Laugardagur 13. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Hlutverk okkar sem aðstandenda að elska nógu mikið til að sleppa

Ingrid Kuhlman og Sylviane Lecoultre Pétursson eru meðal stofnenda félagsins Lífsvirðingar. Aðaltilgangur félagsins er að stuðla að opinni, uppbyggilegri og víðtækri umræðu um dánaraðstoð. Félagið leggur áherslu á að einstaklingur hafi yfirráð yfir líkama sínum, lífi og dauða. Þær Ingrid og Sylviane hafa báðar persónulega reynslu af því að fylgja ástvinum sínum erlendis í þeim tilgangi að enda líf sitt.

Aðspurðar um viðbrögð við stofnun félagsins segja þær Ingrid og Sylviane þau almennt vera góð. „Við finnum fyrir stuðningi við okkar málstað úr mörgum áttum. Sumir eru auðvitað svolítið smeykir við að tjá sig um málið eða hafa einfaldlega ekki velt því mikið fyrir sér. Hér er um að ræða stórar siðfræðilegar spurningar sem þarf að ræða af yfirvegun.“  Þær telja að dánaraðstoð verði eitt af dagskrárefnum samfélagsumræðunnar næstu árin. „Víðtæk umræða í samfélaginu er mikilvæg og lykillinn að gagnkvæmum skilningi. Það er aðalástæðan fyrir því að við stofnuðum Lífsvirðingu.

Heitasta óskin að deyja með reisn

Ingrid Kuhlman.

Ingrid og Sylviane hafa báðar reynslu af því að fylgja ástvinum sínum erlendis í þeim tilgangi að enda líf sitt á þennan hátt. Faðir Ingrid, Anton Kuhlman, var einn af þeim fyrstu sem fékk ósk sína um dánaraðstoð uppfyllta á löglegan hátt, aðeins 11 dögum eftir að lög um það tóku gildi í Hollandi þann 1. apríl 2002.

„Pabbi var búsettur í Hollandi þar sem ég er fædd og uppalin. Hann greindist með heilaæxli vorið 1999 sem þrýsti á taugar sem olli lömun í andlitinu og jafnframt miklum verkjum. Æxlið var þannig staðsett að ekki var möguleiki að fjarlægja það. Við tóku tvær mjög erfiðar geislameðferðir sem reyndust gagnlausar því æxlið hélt áfram að stækka. Læknarnir sögðu að ekkert væri hægt að gera til að bjarga lífi hans og batahorfur væru engar.“  Svona lýsir Ingrid veikindum föður síns. „Pabba hrakaði síðan stöðugt, hann missti kraftinn í hand- og fótleggjum, jafnvægisskynið varð slæmt og hann var með mikinn höfuðverk. Um páskana 2002 fékk hann háan hita. Talið var að hann væri með lungnabólgu en það reyndist ekki rétt. Hann var fyrir löngu hættur að geta borðað fasta fæðu og fékk hana því einungis í fljótandi formi. Geislameðferðirnar höfðu eyðilagt barkalokuna með þeim afleiðingum að hann gat ekki kyngt og því fór allt sem hann drakk beint ofan í lungun en einkennin lýstu sér eins og lungnabólga. Pabbi hafði misst 20-25 kg og var orðinn aðeins 50 kg undir það síðasta.

Hann var algjörlega rúmliggjandi og þurfti aðstoð við allar athafnir. Hans heitasta ósk var að fá að deyja með reisn.“

Hann gat ekki lengur drukkið, aðeins bleytt tunguna í vatni því um leið og eitthvað fór niður hóstaði hann því upp aftur. Hann hafði fengið morfín í 6-7 vikur en það linaði ekki kvalirnar í höfðinu og eyranu sem virtust óbærilegar og ómanneskjulegar. Hann var algjörlega rúmliggjandi og þurfti aðstoð við allar athafnir. Hans heitasta ósk var að fá að deyja með reisn.“

Anton var fylgismaður laganna um dánaraðstoð og þegar þau tóku gildi í Hollandi þann 1. apríl 2002 kallaði hann á heimilislækninn sinn. Hann sagðist vera búinn að gera upp líf sitt, búinn að kveðja alla, vera sáttur og hreinlega geta ekki meir.  Óháður læknir vitjaði hans og kannaði vilja hans og andlega getu til þess að taka svo afdrifaríka ákvörðun, sem og líkamlegt ástand. Læknirinn vottaði að hann félli undir lögboðin skilyrði sem heimiluðu dánaraðstoð. Samþykki fékkst og við tók undirbúningur dauðastundarinnar.

„Góða ferð og hafðu það sem best“

Ingrid segir engan ágreining hafa verið meðal ættingja um ákvörðun pabba hennar. „Við virtum hana. Hann var sáttur og við vorum sátt. Auðvitað er það örugglega það síðasta sem maður vill að missa ástvin. En þegar þjáningin ein er eftir vill maður að dauðdaginn verði eins þjáningarlaus og með eins mikilli reisn og mögulegt er. Það að ráða eigin dauðastund ætti að mínu mati að vera undir hverjum og einum komið, að uppfylltum ströngum og skýrum skilyrðum. Hver einstaklingur hefur frelsi til að lifa, því hljótum við öll að hafa sama frelsi til að deyja.

Hvers konar líf er það að bíða kvalinn eftir dauðanum, vitandi að það er enginn von um bata?

Svo kom að því að dánardagurinn rann upp. „Við vorum öll meðvituð um að þetta væri kveðjustundin og við vorum hjá pabba allan tímann. Þetta var auðvitað mjög sérkennileg en falleg stund og við fjölskyldan sátum öll á rúmstokknum hjá honum þegar læknirinn gaf honum banvæna blöndu lyfja og líf hans fjaraði út. Við spiluðum ljúfa og rólega tónlist eftir írsku hljómsveitina Enya. Við sögðum við hann: „Góða ferð og hafðu það sem best.“ Hann var sáttur og við vorum sátt. Hann dó í því umhverfi sem hann vildi og á þann hátt sem hann vildi. Pabbi var búin að biðja okkur um að skála fyrir sér eftir á, sem við og gerðum.“

Vildu að hann færi í geislameðferð

Sylviane Lecoultre Pétursson.

Steinar Pétursson, eiginmaður Sylviane, lést í mars árið 2013. Hann hafði nokkrum mánuðum áður greinst með heilaæxli og veikindin tekið mikið á.

Sylviane segir skoðanir Steinars varðandi dánaraðstoð hafa verið ljósar mörgum árum áður en hann veiktist. Siðferðisleg og heimspekileg málefni séu fjölskyldunni allri hugleikin og umræður um líf og dauða höfðu ávallt verið fastir liðir. „Þegar hann varð veikur, var hann fljótur að segja að hann vildi ekki deyja ruglaður, bjargarlaus og/eða meðvitundarlaus í morfínmóki. Hann vildi jafnvel ekki fara í geislameðferð. Við fjölskyldan, börnin og ég, vorum ekki tilbúin að láta hann fara strax eftir greininguna. Það var okkar ósk að hann myndi fara í geislameðferð. Hins vegar var ákveðið að þegar hann segði nóg, þá myndum við fylgja honum alla leið og styðja hann. Hann hafði alltaf verið mjög sjálfstæður

Í upphafi ferlisins höfðu þau hjónin samband við Dignitas, samtök um dánaraðstoð í Sviss, en það er heimaland Sylviane. Eftir að hafa skilað inn ítarlegri umsókn sem innihélt meðal annars æviágrip og læknisfræðileg gögn tók teymi lækna og starfsfólk Dignitas sér mánuð í að fara yfir gögnin. Svo fór að umsóknin var samþykkt, ákvörðunin hafði verið tekin. Samþykkið gildir í sex mánuði, eftir þann tíma þarf að skila gögnunum upp á nýtt.

Hjónin héldu til Sviss á brúðkaupsdeginum sínum, þann 26. febrúar. „Dagana 27. og 28. febrúar hittum við lækni á hótelinu frá teymi Dignitas sem hafði það hlutverk að ganga úr skugga um að það væri einbeittur vilji mannsins míns að deyja og að hann væri með rænu. Þann 1. mars fórum við öll saman í hús Dignitas sem var í nágrenni hótelsins. Þar tóku á móti okkur hjón sem voru til staðar til að aðstoða manninn minn við að deyja og styðja okkur. Þegar ég segi aðstoða, þá meina ég að láta einstaklinginn fá vökvann sem hann á að drekka sjálfur og passa upp á að aðstandendur séu ekki að hjálpa.“

Dauðinn fallegur

Sylviane segir að burtséð frá sorginni sem fylgir því að missa ástvin, sé hún samt sem áður þakklát fyrir að Steinar hafi valið þessa leið. „Það var fallegt að vera með honum að skrifa bréf til vina og ættingja til að þakka þeim fyrir samveruna. Það var fyndið að vera með honum að undirbúa erfðadrykkju sem hann vildi hafa og skrifa á boðskortin. Það var þroskandi og ég dáist að honum fyrir þann styrk og það hugrekki sem hann sýndi í ferðinni til Sviss. Börnin okkar eru svo stolt af honum, hann var frábært fordæmi fyrir þau. Síðustu klukkustundirnar með honum eru ógleymanlegar. Dauðinn hans var svo fallegur. Hann var stoltur að hafa stjórnað ferðinni, hann var stoltur af okkur. Við höfðum tíma til að segja allt sem okkur langaði til að segja. Við elskuðum hann og það var kominn tími til að sýna það.“

Hún segist aldrei hafa séð eftir ákvörðuninni, enda hafi hún verið alfarið í höndum eiginmanns síns. „Spurningin er ekki hvort við gerðum rétt, þetta hefur ekkert að gera með okkur sem erum eftir. Þetta snýst um réttindi þess einstaklings sem er að deyja. Hann var að gera rétt. Það var hans líf og hans dauði. Hann var að deyja, hann valdi hvernig og hvenær. Hlutverk okkar aðstandenda var að elska hann nógu mikið til að sleppa honum og styðja hann.“ segir Sylviane að lokum.

Við elskuðum hann og það var kominn tími til að sýna það.

Siðmennt framkvæmdi könnun á lífsskoðunum Íslendinga í nóvember 2015 og spurði m.a. hvort þátttakendur væru hlynntir eða andvígir því að einstaklingur gæti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann væri haldinn ólæknandi sjúkdómi. Niðurstaðan var mjög afgerandi en 74,9% voru mjög eða frekar hlynntir því á meðan 7,1% voru því frekar eða mjög andvígir, 18% svöruðu hvorki né. Hér er um að ræða afar merkilega niðurstöðu en í könnunum erlendis hefur stuðningur við dánaraðstoð hvergi mælst jafnmikill svo vitað sé.

Ítarlegri umfjöllun um Lífsvirðingu má finna í 16.tbl Vikunnar.
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Deila gömlum leikaramyndum og þær eru æðislegar

Kassamerkið #oldheadshotday, eða dagur gamalla leikaramynda, hefur farið eins og eldur um sinu um samfélagsmiðla undanfarið.

Margir heimsfrægir leikarar deila gömlum leikaramyndum af sér undir kassamerkinu og eru sumar þeirra alveg hreint stórkostlegar eins og sjá má hér fyrir neðan:

Emma Watson

Reese Witherspoon

Melissa McCarthy

Sarah Hyland

Serving Prince George looks since ‘95… am I a royal now?? #firstheadshot

A post shared by Sarah Hyland (@sarahhyland) on

Busy Phillips

Tori Spelling

Ben Stiller

Katherine McPhee

Ok I’m joining in! #firstheadshot #nationalheadshotday #headshots ??

A post shared by Katharine McPhee (@katharinemcphee) on

Segja atriði Ara gamaldags

||
||

Chris, William og Padraig hjá Eurovision-fréttasíðunni Wiwibloggs settust niður og fóru yfir fyrstu æfinguna fyrir Eurovision, sem fram fór í gær í Altice Arena-höllinni í Lissabon í Portúgal.

Wiwibloggurum fannst myndavélavinna í atriði Nettu vera mikil vonbrigði.

Kumpánarnir þrír fóru í gegnum hvaða atriði komu þeim mest á óvart, hvaða atriði voru mestu vonbrigðin og síðan kusu þeir sigurvegara dagsins. Alls æfðu fulltrúar tíu landa sín atriði í gær og í dag æfir restin af þeim löndum sem keppa í fyrri undanúrslitunum, alls níu talsins.

Alekseev frá Hvíta-Rússlandi kom á óvart með lagið Forever.

Þau atriði sem komu þeim félögum mest á óvart í gær voru lögin frá Hvíta-Rússlandi og Albaníu, en mestu vonbrigðin voru hins vegar lögin frá Búlgaríu, Belgíu og Ísrael, en margir veðbankar spá því að hin ísraelska Netta fari með sigur af hólmi í aðalkeppninni þann 12. maí næstkomandi.

Sjá einnig: Það sem býr á bak við brosið

Chris, William og Padraig eru á því að fulltrúar Eistlands, Tékklands, Hvíta-Rússlands, Albaníu og Litháen hafi staðið sig best á þessari fyrstu æfingu.

Í myndbandinu hér fyrir neðan minnast þeir einnig á framlag Íslands, Our Choice, þar sem þeir segja sviðssetninguna vera gamaldags en að söngvarinn Ari Ólafsson syngi lagið óaðfinnanlega:

Hér má svo sjá samantekt frá þessari fyrstu æfingu:

Myndir / Andreas Putting (eurovision.tv)

Óvenjulegar erfðaskrár

Margir gera erfðaskrár til að koma hinsta vilja sínum á framfæri. Ýmsar skrautlegar og óvenjulegar óskir hafa verið settar í erfðaskrár og hér má lesa um nokkrar þeirra.

Eleanor E. Ritchey arfleiddi hunda sína að 4,5 milljónum dollara þegar hún lést árið 1968 í Flórída.

Milljónir í hundana
Eleanor E. Ritchey arfleiddi hunda sína að 4,5 milljónum dollara þegar hún lést árið 1968 í Flórída. Deilt var um erfðaskrána en hún var staðfest. Fimm árum seinna hafði sjóðurinn bólgnað og fengu hundarnir 9 milljón dollara en þegar erfðaskráin var endanlega staðfest var sjóðurinn kominn upp í 14 milljónir. Þá voru aðeins 73 hundar enn á lífi. Þegar sá síðasti stökk á vit feðra sinna rann sjóðurinn til Auburn-háskólans, í rannsóknir á dýrasjúkdómum.

Engin pyntingatól á gröfina!
Leikritaskáldið George Bernard Shaw lést árið 1950. Hann var mikill áhugamaður um enska tungu og hafði búið til 40 stafa stafróf sem hann taldi að gerði alla stafsetningu mun auðveldari. Hann vildi að hluti eigna hans rynni í þetta verkefni en dómari sagði það síðar ógerlegt. Fénu var skipt í þrennt og rann til British Museum, National Gallery of Ireland og Royal Academy of Dramatic Art. Hinsta ósk hans var að jarðarför hans yrði ekki gerð að kristnum sið og að á legsteini hans yrði ekki kross eða neins konar tól tengd pyntingum eða tákn um blóðugar fórnir.

Kvöldverður fyrir þau látnu
John Bowman lést árið 1891. Hann var ekkill og dætur hans tvær voru einnig látnar. John var fullviss um að fjölskyldan myndi í sameiningu endurholdgast síðar. Hann stofnaði sjóð með 50 þúsund dollurum til að hægt væri að borga þjónustufólki til að halda yfir 20 herbergja setri hans við. Síðasta ósk hans var að kvöldverður yrði eldaður og framreiddur daglega ef þau væru glorhungruð þegar þau sneru aftur. Ósk hans var uppfyllt þar til sjóðurinn var uppurinn sem var árið 1950.

Brjálað partí
Janis Joplin söngkona lést árið 1970, 27 ára gömul. Tveimur dögum fyrir dauða sinn breytti hún erfðaskrá sinni. Hún vildi að 2500 dollarar færu í sérstakt „eftir dauða-partí“ fyrir 200 manns. Það ætti að standa heila nótt á uppáhaldspöbbnum hennar í San Anselmo í Kaliforníu. „… svo vinir mínir geti djammað ærlega eftir að ég er farin.“

Hinsta ósk George Bernard Shaw var að jarðarför hans yrði ekki gerð að kristnum sið og að á legsteini hans yrði ekki kross eða neins konar tól tengd pyntingum eða tákn um blóðugar fórnir.

„… fyrir alla þá ást og góðvild sem hún sýndi mér aldrei“
Anthony Scott: „Til fyrstu eiginkonu minnar, Sue, sem ég lofaði alltaf að minnast á í erfðaskrá minni: Halló, Sue!“

Edith S frá Walsall: „Börn mín, Roger, Helen og Patricia, fá 50 þúsund pund í sinn hlut og mega ekki eyða þeim í hægfara hesta eða hraðskreiðar konur og bara örlitlu í áfengi.“

Sara Clarke frá Bournmouth: „Ég arfleiði dóttur mína að einu sterlingspundi, fyrir alla þá ást og góðvild sem hún sýndi mér aldrei.“

Henry Budd, d. 1862: „Ég arfleiði syni mína tvo að 200 þúsund pundum með því skilyrði að þeir láti sér aldrei vaxa yfirvaraskegg.“ Annar maður, Matthias Flemming (d. 1869), hafði andúð á slíkum skeggjum og arfleiddi hvern skegglausan starfsmann sinn að tíu pundum en þeir sem voru með yfirvaraskegg fengu þó fimm pund hver í sinn hlut.

Ónefndur maður arfleiddi starfsmenn sína að einum skildingi svo þeir gætu keypt sér bók um mannasiði.

Amy T. frá Doncaster arfleiddi dýraverndunarfélag að 500 pundum og bað um að peningarnir yrðu notaðir til að gefa hundum í þess umsjá dýrlega jólamáltíð.

Norman Earnest Digweed átti verðmæta húseign sem metin var á 26 þúsund pund árið 1893 þegar hann lést. Hann arfleiddi Jesú Krist að henni ef svo færi að Jesús sneri aftur innan 80 ára. Nokkrir Jesúsar gerðu tilkall til hússins sem engu að síður rann til breska ríkisins árið 1977, þegar 80 ár voru liðin frá dauða Normans.

Kona nokkur arfleiddi heittelskaðan kött sinn að eigum sínum, meðal annars húseign. Jarðarför konunnar var haldin á fallegum sumardegi. Arfþeginn lá og sólaði sig í innkeyrslunni þegar einn syrgjendanna ók óvart yfir hann á leið í erfidrykkjuna.

Aðalmynd: Ýmsar skrautlegar og óvenjulegar óskir hafa verið settar í erfðaskrár.

„Stundum sofnaði ég ekki fyrir kippum“

Sveinn Ólafur Gunnarsson hefur verið áberandi á fjölum leikhúsanna að undanförnu. Það er því ekki úr vegi að biðja hann um að rifja upp hlutverkin sem eru honum minnisstæðust.

„Eddie í Fool for love, var afar krefjandi og spennandi hlutverk. Í raun lykilhlutverk á ferlinum, hlutverk sem ég óx við sem leikari. Uppfærslan var afar vel heppnuð enda virkilega vandaður hópur sem stóð að sýningunni.“

Þá segist hann hafa leikið sex persónur Í Hornum á höfði, sem sé ógleymanlegt því hann hafi verið á spretti alla sýninguna. „Og karaktergalleríið spannaði allt frá ástríkum óöruggum föður yfir í ofurmennskt illmenni,“ segir hann og bætir við að fátt sé jafngefandi og leika í góðri barnasýningu og í Hornum á höfði hafi verið unnið af alúð, ást og natni í dásamlegum hópi einstaklega skapandi fólks.

Hann segir að hlutverk krefjist mismikils undirbúnings. „Fyrir hverja sýningu á Illsku, þar sem ég fór með hlutverk Arnórs, greinds og vel máli farins nýnasista með tourette þurfti ég til dæmis að koma mér í karakter 60-90 mínútum fyrir show, svo að „tourettið“, kækirnir væru orðnir lífrænir og ósjálfráðir þegar við byrjuðum. Það var oft meira vesen að hætta því eftir að sýningu lauk og stundum sofnaði ég ekki fyrir kippunum. Fæ meira segja kippi núna þegar ég tala um hann,“ segir hann og hlær.

Af bíó og sjónvarpi segir hann að sér sé efst í huga það sem hann leikið síðast, en það hafi verið þegar hann brá sér í hlutverk Arnars í Mannasiðum og Valda kláms í Stellu Blómkvist. Afar ólík en áhugaverð hlutverk. „Svo þykir mér alltaf jafnvænt um Finnboga í kvikmyndinni Á annan veg. En heilt yfir þá eiga mín eftirminnilegustu hlutverk það sammerkt að ég hef fengið rými til sköpunar persónunnar og í mörgum tilfellum tekið þátt í sköpunarferlinu og handritsvinnunni. Sem gefur manni tækifæri til að nálgast hlutverk af meiri dýpt og ábyrgð.“

Mynd / Jóhanna Helga Þorkelsdóttir

Náttúrufegurð og fjölbreyttar leiðir fyrir hreyfingu og útivist í Bryggjuhverfinu í Kópavogi

Bryggjuhverfið á Kársnesi í Kópavogi er staðsett á fallegum stað á móti Nauthólsvíkinni, fjölskylduvænu og fallegu umhverfi við sjávarsíðuna. Útsýnið er einstaklega fallegt í allar áttir og fögur er sjónin þegar horft er yfir í Öskjuhlíðina og víðar.

Þessar glæsilegu íbúðir eru til sölu í Naustavör og eru eignirnar hinar vönduðust. Umhverfi laðar að fólk á öllum aldri og býður uppá fjölbreytar leiðir til útivistariðkunnar fyrir fjölskyldur sem og einstaklinga. Meðal annars má nefna að Siglingafélagið Ýmir er með aðstöðu við smábátahöfnina og er það iðandi af lífi. Einnig er stutt í allar áttir og gríðarlega uppbygging atvinnulífsins er einnig á þessum slóðum og þykir stórfyrirtækjum eftirsóknarvert að komast á miðsvæðis Kópavogsins. Í bryggjuhverfinu á Kársnesinu er gert ráð fyrir verði um 400 íbúðir. Flutt var í fyrstu íbúðir hverfisins á vormánuðum 2015. Framtíðin er því björt í Bryggjuhverfinu í Kópavogi.

Íbúðirnar sem eru komnar í sölu við Naustavör 16-20 eru hið glæsilegustu og eru frá þriggja til fimm herbergja og frá 122 fermetrum að stærð upp í 210 fermetra í fjögurra og þriggja hæða fjölbýlishúsum með lyftu. Stæði í lokaðri bílgeymslu fylgir öllum íbúðum sem eru mikil lífsgæði. Íbúðirnar eru innréttaðar með vönduðum íslenskum innréttingum og fataskápum frá Brúnás sem eru hágæða hönnun. Íbúðirnar eru afhentar án gólfefna, nema á baðherbergi og þvottahúsi verða flísar, þar áhersla verður lögð á að vera með stílhreint yfirbragð.

Á baðherbergjum eru gólf flísalögð og veggir flísalagðir upp í loft. Þau verða búin vönduðum hreinlætistækjum, hitastýrðum blöndunartækjum, upphengdum salernum, sturtum með glerhlið þar sem nýting verður í hávegum höfð. Íbúðirnar eru ýmist með góðum svölum eða stórum timburveröndum sem gerir fólki kleift að njóta þess sem umhverfið hefur upp á að bjóða. Stæði í sameign verður frágengin utan sem innan og í sameign verður vönduð lyfta í hvoru stigahúsi. Anddyrin verða flísalögð en stigar og stigapallar teppalagðir. Gangstéttar við húsið verða með snjóbræðslukerfi sem er mikill kostur.

Byggingaraðili er Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. Arkitektar íbúðanna eru þeir Guðmundur Gunnlaugsson og Gunnar Páll Kristinsson frá Rýma arkitektum. Fasteignasalan Fasteignamarkaðurinn er með þessar glæsilegu íbúðir á sölu og er eftirspurnin gríðarleg, enda um vandaðar eignir að ræða og staðsetningin ein sú besta sem völ er á, á höfuðborgara svæðinu. Sjón eru sögu ríkari.

Verðflokkarnir eru eftirfarandi:

3ja herbergja íbúðir. Verð frá kr. 69,5 millj. upp í kr. 77,0 millj.
4ra herbergja íbúðir. Verð frá kr. 85,5 millj. upp í kr. 89,5 millj.
5 herbergja íbúðir. Verð frá kr. 87,5 millj. upp í kr. 119,0 millj.

Rifjar upp verstu áheyrnarprufuna

Leikkonan Hera Hilmarsdóttir, sem gengur undir listamannsnafninu Hera Hilmar, er í viðtali við vefsíðuna Daily Actor í tengslum við kvikmyndina An Ordinary Man, þar sem Hera leikur á móti Sir Ben Kingsley.

Í viðtalinu er Hera spurð út í verstu áheyrnarprufu sem hún hafi farið í á ferlinum og það stendur ekki á svörum hjá leikkonunni.

„Ó, Guð, versta áheyrnarprufan. Hún var fyrir nokkrum árum og það var ein af mínum fyrstu áheyrnarprufum. Þetta var enskur leikstjóri af gamla skólanum og ég held að hann hafi verið svo forviða yfir því að íslensk stúlka væri í prufu fyrir hlutverk Englendings að hann gerði lítið úr enska hreimnum mínum,“ segir Hera og heldur áfram.

„Þetta var fullkomlega óþarft að sumu leyti. Stundum gerir maður eitthvað sem maður er ekkert sérstaklega góður í en ég var ekkert ofboðslega léleg þannig að þetta var algjör óþarfi.“

Hún bætir jafnframt við að hún hafi ekki passað í hlutverkið sem hún var að falast eftir en að framkoma leikstjórans hafi ekki þurft að vera með þessum hætti. „Þetta er í eina skiptið sem ég hef upplifað eitthvað svona.“

Öflugt útspil frá Toyota

|||
|||

Toyota C-HR er skemmtilegur tvinnbíll, vel útbúinn og góður í akstri.

Gefum okkur þú standir fyrir framan fataskápinn og sért á leið í veislu. Þar verður margt fólk sem þú þekkir lítið en þú lítur upp til. Því viltu koma vel fyrir, falla í hópinn en að sama skapi marka þér sérstöðu. Þú vilt koma skilaboðunum á framfæri um að þú sért til í ævintýri og óttist ekkert, en um leið ertu ekki að fara taka þátt í neinu rugli eða koma þér og þínum í vandræði. Hvaða föt velurðu?
Toyota C-HR er bíll sem var í þessari stöðu og ákvað að fara í fínustu skyrtuna sína og leðurjakka, stuttbuxur og hlaupaskó. Allt frábærar hugmyndir sem að öllu jöfnu ættu ekki að ganga upp saman en á einhvern undarlega heillandi hátt mynda frábæra blöndu.

Aftari hurðaropnarinn er á óvenjulegum stað og er einn af fjölmörgum sterkum útlitseinkennum C-HR.

Þegar ég settist upp í Toyota C-HR leið mér strax vel. Að utan er bíllinn skemmtilega agressívur, allar línur afgerandi og beinskeittar. Eylítið groddaralegar en á mjög skemmtilegan hátt, svolítið eins og leðurjakki. Hann öskrar á mann að hann sé til í þjóðveginn og að fara með þig alveg á enda slóðans.

Þegar sest er inn í bílinn er upplifun mun mýkri og fágaðari. Egypsk bómull kemur upp í hugann. Þrátt fyrir að um smábíl sé að ræða finnur maður strax að Toyota hefur vandað innviðinn. Allt efnisval og áferð gefa til kynna að meira er í lagt en í hinn hefðbundna smábíl. Þarna kemur fyrsta mótsögnin sem ég verð að segja að kom skemmtilega á óvart. Þessi auknu gæði skila sér eðlilega í hærra verði og vekur athygli að hægt er að fá til bæði Prius og Avensis á hagstæðara kjörum.

Haldið skal til haga að ég keyrði Hybrid C-HIC-útgáfu bílsins sem er einskonar lúxusútgáfa, vel útilátin aukabúnaði. Komum að því síðar.

C-HR er yndislegur bíll sem auðvelt er að líka vel við. Það er gott að keyra hann, hann er eyðslugrannur, vel heppnaður í útliti að innan sem utan, og svo er þetta Toyota.

Verandi tvinnbíll er eyðslan auðvitað komin í allt annan flokk. Hún er uppgefin 3,9 l/100 km en í akstri mínum var ég reyndar eylítið undir þeirri tölu. Öflugir hlaupaskór það.

Rafkerfi bílsins er að sama skapi þungt og gerir tvinnútgáfu bílsins ögn þunglamalegri en systraútgáfuna án tvinnkerfisins. Ekki misskilja, ég hefði aldrei haft orð á því hefði ég ekki prófað báðar útgáfur. Tvinnbíllinn er mjög snarpur og skemmtilegur í akstri á allan hátt. Ég upplifði aldrei að mig vantaði meira afl frá vélinni eða meiri snerpu frá sjálfskiptingunni. Allir hlutar bílsins unnu vel saman, en bara aðeins betur í bensínbílnum. En þá eykst eyðslan svo ég myndi hiklaust mæla með tvinnútgáfunni.

Það er hægt að púsla bílnum saman á marga vegu er kemur að útliti og aukabúnaði. Í C-HIC-útgáfunni er meðal annars leðursæti og leður í mælaborði. Ætli hver og einn verði ekki að eiga það við sjálfan sig hvort líf viðkomandi þarfnist leðurs í mælaborðið.

Skjárinn fyrir aksturstölvuna er líka óvenju stór miðað við aðra hluta mælaborðsins. Ég fussaði yfir því til að byrja með en tók hann algjörlega í sátt þegar stórir hnappar skjásins gerðu allar skipanir svo miklu auðveldari á ferðinni. Þar til bíllinn tilkynnti að mér hefði borist tölvupóstur og hvort ég vildi ekki lesa hann. Fyrir utan að nú á að áttfalda sektarupphæðir fyrir afglöp undir stýri samanborið allt símabras, fannst mér það algjörlega fjarstæðukennt að lesa og hvað þá svara tölvupósti á ferð.

Augljóst er að Toyota hefur ákveðið að leggja vel í innri búnað C-HR sem er afar vel heppnaður.

C-HR er búinn einum kosti sem ég hef ekki fundið í neinum öðrum bíl í sama stærðarflokki. Ökumaðurinn situr nógu hátt til að losna við tilfinninguna að rassinn sé við það að skrapa malbikið. Það er líka mjög auðvelt að setjast inn í hann og standa upp, sem er alveg yndislegt fyrir fótafúna ökumenn eins og mig. Þetta skiptir alveg ótrúlega miklu máli.

C-HR er búinn einum kosti sem ég hef ekki fundið í neinum öðrum bíl í sama stærðarflokki. Ökumaðurinn situr nógu hátt til að losna við tilfinninguna að rassinn sé við það að skrapa malbikið. Það er auðvelt að setjast inn í hann og standa upp, sem er alveg yndislegt fyrir fótafúna ökumenn eins og mig.

En að helsta galla C-HR: Buxunum, eða stuttbuxunum (ef svo má að orði komast). Skottpláss er af skornum skammti. Sé litið á upprunalega markhóp bílsins, ungt fólk í borgum, þá er þetta þónokkur ókostur því erfitt er að koma til dæmis barnakerru fyrir.

Fyrir utan það, er C-HR yndislegur bíll sem auðvelt er að líka vel við. Það er gott að keyra hann, hann er eyðslugrannur, vel heppnaður í útliti að innan sem utan, og svo er þetta Toyota. Og varðandi verðið … Ef þér líkar ekki við hann geturðu alltaf selt hann aftur, mögulega með hagnaði því slíkt eru endursölugildi Toyota hér á landi.

Eitt helsta einkenni C-HR eru afturljósin sem eru einn af þessum hlutum sem maður annað hvort elskar eða hatar.

Safna milljón króna fyrir bjór

Bjórnördinn Hjörvar Óli Sigurðsson og kvikmyndagerðarmaðurinn Árni Theódórsson safna nú fyrir gerð heimildarþátta um bjór á Íslandi á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund. Þættirnir heita einfaldlega Öl-æði, en þeir Hjörvar og Árni stefna að því að safna átta þúsund Evrum á Karolina Fund, eða tæplega milljón króna.

Hjörvar Óli segir í samtali við Mannlíf að þessi tæpa milljón fari í kostnað við tökur á þáttunum.

„Áætlunin er svo að þriðji aðili fjármagni eftirvinnslu og fái einhvern dreifingarrétt,“ segir hann, en óvíst er hvar þættirnir verða sýndir ef fjármögnun tekst á Karolina Fund.

„Það er ekkert staðfest eins og er,“ segir þessi sjálfskipaði bjórnörd mjög dulur og bætir við að viðræður séu hafnar við eina af stóru sjónvarpsstöðvunum.

Í Öl-æði verður fjallað um sögu bjórs á Íslandi og öll brugghús landsins heimsótt, en þeim hefur heldur betur fjölgað síðasta áratuginn eða svo. Hjörvar Óli hefur gífurlegan áhuga á bjór, en segir að þættirnir eigi að ná bæði til þeirra sem vita ekkert um drykkinn en líka þeirra sem hafa brennandi áhuga á þeim fjölmörgu, mismunandi tegundum sem til eru af mjöð.

Hægt er að styrkja verkefnið inni á vefsíðu Karolina Fund en söfnuninni lýkur þann 5. maí næstkomandi. Þeir sem leggja sittt af mörkum geta tryggt sér ýmsa bjórtengda glaðninga, svo sem kvöldverð á Ölverk, kassa af íslenskum bjór og heimsókn í Bjórböðin á Árskógssandi.

„Ákveðinn kostur að vera orðin svona gömul“

||
||

Andleg uppbygging ekki síður mikilvæg.

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, 53 ára hjartalæknir, er í landsliðinu í utanvegahlaupum ásamt sjö öðrum hlaupurum og þann 12. maí næstkomandi munu þau taka þátt í heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum á Spáni.

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir er í landsliðinu í utanvegahlaupum.

Hlaupaleiðin er 85 km í Penyagolosa-þjóðgarðinum í Castellón-héraði austarlega á Spáni. Leiðin liggur inn í land á stígum sem sumir hverjir eru fornar pílagrímsleiðir. Samtals hækkun er um 5000 m með lækkunin sem nemur 3600 m. „Þetta er mitt lengsta hlaup fram til þessa og undirbúningurinn hefur falist í lengri og skemmri hlaupum, með áherslu á að hlaupa utanvega og takast á við talsverðar hækkanir. Það er mikilvægt að ná nokkrum æfingum þar sem maður er lengi að, jafnvel 4-6 klukkustundir eða lengur því maður þarf að venjast því að vera á lengi á ferðinni,“ segir Þórdís sem er á lokaspretti undirbúnings fyrir keppnina.

Auk hennar eru í liðinu Elísabet Margeirsdóttir, Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, Hildur Aðalsteinsdóttir, Sigríður Björg Einarsdóttir, Guðni Páll Pálsson, Daníel Reynisson og Sigurjón Ernir Sturluson. Liðsstjórinn er Friðleifur Friðleifsson, einn af okkar öflugustu utanvegahlaupurum. „Við erum með nokkuð mismunandi æfingaáætlanir en við stelpurnar höfum náð nokkrum löngum góðum hlaupum saman sem er hvetjandi og skemmtilegt. Á löngu æfingunum æfir maður ekki bara hlaupið sem slíkt heldur prófar sig líka áfram með næringu og fatnað. Ég reyni líka að læða inn einni og einni hjóla- eða sundæfingu til að dreifa álaginu á skrokkinn og til tilbreytingar. Einnig þarf maður að huga að því að byggja sig upp andlega, reyna að horfa á sínar sterku hliðar og takast á við hlaupið í huganum,“ segir Þórdís. Hún var einnig í landsliðinu í fyrra en þá fór keppnin fram í Toscana og voru hlaupnir 50 kílómetrar með tæplega 3000 m hækkun. „Ég var bara nokkuð sátt við hvernig mér gekk, þrátt fyrir heldur hærra hitastig en við eigum að venjast. Ekkert kom upp á í hlaupinu, ég kom sterk í mark, leið eins vel og manni getur liðið eftir svona langt hlaup og var alveg ótrúlega hamingjusöm. Mér fannst þetta svo jákvæð upplifun, góð stemning í liðinu og frábær stemning í fjallaþorpinu þar sem hlaupið fór fram og ég er að vonast til að fá að upplifa eitthvað svipað aftur á Spáni.“

„Því fylgir ákveðin áskorun að hlaupa utanvega í allskyns færi og veðri en því fylgir líka meira frelsi. Þú starir ekki á klukkuna til að fylgjast með hraðanum á sama hátt og í götuhlaupi og það er miklu auðveldara að gleyma sér og njóta.“

Áskorun að hlaupa utanvega
Keppninsmanneskja hefur blundað í Þórdísi alla tíð og sem unglingur og fram á fullorðinsár keppti hún í frjálsum íþróttum. Hún náði bestum árangri í hástökki, stökk 1,74 m, og keppti líka í 800 m hlaupi og grindahlaupi. „Eftir að frjálsíþróttaferlinum lauk spilaði ég körfubolta með Stúdentum í nokkur ár en eftir að börnin fæddust og ég fór í sérnám fór ég að hlaupa mér til heilsubótar. Ég setti markið á að taka árlega þátt í Göteborgsvarvet sem er stærsta hálfmaraþon í heimi og fer fram á hverju vori í Gautaborg þar sem ég bjó í tólf ár. Ég fór síðan að æfa hlaup meira markvisst eftir að hlaupahópur FH var stofnaður en ég mætti að sjálfsögðu á fyrstu æfinguna hjá hópnum í janúar 2010.  Til að byrja með stundaði ég aðallega götuhlaup, en ég held að áhuginn á utanvegahlaupunum hafi kviknað alvarlega í tengslum við að ég hljóp Jökulsárhlaupið, 32,7 km, þá um haustið. Annars hef ég alltaf haft áhuga á útivist og eftir því sem ég hef orðið eldri hefur áhuginn á lengri keppnum og æfingum aukist og fjalla- og utanvegahlaup sameina svo sannarlega þetta tvennt. Því fylgir ákveðin áskorun að hlaupa utanvega í allskyns færi og veðri en því fylgir líka meira frelsi. Þú starir ekki á klukkuna til að fylgjast með hraðanum á sama hátt og í götuhlaupi og það er miklu auðveldara að gleyma sér og njóta. Kostirnir við utanvegahlaupin eru líka þeir að álagið á skrokkinn er öðruvísi en við götuhlaup, en þau reyna líka á jafnvægi og útsjónarsemi. Ég held þau henti flestum, ungum sem öldnum, en maður verður bara að prófa til að komast að því. Þá er ábyggilega gott að vera í góðum félagsskap til að byrja með.“

Þórdís ásamt liðsfélögum sínum Hildi Aðalsteinsdóttur, Elísabetu Margeirsdóttur og Ragnheiði Sveinbjörnsdóttur á æfingu á Hengilssvæðinu.

Leggur allt í sölurnar
Markmið Þórdísar fyrir heimsmeistaramótið á Spáni er að mæta vel undirbúin til leiks og eiga góðan dag þar sem allt gengur upp. „Og njóta. Ég geri mér grein fyrir að ég er ekki að fara að vinna til verðlauna og að hlaupið verður afar krefjandi en ef tilfinningin eftir hlaupið verður sú að ég hafi lagt allt í sölurnar og uppskorið í samræmi við það, verð ég sátt. Ég hlakka líka til að sjá hvernig liðsfélögum mínum gengur,“ segir Þórdís.

Annars er keppnin á Spáni bara byrjunin á sumrinu. Þórdís stefnir á að hjóla Vatternrunduna, 300 km, í júni, auk þess að hlaupa Laugaveginn og fleiri utanvegahlaup í sumar. „Svo er aldrei að vita nema ég skelli mér í þríþraut erlendis í september,“ segir hún hress í bragði. Og hún fær dyggan stuðning að heiman. „Það er ómetanlegt að njóta góðs stuðnings frá sínum nánustu og ég get ekki sagt annað en að á heimilinu ríki mikill skilningur á að ég verji miklum tíma í æfingar. Svo er náttúrlega ákveðinn kostur að vera orðin svona gömul eins og ég er, börnin eru orðin fullorðin og því slepp ég alveg við að útvega pössun til að geta stundað mínar íþróttir.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson og úr einkasafni

Nýtt blað um fasteignir

Nýtt og glæsilegt fasteignablað fylgir áttunda tölublaði Mannlífs sem kom út í dag.

Í blaðinu er að finna greinagóðar upplýsingar um áhugaverðar og vandaðar fasteignir sem eru á skrá hjá fasteignasölum landsins í bland við innlit og aðrar áhugaverður greinar úr smiðju ritstjórnar Húsa og híbýla.

Fasteignablað Mannlífs er unnið í samstarfi við stærstu fasteignasölurnar og verður eftirleiðis vikulegt fylgiblað blaðsins.

Þá verður blaðið einnig aðgengilegt á vefsíðu Mannlífs.

Einstakt einbýlishús við Elliðaárnar, eina af fegurstu náttúruperlum borgarinnar

Eign vikunnar er Heiðarbæ 17 í Reykjavík. Húsið er sérstaklega vel staðsett í enda götu alveg niðri við Elliðaárnar. Húsið er allt endurnýjað til fyrirmyndar, nútímatæki, miklir gluggar og nálægðin við Elliðaárnar og Elliðaárdalinn er alveg einstök. Húsið stendur á sérstaklega skjólstæðum stað og hverfið mjög rólegt. Einstakt hús við náttúruperlu Reykjavíkur sem heillar. Staðsetningin býður upp á fjölbreytta hreyfingu úti við og fjölmargar gönguleiðir eru í nánd, meðal annars að Árbæjarsafninu svo fátt sé nefnt.

Skemmtilegur bókaveggur.

Húsið er samtals 279,5 fermetrar að stærð á einni hæð auk 15 fermetra lagnakjallara. Nánast allt hefur verið endurnýjað, allar lagnir, þak, innréttingar, gólfefni, verönd, garðurinn og bílskúr og útkoman er til fyrirmyndar. Húsið prýða miklir og gólfsíðir gluggar og einkar fagurt útsýni er yfir Elliðaárnar og dalinn, sem er himneskt að njóta. Húsið er með fallegum og vönduðum hvítum innréttingum og rýmið er bjart og stílhreint. Umhverfið við húsið er einstakt og húsið stendur þannig að það er sérstaklega skjólsælt og hverfið afar rólegt. Stutt er í alla þjónustu, skóla, íþróttaaðstöðu og vinsælt útivistarsvæði með göngu- og hjólastígum sem tengja allt höfuðborgarsvæðið. Einstakt hús við náttúruperlu Reykjavíkur sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Bjart rými.

Útsýnið með því fegursta

Á fyrstu hæð þegar gengið er inn að finna gestasnyrtingu, herbergi og þvottahús. Einnig er eldhúsið á fyrstu hæð í opnu alrými sem er aðalrými hússins, þar eru stórir, gólfsíðir gluggar sem eru opnalegir með stórum rennihurðum sem dásemd er að opna út á verönd á góðvirðisdögum. Það gefur húsinu skemmtilega nýtingu að hafa þessa viðbót. Þar er himneskt útsýni út frá veröndinni og náttúrufegurðin skartar sínu fegursta. Í þessu opna alrými er einnig rúmgóð stofa og borðstofa, þar er aukin lofthæð og gluggarnir til suðurs þar sem útsýnið er fagurt. Einnig er í stofunni fallegur arinn sem settur svip sinn á rýmið.

Hátt til lofts og stórir gluggar.

Nýjustu tækin frá Vola prýða baðherbergin

Í húsinu eru þrjú baðherbergi, hvert öðru smekklegra og öll eru þau flísalögð í hólf og gólf. Öll baðherbergin er búin nýjustu tækjum frá Vola. Fjögur svefnherbergi eru í húsinu, tvö rúmgóð barnaherbergi með fataskápum og hjónasvíta með sérbaðherbergi og svo er andyrisherbergi, sem nýtist einkar vel.

Húsið er endurnýjað og allt til fyrirmyndar, nútímatæki, miklir gluggar og nálægðin við Elliðaárnar og dalinn er alveg einstök.

Himneskur garður

Garðurinn er sérstaklega skjólsæll og sólríkur og draumur allra er að eiga garð eins og þennan. Garðurinn er með gróðri, skjólsæll og sólríkur og þar er veröndin mjög stór, flísalögð og ráð er gert fyrir heitum potti og útisturtu sem er mikill kostur. Húsinu fylgir einnig rúmgóður bílskúr með rafdrifinni hurð og sem á við. Eign sem vert er að skoða og sjón er svo sannarlega sögu ríkari.

Eign vikunnar er til sölu á hjá BORG Fasteignasölunni.

Falleg eign á góðum stað.

Erfitt að vita hverjir sóðarnir eru

||
Úrangur - Myndin tengist frétt ekki beint

Íslensk fyrirtæki eru skikkuð, samkvæmt lögum, til að huga að umhverfi sínu. Heilbrigðiseftirlitið getur hins vegar ekki tekið saman gögn um hvaða fyrirtæki huga að umhverfi sínu og hver eru umhverfissóðar.

Guðjón Ingi Eggertsson, heilbrigðisfulltrúi í umhverfiseftirliti hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

„Við höfum reglulega afskipti af fyrirtækjum vegna umgengni eða úrgangs á lóð,“ segir Guðjón Ingi Eggertsson, heilbrigðisfulltrúi í umhverfiseftirliti hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.  „Umgengni við mörg fyrirtæki er til fyrirmyndar, ásættanleg við önnur og svo eru alltaf dæmi þar sem umgengni gæti við betri og jafnvel mun betri en raunin er. Ef í ljós kemur í eftirliti að umgengni er ábótavant er ávallt gerð krafa um að bætt sé úr.“

Guðjón segir hins vegar erfitt að segja til um hvort umhverfiseftirlitið hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi oft eða sjaldan afskipti af fyrirtækjum vegna umgengni eða úrgangs á lóð vegna annmarka á skráningarkerfi eftirlitsins. „Því miður er skráningarkerfi Heilbrigðiseftirlitsins þannig gert að mjög takmarkað er hvað hægt er að taka út af upplýsingum. Meðal annars er ekki hægt með einföldum hætti að taka sérstaklega út kvartanir vegna lóða eða umgengni við fyrirtæki,“ segir hann og nefnir sem dæmi að ef athugasemdir eru gerðar í reglubundnu eftirliti sé það skráð í eftirlitsskýrslu en ekki skráð sem kvörtun.

„Ég held líka að auglýsingin hafi hreyft við fólki. Um helgina var fullt af fólki sem tíndi mörg tonn af rusli. Þetta var venjulegt fólk að tína um allt land, því blöskrar skíturinn.“

Vegna fyrrgreindra annmarka á skráningarkerfi eftirlitsins er um leið ógerlegt að sjá hvaða fyrirtæki í borginni brjóta, jafnvel ítrekað, reglugerðir eða lög sem skikka fyrirtæki til að huga að umhverfi sínu. En sem dæmi um slíka reglugerð má nefna 16. grein reglugerðar Umhverfis- og auðlindaráðuneytis, sem gerir umráðamönnum fyrirtækjalóða skylt að halda lóðunum hreinum og snyrtilegum.

Fólki blöskrar skíturinn
Á Facebook hefur plokkurum verið tíðrætt um rusl í nágrenni við fyrirtæki í þéttbýli. Þar á meðal Einar Bárðarson sem er einn af þekktustu plokkurum landsins og stofnandi Plokk á Íslandi. „Við sem samfélag höfum smitast rosalega hratt af sorpblindu,“ segir hann. „Við sjáum ekki skítinn.“

Á Facebook hefur plokkurum verið tíðrætt um rusl í nágrenni við fyrirtæki í þéttbýli. Einar Bárðarson tekur undir umræðuna en segir að nokkur fyrirtæki hafi þó í gegnum tíðina haldið hreinsunardag þar sem tekið er til í nærumhverfi þeirra. Þau fyrirtæki eigi hrós skilið.

Um síðustu helgi hvatti Einar með opnuauglýsingu í dagblöðum eigendur og stjórnendur fyrirtækja að ganga í lið með plokkurum og velja einn dag í vor til að standa að allsherjar vorhreinsun í nærumhverfi fyrirtækjanna. Í auglýsingunni var tekið sem dæmi að fyrirtæki gætu boðið fólki að taka eina aukavakt til vinnu af þessu tilefni og hreinsa til í kringum fyrirtækið.

„Stjórnendur fyrirtækja tóku almennt vel í þetta,“ segir hann. „Ég held líka að auglýsingin hafi hreyft við fólki. Um helgina var fullt af fólki sem tíndi mörg tonn af rusli. Þetta var venjulegt fólk að tína um allt land, því blöskrar skíturinn.“

Spurður hvernig hægt sé að bæta ástandið, segir Einar að sveitarfélög og fyrirtæki sem sjái um sorphirðu geti til dæmis unnið saman að því að bæta ruslatunnur með teygjum yfir lok eða annað sem hindrar að þær opnist við að fjúka á hliðina þannig að innihaldið dreifist um allt. Eins geti fólk haft augun opin fyrir rusli þegar það ekur í vinnuna. Við það aukist næmni þess fyrir umhverfinu.

Getur krafist lagfæringa og viðgerða
Þess má geta að heilbrigðisnefnd getur krafist lagfæringa og viðgerða á lóðum, girðingum og mannvirkjum, ef nauðsynlegt þykir til þrifnaðar eða ef ástand þeirra er til lýta fyrir umhverfið. Nefndin getur jafnvel látið hreinsa einkalóðir á kostnað eigenda telji nefndin þess þörf vegna mengunar og óhollustu.

Að auki er að finna ákvæði í almennum starfsleyfisskilyrðum Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur fyrir mengandi atvinnurekstur sem taka á úrgangi og umgengni. Þau skilyrði fylgja með starfsleyfi allra fyrirtækja sem fá starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Hafa safnað 40 millljónum

Forsvarsmenn Lýðháskólans á Flateyri hafa safnað um fjörutíu milljónum sem dugar til að reka skólann í eitt ár. Formaður samtaka lýðháskóla í Danmörku og skólastjóri Ubberup-lýðháskólans segir að lýðskólar auki breidd í námi og dragi úr brottfalli úr því.

„Við erum búin að tryggja fyrsta starfsár Lýðháskólans á Flateyri. En svo hníga öll rök til þess að nám við lýðháskóla verði fjármagnað eins og annað nám á Íslandi, með mótframlagi frá ríkinu,“ segir Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Lýðháskólans á Flateyri.

Forsvarsmenn skólans hafa safnað um fjörutíu milljónum sem dugar til að reka skólann í eitt ár. Stór hluti af fénu kemur frá sveitarfélögum á Vestfjörðum, Ísafjarðarbæ, Bolungarvík og Súðavík en svo leggja stéttarfélög í púkkið. Margir íbúar á Flateyri styrkja hann líka mánaðarlega. Skólinn er nýstofnaður og tekur til starfa í haust.

Runólfur var á meðal mælenda á ráðstefnu LungA-skólans á Seyðisfirði, Lýðháskólans á Flateyri og UMFÍ um lýðháskóla á Íslandi í vikunni. Lög um lýðháskóla hafa aldrei verið fest hér á landi en stefnt er að því að mæla fyrir frumvarpi um það fyrir þinglok.

Lisbeth Trinskjær, formaður samtaka lýðháskóla í Danmörku og skólastjóri Ubberup-lýðháskólans, var með erindi á ráðstefnunni. Hún sagði mikilvægt að hafa lýðháskóla hér. Það muni auka mjög breidd í námi og draga úr brottfalli úr því. En ímynd skólanna verði að breytast hér. Á Íslandi sé litið á lýðháskóla sem kost fyrir námsfólk sem eigi erfitt með að fóta sig. Öðru máli gegni í Danmörku. Þar sendi forstjórar stórfyrirtækja og efnameira fólk börn sín í miklum mæli í lýðháskóla því víðsýni þeirra aukist til muna.

Mynd: Runólfur Ágústsson var á meðal mælenda á ráðstefnu LungA-skólans á Seyðisfirði, Lýðháskólans á Flateyri og UMFÍ um lýðháskóla á Íslandi í vikunni. Hann segir mikilvægt að ríkið styðji við bakið við lýðháskólum hér með sama hætti og gert er í Danmörku.

Æskuvinkonur ætla að gera Ísland kvartlaust

|
|

Þuríður Hrund Hjartardóttir og Sólveig Guðmundsdóttir taka sér bandarískan prest til fyrirmyndar og reyna að hætta að kvarta og kveina í 21 dag samfleytt. Þær hafa fallið margoft á leið sinni til kvartleysis en finna mikla breytingu á sinni innri líðan.

„Það er skemmst frá því að segja að þessi áskorun hefur breytt lífi okkar beggja til hins betra, og allra sem standa okkur nærri. Að uppgötva það hversu mikið maður í raun kvartar og að hafa einfalt og gott tæki til að vinna með það er ólýsanlega frábært í alla staði,“ segir Þuríður Hrund Hjartardóttir, alþjóðamarkaðsfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Icepharma.

Þuríður fór, ásamt Sólveigu Guðmundsdóttur, iðnhönnuði og eiganda Culiacan Mexican Grill, nýverið af stað með verkefnið Kvartlaus. Markmið verkefnsins er einfalt – að hætta að kvarta, en fyrirmynd þess er verkefnið A Complaint Free World, áskorun sem kemur úr smiðju Bandaríkjamannsins Will Bowen.

„Í byrjun febrúar sagði Sólveig mér frá snilldaráskorun sem prestur í Kansas fór af stað með fyrir nokkrum árum en það snýst um það að kvarta ekki í 21 dag samfleytt. Þessi áskorun hefur náð til yfir ellefu milljón manna. Okkur fannst þetta svo frábær hugmynd að við ákváðum að skora hvor á aðra og skuldbinda okkur að komast í gegnum 21 dag,“ segir Þuríður en þær Sólveig hafa verið vinkonur síðan í níu ára bekk og þekkjast því mæta vel.

Fall er óumflýjanlegt

Will Bowen byggir hugmyndafræði sína á því að vísindamenn hafi sannað að ef maður nær að halda sömu hegðun eða mynstri í 21 dag samfleytt verði það að vana. Will þessi lét hanna sérstök kvartlaus armbönd og gengur átakið út á það að færa armbandið frá öðrum úlnliðnum á hinn um leið og maður kvartar. Ef maður fellur, byrjar maður aftur á degi eitt í kvartleysi. Sólveig og Þuríður selja nú þessi armbönd á vefsíðu sinni kvartlaus.is, en Þuríður bætir við að skilgreiningin á kvarti sé mjög niðurnjörvuð í þessari hugmyndafræði.

„Það er sem sagt bannað að kvarta og bannað að tala illa um aðra. Will segir að þegar að maður slúðrar sé maður í raun að segja að maður sé betri en viðkomandi og það er flokkað sem kvart,“ segir Þuríður. Hún bætir við að þetta sé alls ekki eins einfalt og það hljómi. „Það skal tekið fram að þetta er ekki einfalt og við höfum fallið ótal oft á leiðinni, ég síðast í gær,“ segir Þuríður og hlær. „En það er hluti af þessu. Það er ekki séns að komast í gegnum þetta án þess að falla á leiðinni.“

Betri samskipti og meiri ró

Bandaríski guðfaðir kvartleysis segir það taka að meðaltali fjóra til sex mánuði fyrir fólk að hætta að kvarta í 21 dag samfleytt. Það liggur því beinast við að spyrja Þuríði hvert markmið þessara íslensku lærisveina sé?

„Við viljum gera Ísland kvartlaust fyrir árslok. Verðum við ekki að hugsa stórt? Þó að við myndum ekki ná nema tíu prósentum af þjóðinni yrði allt svo miklu betra,“ segir hún og bætir við að kvartleysið hafi haft góð áhrif á einkalífið, þrátt fyrir bakslögin.

„Við höfum verið að þessu síðan í febrúar og finnum báðar að það er allt önnur stemning inni á heimilum okkar. Það eru allir glaðari, meiri ró yfir heimilisfólkinu og á heildina litið erum við betri í samskiptum, þó að sjálfsögðu sjóði stundum upp úr. Það gerist samt sjaldnar en áður og það er það sem skiptir máli. Þegar maður eyðir minni tíma í að kvarta, hefur maður meiri tíma til að vera glaður.“

Armböndin sem eiga að hjálpa til við að hætta að kvarta.

Kvart og kvein

* Meðalmaðurinn kvartar 15 til 20 sinnum á dag.
* Rannsóknir hafa sýnt að fólk getur orðið reiðara ef það kvartar mikið.
* Rannsóknir hafa einnig sýnt að það að pústa við vin getur valdið mikilli streitu bæði hjá þeim sem pústar og þeim sem hlustar.
* Kvart og nöldur er oft ofarlega á blaði þegar kannað er hver helstu vandamál innan sambanda séu.

Það sem býr á bak við brosið

||||||
||||||

„Ég er ekki hræddur. Ég er samt ekki óhræddur. Ég er mjög spenntur og með mikinn fiðring í maganum yfir þessari ferð. Þessi spennutilfinning er sambland af gleði og óvissu því þessi keppni er óútreiknanleg. Það eina sem ég get gert er að gera mitt besta,“ segir söngvarinn Ari Ólafsson.

Það ætti að vera flestum Íslendingum kunnugt að Ari er fulltrúi Íslands í Eurovision-keppninni í ár. Ari kom, sá og sigraði með laginu Heim, sem síðar varð Our Choice á ensku, og flytur það á stóra sviðinu í Lissabon í Portúgal á fyrra undanúrslitakvöldinu þann 8. maí næstkomandi. Ef allt gengur að óskum fær Ari að flytja það í annað sinn í úrslitunum sem fara fram laugardagskvöldið 12. maí.

Hrakfallabálkur sem barn

Ari er Reykvíkingur í húð og hár, en ólst einnig að hluta til upp í Orlando á Flórída hjá afa sínum.

„Ég ólst í raun upp á þremur stöðum. Ég átti heima niðri í bæ, á Laufásveginum, þar til ég var sex ára. Ég eyddi líka mjög miklum tíma úti í Bandaríkjunum hjá afa mínum og síðan fluttum við fjölskyldan á Kvisthaga þegar ég byrjaði í grunnskóla svo ég gæti gengið í Melaskóla. Og líka svo ég gæti gerst KR-ingur,“ segir Ari og hlær. „Pabbi minn er mikill KR-ingur og ég æfði fótbolta frá sex ára aldri. Ætli ég verði ekki KR-ingur fram í rauðan dauðann. Ég kemst ekki upp með neitt annað,“ bætir hann við.

Ari á einn yngri bróður og býr með honum og foreldrum sínum í grennd við JL-húsið í Reykjavík. Hann segir það fljótt hafa komið í ljós að hann væri með ADHD þar sem hann var oft frekar utan við sig sem krakki.

Brosið hans Ara hefur heillað fólk út um alla Evrópu.

„Ég var mjög glaður krakki. Ég var alltaf hlæjandi og brosandi,“ segir Ari, en þetta skæra og einlæga bros hans vann ekki aðeins hug og hjörtu Íslendinga heldur hefur það vakið athygli út fyrir landsteinana í aðdraganda Eurovision. „Það var rosalétt að vera með mig. Það var hægt að setja mig niður fyrir framan hvað sem er og ég bjó til eitthvað úr engu. En ég var alltaf að slasa mig. Ég er frekar óheppinn þegar kemur að meiðslum. Ég hef brotið handlegginn á mér um það bil sex til sjö sinnum,“ segir Ari og byrjar að telja upp öll brotin, sem hafa verið allt frá knjúkum og upp að öxl. „Þetta er líka alltaf sama höndin. Alltaf vinstri,“ segir Ari og brosir. „Líklegast tengist þetta eitthvað því hvað ég var utan við mig sem barn. Ég var ekki alveg að fylgjast með umhverfinu alltaf. Ég klifraði mikið og prílaði og gerði ýmislegt sem önnur börn myndu kannski ekki gera.“

Kallaður illum nöfnum í grunnskóla

Þótt Ari sé aðeins nítján ára gamall hefur hann talsverða reynslu af því að koma fram. Hann lék Oliver Twist í samnefndum söngleik í Þjóðleikhúsinu þegar hann var ellefu ára gamall og tveimur árum síðar spreytti hann sig í verkinu Galdrakarlinum í Oz í Borgarleikhúsinu. Nokkru síðar söng hann með norsku stórstjörnunni Sissel Kyrkjebø á tónleikum í Eldborg á 60 ára afmælistónleikum söngkennarans síns, Bergþórs Pálssonar. Ara segist líða best á sviði, en hins vegar fékk hann að líða fyrir þessa velgengni í grunnskóla.

„Ég var rosaóöruggur með mig þegar ég var yngri en það tengist því að ég lenti í einelti í skóla út af því að ég var í söngleikjum. Ég veit ekki hvort fólk öfundaði mig en það kallaði mig illum nöfnum og ég skar mig alltaf úr,“ segir Ari. Hann segir það líka miður að skólakerfið hafi ekki verðlaunað hann fyrir að standa sig vel í listrænum greinum og telur að íslensk menntayfirvöld megi gera betur í þeim efnum.

Ari lenti í einelti í grunnskóla.

„Ef krakkar hafa markmið sem þeir eru verðlaunaðir fyrir að ná, hvort sem það er í bóklegum fögum, listgreinum eða íþróttum, þá munu þeir sjálfkrafa standa sig betur og blómstra í því sem þeir eru góðir.“

Eftir grunnskóla lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð þar sem Ari fékk útrás fyrir sína listrænu hæfileika.

„Ég fann mig rosalega mikið í tónlistinni þá. Ég held að þessi seinustu ár hafi verið þau bestu fyrir mig. Ég hef alltaf haft sjálfstraust en þegar ég hugsa til baka þá hefur ekki alltaf verið mikið innistæða fyrir þessu sjálfstrausti. Nú, hins vegar, er ég farinn að taka meira eftir því hvað ég er lánsamur og heppinn í lífinu og ég tek engu sem sjálfsögðum hlut. Ég vil vinna við tónlist og það að stíga upp á svið gerir mig ekki kvíðinn heldur spenntan. Þetta er akkúrat það sem ég vil gera. Ég vil vera uppi á þessu sviði. Það er um að gera að nýta hverja einustu sekúndu því þetta er búið áður en maður veit af,“ segir Ari

Nauðsynlegt að sýna tilfinningar

Ara hefur verið spáð í alls konar sæti í Eurovision, allt frá því fyrsta niður í það neðsta. Þá tvístraðist þjóðin yfir framlaginu þegar hann bar sigur úr býtum í Söngvakeppninni og hlaut lagið slæma dóma í sjónvarpsþættinum Alla leið á RÚV fyrir stuttu. Ari segir vissulega erfitt að finna fyrir mótlæti en hefur tileinkað sér að nýta jákvæðni sem vopn gegn neikvæðni.

„Ég held að það sé mestallt mömmu og pabba að þakka. Mamma er sálfræðingur og pabbi er giftur sálfræðingi,“ segir Ari og hlær. „Ég fékk frekar flott uppeldi en auðvitað er alltaf erfitt að finna fyrir mótlæti. Í söng og leiklist er ég að tjá tilfinningar mínar. Ég er berskjaldaður. Ég er veikastur en einnig glaðastur og mitt besta sjálf þegar ég er uppi á sviðinu. Þegar fólk bregst illa við þá er það alltaf erfitt, en það er skemmtilegt að það jákvæða vegur alltaf meira en það neikvæða. Hins vegar virðist fólk alltaf einblína meira á það neikvæða, sem er algjörlega ekki það sem maður á að pæla í,“ segir Ari og við rifjum upp þá umræðu sem skapaðist þegar Ari grét af gleði í beinni útsendingu vegna velgengni í Söngvakeppninni.

„Þá komu neikvæðar raddir upp á yfirborðið en þær jákvæðu voru svo margar að þær þögguðu niður í leiðindaskapnum. Það er það sem skiptir máli, að fólk standi saman og líti á það jákvæða. Ég er alltaf að átta mig meira og meira á því að það jákvæða í lífinu skiptir meira máli en það neikvæða. En ég er ánægður með að þessi umræða spratt upp og ég vil tala um þetta. Fólk á ekki að vera hrætt við að sýna tilfinningar og vera það sjálft. Maður á að hlæja þegar mann langar til að hlæja og vera leiður þegar mann langar að vera leiður. Sumt fólk er svo hrætt við að vera leitt að það er alltaf glatt, en það er ekkert á bak við gleðina. Það er hollt að finna fyrir reiði, pirringi og leiða en ekki leyfa þessum tilfinningum að stjórna sér. Maður þarf að finna fyrir þeim, átta sig á þeim og stjórna þeim. Þetta er það sem móðir mín hefur kennt mér allt mitt líf út af öllu sem ég hef gengið í gegnum. Maður getur nefnilega ekki stjórnað öðru fólki, maður getur bara stjórnað sjálfum sér,“ segir Ari, en þessi neikvæðni um tárin sem láku niður kinnar hans virtist vera beintengd við gamaldags hugmyndir um karlmennsku, úrelt gildi sem enn lifa góðu lífi.

„Fyrir mér er ekkert til sem heitir karlmennska eða kvenmennska. Þetta eru bara einhver hugtök, einhverjar ranghugmyndir sem fólk er með. Snýst lífið ekki frekar um hvernig manneskjur við viljum vera? Viljum við vera umburðarlynd, hjálpa öðrum og taka á móti lífinu af jákvæðni, eða viljum við vera sjálfselsk og leiðinleg? Á endanum verður hver að velja fyrir sig og ég ætla að velja rétt.“

Spenntur að hitta Rybak

Síðan Ari fór með sigur af hólmi í Söngvakeppninni hefur hann haft í nægu að snúast. Þegar hann lítur til baka og rifjar upp augnablikið þegar sigurvegarinn var tilkynntur kemur fallegt blik í augu söngvarans.

Ari heillaði þjóðina í Söngvakeppninni. Mynd / RÚV

„Það var ólýsanleg tilfinning sem skaust inn í hjartað mitt. Ég fékk svona sigurtilfinningu, eins og ég hefði sigrast á heiminum. Eins og ég hefði sigrast á sjálfum mér. Því mig langaði sjúklega mikið til að vinna og fara út með þennan boðskap og þetta lag. Þegar ég fattaði að ég væri búinn að vinna þá gerði ég mér grein fyrir því hvað ég er lánsamur og hvað þetta yrði gaman. Ég gat ekki beðið eftir að byrja undirbúninginn þannig að við byrjuðum strax daginn eftir. Ég er ekki búinn að fá einn frídag og ég nýt þess í botn. En vissulega kom sú hugsun yfir mig daginn eftir hve mikil ábyrgð hvílir á herðum mínum að vera fulltrúi Íslands í þessari keppni en ég er bara svo glaður að þetta sé að gerast.“

Ari er næstyngstur í Eurovision í ár, en hin spænska Amaia Romero er nokkrum mánuðum yngri en okkar maður. Hann segir aldurinn bæði geta verið ógnandi fyrir aðra en líka geta skapað efa í hans eigin brjósti.

„Ég held samt að það skipti minna máli en meira hvað ég er gamall,“ segir Ari. Eins og áður segir er hann spenntur fyrir keppninni og tilbúinn til að stíga á svið. Það er líka önnur ástæða fyrir því að Ari er fullur tilhlökkunar. Það er nefnilega út af því að eitt af átrúnaðargoðunum hans úr Eurovision-keppninni, Norðmaðurinn Alexander Rybak, er meðal keppanda í ár en hann sigraði eftirminnilega með laginu Fairytale í Moskvu árið 2009 þegar Jóhanna Guðrún vermdi annað sætið með Is it True?

„Ég er ofboðslega spenntur að hitta hann. Það er eiginlega skrýtið hvað ég er rosalega mikill aðdáandi og ég trúi því ekki að ég fái að hitta hann og tjilla með honum,“ segir Ari sem er það spenntur að hann er búinn að ákveða hvað hann ætlar að segja við þetta fiðluspilandi sjarmabúnt. „Ég veit ekki alveg hvernig ég á að koma orðum að þessu, en ég verð að segja honum að ég var ellefu ára þegar ég sá hann keppa og vinna og síðan þá hefur hann verið átrúnaðargoðið mitt. Ég vil samt koma þessu frá mér án þess að honum líði eins og hann sé fjörgamall,“ segir Ari og hlær sínum smitandi hlátri. Þá rifjast einmitt upp eitt handleggsbrotið sem gerðist akkúrat þegar Jóhanna Guðrún og Alexander Rybak kepptust um að komast upp úr undanúrslitariðlinum í Rússlandi um árið.

„Ég var í miðri stúdentsveislu hjá frænda mínum og við ákváðum nokkur að fara út að leika. Við vorum ofan á neti á marki sem slitnaði og markið hrundi. Ég datt ofan á markið og frændi minn datt hinum megin við höndina á mér. Það var járnplata á milli og ég heyrði handlegginn brotna. Þannig að ég missti af undanúrslitunum en ég horfði síðan á úrslitin í sumarbústað í fatla.“

Bankar á dyr hjá Universal Studios

Ari er klassískt menntaður söngvari og fékk að vita það stuttu fyrir Söngvakeppnina að hann væri kominn inn í fimm ára söngnám í hinum virta skóla The Royal Academy of Music í London. Hann flytur utan í haust, úr foreldrahúsum og inn á leigumarkaðinn með tveimur æskuvinum sínum. Saman skipa þeir hljómsveit og sér Ari dvölina í London með rómantískum blæ þar sem þeir vinirnir ætla að einbeita sér 150% að því að búa til tónlist.

„Við eigum fullt af lögum og erum með stúdíó hér heima sem við bjuggum til sjálfir en við höfum aldrei gefið neitt út. Það má segja að við spilum tónlist í ætt við Ed Sheeran og Coldplay, en við notum líka röddina sem hljóðfæri og sumt sem við semjum er í anda Sigur Rósar. Ég held allavega að það séu fáir að flytja svipaða tónlist og við. Við ætlum að búa saman þrír í London og það er eiginlega það sem ég hlakka mest til. Að sofa allir þrír saman í einu herbergi og breyta restinni af íbúðinni í stúdíó,“ segir Ari og bætir við að með þátttöku hans í Eurovision hafi opnast ýmsar dyr fyrir tríóið.

„Ég er að skapa mjög góðan vettvang fyrir okkur núna. Um daginn komst ég til dæmis í samband við yfirmann hjá útgáfufyrirtækinu Universal Studios og var beðinn um að senda efnið okkar á hann. Ef allt gengur að óskum þá gætum við hugsanlega komist á samning, þannig að það er aldrei að vita hvað kemur út úr því. Ég finn allavega að Eurovision opnar ýmsar dyr og þetta snýst um að grípa þau tækifæri sem gefast.“

En er ekki litið niður á Eurovision í hinum klassíska söngheimi?

„Nei, alls ekki. Það gleymist oft að Eurovision snýst mikið um fallegar og einlægar ballöður, sem oft týnast í poppinu því það er fyrirferðarmeira. En við sáum hvað gerðist í fyrra. Salvador Sobral steig á svið með afar fallega ballöðu og náði að tengjast öllum heiminum í gegnum tónlistina. Það er þessi tenging sem er svo falleg og hún skiptir ofboðslega miklu máli.“

Hér eru þau Ari og Þórunn í Eurovision-fyrirpartíi í Ísrael fyrir stuttu. Mynd / Stijn Smulders

Eurovision-gallinn á eftir að vekja athygli

Ari hefur ferðast um Evrópu síðustu daga, ásamt lagahöfundinum Þórunni Ernu Clausen, til að kynna sig og lagið áður en kemur að stóru stundinni í Portúgal.

„Við Þórunn erum búin að fara um allt og skemmta í svokölluðum fyrirpartíum fyrir Eurovision. Ég var úti í tólf daga samfleytt, fór fyrst til London, síðan til Ísrael, svo til Portúgal að taka upp póstkortið fyrir keppnina og endaði í Amsterdam. Þá fór ég heim í tvo daga og hélt síðan út til Madríd. Ég er nýkominn heim og á morgun flýg ég til London að syngja á tónleikum með finnsku Eurovision-stjörnunni Söru Aalto,“ segir Ari, en þegar þetta viðtal er tekið er þriðjudagur. Ari stoppar síðan örstutt á Íslandi þegar hann kemur heim frá London því á laugardaginn flýgur hann rakleiðis til Portúgal þar sem stífar æfingar hefjast.

„Auðvitað er ég þreyttur en þetta er góð þreyta. Ég er sáttur yfir því að hafa svona mikið að gera þannig að þetta er mjög þægileg þreyta. Það er mjög mikilvægt að fara í þessi partí því þegar ég svo kem út til Lissabon þá vita margir blaðamenn hver ég er, sem og hörðustu aðdáendur keppninnar. Þetta skiptir máli upp á það að gera að fólk skrifi um mig og ég komist í viðtöl,“ segir Ari.

Ari nýtur hverrar mínútu í Eurovision-ævintýrinu.

En hverju megum við búast við af atriði Ara úti í Portúgal?

„Atriðið verður ekki alveg eins og það hefur verið, við erum búin að gera nokkrar breytingar. En ég get sagt að ég verð mjög vel klæddur. Ég er mjög spenntur fyrir því að ganga á rauða dreglinum,“ segir Ari sposkur á svipinn. „Við skulum segja að klæðnaður minn verði í anda íslensku þjóðarinnar og ég held að hann eigi eftir að vekja mikla athygli.“

Hugsar um ástvini á sviðinu

Óskabarnið okkar stígur annað á svið í fyrri undanúrslitunum þann 8. maí og er það mál Eurovision-spekinga að riðillinn okkar sé ansi strembinn, svokallaður dauðariðill.

„Já, við erum í dauðasta dauðariðli sem hefur sést í Eurovision. Allir bloggarar eru með þvílíkt skiptar skoðanir um hvernig þessi riðill eigi eftir að fara og margir eru á því að lögin sem endi í tíu efstu sætunum í aðalkeppninni séu í þessum riðli. Ég veit ekkert hvernig þetta mun fara, bara engan veginn,“ segir Ari, sem stefnir að sjálfsögðu að sigri.

Sjá einnig: Þetta eru lögin sem Ari keppir við í Lissabon

„Markmiðið er að vinna. Það hefur alltaf verið markmiðið. Hins vegar er aðalmarkmiðið að ná til fólksins með laginu og að fólkið heima í sófa finni fyrir tengingu við lagið. Ef ég næ bara til einnar manneskju þá hef ég staðið mig vel,“ segir Ari. Það örlar ekki á efa í huga söngvarans þar sem hann trúir á lagið Our Choice alla leið.

„Ég tengi svo mikið við þetta lag og það getur átt við svo margt. Það getur átt við að við séum ekki að tjá tilfinningar okkar og að við séum ekki að leyfa fólki að vera eins og það er. Það tengist femínisma, ofbeldi, einelti og öllu sem við getum bætt í heiminum. Þetta snýst um þetta val að vera partur af lausninni en ekki vandamálinu. Við vitum aldrei hvað næsta manneskja er búin að ganga í gegnum og það er mikilvægt að búa til traust, gagnkvæma virðingu og jákvæðni á milli okkar,“ segir Ari. Hann getur að sjálfsögðu ekki tekið allan heiminn með sér upp á svið þannig að mér leikur forvitni á að vita um hvað hann hugsi þegar hann flytji lagið.

„Ég hugsa um fólkið sem mér þykir vænt um. Ég hugsa um mínar ákvarðanir í lífinu. Sumar hafa ekki verið réttar en sumar hafa verið góðar. Ég hugsa líka um manneskjuna sem ég er að reyna að sannfæra. Ég er að reyna að fá hana til að ganga áfram og inn í ljósið en ekki bælast inni í svartnættinu. Þessi eina manneskja táknar auðvitað allt samfélagið.“

Heldur einkalífinu fyrir sig

Talið berst að ástvinum Ara en hann er mjög náinn fjölskyldu sinni og hefur átt sömu tvo bestu vinina síðan í fyrsta bekk. Hann segist umkringdur góðu fólki og eins og staðan er núna eru sautján fjölskyldumeðlimir og vinir á leiðinni til Portúgal með Ara og sá hópur gæti stækkað á næstu dögum.

„Ég og bróðir minn og foreldrar erum mjög náin og við náum að halda góðum tengslum við aðra í fjölskyldunni. Það er mjög mikilvægt. Þau koma með mér út en einnig kærasta mín og fleiri fjölskyldumeðlimir. Svo koma Bergþór og Albert líka með út, það er ekkert annað í boði,“ segir Ari og vísar í Bergþór Pálsson, söngkennara sinn, og Albert Eiríksson, eiginmann hans. „Bergþór og Albert eru eins og hin hjónin sem eiga mig. Það er rosanæs.“

Ég staldra við og spyr Ara um kærustuna, en söngvarinn hefur lítið tjáð sig um sitt einkalíf í fjölmiðlum.

„Við erum búin að vera saman í rúmlega ár og það er bara æðislegt. Ég tala ekki mikið um það í viðtölum því fólk þarf ekkert að vita um mitt einkalíf. Við viljum bara halda því fyrir okkur.“

Ari lætur ekki mótlætið buga sig.

Gefst aldrei upp

Stuttu eftir að Ari snýr aftur heim frá Portúgal kemur að öðrum stórum áfanga í lífi hans. Hann verður nefnilega tvítugur þann 21. maí næstkomandi.

„Þá verður partí. Ég ætla að halda tvítugsafmælið mitt uppi í bústað með vel völdu fólki og bara hafa gaman,“ segir Ari. Á slíkum tímamótum grípur fólk oft sú löngun að líta yfir farinn veg og Ari er þar engin undantekning.

„Það sem stendur upp úr og það sem ég er stoltastur af er að hafa tekist á við tilfinningar mínar og leyft mér að þora að fara í þetta ævintýri. Ég er ánægðastur með að hafa verið jákvæður og leyft mér að stefna hátt og að vera nógu duglegur til að ná mínum markmiðum. Það er ekki til í mér að gefast upp. Þó að mótlætið sé mikið gefst ég aldrei upp.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Semur leikrit um kynferðislega áreitni: „Mennirnir hér eru töluvert grófari“

||||||
||||||

Karen Erludóttir flutti til Los Angeles í september 2016 til að læra kvikmyndaleiklist í skólanum New York Film Academy. Hún vinnur nú að lokaverkefni sínu þar sem hún safnar saman sögum kvenna af kynferðislegri áreitni. Hún segir Los Angeles vera sitt annað heimili, þó að borgin hafi vissulega sína galla eins og aðrir staðir í heiminum.

Auðvitað er Karen búin að heimsækja Central Perk, enda mikill Friends-aðdáandi.

„Ég er mikið fiðrildi að eðlisfari og hef búið á hinum og þessum stöðum í heiminum og fannst því þessir flutningar ekkert nema spennandi. Það er auðvitað alltaf erfitt að skilja eftir fólkið sem maður elskar, en maður verður að elta draumana sína meðan maður getur. Veðrið hér hjálpar líka heilmikið. Það er erfitt að fá heimþrá þegar maður liggur við sundlaugarbakkann að sleikja sólina,“ segir Karen og hlær.

Heilsteyptari og hamingjusamari

Karen útskrifast í vor með AFA-gráðu í leiklist frá New York Film Academy í Los Angeles. Þó að áherslan í náminu sé á leiklist, lærir Karen flest sem tengist kvikmyndagerð, svo sem leikstjórn, lýsingu, klippivinnu og fleira.

„Það að fara í þetta nám er án efa besta ákvörðun sem ég hef tekið,“ segir Karen sem blómstrar á þessari braut þótt námið taki oft á. „Námið er gífurlega krefjandi, erfitt og ég hef aldrei þurft að gefa jafnmikið af mér, en það er allt þess virði. Í sannleika sagt finnst mér mjög leiðinlegt að ég sé alveg að fara að útskrifast sem er alveg glæný tilfinning, en ég held að það segi allt sem segja þarf,“ segir Karen. Hún bætir við að námið hafi í raun þvingað hana til að fara í mikla og djúpa sjálfskoðun.

„Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart í þessu námi er hvað ég hef kynnst sjálfri mér mikið, eins fáránlegt og það kannski hljómar. Ég hef töluvert meira sjálfstraust en ég hef nokkurn tíma haft og er miklu öruggari í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Ég kem ekki bara út úr náminu sem reyndari leikkona heldur líka sem miklu heilsteyptari og hamingjusamari einstaklingur. Sem er algjörlega ómetanlegt.“

Karlmenn í Los Angeles talsvert grófari

Karen vinnur nú í lokaverkefni sínu, sem felst í því að hún skrifar sitt eigið leikrit og setur það síðan á svið í lok annar. Hún ákvað að sækja innblástur úr tíðarandanum í samfélaginu og #metoo-byltingunni.

„Ég hef ekki mikla reynslu í að semja en ákvað að fyrst þetta er eitthvað sem ég á að gera þá ætla ég að gera það almennilega. Ég vildi því skrifa sögu sem skiptir máli, nýta tækifærið til hins ýtrasta og vonandi hafa einhver áhrif. Ég ákvað því að skrifa um kynferðislega áreitni gagnvart konum þar sem það er eitthvað sem við lendum allar í, á einn hátt eða annan, og það virðist bara vera normið sem það á svo sannarlega ekki að vera,“ segir Karen. Til að fá vissa breidd í verkið ákvað hún að auglýsa eftir sögum kvenna sem lýstu þessari áreitni. Þar kom hún ekki að tómum kofanum.

„Mér fannst ég ekki getað skrifað aðeins út frá minni reynslu og mínu sjónarhorni, svo ég auglýsti eftir sögum frá öðrum konum, því þetta er ekki bara mín saga, þetta er sagan okkar allra. Ég fékk gífurlegt magn af sögum sem ég er rosalega þakklát fyrir, en á sama tíma gera þær mig svakalega reiða. Það sýndi mér bara enn þá frekar hvað það er mikilvægt að tala um þetta, opna augu fólks,“ segir þessi dugnaðarforkur og bætir við að ekki sé of seint að senda henni sögu.

Karen fékk smjörþefinn af bransanum þegar hún fór á Óskarsverðlaunahátíðina fyrr á árinu.

„Ég er enn að taka á móti sögum og hver saga hjálpar. Ég sjálf hef heilt haf af sögum að segja og þá sérstaklega eftir að ég flutti hingað til Los Angeles, þar sem mennirnir hér eru töluvert grófari og það var aðalkveikjan að þessari hugmynd. Viðhorfið þarf að breytast og ég ætla ekki bara að sitja á rassinum og vona að það gerist, svo ég er að reyna að leggja mitt af mörkum. Eins og staðan er núna er þetta bara skólaverkefni, en það er aldrei að vita nema ég fari með þetta eitthvað lengra.“

Lenti næstum í árekstri við Courteney Cox

Los Angeles hefur oft verið kölluð borg draumanna, enda margir sem leggja leið sína þangað eingöngu með drauma um frægð og frama í farteskinu. Því verð ég að spyrja hvort Karen vilji festa rætur í borginni?

„Eins og ég nefndi áðan þá er ég mjög mikið fiðrildi og er því ekki aðdáandi þess að plana langt fram í tímann. Ég vil frekar bara bíða og sjá hvert lífið tekur mig. En eftir útskrift er stefnan tekin heim til Íslands og í sumar verð ég að kenna börnum og unglingum leiklist. Hvar ég verð í haust eða vetur er hins vegar ekki ákveðið. Ég er mjög heimakær þrátt fyrir að vera fiðrildi og mig langar rosalega að geta unnið sem leikkona heima á Íslandi. Ég er þó ekki tilbúin til að kveðja Los Angeles alveg, svo ég kem hingað fljótt aftur,“ segir Karen sem er mjög hugfangin af borg englanna. „Borgin hefur að sjálfsögðu sína galla, eins og hver annar staður, en hér líður mér vel. Los Angeles verður án efa alltaf mitt annað heimili.“

Talandi um borg draumanna, þá hafa sumir þá ímynd af Los Angeles að þar séu stjörnur á hverju horni. Er það rétt?

„Ég myndi kannski ekki segja á hverju horni, en skólinn minn er við hliðina á Warner Brothers Studios og ég bý þar mjög nálægt svo ég hef séð töluvert margar stjörnur. Sem brjálaður Friends-aðdáandi mun það alltaf standa upp úr þegar Courteney Cox/Monica Geller keyrði næstum á mig. Hún varð alveg miður sín, en ég var ekki lengi að fyrirgefa henni þetta. Annars hef ég líka séð Matt LeBlanc, Ellen, Önnu Faris, Celine Dion, Wilson Bethel, Leu Thompson, Margot Robbie, Chris Pratt, Apl.de.ap, Redfoo og marga fleiri,“ segir Karen.

Á góðri stundu með Apl.de.ap úr ofurgrúbbunni Black Eyed Peas.

Sýnd klámmynd í Uber-bíl

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur upplifað í Los Angeles?

„Ég er hreinlega ekki viss um hvort það sé Uber-bílstjórinn sem sýndi mér klámmyndina sem hann lék í, á meðan hann var að keyra, alveg óumbeðinn. Eða komast að því að strákurinn sem bjó í íbúðinni fyrir ofan mig var Íslendingur. Ég meina, við erum nú ekki mörg og Los Angeles er mjög stór borg. Eða þegar ég fann tvífara minn hér og lenti með henni í bekk. Við erum ekki bara mjög líkar útlitslega heldur með nánast sama persónuleika og sama smekk á öllu. Það eru einhver stórundarleg tengsl okkar á milli og við vitum nánast hvað hin er að hugsa öllum stundum,“ segir Karen.

En það skemmtilegasta?

„Úff, það er afar erfitt að velja bara eitt. Eitt af því sem ég mun aldrei gleyma er þegar ég fór á Óskarinn og þegar ég horfði á tökur á Mom-þáttunum í Warner Brothers Studios og var dregin upp á svið. Þeim fannst svo áhugavert að ég væri íslensk, en Ameríkanar gjörsamlega elska okkur, svo þau spurðu mig spjörunum úr um Ísland og báðu mig svo að lokum að syngja fyrir þau á íslensku,“ segir Karen, sem fékk ekki að sleppa við það, enda Óskarsverðlaunaleikkona í leikaraliðinu.

Karen með tónlistarmanninum Redfoo sem er hvað þekktastur úr sveitinni LMFAO.

„Ég syng ekki fyrir framan fólk og neitaði því. Þau tóku hinsvegar ekki neitun sem svari og þegar sjálf Allison Janney var farin að hvetja mig áfram gat ég eiginlega ekki sagt nei. Ég meina, konan var tilnefnd, og vann síðan Óskarinn. Svo ég söng eina íslenska lagið sem mér datt í hug í augnablikinu, Rómeó og Júlíu, án undirspils og í míkrafón fyrir framan sirka þrjú hundruð manns og töluverður hluti þeirra var mikilvægt fólk í bransanum. Það þagnaði hver einasta sála í öllu stúdíóinu og starði á mig. Ég þakka enn fyrir það að hafa ekki liðið út af. En þvílíkt adrenalínkikk sem þetta var,“ segir Karen og brosir þegar hún hugsar um þetta stórkostlega augnablik.

Matvöruverslanir eins og félagsmiðstöðvar

Í náminu sem Karen er í er aðaláhersla lögð á leiklist.

Ísland togar í okkar konu og það er ýmislegt sem hún saknar frá heimalandinu.

„Fyrir utan fjölskyldu mína og vini sakna ég klárlega íslenska vatnsins. Nói Siríus kemst að vísu ansi nálægt vatninu, en samviskan segir að velja vatnið frekar,“ segir Karen og hlær. „Ég sakna líka íslensku menningarinnar mjög mikið. Menningin hér er töluvert ólík, sem kom mér mikið á óvart. Hér verð ég rosalega mikið vör við kynþáttahatur, gömul viðhorf gagnvart konum og bara almennt er mun meira misrétti en á Íslandi. En aftur á móti er fólk mun opnara hér og þú lendir miklu oftar í því að spjalla við bláókunnugt fólk tímunum saman. Það að skreppa inn í matvöruverslun hér getur oft verið eins og að ganga inn í félagsmiðstöð, á meðan þú labbar inn í Bónus heima og segir ekki orð allan tímann. Tækifærin í Los Angeles eru líka endalaus og töluvert meira úrval en heima á Íslandi. Ég gæti, held ég, þulið endalaust upp en Los Angeles og Ísland eru bara afar ólíkir staðir að öllu leyti, það er í það minnsta ekki margt sem þessir staðir eiga sameiginlegt.“

Ævistarfið er leiklistin

Talið berst að framtíðardraumunum og þó að Karen sé mikill flakkari og plani ekki langt fram í tímann er ljóst að leiklistin á eftir að spila stórt hlutverk í lífi hennar.

„Mig hefur alltaf langað að vera leikkona, alveg síðan ég man eftir mér. Aumingja mamma þurfti að horfa á ófá leikritin heima í stofu þegar ég var krakki. Svo þegar hún var hætt að nenna, tók ég þau bara upp á myndavél og horfði svo sjálf. Ég fékk síðan loksins kjarkinn til að sækja um að komast í skólann og sé svo sannarlega ekki eftir því. Ég sé mig ekki gera neitt annað í lífinu.“

Í Los Angeles er alltaf sól og blíða.

Myndir / Úr einkasafni

Dökkir litir ráða ríkjum hjá smart flugfreyju

Blaðamaður Húsa og híbýla kíkti í innlit til Hörpu Guðjónsdóttur flugfreyju og fagurkera sem hefur búið sér og sonum sínum einstaklega glæsilegt heimili. Dökkir litir ráða ríkjum hjá henni og þá sérstaklega svarti liturinn.

Harpa hefur unun af því að fegra heimilið sitt og hún hefur einstaklega næmt auga. Fjölskyldan flutti inn í þetta fallega hús í smáíbúðahverfinu í desember síðastliðnum og síðan þá er Harpa búin að gera töluverðar breytingar á húsinu.

Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar komið er inn í húsið er flott, svart eldhús en í rýminu er einnig mjög töff, svartur flauels sófi sem skapar skemmtilegan karakter í þessu opna rými. Punkurinn yfir i-ið eru Voal-gardínurnar sem hleypa birtunni inn.

Það er kúnst að raða saman húsgögnum og hlutum en það finnst Hörpu sérlega gaman að gera og hún er dugleg að færa til hluti og nostra við heimilið. Hún ferðast mikið vegna vinnu sinnar og nýtir tækifærið reglulega til að versla fallega hluti fyrir heimilið.

„Mér finnst skipta mestu máli skipta að skapa sinn eigin stíl og elta ekki tískubylgjur,“ segir Harpa.

Fékkstu innanhússarkitekt til liðs við þig?

„Ég hafði mjög svo fastmótaðar hugmyndir um hvernig heildarútlitið skyldi vera. Ég hef mjög gaman að hönnun og að fá að skapa og naut mín í botn þegar ég var að hanna útlitið, ég var á heimavelli.

Ég fékk vin minn, Andrés James, sem er innanhússarkitekt, til þess að hjálpa mér með skipulagið á eldhúsinu, það var mikil hjálp í honum. Ég var hinsvegar með efnisvalið á hreinu sjálf og vissi nákvæmlega hvað ég vildi.“

Hvernig myndir þú lýsa stílnum á heimilinu?

„Ég hef algjöra unun af því að nostra við heimilið og myndi segja að ég sé dugleg að blanda saman fínu og grófu, rómantísku og rústik, það finnst mér vera góð blanda. Ég vil hafa heimilið mitt hlýlegt og notalegt, það verður að vera nóg af kertum og blómum, það er eitthvað við blómin sem gerir allt betra.“

Hörpu finnst sérlega gaman að breyta, færa til hluti og nostra við heimilið.

Hvað er mikilvægt í þínum huga þegar kemur að því að innrétta heimilið?

„Mér finnst skipta mestu máli skipta að skapa sinn eigin stíl og elta ekki tískubylgjur. Skipulag verður að vera gott og að það sé samhljómur í því sem maður er að gera, s.s að rýmin tali saman.“

Mynd / Rut Sigurðardóttir

Ertu alltaf að breyta til á heimilinu?

„Eins og ég segi þá hef ég unun af því að skapa og þar kemur sterkt inn að breyta og bæta. Mér finnst mjög skemmtilegt að færa hluti til og nostra við litlu hlutina, raða hlutum saman á fallegan hátt o.s.frv. Þetta finnst mér einfaldlega svo skemmtilegt.“

Dökkir litir ráða ríkjum á heimilinu.

Hvað gerir hús að heimili?

„Mér finnst lykilatriði að mála í litum og að vera með fallegar gardínur; þær eru í raun eins og falleg mubla og setja punktinn yfir i-ið. Eins finnst mér hlýlegt og fallegt að vera með fallegar mottur og myndir á veggjunum. Lýsing er einnig mikilvæg og þá er óbeina lýsingin fallegust. Heimilið á að vera griðastaður þar sem okkur líður vel og hlöðum batteríin í amstri dagsins.“

Harpa fékk vin sinn, Andrés James, til þess að hjálpa sér með skipulagið á eldhúsinu.

Myndir / Rut Sigurðardóttir

Golfkúlur, innkaupakerrur og stigar bannaðir á Eurovision

|
|

Eurovision-keppnin fer fram dagana 8., 10. og 12. maí næstkomandi í Altice Arena-höllinni í Lissabon í Portúgal.

Á opinberri vefsíðu keppninnar hefur verið birtur listi yfir það sem gestir mega ekki taka með sér inn í höllina. Á listanum eru að sjálfsögðu hlutir eins og sprengiefni, vopn og fíkniefni, sem hlýtur að geta talist eðlilegt.

Hér er listinn í heild sinni.

Hins vegar eru líka nokkrir óvenjulegir hlutir á listanum eins og golfkúlur, innkaupakerrur, reipi, stigar, stólar og límband. Regnhlífar, hleðslubankar fyrir síma, fartölvur og framlengingarsnúrur eru einnig stranglega bannaðar.

Netverjar hafa skemmt sér konunlega yfir þessum lista, eins og sjá má hér fyrir neðan:

43 þjóðir keppa í Eurovision að þessu sinni, en í ár er keppnin haldin í 63. sinn. 26 þjóðir komast í úrslitin 12. maí en fulltrúi Íslands er Ari Ólafsson með lagið Our Choice.

Sjá einnig: Þetta eru lögin sem Ari keppir við í Lissabon

Sprenghlægileg kynlífstæki til heiðurs konunglega brúðkaupinu

|||
|||

Leikkonan Meghan Markle gengur að eiga Harry Bretaprins þann 19. maí næstkomandi og er mikill spenningur fyrir þessu konunglega brúðkaupi í Bretlandi.

Nú þegar er búið að fylla hillur í breskum minjagripabúðum af ýmsum varningi tengdum brúðkaupinu, svo sem viskastykkjum, borðbúnaði, sætabrauði og púðum.

Verslunin Lovehoney, sem sérhæfir sig í hjálpartækjum ástarlífsins, fer hins vegar í allt aðra átt í þessum málum. Verslunin hefur nefnilega sett á markað sprenghlægileg kynlífstæki til heiðurs Meghan og Harry.

Sjá einnig: Allt sem við vitum um konunglega brúðkaupið

Markle Sparkle.

Viðskiptavinir Lovehoney geta fest kaup á titrandi hring sem heitir Markle Sparkle, sem hannaður er til að líta út eins og trúlofunarhringur Meghan. Hægt er að setja hringinn á fingur sér og njóta titringsins sjálfur, eða leika við elskhuga sinn með honum.

Ástarhringurinn.

Svo er það ástarhringur konunglega brúðkaupsins, sem er örlítið stærri enda hugsaður sem hringur sem fer á getnaðarlim. Um er að ræða hring úr sílíkoni sem titrar einnig, en á honum eru sérstakir hnúðar sem hannaðir eru til að örva snípinn í samförum.

Umbúðir tólanna eru líka sprenghlægilegar, eins og sést hér fyrir neðan:

Fyndnar umbúðir.

Hlutverk okkar sem aðstandenda að elska nógu mikið til að sleppa

Ingrid Kuhlman og Sylviane Lecoultre Pétursson eru meðal stofnenda félagsins Lífsvirðingar. Aðaltilgangur félagsins er að stuðla að opinni, uppbyggilegri og víðtækri umræðu um dánaraðstoð. Félagið leggur áherslu á að einstaklingur hafi yfirráð yfir líkama sínum, lífi og dauða. Þær Ingrid og Sylviane hafa báðar persónulega reynslu af því að fylgja ástvinum sínum erlendis í þeim tilgangi að enda líf sitt.

Aðspurðar um viðbrögð við stofnun félagsins segja þær Ingrid og Sylviane þau almennt vera góð. „Við finnum fyrir stuðningi við okkar málstað úr mörgum áttum. Sumir eru auðvitað svolítið smeykir við að tjá sig um málið eða hafa einfaldlega ekki velt því mikið fyrir sér. Hér er um að ræða stórar siðfræðilegar spurningar sem þarf að ræða af yfirvegun.“  Þær telja að dánaraðstoð verði eitt af dagskrárefnum samfélagsumræðunnar næstu árin. „Víðtæk umræða í samfélaginu er mikilvæg og lykillinn að gagnkvæmum skilningi. Það er aðalástæðan fyrir því að við stofnuðum Lífsvirðingu.

Heitasta óskin að deyja með reisn

Ingrid Kuhlman.

Ingrid og Sylviane hafa báðar reynslu af því að fylgja ástvinum sínum erlendis í þeim tilgangi að enda líf sitt á þennan hátt. Faðir Ingrid, Anton Kuhlman, var einn af þeim fyrstu sem fékk ósk sína um dánaraðstoð uppfyllta á löglegan hátt, aðeins 11 dögum eftir að lög um það tóku gildi í Hollandi þann 1. apríl 2002.

„Pabbi var búsettur í Hollandi þar sem ég er fædd og uppalin. Hann greindist með heilaæxli vorið 1999 sem þrýsti á taugar sem olli lömun í andlitinu og jafnframt miklum verkjum. Æxlið var þannig staðsett að ekki var möguleiki að fjarlægja það. Við tóku tvær mjög erfiðar geislameðferðir sem reyndust gagnlausar því æxlið hélt áfram að stækka. Læknarnir sögðu að ekkert væri hægt að gera til að bjarga lífi hans og batahorfur væru engar.“  Svona lýsir Ingrid veikindum föður síns. „Pabba hrakaði síðan stöðugt, hann missti kraftinn í hand- og fótleggjum, jafnvægisskynið varð slæmt og hann var með mikinn höfuðverk. Um páskana 2002 fékk hann háan hita. Talið var að hann væri með lungnabólgu en það reyndist ekki rétt. Hann var fyrir löngu hættur að geta borðað fasta fæðu og fékk hana því einungis í fljótandi formi. Geislameðferðirnar höfðu eyðilagt barkalokuna með þeim afleiðingum að hann gat ekki kyngt og því fór allt sem hann drakk beint ofan í lungun en einkennin lýstu sér eins og lungnabólga. Pabbi hafði misst 20-25 kg og var orðinn aðeins 50 kg undir það síðasta.

Hann var algjörlega rúmliggjandi og þurfti aðstoð við allar athafnir. Hans heitasta ósk var að fá að deyja með reisn.“

Hann gat ekki lengur drukkið, aðeins bleytt tunguna í vatni því um leið og eitthvað fór niður hóstaði hann því upp aftur. Hann hafði fengið morfín í 6-7 vikur en það linaði ekki kvalirnar í höfðinu og eyranu sem virtust óbærilegar og ómanneskjulegar. Hann var algjörlega rúmliggjandi og þurfti aðstoð við allar athafnir. Hans heitasta ósk var að fá að deyja með reisn.“

Anton var fylgismaður laganna um dánaraðstoð og þegar þau tóku gildi í Hollandi þann 1. apríl 2002 kallaði hann á heimilislækninn sinn. Hann sagðist vera búinn að gera upp líf sitt, búinn að kveðja alla, vera sáttur og hreinlega geta ekki meir.  Óháður læknir vitjaði hans og kannaði vilja hans og andlega getu til þess að taka svo afdrifaríka ákvörðun, sem og líkamlegt ástand. Læknirinn vottaði að hann félli undir lögboðin skilyrði sem heimiluðu dánaraðstoð. Samþykki fékkst og við tók undirbúningur dauðastundarinnar.

„Góða ferð og hafðu það sem best“

Ingrid segir engan ágreining hafa verið meðal ættingja um ákvörðun pabba hennar. „Við virtum hana. Hann var sáttur og við vorum sátt. Auðvitað er það örugglega það síðasta sem maður vill að missa ástvin. En þegar þjáningin ein er eftir vill maður að dauðdaginn verði eins þjáningarlaus og með eins mikilli reisn og mögulegt er. Það að ráða eigin dauðastund ætti að mínu mati að vera undir hverjum og einum komið, að uppfylltum ströngum og skýrum skilyrðum. Hver einstaklingur hefur frelsi til að lifa, því hljótum við öll að hafa sama frelsi til að deyja.

Hvers konar líf er það að bíða kvalinn eftir dauðanum, vitandi að það er enginn von um bata?

Svo kom að því að dánardagurinn rann upp. „Við vorum öll meðvituð um að þetta væri kveðjustundin og við vorum hjá pabba allan tímann. Þetta var auðvitað mjög sérkennileg en falleg stund og við fjölskyldan sátum öll á rúmstokknum hjá honum þegar læknirinn gaf honum banvæna blöndu lyfja og líf hans fjaraði út. Við spiluðum ljúfa og rólega tónlist eftir írsku hljómsveitina Enya. Við sögðum við hann: „Góða ferð og hafðu það sem best.“ Hann var sáttur og við vorum sátt. Hann dó í því umhverfi sem hann vildi og á þann hátt sem hann vildi. Pabbi var búin að biðja okkur um að skála fyrir sér eftir á, sem við og gerðum.“

Vildu að hann færi í geislameðferð

Sylviane Lecoultre Pétursson.

Steinar Pétursson, eiginmaður Sylviane, lést í mars árið 2013. Hann hafði nokkrum mánuðum áður greinst með heilaæxli og veikindin tekið mikið á.

Sylviane segir skoðanir Steinars varðandi dánaraðstoð hafa verið ljósar mörgum árum áður en hann veiktist. Siðferðisleg og heimspekileg málefni séu fjölskyldunni allri hugleikin og umræður um líf og dauða höfðu ávallt verið fastir liðir. „Þegar hann varð veikur, var hann fljótur að segja að hann vildi ekki deyja ruglaður, bjargarlaus og/eða meðvitundarlaus í morfínmóki. Hann vildi jafnvel ekki fara í geislameðferð. Við fjölskyldan, börnin og ég, vorum ekki tilbúin að láta hann fara strax eftir greininguna. Það var okkar ósk að hann myndi fara í geislameðferð. Hins vegar var ákveðið að þegar hann segði nóg, þá myndum við fylgja honum alla leið og styðja hann. Hann hafði alltaf verið mjög sjálfstæður

Í upphafi ferlisins höfðu þau hjónin samband við Dignitas, samtök um dánaraðstoð í Sviss, en það er heimaland Sylviane. Eftir að hafa skilað inn ítarlegri umsókn sem innihélt meðal annars æviágrip og læknisfræðileg gögn tók teymi lækna og starfsfólk Dignitas sér mánuð í að fara yfir gögnin. Svo fór að umsóknin var samþykkt, ákvörðunin hafði verið tekin. Samþykkið gildir í sex mánuði, eftir þann tíma þarf að skila gögnunum upp á nýtt.

Hjónin héldu til Sviss á brúðkaupsdeginum sínum, þann 26. febrúar. „Dagana 27. og 28. febrúar hittum við lækni á hótelinu frá teymi Dignitas sem hafði það hlutverk að ganga úr skugga um að það væri einbeittur vilji mannsins míns að deyja og að hann væri með rænu. Þann 1. mars fórum við öll saman í hús Dignitas sem var í nágrenni hótelsins. Þar tóku á móti okkur hjón sem voru til staðar til að aðstoða manninn minn við að deyja og styðja okkur. Þegar ég segi aðstoða, þá meina ég að láta einstaklinginn fá vökvann sem hann á að drekka sjálfur og passa upp á að aðstandendur séu ekki að hjálpa.“

Dauðinn fallegur

Sylviane segir að burtséð frá sorginni sem fylgir því að missa ástvin, sé hún samt sem áður þakklát fyrir að Steinar hafi valið þessa leið. „Það var fallegt að vera með honum að skrifa bréf til vina og ættingja til að þakka þeim fyrir samveruna. Það var fyndið að vera með honum að undirbúa erfðadrykkju sem hann vildi hafa og skrifa á boðskortin. Það var þroskandi og ég dáist að honum fyrir þann styrk og það hugrekki sem hann sýndi í ferðinni til Sviss. Börnin okkar eru svo stolt af honum, hann var frábært fordæmi fyrir þau. Síðustu klukkustundirnar með honum eru ógleymanlegar. Dauðinn hans var svo fallegur. Hann var stoltur að hafa stjórnað ferðinni, hann var stoltur af okkur. Við höfðum tíma til að segja allt sem okkur langaði til að segja. Við elskuðum hann og það var kominn tími til að sýna það.“

Hún segist aldrei hafa séð eftir ákvörðuninni, enda hafi hún verið alfarið í höndum eiginmanns síns. „Spurningin er ekki hvort við gerðum rétt, þetta hefur ekkert að gera með okkur sem erum eftir. Þetta snýst um réttindi þess einstaklings sem er að deyja. Hann var að gera rétt. Það var hans líf og hans dauði. Hann var að deyja, hann valdi hvernig og hvenær. Hlutverk okkar aðstandenda var að elska hann nógu mikið til að sleppa honum og styðja hann.“ segir Sylviane að lokum.

Við elskuðum hann og það var kominn tími til að sýna það.

Siðmennt framkvæmdi könnun á lífsskoðunum Íslendinga í nóvember 2015 og spurði m.a. hvort þátttakendur væru hlynntir eða andvígir því að einstaklingur gæti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann væri haldinn ólæknandi sjúkdómi. Niðurstaðan var mjög afgerandi en 74,9% voru mjög eða frekar hlynntir því á meðan 7,1% voru því frekar eða mjög andvígir, 18% svöruðu hvorki né. Hér er um að ræða afar merkilega niðurstöðu en í könnunum erlendis hefur stuðningur við dánaraðstoð hvergi mælst jafnmikill svo vitað sé.

Ítarlegri umfjöllun um Lífsvirðingu má finna í 16.tbl Vikunnar.
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Deila gömlum leikaramyndum og þær eru æðislegar

Kassamerkið #oldheadshotday, eða dagur gamalla leikaramynda, hefur farið eins og eldur um sinu um samfélagsmiðla undanfarið.

Margir heimsfrægir leikarar deila gömlum leikaramyndum af sér undir kassamerkinu og eru sumar þeirra alveg hreint stórkostlegar eins og sjá má hér fyrir neðan:

Emma Watson

Reese Witherspoon

Melissa McCarthy

Sarah Hyland

Serving Prince George looks since ‘95… am I a royal now?? #firstheadshot

A post shared by Sarah Hyland (@sarahhyland) on

Busy Phillips

Tori Spelling

Ben Stiller

Katherine McPhee

Ok I’m joining in! #firstheadshot #nationalheadshotday #headshots ??

A post shared by Katharine McPhee (@katharinemcphee) on

Segja atriði Ara gamaldags

||
||

Chris, William og Padraig hjá Eurovision-fréttasíðunni Wiwibloggs settust niður og fóru yfir fyrstu æfinguna fyrir Eurovision, sem fram fór í gær í Altice Arena-höllinni í Lissabon í Portúgal.

Wiwibloggurum fannst myndavélavinna í atriði Nettu vera mikil vonbrigði.

Kumpánarnir þrír fóru í gegnum hvaða atriði komu þeim mest á óvart, hvaða atriði voru mestu vonbrigðin og síðan kusu þeir sigurvegara dagsins. Alls æfðu fulltrúar tíu landa sín atriði í gær og í dag æfir restin af þeim löndum sem keppa í fyrri undanúrslitunum, alls níu talsins.

Alekseev frá Hvíta-Rússlandi kom á óvart með lagið Forever.

Þau atriði sem komu þeim félögum mest á óvart í gær voru lögin frá Hvíta-Rússlandi og Albaníu, en mestu vonbrigðin voru hins vegar lögin frá Búlgaríu, Belgíu og Ísrael, en margir veðbankar spá því að hin ísraelska Netta fari með sigur af hólmi í aðalkeppninni þann 12. maí næstkomandi.

Sjá einnig: Það sem býr á bak við brosið

Chris, William og Padraig eru á því að fulltrúar Eistlands, Tékklands, Hvíta-Rússlands, Albaníu og Litháen hafi staðið sig best á þessari fyrstu æfingu.

Í myndbandinu hér fyrir neðan minnast þeir einnig á framlag Íslands, Our Choice, þar sem þeir segja sviðssetninguna vera gamaldags en að söngvarinn Ari Ólafsson syngi lagið óaðfinnanlega:

Hér má svo sjá samantekt frá þessari fyrstu æfingu:

Myndir / Andreas Putting (eurovision.tv)

Óvenjulegar erfðaskrár

Margir gera erfðaskrár til að koma hinsta vilja sínum á framfæri. Ýmsar skrautlegar og óvenjulegar óskir hafa verið settar í erfðaskrár og hér má lesa um nokkrar þeirra.

Eleanor E. Ritchey arfleiddi hunda sína að 4,5 milljónum dollara þegar hún lést árið 1968 í Flórída.

Milljónir í hundana
Eleanor E. Ritchey arfleiddi hunda sína að 4,5 milljónum dollara þegar hún lést árið 1968 í Flórída. Deilt var um erfðaskrána en hún var staðfest. Fimm árum seinna hafði sjóðurinn bólgnað og fengu hundarnir 9 milljón dollara en þegar erfðaskráin var endanlega staðfest var sjóðurinn kominn upp í 14 milljónir. Þá voru aðeins 73 hundar enn á lífi. Þegar sá síðasti stökk á vit feðra sinna rann sjóðurinn til Auburn-háskólans, í rannsóknir á dýrasjúkdómum.

Engin pyntingatól á gröfina!
Leikritaskáldið George Bernard Shaw lést árið 1950. Hann var mikill áhugamaður um enska tungu og hafði búið til 40 stafa stafróf sem hann taldi að gerði alla stafsetningu mun auðveldari. Hann vildi að hluti eigna hans rynni í þetta verkefni en dómari sagði það síðar ógerlegt. Fénu var skipt í þrennt og rann til British Museum, National Gallery of Ireland og Royal Academy of Dramatic Art. Hinsta ósk hans var að jarðarför hans yrði ekki gerð að kristnum sið og að á legsteini hans yrði ekki kross eða neins konar tól tengd pyntingum eða tákn um blóðugar fórnir.

Kvöldverður fyrir þau látnu
John Bowman lést árið 1891. Hann var ekkill og dætur hans tvær voru einnig látnar. John var fullviss um að fjölskyldan myndi í sameiningu endurholdgast síðar. Hann stofnaði sjóð með 50 þúsund dollurum til að hægt væri að borga þjónustufólki til að halda yfir 20 herbergja setri hans við. Síðasta ósk hans var að kvöldverður yrði eldaður og framreiddur daglega ef þau væru glorhungruð þegar þau sneru aftur. Ósk hans var uppfyllt þar til sjóðurinn var uppurinn sem var árið 1950.

Brjálað partí
Janis Joplin söngkona lést árið 1970, 27 ára gömul. Tveimur dögum fyrir dauða sinn breytti hún erfðaskrá sinni. Hún vildi að 2500 dollarar færu í sérstakt „eftir dauða-partí“ fyrir 200 manns. Það ætti að standa heila nótt á uppáhaldspöbbnum hennar í San Anselmo í Kaliforníu. „… svo vinir mínir geti djammað ærlega eftir að ég er farin.“

Hinsta ósk George Bernard Shaw var að jarðarför hans yrði ekki gerð að kristnum sið og að á legsteini hans yrði ekki kross eða neins konar tól tengd pyntingum eða tákn um blóðugar fórnir.

„… fyrir alla þá ást og góðvild sem hún sýndi mér aldrei“
Anthony Scott: „Til fyrstu eiginkonu minnar, Sue, sem ég lofaði alltaf að minnast á í erfðaskrá minni: Halló, Sue!“

Edith S frá Walsall: „Börn mín, Roger, Helen og Patricia, fá 50 þúsund pund í sinn hlut og mega ekki eyða þeim í hægfara hesta eða hraðskreiðar konur og bara örlitlu í áfengi.“

Sara Clarke frá Bournmouth: „Ég arfleiði dóttur mína að einu sterlingspundi, fyrir alla þá ást og góðvild sem hún sýndi mér aldrei.“

Henry Budd, d. 1862: „Ég arfleiði syni mína tvo að 200 þúsund pundum með því skilyrði að þeir láti sér aldrei vaxa yfirvaraskegg.“ Annar maður, Matthias Flemming (d. 1869), hafði andúð á slíkum skeggjum og arfleiddi hvern skegglausan starfsmann sinn að tíu pundum en þeir sem voru með yfirvaraskegg fengu þó fimm pund hver í sinn hlut.

Ónefndur maður arfleiddi starfsmenn sína að einum skildingi svo þeir gætu keypt sér bók um mannasiði.

Amy T. frá Doncaster arfleiddi dýraverndunarfélag að 500 pundum og bað um að peningarnir yrðu notaðir til að gefa hundum í þess umsjá dýrlega jólamáltíð.

Norman Earnest Digweed átti verðmæta húseign sem metin var á 26 þúsund pund árið 1893 þegar hann lést. Hann arfleiddi Jesú Krist að henni ef svo færi að Jesús sneri aftur innan 80 ára. Nokkrir Jesúsar gerðu tilkall til hússins sem engu að síður rann til breska ríkisins árið 1977, þegar 80 ár voru liðin frá dauða Normans.

Kona nokkur arfleiddi heittelskaðan kött sinn að eigum sínum, meðal annars húseign. Jarðarför konunnar var haldin á fallegum sumardegi. Arfþeginn lá og sólaði sig í innkeyrslunni þegar einn syrgjendanna ók óvart yfir hann á leið í erfidrykkjuna.

Aðalmynd: Ýmsar skrautlegar og óvenjulegar óskir hafa verið settar í erfðaskrár.

„Stundum sofnaði ég ekki fyrir kippum“

Sveinn Ólafur Gunnarsson hefur verið áberandi á fjölum leikhúsanna að undanförnu. Það er því ekki úr vegi að biðja hann um að rifja upp hlutverkin sem eru honum minnisstæðust.

„Eddie í Fool for love, var afar krefjandi og spennandi hlutverk. Í raun lykilhlutverk á ferlinum, hlutverk sem ég óx við sem leikari. Uppfærslan var afar vel heppnuð enda virkilega vandaður hópur sem stóð að sýningunni.“

Þá segist hann hafa leikið sex persónur Í Hornum á höfði, sem sé ógleymanlegt því hann hafi verið á spretti alla sýninguna. „Og karaktergalleríið spannaði allt frá ástríkum óöruggum föður yfir í ofurmennskt illmenni,“ segir hann og bætir við að fátt sé jafngefandi og leika í góðri barnasýningu og í Hornum á höfði hafi verið unnið af alúð, ást og natni í dásamlegum hópi einstaklega skapandi fólks.

Hann segir að hlutverk krefjist mismikils undirbúnings. „Fyrir hverja sýningu á Illsku, þar sem ég fór með hlutverk Arnórs, greinds og vel máli farins nýnasista með tourette þurfti ég til dæmis að koma mér í karakter 60-90 mínútum fyrir show, svo að „tourettið“, kækirnir væru orðnir lífrænir og ósjálfráðir þegar við byrjuðum. Það var oft meira vesen að hætta því eftir að sýningu lauk og stundum sofnaði ég ekki fyrir kippunum. Fæ meira segja kippi núna þegar ég tala um hann,“ segir hann og hlær.

Af bíó og sjónvarpi segir hann að sér sé efst í huga það sem hann leikið síðast, en það hafi verið þegar hann brá sér í hlutverk Arnars í Mannasiðum og Valda kláms í Stellu Blómkvist. Afar ólík en áhugaverð hlutverk. „Svo þykir mér alltaf jafnvænt um Finnboga í kvikmyndinni Á annan veg. En heilt yfir þá eiga mín eftirminnilegustu hlutverk það sammerkt að ég hef fengið rými til sköpunar persónunnar og í mörgum tilfellum tekið þátt í sköpunarferlinu og handritsvinnunni. Sem gefur manni tækifæri til að nálgast hlutverk af meiri dýpt og ábyrgð.“

Mynd / Jóhanna Helga Þorkelsdóttir

Náttúrufegurð og fjölbreyttar leiðir fyrir hreyfingu og útivist í Bryggjuhverfinu í Kópavogi

Bryggjuhverfið á Kársnesi í Kópavogi er staðsett á fallegum stað á móti Nauthólsvíkinni, fjölskylduvænu og fallegu umhverfi við sjávarsíðuna. Útsýnið er einstaklega fallegt í allar áttir og fögur er sjónin þegar horft er yfir í Öskjuhlíðina og víðar.

Þessar glæsilegu íbúðir eru til sölu í Naustavör og eru eignirnar hinar vönduðust. Umhverfi laðar að fólk á öllum aldri og býður uppá fjölbreytar leiðir til útivistariðkunnar fyrir fjölskyldur sem og einstaklinga. Meðal annars má nefna að Siglingafélagið Ýmir er með aðstöðu við smábátahöfnina og er það iðandi af lífi. Einnig er stutt í allar áttir og gríðarlega uppbygging atvinnulífsins er einnig á þessum slóðum og þykir stórfyrirtækjum eftirsóknarvert að komast á miðsvæðis Kópavogsins. Í bryggjuhverfinu á Kársnesinu er gert ráð fyrir verði um 400 íbúðir. Flutt var í fyrstu íbúðir hverfisins á vormánuðum 2015. Framtíðin er því björt í Bryggjuhverfinu í Kópavogi.

Íbúðirnar sem eru komnar í sölu við Naustavör 16-20 eru hið glæsilegustu og eru frá þriggja til fimm herbergja og frá 122 fermetrum að stærð upp í 210 fermetra í fjögurra og þriggja hæða fjölbýlishúsum með lyftu. Stæði í lokaðri bílgeymslu fylgir öllum íbúðum sem eru mikil lífsgæði. Íbúðirnar eru innréttaðar með vönduðum íslenskum innréttingum og fataskápum frá Brúnás sem eru hágæða hönnun. Íbúðirnar eru afhentar án gólfefna, nema á baðherbergi og þvottahúsi verða flísar, þar áhersla verður lögð á að vera með stílhreint yfirbragð.

Á baðherbergjum eru gólf flísalögð og veggir flísalagðir upp í loft. Þau verða búin vönduðum hreinlætistækjum, hitastýrðum blöndunartækjum, upphengdum salernum, sturtum með glerhlið þar sem nýting verður í hávegum höfð. Íbúðirnar eru ýmist með góðum svölum eða stórum timburveröndum sem gerir fólki kleift að njóta þess sem umhverfið hefur upp á að bjóða. Stæði í sameign verður frágengin utan sem innan og í sameign verður vönduð lyfta í hvoru stigahúsi. Anddyrin verða flísalögð en stigar og stigapallar teppalagðir. Gangstéttar við húsið verða með snjóbræðslukerfi sem er mikill kostur.

Byggingaraðili er Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. Arkitektar íbúðanna eru þeir Guðmundur Gunnlaugsson og Gunnar Páll Kristinsson frá Rýma arkitektum. Fasteignasalan Fasteignamarkaðurinn er með þessar glæsilegu íbúðir á sölu og er eftirspurnin gríðarleg, enda um vandaðar eignir að ræða og staðsetningin ein sú besta sem völ er á, á höfuðborgara svæðinu. Sjón eru sögu ríkari.

Verðflokkarnir eru eftirfarandi:

3ja herbergja íbúðir. Verð frá kr. 69,5 millj. upp í kr. 77,0 millj.
4ra herbergja íbúðir. Verð frá kr. 85,5 millj. upp í kr. 89,5 millj.
5 herbergja íbúðir. Verð frá kr. 87,5 millj. upp í kr. 119,0 millj.

Rifjar upp verstu áheyrnarprufuna

Leikkonan Hera Hilmarsdóttir, sem gengur undir listamannsnafninu Hera Hilmar, er í viðtali við vefsíðuna Daily Actor í tengslum við kvikmyndina An Ordinary Man, þar sem Hera leikur á móti Sir Ben Kingsley.

Í viðtalinu er Hera spurð út í verstu áheyrnarprufu sem hún hafi farið í á ferlinum og það stendur ekki á svörum hjá leikkonunni.

„Ó, Guð, versta áheyrnarprufan. Hún var fyrir nokkrum árum og það var ein af mínum fyrstu áheyrnarprufum. Þetta var enskur leikstjóri af gamla skólanum og ég held að hann hafi verið svo forviða yfir því að íslensk stúlka væri í prufu fyrir hlutverk Englendings að hann gerði lítið úr enska hreimnum mínum,“ segir Hera og heldur áfram.

„Þetta var fullkomlega óþarft að sumu leyti. Stundum gerir maður eitthvað sem maður er ekkert sérstaklega góður í en ég var ekkert ofboðslega léleg þannig að þetta var algjör óþarfi.“

Hún bætir jafnframt við að hún hafi ekki passað í hlutverkið sem hún var að falast eftir en að framkoma leikstjórans hafi ekki þurft að vera með þessum hætti. „Þetta er í eina skiptið sem ég hef upplifað eitthvað svona.“

Öflugt útspil frá Toyota

|||
|||

Toyota C-HR er skemmtilegur tvinnbíll, vel útbúinn og góður í akstri.

Gefum okkur þú standir fyrir framan fataskápinn og sért á leið í veislu. Þar verður margt fólk sem þú þekkir lítið en þú lítur upp til. Því viltu koma vel fyrir, falla í hópinn en að sama skapi marka þér sérstöðu. Þú vilt koma skilaboðunum á framfæri um að þú sért til í ævintýri og óttist ekkert, en um leið ertu ekki að fara taka þátt í neinu rugli eða koma þér og þínum í vandræði. Hvaða föt velurðu?
Toyota C-HR er bíll sem var í þessari stöðu og ákvað að fara í fínustu skyrtuna sína og leðurjakka, stuttbuxur og hlaupaskó. Allt frábærar hugmyndir sem að öllu jöfnu ættu ekki að ganga upp saman en á einhvern undarlega heillandi hátt mynda frábæra blöndu.

Aftari hurðaropnarinn er á óvenjulegum stað og er einn af fjölmörgum sterkum útlitseinkennum C-HR.

Þegar ég settist upp í Toyota C-HR leið mér strax vel. Að utan er bíllinn skemmtilega agressívur, allar línur afgerandi og beinskeittar. Eylítið groddaralegar en á mjög skemmtilegan hátt, svolítið eins og leðurjakki. Hann öskrar á mann að hann sé til í þjóðveginn og að fara með þig alveg á enda slóðans.

Þegar sest er inn í bílinn er upplifun mun mýkri og fágaðari. Egypsk bómull kemur upp í hugann. Þrátt fyrir að um smábíl sé að ræða finnur maður strax að Toyota hefur vandað innviðinn. Allt efnisval og áferð gefa til kynna að meira er í lagt en í hinn hefðbundna smábíl. Þarna kemur fyrsta mótsögnin sem ég verð að segja að kom skemmtilega á óvart. Þessi auknu gæði skila sér eðlilega í hærra verði og vekur athygli að hægt er að fá til bæði Prius og Avensis á hagstæðara kjörum.

Haldið skal til haga að ég keyrði Hybrid C-HIC-útgáfu bílsins sem er einskonar lúxusútgáfa, vel útilátin aukabúnaði. Komum að því síðar.

C-HR er yndislegur bíll sem auðvelt er að líka vel við. Það er gott að keyra hann, hann er eyðslugrannur, vel heppnaður í útliti að innan sem utan, og svo er þetta Toyota.

Verandi tvinnbíll er eyðslan auðvitað komin í allt annan flokk. Hún er uppgefin 3,9 l/100 km en í akstri mínum var ég reyndar eylítið undir þeirri tölu. Öflugir hlaupaskór það.

Rafkerfi bílsins er að sama skapi þungt og gerir tvinnútgáfu bílsins ögn þunglamalegri en systraútgáfuna án tvinnkerfisins. Ekki misskilja, ég hefði aldrei haft orð á því hefði ég ekki prófað báðar útgáfur. Tvinnbíllinn er mjög snarpur og skemmtilegur í akstri á allan hátt. Ég upplifði aldrei að mig vantaði meira afl frá vélinni eða meiri snerpu frá sjálfskiptingunni. Allir hlutar bílsins unnu vel saman, en bara aðeins betur í bensínbílnum. En þá eykst eyðslan svo ég myndi hiklaust mæla með tvinnútgáfunni.

Það er hægt að púsla bílnum saman á marga vegu er kemur að útliti og aukabúnaði. Í C-HIC-útgáfunni er meðal annars leðursæti og leður í mælaborði. Ætli hver og einn verði ekki að eiga það við sjálfan sig hvort líf viðkomandi þarfnist leðurs í mælaborðið.

Skjárinn fyrir aksturstölvuna er líka óvenju stór miðað við aðra hluta mælaborðsins. Ég fussaði yfir því til að byrja með en tók hann algjörlega í sátt þegar stórir hnappar skjásins gerðu allar skipanir svo miklu auðveldari á ferðinni. Þar til bíllinn tilkynnti að mér hefði borist tölvupóstur og hvort ég vildi ekki lesa hann. Fyrir utan að nú á að áttfalda sektarupphæðir fyrir afglöp undir stýri samanborið allt símabras, fannst mér það algjörlega fjarstæðukennt að lesa og hvað þá svara tölvupósti á ferð.

Augljóst er að Toyota hefur ákveðið að leggja vel í innri búnað C-HR sem er afar vel heppnaður.

C-HR er búinn einum kosti sem ég hef ekki fundið í neinum öðrum bíl í sama stærðarflokki. Ökumaðurinn situr nógu hátt til að losna við tilfinninguna að rassinn sé við það að skrapa malbikið. Það er líka mjög auðvelt að setjast inn í hann og standa upp, sem er alveg yndislegt fyrir fótafúna ökumenn eins og mig. Þetta skiptir alveg ótrúlega miklu máli.

C-HR er búinn einum kosti sem ég hef ekki fundið í neinum öðrum bíl í sama stærðarflokki. Ökumaðurinn situr nógu hátt til að losna við tilfinninguna að rassinn sé við það að skrapa malbikið. Það er auðvelt að setjast inn í hann og standa upp, sem er alveg yndislegt fyrir fótafúna ökumenn eins og mig.

En að helsta galla C-HR: Buxunum, eða stuttbuxunum (ef svo má að orði komast). Skottpláss er af skornum skammti. Sé litið á upprunalega markhóp bílsins, ungt fólk í borgum, þá er þetta þónokkur ókostur því erfitt er að koma til dæmis barnakerru fyrir.

Fyrir utan það, er C-HR yndislegur bíll sem auðvelt er að líka vel við. Það er gott að keyra hann, hann er eyðslugrannur, vel heppnaður í útliti að innan sem utan, og svo er þetta Toyota. Og varðandi verðið … Ef þér líkar ekki við hann geturðu alltaf selt hann aftur, mögulega með hagnaði því slíkt eru endursölugildi Toyota hér á landi.

Eitt helsta einkenni C-HR eru afturljósin sem eru einn af þessum hlutum sem maður annað hvort elskar eða hatar.

Safna milljón króna fyrir bjór

Bjórnördinn Hjörvar Óli Sigurðsson og kvikmyndagerðarmaðurinn Árni Theódórsson safna nú fyrir gerð heimildarþátta um bjór á Íslandi á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund. Þættirnir heita einfaldlega Öl-æði, en þeir Hjörvar og Árni stefna að því að safna átta þúsund Evrum á Karolina Fund, eða tæplega milljón króna.

Hjörvar Óli segir í samtali við Mannlíf að þessi tæpa milljón fari í kostnað við tökur á þáttunum.

„Áætlunin er svo að þriðji aðili fjármagni eftirvinnslu og fái einhvern dreifingarrétt,“ segir hann, en óvíst er hvar þættirnir verða sýndir ef fjármögnun tekst á Karolina Fund.

„Það er ekkert staðfest eins og er,“ segir þessi sjálfskipaði bjórnörd mjög dulur og bætir við að viðræður séu hafnar við eina af stóru sjónvarpsstöðvunum.

Í Öl-æði verður fjallað um sögu bjórs á Íslandi og öll brugghús landsins heimsótt, en þeim hefur heldur betur fjölgað síðasta áratuginn eða svo. Hjörvar Óli hefur gífurlegan áhuga á bjór, en segir að þættirnir eigi að ná bæði til þeirra sem vita ekkert um drykkinn en líka þeirra sem hafa brennandi áhuga á þeim fjölmörgu, mismunandi tegundum sem til eru af mjöð.

Hægt er að styrkja verkefnið inni á vefsíðu Karolina Fund en söfnuninni lýkur þann 5. maí næstkomandi. Þeir sem leggja sittt af mörkum geta tryggt sér ýmsa bjórtengda glaðninga, svo sem kvöldverð á Ölverk, kassa af íslenskum bjór og heimsókn í Bjórböðin á Árskógssandi.

„Ákveðinn kostur að vera orðin svona gömul“

||
||

Andleg uppbygging ekki síður mikilvæg.

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, 53 ára hjartalæknir, er í landsliðinu í utanvegahlaupum ásamt sjö öðrum hlaupurum og þann 12. maí næstkomandi munu þau taka þátt í heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum á Spáni.

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir er í landsliðinu í utanvegahlaupum.

Hlaupaleiðin er 85 km í Penyagolosa-þjóðgarðinum í Castellón-héraði austarlega á Spáni. Leiðin liggur inn í land á stígum sem sumir hverjir eru fornar pílagrímsleiðir. Samtals hækkun er um 5000 m með lækkunin sem nemur 3600 m. „Þetta er mitt lengsta hlaup fram til þessa og undirbúningurinn hefur falist í lengri og skemmri hlaupum, með áherslu á að hlaupa utanvega og takast á við talsverðar hækkanir. Það er mikilvægt að ná nokkrum æfingum þar sem maður er lengi að, jafnvel 4-6 klukkustundir eða lengur því maður þarf að venjast því að vera á lengi á ferðinni,“ segir Þórdís sem er á lokaspretti undirbúnings fyrir keppnina.

Auk hennar eru í liðinu Elísabet Margeirsdóttir, Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, Hildur Aðalsteinsdóttir, Sigríður Björg Einarsdóttir, Guðni Páll Pálsson, Daníel Reynisson og Sigurjón Ernir Sturluson. Liðsstjórinn er Friðleifur Friðleifsson, einn af okkar öflugustu utanvegahlaupurum. „Við erum með nokkuð mismunandi æfingaáætlanir en við stelpurnar höfum náð nokkrum löngum góðum hlaupum saman sem er hvetjandi og skemmtilegt. Á löngu æfingunum æfir maður ekki bara hlaupið sem slíkt heldur prófar sig líka áfram með næringu og fatnað. Ég reyni líka að læða inn einni og einni hjóla- eða sundæfingu til að dreifa álaginu á skrokkinn og til tilbreytingar. Einnig þarf maður að huga að því að byggja sig upp andlega, reyna að horfa á sínar sterku hliðar og takast á við hlaupið í huganum,“ segir Þórdís. Hún var einnig í landsliðinu í fyrra en þá fór keppnin fram í Toscana og voru hlaupnir 50 kílómetrar með tæplega 3000 m hækkun. „Ég var bara nokkuð sátt við hvernig mér gekk, þrátt fyrir heldur hærra hitastig en við eigum að venjast. Ekkert kom upp á í hlaupinu, ég kom sterk í mark, leið eins vel og manni getur liðið eftir svona langt hlaup og var alveg ótrúlega hamingjusöm. Mér fannst þetta svo jákvæð upplifun, góð stemning í liðinu og frábær stemning í fjallaþorpinu þar sem hlaupið fór fram og ég er að vonast til að fá að upplifa eitthvað svipað aftur á Spáni.“

„Því fylgir ákveðin áskorun að hlaupa utanvega í allskyns færi og veðri en því fylgir líka meira frelsi. Þú starir ekki á klukkuna til að fylgjast með hraðanum á sama hátt og í götuhlaupi og það er miklu auðveldara að gleyma sér og njóta.“

Áskorun að hlaupa utanvega
Keppninsmanneskja hefur blundað í Þórdísi alla tíð og sem unglingur og fram á fullorðinsár keppti hún í frjálsum íþróttum. Hún náði bestum árangri í hástökki, stökk 1,74 m, og keppti líka í 800 m hlaupi og grindahlaupi. „Eftir að frjálsíþróttaferlinum lauk spilaði ég körfubolta með Stúdentum í nokkur ár en eftir að börnin fæddust og ég fór í sérnám fór ég að hlaupa mér til heilsubótar. Ég setti markið á að taka árlega þátt í Göteborgsvarvet sem er stærsta hálfmaraþon í heimi og fer fram á hverju vori í Gautaborg þar sem ég bjó í tólf ár. Ég fór síðan að æfa hlaup meira markvisst eftir að hlaupahópur FH var stofnaður en ég mætti að sjálfsögðu á fyrstu æfinguna hjá hópnum í janúar 2010.  Til að byrja með stundaði ég aðallega götuhlaup, en ég held að áhuginn á utanvegahlaupunum hafi kviknað alvarlega í tengslum við að ég hljóp Jökulsárhlaupið, 32,7 km, þá um haustið. Annars hef ég alltaf haft áhuga á útivist og eftir því sem ég hef orðið eldri hefur áhuginn á lengri keppnum og æfingum aukist og fjalla- og utanvegahlaup sameina svo sannarlega þetta tvennt. Því fylgir ákveðin áskorun að hlaupa utanvega í allskyns færi og veðri en því fylgir líka meira frelsi. Þú starir ekki á klukkuna til að fylgjast með hraðanum á sama hátt og í götuhlaupi og það er miklu auðveldara að gleyma sér og njóta. Kostirnir við utanvegahlaupin eru líka þeir að álagið á skrokkinn er öðruvísi en við götuhlaup, en þau reyna líka á jafnvægi og útsjónarsemi. Ég held þau henti flestum, ungum sem öldnum, en maður verður bara að prófa til að komast að því. Þá er ábyggilega gott að vera í góðum félagsskap til að byrja með.“

Þórdís ásamt liðsfélögum sínum Hildi Aðalsteinsdóttur, Elísabetu Margeirsdóttur og Ragnheiði Sveinbjörnsdóttur á æfingu á Hengilssvæðinu.

Leggur allt í sölurnar
Markmið Þórdísar fyrir heimsmeistaramótið á Spáni er að mæta vel undirbúin til leiks og eiga góðan dag þar sem allt gengur upp. „Og njóta. Ég geri mér grein fyrir að ég er ekki að fara að vinna til verðlauna og að hlaupið verður afar krefjandi en ef tilfinningin eftir hlaupið verður sú að ég hafi lagt allt í sölurnar og uppskorið í samræmi við það, verð ég sátt. Ég hlakka líka til að sjá hvernig liðsfélögum mínum gengur,“ segir Þórdís.

Annars er keppnin á Spáni bara byrjunin á sumrinu. Þórdís stefnir á að hjóla Vatternrunduna, 300 km, í júni, auk þess að hlaupa Laugaveginn og fleiri utanvegahlaup í sumar. „Svo er aldrei að vita nema ég skelli mér í þríþraut erlendis í september,“ segir hún hress í bragði. Og hún fær dyggan stuðning að heiman. „Það er ómetanlegt að njóta góðs stuðnings frá sínum nánustu og ég get ekki sagt annað en að á heimilinu ríki mikill skilningur á að ég verji miklum tíma í æfingar. Svo er náttúrlega ákveðinn kostur að vera orðin svona gömul eins og ég er, börnin eru orðin fullorðin og því slepp ég alveg við að útvega pössun til að geta stundað mínar íþróttir.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson og úr einkasafni

Nýtt blað um fasteignir

Nýtt og glæsilegt fasteignablað fylgir áttunda tölublaði Mannlífs sem kom út í dag.

Í blaðinu er að finna greinagóðar upplýsingar um áhugaverðar og vandaðar fasteignir sem eru á skrá hjá fasteignasölum landsins í bland við innlit og aðrar áhugaverður greinar úr smiðju ritstjórnar Húsa og híbýla.

Fasteignablað Mannlífs er unnið í samstarfi við stærstu fasteignasölurnar og verður eftirleiðis vikulegt fylgiblað blaðsins.

Þá verður blaðið einnig aðgengilegt á vefsíðu Mannlífs.

Einstakt einbýlishús við Elliðaárnar, eina af fegurstu náttúruperlum borgarinnar

Eign vikunnar er Heiðarbæ 17 í Reykjavík. Húsið er sérstaklega vel staðsett í enda götu alveg niðri við Elliðaárnar. Húsið er allt endurnýjað til fyrirmyndar, nútímatæki, miklir gluggar og nálægðin við Elliðaárnar og Elliðaárdalinn er alveg einstök. Húsið stendur á sérstaklega skjólstæðum stað og hverfið mjög rólegt. Einstakt hús við náttúruperlu Reykjavíkur sem heillar. Staðsetningin býður upp á fjölbreytta hreyfingu úti við og fjölmargar gönguleiðir eru í nánd, meðal annars að Árbæjarsafninu svo fátt sé nefnt.

Skemmtilegur bókaveggur.

Húsið er samtals 279,5 fermetrar að stærð á einni hæð auk 15 fermetra lagnakjallara. Nánast allt hefur verið endurnýjað, allar lagnir, þak, innréttingar, gólfefni, verönd, garðurinn og bílskúr og útkoman er til fyrirmyndar. Húsið prýða miklir og gólfsíðir gluggar og einkar fagurt útsýni er yfir Elliðaárnar og dalinn, sem er himneskt að njóta. Húsið er með fallegum og vönduðum hvítum innréttingum og rýmið er bjart og stílhreint. Umhverfið við húsið er einstakt og húsið stendur þannig að það er sérstaklega skjólsælt og hverfið afar rólegt. Stutt er í alla þjónustu, skóla, íþróttaaðstöðu og vinsælt útivistarsvæði með göngu- og hjólastígum sem tengja allt höfuðborgarsvæðið. Einstakt hús við náttúruperlu Reykjavíkur sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Bjart rými.

Útsýnið með því fegursta

Á fyrstu hæð þegar gengið er inn að finna gestasnyrtingu, herbergi og þvottahús. Einnig er eldhúsið á fyrstu hæð í opnu alrými sem er aðalrými hússins, þar eru stórir, gólfsíðir gluggar sem eru opnalegir með stórum rennihurðum sem dásemd er að opna út á verönd á góðvirðisdögum. Það gefur húsinu skemmtilega nýtingu að hafa þessa viðbót. Þar er himneskt útsýni út frá veröndinni og náttúrufegurðin skartar sínu fegursta. Í þessu opna alrými er einnig rúmgóð stofa og borðstofa, þar er aukin lofthæð og gluggarnir til suðurs þar sem útsýnið er fagurt. Einnig er í stofunni fallegur arinn sem settur svip sinn á rýmið.

Hátt til lofts og stórir gluggar.

Nýjustu tækin frá Vola prýða baðherbergin

Í húsinu eru þrjú baðherbergi, hvert öðru smekklegra og öll eru þau flísalögð í hólf og gólf. Öll baðherbergin er búin nýjustu tækjum frá Vola. Fjögur svefnherbergi eru í húsinu, tvö rúmgóð barnaherbergi með fataskápum og hjónasvíta með sérbaðherbergi og svo er andyrisherbergi, sem nýtist einkar vel.

Húsið er endurnýjað og allt til fyrirmyndar, nútímatæki, miklir gluggar og nálægðin við Elliðaárnar og dalinn er alveg einstök.

Himneskur garður

Garðurinn er sérstaklega skjólsæll og sólríkur og draumur allra er að eiga garð eins og þennan. Garðurinn er með gróðri, skjólsæll og sólríkur og þar er veröndin mjög stór, flísalögð og ráð er gert fyrir heitum potti og útisturtu sem er mikill kostur. Húsinu fylgir einnig rúmgóður bílskúr með rafdrifinni hurð og sem á við. Eign sem vert er að skoða og sjón er svo sannarlega sögu ríkari.

Eign vikunnar er til sölu á hjá BORG Fasteignasölunni.

Falleg eign á góðum stað.

Erfitt að vita hverjir sóðarnir eru

||
Úrangur - Myndin tengist frétt ekki beint

Íslensk fyrirtæki eru skikkuð, samkvæmt lögum, til að huga að umhverfi sínu. Heilbrigðiseftirlitið getur hins vegar ekki tekið saman gögn um hvaða fyrirtæki huga að umhverfi sínu og hver eru umhverfissóðar.

Guðjón Ingi Eggertsson, heilbrigðisfulltrúi í umhverfiseftirliti hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

„Við höfum reglulega afskipti af fyrirtækjum vegna umgengni eða úrgangs á lóð,“ segir Guðjón Ingi Eggertsson, heilbrigðisfulltrúi í umhverfiseftirliti hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.  „Umgengni við mörg fyrirtæki er til fyrirmyndar, ásættanleg við önnur og svo eru alltaf dæmi þar sem umgengni gæti við betri og jafnvel mun betri en raunin er. Ef í ljós kemur í eftirliti að umgengni er ábótavant er ávallt gerð krafa um að bætt sé úr.“

Guðjón segir hins vegar erfitt að segja til um hvort umhverfiseftirlitið hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi oft eða sjaldan afskipti af fyrirtækjum vegna umgengni eða úrgangs á lóð vegna annmarka á skráningarkerfi eftirlitsins. „Því miður er skráningarkerfi Heilbrigðiseftirlitsins þannig gert að mjög takmarkað er hvað hægt er að taka út af upplýsingum. Meðal annars er ekki hægt með einföldum hætti að taka sérstaklega út kvartanir vegna lóða eða umgengni við fyrirtæki,“ segir hann og nefnir sem dæmi að ef athugasemdir eru gerðar í reglubundnu eftirliti sé það skráð í eftirlitsskýrslu en ekki skráð sem kvörtun.

„Ég held líka að auglýsingin hafi hreyft við fólki. Um helgina var fullt af fólki sem tíndi mörg tonn af rusli. Þetta var venjulegt fólk að tína um allt land, því blöskrar skíturinn.“

Vegna fyrrgreindra annmarka á skráningarkerfi eftirlitsins er um leið ógerlegt að sjá hvaða fyrirtæki í borginni brjóta, jafnvel ítrekað, reglugerðir eða lög sem skikka fyrirtæki til að huga að umhverfi sínu. En sem dæmi um slíka reglugerð má nefna 16. grein reglugerðar Umhverfis- og auðlindaráðuneytis, sem gerir umráðamönnum fyrirtækjalóða skylt að halda lóðunum hreinum og snyrtilegum.

Fólki blöskrar skíturinn
Á Facebook hefur plokkurum verið tíðrætt um rusl í nágrenni við fyrirtæki í þéttbýli. Þar á meðal Einar Bárðarson sem er einn af þekktustu plokkurum landsins og stofnandi Plokk á Íslandi. „Við sem samfélag höfum smitast rosalega hratt af sorpblindu,“ segir hann. „Við sjáum ekki skítinn.“

Á Facebook hefur plokkurum verið tíðrætt um rusl í nágrenni við fyrirtæki í þéttbýli. Einar Bárðarson tekur undir umræðuna en segir að nokkur fyrirtæki hafi þó í gegnum tíðina haldið hreinsunardag þar sem tekið er til í nærumhverfi þeirra. Þau fyrirtæki eigi hrós skilið.

Um síðustu helgi hvatti Einar með opnuauglýsingu í dagblöðum eigendur og stjórnendur fyrirtækja að ganga í lið með plokkurum og velja einn dag í vor til að standa að allsherjar vorhreinsun í nærumhverfi fyrirtækjanna. Í auglýsingunni var tekið sem dæmi að fyrirtæki gætu boðið fólki að taka eina aukavakt til vinnu af þessu tilefni og hreinsa til í kringum fyrirtækið.

„Stjórnendur fyrirtækja tóku almennt vel í þetta,“ segir hann. „Ég held líka að auglýsingin hafi hreyft við fólki. Um helgina var fullt af fólki sem tíndi mörg tonn af rusli. Þetta var venjulegt fólk að tína um allt land, því blöskrar skíturinn.“

Spurður hvernig hægt sé að bæta ástandið, segir Einar að sveitarfélög og fyrirtæki sem sjái um sorphirðu geti til dæmis unnið saman að því að bæta ruslatunnur með teygjum yfir lok eða annað sem hindrar að þær opnist við að fjúka á hliðina þannig að innihaldið dreifist um allt. Eins geti fólk haft augun opin fyrir rusli þegar það ekur í vinnuna. Við það aukist næmni þess fyrir umhverfinu.

Getur krafist lagfæringa og viðgerða
Þess má geta að heilbrigðisnefnd getur krafist lagfæringa og viðgerða á lóðum, girðingum og mannvirkjum, ef nauðsynlegt þykir til þrifnaðar eða ef ástand þeirra er til lýta fyrir umhverfið. Nefndin getur jafnvel látið hreinsa einkalóðir á kostnað eigenda telji nefndin þess þörf vegna mengunar og óhollustu.

Að auki er að finna ákvæði í almennum starfsleyfisskilyrðum Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur fyrir mengandi atvinnurekstur sem taka á úrgangi og umgengni. Þau skilyrði fylgja með starfsleyfi allra fyrirtækja sem fá starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Hafa safnað 40 millljónum

Forsvarsmenn Lýðháskólans á Flateyri hafa safnað um fjörutíu milljónum sem dugar til að reka skólann í eitt ár. Formaður samtaka lýðháskóla í Danmörku og skólastjóri Ubberup-lýðháskólans segir að lýðskólar auki breidd í námi og dragi úr brottfalli úr því.

„Við erum búin að tryggja fyrsta starfsár Lýðháskólans á Flateyri. En svo hníga öll rök til þess að nám við lýðháskóla verði fjármagnað eins og annað nám á Íslandi, með mótframlagi frá ríkinu,“ segir Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Lýðháskólans á Flateyri.

Forsvarsmenn skólans hafa safnað um fjörutíu milljónum sem dugar til að reka skólann í eitt ár. Stór hluti af fénu kemur frá sveitarfélögum á Vestfjörðum, Ísafjarðarbæ, Bolungarvík og Súðavík en svo leggja stéttarfélög í púkkið. Margir íbúar á Flateyri styrkja hann líka mánaðarlega. Skólinn er nýstofnaður og tekur til starfa í haust.

Runólfur var á meðal mælenda á ráðstefnu LungA-skólans á Seyðisfirði, Lýðháskólans á Flateyri og UMFÍ um lýðháskóla á Íslandi í vikunni. Lög um lýðháskóla hafa aldrei verið fest hér á landi en stefnt er að því að mæla fyrir frumvarpi um það fyrir þinglok.

Lisbeth Trinskjær, formaður samtaka lýðháskóla í Danmörku og skólastjóri Ubberup-lýðháskólans, var með erindi á ráðstefnunni. Hún sagði mikilvægt að hafa lýðháskóla hér. Það muni auka mjög breidd í námi og draga úr brottfalli úr því. En ímynd skólanna verði að breytast hér. Á Íslandi sé litið á lýðháskóla sem kost fyrir námsfólk sem eigi erfitt með að fóta sig. Öðru máli gegni í Danmörku. Þar sendi forstjórar stórfyrirtækja og efnameira fólk börn sín í miklum mæli í lýðháskóla því víðsýni þeirra aukist til muna.

Mynd: Runólfur Ágústsson var á meðal mælenda á ráðstefnu LungA-skólans á Seyðisfirði, Lýðháskólans á Flateyri og UMFÍ um lýðháskóla á Íslandi í vikunni. Hann segir mikilvægt að ríkið styðji við bakið við lýðháskólum hér með sama hætti og gert er í Danmörku.

Æskuvinkonur ætla að gera Ísland kvartlaust

|
|

Þuríður Hrund Hjartardóttir og Sólveig Guðmundsdóttir taka sér bandarískan prest til fyrirmyndar og reyna að hætta að kvarta og kveina í 21 dag samfleytt. Þær hafa fallið margoft á leið sinni til kvartleysis en finna mikla breytingu á sinni innri líðan.

„Það er skemmst frá því að segja að þessi áskorun hefur breytt lífi okkar beggja til hins betra, og allra sem standa okkur nærri. Að uppgötva það hversu mikið maður í raun kvartar og að hafa einfalt og gott tæki til að vinna með það er ólýsanlega frábært í alla staði,“ segir Þuríður Hrund Hjartardóttir, alþjóðamarkaðsfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Icepharma.

Þuríður fór, ásamt Sólveigu Guðmundsdóttur, iðnhönnuði og eiganda Culiacan Mexican Grill, nýverið af stað með verkefnið Kvartlaus. Markmið verkefnsins er einfalt – að hætta að kvarta, en fyrirmynd þess er verkefnið A Complaint Free World, áskorun sem kemur úr smiðju Bandaríkjamannsins Will Bowen.

„Í byrjun febrúar sagði Sólveig mér frá snilldaráskorun sem prestur í Kansas fór af stað með fyrir nokkrum árum en það snýst um það að kvarta ekki í 21 dag samfleytt. Þessi áskorun hefur náð til yfir ellefu milljón manna. Okkur fannst þetta svo frábær hugmynd að við ákváðum að skora hvor á aðra og skuldbinda okkur að komast í gegnum 21 dag,“ segir Þuríður en þær Sólveig hafa verið vinkonur síðan í níu ára bekk og þekkjast því mæta vel.

Fall er óumflýjanlegt

Will Bowen byggir hugmyndafræði sína á því að vísindamenn hafi sannað að ef maður nær að halda sömu hegðun eða mynstri í 21 dag samfleytt verði það að vana. Will þessi lét hanna sérstök kvartlaus armbönd og gengur átakið út á það að færa armbandið frá öðrum úlnliðnum á hinn um leið og maður kvartar. Ef maður fellur, byrjar maður aftur á degi eitt í kvartleysi. Sólveig og Þuríður selja nú þessi armbönd á vefsíðu sinni kvartlaus.is, en Þuríður bætir við að skilgreiningin á kvarti sé mjög niðurnjörvuð í þessari hugmyndafræði.

„Það er sem sagt bannað að kvarta og bannað að tala illa um aðra. Will segir að þegar að maður slúðrar sé maður í raun að segja að maður sé betri en viðkomandi og það er flokkað sem kvart,“ segir Þuríður. Hún bætir við að þetta sé alls ekki eins einfalt og það hljómi. „Það skal tekið fram að þetta er ekki einfalt og við höfum fallið ótal oft á leiðinni, ég síðast í gær,“ segir Þuríður og hlær. „En það er hluti af þessu. Það er ekki séns að komast í gegnum þetta án þess að falla á leiðinni.“

Betri samskipti og meiri ró

Bandaríski guðfaðir kvartleysis segir það taka að meðaltali fjóra til sex mánuði fyrir fólk að hætta að kvarta í 21 dag samfleytt. Það liggur því beinast við að spyrja Þuríði hvert markmið þessara íslensku lærisveina sé?

„Við viljum gera Ísland kvartlaust fyrir árslok. Verðum við ekki að hugsa stórt? Þó að við myndum ekki ná nema tíu prósentum af þjóðinni yrði allt svo miklu betra,“ segir hún og bætir við að kvartleysið hafi haft góð áhrif á einkalífið, þrátt fyrir bakslögin.

„Við höfum verið að þessu síðan í febrúar og finnum báðar að það er allt önnur stemning inni á heimilum okkar. Það eru allir glaðari, meiri ró yfir heimilisfólkinu og á heildina litið erum við betri í samskiptum, þó að sjálfsögðu sjóði stundum upp úr. Það gerist samt sjaldnar en áður og það er það sem skiptir máli. Þegar maður eyðir minni tíma í að kvarta, hefur maður meiri tíma til að vera glaður.“

Armböndin sem eiga að hjálpa til við að hætta að kvarta.

Kvart og kvein

* Meðalmaðurinn kvartar 15 til 20 sinnum á dag.
* Rannsóknir hafa sýnt að fólk getur orðið reiðara ef það kvartar mikið.
* Rannsóknir hafa einnig sýnt að það að pústa við vin getur valdið mikilli streitu bæði hjá þeim sem pústar og þeim sem hlustar.
* Kvart og nöldur er oft ofarlega á blaði þegar kannað er hver helstu vandamál innan sambanda séu.

Það sem býr á bak við brosið

||||||
||||||

„Ég er ekki hræddur. Ég er samt ekki óhræddur. Ég er mjög spenntur og með mikinn fiðring í maganum yfir þessari ferð. Þessi spennutilfinning er sambland af gleði og óvissu því þessi keppni er óútreiknanleg. Það eina sem ég get gert er að gera mitt besta,“ segir söngvarinn Ari Ólafsson.

Það ætti að vera flestum Íslendingum kunnugt að Ari er fulltrúi Íslands í Eurovision-keppninni í ár. Ari kom, sá og sigraði með laginu Heim, sem síðar varð Our Choice á ensku, og flytur það á stóra sviðinu í Lissabon í Portúgal á fyrra undanúrslitakvöldinu þann 8. maí næstkomandi. Ef allt gengur að óskum fær Ari að flytja það í annað sinn í úrslitunum sem fara fram laugardagskvöldið 12. maí.

Hrakfallabálkur sem barn

Ari er Reykvíkingur í húð og hár, en ólst einnig að hluta til upp í Orlando á Flórída hjá afa sínum.

„Ég ólst í raun upp á þremur stöðum. Ég átti heima niðri í bæ, á Laufásveginum, þar til ég var sex ára. Ég eyddi líka mjög miklum tíma úti í Bandaríkjunum hjá afa mínum og síðan fluttum við fjölskyldan á Kvisthaga þegar ég byrjaði í grunnskóla svo ég gæti gengið í Melaskóla. Og líka svo ég gæti gerst KR-ingur,“ segir Ari og hlær. „Pabbi minn er mikill KR-ingur og ég æfði fótbolta frá sex ára aldri. Ætli ég verði ekki KR-ingur fram í rauðan dauðann. Ég kemst ekki upp með neitt annað,“ bætir hann við.

Ari á einn yngri bróður og býr með honum og foreldrum sínum í grennd við JL-húsið í Reykjavík. Hann segir það fljótt hafa komið í ljós að hann væri með ADHD þar sem hann var oft frekar utan við sig sem krakki.

Brosið hans Ara hefur heillað fólk út um alla Evrópu.

„Ég var mjög glaður krakki. Ég var alltaf hlæjandi og brosandi,“ segir Ari, en þetta skæra og einlæga bros hans vann ekki aðeins hug og hjörtu Íslendinga heldur hefur það vakið athygli út fyrir landsteinana í aðdraganda Eurovision. „Það var rosalétt að vera með mig. Það var hægt að setja mig niður fyrir framan hvað sem er og ég bjó til eitthvað úr engu. En ég var alltaf að slasa mig. Ég er frekar óheppinn þegar kemur að meiðslum. Ég hef brotið handlegginn á mér um það bil sex til sjö sinnum,“ segir Ari og byrjar að telja upp öll brotin, sem hafa verið allt frá knjúkum og upp að öxl. „Þetta er líka alltaf sama höndin. Alltaf vinstri,“ segir Ari og brosir. „Líklegast tengist þetta eitthvað því hvað ég var utan við mig sem barn. Ég var ekki alveg að fylgjast með umhverfinu alltaf. Ég klifraði mikið og prílaði og gerði ýmislegt sem önnur börn myndu kannski ekki gera.“

Kallaður illum nöfnum í grunnskóla

Þótt Ari sé aðeins nítján ára gamall hefur hann talsverða reynslu af því að koma fram. Hann lék Oliver Twist í samnefndum söngleik í Þjóðleikhúsinu þegar hann var ellefu ára gamall og tveimur árum síðar spreytti hann sig í verkinu Galdrakarlinum í Oz í Borgarleikhúsinu. Nokkru síðar söng hann með norsku stórstjörnunni Sissel Kyrkjebø á tónleikum í Eldborg á 60 ára afmælistónleikum söngkennarans síns, Bergþórs Pálssonar. Ara segist líða best á sviði, en hins vegar fékk hann að líða fyrir þessa velgengni í grunnskóla.

„Ég var rosaóöruggur með mig þegar ég var yngri en það tengist því að ég lenti í einelti í skóla út af því að ég var í söngleikjum. Ég veit ekki hvort fólk öfundaði mig en það kallaði mig illum nöfnum og ég skar mig alltaf úr,“ segir Ari. Hann segir það líka miður að skólakerfið hafi ekki verðlaunað hann fyrir að standa sig vel í listrænum greinum og telur að íslensk menntayfirvöld megi gera betur í þeim efnum.

Ari lenti í einelti í grunnskóla.

„Ef krakkar hafa markmið sem þeir eru verðlaunaðir fyrir að ná, hvort sem það er í bóklegum fögum, listgreinum eða íþróttum, þá munu þeir sjálfkrafa standa sig betur og blómstra í því sem þeir eru góðir.“

Eftir grunnskóla lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð þar sem Ari fékk útrás fyrir sína listrænu hæfileika.

„Ég fann mig rosalega mikið í tónlistinni þá. Ég held að þessi seinustu ár hafi verið þau bestu fyrir mig. Ég hef alltaf haft sjálfstraust en þegar ég hugsa til baka þá hefur ekki alltaf verið mikið innistæða fyrir þessu sjálfstrausti. Nú, hins vegar, er ég farinn að taka meira eftir því hvað ég er lánsamur og heppinn í lífinu og ég tek engu sem sjálfsögðum hlut. Ég vil vinna við tónlist og það að stíga upp á svið gerir mig ekki kvíðinn heldur spenntan. Þetta er akkúrat það sem ég vil gera. Ég vil vera uppi á þessu sviði. Það er um að gera að nýta hverja einustu sekúndu því þetta er búið áður en maður veit af,“ segir Ari

Nauðsynlegt að sýna tilfinningar

Ara hefur verið spáð í alls konar sæti í Eurovision, allt frá því fyrsta niður í það neðsta. Þá tvístraðist þjóðin yfir framlaginu þegar hann bar sigur úr býtum í Söngvakeppninni og hlaut lagið slæma dóma í sjónvarpsþættinum Alla leið á RÚV fyrir stuttu. Ari segir vissulega erfitt að finna fyrir mótlæti en hefur tileinkað sér að nýta jákvæðni sem vopn gegn neikvæðni.

„Ég held að það sé mestallt mömmu og pabba að þakka. Mamma er sálfræðingur og pabbi er giftur sálfræðingi,“ segir Ari og hlær. „Ég fékk frekar flott uppeldi en auðvitað er alltaf erfitt að finna fyrir mótlæti. Í söng og leiklist er ég að tjá tilfinningar mínar. Ég er berskjaldaður. Ég er veikastur en einnig glaðastur og mitt besta sjálf þegar ég er uppi á sviðinu. Þegar fólk bregst illa við þá er það alltaf erfitt, en það er skemmtilegt að það jákvæða vegur alltaf meira en það neikvæða. Hins vegar virðist fólk alltaf einblína meira á það neikvæða, sem er algjörlega ekki það sem maður á að pæla í,“ segir Ari og við rifjum upp þá umræðu sem skapaðist þegar Ari grét af gleði í beinni útsendingu vegna velgengni í Söngvakeppninni.

„Þá komu neikvæðar raddir upp á yfirborðið en þær jákvæðu voru svo margar að þær þögguðu niður í leiðindaskapnum. Það er það sem skiptir máli, að fólk standi saman og líti á það jákvæða. Ég er alltaf að átta mig meira og meira á því að það jákvæða í lífinu skiptir meira máli en það neikvæða. En ég er ánægður með að þessi umræða spratt upp og ég vil tala um þetta. Fólk á ekki að vera hrætt við að sýna tilfinningar og vera það sjálft. Maður á að hlæja þegar mann langar til að hlæja og vera leiður þegar mann langar að vera leiður. Sumt fólk er svo hrætt við að vera leitt að það er alltaf glatt, en það er ekkert á bak við gleðina. Það er hollt að finna fyrir reiði, pirringi og leiða en ekki leyfa þessum tilfinningum að stjórna sér. Maður þarf að finna fyrir þeim, átta sig á þeim og stjórna þeim. Þetta er það sem móðir mín hefur kennt mér allt mitt líf út af öllu sem ég hef gengið í gegnum. Maður getur nefnilega ekki stjórnað öðru fólki, maður getur bara stjórnað sjálfum sér,“ segir Ari, en þessi neikvæðni um tárin sem láku niður kinnar hans virtist vera beintengd við gamaldags hugmyndir um karlmennsku, úrelt gildi sem enn lifa góðu lífi.

„Fyrir mér er ekkert til sem heitir karlmennska eða kvenmennska. Þetta eru bara einhver hugtök, einhverjar ranghugmyndir sem fólk er með. Snýst lífið ekki frekar um hvernig manneskjur við viljum vera? Viljum við vera umburðarlynd, hjálpa öðrum og taka á móti lífinu af jákvæðni, eða viljum við vera sjálfselsk og leiðinleg? Á endanum verður hver að velja fyrir sig og ég ætla að velja rétt.“

Spenntur að hitta Rybak

Síðan Ari fór með sigur af hólmi í Söngvakeppninni hefur hann haft í nægu að snúast. Þegar hann lítur til baka og rifjar upp augnablikið þegar sigurvegarinn var tilkynntur kemur fallegt blik í augu söngvarans.

Ari heillaði þjóðina í Söngvakeppninni. Mynd / RÚV

„Það var ólýsanleg tilfinning sem skaust inn í hjartað mitt. Ég fékk svona sigurtilfinningu, eins og ég hefði sigrast á heiminum. Eins og ég hefði sigrast á sjálfum mér. Því mig langaði sjúklega mikið til að vinna og fara út með þennan boðskap og þetta lag. Þegar ég fattaði að ég væri búinn að vinna þá gerði ég mér grein fyrir því hvað ég er lánsamur og hvað þetta yrði gaman. Ég gat ekki beðið eftir að byrja undirbúninginn þannig að við byrjuðum strax daginn eftir. Ég er ekki búinn að fá einn frídag og ég nýt þess í botn. En vissulega kom sú hugsun yfir mig daginn eftir hve mikil ábyrgð hvílir á herðum mínum að vera fulltrúi Íslands í þessari keppni en ég er bara svo glaður að þetta sé að gerast.“

Ari er næstyngstur í Eurovision í ár, en hin spænska Amaia Romero er nokkrum mánuðum yngri en okkar maður. Hann segir aldurinn bæði geta verið ógnandi fyrir aðra en líka geta skapað efa í hans eigin brjósti.

„Ég held samt að það skipti minna máli en meira hvað ég er gamall,“ segir Ari. Eins og áður segir er hann spenntur fyrir keppninni og tilbúinn til að stíga á svið. Það er líka önnur ástæða fyrir því að Ari er fullur tilhlökkunar. Það er nefnilega út af því að eitt af átrúnaðargoðunum hans úr Eurovision-keppninni, Norðmaðurinn Alexander Rybak, er meðal keppanda í ár en hann sigraði eftirminnilega með laginu Fairytale í Moskvu árið 2009 þegar Jóhanna Guðrún vermdi annað sætið með Is it True?

„Ég er ofboðslega spenntur að hitta hann. Það er eiginlega skrýtið hvað ég er rosalega mikill aðdáandi og ég trúi því ekki að ég fái að hitta hann og tjilla með honum,“ segir Ari sem er það spenntur að hann er búinn að ákveða hvað hann ætlar að segja við þetta fiðluspilandi sjarmabúnt. „Ég veit ekki alveg hvernig ég á að koma orðum að þessu, en ég verð að segja honum að ég var ellefu ára þegar ég sá hann keppa og vinna og síðan þá hefur hann verið átrúnaðargoðið mitt. Ég vil samt koma þessu frá mér án þess að honum líði eins og hann sé fjörgamall,“ segir Ari og hlær sínum smitandi hlátri. Þá rifjast einmitt upp eitt handleggsbrotið sem gerðist akkúrat þegar Jóhanna Guðrún og Alexander Rybak kepptust um að komast upp úr undanúrslitariðlinum í Rússlandi um árið.

„Ég var í miðri stúdentsveislu hjá frænda mínum og við ákváðum nokkur að fara út að leika. Við vorum ofan á neti á marki sem slitnaði og markið hrundi. Ég datt ofan á markið og frændi minn datt hinum megin við höndina á mér. Það var járnplata á milli og ég heyrði handlegginn brotna. Þannig að ég missti af undanúrslitunum en ég horfði síðan á úrslitin í sumarbústað í fatla.“

Bankar á dyr hjá Universal Studios

Ari er klassískt menntaður söngvari og fékk að vita það stuttu fyrir Söngvakeppnina að hann væri kominn inn í fimm ára söngnám í hinum virta skóla The Royal Academy of Music í London. Hann flytur utan í haust, úr foreldrahúsum og inn á leigumarkaðinn með tveimur æskuvinum sínum. Saman skipa þeir hljómsveit og sér Ari dvölina í London með rómantískum blæ þar sem þeir vinirnir ætla að einbeita sér 150% að því að búa til tónlist.

„Við eigum fullt af lögum og erum með stúdíó hér heima sem við bjuggum til sjálfir en við höfum aldrei gefið neitt út. Það má segja að við spilum tónlist í ætt við Ed Sheeran og Coldplay, en við notum líka röddina sem hljóðfæri og sumt sem við semjum er í anda Sigur Rósar. Ég held allavega að það séu fáir að flytja svipaða tónlist og við. Við ætlum að búa saman þrír í London og það er eiginlega það sem ég hlakka mest til. Að sofa allir þrír saman í einu herbergi og breyta restinni af íbúðinni í stúdíó,“ segir Ari og bætir við að með þátttöku hans í Eurovision hafi opnast ýmsar dyr fyrir tríóið.

„Ég er að skapa mjög góðan vettvang fyrir okkur núna. Um daginn komst ég til dæmis í samband við yfirmann hjá útgáfufyrirtækinu Universal Studios og var beðinn um að senda efnið okkar á hann. Ef allt gengur að óskum þá gætum við hugsanlega komist á samning, þannig að það er aldrei að vita hvað kemur út úr því. Ég finn allavega að Eurovision opnar ýmsar dyr og þetta snýst um að grípa þau tækifæri sem gefast.“

En er ekki litið niður á Eurovision í hinum klassíska söngheimi?

„Nei, alls ekki. Það gleymist oft að Eurovision snýst mikið um fallegar og einlægar ballöður, sem oft týnast í poppinu því það er fyrirferðarmeira. En við sáum hvað gerðist í fyrra. Salvador Sobral steig á svið með afar fallega ballöðu og náði að tengjast öllum heiminum í gegnum tónlistina. Það er þessi tenging sem er svo falleg og hún skiptir ofboðslega miklu máli.“

Hér eru þau Ari og Þórunn í Eurovision-fyrirpartíi í Ísrael fyrir stuttu. Mynd / Stijn Smulders

Eurovision-gallinn á eftir að vekja athygli

Ari hefur ferðast um Evrópu síðustu daga, ásamt lagahöfundinum Þórunni Ernu Clausen, til að kynna sig og lagið áður en kemur að stóru stundinni í Portúgal.

„Við Þórunn erum búin að fara um allt og skemmta í svokölluðum fyrirpartíum fyrir Eurovision. Ég var úti í tólf daga samfleytt, fór fyrst til London, síðan til Ísrael, svo til Portúgal að taka upp póstkortið fyrir keppnina og endaði í Amsterdam. Þá fór ég heim í tvo daga og hélt síðan út til Madríd. Ég er nýkominn heim og á morgun flýg ég til London að syngja á tónleikum með finnsku Eurovision-stjörnunni Söru Aalto,“ segir Ari, en þegar þetta viðtal er tekið er þriðjudagur. Ari stoppar síðan örstutt á Íslandi þegar hann kemur heim frá London því á laugardaginn flýgur hann rakleiðis til Portúgal þar sem stífar æfingar hefjast.

„Auðvitað er ég þreyttur en þetta er góð þreyta. Ég er sáttur yfir því að hafa svona mikið að gera þannig að þetta er mjög þægileg þreyta. Það er mjög mikilvægt að fara í þessi partí því þegar ég svo kem út til Lissabon þá vita margir blaðamenn hver ég er, sem og hörðustu aðdáendur keppninnar. Þetta skiptir máli upp á það að gera að fólk skrifi um mig og ég komist í viðtöl,“ segir Ari.

Ari nýtur hverrar mínútu í Eurovision-ævintýrinu.

En hverju megum við búast við af atriði Ara úti í Portúgal?

„Atriðið verður ekki alveg eins og það hefur verið, við erum búin að gera nokkrar breytingar. En ég get sagt að ég verð mjög vel klæddur. Ég er mjög spenntur fyrir því að ganga á rauða dreglinum,“ segir Ari sposkur á svipinn. „Við skulum segja að klæðnaður minn verði í anda íslensku þjóðarinnar og ég held að hann eigi eftir að vekja mikla athygli.“

Hugsar um ástvini á sviðinu

Óskabarnið okkar stígur annað á svið í fyrri undanúrslitunum þann 8. maí og er það mál Eurovision-spekinga að riðillinn okkar sé ansi strembinn, svokallaður dauðariðill.

„Já, við erum í dauðasta dauðariðli sem hefur sést í Eurovision. Allir bloggarar eru með þvílíkt skiptar skoðanir um hvernig þessi riðill eigi eftir að fara og margir eru á því að lögin sem endi í tíu efstu sætunum í aðalkeppninni séu í þessum riðli. Ég veit ekkert hvernig þetta mun fara, bara engan veginn,“ segir Ari, sem stefnir að sjálfsögðu að sigri.

Sjá einnig: Þetta eru lögin sem Ari keppir við í Lissabon

„Markmiðið er að vinna. Það hefur alltaf verið markmiðið. Hins vegar er aðalmarkmiðið að ná til fólksins með laginu og að fólkið heima í sófa finni fyrir tengingu við lagið. Ef ég næ bara til einnar manneskju þá hef ég staðið mig vel,“ segir Ari. Það örlar ekki á efa í huga söngvarans þar sem hann trúir á lagið Our Choice alla leið.

„Ég tengi svo mikið við þetta lag og það getur átt við svo margt. Það getur átt við að við séum ekki að tjá tilfinningar okkar og að við séum ekki að leyfa fólki að vera eins og það er. Það tengist femínisma, ofbeldi, einelti og öllu sem við getum bætt í heiminum. Þetta snýst um þetta val að vera partur af lausninni en ekki vandamálinu. Við vitum aldrei hvað næsta manneskja er búin að ganga í gegnum og það er mikilvægt að búa til traust, gagnkvæma virðingu og jákvæðni á milli okkar,“ segir Ari. Hann getur að sjálfsögðu ekki tekið allan heiminn með sér upp á svið þannig að mér leikur forvitni á að vita um hvað hann hugsi þegar hann flytji lagið.

„Ég hugsa um fólkið sem mér þykir vænt um. Ég hugsa um mínar ákvarðanir í lífinu. Sumar hafa ekki verið réttar en sumar hafa verið góðar. Ég hugsa líka um manneskjuna sem ég er að reyna að sannfæra. Ég er að reyna að fá hana til að ganga áfram og inn í ljósið en ekki bælast inni í svartnættinu. Þessi eina manneskja táknar auðvitað allt samfélagið.“

Heldur einkalífinu fyrir sig

Talið berst að ástvinum Ara en hann er mjög náinn fjölskyldu sinni og hefur átt sömu tvo bestu vinina síðan í fyrsta bekk. Hann segist umkringdur góðu fólki og eins og staðan er núna eru sautján fjölskyldumeðlimir og vinir á leiðinni til Portúgal með Ara og sá hópur gæti stækkað á næstu dögum.

„Ég og bróðir minn og foreldrar erum mjög náin og við náum að halda góðum tengslum við aðra í fjölskyldunni. Það er mjög mikilvægt. Þau koma með mér út en einnig kærasta mín og fleiri fjölskyldumeðlimir. Svo koma Bergþór og Albert líka með út, það er ekkert annað í boði,“ segir Ari og vísar í Bergþór Pálsson, söngkennara sinn, og Albert Eiríksson, eiginmann hans. „Bergþór og Albert eru eins og hin hjónin sem eiga mig. Það er rosanæs.“

Ég staldra við og spyr Ara um kærustuna, en söngvarinn hefur lítið tjáð sig um sitt einkalíf í fjölmiðlum.

„Við erum búin að vera saman í rúmlega ár og það er bara æðislegt. Ég tala ekki mikið um það í viðtölum því fólk þarf ekkert að vita um mitt einkalíf. Við viljum bara halda því fyrir okkur.“

Ari lætur ekki mótlætið buga sig.

Gefst aldrei upp

Stuttu eftir að Ari snýr aftur heim frá Portúgal kemur að öðrum stórum áfanga í lífi hans. Hann verður nefnilega tvítugur þann 21. maí næstkomandi.

„Þá verður partí. Ég ætla að halda tvítugsafmælið mitt uppi í bústað með vel völdu fólki og bara hafa gaman,“ segir Ari. Á slíkum tímamótum grípur fólk oft sú löngun að líta yfir farinn veg og Ari er þar engin undantekning.

„Það sem stendur upp úr og það sem ég er stoltastur af er að hafa tekist á við tilfinningar mínar og leyft mér að þora að fara í þetta ævintýri. Ég er ánægðastur með að hafa verið jákvæður og leyft mér að stefna hátt og að vera nógu duglegur til að ná mínum markmiðum. Það er ekki til í mér að gefast upp. Þó að mótlætið sé mikið gefst ég aldrei upp.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Semur leikrit um kynferðislega áreitni: „Mennirnir hér eru töluvert grófari“

||||||
||||||

Karen Erludóttir flutti til Los Angeles í september 2016 til að læra kvikmyndaleiklist í skólanum New York Film Academy. Hún vinnur nú að lokaverkefni sínu þar sem hún safnar saman sögum kvenna af kynferðislegri áreitni. Hún segir Los Angeles vera sitt annað heimili, þó að borgin hafi vissulega sína galla eins og aðrir staðir í heiminum.

Auðvitað er Karen búin að heimsækja Central Perk, enda mikill Friends-aðdáandi.

„Ég er mikið fiðrildi að eðlisfari og hef búið á hinum og þessum stöðum í heiminum og fannst því þessir flutningar ekkert nema spennandi. Það er auðvitað alltaf erfitt að skilja eftir fólkið sem maður elskar, en maður verður að elta draumana sína meðan maður getur. Veðrið hér hjálpar líka heilmikið. Það er erfitt að fá heimþrá þegar maður liggur við sundlaugarbakkann að sleikja sólina,“ segir Karen og hlær.

Heilsteyptari og hamingjusamari

Karen útskrifast í vor með AFA-gráðu í leiklist frá New York Film Academy í Los Angeles. Þó að áherslan í náminu sé á leiklist, lærir Karen flest sem tengist kvikmyndagerð, svo sem leikstjórn, lýsingu, klippivinnu og fleira.

„Það að fara í þetta nám er án efa besta ákvörðun sem ég hef tekið,“ segir Karen sem blómstrar á þessari braut þótt námið taki oft á. „Námið er gífurlega krefjandi, erfitt og ég hef aldrei þurft að gefa jafnmikið af mér, en það er allt þess virði. Í sannleika sagt finnst mér mjög leiðinlegt að ég sé alveg að fara að útskrifast sem er alveg glæný tilfinning, en ég held að það segi allt sem segja þarf,“ segir Karen. Hún bætir við að námið hafi í raun þvingað hana til að fara í mikla og djúpa sjálfskoðun.

„Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart í þessu námi er hvað ég hef kynnst sjálfri mér mikið, eins fáránlegt og það kannski hljómar. Ég hef töluvert meira sjálfstraust en ég hef nokkurn tíma haft og er miklu öruggari í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Ég kem ekki bara út úr náminu sem reyndari leikkona heldur líka sem miklu heilsteyptari og hamingjusamari einstaklingur. Sem er algjörlega ómetanlegt.“

Karlmenn í Los Angeles talsvert grófari

Karen vinnur nú í lokaverkefni sínu, sem felst í því að hún skrifar sitt eigið leikrit og setur það síðan á svið í lok annar. Hún ákvað að sækja innblástur úr tíðarandanum í samfélaginu og #metoo-byltingunni.

„Ég hef ekki mikla reynslu í að semja en ákvað að fyrst þetta er eitthvað sem ég á að gera þá ætla ég að gera það almennilega. Ég vildi því skrifa sögu sem skiptir máli, nýta tækifærið til hins ýtrasta og vonandi hafa einhver áhrif. Ég ákvað því að skrifa um kynferðislega áreitni gagnvart konum þar sem það er eitthvað sem við lendum allar í, á einn hátt eða annan, og það virðist bara vera normið sem það á svo sannarlega ekki að vera,“ segir Karen. Til að fá vissa breidd í verkið ákvað hún að auglýsa eftir sögum kvenna sem lýstu þessari áreitni. Þar kom hún ekki að tómum kofanum.

„Mér fannst ég ekki getað skrifað aðeins út frá minni reynslu og mínu sjónarhorni, svo ég auglýsti eftir sögum frá öðrum konum, því þetta er ekki bara mín saga, þetta er sagan okkar allra. Ég fékk gífurlegt magn af sögum sem ég er rosalega þakklát fyrir, en á sama tíma gera þær mig svakalega reiða. Það sýndi mér bara enn þá frekar hvað það er mikilvægt að tala um þetta, opna augu fólks,“ segir þessi dugnaðarforkur og bætir við að ekki sé of seint að senda henni sögu.

Karen fékk smjörþefinn af bransanum þegar hún fór á Óskarsverðlaunahátíðina fyrr á árinu.

„Ég er enn að taka á móti sögum og hver saga hjálpar. Ég sjálf hef heilt haf af sögum að segja og þá sérstaklega eftir að ég flutti hingað til Los Angeles, þar sem mennirnir hér eru töluvert grófari og það var aðalkveikjan að þessari hugmynd. Viðhorfið þarf að breytast og ég ætla ekki bara að sitja á rassinum og vona að það gerist, svo ég er að reyna að leggja mitt af mörkum. Eins og staðan er núna er þetta bara skólaverkefni, en það er aldrei að vita nema ég fari með þetta eitthvað lengra.“

Lenti næstum í árekstri við Courteney Cox

Los Angeles hefur oft verið kölluð borg draumanna, enda margir sem leggja leið sína þangað eingöngu með drauma um frægð og frama í farteskinu. Því verð ég að spyrja hvort Karen vilji festa rætur í borginni?

„Eins og ég nefndi áðan þá er ég mjög mikið fiðrildi og er því ekki aðdáandi þess að plana langt fram í tímann. Ég vil frekar bara bíða og sjá hvert lífið tekur mig. En eftir útskrift er stefnan tekin heim til Íslands og í sumar verð ég að kenna börnum og unglingum leiklist. Hvar ég verð í haust eða vetur er hins vegar ekki ákveðið. Ég er mjög heimakær þrátt fyrir að vera fiðrildi og mig langar rosalega að geta unnið sem leikkona heima á Íslandi. Ég er þó ekki tilbúin til að kveðja Los Angeles alveg, svo ég kem hingað fljótt aftur,“ segir Karen sem er mjög hugfangin af borg englanna. „Borgin hefur að sjálfsögðu sína galla, eins og hver annar staður, en hér líður mér vel. Los Angeles verður án efa alltaf mitt annað heimili.“

Talandi um borg draumanna, þá hafa sumir þá ímynd af Los Angeles að þar séu stjörnur á hverju horni. Er það rétt?

„Ég myndi kannski ekki segja á hverju horni, en skólinn minn er við hliðina á Warner Brothers Studios og ég bý þar mjög nálægt svo ég hef séð töluvert margar stjörnur. Sem brjálaður Friends-aðdáandi mun það alltaf standa upp úr þegar Courteney Cox/Monica Geller keyrði næstum á mig. Hún varð alveg miður sín, en ég var ekki lengi að fyrirgefa henni þetta. Annars hef ég líka séð Matt LeBlanc, Ellen, Önnu Faris, Celine Dion, Wilson Bethel, Leu Thompson, Margot Robbie, Chris Pratt, Apl.de.ap, Redfoo og marga fleiri,“ segir Karen.

Á góðri stundu með Apl.de.ap úr ofurgrúbbunni Black Eyed Peas.

Sýnd klámmynd í Uber-bíl

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur upplifað í Los Angeles?

„Ég er hreinlega ekki viss um hvort það sé Uber-bílstjórinn sem sýndi mér klámmyndina sem hann lék í, á meðan hann var að keyra, alveg óumbeðinn. Eða komast að því að strákurinn sem bjó í íbúðinni fyrir ofan mig var Íslendingur. Ég meina, við erum nú ekki mörg og Los Angeles er mjög stór borg. Eða þegar ég fann tvífara minn hér og lenti með henni í bekk. Við erum ekki bara mjög líkar útlitslega heldur með nánast sama persónuleika og sama smekk á öllu. Það eru einhver stórundarleg tengsl okkar á milli og við vitum nánast hvað hin er að hugsa öllum stundum,“ segir Karen.

En það skemmtilegasta?

„Úff, það er afar erfitt að velja bara eitt. Eitt af því sem ég mun aldrei gleyma er þegar ég fór á Óskarinn og þegar ég horfði á tökur á Mom-þáttunum í Warner Brothers Studios og var dregin upp á svið. Þeim fannst svo áhugavert að ég væri íslensk, en Ameríkanar gjörsamlega elska okkur, svo þau spurðu mig spjörunum úr um Ísland og báðu mig svo að lokum að syngja fyrir þau á íslensku,“ segir Karen, sem fékk ekki að sleppa við það, enda Óskarsverðlaunaleikkona í leikaraliðinu.

Karen með tónlistarmanninum Redfoo sem er hvað þekktastur úr sveitinni LMFAO.

„Ég syng ekki fyrir framan fólk og neitaði því. Þau tóku hinsvegar ekki neitun sem svari og þegar sjálf Allison Janney var farin að hvetja mig áfram gat ég eiginlega ekki sagt nei. Ég meina, konan var tilnefnd, og vann síðan Óskarinn. Svo ég söng eina íslenska lagið sem mér datt í hug í augnablikinu, Rómeó og Júlíu, án undirspils og í míkrafón fyrir framan sirka þrjú hundruð manns og töluverður hluti þeirra var mikilvægt fólk í bransanum. Það þagnaði hver einasta sála í öllu stúdíóinu og starði á mig. Ég þakka enn fyrir það að hafa ekki liðið út af. En þvílíkt adrenalínkikk sem þetta var,“ segir Karen og brosir þegar hún hugsar um þetta stórkostlega augnablik.

Matvöruverslanir eins og félagsmiðstöðvar

Í náminu sem Karen er í er aðaláhersla lögð á leiklist.

Ísland togar í okkar konu og það er ýmislegt sem hún saknar frá heimalandinu.

„Fyrir utan fjölskyldu mína og vini sakna ég klárlega íslenska vatnsins. Nói Siríus kemst að vísu ansi nálægt vatninu, en samviskan segir að velja vatnið frekar,“ segir Karen og hlær. „Ég sakna líka íslensku menningarinnar mjög mikið. Menningin hér er töluvert ólík, sem kom mér mikið á óvart. Hér verð ég rosalega mikið vör við kynþáttahatur, gömul viðhorf gagnvart konum og bara almennt er mun meira misrétti en á Íslandi. En aftur á móti er fólk mun opnara hér og þú lendir miklu oftar í því að spjalla við bláókunnugt fólk tímunum saman. Það að skreppa inn í matvöruverslun hér getur oft verið eins og að ganga inn í félagsmiðstöð, á meðan þú labbar inn í Bónus heima og segir ekki orð allan tímann. Tækifærin í Los Angeles eru líka endalaus og töluvert meira úrval en heima á Íslandi. Ég gæti, held ég, þulið endalaust upp en Los Angeles og Ísland eru bara afar ólíkir staðir að öllu leyti, það er í það minnsta ekki margt sem þessir staðir eiga sameiginlegt.“

Ævistarfið er leiklistin

Talið berst að framtíðardraumunum og þó að Karen sé mikill flakkari og plani ekki langt fram í tímann er ljóst að leiklistin á eftir að spila stórt hlutverk í lífi hennar.

„Mig hefur alltaf langað að vera leikkona, alveg síðan ég man eftir mér. Aumingja mamma þurfti að horfa á ófá leikritin heima í stofu þegar ég var krakki. Svo þegar hún var hætt að nenna, tók ég þau bara upp á myndavél og horfði svo sjálf. Ég fékk síðan loksins kjarkinn til að sækja um að komast í skólann og sé svo sannarlega ekki eftir því. Ég sé mig ekki gera neitt annað í lífinu.“

Í Los Angeles er alltaf sól og blíða.

Myndir / Úr einkasafni

Dökkir litir ráða ríkjum hjá smart flugfreyju

Blaðamaður Húsa og híbýla kíkti í innlit til Hörpu Guðjónsdóttur flugfreyju og fagurkera sem hefur búið sér og sonum sínum einstaklega glæsilegt heimili. Dökkir litir ráða ríkjum hjá henni og þá sérstaklega svarti liturinn.

Harpa hefur unun af því að fegra heimilið sitt og hún hefur einstaklega næmt auga. Fjölskyldan flutti inn í þetta fallega hús í smáíbúðahverfinu í desember síðastliðnum og síðan þá er Harpa búin að gera töluverðar breytingar á húsinu.

Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar komið er inn í húsið er flott, svart eldhús en í rýminu er einnig mjög töff, svartur flauels sófi sem skapar skemmtilegan karakter í þessu opna rými. Punkurinn yfir i-ið eru Voal-gardínurnar sem hleypa birtunni inn.

Það er kúnst að raða saman húsgögnum og hlutum en það finnst Hörpu sérlega gaman að gera og hún er dugleg að færa til hluti og nostra við heimilið. Hún ferðast mikið vegna vinnu sinnar og nýtir tækifærið reglulega til að versla fallega hluti fyrir heimilið.

„Mér finnst skipta mestu máli skipta að skapa sinn eigin stíl og elta ekki tískubylgjur,“ segir Harpa.

Fékkstu innanhússarkitekt til liðs við þig?

„Ég hafði mjög svo fastmótaðar hugmyndir um hvernig heildarútlitið skyldi vera. Ég hef mjög gaman að hönnun og að fá að skapa og naut mín í botn þegar ég var að hanna útlitið, ég var á heimavelli.

Ég fékk vin minn, Andrés James, sem er innanhússarkitekt, til þess að hjálpa mér með skipulagið á eldhúsinu, það var mikil hjálp í honum. Ég var hinsvegar með efnisvalið á hreinu sjálf og vissi nákvæmlega hvað ég vildi.“

Hvernig myndir þú lýsa stílnum á heimilinu?

„Ég hef algjöra unun af því að nostra við heimilið og myndi segja að ég sé dugleg að blanda saman fínu og grófu, rómantísku og rústik, það finnst mér vera góð blanda. Ég vil hafa heimilið mitt hlýlegt og notalegt, það verður að vera nóg af kertum og blómum, það er eitthvað við blómin sem gerir allt betra.“

Hörpu finnst sérlega gaman að breyta, færa til hluti og nostra við heimilið.

Hvað er mikilvægt í þínum huga þegar kemur að því að innrétta heimilið?

„Mér finnst skipta mestu máli skipta að skapa sinn eigin stíl og elta ekki tískubylgjur. Skipulag verður að vera gott og að það sé samhljómur í því sem maður er að gera, s.s að rýmin tali saman.“

Mynd / Rut Sigurðardóttir

Ertu alltaf að breyta til á heimilinu?

„Eins og ég segi þá hef ég unun af því að skapa og þar kemur sterkt inn að breyta og bæta. Mér finnst mjög skemmtilegt að færa hluti til og nostra við litlu hlutina, raða hlutum saman á fallegan hátt o.s.frv. Þetta finnst mér einfaldlega svo skemmtilegt.“

Dökkir litir ráða ríkjum á heimilinu.

Hvað gerir hús að heimili?

„Mér finnst lykilatriði að mála í litum og að vera með fallegar gardínur; þær eru í raun eins og falleg mubla og setja punktinn yfir i-ið. Eins finnst mér hlýlegt og fallegt að vera með fallegar mottur og myndir á veggjunum. Lýsing er einnig mikilvæg og þá er óbeina lýsingin fallegust. Heimilið á að vera griðastaður þar sem okkur líður vel og hlöðum batteríin í amstri dagsins.“

Harpa fékk vin sinn, Andrés James, til þess að hjálpa sér með skipulagið á eldhúsinu.

Myndir / Rut Sigurðardóttir

Golfkúlur, innkaupakerrur og stigar bannaðir á Eurovision

|
|

Eurovision-keppnin fer fram dagana 8., 10. og 12. maí næstkomandi í Altice Arena-höllinni í Lissabon í Portúgal.

Á opinberri vefsíðu keppninnar hefur verið birtur listi yfir það sem gestir mega ekki taka með sér inn í höllina. Á listanum eru að sjálfsögðu hlutir eins og sprengiefni, vopn og fíkniefni, sem hlýtur að geta talist eðlilegt.

Hér er listinn í heild sinni.

Hins vegar eru líka nokkrir óvenjulegir hlutir á listanum eins og golfkúlur, innkaupakerrur, reipi, stigar, stólar og límband. Regnhlífar, hleðslubankar fyrir síma, fartölvur og framlengingarsnúrur eru einnig stranglega bannaðar.

Netverjar hafa skemmt sér konunlega yfir þessum lista, eins og sjá má hér fyrir neðan:

43 þjóðir keppa í Eurovision að þessu sinni, en í ár er keppnin haldin í 63. sinn. 26 þjóðir komast í úrslitin 12. maí en fulltrúi Íslands er Ari Ólafsson með lagið Our Choice.

Sjá einnig: Þetta eru lögin sem Ari keppir við í Lissabon

Sprenghlægileg kynlífstæki til heiðurs konunglega brúðkaupinu

|||
|||

Leikkonan Meghan Markle gengur að eiga Harry Bretaprins þann 19. maí næstkomandi og er mikill spenningur fyrir þessu konunglega brúðkaupi í Bretlandi.

Nú þegar er búið að fylla hillur í breskum minjagripabúðum af ýmsum varningi tengdum brúðkaupinu, svo sem viskastykkjum, borðbúnaði, sætabrauði og púðum.

Verslunin Lovehoney, sem sérhæfir sig í hjálpartækjum ástarlífsins, fer hins vegar í allt aðra átt í þessum málum. Verslunin hefur nefnilega sett á markað sprenghlægileg kynlífstæki til heiðurs Meghan og Harry.

Sjá einnig: Allt sem við vitum um konunglega brúðkaupið

Markle Sparkle.

Viðskiptavinir Lovehoney geta fest kaup á titrandi hring sem heitir Markle Sparkle, sem hannaður er til að líta út eins og trúlofunarhringur Meghan. Hægt er að setja hringinn á fingur sér og njóta titringsins sjálfur, eða leika við elskhuga sinn með honum.

Ástarhringurinn.

Svo er það ástarhringur konunglega brúðkaupsins, sem er örlítið stærri enda hugsaður sem hringur sem fer á getnaðarlim. Um er að ræða hring úr sílíkoni sem titrar einnig, en á honum eru sérstakir hnúðar sem hannaðir eru til að örva snípinn í samförum.

Umbúðir tólanna eru líka sprenghlægilegar, eins og sést hér fyrir neðan:

Fyndnar umbúðir.

Raddir