ segir starfsmaður nytjamarkaðar ABC.

Starfsmaður nytjamarkaðar Hertex í Garðastræti hafði einnig svipaða sögu að segja en tók fram að erfitt væri að segja til um hvort þættir Marie Kondo væru að ýta undir tiltektardugnað landsmanna.

Sjá einnig: Misbýður boðskapur Marie Kondo

Raddir