Miðvikudagur 23. október, 2024
3 C
Reykjavik

Wall Street bregst við MeToo-byltingunni með því að útiloka konur

Frá Wall Street í Bandaríkjunum

Ekki fleiri kvöldverðir með kvenkyns samstarfsfélögum. Ekki sitja við hlið þeirra í flugi. Bókið hótelherbergi á sitt hvorri hæðinni. Forðist fundi undir fjögur augu.

Þetta er á meðal þeirra viðbragða sem gripið hefur verið til í fjármálaheiminum vestan hafs í kjölfar MeToo byltingarinnar að því er fram kemur í úttekt Bloomberg. Þar segir að flest öll viðbrögð á Wall Street, þar sem karlamenningin var mjög ríkjandi fyrir, miði beinlínis að því að gera konum lífið enn erfiðara.

Er talað um Pence-áhrifin í því samhengi og vísað til ummæla Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, sem sagðist aldrei snæða máltíð með konu án þess að eiginkona hans sé viðstödd. Í Íslandi gæti þetta útlaggst sem Kristins-áhrifin með vísan í máls Kristins Sigurjónssonar sem var rekinn úr starfi sem lektor við HÍ eftir að hann stakk upp á vinnustaðir landsins yrðu kynjaskiptir.

Úttekt Bloomberg er byggð á viðtölum við 30 hátt setta stjórnendur á Wall Street og kemur þar fram að margir þeirra eigi í vandræðum með að bregðast við MeToo byltingunni. Einn þeirra orðar það sem svo að það felist í því „óþekkt áhætta“ að ráða konur til starfa. Má segja að áhrifin hafi orðið þveröfug við það sem eðlilegt hefði talist, það er að Wall Street sé orðinn meiri „strákaklúbbur“ en fyrir MeToo byltinguna.

Ákveðins ótta gætir meðal karlkyns stjórnenda. Þannig segist einn þeirra ekki halda fundi með konum í gluggalausu herbergi á meðan annar fór að ráðum eiginkonu sinnar og bókar ekki fundi með konum sem eru yngri en 35 ára. Þá er konum sjaldnar boðið í drykki eftir vinnu sem um leið gefur þeim færri tækifæri á að byggja um tengslanet sitt.

Að sama skapi veigra karlmenn sér við að gerast leiðbeinendur ungra kvenna sem eru að stíga sín fyrstu skref í fjármálaheiminum. Það hefur svo enn frekari áhrif á framgang kvenna í metorðastiganum.

Þetta á þó ekki við alls staðar og líklega kemst Ron Biscardi hjá Context Capital Partners að einföldustu nálguninni. Hann segist vissulega hafa íhugað að hætta að bóka fundi með yngri konum eða að skilja eftir hurðina opna og bjóða þriðja aðila til fundarins. En niðurstaðan hans var sú augljósasta. „Bara ekki vera asni. Það er ekki svo flókið.“

„Fróðlegt að sjá hver vill vernda plastið“

Í nýrri auglýsingu frá Íslenska gámafélaginu er skotið á Sorpu og gefið í skyn að Sorpa vilji „vernda plastið“.

Í nýrri auglýsingu frá Íslenska gámafélaginu eru fjallað um skaðsemi plastsins. Í auglýsisingunni er skotið föstum skotum á Sorpu og umdeild ummæli Björns H. Halldórssonar, framkvæmdastjóra Sorpu. Hann sagði „Sorpa sér ekki rökin fyrir banni við notkun einnota haldapoka úr plasti.“

„Plastmengun en mikið vandamál hér á landi og annars staðar og það er fróðlegt að sjá hver vill vernda plastið,“ segir m.a. í auglýsingunni.

Íslenska gámafélagið bendir á að plast brotnar ekki niður í umhverfinu heldur verður að minni einingum og á endanum smýgur inn í vistkerfið.

Birgir Kristjánsson, líffræðingur og umhverfisstjóri íslenska gámafélagsins. „Þar sem plastið er ekki náttúrulegt efni þá getur náttúran ekki brotið þetta almennilega niður og myndar jafnvel örplast eða míkróplast sem að á síðan leið inn í fæðukeðjuna okkar.“

Auglýsinguna má sjá hér fyrir neðan:

„Svolítið skrýtið að sjá sig í fjölmiðlum í öðru landi“

Íslenski klámmyndaleikarinn Stefan Octavian Gheorge fór í viðtal í gær við sjónvarpsþáttinn Antena Stars sem er nokkuð vinsæll í Rúmeníu.

Íslenski klámmyndaleikarinn Stefan Octavian Gheorge er staddur í Rúmeníu þessa stundina til þess meðal annars að heimsækja blóðmóður sína. Stefan á rætur sínar að rekja til Rúmeníu en hann var ættleiddur þaðan árið 2000. Hann hafði upp á blóðmóður sinni í gegnum þáttinn Leitin að upprunanum sem sýndur var á Stöð 2 í fyrra.

Skömmu eftir að hann kom til Rúmeníu á dögunum fékk hann fyrirspurn í gegnum Instagram frá sjónvarpsþættinum Antena Stars sem er nokkuð vinsæll í Rúmeníu. Honum var boðið í viðtal. Stefan þáði það og veitti fylgjendum sínum á Snapchat innýn inn í ferlið í gær. Í viðtalinu var farið yfir sögu Stefans sem rataði í rúmenska fjölmiðla á þeim tíma sem hann fór til Rúmeníu með þann tilgang að finna blóðforeldra sína.

Eftir viðtalið, sem sýnt var í gær, var Stefani svo boðið í slökun í heilsulind og var hann himinlifndi með það. „Það er svolítið skrýtið að sjá sig í fjölmiðlum í öðru landi, pínu skrýtið,“ sagði hann á Snapchat áður en hann skellti sér í sund í heilsulindinni.

Viðskiptavinum Klausturs fjölgað mikið

Viðskiptavinum Klausturs hefur fjölgað mikið síðan barinn rataði í fjölmiðla í tengslum við leyniupptökumálið svokallaða.

Lísa Óskarsdóttir, rekstrarstjóri vínbarsins Klausturs, segir leyniupptökumálið eða klausturgate-málið, sem fjallað hefur verið mikið um í fjölmiðlum undanfarið, hafi svo sannarlega orðið til þess að viðskiptavinum Klausturs hefur fjölgað til muna. „Þetta mál hefur vakið mikla athygli á barnum og við fundum fyrir aukinni aðsókn síðustu helgi. Það var alveg klikkað að gera,“ segir hún.

„Hingað til höfum við verið svolítið falin. Við höfum ekki mikið verið að auglýsa okkur, þetta hefur alltaf verið rólegur bar og fólk hefur getað komið hingað og spjallað án þess að þurfa að öskra yfir borðið.“ Þess má geta að Klaustur bar opnaði árið 2014. „En við erum auðvitað hæstánægð með að fólk viti af okkur núna.“

Hingað til höfum við verið svolítið falin.

Lísa segir marga viðskiptavini vera forvitna um hvar þingmennirnir sem komu að málinu sátu umrætt kvöld. „Fólk sem mætir er forvitið og það er hiklaust gert grín. Fólk reynir að hafa húmor fyrir þessu.“

Starfsmenn Klausturs hafa einnig reynt að slá á létta strengi eftir að upptökur af þingmönnunum rötuðu í fjölmiðla og nýtt sér samfélagsmiðla til að gera grín af málinu. „Það er ekkert annað hægt að gera.“

Mynd / Facebook Klausturs

Sjá einnig: Virðum einkalíf þingmanna en almannahagsmunir vega þyngra

Gerðist Gunnar Bragi sekur um mútuþægni?

||

Höfundur / Ómar R. Valdimarsson, lögmaður.

Ómar R. Valdimarsson. Mynd / Gassi Ólafsson

Í umræðum um afdrifaríka kvöldið á Klaustri bar hefur verið töluvert fjallað um það þegar Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrum utanríkisráðherra, ræddi við drykkjufélaga sína um skipan Geirs H. Haarde og Árna Þórs Sigurðssonar í embætti sendiherra. Í umræðunni hefur m.a. verið látið að því liggja, að með embættisfærslum sínum hafi Gunnar Bragi þarna brotið lög, þ.á.m. 128. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í 1. mgr. þeirrar lagagreinar segir:

„Ef opinber starfsmaður, alþingismaður eða gerðarmaður heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“

Þegar fyrri ummælin um skipan sendiherra eru skoðuð, er ólíklegt að hægt sé að fullyrða, að Gunnar Bragi sé að gangast við því að hafa brotið gegn framangreindu hegningarlagaákvæði. Í upptökunni, sem m.a. hafa verið gerð góð skil af Kvennablaðinu, segir Gunnar Bragi í fyrri hluta þessa samtals:

„Þegar ég ákvað það að skipa Geir H. Haarde sem sendiherra í Washington, það var í fyrsta lagi … við ákváðum þetta saman, skilurðu … Ég ræddi það síðan sem … Það hefur ekki skemmt. … Þeim fannst þetta nú ekki … Ég fór og ræddi þetta við náttúrulega, ég ræddi þetta við alla flokka í sjálfu sér. Ég man ekki hvort ég hafi sagt … Ástæðan var sú að ég sá strax það að ég gæti ekki skipað Geir einn sendiherra. Ég gæti ekki … einan. Það yrði of þungur biti fyrir þingið og allt þetta. Þannig að ég gerði Árna Þór að sendiherra.“

Þrátt fyrir að framangreind ummæli teljist varla brjóta gegn ákvæði almennra hegningarlaga, mætti setja þau í samhengi við a-lið 1. mgr. 10. gr. laga um ráðherraábyrgð nr. 4/1963. Í ákvæðinu segir:

„Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum:

  1. a. ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín.“

Framangreint lagaákvæði yrði ávallt að skoða með tilliti til þeirra hátternisreglna, sem um störf ráðherra gilda. Þar er nærtækast að líta til ákvæðna siðareglna ráðherra nr. 360/2011 (sem rétt er að taka fram að aldrei voru staðfestar af ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar). Í framangreindum siðareglum er fjallað með nokkuð ítarlegum hætti um hagsmunatengsl, hagsmunaárekstra, háttsemi og framgöngu ráðherra. Rauður þráður reglnanna er að ekkert skal það aðhafast, sem varpað gæti skugga á trúverðugleika ráðherra, það hvort hann sé öðrum háður eða hvort hann sé að nýta sér stöðu sína til þess að ota sínum tota. Þegar reglurnar eru lesnar með hliðsjón af áðurnefndri lagagrein laga um ráðherraábyrgð, er ekki ónærtækt að telja að annað hafi ráðið för hjá Gunnari Braga en faglegt mat á hæfni Árna Þórs og Geirs Haarde til þess að gegna embættunum.

Gunnar Bragi.

Nú er það hins vegar svo, að sök skv. lögum um ráðherraábyrgð fyrnist á þremur árum og ráðherrar verða aðeins dregnir til ábyrgðar skv. 14. gr. stjórnarskrárinnar, eftir að Alþingi hefur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Með vísan til þessa verður að telja að þessi angi málsins sé úti.

Víkur nú sögunni að því gagngjaldi, sem Gunnar Bragi vildi fá persónulega, fyrir skipun Geirs í embætti sendiherra. Í seinni hluta samtalsins á Klaustur bar sagði Gunnar Bragi:

„Þegar ég á fund með Bjarna í forsætisráðuneytinu, nei í fjármálaráðuneytinu, og ég segi við Bjarna: Bjarni, algjörlega sjálfsagt, auðvitað geri ég Geir að sendiherra. Hvað segi ég við Bjarna? Bjarni, mér finnst bara sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda.“

Bjarni, algjörlega sjálfsagt, auðvitað geri ég Geir að sendiherra.

Óhjákvæmilegt er að horfa til áðurnefndrar 128. gr. almennra hegningarlaga þegar þessi orð eru skoðuð. Erfitt er að komast að annarri niðurstöðu en að þarna sé Gunnar Bragi að greina frá því, að hann hafi verið að láta lofa sér ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns. Brot gegn þessu ákvæði varðar allt að 6 ára fangelsi.

Rétt er að geta þess, að Bjarni Benediktsson segir að þessi frásögn sé þvættingur, a.m.k. að svo miklu leyti sem að Gunnar Bragi eigi nokkuð inni hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir skipan Geirs sem sendiherra. Allt að einu, gæti dómstóll komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn ákvæðinu, með því einu að Gunnar Bragi hafi gert kröfu um loforð frá Bjarna Benediktssyni, algjörlega óháð því hvort loforðið hafi verið gefið eða jafnvel að Bjarni hafi sagt honum að éta það sem úti frýs. Ákvæðið yrði tæplega skýrt svo þröngt af dómstól, að til þess að brotið hefði verið gegn því hefði þurft að koma samþykki fyrir kröfunni um ávinninginn.

Að öllu framangreindu sögðu má velta því fyrir sér, hvort það sé enn hægt að ákæra Gunnar Braga fyrir brot gegn 128. gr. almennra hegningarlaga, að undangenginni rannsókn á brotinu. Gunnar Bragi skipaði Geir og Árna sendiherra 30. júlí 2014. Miðað við frásögn Gunnars Braga sjálfs má gera að því skóna að fundur hans með Bjarna hafi átt sér stað einhvern tíma þar á undan. Brot gegn ákvæði 128. gr. hegningarlaga fyrnist á 10 árum, sbr. 3-lið 1. mgr. 81. gr. laganna. Til þess að rannsókn geti hafist þarf lögreglunni ekki að berast nein kæra frá forsætisnefnd Alþingis, eins og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu virðist halda. Á lögreglu hvílir frumkvæðisskylda til þess að rannsaka þau afbrot sem kunna að vera framin í landinu. Það er ekki nema í undantekningartilvikum sem lögregla rannsakar ekki afbrot nema að undangenginni kæru, s.s. frá Fjármálaeftirlitinu eða Samkeppniseftirlitinu.

Með vísan til alls þessa er ljóst að Gunnar Bragi er ekki hólpinn, vilji rannsakendur skoða málið frekar.

Sjá einnig: Vandræðalegt karlagrobb en kallar ekki á afsagnir

Lýsingin gegnir lykilhlutverki

Sandra Dís Sigurðardóttir er innanhússarkitekt og lýsingarhönnuður og ein af fáum sem er hvort tveggja hér á landi. Fasteignablaði Mannlífs lék forvitni að vita meira um áherslur og verkefni Söndru Dísar og hvort það væri ekki mikill kostur að samþætta þessi tvö starfsheiti þegar kemur að því að hanna rými.

Getur þú sagt okkur frá nýlegu verkefni sem er þér hugleikið og hvar þú fékkst innblásturinn? „UMI Hótel opnaði í ágúst 2017 en hönnunin á því er mikið til sótt í náttúruna og liti hennar. Ég notaði haustlitina töluvert í hönnuninni ásamt formum og áferð úr náttúrunni eins og til dæmis mosann og stuðlabergið.“

UMI Hótel opnaði í ágúst 2017.

Skiptir lýsing miklu máli? „Hún gegnir lykilhlutverki í hönnun á öllum rýmum. Um leið og rökkva tekur gegnir hún mikilvægu hlutverki í að skapa stemningu. Með réttri lýsingu er sömuleiðis hægt að hafa áhrif á vinnuafköst hjá starfsfólki og nemendum ásamt því að hún getur hjálpað til við bata hjá sjúklingum.“

Hvað hefur þú í huga þegar þú hannar og innréttar með lýsingu í huga? „Ég spyr mig að því hvaða hlutverki þetta rými gegnir, hver muni nota það og hvort sérstakar lýsingarkröfur séu gerðar til þessa rýmis. Með mismunandi lýsingarkröfum á ég við að það eru öðruvísi staðlar ef um er að ræða lýsingu á skrifstofu eða á hjúkrunarheimili, svo dæmi sé tekið.“

Lýsingin setur punktinn yfir i-ið hér.

Ertu hrifin af opnum rýmum þar sem eldhús, stofa og borðstofa tengjast saman? „Ég er persónulega hrifin af þannig rýmum en það hentar ekki öllum. Það getur verið gott fyrir suma ef möguleiki er á að stúka eldhúsið aðeins af. Einnig er hægt að hafa eldhústækin innbyggð að miklu leyti þannig að eldhúsið falli betur inn í stofuna.“

Lumar þú á góðum lausnum þegar velja á lýsingu í hin ýmsu rými? „Það þarf að skoða hvort það séu eitthverjir ákveðnir hlutir sem við viljum lýsa upp, til dæmis málverk eða listaverk. Einnig hvar við viljum geta dimmað lýsinguna. Mikilvægt er að huga að lýsingunni meðal annars inni á baðherbergi þar sem þörf er á góðri og jafnri lýsingu á andlitið fyrir förðun.“

Skiptir máli hvernig lýsing er valin í stofu? „Í stofunni er mest verið að hugsa um stemningslýsingu. Þar skiptir útlitið á lömpunum miklu máli fyrir útlitið á stofunni en nauðsynlegt þykir mér að hægt sé að dimma þá lampa sem þar eru. Einnig er gott að hafa nokkrar týpur af lömpum, til dæmis hangandi, loftlampa og standlampa til að skapa mismunandi stemningu.“

Sandra mælir með að nota nokkrar týpur af ljósgjöfum í stofur.

Skiptir litaval máli hvað varðar lýsingu og stærð? „Endurkast er mismikið eftir litum þannig að ef valdir eru dökkir litir inn í rými draga þeir í sig birtuna og þarf þar af leiðandi meiri lýsingu en ef rýmið er ljóst. Fólk þarf ekki að vera hrætt við að mála í litum heima hjá sér, það gefur oftast meiri hlýju inn í rýmið og minnkar það ekki eins og margir eru hræddir um.“

Mynd / Hallur Karlsson

Sandra Dís útskrifaðist frá Istituto Europeo di Design í Mílanó árið 2011 sem innanhússarkitekt. Að loknu námi fór hún í starfsnám í Helsinki á innanhússarkitektastofu að nafni Studio Arcibella. Eftir að hún flutti heim til Íslands hafði Sandra Dís lokið námi við lýsingarhönnun og vinnur við hana hjá Lisku ásamt því að vinna sjálfstætt sem innanhússarkitekt. Hún heldur úti síðu á Facebook og heimasíðan hennar opnar bráðlega.

Michelle Obama gefur Meghan Markle góð ráð

Michelle Obama ráðleggur Meghan Markle að taka því rólega í nýju hlutverki.

Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, gefur Meghan Markle, hertogaynjunni af Sussex, ráðleggingar í viðtali við tímaritið Good Housekeeping. „Líkt og ég, þá hafði Meghan örugglega ekki getað ímyndað sér að hún myndi lifa svona lífi,“ segir Michelle.

„Pressan sem þú ert undir, pressa frá sjálfri þér og öðrum, getur verið yfirþyrmandi. Mitt helsta ráð er að taka sér sinn tíma og ekki flýta sér um of,“ ráðleggur Michelle.

Mitt helsta ráð er að taka sér sinn tíma.

Þá lýsti hún fyrstu mánuðum sínum í Hvíta húsinu og hvernig hún einbeitti sér að því að hugsa um dætur sína tvær áður en hún tók að sér metðanarfull verkefni sem forsetafrú. „Ég held að það sé allt í lagi, gott jafnvel, að gera þetta svona.“

Meghan, sem giftist inn í bresku konungsfjölskylduna í sumar, hefur nú þegar tekið að sér hin ýmsu verkefni síðan hún varð hertogayngja og virðist Michelle hafa einhverjar áhyggjur af henni. Hún benti á að Meghan fái nú endalaus tækifæri til að láta gott af leiða í þessu nýja hlutverki og þurfi að velja vel. Hún tók þá fram að hún hefur fulla trú á Meghan.

Sjá einnig: Karl Bretaprins leiðir Meghan upp að altarinu

Fólkið á Twitter um #klausturgate-málið

Þetta hefur fólk á Twitter að segja um #klausturgate-málið svokallaða.

Undanfarna daga hefur umræðan á Twitter að miklu leyti snúist um gróf og móðgandi ummæli þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins sem náðust á upptöku.

Samræðurnar sem náðust á upptöku eru með ólíkindum og svörin sem þingmennirnir gefa eftir að upptakan rataði í fjölmiðla eru stórfurðuleg.

Landsmenn hafa fylgst undrandi með þróun mála og allir virðast hafa skoðun á því. Málið hefur verið kallað #klausturgate-málið á samfélagsmiðlum.

Hér fyrir neðan er lítið brot af því sem fólk hefur um málið að segja.

https://twitter.com/raggihans/status/1069559517711454208

Ný þingkona hristir upp í húsinu

Alexandria Ocasio-Cortez hefur komið eins og stormsveipur inn í bandarísk stjórnmál.

Þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez leiðir nú hóp framsýnna demókrata sem krefjast þess að gerður verði nýr grænn sáttmáli „New Green Deal“ sem gengur út á útfösun jarðefnaeldsneytis og að sköpun umhverfisvænna starfa. Fyrir skömmu tók hún þátt í mótmælum í tengslum við loftslagsbreytingar og skort á aðgerðum demókrata í þinginu á skrifstofu Nancy Pelosi, sem er hennar flokkssystir og leiðir demókrata í húsinu. Sama dag tilkynnti hún að hún myndi í prófkjörum fyrir kosningar 2020 styðja aktívista sem ætla fram úr röðum demókrata. Með því lýsir hún yfir vantrausti á nýja samstarfsmenn sína, núverandi sitjandi fulltrúa demókrata.

Ocasio-Cortez er í hópi sósíal-demókrata enda vann hún í kosningabaráttu Bernie Sanders. Hún var kosin á þing í fjórtánda umdæmi New York borgar. Merkilegt nokk var hún líka kosin sem fulltrúi fimmtánda umdæmis í prófkjöri demókrata, þó hún væri ekki einu sinni í framboði þar. Því þurfti hún að velja um kjördæmi. Augljóst er að hún á sér marga fylgjendur í borginni.

Alin upp af einstæðri móður í Bronx

Þingkonan er nýorðin 29 ára og hefur þar með sett met sem yngsta kjörna þingkonan í ameríska þinginu. Hún er fædd í Bronx, alin upp af einstæðri móður sem þurfti að skrúbba klósett og harka til að eiga fyrir reikningum. Ung fór Ocasio-Cortez að hjálpa við heimilishaldið m.a. með því að vinna á bar. Kosningabarátta hennar hefur mikið snúist um að hún ætli að standa með sinni stétt, færa valdið til fólksins og hún sé málsvari almennings og breytinga í bandarískum stjórnmálum. Andstæðingar hennar hafa þegar ráðist á hana m.a. með því að vega að því að hún sé málsvari láglaunafólks, með því að nota jakka sem hún klæddist í þinginu, með dylgjum um að hann væri of fínn.

Innan Washington hefur hún verið að þyrla upp ríkjandi hefðum, vill opna störf þingsins fyrir almenningi og gera þingið mannlegra með því að nota samfélagsmiðla í meira mæli. Ocasio-Cortez er orðin stjarna á stuttum tíma á smáforritinu Instagram með um milljón fylgjendur. Áðurnefnd Nancy Pelosi, sem hefur í áratugi verið í bandarískum stjórmálum og sem leiðir demókrata í þinginu, hefur til samanburðar aðeins um 130.000 fylgjendur.

Það verður áhugavert að fylgjast með Ocasio-Cortez og nýjum þingmönnum demókrata á næstu misserum, en athygli vekur að sósíalismi er að riðja sér til rúms í bandarískum stjórnmálum. Skilaboð þessa nýju þingmanna eru talin róttæk og ekki kerfislæg, en það var talinn einn helsti styrkleiki Trump og há Hillary Clinton að hún væri of kerfislæg. Hvort sterka mótvægið sem nær að velta Donald Trump úr sessi sé fólgið í sterkum sósíalisma verður að koma í ljós.

Mynd / Af Facebook síðu Alexöndiu

Kápa og strigaskór, skyldueign í skápnum

|||
|||
„Plain gulllituðu hoops-eyrnalokkarnir mínir eru í miklu uppáhaldi og svo Vera Design-eyrnalokkarnir mínir en ég hef notað þá nánast daglega síðan ég fékk þá.“

Sunneva Sif Jónsdóttir bar sigur úr býtum sem fyrsta Queen Beauty Universe og undirbýr sig fyrir keppnina sem haldin verður í Valencia nú í lok nóvember. Að hennar mati þurfa allar konur að eiga fallega kápu og flotta strigaskó.

„Ég hef alltaf verið frekar mikil strákastelpa, elskað hettupeysur og strigaskó,“ segir Sunneva þegar hún er beðin um að lýsa sínum persónulega stíl. „En mér finnst líka alltaf gaman að hafa mig til og vera fín annað slagið.

Efst á mínum óskalista þessa stundina eru Billi bi-ökklaskór sem ég sá í GS skóm nú fyrir stuttu en svo langar mig líka í einhverja fallega kápu fyrir haustið. Að mínu mati ættu allar konur að eiga fallega kápu í fataskápnum sínum sem og flotta strigaskó.

„Leðurjakkinn er óumdeilanlega mín uppáhaldsflík en hann er frá Pull and Bear. Hann er oversized og passar við allt. Leitaði lengi að hinum fullkomna leðurjakka og fann hann svo loksins á Asos og var í skýjunum.“

Hér á Íslandi finnst mér skemmtilegast að versla í Zöru en annars skoða ég líka mikið á Netinu, á Asos. Þegar ég ferðast í útlöndum kíki ég alltaf í Monki, Bershka og Urban Outfitters.“

Aðspurð hvaða konur veiti Sunnevu innblástur nefnir hún fyrst Emmu Watson. „Hún er mögnuð kona en tískulega séð myndi ég segja Gigi Hadid.“


„Sú flík sem hefur mesta tilfinningalega gildið er stúdentskjóllinn minn.“

 

Bannsvæði víða um heim

||||
||||

Þegar við ferðumst viljum við flest reyna að sjá sem mest og fá eins mikið út úr ferðalaginu og hægt er. Sums staðar rekumst við þó á veggi því margir staðir í heiminum hafa takmarkað aðgengi og önnur eru harðlokuð almenningi. Hér má lesa um nokkur þeirra og Ísland á að sjálfsögðu sinn fulltrúa.

 

Bohemian Grove

Bohemian-klúbburinn í Monte Rio, Kaliforníu samanstendur af ríkasta og valdamesta fólki heims. Á stórri og skógivaxinni landareigninni getur það skemmt sér án þess að almúginn flækist fyrir. Það kostar 25 þúsund dollara að ganga í klúbbinn og árgjaldið er 5 þúsund dollarar. Ekki fær þó hver sem er að verða meðlimur og þeir sem reyna að lauma sér óboðnir inn á svæðið verða umsvifalaust handteknir. Athyglisverður klúbbur sem er sagður búa yfir mörgum leyndarmálum.

 

Lascaux-hellamyndirnar

Hinn átján ára Marcel Ravidat, ásamt þremur vinum sínum, fann hellinn með þessum forsögulegu hellamyndum þann 12. september 1940. Átta árum síðar voru hellarnir opnaðir almenningi og allt að 1200 manns heimsótti þá daglega. Um 2000 myndir/fígúrur er að finna á veggjunum, bæði af mönnum og dýrum og einnig abstrakttákn. Myndirnar eru taldar vera rúmlega 17 milljón ára gamlar. Strax árið 1955 var komið í ljós að þessi umgangur fór illa með minjarnar en það var ekki fyrr en árið 1963 sem hellunum var lokað almenningi.

 

Örkin hans Nóa á Svalbarða

Á norsku eyjunni Svalbarða er að finna hvelfingu sem byggð er langt inn í fjall. Hún geymir miklar fræbirgðir í öryggisskyni ef eitthvað alvarlegt gerist í heiminum og hungursneyð blasir við. Aðeins starfsmenn og stöku vísindamenn fá aðgang að hvelfingunni en of áhættusamt þykir að hleypa öðrum þar inn. Um 865 þúsund frætegundir alls staðar að í heiminum er að finna þar. Meira að segja Norður-Kórea á þarna innlegg. Fræhvelfingin var tekin í notkun árið 2008 og þegar hefur ein úttekt farið fram, þegar frægeymsla Sýrlendinga í Aleppo var eyðilögð í sprengjuárás fyrir nokkrum árum.

 

Svæði 51

Bandaríkjamenn hafa loks viðurkennt tilvist þessa staðar í Nevada eftir áralangar klikkaðar samsæriskenningar um hann. Það þýðir þó ekki að almenningur sé velkominn þangað.

 

Menwith Hill 

Vissulega getur maður ekki spígsporað inn í hvaða herstöð sem er. Almenningur er þó sérlega óvelkominn á herstöð breska flughersins í Norður-Yorkshire í Bretlandi þar sem hin bandaríska NSA-leyniþjónusta hefur aðstöðu en leyndin er aðalsmerki hennar. Hún er sögð mikilvægasta herstöð Bandaríkjanna á erlendri grund. Stærsta hlerunarstöð heims?

 

Skjalasafn Vatíkansins

Í þessu leynda safni eru geymd flest þau skjöl sem Páfastóll hefur sankað að sér. Hluti safnsins var opnaður árið 1922 og nokkru síðar sá sem tengist seinni heimstyrjöldinni. Mikil leynd hefur hvílt yfir stærstum hluta safnsins og margar samsæriskenningar hafa orðið til um hvað það hefur að geyma.

 

Surtsey

Eyjan varð til í eldgosi sem hófst árið 1963 og hefur verið friðlýst frá 1965. Markmiðið var að tryggja að þróun eyjarinnar verði eftir lögmálum náttúrunnar, að landnám plantna og dýra, framvinda lífríkis og mótun jarðmyndana verði með sem eðlilegustum hætti og truflun af völdum manna sem minnst. Óheimilt er að fara í land eða kafa við eyna nema til rannsókna og verkefna þeim tengdum og þá aðeins með skriflegu leyfi Umhverfisstofnunar. Siglingar í kringum Surtsey eru þó heimilar. Þess má geta að Vestmannaeyingar vildu ólmir að eyjan fengi nafnið Vesturey en fengu ekki.

 

Hvítukarlaklúbburinn í London

Hann heitir White’s Gentleman’s Club, og þar drekkur og spilar bresk karlkynselíta. Umsækjendur þurfa samþykki 35 meðlima og árgjaldið er himinhátt.

 

Ilha da Queimada Grande

Brasilísk eyja sem er sundurgrafin af nöðrum og þarf ekki annað en að ganga nokkur skref til að eiga á hættu að missa lífið. Aðeins örfáir vísindamenn hafa leyfi til að heimsækja þessa snákaeyju.

 

Niihau

Þessi eyja er ein af Havaí-eyjaklasanum. Ástæðan fyrir því að enginn má koma þangað er sú að hún er í einkaeign. Um 130 manns búa þar en aðeins þeir sem Robinson-fjölskyldan býður mega koma í heimsókn.

 

Jiangsu-alþjóðaleynifræðslusafnið

Jiangsu National Security Education Museum er staðsett í Nanjing í Kína og er eingöngu opið kínverskum almenningi. Öllum öðrum er úthýst vegna viðkvæmra njósnaupplýsinga sem þar er að finna.

 

Heard-eyja

Aðeins 400 manns er leyft að heimsækja þessa áströlsku eyju ár hvert. Bátur fer þangað á tveggja vikna fresti yfir úfinn sjó og veðurfarið er svo ömurlegt að frekar fáir eru hvort eð er spenntir fyrir að berja eyjuna augum.

„Segir Læknafélagið á skjön við breska kollega“

|
|

Læknafélag Íslands hefur skorað á yfirvöld að stöðva án tafar sölu á rafrettum eða „veipi“. Guðmundur Karl Snæbjörnsson, sérfræðingur í heimilislækningum í Svíþjóð, sagðist í viðtali við Lindu Blöndal á Hringbraut vera því fullkomlega ósammála. Ekkert hefði verið sannað um skaðsemina. Hart er deilt um þetta en Læknafélagið segir Guðmund Karl vera einn af örfáum til að segja rafrettur skaðlausar.

Lára G. Sigurðardóttir, læknir og lýðheilsufræðingur. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Guðmundur Karl segir nikótínið ekki hættulegra en til dæmis koffín heldur sé það reykurinn sem drepi. Fimmtán ára reynsla sé komin af veipi. „Það er komin meiri reynsla á þetta en nokkurt lyf sem er markaðssett,“ segir hann. Milljónir manna hafi hætt að reykja með hjálp „veips“ og samkvæmt rannsóknum Rannsókna og greiningar sem gerðar eru árlega í skólum á Íslandi hafi komið fram að um 65 prósent af þeim sem veipi reglulega hafi áður annaðhvort reykt eða notað munntóbak. Því sé sáralítil nýliðun nikótínnotenda í þeim hópi.

„Læknafélag Bretlands er á sömu skoðun og ég,“ segir Guðmundur Karl. „Það eru margir [læknar] sammála mér. Þeim sem fara gegn straumnum í þessum efnum er nánast slátrað.“

Lára G. Sigurðardóttir, læknir og lýðheilsufræðingur, segir nikótín ekki skaðlaust heldur sterkt ávanabindandi eiturefni og þannig flokkað hjá Umhverfisstofnun. Engin merki séu um að rafsígarett¬ur tengist lækkun á tíðni reykinga. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hafi rannsakað bragðefnin og komist að því að mörg innihaldi formaldehýð sem er þekkt krabbameinsvaldandi efni.

Nóg púður eftir í tunnunni í Úkraínu

|
Vladimír Pútín Rússlandsforseti.

Aukin harka er hlaupin í stríðið á milli Úkraínu og Rússlands eftir að Rússar tóku þrjú skip úkraínska hersins og skipverja þeirra í gíslingu eftir að til átaka kom við Krímskaga. Stjórnvöld í Kænugarði svöruðu með því að setja herlög sem Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, segir nauðsynleg ef ske kynni að Rússar réðust til inngöngu í landið.

Stríð hefur geisað í Úkraínu allt frá því Rússar hertóku Krímskaga þvert á alþjóðalög. Stríðið er að mestu bundið við Luhansk og Donetsk í austurhluta landsins en þar hafa uppreisnarmenn, dyggilega studdir af Rússum, haldið uppi hernaði gegn úkraínska hernum. Yfir 10 þúsund manns hafa fallið í átökunum. Skærurnar í vikunni hófust þegar úkraínsku herskipin freistuðu þess að sigla frá Odessa til Mariupol sem bæði eru undir stjórn Úkraínu. Til þess þurftu þau að sigla fyrir Krímskaga, í gegnum Kerch-sund og inn á Azovshaf þar sem Rússar ráða ríkjum. Til átaka kom þegar skipin sigldu inn á Kerch-sund og slösuðust sex úkraínskir skipverjar áður en Rússar tóku skipin yfir. Vilja Rússar meina að skipin hafi siglt ólöglega inn í rússneska lögsögu. NATO boðaði til neyðarfundar á mánudaginn vegna atviksins þar sem niðurstaðan var að fordæma framferði Rússa.

Herlögin sem úkraínska þingið samþykkti á þriðjudaginn eru bundin við 10 af 27 héruðum landsins og gilda í 30 daga. Þetta eru þau héruð sem eiga landamæri að Rússlandi, Trans-Dniester-héraði í Moldavíu þar sem rússneski herinn er með viðveru og við ströndina að Azovshafi. Á þessum tíma verða mótmæli og verkföll bönnuð og almennir borgarar geta verið kallaðir í herinn. Poroshenko segir að þetta hafi ekki áhrif á forsetakosningarnar sem fyrirhugaðar eru í mars.

Litlir grænir menn á Krímskaga
Stríðið í Úkraínu hófst eftir að Viktor Yanukovych var hrakinn úr stóli forseta í byltingunni á Maidan-torgi í ársbyrjun 2014. Yanukovych var hliðhollur Rússum en upp úr sauð þegar hann bakkaði út úr viðskiptasamningi sem gerður hafði verið við Evrópusambandið og hugðist styrkja tengslin við Rússa enn frekar. Um svipað leyti fór að bera á „litlum grænum mönnum“ á Krímskaga, það er ómerktum hermönnum sem lögðu undir sig mikilvæg mannvirki. Velktist enginn í vafa um að þarna færu rússneskir hermenn sem nutu liðsinnis uppreisnarmanna hliðhollum Rússum. Í byrjun mars efndu uppreisnarmenn til „þjóðaratkvæðagreiðslu“ þar sem samþykkt var að Krímskagi skyldi tilheyra Rússlandi og hafa Rússar haft fulla stjórn á Krímskaga síðan. Aðeins fimm ríki viðurkenna yfirráð Rússlands á skaganum sem hefur gríðarlegt hernaðarlegt mikilvægi fyrir Rússa, en þaðan stýra þeir Svartahafsflota sínum.

„Við erum að verða vitni að enn einni gáleysislegri ögruninni af hálfu Rússa. Bandaríkin munu sem fyrr standa með úkraínsku þjóðinni gagnvart ágengni Rússa.“
– Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.

Dæla vopnum og fjármunum í uppreisnarmenn
Í apríl 2014 hófust bardagar á milli uppreisnarmanna og úkraínska stjórnarhersins í Donetsk og Luhansk og standa þau átök enn yfir. Hernaður Rússa í Úkraínu er um margt óhefðbundinn. Rússar hafa löngum þrætt fyrir aðkomu sína að átökunum en ekki þarf að velkjast í vafa um að uppreisnarmennirnir eru ríkulega studdir af stjórnvöldum í Kreml, bæði að vopnum og fjármunum. Til að mynda er sannað að það voru uppreisnarmenn sem skutu niður farþegaþotu Malaysian Airlines yfir austurhluta Úkraínu sem varð 283 manns að bana. Samhliða því hafa Rússar beitt tölvuárásum í Úkraínu og notað ríkisfjölmiðla sína grimmt í áróðursstríði.

Viðskiptabannið bítur
Fjöldi ríkja, þar með talið Ísland, sameinaðist um að beita Rússa efnahagsþvingunum vegna framferðis þeirra í Úkraíanu. Frá því fyrsta viðskiptabannið – sem nær til stjórnvalda, fyrirtæka og einstaklinga – var sett á í febrúar 2014 hefur það verið framlengt með reglulegu millibili og mun að öllum líkindum verða framlengt aftur þegar það rennur út í febrúar á næsta ári. Aðgerðirnar hafa vissulega valdið Rússum vandræðum, en þau hafa einnig haft neikvæð áhrif á nokkrar af viðskiptaþjóðum Rússa í Evrópu. Í vikunni greindi Washington Post frá því hvernig Rússar hafa farið í kringum bannið og haldið áfram að fjármagna uppreisnarmenn í Úkraínu með því að flytja fjármuni milli Moskvu og Úkraínu í gegnum Suður-Ossetíu, landsvæði í Georgíu sem Rússar hafa hernumið frá því 2008.

„Þetta [Úkraínumenn] eru stigamenn. Þeir nota aðferðir stigamanna, fyrst ögra þeir, svo beita þeir valdi og loks saka þeir aðra um að beita valdi.“
– Maria Zakharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins.

Pútín sér leik á borði
Ólíklegt er að skærurnar í vikunni endi með allsherjar stríði á milli ríkjanna tveggja. Hins vegar er ekkert sem bendir til þess að Rússar láti Krímskaga af hendi og láti af stuðningi við uppreisnarmenn í Úkraínu. Þvert á móti bendir margt til þess að átökin gætu harðnað enn frekar næstu misserin. Rússar gætu séð sér hag í því að magna upp átökin í aðdraganda forsetakosninganna í mars til að veikja stöðu Poroshenko. Að sama skapi hafa vinsældir Vladímírs Pútín heima fyrir dalað sökum þrenginga í efnahagslífinu og reynslan sýnir að þegar herinn hnyklar vöðvana aukast vinsældir hans.

„Það var reynt að vega að mér um leið og ég kom inn í ráðuneytið“

|||
|||

Sigríður Á. Andersen er álitin með umdeildari stjórnmálamönnum landsins þótt sjálf upplifi hún sig ekki umdeilda. Hún heillaðist af frjálshyggju sem barn eftir að hafa horft á sjónvarpsþátt með Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og Milton Friedman en hún gekk svo í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins um leið og hún hafði aldur til. Eftir að hafa reynt við læknisfræði í háskóla sneri hún sér að lögfræði þar sem þrætulistin átti vel við hana og gegnir hún nú æðsta embætti dómsmála í landinu.

Í dag er nákvæmlega ár síðan stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna var kynntur. Samstarfið hefur að mestu gengið stóráfallalaust fyrir sig en það hefur þó mætt á einum ráðherra umfram aðra, dómsmálaráðherranum Sigríði Á. Andersen sem meðal annars hefur þurft að verjast vantrauststillögu í þinginu vegna umdeildrar skipunar dómara í Landsrétt. Þetta var annar stormurinn á stuttum tíma því ríkisstjórnin sem hún sat í áður hafði fallið vegna trúnaðarbrests sem samstarfsflokkur taldi að hefði orðið í máli er laut að eldri veitingu uppreistar æru. Þrátt fyrir þessi hitamál upplifir Sigríður sig ekki sem umdeildan stjórnmálamann og segist mæta miklum velvilja í störfum sínum.

Þarf að gera fleira en gott þykir

Vantrauststillagan var borin upp eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Sigríður hafði brotið gegn matskenndu ákvæði stjórnsýslulaga við skipan dómara í Landsrétt sem þá var verið að koma á laggirnar. Hæfisnefnd hafði lagt fram tillögu um 15 hæfustu umsækjendurna en Sigríður breytti þeirri tillögu, tók fjóra umsækjendur af lista og setti fjóra aðra á listann í staðinn. Þrátt fyrir kröfur andstæðinga um afsögn og að könnun Maskínu og Stundarinnar sýndi að þrír af hverjum fjórum vildu að hún segði af sér, stóð Sigríður föst á sínu og sagðist einfaldlega ósammála niðurstöðu Hæstaréttar. Við það stendur hún enn.

„Það er nú þannig, hvort sem er í stjórnmálum eða þegar menn eru að reka eitthvert apparat þá þarf maður að gera fleira en gott þykir. Ég stóð frammi fyrir ákveðnum aðstæðum,“ segir Sigríður en Alþingi hafi gert henni ljóst að það myndi ekki samþykkja listann óbreyttan og því hafi hún orðið að gera breytingar.

„Málið var komið í pólitískar skotgrafir áður en ég auglýsti embættin laus til umsóknar, þá var strax byrjað að hóta ráðherranum að hann skyldi ekki voga sér að koma með svona lista eða hinsegin og mér fannst það miður. Þegar listi nefndarinnar lá fyrir kom ekki annað til greina en að kanna hug alþingismanna áður en ég bæri málið undir þingið, eins og mér bar að gera samkvæmt lögum. Þá var mér gert ljóst að listinn yrði ekki samþykktur óbreyttur. Ég átti því ekki annarra kosta völ en að leitast við að leggja fram lista sem ég taldi að þingið gæti fellt sig við. Ég lagði mat á vinnu hæfisnefndar eins og mér ber skylda til að gera og ég gerði málefnalegar breytingar á listanum eftir minni bestu samvisku. Meðal annars fjölgaði ég konum við réttinn sem varð þess valdandi að í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins var sett á laggirnar jafnmikilvæg stofnun sem dómstóll er með jöfnum kynjahlutföllum. Ég vogaði mér líka að líta til áratuga athugasemdalausra starfsreynslu dómara sem voru meðal umsækjenda og bætti þeim í  hóp hæfustu umsækjenda, ekki í staðinn fyrir þá fimmtán sem nefndin hafði lagt til heldur til viðbótar þeim.“

Sigríður Á. Andersen er álitin með umdeildari stjórnmálamönnum landsins þótt sjálf upplifi hún sig ekki umdeilda.

Dómstólar eru hins vegar ekki sammála Sigríði um að hún hafi rannsakað málið nægilega og hefur dæmt tveimur dómurum miska- og skaðabætur vegna þess að gengið var fram hjá þeim um skipanina, nú síðast í október þegar Héraðsdómur Reykjavíkur gerði ríkinu að greiða einum umsækjenda 4 milljónir í skaðabætur og 1,1 milljón í miskabætur. Sigríður segir það mál í áfrýjunarferli.

„Það er hins vegar lögfræðilega áhugavert fyrir þá sem eru að velta þessu fyrir sér, eins og starfsmönnum hjá hinu opinbera, hvort það verði þannig að í framtíðinni að menn geti sótt skaðabætur fyrir það að fá ekki starf. Það hefur hingað til ekki verið hægt og nýlega komst Hæstiréttur að því að maður sem hafði sannarlega verið ólöglega vikið frá störfum fékk ekki miskabætur.“

Aðspurð segist Sigríður ekki á neinum tímapunkti hafa íhugað að segja af sér. Vantrauststillagan var felld með 33 atkvæðum gegn 29 en þar vakti sérstaka athygli að tveir stjórnarliðar, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, greiddu atkvæði með tillögunni. Sigríður segir það í sjálfu sér ekki hafa komið á óvart. Þessir tveir þingmenn VG hafi ekki stutt tillögu síns formanns um að ganga til þessa ríkisstjórnarsamstarfs. Ríkisstjórnarsamstarf jafnólíkra flokka og skipa þessa stjórn kalli á málamiðlanir. „Það felst í ríkisstjórnarsamstarfi að menn styðja þá ríkisstjórn og þá ráðherra sem í henni starfa. Að öðrum kosti er rétt að líta svo á að menn styðji ekki ríkisstjórnina. Þannig er það nú bara. Að minnsta kosti er það öllum ljóst sem hafa einhverja reynslu í stjórnmálum að öðruvísi gangi ekki ríkisstjórnarsamstarf.“

Lét geðshræringu ná á sér tökum

Aðspurð út í ríkisstjórnarsamstarfið segir Sigríður mikinn mun á ríkisstjórninni sem nú situr og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar sem áður sat. Björt framtíð ákvað að slíta því samstarfi sökum trúnaðarbrests sem þau töldu hafa orðið gagnvart Sjálfstæðisflokknum eftir að í ljós kom að faðir Bjarna Benediktssonar hafði skrifað undir meðmælabréf fyrir dæmdan kynferðisbrotamann sem sótt hafði um uppreist æru nokkrum árum áður. Sigríður lá undir ámæli fyrir að birta ekki opinberlega gögn í máli annars manns sem hlotið hafði uppreist æru fyrir hennar ráðherratíð og fyrir að hafa greint Bjarna frá aðkomu föður hans að máli enn annars manns sem fengið hafði uppreist æru.

„Ég myndi segja að það væri einkum og sér í lagi reynsla þeirra sem sitja í þessari ríkisstjórn. Þeir voru kannski líkari flokkarnir sem voru í ríkisstjórninni þar á undan en þetta samstarf gengur miklu mun betur. Menn átta sig á þeirri ábyrgð sem þeir bera þegar þeir taka sæti í ríkisstjórn. Þá þýðir ekki að vera í uppnámi út af alls kyns álitaefnum. Menn þurfa að vera yfirvegaðir og faglegir í sinni vinnu og gera sér grein fyrir að þeim ber skylda til að reka tiltekin mál áfram og láta sín ráðuneyti virka.“

„Mín aðkoma að fyrirbærinu uppreist æru var sú að neita að veita hana kynferðisbrotamanni, þvert gegn ráðleggingum embættismanna minna, og um leið tók ég ákvörðun um að endurskoða lagaákvæði um uppreist æru.“

Viltu meina að fyrri ríkisstjórn hafi fallið á smáatriðum? „Það liggur fyrir að samstarfsflokkarnir létu geðshræringu ná á sér þannig tökum að þeir risu ekki undir þeirri ábyrgð sem menn þurfa að gera í ríkisstjórn, þegar menn í skjóli nætur ákveða að slíta stjórnarsamstarfi með vísan til máls sem ríkisstjórnin hafði ekkert með að gera, máli úr tíð fyrri ríkisstjórnar án þess svo mikið sem að ræða við samstarfsráðherrana. Mín aðkoma að fyrirbærinu uppreist æru var sú að neita að veita hana kynferðisbrotamanni, þvert gegn ráðleggingum embættismanna minna, og um leið tók ég ákvörðun um að endurskoða lagaákvæði um uppreist æru. Þetta gerði ég áður en mál frá fyrri tíð komu til opinberrar umræðu. Ég held að það sé komið í ljós eftir á hvílík gönuhlaup þessi stjórnarslit voru sem að á endanum varð þeim flokkum, að minnsta kosti öðrum þeirra að aldurtila. Hinn flokkurinn, þótt hann tóri enn þá á Alþingi, finnst mér ekki hafa mikla skírskotun í þjóðfélagið í dag,“ segir Sigríður og á þar við Viðreisn.

„Ég velti því fyrir mér hvaða erindi þau eru að reka í dag. Ég held að þessi stjórnarslit hafi verið þeim þungbær og þótt það hafi verið Björt framtíð sem átti upphafið að þeim þá gekk Viðreisn í að gerast sporgöngumenn þess flokks. Þau eru fyrst og fremst með það á dagskrá hjá sér að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og flokkurinn er svokallaður eins máls flokkur. Slíkir flokkar fara oft erindisleysu. En ég ætla svo sem ekkert að vera að fella dóma yfir öðrum flokkum en sagan er hins vegar ólygnust.“

Sannfærðist af Hannesi Hólmsteini í sjónvarpinu

Líkt og margir núverandi og fyrrverandi áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum lauk Sigríður stúdentsprófi úr MR og fór í lögfræði í Háskóla Íslands þaðan sem hún lauk embættisprófi. Færri vita hins vegar að hún hóf fyrst nám í læknisfræði áður en hún skipti yfir í lögfræðina. Þótt hún telji aðspurð að hún hefði orðið ágætis læknir telur hún lögfræðina eiga betur við sig. „Þetta húmaníska fag sem lögfræðin er átti betur við mig en raunvísindin í læknisfræðinni.“

Sigríður er einn stofnenda vefmiðilsins Andríki.is sem á blómaskeiði pólitísku vefritanna var einn frjóasti vettvangur stjórnmálaumræðu í landinu. Vefurinn er reyndar enn til og er eiginmaður hennar, Glúmur Björnsson, einn ritstjóra en eins og nafnið gefur til kynna var vefurinn flaggskip frjálshyggju á Íslandi. Sjálf hefur Sigríður hallað sér að frjálshyggju frá því hún var barn að aldri.

„Ég hafði alltaf gaman af pólitískri umræðu sem krakki og ég man eftir því þegar ég var 12 eða 13 ára að ég horfði á Hannes Hólmstein, sem ég þekkti þá náttúrlega ekki neitt, tala við Milton Friedman í sjónvarpinu. Ég man að Hannes talaði svo skýrt þarna í sjónvarpinu að jafnvel barn gat skilið hann sem er reyndar eitthvað sem stjórnmálamenn ættu að hafa að leiðarljósi. Ég held ég geti sagt að þarna hafi Hannes Hólmsteinn opnað augu lítillar stúlku í Vesturbænum,“ segir Sigríður og hlær. „Ég gekk svo strax í Heimdall þegar ég var 15 ára, um leið og ég hafði aldur til.“

„Mér finnst ég hafa svo normal skoðanir, algjörlega meðalhófs. Það hefur ekkert elst af mér, nema síður sé.“

Aðspurð hvort hún sé enn jafnróttækur frjálshyggjumaður og hún var á árum áður svarar Sigríður: „Ég lít alls ekki á mig sem róttæka. Mér finnst ég hafa svo normal skoðanir, algjörlega meðalhófs. Það hefur ekkert elst af mér, nema síður sé.“ Sigríður er ekki mikið fyrir að liggja á skoðunum sínum. Hún talar hreint út og ljóst að hún er ekki í stjórnmálum til að þóknast þeim sem hæst tala og stefnufesta hennar veldur oft fjaðrafoki. „Ég upplifi mig ekki umdeilda. Það eru hins vegar margir sem hrósa mér en bæta svo við: „En ég er ekki alltaf sammála öllu sem þú segir.“ Þá spyr ég oft á móti: „Hvað er það helst sem þú ert ekki sammála mér um, getur þú nefnt mér eitthvert eitt atriði?“ Stundum geta menn það ekki en ef þeir geta nefnt eitthvað þá er ég alltaf tilbúin að ræða það og þá endar það oftast þannig að við endum sammála um það atriði. Auðvitað er fólk aldrei sammála um allt en ég hef þó ekki greint annað en mikinn velvilja í minn garð sem stjórnmálamanns. Mér er umhugað um að hafa allar staðreyndir uppi á borðum og tala hreint út. Það kann að vera að mönnum mislíki þær staðreyndir eða hafa aðrar skoðanir á þeim og þá býðst mönnum að rökstyðja það.“

Konur ekki beittar skipulegu misrétti

Í þessu samhengi má nefna Facebook-færslu Sigríðar sem birtist á kvennafrídeginum þar sem ráðherrann fjallaði um framsetningu þeirra sem stóðu að hátíðarhöldunum þann dag. Á vefnum kvennafri.is var því slegið föstu að konur væru einungis með 74 prósent af meðalatvinnutekjum karla en Sigríður benti á að það væri rangt því þegar búið væri að leiðrétta fyrir mælanlegum þáttum við útreikning á launamun kynjanna væri munurinn ekki nema 5%. Vísaði hún um þetta til sömu skýrslu Hagstofunnar og kvennafri.is hafði stuðst við. Þá væru ungar konur hjá hinu opinbera með ívið hærri laun en karlar og lagði hún því til að ungu konurnar mættu aðeins fyrr til vinnu daginn eftir. Þessi ummæli Sigríðar vöktu hörð viðbrögð en hún segist einungis hafa verið að benda á að aðstandendur hátíðarhaldanna hafi farið full frjálslega með staðreyndir.

„Ég heyrði svo ekki betur en að daginn eftir hafi þær fallist á það með mér að þetta væri alveg rétt sem ég væri að benda á en að þær ætluðu samt ekki að breyta sinni aðferð. Þær hafa allan rétt til þess en mér finnst mjög mikilvægt að allir viti hvernig raunverulega er í pottinn búið þannig að hver og einn geti dregið eigin ályktun af þessum tölum.“

„Það getur verið að konur forgangsraði öðruvísi, að þær fari fyrr heim úr vinnu til að sækja börnin, þær séu frekar heima með börnin og þá er það eitthvað sem við eigum að ræða ef menn telja það vandamál.“

Sigríður segist í raun hafa þarna verið að endurtaka það sem hún hefur haldið fram um árabil, að það þurfi að taka tillit til mælanlegra þátta þegar launamunur kynjanna er reiknaður út. „Það sem ég er að benda á er að það er einhver munur á launum kynjanna en það er ekki víst að það sé vegna þess að það sé verið með skipulegum hætti að beita konur einhverju misrétti. Ég held að það sé ekki staðan á Íslandi í dag heldur að það sé samfélagið sem ýti konum í tilteknar áttir, að þær taki vissar ákvarðanir frekar en karlar. Það getur verið að konur forgangsraði öðruvísi, að þær fari fyrr heim úr vinnu til að sækja börnin, þær séu frekar heima með börnin og þá er það eitthvað sem við eigum að ræða ef menn telja það vandamál. Af hverju velja konur þessa leið frekar en karlar? Það er ekki verið að ræða það í þessari launamisréttisumræðu.“

Mönnum hugnaðist ekki að hafa mig í þessu ráðuneyti

Í framhaldinu berst talið að MeToo-byltingunni og upplifun Sigríðar af henni. „Ef konum fannst nauðsynlegt að stíga fram og lýsa sinni reynslu þá er frábært að þær skyldu gera það og að á þær hafi verið hlustað. Ég held að þetta hafi haft heilmikil áhrif á margt í samskiptum kynjanna og að mestu leyti til hins betra. Það hefur stundum verið sagt við mig að ég þreytist ekki á að reyna að ala upp fullorðið fólk. Ég á það meira að segja til að kalla á eftir fólki úti á götu í svartamyrkri sem er ekki með endurskinsmerki að setja það upp og lifi svo í voninni um að það taki ábendingunni. MeToo-byltingin er svolítið af þeim meiði, það er verið að reyna að ala upp fullorðið fólk, kenna því viðeigandi hegðun. Það getur verið mjög erfitt að gera það en það er tilraunarinnar virði.“

Sigríður segist aldrei hafa fundið fyrir því að hallað hafi á hana vegna kynferðis eða að hún kannist við það að konur í stjórnmálum fái harkalegri meðferð en karlar.

Sjálf segist Sigríður aldrei hafa fundið fyrir því að hallað hafi á hana vegna kynferðis eða að hún kannist við það að konur í stjórnmálum fái harkalegri meðferð en karlar. „Það hefur verið talað um að konur eigi erfitt uppdráttar en ég hef aldrei orðið vör við það. Ég fór fyrst í prófkjör í Sjálfstæðisflokknum árið 2006 og fann ekkert nema velvilja og náði mjög góðum árangri af nýliða að vera, algjörlega óþekkt þannig séð. Ég hef alltaf fengið mikinn stuðning þar sem ég hef gefið kost á mér.“ Sigríður bendir á að í prófkjörum og kjöri til Alþingis séu einungis 63 sæti í boði og því liggi það í hlutarins eðli að færri komist að en vilja.

„Það er líka mikil barátta milli karla og það eru margir karlar í sárum eftir hvert einasta prófkjör í öllum flokkum og eftir kosningar, alveg eins og konur. Það er alveg vegið að körlum í pólitíkinni líka. Ég fann alveg að það var reynt að vega að mér um leið og ég kom inn í ráðuneytið. Mönnum hugnaðist það ekki að ég kæmi inn í þetta ráðuneyti, engan veginn. Það var reynt frá fyrsta degi en hvort það hafi verið af því að ég var kona, ég veit það ekki. Ætli það hafi ekki frekar verið vegna skoðana minna og stefnufestu.“

Bylting með rafrænni þinglýsingu

Desembermánuður er einn annasamasti tími stjórnmálamannsins. Fjárlögin eru keyrð í gegn og ráðherrar keppast við að tæma þingmálalista sína. Sigríður er þar engin undantekning og hjá henni er það forgangsatriði að koma í gegn frumvarpi um rafræna þinglýsingu sem hún segir fela í sér byltingu fyrir hinn almenna borgara. „Í dag er það þannig að þegar þú kaupir þér íbúð þá þarft þú eða fasteignasalinn þinn að fara með kaupsamninginn til sýslumanns í viðkomandi umdæmi þar sem fasteignin er og láta þinglýsa honum. Það hefur tekið mislangan tíma. Í sumar lentum við í því að það tók allt of langan tíma að þinglýsa skjölum á höfuðborgarsvæðinu, 4-5 vikur sem er algjörlega óásættanlegt.“

Með nýju verklagi, gangi frumvarpið í gegn, verður hins vegar hægt að þinglýsa skjölum á Netinu í gegnum sérstaka gátt og það mun því ekki taka nema nokkrar sekúndur að þinglýsa skjali. Ef eitthvað misjafnt kemur upp, til dæmis ef seljandi fasteignar er í raun ekki réttmætur eigandi hennar, þá gerir kerfið viðvart. „Þetta mun verða bylting. Þetta mál hefur verið til umræðu í um 10 ár og nú þarf einfaldlega að taka skrefið.“

Mætti skoða hvort allur orkupakkinn verði undanskilinn

Annað mál sem dúkkaði óvænt upp á haustþingi og valdið hefur deilum er hinn svokallaði þriðji orkupakki ESB og innan stjórnarflokkanna skiptast menn í tvær fylkingar. Sigríður segir að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér framsal valdheimilda umfram aðrar reglugerðir sem Ísland hefur tekið upp í gegnum EES-samninginn. Hins vegar sé eðlilegt að spurningar vakni í hvert sinn sem reglugerðir sem þessar eru innleiddar. „Það er alveg ljóst að mörgum Íslendingum blöskrar það framsal sem hefur átt sér stað frá Íslandi til erlendra stofnana, löggjafa og jafnvel dómstóla. Stjórnmálamenn verða að hlusta á þessar raddir, hlusta á þetta fólk hvort sem þessi þriðji orkupakki í sjálfu sér sé tilefni til þeirrar geðshræringar sem hefur gripið um sig meðal sumra.“

Ráðherrann veltir því upp hvort mistök hafi verið gerð í upphafi þegar ákveðið var að undanskilja orkumál ekki frá EES-samningnum. „Það var ekki gert og ef menn telja að það hafi verið mistök þá er sjálfsagt að skoða það hvort að við ættum að hefja viðræður við Evrópusambandið um hvort undanskilja eigi allan orkupakkann, ekki bara þriðja orkupakkann heldur þann viðauka sem snýr að orkumálum, alfarið. Þriðji orkupakkinn sem slíkur er bara lítill hluti af orkumálum EES-samningsins.“

Eigi að síður telur Sigríður að EES-samningurinn hafi reynst mikið gæfuspor fyrir Ísland og eins og staðan er núna farnist Íslandi best að hafa hann. „Auðvitað hefði mér fundist betra ef Alþingi sjálft, og íslenskir stjórnmálamenn, kæmu sér saman um svona reglur; kæmu sér saman um að stöðva einokun ríkisins á tilteknum mörkuðum, eins og fjarskiptamarkaði, orkumarkaði og fjölmiðlamarkaði. En það þýðir ekki að þótt við höfum þurft að taka þær upp frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn að þá séu þær sjálfkrafa slæmar.“

Bakar ekki en dóttirin freistar hennar

Sigríður ætlar að taka sér tíma til að taka þátt í jólaundirbúningnum með fjölskyldunni þrátt fyrir annir.

Líkt og áður sagði eru þingmenn og ráðherrar jafnan á haus í desembermánuði en rétt eins og aðrir þurfa þeir að halda heilög jól og sinna því sem þeim fylgir. Þrátt fyrir annir gefur Sigríður sér tíma til að taka þátt í jólaundirbúningnum með fjölskyldunni.

„Ég skreyti alltaf fyrsta sunnudag í aðventu og ég verð að rífa mig upp fyrir það um þessa helgi. Ég hef ekki bakað lengi en það er nú bara af því að ég vil ekki lenda í óhollustu en ég á unglingsstúlku sem hefur tekið að sér að baka og freistar mín með kökum alla aðventuna. En mér finnst jólin mjög hátíðlegur fjölskyldutími og mér finnst gaman að halda í hefðir. Ég segi um hver einustu jól að næstu jól ætli ég að prófa að vera erlendis en það verður aldrei neitt úr því, ég tími einhvern veginn aldrei að fara.“

Þar sem trúmál heyra undir dómsmálaráðherra lá beinast við að spyrja hvort ráðherrann sæki kirkju yfir jólahátíðirnar. „Ég fór lengi vel í Landakotskirkju á miðnætti þegar ég var unglingur og í Háskólanum. Það er nú mín heimakirkja þannig að ég hef aldrei farið í aðra kirkju þótt ég sé ekki kaþólsk. Ætli ég fari nú ekki eitthvað í kirkju um jólin.“

Ertu trúrækin? „Já. Nú er ég svo heppin að dóttir mín fermist næsta vor og mér gefst kostur á að fylgja henni í fermingarfræðslunni og fara í messur. Mér finnst það notaleg stund, það er ef prestinum mælist vel.“

Þjóðkirkjan taki öll mál í sínar hendur

Þjóðkirkjan hefur átt undir högg að sækja undanfarið, það fækkar hratt í söfnuðinum og er svo komið að í dag stendur þriðjungur landsmanna utan hennar. Sigríður segist þrátt fyrir það ekki hafa áhyggjur af kirkjunni og hennar erindi. „Ég held að hún eigi enn erindi við fólk. Það er kannski ekki mitt að hafa áhyggjur af stöðu kirkjunnar heldur er það kirkjan sjálf sem þarf að hafa áhyggjur af því. Hún þarf auðvitað að laga sig að breyttu umhverfi og getur gert það með ýmsu móti. Það er hennar verkefni.“

„Ég hef ekki greint annað en að kirkjan vilji hafa það sjálf þannig og vilji auka það enn frekar. Ég held að til framtíðar litið þá sé það farsælast fyrir kirkjuna að taka öll mál í sínar hendur, algjörlega.“

Hvort þessi þróun kalli á aðskilnað ríkis og kirkju segir Sigríður að nú þegar sé mikill aðskilnaður þar á milli. „Einu sinni hét þetta embætti sem ég gegni sem dóms- og kirkjumálaráðherra en nú er þetta ráðuneyti, ekki bara ráðuneyti þjóðkirkjunnar heldur allra trúfélaga og kirkjan nýtur í sívaxandi mæli sjálfstæðis.“ Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á samkomulag sem einfaldi meðal annars fjárframlög frá ríkinu og geri þjóðkirkjuna enn sjálfstæðari í því hvernig hún ráðstafar þeim fjármunum. Þegar fram í sækir sé endanlegur viðskilnaður heppilegastur.

„Kirkjan ræður að mestu leyti sínum málefnum sjálf, það koma til dæmis aldrei kirkjuleg málefni sérstaklega inn á borð til mín. Ég hef ekki greint annað en að kirkjan vilji hafa það sjálf þannig og vilji auka það enn frekar. Ég held að til framtíðar litið þá sé það farsælast fyrir kirkjuna að taka öll mál í sínar hendur, algjörlega.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Aðstoð / Unnur Magna
Förðun / Björg Alfreðsdóttir með YSL

„Grafalvarlegt þegar þingmenn viðhafa slíka fordóma“

Samtökin ´78 senda frá sér yfirlýsingu vegna orðræðu Alþingismanna.

„Að vera kjörinn fulltrúi á Alþingi er valdastaða sem ber að umgangast af virðingu. Þessum völdum fylgir ábyrgð, ábyrgð sem endurspeglast m.a. í siðareglum Alþingismanna þar sem tiltekið er að þau skuli:

• rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika

• leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu

Samtökin ´78 vilja því koma því til skila að það er algjörlega óásættanlegt að kjörnir fulltrúar leyfi sér að tala með þeim hætti sem nú hefur verið gert opinbert. Kjörnir fulltrúar sem sumum hefur verið hampað fyrir vinnu sína í þágu jafnréttis.

Samtal Alþingismanna á Klaustri lýsir djúpstæðri kvenfyrirlitningu, hinseginfóbíu og fötlunarfordómum sem ekki er hægt að una. Mannréttindabarátta þessara hópa, sem og annarra minnihlutahópa, tvinnast saman og fylgist að. Það er því mikilvægt að við stöndum saman gegn orðræðu eins og þeirri sem við höfum heyrt af síðustu daga.

Það er grafalvarlegt þegar þingmenn viðhafa slíka fordóma, þar sem um er ræða fólk með mikil völd í samfélaginu og sem eiga m.a. að gæta hagsmuna kvenna, fólks með fötlun og hinsegin fólks. Við getum ekki treyst stjórnmálafólki sem talar svona. Við vitum af reynslunni, t.d. frá Rússlandi, Bandaríkjunum, Bretlandi og Brasilíu, að þegar haturorðsræða er samþykkt af hálfu stjórnmálamanna getur hún eitrað og smitað út frá sér út í samfélagið. Orð eru til alls fyrst, og hegðun og orðfæri sem þetta gefur almennum borgurum til kynna að þessi viðhorf séu samþykkt, eðlileg og jafnvel æskileg. Þaðan liggur beinn og breiður vegur yfir í hatursglæpi og afturför í réttindabaráttu minnihutahópa.

Samtökin ´78 skora á þingmenn og stjórnmálaflokka að samþykkja aldrei kvenfyrirlitningu, hinseginfóbíu eða fötlunarfordóma. Eitruð orðræða grefur undan öryggi jaðarsettra hópa og við minnum ykkur á að ábyrgð ykkar er gífurleg.“

Stjórn Samtakanna ’78.

Auðvelt að gleyma sér í Íshúsi Hafnarfjarðar

|||
Mynd/Unnur magna|||

Dyr Íshúss Hafnarfjarðar verða opnar almenningi um helgina. Þar mun ríkja notaleg jólastemning. Hægt verður að skoða vinnustofur hönnuða, listamanna og handverksfólks ásamt því að sötra kaffi og fræðast um jólakransagerð.

 

Mikið verður um að vera í Íshúsi Hafnarfjarðar um helgina en húsið verður opið á milli klukkan 12 og 17 laugardag og sunnudag. Þá býðst gestum og gangandi að koma í heimsókn og drekka í sig ljúfa jólastemningu og skoða vinnustofur og hönnun þeirra sem eru með aðstöðu í Íshúsinu.

Anna, Óli og allir í Íshúsinu munu taka vel á móti gestum.

Anna María Karlsdóttir sem rekur Íshús Hafnarfjarðar ásamt manni sínum, Ólafi Gunnari Sverrissyni, segir viðburðinn vera fullkominn fyrir þá sem vilja koma sér í svolítið jólastuð. „Hér verður ljúf jólastemning. Fólk getur komið hingað og keypt sér ljúffengt kaffi og kakó frá vinum okkur á kaffihúsinu Pallettunni sem setja upp pop-up kaffihús hjá okkur, skoðað og verslað það sem hönnuðir og listamenn Íshússins bjóða upp á, virt fyrir sér málverk Jóhannesar Níelsar Sigurðssonar í gömlum frystiklefa sem ekki hefur verið opinn almenningi áður og bara notið. Njóta en ekki þjóta er það sem gildir í Hafnarfirðinum,“ segir Anna.

Njóta en ekki þjóta er það sem gildir í Hafnarfirðinum.

„Þá verður Margrét Leópoldsdóttir, Magga okkar sem rekur Golu og glóru, með örnámskeið í jólakransagerð. Ekki þarf að skrá sig fyrirfram, efniviðurinn verður á staðnum og Magga aðstoðar við kransagerðina.“

Fólk forvitið um Íshúsið

Anna segir fólk almennt hafa mikinn áhuga á að skoða það sem gerist innan veggja Íshússins. „Í þessu gamla fyrrverandi frystihúsi hér við smábátahöfnina eru um 30 misstór vinnurými sem við leigjum út til skapandi einstaklinga og smærri fyrirtækja. Hér leigir fjölbreytt flóra fólks aðstöðu og almenningur er mjög áhugasamur um starfsemina. Okkar lúxusvandmál er það að margt fólk vill koma í heimsókn til okkar og skoða, þannig að við brugðum snemma á það ráð að halda opið hús reglulega. Og það er sko auðvelt að gleyma sér í Íshúsinu, fólk týnir sér alveg hérna inni þegar það kemur í heimsókn, það er svo margt að sjá,“ segir Anna og hlær.

Fjölbreyttur hópur fólks er með aðstöðu í Íshúsi Hafnarfjarðar, allt frá bátasmiðum til rithöfunda. „Það sem er svo skemmtilegt við húsið er hversu opið það er, fæstir eru með aflokaða vinnuaðstöðu. Aðaláherslan er á keramik, myndlist og grafík á efri hæðinni og svo er allt frá tréskipa- og hnífasmiðum til rithöfunda á neðri hæðinni,“ segir Anna þegar hún er spurð út í fyrirkomulagið.

Aðspurð hvort fólk geti keypt jólagjafir í Íshúsinu um helgina svarar Anna játandi: „Hér verður hægt að skoða og kaupa en ég tek gjarnan fram að margir í Íshúsinu selja verk sín í Litlu hönnunarbúðinni, á Strandgötu 19. Þar er alltaf hægt að gera falleg og góð kaup.“

Í Íshúsinu er að finna um 30 misstór vinnurými.
Íshús Hafnarfjarðar verður opið á milli klukkan 12 og 17 laugardag og sunnudag.

Myndir / Unnur Magna

Erlendar verslunarhefðir komnar til að vera

Mikið ber á erlendum straumum í íslenskri verslun og segir Kjartan Örn Sigurðsson frá Verslanagreiningu að þessar hefðir séu komnar til að vera. Hann var í viðtali við Lindu Blöndal í þættinum 21 á Hringbraut um íslenska verslun.

Að undanförnu hefur farið mikið fyrir erlendum útsöluhátíðum eins og „Black Friday“, „Cyber Monday“ og „Singles Day“. Nöfnum þessara daga hefur verið snarað yfir á íslensku í einhverjum tilfellum, eins og Stóri netmánudagurinn og Svartur föstudagur eða Svartur fössari sem er á allra vitorði og íslensk verslun auglýsti af miklum krafti nú í lok mánaðar. Þessar verslunarhefðir koma hins vegar úr mjög ólíkum áttum. Ljóst er að hefðbundin verslun verður aldrei sú sama. „Singles Day“ hefur verið útlagt sem Dagur einhleypra en reyndar eiga tilboðin við alla einstaklinga.

Jólaverslunin hefst með tilboðshátíðum

„Singles day er frá Kína og þróaðist út úr netmenningunni þar,“ segir Kjartan Örn Sigurðsson frá Verslanagreiningu og því þurfum við að aðlaga erlendar verslunarhefðir að okkar menningu. Hér á landi hafi ekki verið til neinar samskonar hefðir. „Svarti föstudagurinn heitir þessu nafni þar sem verslun í Bandaríkjunum fer þá úr tapi í hagnað, úr rauða blekinu í það svarta í bókhaldinu. Svarti föstudagurinn er dagurinn sem jólaverslunin byrjar. Í fyrra voru stóru fyrirtækin á Íslandi komin inn í Svarta föstudaginn og þá hófst þessi stóra sprenging sem við sjáum núna í lok mánaðar,“ segir Kjartan.

„Stóri netmánudagurinn er síðan búinn til fyrir netverslanir til að taka þátt í þessum tilboðshátíðum í upphafi jólaverslunarinnar. Að sögn Kjartans ganga íslenskir kaupmenn alls ekki jafnlangt og bandarískir. „Í Bandaríkjunum er gjarnan 50 prósent afsláttur af hreinlega öllu í verslunum. Kaupmenn nota daginn til að kynna nýjar vörur og koma jólaversluninni í gang.“

Hvað verður í jólapakkanum í ár?

„Í fyrra stóðu þrjár vörur upp úr í jólapökkunum. Í fyrsta lagi Sous Vide-græjan, í öðru lagi Karcher-skúringarvélin sem heldur vinsældum sínum enn og við höfum líka upplýsingar um að 5.500 ToSing-míkrófónar hafi selst fyrir jólin í fyrra,“ segir Kjartan.

„Þetta hefur verið ansi skemmtilegt ár fyrir íslenska kaupmenn. Fatabransinn hefur farið upp úr öllu valdi. Við vorum að útskrifa tvo stúdentsárganga, sjö þúsund manns sem útskrifuðust, og svo eru keypt föt á fleiri í fjölskyldunni en bara þann sem útskrifast.“ Þetta hafi margur kaupmaðurinn ekki séð fyrir.

Neytendur eru þó aðhaldssamari núna en hið alræmda neysluár 2007 og fólk skuldsetur sig almennt ekki fyrir einkaneyslu, að sögn Kjartans.

„Við höfum verið að skoða hvaða trend eru í gangi. Okkur sýnist að vörurnar sem muni standa upp úr fyrir þessi jól séu alls konar snjalltæki fyrir heimilið. Amazon- eða Google-vörur sem eru persónulegir aðstoðarmenn fólks inni á heimilum og fólk getur til dæmis talað við. „Þessi tæki eru á viðráðanlegu verði og verða eflaust í mörgum jólapökkum.“

Gjörbreytt staða í merkjavöruflokknum

Kjartan grunar líka að vörur með merkjum sem við höfum ekki séð áður verði í mörgum jólapökkum. Tölvuleikir eru orðnir gífurlega vinsælir og stór vörumerki í alls konar varningi „Það eru meiri tekjur í tölvuleikjabransanum en kvikmyndabransanum og það er ekki ólíklegt að það verði keppt í tölvuleikjum á næstu ólympíuleikum. Liðin sem unga kynslóðin heldur með eru ekki lengur fótboltalið, heldur lið í tölvuleikjaheiminum. Ég held að við eigum eftir að sjá marga í Fortnite-peysum eftir þessi jól,“ og vísar Kjartan þar til þekkts tölvuleikjar með sama nafni.

Mest að gera á laugardögum

Jólaverslun á sína hápunkta á ákveðnum dögum og á ákveðnum tímum.

„Þetta er þriðja árið í röð með fjórum laugardögum í desember og toppar verslunin á milli klukkan milli tvö og fjögur á laugardögum. Því má búast við að núna verði desember óvenjustór verslunarmánuður hjá kaupmönnum.“

Nýr spurningaþáttur á RÚV leysir Útsvar af hólmi

Bragi Valdimar Skúlason Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Með vorinu verður spurningaþátturinn Útsvar að öllum líkindum kvaddur og í staðinn hefst þátturinn Kappsmál sem Bragi Valdimar Skúlason og Björg Magnúsdóttir munu leiða ásamt glás af góðu fólki. Við spurðum Braga út í nýja þáttinn.

„Þetta eru í raun orðaleikir af ýmsum gerðum. Við ætlum eiginlega bara að leika okkur að málinu með öllum tiltækum ráðum,“ segir Bragi Valdimar sem hefur sannarlega mörg starfsheiti og er tónlistar-, auglýsinga-, orðaleikja-, þátta- og textagerðarmaður. „Við ætlum að fá allskonar fólk til að taka þátt. Héðan og þaðan af öllum mögulegum stærðum og gerðum. Skilyrðið er að hafa gaman af málinu og vera óhrædd við að takast á við það.“

Er það rétt að Útsvarið sé að hætta og þessi þáttur muni koma í hans stað? „Kappsmál fer ekki í loftið fyrr en næsta vor. En ef vel gengur geri ég ráð fyrir að þessi þáttur taki alfarið yfir dagskrá RÚV,“ svarar Bragi og við spyrjum hann þá hvort hann óttist ekki að aðdáendur Úrsvarsins verði brjálaðir við tíðindin. „Það eru hvort eð er allir alltaf brjálaðir. Hvort sem þeir horfa á Útsvar eða ekki,“ segir hann þá og hlær.

Húmor fyrir tungumálinu mikilvægur

Bragi segir að landinn hafi gríðarlegan áhuga á tungumálinu og sterkar skoðanir. „Aðallega held ég að það sé vegna þess að við getum notað það til að hugsa á í friði. Flestir vilja passa vel upp á tunguna og fara vel með hana. En það er auðvitað líka mikilvægt að pota aðeins í hana og teygja í ýmsar áttir.“

Aðspurður segir hann mikilvægt að fjalla um íslenskuna eins og gert var í þáttunum Orðbragð og gert verður í Kappsmáli. „Já, tvímælalaust. Við Brynja og Konni lögðum alltaf áherslu á að skoða málið á skemmtilegan og opinn hátt, forðast predikanir og vera hæfilega forvitin, helst hnýsin. Brynja verður okkur einmitt til ráðgjafar í þessum þáttum, en hún er að sprengmennta sig í útlandinu þessi misserin.“

Má gera grín að móðurmálinu og er það kannski mikilvægt til að ná til fólks? „Það er bráðnauðsynlegt, þetta er okkar eina móðurmál og það væri verra ef okkur færi að finnast það leiðinlegt. Mér hefur reyndar ekki enn þá tekist að finna neitt sérstaklega fyndið við afturbeygðar sagnir.“

Þessa dagana er verið að þróa þáttinn, finna leiki, prófa þá og finna út hvað virkar en framleiðslufyrirtækið Skot vinnur þetta með RÚV. Fram undan er hins vegar jólavertíðin. „Akkúrat núna er jólavertíð Baggalúts að bresta á með tilheyrandi jólahoppi og híi á átján tónleikum í Háskólabíói. Og fyrst spurt er, þá ætlum meðal annars að gefa út nýtt æsispennandi jólalag með Svölu Björgvins, sem dettur í hús á morgun. Það heitir svo mikið sem SEX,“ segir Bragi Valdimar að lokum.

Aðeins 36 gestir á hverri sýningu

Sviðslistahópurinn 16 elskendur frumsýnir þann 1. desember leikverkið Tilgangur lífsins í tilefni af 10 ára afmæli hópsins. Sýningin fer fram á gömlu Læknavaktinni á Smáratorgi. Við spurðum Hlyn Pál Pálsson, framkvæmdastjóra 16 elskenda, út í tilurð verksins.

„Einn meðlimur leikhópsins var boðaður í allsherjar heilsufarsrannsókn hjá Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna og upplifun hans af rannsókninni var svo súrrealísk að á tímabili leið honum eins og hann væri staddur í undarlegri leiksýningu eftir leikhópinn 16 elskendur,“ segir Hlynur. „Niðurstaðan úr heilsufarsrannsókninni var líka algjörlega á skjön við veruleikann og skemmtilega út í hött. Við ákváðum því að búa til okkar eigin „heilsufarsrannsókn“ þar sem áhorfendur fengju tækifæri til að mæta sjálfum sér í þeim tilgangi að reyna að komast að tilgangi lífs síns. Við sem leikhópur semjum og leikstýrum öllum okkar sýningum saman sem ein heild, það er því enginn einn höfundur eða leikstjóri.“

Sviðslistahópurinn 16 elskendur er samstarf listamanna úr ólíkum geirum; leiklist, myndlist, tónlist, danslist og gjörningalist. Hópurinn setur upp sýningar þar sem mörk hefðbundinna leiksýninga eru máð og þannig látið reyna á samband raunveruleika og sýningar.

„Við vinnum yfirleitt í óhefðbundnum leikrýmum, tökum inn sögu þeirra og samfélagslega virkni. Við leituðum að yfirgefinni heilsufarsstofnun eða skrifstofurými til að geta endurskapað upplifunina af súrrealísku heilsufarsrannsóknninni, en vorum orðin hálfvonlaus með að finna rými sem hentaði svona óhefðbundinni leiksýningu þegar við fengum þær fregnir að Læknavaktin væri flutt í Austurver og við ákváðum því bara að heyra í þeim. Þá fyrst fór boltinn að rúlla og sýningin fór að taka á sig mynd.“

Takmarkað sætaframboð er á sýninguna, pláss fyrir 36 áhorfendur á hverja sýningu, og aðeins sýnt í desember og janúar. „Loks er vert að minnast á að þetta er eina leiksýningin þar sem áhorfendur fá sérhannaða upplifun sem gefur þeim beinlínis kost á að verða betri manneskjur, sjá heiminn í nýju ljósi og fá meiri botn í líf sitt.“ Miðasala á www.tix.is.

Karlarnir á kránni

Fimm karlkyns alþingismenn og ein alþingiskona hittust á bar og létu gamminn geisa. Uppistaðan í samræðunum var kvenfyrirlitning, karlagrobb, hómófóbía og staðfesting á því að íslensk pólitík gengur meira og minna út á hrossakaup og greiða á móti greiða. Ekkert nýtt í því. Það sem blessað alþingisfólkið vissi hins vegar ekki var að einhver óprúttinn kráargestur var með símann sinn stilltan á hljóðupptöku sem hann/hún síðan sendi á fjölmiðla. Hver fréttin af annarri af þessum óformlega fundi birtist á vefmiðlum og fjandinn varð laus á Facebook og Twitter. Alþingismennirnir báðust afsökunar á ummælum sínum í bak og fyrir, með þeim fyrirvara að sjálfsögðu að þeir hefðu verið drukknir og þar af leiðandi ekki ábyrgir orða sinna. Engum þeirra dettur í hug að segja af sér þingmennsku og í viðtölum fjölmiðla við þá kemur skýrt fram að þeir eiga ekki von á því að nokkur eftirmál verði af þessu gaspri þeirra. Þeir treysta sem fyrr á gullfiskaminni kjósenda og ætla ótrauðir að halda sínu striki. Nema hvað? Það er ekki hefð fyrir því að íslenskir stjórnmálamenn taki ábyrgð á orðum sínum og gerðum. Þeir skáka endalaust í því skjólinu að þeir séu ósnertanlegir og kjósendum komi í rauninni ekkert við hvað þeir eru að aðhafast. Þeir eiga þetta, þeir mega þetta.

Svörin sem þessir alþingismenn hafa gefið fjölmiðlum um rætur ummæla sinna á fyrrnefndu fylliríi eru grátlega fyrirsjáanleg. Það eru hin hefðbundnu svör ofbeldismanna: „Fyrirgefðu, ég meinti þetta ekki, ég var bara fullur, ég var bara reiður, þú veist að ég er ekki svona maður. Ég ber mikla virðingu fyrir konum, þótt ég meti þær eingöngu út frá útliti þeirra og kalli allar konur sem hafa skoðanir sem þær fylgja eftir, klikkaðar kuntur, kræfar kerfiskerlingar og apaketti sem ekkert vita, kunna eða geta. Það tala sko allir svona þegar þeir eru einir með strákunum. Þú veist það.“

Nei, kæru alþingismenn, við vitum það ekki. Þótt kvenfyrirlitningin í jafnréttisparadísinni Íslandi sé stæk og rótgróin þá tala sem betur fer ekki allir svona. Allra síst menn sem hafa verið í fararbroddi alþjóðlegra verkefna í jafnréttismálum. Að vera fullur er heldur engin afsökun. Og fólk „lendir“ ekki í því að segja hluti. Það er alltaf meðvituð ákvörðun hvað sem innbyrtu áfengismagni líður. Og það yfirklór að halda því fram að lýsingar á pólitískum hrossakaupum séu „bara lygi“ er svo yfirgengilega heimskulegt og ber vott um svo litla virðingu fyrir almenningi að það tekur engu tali. Ekki bjóða okkur upp á svona rakalaust bull, kæru alþingismenn. Reynið að hegða ykkur eins og viti bornar manneskjur. Stígið til hliðar og axlið ábyrgð á eigin bulli. Helst ekki síðar en strax. Því þótt það hafi greinilega alveg farið fram hjá ykkur þá hafa tímarnir breyst. Alþingismenn eru ekki lengur ósnertanlegir og Internetið man það sem gullfiskurinn gleymir. Það hlýtur að fara að koma að því að kjósendur fái nóg og setji ykkur stólinn fyrir dyrnar. Hingað og ekki lengra. Ykkar tími er liðinn.

Wall Street bregst við MeToo-byltingunni með því að útiloka konur

Frá Wall Street í Bandaríkjunum

Ekki fleiri kvöldverðir með kvenkyns samstarfsfélögum. Ekki sitja við hlið þeirra í flugi. Bókið hótelherbergi á sitt hvorri hæðinni. Forðist fundi undir fjögur augu.

Þetta er á meðal þeirra viðbragða sem gripið hefur verið til í fjármálaheiminum vestan hafs í kjölfar MeToo byltingarinnar að því er fram kemur í úttekt Bloomberg. Þar segir að flest öll viðbrögð á Wall Street, þar sem karlamenningin var mjög ríkjandi fyrir, miði beinlínis að því að gera konum lífið enn erfiðara.

Er talað um Pence-áhrifin í því samhengi og vísað til ummæla Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, sem sagðist aldrei snæða máltíð með konu án þess að eiginkona hans sé viðstödd. Í Íslandi gæti þetta útlaggst sem Kristins-áhrifin með vísan í máls Kristins Sigurjónssonar sem var rekinn úr starfi sem lektor við HÍ eftir að hann stakk upp á vinnustaðir landsins yrðu kynjaskiptir.

Úttekt Bloomberg er byggð á viðtölum við 30 hátt setta stjórnendur á Wall Street og kemur þar fram að margir þeirra eigi í vandræðum með að bregðast við MeToo byltingunni. Einn þeirra orðar það sem svo að það felist í því „óþekkt áhætta“ að ráða konur til starfa. Má segja að áhrifin hafi orðið þveröfug við það sem eðlilegt hefði talist, það er að Wall Street sé orðinn meiri „strákaklúbbur“ en fyrir MeToo byltinguna.

Ákveðins ótta gætir meðal karlkyns stjórnenda. Þannig segist einn þeirra ekki halda fundi með konum í gluggalausu herbergi á meðan annar fór að ráðum eiginkonu sinnar og bókar ekki fundi með konum sem eru yngri en 35 ára. Þá er konum sjaldnar boðið í drykki eftir vinnu sem um leið gefur þeim færri tækifæri á að byggja um tengslanet sitt.

Að sama skapi veigra karlmenn sér við að gerast leiðbeinendur ungra kvenna sem eru að stíga sín fyrstu skref í fjármálaheiminum. Það hefur svo enn frekari áhrif á framgang kvenna í metorðastiganum.

Þetta á þó ekki við alls staðar og líklega kemst Ron Biscardi hjá Context Capital Partners að einföldustu nálguninni. Hann segist vissulega hafa íhugað að hætta að bóka fundi með yngri konum eða að skilja eftir hurðina opna og bjóða þriðja aðila til fundarins. En niðurstaðan hans var sú augljósasta. „Bara ekki vera asni. Það er ekki svo flókið.“

„Fróðlegt að sjá hver vill vernda plastið“

Í nýrri auglýsingu frá Íslenska gámafélaginu er skotið á Sorpu og gefið í skyn að Sorpa vilji „vernda plastið“.

Í nýrri auglýsingu frá Íslenska gámafélaginu eru fjallað um skaðsemi plastsins. Í auglýsisingunni er skotið föstum skotum á Sorpu og umdeild ummæli Björns H. Halldórssonar, framkvæmdastjóra Sorpu. Hann sagði „Sorpa sér ekki rökin fyrir banni við notkun einnota haldapoka úr plasti.“

„Plastmengun en mikið vandamál hér á landi og annars staðar og það er fróðlegt að sjá hver vill vernda plastið,“ segir m.a. í auglýsingunni.

Íslenska gámafélagið bendir á að plast brotnar ekki niður í umhverfinu heldur verður að minni einingum og á endanum smýgur inn í vistkerfið.

Birgir Kristjánsson, líffræðingur og umhverfisstjóri íslenska gámafélagsins. „Þar sem plastið er ekki náttúrulegt efni þá getur náttúran ekki brotið þetta almennilega niður og myndar jafnvel örplast eða míkróplast sem að á síðan leið inn í fæðukeðjuna okkar.“

Auglýsinguna má sjá hér fyrir neðan:

„Svolítið skrýtið að sjá sig í fjölmiðlum í öðru landi“

Íslenski klámmyndaleikarinn Stefan Octavian Gheorge fór í viðtal í gær við sjónvarpsþáttinn Antena Stars sem er nokkuð vinsæll í Rúmeníu.

Íslenski klámmyndaleikarinn Stefan Octavian Gheorge er staddur í Rúmeníu þessa stundina til þess meðal annars að heimsækja blóðmóður sína. Stefan á rætur sínar að rekja til Rúmeníu en hann var ættleiddur þaðan árið 2000. Hann hafði upp á blóðmóður sinni í gegnum þáttinn Leitin að upprunanum sem sýndur var á Stöð 2 í fyrra.

Skömmu eftir að hann kom til Rúmeníu á dögunum fékk hann fyrirspurn í gegnum Instagram frá sjónvarpsþættinum Antena Stars sem er nokkuð vinsæll í Rúmeníu. Honum var boðið í viðtal. Stefan þáði það og veitti fylgjendum sínum á Snapchat innýn inn í ferlið í gær. Í viðtalinu var farið yfir sögu Stefans sem rataði í rúmenska fjölmiðla á þeim tíma sem hann fór til Rúmeníu með þann tilgang að finna blóðforeldra sína.

Eftir viðtalið, sem sýnt var í gær, var Stefani svo boðið í slökun í heilsulind og var hann himinlifndi með það. „Það er svolítið skrýtið að sjá sig í fjölmiðlum í öðru landi, pínu skrýtið,“ sagði hann á Snapchat áður en hann skellti sér í sund í heilsulindinni.

Viðskiptavinum Klausturs fjölgað mikið

Viðskiptavinum Klausturs hefur fjölgað mikið síðan barinn rataði í fjölmiðla í tengslum við leyniupptökumálið svokallaða.

Lísa Óskarsdóttir, rekstrarstjóri vínbarsins Klausturs, segir leyniupptökumálið eða klausturgate-málið, sem fjallað hefur verið mikið um í fjölmiðlum undanfarið, hafi svo sannarlega orðið til þess að viðskiptavinum Klausturs hefur fjölgað til muna. „Þetta mál hefur vakið mikla athygli á barnum og við fundum fyrir aukinni aðsókn síðustu helgi. Það var alveg klikkað að gera,“ segir hún.

„Hingað til höfum við verið svolítið falin. Við höfum ekki mikið verið að auglýsa okkur, þetta hefur alltaf verið rólegur bar og fólk hefur getað komið hingað og spjallað án þess að þurfa að öskra yfir borðið.“ Þess má geta að Klaustur bar opnaði árið 2014. „En við erum auðvitað hæstánægð með að fólk viti af okkur núna.“

Hingað til höfum við verið svolítið falin.

Lísa segir marga viðskiptavini vera forvitna um hvar þingmennirnir sem komu að málinu sátu umrætt kvöld. „Fólk sem mætir er forvitið og það er hiklaust gert grín. Fólk reynir að hafa húmor fyrir þessu.“

Starfsmenn Klausturs hafa einnig reynt að slá á létta strengi eftir að upptökur af þingmönnunum rötuðu í fjölmiðla og nýtt sér samfélagsmiðla til að gera grín af málinu. „Það er ekkert annað hægt að gera.“

Mynd / Facebook Klausturs

Sjá einnig: Virðum einkalíf þingmanna en almannahagsmunir vega þyngra

Gerðist Gunnar Bragi sekur um mútuþægni?

||

Höfundur / Ómar R. Valdimarsson, lögmaður.

Ómar R. Valdimarsson. Mynd / Gassi Ólafsson

Í umræðum um afdrifaríka kvöldið á Klaustri bar hefur verið töluvert fjallað um það þegar Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrum utanríkisráðherra, ræddi við drykkjufélaga sína um skipan Geirs H. Haarde og Árna Þórs Sigurðssonar í embætti sendiherra. Í umræðunni hefur m.a. verið látið að því liggja, að með embættisfærslum sínum hafi Gunnar Bragi þarna brotið lög, þ.á.m. 128. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í 1. mgr. þeirrar lagagreinar segir:

„Ef opinber starfsmaður, alþingismaður eða gerðarmaður heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“

Þegar fyrri ummælin um skipan sendiherra eru skoðuð, er ólíklegt að hægt sé að fullyrða, að Gunnar Bragi sé að gangast við því að hafa brotið gegn framangreindu hegningarlagaákvæði. Í upptökunni, sem m.a. hafa verið gerð góð skil af Kvennablaðinu, segir Gunnar Bragi í fyrri hluta þessa samtals:

„Þegar ég ákvað það að skipa Geir H. Haarde sem sendiherra í Washington, það var í fyrsta lagi … við ákváðum þetta saman, skilurðu … Ég ræddi það síðan sem … Það hefur ekki skemmt. … Þeim fannst þetta nú ekki … Ég fór og ræddi þetta við náttúrulega, ég ræddi þetta við alla flokka í sjálfu sér. Ég man ekki hvort ég hafi sagt … Ástæðan var sú að ég sá strax það að ég gæti ekki skipað Geir einn sendiherra. Ég gæti ekki … einan. Það yrði of þungur biti fyrir þingið og allt þetta. Þannig að ég gerði Árna Þór að sendiherra.“

Þrátt fyrir að framangreind ummæli teljist varla brjóta gegn ákvæði almennra hegningarlaga, mætti setja þau í samhengi við a-lið 1. mgr. 10. gr. laga um ráðherraábyrgð nr. 4/1963. Í ákvæðinu segir:

„Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum:

  1. a. ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín.“

Framangreint lagaákvæði yrði ávallt að skoða með tilliti til þeirra hátternisreglna, sem um störf ráðherra gilda. Þar er nærtækast að líta til ákvæðna siðareglna ráðherra nr. 360/2011 (sem rétt er að taka fram að aldrei voru staðfestar af ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar). Í framangreindum siðareglum er fjallað með nokkuð ítarlegum hætti um hagsmunatengsl, hagsmunaárekstra, háttsemi og framgöngu ráðherra. Rauður þráður reglnanna er að ekkert skal það aðhafast, sem varpað gæti skugga á trúverðugleika ráðherra, það hvort hann sé öðrum háður eða hvort hann sé að nýta sér stöðu sína til þess að ota sínum tota. Þegar reglurnar eru lesnar með hliðsjón af áðurnefndri lagagrein laga um ráðherraábyrgð, er ekki ónærtækt að telja að annað hafi ráðið för hjá Gunnari Braga en faglegt mat á hæfni Árna Þórs og Geirs Haarde til þess að gegna embættunum.

Gunnar Bragi.

Nú er það hins vegar svo, að sök skv. lögum um ráðherraábyrgð fyrnist á þremur árum og ráðherrar verða aðeins dregnir til ábyrgðar skv. 14. gr. stjórnarskrárinnar, eftir að Alþingi hefur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Með vísan til þessa verður að telja að þessi angi málsins sé úti.

Víkur nú sögunni að því gagngjaldi, sem Gunnar Bragi vildi fá persónulega, fyrir skipun Geirs í embætti sendiherra. Í seinni hluta samtalsins á Klaustur bar sagði Gunnar Bragi:

„Þegar ég á fund með Bjarna í forsætisráðuneytinu, nei í fjármálaráðuneytinu, og ég segi við Bjarna: Bjarni, algjörlega sjálfsagt, auðvitað geri ég Geir að sendiherra. Hvað segi ég við Bjarna? Bjarni, mér finnst bara sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda.“

Bjarni, algjörlega sjálfsagt, auðvitað geri ég Geir að sendiherra.

Óhjákvæmilegt er að horfa til áðurnefndrar 128. gr. almennra hegningarlaga þegar þessi orð eru skoðuð. Erfitt er að komast að annarri niðurstöðu en að þarna sé Gunnar Bragi að greina frá því, að hann hafi verið að láta lofa sér ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns. Brot gegn þessu ákvæði varðar allt að 6 ára fangelsi.

Rétt er að geta þess, að Bjarni Benediktsson segir að þessi frásögn sé þvættingur, a.m.k. að svo miklu leyti sem að Gunnar Bragi eigi nokkuð inni hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir skipan Geirs sem sendiherra. Allt að einu, gæti dómstóll komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn ákvæðinu, með því einu að Gunnar Bragi hafi gert kröfu um loforð frá Bjarna Benediktssyni, algjörlega óháð því hvort loforðið hafi verið gefið eða jafnvel að Bjarni hafi sagt honum að éta það sem úti frýs. Ákvæðið yrði tæplega skýrt svo þröngt af dómstól, að til þess að brotið hefði verið gegn því hefði þurft að koma samþykki fyrir kröfunni um ávinninginn.

Að öllu framangreindu sögðu má velta því fyrir sér, hvort það sé enn hægt að ákæra Gunnar Braga fyrir brot gegn 128. gr. almennra hegningarlaga, að undangenginni rannsókn á brotinu. Gunnar Bragi skipaði Geir og Árna sendiherra 30. júlí 2014. Miðað við frásögn Gunnars Braga sjálfs má gera að því skóna að fundur hans með Bjarna hafi átt sér stað einhvern tíma þar á undan. Brot gegn ákvæði 128. gr. hegningarlaga fyrnist á 10 árum, sbr. 3-lið 1. mgr. 81. gr. laganna. Til þess að rannsókn geti hafist þarf lögreglunni ekki að berast nein kæra frá forsætisnefnd Alþingis, eins og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu virðist halda. Á lögreglu hvílir frumkvæðisskylda til þess að rannsaka þau afbrot sem kunna að vera framin í landinu. Það er ekki nema í undantekningartilvikum sem lögregla rannsakar ekki afbrot nema að undangenginni kæru, s.s. frá Fjármálaeftirlitinu eða Samkeppniseftirlitinu.

Með vísan til alls þessa er ljóst að Gunnar Bragi er ekki hólpinn, vilji rannsakendur skoða málið frekar.

Sjá einnig: Vandræðalegt karlagrobb en kallar ekki á afsagnir

Lýsingin gegnir lykilhlutverki

Sandra Dís Sigurðardóttir er innanhússarkitekt og lýsingarhönnuður og ein af fáum sem er hvort tveggja hér á landi. Fasteignablaði Mannlífs lék forvitni að vita meira um áherslur og verkefni Söndru Dísar og hvort það væri ekki mikill kostur að samþætta þessi tvö starfsheiti þegar kemur að því að hanna rými.

Getur þú sagt okkur frá nýlegu verkefni sem er þér hugleikið og hvar þú fékkst innblásturinn? „UMI Hótel opnaði í ágúst 2017 en hönnunin á því er mikið til sótt í náttúruna og liti hennar. Ég notaði haustlitina töluvert í hönnuninni ásamt formum og áferð úr náttúrunni eins og til dæmis mosann og stuðlabergið.“

UMI Hótel opnaði í ágúst 2017.

Skiptir lýsing miklu máli? „Hún gegnir lykilhlutverki í hönnun á öllum rýmum. Um leið og rökkva tekur gegnir hún mikilvægu hlutverki í að skapa stemningu. Með réttri lýsingu er sömuleiðis hægt að hafa áhrif á vinnuafköst hjá starfsfólki og nemendum ásamt því að hún getur hjálpað til við bata hjá sjúklingum.“

Hvað hefur þú í huga þegar þú hannar og innréttar með lýsingu í huga? „Ég spyr mig að því hvaða hlutverki þetta rými gegnir, hver muni nota það og hvort sérstakar lýsingarkröfur séu gerðar til þessa rýmis. Með mismunandi lýsingarkröfum á ég við að það eru öðruvísi staðlar ef um er að ræða lýsingu á skrifstofu eða á hjúkrunarheimili, svo dæmi sé tekið.“

Lýsingin setur punktinn yfir i-ið hér.

Ertu hrifin af opnum rýmum þar sem eldhús, stofa og borðstofa tengjast saman? „Ég er persónulega hrifin af þannig rýmum en það hentar ekki öllum. Það getur verið gott fyrir suma ef möguleiki er á að stúka eldhúsið aðeins af. Einnig er hægt að hafa eldhústækin innbyggð að miklu leyti þannig að eldhúsið falli betur inn í stofuna.“

Lumar þú á góðum lausnum þegar velja á lýsingu í hin ýmsu rými? „Það þarf að skoða hvort það séu eitthverjir ákveðnir hlutir sem við viljum lýsa upp, til dæmis málverk eða listaverk. Einnig hvar við viljum geta dimmað lýsinguna. Mikilvægt er að huga að lýsingunni meðal annars inni á baðherbergi þar sem þörf er á góðri og jafnri lýsingu á andlitið fyrir förðun.“

Skiptir máli hvernig lýsing er valin í stofu? „Í stofunni er mest verið að hugsa um stemningslýsingu. Þar skiptir útlitið á lömpunum miklu máli fyrir útlitið á stofunni en nauðsynlegt þykir mér að hægt sé að dimma þá lampa sem þar eru. Einnig er gott að hafa nokkrar týpur af lömpum, til dæmis hangandi, loftlampa og standlampa til að skapa mismunandi stemningu.“

Sandra mælir með að nota nokkrar týpur af ljósgjöfum í stofur.

Skiptir litaval máli hvað varðar lýsingu og stærð? „Endurkast er mismikið eftir litum þannig að ef valdir eru dökkir litir inn í rými draga þeir í sig birtuna og þarf þar af leiðandi meiri lýsingu en ef rýmið er ljóst. Fólk þarf ekki að vera hrætt við að mála í litum heima hjá sér, það gefur oftast meiri hlýju inn í rýmið og minnkar það ekki eins og margir eru hræddir um.“

Mynd / Hallur Karlsson

Sandra Dís útskrifaðist frá Istituto Europeo di Design í Mílanó árið 2011 sem innanhússarkitekt. Að loknu námi fór hún í starfsnám í Helsinki á innanhússarkitektastofu að nafni Studio Arcibella. Eftir að hún flutti heim til Íslands hafði Sandra Dís lokið námi við lýsingarhönnun og vinnur við hana hjá Lisku ásamt því að vinna sjálfstætt sem innanhússarkitekt. Hún heldur úti síðu á Facebook og heimasíðan hennar opnar bráðlega.

Michelle Obama gefur Meghan Markle góð ráð

Michelle Obama ráðleggur Meghan Markle að taka því rólega í nýju hlutverki.

Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, gefur Meghan Markle, hertogaynjunni af Sussex, ráðleggingar í viðtali við tímaritið Good Housekeeping. „Líkt og ég, þá hafði Meghan örugglega ekki getað ímyndað sér að hún myndi lifa svona lífi,“ segir Michelle.

„Pressan sem þú ert undir, pressa frá sjálfri þér og öðrum, getur verið yfirþyrmandi. Mitt helsta ráð er að taka sér sinn tíma og ekki flýta sér um of,“ ráðleggur Michelle.

Mitt helsta ráð er að taka sér sinn tíma.

Þá lýsti hún fyrstu mánuðum sínum í Hvíta húsinu og hvernig hún einbeitti sér að því að hugsa um dætur sína tvær áður en hún tók að sér metðanarfull verkefni sem forsetafrú. „Ég held að það sé allt í lagi, gott jafnvel, að gera þetta svona.“

Meghan, sem giftist inn í bresku konungsfjölskylduna í sumar, hefur nú þegar tekið að sér hin ýmsu verkefni síðan hún varð hertogayngja og virðist Michelle hafa einhverjar áhyggjur af henni. Hún benti á að Meghan fái nú endalaus tækifæri til að láta gott af leiða í þessu nýja hlutverki og þurfi að velja vel. Hún tók þá fram að hún hefur fulla trú á Meghan.

Sjá einnig: Karl Bretaprins leiðir Meghan upp að altarinu

Fólkið á Twitter um #klausturgate-málið

Þetta hefur fólk á Twitter að segja um #klausturgate-málið svokallaða.

Undanfarna daga hefur umræðan á Twitter að miklu leyti snúist um gróf og móðgandi ummæli þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins sem náðust á upptöku.

Samræðurnar sem náðust á upptöku eru með ólíkindum og svörin sem þingmennirnir gefa eftir að upptakan rataði í fjölmiðla eru stórfurðuleg.

Landsmenn hafa fylgst undrandi með þróun mála og allir virðast hafa skoðun á því. Málið hefur verið kallað #klausturgate-málið á samfélagsmiðlum.

Hér fyrir neðan er lítið brot af því sem fólk hefur um málið að segja.

https://twitter.com/raggihans/status/1069559517711454208

Ný þingkona hristir upp í húsinu

Alexandria Ocasio-Cortez hefur komið eins og stormsveipur inn í bandarísk stjórnmál.

Þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez leiðir nú hóp framsýnna demókrata sem krefjast þess að gerður verði nýr grænn sáttmáli „New Green Deal“ sem gengur út á útfösun jarðefnaeldsneytis og að sköpun umhverfisvænna starfa. Fyrir skömmu tók hún þátt í mótmælum í tengslum við loftslagsbreytingar og skort á aðgerðum demókrata í þinginu á skrifstofu Nancy Pelosi, sem er hennar flokkssystir og leiðir demókrata í húsinu. Sama dag tilkynnti hún að hún myndi í prófkjörum fyrir kosningar 2020 styðja aktívista sem ætla fram úr röðum demókrata. Með því lýsir hún yfir vantrausti á nýja samstarfsmenn sína, núverandi sitjandi fulltrúa demókrata.

Ocasio-Cortez er í hópi sósíal-demókrata enda vann hún í kosningabaráttu Bernie Sanders. Hún var kosin á þing í fjórtánda umdæmi New York borgar. Merkilegt nokk var hún líka kosin sem fulltrúi fimmtánda umdæmis í prófkjöri demókrata, þó hún væri ekki einu sinni í framboði þar. Því þurfti hún að velja um kjördæmi. Augljóst er að hún á sér marga fylgjendur í borginni.

Alin upp af einstæðri móður í Bronx

Þingkonan er nýorðin 29 ára og hefur þar með sett met sem yngsta kjörna þingkonan í ameríska þinginu. Hún er fædd í Bronx, alin upp af einstæðri móður sem þurfti að skrúbba klósett og harka til að eiga fyrir reikningum. Ung fór Ocasio-Cortez að hjálpa við heimilishaldið m.a. með því að vinna á bar. Kosningabarátta hennar hefur mikið snúist um að hún ætli að standa með sinni stétt, færa valdið til fólksins og hún sé málsvari almennings og breytinga í bandarískum stjórnmálum. Andstæðingar hennar hafa þegar ráðist á hana m.a. með því að vega að því að hún sé málsvari láglaunafólks, með því að nota jakka sem hún klæddist í þinginu, með dylgjum um að hann væri of fínn.

Innan Washington hefur hún verið að þyrla upp ríkjandi hefðum, vill opna störf þingsins fyrir almenningi og gera þingið mannlegra með því að nota samfélagsmiðla í meira mæli. Ocasio-Cortez er orðin stjarna á stuttum tíma á smáforritinu Instagram með um milljón fylgjendur. Áðurnefnd Nancy Pelosi, sem hefur í áratugi verið í bandarískum stjórmálum og sem leiðir demókrata í þinginu, hefur til samanburðar aðeins um 130.000 fylgjendur.

Það verður áhugavert að fylgjast með Ocasio-Cortez og nýjum þingmönnum demókrata á næstu misserum, en athygli vekur að sósíalismi er að riðja sér til rúms í bandarískum stjórnmálum. Skilaboð þessa nýju þingmanna eru talin róttæk og ekki kerfislæg, en það var talinn einn helsti styrkleiki Trump og há Hillary Clinton að hún væri of kerfislæg. Hvort sterka mótvægið sem nær að velta Donald Trump úr sessi sé fólgið í sterkum sósíalisma verður að koma í ljós.

Mynd / Af Facebook síðu Alexöndiu

Kápa og strigaskór, skyldueign í skápnum

|||
|||
„Plain gulllituðu hoops-eyrnalokkarnir mínir eru í miklu uppáhaldi og svo Vera Design-eyrnalokkarnir mínir en ég hef notað þá nánast daglega síðan ég fékk þá.“

Sunneva Sif Jónsdóttir bar sigur úr býtum sem fyrsta Queen Beauty Universe og undirbýr sig fyrir keppnina sem haldin verður í Valencia nú í lok nóvember. Að hennar mati þurfa allar konur að eiga fallega kápu og flotta strigaskó.

„Ég hef alltaf verið frekar mikil strákastelpa, elskað hettupeysur og strigaskó,“ segir Sunneva þegar hún er beðin um að lýsa sínum persónulega stíl. „En mér finnst líka alltaf gaman að hafa mig til og vera fín annað slagið.

Efst á mínum óskalista þessa stundina eru Billi bi-ökklaskór sem ég sá í GS skóm nú fyrir stuttu en svo langar mig líka í einhverja fallega kápu fyrir haustið. Að mínu mati ættu allar konur að eiga fallega kápu í fataskápnum sínum sem og flotta strigaskó.

„Leðurjakkinn er óumdeilanlega mín uppáhaldsflík en hann er frá Pull and Bear. Hann er oversized og passar við allt. Leitaði lengi að hinum fullkomna leðurjakka og fann hann svo loksins á Asos og var í skýjunum.“

Hér á Íslandi finnst mér skemmtilegast að versla í Zöru en annars skoða ég líka mikið á Netinu, á Asos. Þegar ég ferðast í útlöndum kíki ég alltaf í Monki, Bershka og Urban Outfitters.“

Aðspurð hvaða konur veiti Sunnevu innblástur nefnir hún fyrst Emmu Watson. „Hún er mögnuð kona en tískulega séð myndi ég segja Gigi Hadid.“


„Sú flík sem hefur mesta tilfinningalega gildið er stúdentskjóllinn minn.“

 

Bannsvæði víða um heim

||||
||||

Þegar við ferðumst viljum við flest reyna að sjá sem mest og fá eins mikið út úr ferðalaginu og hægt er. Sums staðar rekumst við þó á veggi því margir staðir í heiminum hafa takmarkað aðgengi og önnur eru harðlokuð almenningi. Hér má lesa um nokkur þeirra og Ísland á að sjálfsögðu sinn fulltrúa.

 

Bohemian Grove

Bohemian-klúbburinn í Monte Rio, Kaliforníu samanstendur af ríkasta og valdamesta fólki heims. Á stórri og skógivaxinni landareigninni getur það skemmt sér án þess að almúginn flækist fyrir. Það kostar 25 þúsund dollara að ganga í klúbbinn og árgjaldið er 5 þúsund dollarar. Ekki fær þó hver sem er að verða meðlimur og þeir sem reyna að lauma sér óboðnir inn á svæðið verða umsvifalaust handteknir. Athyglisverður klúbbur sem er sagður búa yfir mörgum leyndarmálum.

 

Lascaux-hellamyndirnar

Hinn átján ára Marcel Ravidat, ásamt þremur vinum sínum, fann hellinn með þessum forsögulegu hellamyndum þann 12. september 1940. Átta árum síðar voru hellarnir opnaðir almenningi og allt að 1200 manns heimsótti þá daglega. Um 2000 myndir/fígúrur er að finna á veggjunum, bæði af mönnum og dýrum og einnig abstrakttákn. Myndirnar eru taldar vera rúmlega 17 milljón ára gamlar. Strax árið 1955 var komið í ljós að þessi umgangur fór illa með minjarnar en það var ekki fyrr en árið 1963 sem hellunum var lokað almenningi.

 

Örkin hans Nóa á Svalbarða

Á norsku eyjunni Svalbarða er að finna hvelfingu sem byggð er langt inn í fjall. Hún geymir miklar fræbirgðir í öryggisskyni ef eitthvað alvarlegt gerist í heiminum og hungursneyð blasir við. Aðeins starfsmenn og stöku vísindamenn fá aðgang að hvelfingunni en of áhættusamt þykir að hleypa öðrum þar inn. Um 865 þúsund frætegundir alls staðar að í heiminum er að finna þar. Meira að segja Norður-Kórea á þarna innlegg. Fræhvelfingin var tekin í notkun árið 2008 og þegar hefur ein úttekt farið fram, þegar frægeymsla Sýrlendinga í Aleppo var eyðilögð í sprengjuárás fyrir nokkrum árum.

 

Svæði 51

Bandaríkjamenn hafa loks viðurkennt tilvist þessa staðar í Nevada eftir áralangar klikkaðar samsæriskenningar um hann. Það þýðir þó ekki að almenningur sé velkominn þangað.

 

Menwith Hill 

Vissulega getur maður ekki spígsporað inn í hvaða herstöð sem er. Almenningur er þó sérlega óvelkominn á herstöð breska flughersins í Norður-Yorkshire í Bretlandi þar sem hin bandaríska NSA-leyniþjónusta hefur aðstöðu en leyndin er aðalsmerki hennar. Hún er sögð mikilvægasta herstöð Bandaríkjanna á erlendri grund. Stærsta hlerunarstöð heims?

 

Skjalasafn Vatíkansins

Í þessu leynda safni eru geymd flest þau skjöl sem Páfastóll hefur sankað að sér. Hluti safnsins var opnaður árið 1922 og nokkru síðar sá sem tengist seinni heimstyrjöldinni. Mikil leynd hefur hvílt yfir stærstum hluta safnsins og margar samsæriskenningar hafa orðið til um hvað það hefur að geyma.

 

Surtsey

Eyjan varð til í eldgosi sem hófst árið 1963 og hefur verið friðlýst frá 1965. Markmiðið var að tryggja að þróun eyjarinnar verði eftir lögmálum náttúrunnar, að landnám plantna og dýra, framvinda lífríkis og mótun jarðmyndana verði með sem eðlilegustum hætti og truflun af völdum manna sem minnst. Óheimilt er að fara í land eða kafa við eyna nema til rannsókna og verkefna þeim tengdum og þá aðeins með skriflegu leyfi Umhverfisstofnunar. Siglingar í kringum Surtsey eru þó heimilar. Þess má geta að Vestmannaeyingar vildu ólmir að eyjan fengi nafnið Vesturey en fengu ekki.

 

Hvítukarlaklúbburinn í London

Hann heitir White’s Gentleman’s Club, og þar drekkur og spilar bresk karlkynselíta. Umsækjendur þurfa samþykki 35 meðlima og árgjaldið er himinhátt.

 

Ilha da Queimada Grande

Brasilísk eyja sem er sundurgrafin af nöðrum og þarf ekki annað en að ganga nokkur skref til að eiga á hættu að missa lífið. Aðeins örfáir vísindamenn hafa leyfi til að heimsækja þessa snákaeyju.

 

Niihau

Þessi eyja er ein af Havaí-eyjaklasanum. Ástæðan fyrir því að enginn má koma þangað er sú að hún er í einkaeign. Um 130 manns búa þar en aðeins þeir sem Robinson-fjölskyldan býður mega koma í heimsókn.

 

Jiangsu-alþjóðaleynifræðslusafnið

Jiangsu National Security Education Museum er staðsett í Nanjing í Kína og er eingöngu opið kínverskum almenningi. Öllum öðrum er úthýst vegna viðkvæmra njósnaupplýsinga sem þar er að finna.

 

Heard-eyja

Aðeins 400 manns er leyft að heimsækja þessa áströlsku eyju ár hvert. Bátur fer þangað á tveggja vikna fresti yfir úfinn sjó og veðurfarið er svo ömurlegt að frekar fáir eru hvort eð er spenntir fyrir að berja eyjuna augum.

„Segir Læknafélagið á skjön við breska kollega“

|
|

Læknafélag Íslands hefur skorað á yfirvöld að stöðva án tafar sölu á rafrettum eða „veipi“. Guðmundur Karl Snæbjörnsson, sérfræðingur í heimilislækningum í Svíþjóð, sagðist í viðtali við Lindu Blöndal á Hringbraut vera því fullkomlega ósammála. Ekkert hefði verið sannað um skaðsemina. Hart er deilt um þetta en Læknafélagið segir Guðmund Karl vera einn af örfáum til að segja rafrettur skaðlausar.

Lára G. Sigurðardóttir, læknir og lýðheilsufræðingur. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Guðmundur Karl segir nikótínið ekki hættulegra en til dæmis koffín heldur sé það reykurinn sem drepi. Fimmtán ára reynsla sé komin af veipi. „Það er komin meiri reynsla á þetta en nokkurt lyf sem er markaðssett,“ segir hann. Milljónir manna hafi hætt að reykja með hjálp „veips“ og samkvæmt rannsóknum Rannsókna og greiningar sem gerðar eru árlega í skólum á Íslandi hafi komið fram að um 65 prósent af þeim sem veipi reglulega hafi áður annaðhvort reykt eða notað munntóbak. Því sé sáralítil nýliðun nikótínnotenda í þeim hópi.

„Læknafélag Bretlands er á sömu skoðun og ég,“ segir Guðmundur Karl. „Það eru margir [læknar] sammála mér. Þeim sem fara gegn straumnum í þessum efnum er nánast slátrað.“

Lára G. Sigurðardóttir, læknir og lýðheilsufræðingur, segir nikótín ekki skaðlaust heldur sterkt ávanabindandi eiturefni og þannig flokkað hjá Umhverfisstofnun. Engin merki séu um að rafsígarett¬ur tengist lækkun á tíðni reykinga. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hafi rannsakað bragðefnin og komist að því að mörg innihaldi formaldehýð sem er þekkt krabbameinsvaldandi efni.

Nóg púður eftir í tunnunni í Úkraínu

|
Vladimír Pútín Rússlandsforseti.

Aukin harka er hlaupin í stríðið á milli Úkraínu og Rússlands eftir að Rússar tóku þrjú skip úkraínska hersins og skipverja þeirra í gíslingu eftir að til átaka kom við Krímskaga. Stjórnvöld í Kænugarði svöruðu með því að setja herlög sem Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, segir nauðsynleg ef ske kynni að Rússar réðust til inngöngu í landið.

Stríð hefur geisað í Úkraínu allt frá því Rússar hertóku Krímskaga þvert á alþjóðalög. Stríðið er að mestu bundið við Luhansk og Donetsk í austurhluta landsins en þar hafa uppreisnarmenn, dyggilega studdir af Rússum, haldið uppi hernaði gegn úkraínska hernum. Yfir 10 þúsund manns hafa fallið í átökunum. Skærurnar í vikunni hófust þegar úkraínsku herskipin freistuðu þess að sigla frá Odessa til Mariupol sem bæði eru undir stjórn Úkraínu. Til þess þurftu þau að sigla fyrir Krímskaga, í gegnum Kerch-sund og inn á Azovshaf þar sem Rússar ráða ríkjum. Til átaka kom þegar skipin sigldu inn á Kerch-sund og slösuðust sex úkraínskir skipverjar áður en Rússar tóku skipin yfir. Vilja Rússar meina að skipin hafi siglt ólöglega inn í rússneska lögsögu. NATO boðaði til neyðarfundar á mánudaginn vegna atviksins þar sem niðurstaðan var að fordæma framferði Rússa.

Herlögin sem úkraínska þingið samþykkti á þriðjudaginn eru bundin við 10 af 27 héruðum landsins og gilda í 30 daga. Þetta eru þau héruð sem eiga landamæri að Rússlandi, Trans-Dniester-héraði í Moldavíu þar sem rússneski herinn er með viðveru og við ströndina að Azovshafi. Á þessum tíma verða mótmæli og verkföll bönnuð og almennir borgarar geta verið kallaðir í herinn. Poroshenko segir að þetta hafi ekki áhrif á forsetakosningarnar sem fyrirhugaðar eru í mars.

Litlir grænir menn á Krímskaga
Stríðið í Úkraínu hófst eftir að Viktor Yanukovych var hrakinn úr stóli forseta í byltingunni á Maidan-torgi í ársbyrjun 2014. Yanukovych var hliðhollur Rússum en upp úr sauð þegar hann bakkaði út úr viðskiptasamningi sem gerður hafði verið við Evrópusambandið og hugðist styrkja tengslin við Rússa enn frekar. Um svipað leyti fór að bera á „litlum grænum mönnum“ á Krímskaga, það er ómerktum hermönnum sem lögðu undir sig mikilvæg mannvirki. Velktist enginn í vafa um að þarna færu rússneskir hermenn sem nutu liðsinnis uppreisnarmanna hliðhollum Rússum. Í byrjun mars efndu uppreisnarmenn til „þjóðaratkvæðagreiðslu“ þar sem samþykkt var að Krímskagi skyldi tilheyra Rússlandi og hafa Rússar haft fulla stjórn á Krímskaga síðan. Aðeins fimm ríki viðurkenna yfirráð Rússlands á skaganum sem hefur gríðarlegt hernaðarlegt mikilvægi fyrir Rússa, en þaðan stýra þeir Svartahafsflota sínum.

„Við erum að verða vitni að enn einni gáleysislegri ögruninni af hálfu Rússa. Bandaríkin munu sem fyrr standa með úkraínsku þjóðinni gagnvart ágengni Rússa.“
– Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.

Dæla vopnum og fjármunum í uppreisnarmenn
Í apríl 2014 hófust bardagar á milli uppreisnarmanna og úkraínska stjórnarhersins í Donetsk og Luhansk og standa þau átök enn yfir. Hernaður Rússa í Úkraínu er um margt óhefðbundinn. Rússar hafa löngum þrætt fyrir aðkomu sína að átökunum en ekki þarf að velkjast í vafa um að uppreisnarmennirnir eru ríkulega studdir af stjórnvöldum í Kreml, bæði að vopnum og fjármunum. Til að mynda er sannað að það voru uppreisnarmenn sem skutu niður farþegaþotu Malaysian Airlines yfir austurhluta Úkraínu sem varð 283 manns að bana. Samhliða því hafa Rússar beitt tölvuárásum í Úkraínu og notað ríkisfjölmiðla sína grimmt í áróðursstríði.

Viðskiptabannið bítur
Fjöldi ríkja, þar með talið Ísland, sameinaðist um að beita Rússa efnahagsþvingunum vegna framferðis þeirra í Úkraíanu. Frá því fyrsta viðskiptabannið – sem nær til stjórnvalda, fyrirtæka og einstaklinga – var sett á í febrúar 2014 hefur það verið framlengt með reglulegu millibili og mun að öllum líkindum verða framlengt aftur þegar það rennur út í febrúar á næsta ári. Aðgerðirnar hafa vissulega valdið Rússum vandræðum, en þau hafa einnig haft neikvæð áhrif á nokkrar af viðskiptaþjóðum Rússa í Evrópu. Í vikunni greindi Washington Post frá því hvernig Rússar hafa farið í kringum bannið og haldið áfram að fjármagna uppreisnarmenn í Úkraínu með því að flytja fjármuni milli Moskvu og Úkraínu í gegnum Suður-Ossetíu, landsvæði í Georgíu sem Rússar hafa hernumið frá því 2008.

„Þetta [Úkraínumenn] eru stigamenn. Þeir nota aðferðir stigamanna, fyrst ögra þeir, svo beita þeir valdi og loks saka þeir aðra um að beita valdi.“
– Maria Zakharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins.

Pútín sér leik á borði
Ólíklegt er að skærurnar í vikunni endi með allsherjar stríði á milli ríkjanna tveggja. Hins vegar er ekkert sem bendir til þess að Rússar láti Krímskaga af hendi og láti af stuðningi við uppreisnarmenn í Úkraínu. Þvert á móti bendir margt til þess að átökin gætu harðnað enn frekar næstu misserin. Rússar gætu séð sér hag í því að magna upp átökin í aðdraganda forsetakosninganna í mars til að veikja stöðu Poroshenko. Að sama skapi hafa vinsældir Vladímírs Pútín heima fyrir dalað sökum þrenginga í efnahagslífinu og reynslan sýnir að þegar herinn hnyklar vöðvana aukast vinsældir hans.

„Það var reynt að vega að mér um leið og ég kom inn í ráðuneytið“

|||
|||

Sigríður Á. Andersen er álitin með umdeildari stjórnmálamönnum landsins þótt sjálf upplifi hún sig ekki umdeilda. Hún heillaðist af frjálshyggju sem barn eftir að hafa horft á sjónvarpsþátt með Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og Milton Friedman en hún gekk svo í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins um leið og hún hafði aldur til. Eftir að hafa reynt við læknisfræði í háskóla sneri hún sér að lögfræði þar sem þrætulistin átti vel við hana og gegnir hún nú æðsta embætti dómsmála í landinu.

Í dag er nákvæmlega ár síðan stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna var kynntur. Samstarfið hefur að mestu gengið stóráfallalaust fyrir sig en það hefur þó mætt á einum ráðherra umfram aðra, dómsmálaráðherranum Sigríði Á. Andersen sem meðal annars hefur þurft að verjast vantrauststillögu í þinginu vegna umdeildrar skipunar dómara í Landsrétt. Þetta var annar stormurinn á stuttum tíma því ríkisstjórnin sem hún sat í áður hafði fallið vegna trúnaðarbrests sem samstarfsflokkur taldi að hefði orðið í máli er laut að eldri veitingu uppreistar æru. Þrátt fyrir þessi hitamál upplifir Sigríður sig ekki sem umdeildan stjórnmálamann og segist mæta miklum velvilja í störfum sínum.

Þarf að gera fleira en gott þykir

Vantrauststillagan var borin upp eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Sigríður hafði brotið gegn matskenndu ákvæði stjórnsýslulaga við skipan dómara í Landsrétt sem þá var verið að koma á laggirnar. Hæfisnefnd hafði lagt fram tillögu um 15 hæfustu umsækjendurna en Sigríður breytti þeirri tillögu, tók fjóra umsækjendur af lista og setti fjóra aðra á listann í staðinn. Þrátt fyrir kröfur andstæðinga um afsögn og að könnun Maskínu og Stundarinnar sýndi að þrír af hverjum fjórum vildu að hún segði af sér, stóð Sigríður föst á sínu og sagðist einfaldlega ósammála niðurstöðu Hæstaréttar. Við það stendur hún enn.

„Það er nú þannig, hvort sem er í stjórnmálum eða þegar menn eru að reka eitthvert apparat þá þarf maður að gera fleira en gott þykir. Ég stóð frammi fyrir ákveðnum aðstæðum,“ segir Sigríður en Alþingi hafi gert henni ljóst að það myndi ekki samþykkja listann óbreyttan og því hafi hún orðið að gera breytingar.

„Málið var komið í pólitískar skotgrafir áður en ég auglýsti embættin laus til umsóknar, þá var strax byrjað að hóta ráðherranum að hann skyldi ekki voga sér að koma með svona lista eða hinsegin og mér fannst það miður. Þegar listi nefndarinnar lá fyrir kom ekki annað til greina en að kanna hug alþingismanna áður en ég bæri málið undir þingið, eins og mér bar að gera samkvæmt lögum. Þá var mér gert ljóst að listinn yrði ekki samþykktur óbreyttur. Ég átti því ekki annarra kosta völ en að leitast við að leggja fram lista sem ég taldi að þingið gæti fellt sig við. Ég lagði mat á vinnu hæfisnefndar eins og mér ber skylda til að gera og ég gerði málefnalegar breytingar á listanum eftir minni bestu samvisku. Meðal annars fjölgaði ég konum við réttinn sem varð þess valdandi að í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins var sett á laggirnar jafnmikilvæg stofnun sem dómstóll er með jöfnum kynjahlutföllum. Ég vogaði mér líka að líta til áratuga athugasemdalausra starfsreynslu dómara sem voru meðal umsækjenda og bætti þeim í  hóp hæfustu umsækjenda, ekki í staðinn fyrir þá fimmtán sem nefndin hafði lagt til heldur til viðbótar þeim.“

Sigríður Á. Andersen er álitin með umdeildari stjórnmálamönnum landsins þótt sjálf upplifi hún sig ekki umdeilda.

Dómstólar eru hins vegar ekki sammála Sigríði um að hún hafi rannsakað málið nægilega og hefur dæmt tveimur dómurum miska- og skaðabætur vegna þess að gengið var fram hjá þeim um skipanina, nú síðast í október þegar Héraðsdómur Reykjavíkur gerði ríkinu að greiða einum umsækjenda 4 milljónir í skaðabætur og 1,1 milljón í miskabætur. Sigríður segir það mál í áfrýjunarferli.

„Það er hins vegar lögfræðilega áhugavert fyrir þá sem eru að velta þessu fyrir sér, eins og starfsmönnum hjá hinu opinbera, hvort það verði þannig að í framtíðinni að menn geti sótt skaðabætur fyrir það að fá ekki starf. Það hefur hingað til ekki verið hægt og nýlega komst Hæstiréttur að því að maður sem hafði sannarlega verið ólöglega vikið frá störfum fékk ekki miskabætur.“

Aðspurð segist Sigríður ekki á neinum tímapunkti hafa íhugað að segja af sér. Vantrauststillagan var felld með 33 atkvæðum gegn 29 en þar vakti sérstaka athygli að tveir stjórnarliðar, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, greiddu atkvæði með tillögunni. Sigríður segir það í sjálfu sér ekki hafa komið á óvart. Þessir tveir þingmenn VG hafi ekki stutt tillögu síns formanns um að ganga til þessa ríkisstjórnarsamstarfs. Ríkisstjórnarsamstarf jafnólíkra flokka og skipa þessa stjórn kalli á málamiðlanir. „Það felst í ríkisstjórnarsamstarfi að menn styðja þá ríkisstjórn og þá ráðherra sem í henni starfa. Að öðrum kosti er rétt að líta svo á að menn styðji ekki ríkisstjórnina. Þannig er það nú bara. Að minnsta kosti er það öllum ljóst sem hafa einhverja reynslu í stjórnmálum að öðruvísi gangi ekki ríkisstjórnarsamstarf.“

Lét geðshræringu ná á sér tökum

Aðspurð út í ríkisstjórnarsamstarfið segir Sigríður mikinn mun á ríkisstjórninni sem nú situr og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar sem áður sat. Björt framtíð ákvað að slíta því samstarfi sökum trúnaðarbrests sem þau töldu hafa orðið gagnvart Sjálfstæðisflokknum eftir að í ljós kom að faðir Bjarna Benediktssonar hafði skrifað undir meðmælabréf fyrir dæmdan kynferðisbrotamann sem sótt hafði um uppreist æru nokkrum árum áður. Sigríður lá undir ámæli fyrir að birta ekki opinberlega gögn í máli annars manns sem hlotið hafði uppreist æru fyrir hennar ráðherratíð og fyrir að hafa greint Bjarna frá aðkomu föður hans að máli enn annars manns sem fengið hafði uppreist æru.

„Ég myndi segja að það væri einkum og sér í lagi reynsla þeirra sem sitja í þessari ríkisstjórn. Þeir voru kannski líkari flokkarnir sem voru í ríkisstjórninni þar á undan en þetta samstarf gengur miklu mun betur. Menn átta sig á þeirri ábyrgð sem þeir bera þegar þeir taka sæti í ríkisstjórn. Þá þýðir ekki að vera í uppnámi út af alls kyns álitaefnum. Menn þurfa að vera yfirvegaðir og faglegir í sinni vinnu og gera sér grein fyrir að þeim ber skylda til að reka tiltekin mál áfram og láta sín ráðuneyti virka.“

„Mín aðkoma að fyrirbærinu uppreist æru var sú að neita að veita hana kynferðisbrotamanni, þvert gegn ráðleggingum embættismanna minna, og um leið tók ég ákvörðun um að endurskoða lagaákvæði um uppreist æru.“

Viltu meina að fyrri ríkisstjórn hafi fallið á smáatriðum? „Það liggur fyrir að samstarfsflokkarnir létu geðshræringu ná á sér þannig tökum að þeir risu ekki undir þeirri ábyrgð sem menn þurfa að gera í ríkisstjórn, þegar menn í skjóli nætur ákveða að slíta stjórnarsamstarfi með vísan til máls sem ríkisstjórnin hafði ekkert með að gera, máli úr tíð fyrri ríkisstjórnar án þess svo mikið sem að ræða við samstarfsráðherrana. Mín aðkoma að fyrirbærinu uppreist æru var sú að neita að veita hana kynferðisbrotamanni, þvert gegn ráðleggingum embættismanna minna, og um leið tók ég ákvörðun um að endurskoða lagaákvæði um uppreist æru. Þetta gerði ég áður en mál frá fyrri tíð komu til opinberrar umræðu. Ég held að það sé komið í ljós eftir á hvílík gönuhlaup þessi stjórnarslit voru sem að á endanum varð þeim flokkum, að minnsta kosti öðrum þeirra að aldurtila. Hinn flokkurinn, þótt hann tóri enn þá á Alþingi, finnst mér ekki hafa mikla skírskotun í þjóðfélagið í dag,“ segir Sigríður og á þar við Viðreisn.

„Ég velti því fyrir mér hvaða erindi þau eru að reka í dag. Ég held að þessi stjórnarslit hafi verið þeim þungbær og þótt það hafi verið Björt framtíð sem átti upphafið að þeim þá gekk Viðreisn í að gerast sporgöngumenn þess flokks. Þau eru fyrst og fremst með það á dagskrá hjá sér að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og flokkurinn er svokallaður eins máls flokkur. Slíkir flokkar fara oft erindisleysu. En ég ætla svo sem ekkert að vera að fella dóma yfir öðrum flokkum en sagan er hins vegar ólygnust.“

Sannfærðist af Hannesi Hólmsteini í sjónvarpinu

Líkt og margir núverandi og fyrrverandi áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum lauk Sigríður stúdentsprófi úr MR og fór í lögfræði í Háskóla Íslands þaðan sem hún lauk embættisprófi. Færri vita hins vegar að hún hóf fyrst nám í læknisfræði áður en hún skipti yfir í lögfræðina. Þótt hún telji aðspurð að hún hefði orðið ágætis læknir telur hún lögfræðina eiga betur við sig. „Þetta húmaníska fag sem lögfræðin er átti betur við mig en raunvísindin í læknisfræðinni.“

Sigríður er einn stofnenda vefmiðilsins Andríki.is sem á blómaskeiði pólitísku vefritanna var einn frjóasti vettvangur stjórnmálaumræðu í landinu. Vefurinn er reyndar enn til og er eiginmaður hennar, Glúmur Björnsson, einn ritstjóra en eins og nafnið gefur til kynna var vefurinn flaggskip frjálshyggju á Íslandi. Sjálf hefur Sigríður hallað sér að frjálshyggju frá því hún var barn að aldri.

„Ég hafði alltaf gaman af pólitískri umræðu sem krakki og ég man eftir því þegar ég var 12 eða 13 ára að ég horfði á Hannes Hólmstein, sem ég þekkti þá náttúrlega ekki neitt, tala við Milton Friedman í sjónvarpinu. Ég man að Hannes talaði svo skýrt þarna í sjónvarpinu að jafnvel barn gat skilið hann sem er reyndar eitthvað sem stjórnmálamenn ættu að hafa að leiðarljósi. Ég held ég geti sagt að þarna hafi Hannes Hólmsteinn opnað augu lítillar stúlku í Vesturbænum,“ segir Sigríður og hlær. „Ég gekk svo strax í Heimdall þegar ég var 15 ára, um leið og ég hafði aldur til.“

„Mér finnst ég hafa svo normal skoðanir, algjörlega meðalhófs. Það hefur ekkert elst af mér, nema síður sé.“

Aðspurð hvort hún sé enn jafnróttækur frjálshyggjumaður og hún var á árum áður svarar Sigríður: „Ég lít alls ekki á mig sem róttæka. Mér finnst ég hafa svo normal skoðanir, algjörlega meðalhófs. Það hefur ekkert elst af mér, nema síður sé.“ Sigríður er ekki mikið fyrir að liggja á skoðunum sínum. Hún talar hreint út og ljóst að hún er ekki í stjórnmálum til að þóknast þeim sem hæst tala og stefnufesta hennar veldur oft fjaðrafoki. „Ég upplifi mig ekki umdeilda. Það eru hins vegar margir sem hrósa mér en bæta svo við: „En ég er ekki alltaf sammála öllu sem þú segir.“ Þá spyr ég oft á móti: „Hvað er það helst sem þú ert ekki sammála mér um, getur þú nefnt mér eitthvert eitt atriði?“ Stundum geta menn það ekki en ef þeir geta nefnt eitthvað þá er ég alltaf tilbúin að ræða það og þá endar það oftast þannig að við endum sammála um það atriði. Auðvitað er fólk aldrei sammála um allt en ég hef þó ekki greint annað en mikinn velvilja í minn garð sem stjórnmálamanns. Mér er umhugað um að hafa allar staðreyndir uppi á borðum og tala hreint út. Það kann að vera að mönnum mislíki þær staðreyndir eða hafa aðrar skoðanir á þeim og þá býðst mönnum að rökstyðja það.“

Konur ekki beittar skipulegu misrétti

Í þessu samhengi má nefna Facebook-færslu Sigríðar sem birtist á kvennafrídeginum þar sem ráðherrann fjallaði um framsetningu þeirra sem stóðu að hátíðarhöldunum þann dag. Á vefnum kvennafri.is var því slegið föstu að konur væru einungis með 74 prósent af meðalatvinnutekjum karla en Sigríður benti á að það væri rangt því þegar búið væri að leiðrétta fyrir mælanlegum þáttum við útreikning á launamun kynjanna væri munurinn ekki nema 5%. Vísaði hún um þetta til sömu skýrslu Hagstofunnar og kvennafri.is hafði stuðst við. Þá væru ungar konur hjá hinu opinbera með ívið hærri laun en karlar og lagði hún því til að ungu konurnar mættu aðeins fyrr til vinnu daginn eftir. Þessi ummæli Sigríðar vöktu hörð viðbrögð en hún segist einungis hafa verið að benda á að aðstandendur hátíðarhaldanna hafi farið full frjálslega með staðreyndir.

„Ég heyrði svo ekki betur en að daginn eftir hafi þær fallist á það með mér að þetta væri alveg rétt sem ég væri að benda á en að þær ætluðu samt ekki að breyta sinni aðferð. Þær hafa allan rétt til þess en mér finnst mjög mikilvægt að allir viti hvernig raunverulega er í pottinn búið þannig að hver og einn geti dregið eigin ályktun af þessum tölum.“

„Það getur verið að konur forgangsraði öðruvísi, að þær fari fyrr heim úr vinnu til að sækja börnin, þær séu frekar heima með börnin og þá er það eitthvað sem við eigum að ræða ef menn telja það vandamál.“

Sigríður segist í raun hafa þarna verið að endurtaka það sem hún hefur haldið fram um árabil, að það þurfi að taka tillit til mælanlegra þátta þegar launamunur kynjanna er reiknaður út. „Það sem ég er að benda á er að það er einhver munur á launum kynjanna en það er ekki víst að það sé vegna þess að það sé verið með skipulegum hætti að beita konur einhverju misrétti. Ég held að það sé ekki staðan á Íslandi í dag heldur að það sé samfélagið sem ýti konum í tilteknar áttir, að þær taki vissar ákvarðanir frekar en karlar. Það getur verið að konur forgangsraði öðruvísi, að þær fari fyrr heim úr vinnu til að sækja börnin, þær séu frekar heima með börnin og þá er það eitthvað sem við eigum að ræða ef menn telja það vandamál. Af hverju velja konur þessa leið frekar en karlar? Það er ekki verið að ræða það í þessari launamisréttisumræðu.“

Mönnum hugnaðist ekki að hafa mig í þessu ráðuneyti

Í framhaldinu berst talið að MeToo-byltingunni og upplifun Sigríðar af henni. „Ef konum fannst nauðsynlegt að stíga fram og lýsa sinni reynslu þá er frábært að þær skyldu gera það og að á þær hafi verið hlustað. Ég held að þetta hafi haft heilmikil áhrif á margt í samskiptum kynjanna og að mestu leyti til hins betra. Það hefur stundum verið sagt við mig að ég þreytist ekki á að reyna að ala upp fullorðið fólk. Ég á það meira að segja til að kalla á eftir fólki úti á götu í svartamyrkri sem er ekki með endurskinsmerki að setja það upp og lifi svo í voninni um að það taki ábendingunni. MeToo-byltingin er svolítið af þeim meiði, það er verið að reyna að ala upp fullorðið fólk, kenna því viðeigandi hegðun. Það getur verið mjög erfitt að gera það en það er tilraunarinnar virði.“

Sigríður segist aldrei hafa fundið fyrir því að hallað hafi á hana vegna kynferðis eða að hún kannist við það að konur í stjórnmálum fái harkalegri meðferð en karlar.

Sjálf segist Sigríður aldrei hafa fundið fyrir því að hallað hafi á hana vegna kynferðis eða að hún kannist við það að konur í stjórnmálum fái harkalegri meðferð en karlar. „Það hefur verið talað um að konur eigi erfitt uppdráttar en ég hef aldrei orðið vör við það. Ég fór fyrst í prófkjör í Sjálfstæðisflokknum árið 2006 og fann ekkert nema velvilja og náði mjög góðum árangri af nýliða að vera, algjörlega óþekkt þannig séð. Ég hef alltaf fengið mikinn stuðning þar sem ég hef gefið kost á mér.“ Sigríður bendir á að í prófkjörum og kjöri til Alþingis séu einungis 63 sæti í boði og því liggi það í hlutarins eðli að færri komist að en vilja.

„Það er líka mikil barátta milli karla og það eru margir karlar í sárum eftir hvert einasta prófkjör í öllum flokkum og eftir kosningar, alveg eins og konur. Það er alveg vegið að körlum í pólitíkinni líka. Ég fann alveg að það var reynt að vega að mér um leið og ég kom inn í ráðuneytið. Mönnum hugnaðist það ekki að ég kæmi inn í þetta ráðuneyti, engan veginn. Það var reynt frá fyrsta degi en hvort það hafi verið af því að ég var kona, ég veit það ekki. Ætli það hafi ekki frekar verið vegna skoðana minna og stefnufestu.“

Bylting með rafrænni þinglýsingu

Desembermánuður er einn annasamasti tími stjórnmálamannsins. Fjárlögin eru keyrð í gegn og ráðherrar keppast við að tæma þingmálalista sína. Sigríður er þar engin undantekning og hjá henni er það forgangsatriði að koma í gegn frumvarpi um rafræna þinglýsingu sem hún segir fela í sér byltingu fyrir hinn almenna borgara. „Í dag er það þannig að þegar þú kaupir þér íbúð þá þarft þú eða fasteignasalinn þinn að fara með kaupsamninginn til sýslumanns í viðkomandi umdæmi þar sem fasteignin er og láta þinglýsa honum. Það hefur tekið mislangan tíma. Í sumar lentum við í því að það tók allt of langan tíma að þinglýsa skjölum á höfuðborgarsvæðinu, 4-5 vikur sem er algjörlega óásættanlegt.“

Með nýju verklagi, gangi frumvarpið í gegn, verður hins vegar hægt að þinglýsa skjölum á Netinu í gegnum sérstaka gátt og það mun því ekki taka nema nokkrar sekúndur að þinglýsa skjali. Ef eitthvað misjafnt kemur upp, til dæmis ef seljandi fasteignar er í raun ekki réttmætur eigandi hennar, þá gerir kerfið viðvart. „Þetta mun verða bylting. Þetta mál hefur verið til umræðu í um 10 ár og nú þarf einfaldlega að taka skrefið.“

Mætti skoða hvort allur orkupakkinn verði undanskilinn

Annað mál sem dúkkaði óvænt upp á haustþingi og valdið hefur deilum er hinn svokallaði þriðji orkupakki ESB og innan stjórnarflokkanna skiptast menn í tvær fylkingar. Sigríður segir að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér framsal valdheimilda umfram aðrar reglugerðir sem Ísland hefur tekið upp í gegnum EES-samninginn. Hins vegar sé eðlilegt að spurningar vakni í hvert sinn sem reglugerðir sem þessar eru innleiddar. „Það er alveg ljóst að mörgum Íslendingum blöskrar það framsal sem hefur átt sér stað frá Íslandi til erlendra stofnana, löggjafa og jafnvel dómstóla. Stjórnmálamenn verða að hlusta á þessar raddir, hlusta á þetta fólk hvort sem þessi þriðji orkupakki í sjálfu sér sé tilefni til þeirrar geðshræringar sem hefur gripið um sig meðal sumra.“

Ráðherrann veltir því upp hvort mistök hafi verið gerð í upphafi þegar ákveðið var að undanskilja orkumál ekki frá EES-samningnum. „Það var ekki gert og ef menn telja að það hafi verið mistök þá er sjálfsagt að skoða það hvort að við ættum að hefja viðræður við Evrópusambandið um hvort undanskilja eigi allan orkupakkann, ekki bara þriðja orkupakkann heldur þann viðauka sem snýr að orkumálum, alfarið. Þriðji orkupakkinn sem slíkur er bara lítill hluti af orkumálum EES-samningsins.“

Eigi að síður telur Sigríður að EES-samningurinn hafi reynst mikið gæfuspor fyrir Ísland og eins og staðan er núna farnist Íslandi best að hafa hann. „Auðvitað hefði mér fundist betra ef Alþingi sjálft, og íslenskir stjórnmálamenn, kæmu sér saman um svona reglur; kæmu sér saman um að stöðva einokun ríkisins á tilteknum mörkuðum, eins og fjarskiptamarkaði, orkumarkaði og fjölmiðlamarkaði. En það þýðir ekki að þótt við höfum þurft að taka þær upp frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn að þá séu þær sjálfkrafa slæmar.“

Bakar ekki en dóttirin freistar hennar

Sigríður ætlar að taka sér tíma til að taka þátt í jólaundirbúningnum með fjölskyldunni þrátt fyrir annir.

Líkt og áður sagði eru þingmenn og ráðherrar jafnan á haus í desembermánuði en rétt eins og aðrir þurfa þeir að halda heilög jól og sinna því sem þeim fylgir. Þrátt fyrir annir gefur Sigríður sér tíma til að taka þátt í jólaundirbúningnum með fjölskyldunni.

„Ég skreyti alltaf fyrsta sunnudag í aðventu og ég verð að rífa mig upp fyrir það um þessa helgi. Ég hef ekki bakað lengi en það er nú bara af því að ég vil ekki lenda í óhollustu en ég á unglingsstúlku sem hefur tekið að sér að baka og freistar mín með kökum alla aðventuna. En mér finnst jólin mjög hátíðlegur fjölskyldutími og mér finnst gaman að halda í hefðir. Ég segi um hver einustu jól að næstu jól ætli ég að prófa að vera erlendis en það verður aldrei neitt úr því, ég tími einhvern veginn aldrei að fara.“

Þar sem trúmál heyra undir dómsmálaráðherra lá beinast við að spyrja hvort ráðherrann sæki kirkju yfir jólahátíðirnar. „Ég fór lengi vel í Landakotskirkju á miðnætti þegar ég var unglingur og í Háskólanum. Það er nú mín heimakirkja þannig að ég hef aldrei farið í aðra kirkju þótt ég sé ekki kaþólsk. Ætli ég fari nú ekki eitthvað í kirkju um jólin.“

Ertu trúrækin? „Já. Nú er ég svo heppin að dóttir mín fermist næsta vor og mér gefst kostur á að fylgja henni í fermingarfræðslunni og fara í messur. Mér finnst það notaleg stund, það er ef prestinum mælist vel.“

Þjóðkirkjan taki öll mál í sínar hendur

Þjóðkirkjan hefur átt undir högg að sækja undanfarið, það fækkar hratt í söfnuðinum og er svo komið að í dag stendur þriðjungur landsmanna utan hennar. Sigríður segist þrátt fyrir það ekki hafa áhyggjur af kirkjunni og hennar erindi. „Ég held að hún eigi enn erindi við fólk. Það er kannski ekki mitt að hafa áhyggjur af stöðu kirkjunnar heldur er það kirkjan sjálf sem þarf að hafa áhyggjur af því. Hún þarf auðvitað að laga sig að breyttu umhverfi og getur gert það með ýmsu móti. Það er hennar verkefni.“

„Ég hef ekki greint annað en að kirkjan vilji hafa það sjálf þannig og vilji auka það enn frekar. Ég held að til framtíðar litið þá sé það farsælast fyrir kirkjuna að taka öll mál í sínar hendur, algjörlega.“

Hvort þessi þróun kalli á aðskilnað ríkis og kirkju segir Sigríður að nú þegar sé mikill aðskilnaður þar á milli. „Einu sinni hét þetta embætti sem ég gegni sem dóms- og kirkjumálaráðherra en nú er þetta ráðuneyti, ekki bara ráðuneyti þjóðkirkjunnar heldur allra trúfélaga og kirkjan nýtur í sívaxandi mæli sjálfstæðis.“ Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á samkomulag sem einfaldi meðal annars fjárframlög frá ríkinu og geri þjóðkirkjuna enn sjálfstæðari í því hvernig hún ráðstafar þeim fjármunum. Þegar fram í sækir sé endanlegur viðskilnaður heppilegastur.

„Kirkjan ræður að mestu leyti sínum málefnum sjálf, það koma til dæmis aldrei kirkjuleg málefni sérstaklega inn á borð til mín. Ég hef ekki greint annað en að kirkjan vilji hafa það sjálf þannig og vilji auka það enn frekar. Ég held að til framtíðar litið þá sé það farsælast fyrir kirkjuna að taka öll mál í sínar hendur, algjörlega.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Aðstoð / Unnur Magna
Förðun / Björg Alfreðsdóttir með YSL

„Grafalvarlegt þegar þingmenn viðhafa slíka fordóma“

Samtökin ´78 senda frá sér yfirlýsingu vegna orðræðu Alþingismanna.

„Að vera kjörinn fulltrúi á Alþingi er valdastaða sem ber að umgangast af virðingu. Þessum völdum fylgir ábyrgð, ábyrgð sem endurspeglast m.a. í siðareglum Alþingismanna þar sem tiltekið er að þau skuli:

• rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika

• leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu

Samtökin ´78 vilja því koma því til skila að það er algjörlega óásættanlegt að kjörnir fulltrúar leyfi sér að tala með þeim hætti sem nú hefur verið gert opinbert. Kjörnir fulltrúar sem sumum hefur verið hampað fyrir vinnu sína í þágu jafnréttis.

Samtal Alþingismanna á Klaustri lýsir djúpstæðri kvenfyrirlitningu, hinseginfóbíu og fötlunarfordómum sem ekki er hægt að una. Mannréttindabarátta þessara hópa, sem og annarra minnihlutahópa, tvinnast saman og fylgist að. Það er því mikilvægt að við stöndum saman gegn orðræðu eins og þeirri sem við höfum heyrt af síðustu daga.

Það er grafalvarlegt þegar þingmenn viðhafa slíka fordóma, þar sem um er ræða fólk með mikil völd í samfélaginu og sem eiga m.a. að gæta hagsmuna kvenna, fólks með fötlun og hinsegin fólks. Við getum ekki treyst stjórnmálafólki sem talar svona. Við vitum af reynslunni, t.d. frá Rússlandi, Bandaríkjunum, Bretlandi og Brasilíu, að þegar haturorðsræða er samþykkt af hálfu stjórnmálamanna getur hún eitrað og smitað út frá sér út í samfélagið. Orð eru til alls fyrst, og hegðun og orðfæri sem þetta gefur almennum borgurum til kynna að þessi viðhorf séu samþykkt, eðlileg og jafnvel æskileg. Þaðan liggur beinn og breiður vegur yfir í hatursglæpi og afturför í réttindabaráttu minnihutahópa.

Samtökin ´78 skora á þingmenn og stjórnmálaflokka að samþykkja aldrei kvenfyrirlitningu, hinseginfóbíu eða fötlunarfordóma. Eitruð orðræða grefur undan öryggi jaðarsettra hópa og við minnum ykkur á að ábyrgð ykkar er gífurleg.“

Stjórn Samtakanna ’78.

Auðvelt að gleyma sér í Íshúsi Hafnarfjarðar

|||
Mynd/Unnur magna|||

Dyr Íshúss Hafnarfjarðar verða opnar almenningi um helgina. Þar mun ríkja notaleg jólastemning. Hægt verður að skoða vinnustofur hönnuða, listamanna og handverksfólks ásamt því að sötra kaffi og fræðast um jólakransagerð.

 

Mikið verður um að vera í Íshúsi Hafnarfjarðar um helgina en húsið verður opið á milli klukkan 12 og 17 laugardag og sunnudag. Þá býðst gestum og gangandi að koma í heimsókn og drekka í sig ljúfa jólastemningu og skoða vinnustofur og hönnun þeirra sem eru með aðstöðu í Íshúsinu.

Anna, Óli og allir í Íshúsinu munu taka vel á móti gestum.

Anna María Karlsdóttir sem rekur Íshús Hafnarfjarðar ásamt manni sínum, Ólafi Gunnari Sverrissyni, segir viðburðinn vera fullkominn fyrir þá sem vilja koma sér í svolítið jólastuð. „Hér verður ljúf jólastemning. Fólk getur komið hingað og keypt sér ljúffengt kaffi og kakó frá vinum okkur á kaffihúsinu Pallettunni sem setja upp pop-up kaffihús hjá okkur, skoðað og verslað það sem hönnuðir og listamenn Íshússins bjóða upp á, virt fyrir sér málverk Jóhannesar Níelsar Sigurðssonar í gömlum frystiklefa sem ekki hefur verið opinn almenningi áður og bara notið. Njóta en ekki þjóta er það sem gildir í Hafnarfirðinum,“ segir Anna.

Njóta en ekki þjóta er það sem gildir í Hafnarfirðinum.

„Þá verður Margrét Leópoldsdóttir, Magga okkar sem rekur Golu og glóru, með örnámskeið í jólakransagerð. Ekki þarf að skrá sig fyrirfram, efniviðurinn verður á staðnum og Magga aðstoðar við kransagerðina.“

Fólk forvitið um Íshúsið

Anna segir fólk almennt hafa mikinn áhuga á að skoða það sem gerist innan veggja Íshússins. „Í þessu gamla fyrrverandi frystihúsi hér við smábátahöfnina eru um 30 misstór vinnurými sem við leigjum út til skapandi einstaklinga og smærri fyrirtækja. Hér leigir fjölbreytt flóra fólks aðstöðu og almenningur er mjög áhugasamur um starfsemina. Okkar lúxusvandmál er það að margt fólk vill koma í heimsókn til okkar og skoða, þannig að við brugðum snemma á það ráð að halda opið hús reglulega. Og það er sko auðvelt að gleyma sér í Íshúsinu, fólk týnir sér alveg hérna inni þegar það kemur í heimsókn, það er svo margt að sjá,“ segir Anna og hlær.

Fjölbreyttur hópur fólks er með aðstöðu í Íshúsi Hafnarfjarðar, allt frá bátasmiðum til rithöfunda. „Það sem er svo skemmtilegt við húsið er hversu opið það er, fæstir eru með aflokaða vinnuaðstöðu. Aðaláherslan er á keramik, myndlist og grafík á efri hæðinni og svo er allt frá tréskipa- og hnífasmiðum til rithöfunda á neðri hæðinni,“ segir Anna þegar hún er spurð út í fyrirkomulagið.

Aðspurð hvort fólk geti keypt jólagjafir í Íshúsinu um helgina svarar Anna játandi: „Hér verður hægt að skoða og kaupa en ég tek gjarnan fram að margir í Íshúsinu selja verk sín í Litlu hönnunarbúðinni, á Strandgötu 19. Þar er alltaf hægt að gera falleg og góð kaup.“

Í Íshúsinu er að finna um 30 misstór vinnurými.
Íshús Hafnarfjarðar verður opið á milli klukkan 12 og 17 laugardag og sunnudag.

Myndir / Unnur Magna

Erlendar verslunarhefðir komnar til að vera

Mikið ber á erlendum straumum í íslenskri verslun og segir Kjartan Örn Sigurðsson frá Verslanagreiningu að þessar hefðir séu komnar til að vera. Hann var í viðtali við Lindu Blöndal í þættinum 21 á Hringbraut um íslenska verslun.

Að undanförnu hefur farið mikið fyrir erlendum útsöluhátíðum eins og „Black Friday“, „Cyber Monday“ og „Singles Day“. Nöfnum þessara daga hefur verið snarað yfir á íslensku í einhverjum tilfellum, eins og Stóri netmánudagurinn og Svartur föstudagur eða Svartur fössari sem er á allra vitorði og íslensk verslun auglýsti af miklum krafti nú í lok mánaðar. Þessar verslunarhefðir koma hins vegar úr mjög ólíkum áttum. Ljóst er að hefðbundin verslun verður aldrei sú sama. „Singles Day“ hefur verið útlagt sem Dagur einhleypra en reyndar eiga tilboðin við alla einstaklinga.

Jólaverslunin hefst með tilboðshátíðum

„Singles day er frá Kína og þróaðist út úr netmenningunni þar,“ segir Kjartan Örn Sigurðsson frá Verslanagreiningu og því þurfum við að aðlaga erlendar verslunarhefðir að okkar menningu. Hér á landi hafi ekki verið til neinar samskonar hefðir. „Svarti föstudagurinn heitir þessu nafni þar sem verslun í Bandaríkjunum fer þá úr tapi í hagnað, úr rauða blekinu í það svarta í bókhaldinu. Svarti föstudagurinn er dagurinn sem jólaverslunin byrjar. Í fyrra voru stóru fyrirtækin á Íslandi komin inn í Svarta föstudaginn og þá hófst þessi stóra sprenging sem við sjáum núna í lok mánaðar,“ segir Kjartan.

„Stóri netmánudagurinn er síðan búinn til fyrir netverslanir til að taka þátt í þessum tilboðshátíðum í upphafi jólaverslunarinnar. Að sögn Kjartans ganga íslenskir kaupmenn alls ekki jafnlangt og bandarískir. „Í Bandaríkjunum er gjarnan 50 prósent afsláttur af hreinlega öllu í verslunum. Kaupmenn nota daginn til að kynna nýjar vörur og koma jólaversluninni í gang.“

Hvað verður í jólapakkanum í ár?

„Í fyrra stóðu þrjár vörur upp úr í jólapökkunum. Í fyrsta lagi Sous Vide-græjan, í öðru lagi Karcher-skúringarvélin sem heldur vinsældum sínum enn og við höfum líka upplýsingar um að 5.500 ToSing-míkrófónar hafi selst fyrir jólin í fyrra,“ segir Kjartan.

„Þetta hefur verið ansi skemmtilegt ár fyrir íslenska kaupmenn. Fatabransinn hefur farið upp úr öllu valdi. Við vorum að útskrifa tvo stúdentsárganga, sjö þúsund manns sem útskrifuðust, og svo eru keypt föt á fleiri í fjölskyldunni en bara þann sem útskrifast.“ Þetta hafi margur kaupmaðurinn ekki séð fyrir.

Neytendur eru þó aðhaldssamari núna en hið alræmda neysluár 2007 og fólk skuldsetur sig almennt ekki fyrir einkaneyslu, að sögn Kjartans.

„Við höfum verið að skoða hvaða trend eru í gangi. Okkur sýnist að vörurnar sem muni standa upp úr fyrir þessi jól séu alls konar snjalltæki fyrir heimilið. Amazon- eða Google-vörur sem eru persónulegir aðstoðarmenn fólks inni á heimilum og fólk getur til dæmis talað við. „Þessi tæki eru á viðráðanlegu verði og verða eflaust í mörgum jólapökkum.“

Gjörbreytt staða í merkjavöruflokknum

Kjartan grunar líka að vörur með merkjum sem við höfum ekki séð áður verði í mörgum jólapökkum. Tölvuleikir eru orðnir gífurlega vinsælir og stór vörumerki í alls konar varningi „Það eru meiri tekjur í tölvuleikjabransanum en kvikmyndabransanum og það er ekki ólíklegt að það verði keppt í tölvuleikjum á næstu ólympíuleikum. Liðin sem unga kynslóðin heldur með eru ekki lengur fótboltalið, heldur lið í tölvuleikjaheiminum. Ég held að við eigum eftir að sjá marga í Fortnite-peysum eftir þessi jól,“ og vísar Kjartan þar til þekkts tölvuleikjar með sama nafni.

Mest að gera á laugardögum

Jólaverslun á sína hápunkta á ákveðnum dögum og á ákveðnum tímum.

„Þetta er þriðja árið í röð með fjórum laugardögum í desember og toppar verslunin á milli klukkan milli tvö og fjögur á laugardögum. Því má búast við að núna verði desember óvenjustór verslunarmánuður hjá kaupmönnum.“

Nýr spurningaþáttur á RÚV leysir Útsvar af hólmi

Bragi Valdimar Skúlason Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Með vorinu verður spurningaþátturinn Útsvar að öllum líkindum kvaddur og í staðinn hefst þátturinn Kappsmál sem Bragi Valdimar Skúlason og Björg Magnúsdóttir munu leiða ásamt glás af góðu fólki. Við spurðum Braga út í nýja þáttinn.

„Þetta eru í raun orðaleikir af ýmsum gerðum. Við ætlum eiginlega bara að leika okkur að málinu með öllum tiltækum ráðum,“ segir Bragi Valdimar sem hefur sannarlega mörg starfsheiti og er tónlistar-, auglýsinga-, orðaleikja-, þátta- og textagerðarmaður. „Við ætlum að fá allskonar fólk til að taka þátt. Héðan og þaðan af öllum mögulegum stærðum og gerðum. Skilyrðið er að hafa gaman af málinu og vera óhrædd við að takast á við það.“

Er það rétt að Útsvarið sé að hætta og þessi þáttur muni koma í hans stað? „Kappsmál fer ekki í loftið fyrr en næsta vor. En ef vel gengur geri ég ráð fyrir að þessi þáttur taki alfarið yfir dagskrá RÚV,“ svarar Bragi og við spyrjum hann þá hvort hann óttist ekki að aðdáendur Úrsvarsins verði brjálaðir við tíðindin. „Það eru hvort eð er allir alltaf brjálaðir. Hvort sem þeir horfa á Útsvar eða ekki,“ segir hann þá og hlær.

Húmor fyrir tungumálinu mikilvægur

Bragi segir að landinn hafi gríðarlegan áhuga á tungumálinu og sterkar skoðanir. „Aðallega held ég að það sé vegna þess að við getum notað það til að hugsa á í friði. Flestir vilja passa vel upp á tunguna og fara vel með hana. En það er auðvitað líka mikilvægt að pota aðeins í hana og teygja í ýmsar áttir.“

Aðspurður segir hann mikilvægt að fjalla um íslenskuna eins og gert var í þáttunum Orðbragð og gert verður í Kappsmáli. „Já, tvímælalaust. Við Brynja og Konni lögðum alltaf áherslu á að skoða málið á skemmtilegan og opinn hátt, forðast predikanir og vera hæfilega forvitin, helst hnýsin. Brynja verður okkur einmitt til ráðgjafar í þessum þáttum, en hún er að sprengmennta sig í útlandinu þessi misserin.“

Má gera grín að móðurmálinu og er það kannski mikilvægt til að ná til fólks? „Það er bráðnauðsynlegt, þetta er okkar eina móðurmál og það væri verra ef okkur færi að finnast það leiðinlegt. Mér hefur reyndar ekki enn þá tekist að finna neitt sérstaklega fyndið við afturbeygðar sagnir.“

Þessa dagana er verið að þróa þáttinn, finna leiki, prófa þá og finna út hvað virkar en framleiðslufyrirtækið Skot vinnur þetta með RÚV. Fram undan er hins vegar jólavertíðin. „Akkúrat núna er jólavertíð Baggalúts að bresta á með tilheyrandi jólahoppi og híi á átján tónleikum í Háskólabíói. Og fyrst spurt er, þá ætlum meðal annars að gefa út nýtt æsispennandi jólalag með Svölu Björgvins, sem dettur í hús á morgun. Það heitir svo mikið sem SEX,“ segir Bragi Valdimar að lokum.

Aðeins 36 gestir á hverri sýningu

Sviðslistahópurinn 16 elskendur frumsýnir þann 1. desember leikverkið Tilgangur lífsins í tilefni af 10 ára afmæli hópsins. Sýningin fer fram á gömlu Læknavaktinni á Smáratorgi. Við spurðum Hlyn Pál Pálsson, framkvæmdastjóra 16 elskenda, út í tilurð verksins.

„Einn meðlimur leikhópsins var boðaður í allsherjar heilsufarsrannsókn hjá Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna og upplifun hans af rannsókninni var svo súrrealísk að á tímabili leið honum eins og hann væri staddur í undarlegri leiksýningu eftir leikhópinn 16 elskendur,“ segir Hlynur. „Niðurstaðan úr heilsufarsrannsókninni var líka algjörlega á skjön við veruleikann og skemmtilega út í hött. Við ákváðum því að búa til okkar eigin „heilsufarsrannsókn“ þar sem áhorfendur fengju tækifæri til að mæta sjálfum sér í þeim tilgangi að reyna að komast að tilgangi lífs síns. Við sem leikhópur semjum og leikstýrum öllum okkar sýningum saman sem ein heild, það er því enginn einn höfundur eða leikstjóri.“

Sviðslistahópurinn 16 elskendur er samstarf listamanna úr ólíkum geirum; leiklist, myndlist, tónlist, danslist og gjörningalist. Hópurinn setur upp sýningar þar sem mörk hefðbundinna leiksýninga eru máð og þannig látið reyna á samband raunveruleika og sýningar.

„Við vinnum yfirleitt í óhefðbundnum leikrýmum, tökum inn sögu þeirra og samfélagslega virkni. Við leituðum að yfirgefinni heilsufarsstofnun eða skrifstofurými til að geta endurskapað upplifunina af súrrealísku heilsufarsrannsóknninni, en vorum orðin hálfvonlaus með að finna rými sem hentaði svona óhefðbundinni leiksýningu þegar við fengum þær fregnir að Læknavaktin væri flutt í Austurver og við ákváðum því bara að heyra í þeim. Þá fyrst fór boltinn að rúlla og sýningin fór að taka á sig mynd.“

Takmarkað sætaframboð er á sýninguna, pláss fyrir 36 áhorfendur á hverja sýningu, og aðeins sýnt í desember og janúar. „Loks er vert að minnast á að þetta er eina leiksýningin þar sem áhorfendur fá sérhannaða upplifun sem gefur þeim beinlínis kost á að verða betri manneskjur, sjá heiminn í nýju ljósi og fá meiri botn í líf sitt.“ Miðasala á www.tix.is.

Karlarnir á kránni

Fimm karlkyns alþingismenn og ein alþingiskona hittust á bar og létu gamminn geisa. Uppistaðan í samræðunum var kvenfyrirlitning, karlagrobb, hómófóbía og staðfesting á því að íslensk pólitík gengur meira og minna út á hrossakaup og greiða á móti greiða. Ekkert nýtt í því. Það sem blessað alþingisfólkið vissi hins vegar ekki var að einhver óprúttinn kráargestur var með símann sinn stilltan á hljóðupptöku sem hann/hún síðan sendi á fjölmiðla. Hver fréttin af annarri af þessum óformlega fundi birtist á vefmiðlum og fjandinn varð laus á Facebook og Twitter. Alþingismennirnir báðust afsökunar á ummælum sínum í bak og fyrir, með þeim fyrirvara að sjálfsögðu að þeir hefðu verið drukknir og þar af leiðandi ekki ábyrgir orða sinna. Engum þeirra dettur í hug að segja af sér þingmennsku og í viðtölum fjölmiðla við þá kemur skýrt fram að þeir eiga ekki von á því að nokkur eftirmál verði af þessu gaspri þeirra. Þeir treysta sem fyrr á gullfiskaminni kjósenda og ætla ótrauðir að halda sínu striki. Nema hvað? Það er ekki hefð fyrir því að íslenskir stjórnmálamenn taki ábyrgð á orðum sínum og gerðum. Þeir skáka endalaust í því skjólinu að þeir séu ósnertanlegir og kjósendum komi í rauninni ekkert við hvað þeir eru að aðhafast. Þeir eiga þetta, þeir mega þetta.

Svörin sem þessir alþingismenn hafa gefið fjölmiðlum um rætur ummæla sinna á fyrrnefndu fylliríi eru grátlega fyrirsjáanleg. Það eru hin hefðbundnu svör ofbeldismanna: „Fyrirgefðu, ég meinti þetta ekki, ég var bara fullur, ég var bara reiður, þú veist að ég er ekki svona maður. Ég ber mikla virðingu fyrir konum, þótt ég meti þær eingöngu út frá útliti þeirra og kalli allar konur sem hafa skoðanir sem þær fylgja eftir, klikkaðar kuntur, kræfar kerfiskerlingar og apaketti sem ekkert vita, kunna eða geta. Það tala sko allir svona þegar þeir eru einir með strákunum. Þú veist það.“

Nei, kæru alþingismenn, við vitum það ekki. Þótt kvenfyrirlitningin í jafnréttisparadísinni Íslandi sé stæk og rótgróin þá tala sem betur fer ekki allir svona. Allra síst menn sem hafa verið í fararbroddi alþjóðlegra verkefna í jafnréttismálum. Að vera fullur er heldur engin afsökun. Og fólk „lendir“ ekki í því að segja hluti. Það er alltaf meðvituð ákvörðun hvað sem innbyrtu áfengismagni líður. Og það yfirklór að halda því fram að lýsingar á pólitískum hrossakaupum séu „bara lygi“ er svo yfirgengilega heimskulegt og ber vott um svo litla virðingu fyrir almenningi að það tekur engu tali. Ekki bjóða okkur upp á svona rakalaust bull, kæru alþingismenn. Reynið að hegða ykkur eins og viti bornar manneskjur. Stígið til hliðar og axlið ábyrgð á eigin bulli. Helst ekki síðar en strax. Því þótt það hafi greinilega alveg farið fram hjá ykkur þá hafa tímarnir breyst. Alþingismenn eru ekki lengur ósnertanlegir og Internetið man það sem gullfiskurinn gleymir. Það hlýtur að fara að koma að því að kjósendur fái nóg og setji ykkur stólinn fyrir dyrnar. Hingað og ekki lengra. Ykkar tími er liðinn.

Raddir