Miðvikudagur 23. október, 2024
3 C
Reykjavik

Villtist inn í leiklistina

|
|

Lára Jóhanna Jónsdóttir er skyndilega á allra vörum eftir frábæra frammistöðu í hlutverkum sínum í Lof mér að falla og Flateyjargátu. Hún segist þó aldrei hafa ætlað sér að verða leikkona, var búin með eitt ár í læknisfræði þegar hún komst inn í Listaháskólann, enda segist hún hafa verið raungreinanörd á yngri árum og ekkert sérstaklega gefin fyrir það að draga að sér athyglina.

Þrátt fyrir að hafa verið að leika í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu nánast stöðugt síðan hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2010 er Lára tiltölulega óþekkt stærð í augum íslensku þjóðarinnar og eftir að við höfum komið okkur þægilega fyrir, pantað te og kaffi og viðhaft eitthvað innihaldslítið snakk um daginn og veginn liggur beinast við að að fyrsta spurningin sé einfaldlega: Hver er Lára Jóhanna Jónsdóttir?

Það kemur pínulítið á Láru, hún átti greinilega ekki von á þessari spurningu, en hún gerir samt sem áður sitt besta til að svara. „Ég er 34 ára gömul leikkona og hef verið að stússast í hinu og þessu í gegnum tíðina,“ segir hún hugsi.

„Ég ólst upp í Breiðholtinu nánast alla mína bernsku. Alveg frá því að ég var þriggja ára og fram á fullorðinsár. Reyndar fluttum við til London og bjuggum þar í tvö ár þegar ég var níu og tíu ára, en svo bara fórum við aftur í Breiðholtið. Núna bý ég reyndar í Vesturbænum með kærustunni minni og sex ára dóttur minni og er á föstum samningi við Þjóðleikhúsið.“

Ég upplifi reyndar ekki að ég sé þekkt andlit.

Þrátt fyrir að hafa verið leika heilmikið í stóru leikhúsunum árum saman hefur Lára lítið leikið í kvikmyndum og sjónvarpi fyrr en hún nánast helltist yfir þjóðina í hlutverki Magneu í kvikmyndinni Lof mér að falla og Jóhönnu í sjónvarpsþáttunum Flateyjargátu. Hvernig er að vera allt í einu orðin þekkt andlit?

„Ég upplifi reyndar ekki að ég sé þekkt andlit,“ segir Lára og fer hjá sér. „Mér fannst mjög gaman að vera með í báðum þessum verkum og það er dýrmæt reynsla. Það var svolítið erfitt að leika í Lof mér að falla því handritið er unnið út frá sögum raunverulegs fólks, bæði sögum kvenna sem eru eða hafa verið í neyslu og sögu Kristínar Gerðar sem svipti sig lífi eftir hrikalega reynslu sem tengdist neyslu hennar. Það gefur myndinni meira vægi í mínum huga og það er líka auðveldara fyrir mann sem leikara að gera það sem maður þarf alltaf að gera, að trúa sögunni þegar maður veit að hún er byggð á reynslu raunverulegs fólks.“

Lára þekkti ekki fíkniefnaheiminn af eigin reynslu áður en hún byrjaði að vinna við myndina. „Ég hef alveg kynnst fólki sem hefur verið í neyslu, en ekki þannig að það hafi verið nálægt mér persónulega og ég hafi þurft að takast á við neyslu þess. Ég hef bara horft á þetta úr fjarlægð.“

Varst þú sem sagt algjör fyrirmyndarunglingur í Breiðholtinu? „Jaaaaá,“ segir Lára og hugsar sig um. „Við í mínum hópi vorum voða róleg. Ég var enginn rosa djammari og prófaði aldrei nein efni eða neitt í þá áttina. Ég er sennilega bara frekar róleg týpa. Var eiginlega hálfgert nörd sem barn og unglingur. Alltaf í einhverjum pælingum sem flestar tengdust raungreinum sem mér fundust skemmtilegastar af öllu í skólanum.“

Ég bara villtist einhvern veginn inn í leiklistina þegar ég var í menntaskóla.

Æskudraumar hennar tengdust því ekki að verða leikkona. „Nei, nei, nei,“ segir Lára ákveðin.

„Ég bara villtist einhvern veginn inn í leiklistina þegar ég var í menntaskóla. Ég tók alltaf þátt í einhverjum leikatriðum með krökkunum í blokkinni á vorhátíðum, en ég var ekki týpan sem tróð upp í matarboðum. Áhugi minn á leiklist kviknaði eiginlega meira út frá félagsskapnum sem var í leikfélaginu í M.S. Þar byrjaði ég líka að hafa áhuga á að standa á sviði. Það var alltaf svo gaman í kringum allar leiksýningar. Krakkarnir í leikfélaginu urðu hópurinn minn og út frá því fór ég að hafa áhuga á að búa eitthvað til. Ég hafði alltaf lifað mig rosalega inn í það að horfa á leikhús, en áhuginn á því að vera með í að búa til leiksýningu kom eftir á. Þannig að ég slysaðist eiginlega inn á þessa braut.“

Lára byrjaði í læknisfræði við Háskóla Íslands en leiklistarbakterían togaði þó alltaf í hana.

Leikarar tala gjarnan um brennandi leiklistarbakteríu og Lára slapp ekki við hana. „Ég fékk hana alveg eftir að ég datt inn í þennan heim og þá fyrst varð þetta virkilega æðislegt,“ segir hún og hlær. „En ekki einu sinni á menntaskólaárunum ætlaði ég mér að verða leikkona. Ég sá mig alltaf fyrir mér sem einhvers konar vísindamann. Ég var á eðlisfræðibraut í M.S. og var þar alveg í kjöraðstæðum. Hitt var meira svona hliðaráhugasvið.“

Mér skilst til dæmis að ég hafi þagað í hálft ár eftir að ég byrjaði í skólanum þar.

Spurð nánar út í árin sem Lára bjó í London sem barn, hvort það hafi verið erfitt fyrir níu ára gamla stúlku að flytja í framandi umhverfi og tala ekki einu sinni tungumálið segir Lára: „Jú, það var erfitt,“ segir hún hreinskilnislega.

„Mér skilst til dæmis að ég hafi þagað í hálft ár eftir að ég byrjaði í skólanum þar. Ég bara þagði þangað til ég kunni málið og þá fór ég að tala. Ég er samt mjög þakklát fyrir að hafa fengið þessa reynslu. Það var dálítið mikið öðruvísi að vera barn á Englandi en á Íslandi, allavega á þessum tíma. Ég fór bara í skólann í hverfinu sem var pínulítill og krúttlegur, og fílaði mig mjög vel þar á endanum. Var með dásamlegan kennara og andrúmsloftið var mjög fallegt.“

Fékk ársfrí frá læknisfræðinni

Foreldrar Láru eru bæði kennarar en hún segist aldrei hafa haft áhuga á því að leggja kennslu fyrir sig. Hún er yngst fjögurra systkina en hún segist samt ekki vera neitt dekurbarn, enda sé stutt á milli þeirra. Í samræmi við raungreinaáhugann byrjaði Lára í læknisfræði við Háskóla Íslands, en leiklistarbakterían togaði þó alltaf í hana og hún fór tvisvar í inntökupróf við sviðslistadeild Listaháskólans.

Hún segist heldur ekki hafa orðið fyrir þrýstingi frá foreldrum sínum um það að leggja eitthvað sérstakt starf fyrir sig, það hafi alfarið verið hennar ákvörðun að skrá sig í læknisfræði í Háskólanum. „Ég var búin með eitt ár þegar ég komst inn í Listaháskólann og hætti,“ útskýrir hún.

Þegar maður dettur svo inn í leiklistarskólann er það alveg hundrað prósent.

„Leiklistin togaði meira í mig, en ég var samt alls ekki viss og fékk upphaflega bara ársleyfi frá læknisfræðinni til að skoða þetta og komast að niðurstöðu um það hvort námið ég vildi. Þegar maður dettur svo inn í leiklistarskólann er það alveg hundrað prósent, það er ekkert pláss fyrir neitt annað. Leiklistin er svo ánetjandi, það er engin leið til baka. Maður var bara allan sólarhringinn að pæla í leiklist og hugsar ekkert um hvort maður vildi kannski gera eitthvað annað.“

Hún segist aldrei hafa séð eftir því að velja leiklistina fram yfir læknisfræðina. „Nei, aldrei,“ segir hún af sannfæringu og hristir höfuðið ákaft. „Það getur vel verið að einhverjar aðrar leiðir hefðu verið praktískari og góðar líka, en ég hugsaði ekkert um það. Hér er ég og það er fínt. Ég myndi ekki vilja vera annars staðar.“

Tveimur árum eftir útskrift úr Listaháskólanum eignaðist Lára dóttur sína með þáverandi kærasta. Þá var hún á samningi hjá Borgarleikhúsinu og þegar hún komst að því að hún væri ófrísk var hún byrjuð að sýna í hlutverki Dóróteu í Galdrakarlinum í Oz.

Hún segir það hafa verið heilmikið mál að fela óléttubumbuna á síðustu sýningunum enda var hún komin sjö mánuði á leið þegar þar var komið sögu. „Ég get svo svarið það að óléttubumban varð ekki áberandi fyrr en eftir síðustu hneigingu,“ segir hún og skellihlær. „En mér þykir dálítið vænt um að dóttir mín skuli hafa verið með mér á sviðinu heilan vetur.“

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Perla Kristín förðunarfræðingur Urban Decay

Ert þú ekki stelpan í íslensku peysunni?

Lára Jóhanna Jónsdóttir

Þótt leikkonan Lára Jóhanna Jónsdóttir hafi ekki verið áberandi í kvikmyndum og sjónvarpi fyrr en núna undanfarið varð andlit hennar þó heimsþekkt í auglýsingu sem gerð var af Inspired by Iceland til að trekkja að ferðamenn eftir gosið í Eyjafjallajökli.

Það hlýtur að hafa verið skrítin tilfinning að vera stoppuð af túristum út á götu eins og kvikmyndastjarna. „Það var nú kannski ekki alveg þannig,“ segir Lára og brosir.

„Þetta var eitthvað sem ég datt bara inn í. Ég var sem sagt stelpan sem myndbandið byrjaði á og talaði eitthvað um hvað Ísland væri æðislegt. Þetta kom reyndar til fyrir algjöra slysni. Það þurfti að seinka tökum og stelpan sem átti að gera þetta var farin til útlanda þegar að því kom að taka myndbandið upp. Þá var hringt í mig vegna þess að ég hafði búið í Bretlandi og er með breskan hreim. Ég var alveg til í það, enda var mér sagt að þetta yrði bara eitthvað lítið vídeó sem yrði ekki einu sinni sýnt í sjónvarpinu heldur bara á YouTube, svo ég stressaði mig voða lítið á þessu. Þetta var tekið upp 2010, árið sem ég útskrifaðist, svo það má segja að þetta hafi verið fyrsta verkefnið mitt sem útskrifuð leikkona. Svo bara fór myndbandið ansi víða og það er ekkert langt síðan túristarnir hættu að stoppa mig og spyrja hvort ég væri ekki stelpan þarna í íslensku peysunni. Það var mjög skemmtilegt verkefni.“

Ég var sem sagt stelpan sem myndbandið byrjaði á og talaði eitthvað um hvað Ísland væri æðislegt.

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Perla Kristín förðunarfræðingur Urban Decay

Tók mér aldrei tíma til að vera góð við mig

Þótt leiklistin eigi hug leikkonunnar Láru Jóhönnu Jónsdóttur nánast allan hefur hún þó fleiri áhugamál, hún er meðal annars útskrifaður kundalini-jógakennari. Svo notar hún tónlist til að kjarna sig.

Lára Jóhanna hefur undanfarið fengið mikla athygli fyrir frábæra frammistöðu í hlutverkum sínum í Lof mér að falla og Flateyjargátu. Í Flateyjargátu leikur Lára einstæðu móðurina Jóhönnu og eflaust ekki einfalt að setja sig inn í tíðaranda þess tíma sem þættirnir gerast á. „Ég var náttúrlega ekki fædd á þessum tíma og get ekki sett mig inn í hvernig fólk hugsaði þá,“ segir hún.

„Nema auðvitað út frá handritinu, eins og maður gerir alltaf. Það er nefnilega á endanum þannig að allt sem maður er að fjalla um er í handritinu þannig að ég reyni bara að tengja við söguna sem við erum að segja. Hún inniheldur allt sem þetta samfélag var að takast á við. Ég lagðist ekki mikið í einhverjar sögulegar pælingar, nema hvað ég kynnti mér sögu femínista á þessum tíma  og hlustaði á franska tónlist frá tímabilinu, þar sem karakterinn er að flytja heim frá París þegar þættirnir byrja. Ég er mjög mikið með tónlist í eyrunum á tökustað til að kjarna mig, annars stekkur hugurinn bara út um allt og það er erfitt að einbeita sér.“

Þegar Lára er spurð hvort hún hafi lesið bókina Flateyjargátan, fer hún pínulítið hjá sér og segist ekki vita hvort hún eigi að vera að uppljóstra því, en nei hún hafi aldrei lesið hana.

Ég forgangsraðaði þannig að bókin væri ekki hluti af undirbúningi fyrir hlutverkið.

„Ég byrjaði reyndar að lesa hana og var komin vel á veg þegar ég áttaði mig á því að karakterarnir í bókinni og karakterarnir í þáttunum eru mjög ólíkir. Þannig að ég forgangsraðaði þannig að bókin væri ekki hluti af undirbúningi fyrir hlutverkið. Ég er mjög spennt fyrir að lesa hana samt og geri það kannski núna þegar ég hef tíma. Þetta er svo stórt hlutverk og ég þurfti að nýta tímann vel til að setja mig inn í þetta þannig að ég vildi ekki sóa tíma í eitthvað sem kæmi ekki að gagni, mér fannst það bara rugla mig hvað þessir karakterar eru ólíkir.“

Lára fer með lítið hlutverk í annarri seríu af Ófærð sem verður frumsýnd um jólin en annað er ekki væntanlegt á skjáinn frá henni. Hún er nú á fullu að æfa í sýningunni Þitt eigið leikrit eftir bekkjarbróður hennar úr Listháskólanum, Ævar Þór Benediktsson.

Það er ansi erfitt hlutverk, þar sem áhorfendur fá að velja framvindu verksins. „Ég er ekki hundrað prósent viss um töluna en ég held það séu 36 útgáfur af leikritinu sem við þurfum að læra,“ útskýrir hún. „Það verður frumsýnt í lok janúar og ég er rosalega spennt að taka þátt í þessu. Síðan fer ég að æfa í uppfærslu Stefans Metz á Loddaranum, Tartuffe, sem verður frumsýnd í vor. Annað er ekki komið á dagskrána hjá mér ennþá, enda er þetta feykinóg til að takast á við í bili.“

Jóga kennir manni hvað skiptir máli

Þótt leiklistin eigi hug hennar nánast allan hefur Lára þó fleiri áhugamál, er meðal annars útskrifaður kundalini-jógakennari. „Ég kenni reyndar ekkert núna,“ segir hún.

„Ég kenndi svolítið á tímabili en það fer bara ekki vel saman við vinnuna mína. Það byrjaði með því að ég fór í kundalini-jógatíma og bara heillaðist algjörlega af því. Það var í fyrsta sinn sem ég kynntist því að veita sjálfri mér nokkurs konar helgistundir í daglega lífinu. Ég hafði aldrei tekið mér tíma til að vera bara í núinu og vera góð við sjálfa mig. Mér fannst jógakennaranámið eiginlega bara rökrétt framhald. Ég hafði aldrei verið í neinum andlegum pælingum, ég var svo mikill nörd og jógað setti hlutina í samhengi fyrir mér.“

Ég er reyndar ekki grænmetisæta eins og margir sem stunda jóga

„En ég stunda alls konar jóga og allan þann lífsstíl sem tengist því; fer í jógatíma og hugleiði, mæti á möntrukvöld og svo framvegis. Eitt af því sem heillar mig við jógað er að þar kynnist maður félagslífi sem er dálítið ólíkt því sem maður er vanur, til dæmis syngjum við mikið saman sem er eitthvað sem maður gerir yfirleitt ekki nema vera í kór. Ég er reyndar ekki grænmetisæta eins og margir sem stunda jóga en ég borða rosa sjaldan kjöt, kannski fimm sinnum á ári, og er mjög meðvituð um að borða sem minnst af því, en auðvitað breytir jógað lífsstílnum heilmikið. Ég held að það hafi haft mjög djúpstæð áhrif á mig að læra jóga, ekki bara á lífsstílinn heldur líka á lífssýnina, á það hvernig maður tæklar hlutina og hvernig maður metur hvað það er sem skiptir máli. Mér finnst það eiginlega stærsta gjöfin sem jógað hefur gefið mér. Ekki það að vera í súperformi eða vera ótrúlega liðug, heldur meira bara slaki gagnvart lífinu almennt.“

Þrátt fyrir að jógaiðkun geti kennt fólki hvað skiptir máli í lífinu, segir Lára erfitt að svara því hvað skipti hana máli. „Það er erfitt að svara því þannig að það meiki sens,“ segir Lára hikandi.

„En ég er til dæmis mjög lítið fyrir það að setja mér markmið eða að ætla að ná eitthvert eða sjá fyrir mér hvar ég verð eftir einhvern ákveðinn tíma. Það er auðvitað frábært ef maður hefur virkilega drauma um að komast eitthvert ákveðið, en mér finnst jógað hafa kennt mér að ekkert skiptir í raun og veru máli – og ég meina það í jákvæðum skilningi. Engin ein ákvörðun skiptir máli heldur eru það allar 170 ákvarðanirnar sem þú tekur á hverjum degi sem móta líf þitt. Það eru litlu hlutirnir sem skipta máli þegar upp er staðið. Það virkar alla vega fyrir mig að vera ekki á þönum við að fylla upp í einhverja mynd af því hvernig maður heldur að lífið eigi að vera, heldur bara að leyfa hlutunum að vera eins og þeir eru og muna að það sem maður er að gera í dag er nóg. Að bara vanda sig við hvert einasta verkefni, það nægir. Að vera bara hér og nú í góðum samskiptum við fólk og vera ekki alltaf að reyna að hafa allt frábært. Það þarf ekkert alltaf allt að vera eitthvað ótrúlega æðislegt, heldur er æðislegast þegar hlutirnir eru venjulegir. Stundum gef ég hlutum of mikið vægi og verð stressuð yfir þeim en ef ég tek aðeins úr sambandi og skoða stóra samhengið þá eru hlutir sjaldnast eins mikilvægir og maður heldur.“

Ég hef drauma um að fá að vinna við það sem ég hef áhuga á og er ótrúlega þakklát fyrir það ef ég fæ verkefni í mínu fagi.

Lára segist ekki hafa drauma um að komast á samning í Hollywood og slá í gegn á heimsmælikvarða. „Nei, alls ekki,“ segir hún og hristir höfuðið. „Ég hef drauma um að fá að vinna við það sem ég hef áhuga á og er ótrúlega þakklát fyrir það ef ég fæ verkefni í mínu fagi. En ef það gerist ekki þá verð ég náttúrlega bara að búa mér til eitthvað annað að gera. Það nægir mér alveg. Frægð og frami heilla mig ekki. Aðalatriðið er að vera sátt í deginum, hvað sem hann býður mér upp á. Njóta þess að vera með dóttur minni og kærustunni að gera hversdagslega hluti saman. Það er alveg nóg.“

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Perla Kristín förðunarfræðingur Urban Decay

Kom í jólafrí til Íslands en snéri ekki til baka

Fagurkerar landsins og áhugafólk um matargerð kannast eflaust margt hvert við Maríu Gomez, snillingin á bakvið heimasíðuna Paz.is. Heimilis-og uppskriftavefurinn hefur vaxið ört á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að hún tók af skarið og opnaði hann, eftir að hafa gengið með hugmyndina lengi í maganum.

Vefurinn og vinnan á bakvið Paz.is sameinar mörg af helstu áhugamálum Maríu en hún leggur áherslu á einfaldleika bæði í eldamennsku og þegar kemur að skreytingum á heimilinu. Sjálf hefur María gengið í gegnum margt í lífinu, en tilvera hennar hefur tekið stakkaskiptum þónokkrum sinnum í gegnum tíðina.

Mynd / Unnur Magna

María á ættir að rekja til Spánar og bjó þar fyrstu árin en faðir hennar er spænskur og móðir hennar íslensk. Fimm ára gömul fór hún til Íslands í jólafrí með móður sinni en dvölin lengdist og fór það svo að þær snéru ekki til baka og hófu nýtt líf á Íslandi.

„Ég veit ekki hvort það hafi verið upphaflegt plan hjá henni að snúa aldrei aftur,“ segir María um ákvörðun móður hennar.

„Það varð úr að hún hringdi í pabba og skildi við hann í gegnum símann. Þá voru tímarnir aðrir, dýrt að fljúga milli landa, langlínusímtöl rosalega dýr og heimurinnn svo miklu stærri og fjarlægðin meiri en er í dag þar sem hægt er að ferðast ódýrt milli landa og spjalla tímunum saman gegnum snjallsímaforrit án þess að það kosti krónu.“

María segir þetta hafa haft bæði góð og slæm áhrif á sig. „Ég var auðvitað búin að tengjast spænsku fjölskyldunni minni sterkum böndum og kunni bara spænsku. Ég var því alveg mállaus þegar við fluttum til landsins en skildi íslenskuna vel og var því fljót að ná henni.

 

Það að heita Gomez vakti alltaf upp spurninguna hvort ég væri ekki íslensk.

María Gomez prýðir forsíðu Vikunnar

Íslenska fjölskyldan mín var mér alveg ókunn nema afi minn sem við fluttum til, ég hugsa að það hafi bjargað mér alveg að hafa búið hjá honum fyrst um sinn með mömmu. Hann var yndislegur og hafði mikla ást á mér, við vorum mjög náin þar til hann dó þegar ég var níu ára. Á þessum tíma var erfitt að vera hálfur útlendingur, Ísland var ekki þetta fjölmenningarsamfélag sem við þekkjum í dag. Það að heita Gomez vakti alltaf upp spurninguna hvort ég væri ekki íslensk.

Ég var líka mjög dökk miðað við íslensk börn. Ég tók þetta afar nærri mér, vildi ekki vera öðruvísi og hætti því alveg að tala spænsku og kenndi mig á tímabili við þáverandi stjúpa minn. Það entist þó ekki lengi því ég er og verð alltaf Gomez.  Ég hef alltaf fundið til mikils söknuðar til spænsku fjölskyldunnar, menningarinnar og matarins en ég er miklu líkari spænska fólkinu mínu og hef alltaf haldið góðum samskiptum við það. Ég hef aldrei tengst íslensku móðurfjölskyldu minni og er í ekki í sambandi við neinn nema móðurömmu og hálfsystur móður minnar, sem ég hef mikið dálæti á.“

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Maríu, en í nýjasta tölublaði Vikunnar má lesa það í heild sinni. Þar má að auki finna uppskriftir frá Maríu af jólamat fjölskyldunnar og myndir af glæsilegu jólaboði sem hún hélt fyrir Vikuna. 

Myndir / Unnur Magna

Ljótur sannleikurinn á bak við vinsælt leikfang frá Disney

|
|

Breski miðilinn The Guardian hefur nú birt ítarlega umfjöllun um aðbúnað starfsfólks í leikfangaverksmiðjunni Wah Tung í Heyuan í Kína. Úttektina vann The Guardain í samvinnu við samtökin Solidar Suisse og vinnueftirlit Kína.

Eitt af því sem kemur fram í grein The Guardian um málið er að fyrir þessi jól rjúka Aríel-dúkkur frá Disney úr hillum leikfangabúða. Disney-dúkkurnar eru framleiddar í Wah Tung-verksmiðjunni. Samkvæmt grein The Guardian framleiðir verksmiðjan einnig Fisher Price leikföng og önnur vinsæl leikfangamerki.

Aríel-dúkkan kostar 35 pund í breskum leikfangabúðum sem gerir um 5.500 krónur. En samkvæmt reiknidæmi The Guardian fær starfsmaður í verksmiðjunni ekki nema eitt penní, sem gerir tæpar tvær krónur, í sinn vasa fyrir vinnu sína á hverja dúkku. Þetta er niðurstaðan ef miðað er við það tímakaup sem starfsfólk verksmiðjunnar er með og þann tíma sem fer í að vinna hverja og eina dúkku.

Á meðfylgjandi mynd sést hvernig The Guardian áætlar hvernig gróðanum er skipt.

Skjáskot af vef The Guardian.

Rannsakandi á vegum The Guardian heimsótti verksmiðjuna fyrr á þessu ári og þá kom ýmislegt upp úr krafsinu. Meðal annars að starfsfólk verksmiðjunnar vinnur afar langa vinnudaga á algjörum lágmarkslaunum, um 133 krónum á dag. Launin eru svo lág að starfsfólk neyðist til að vinna mikla yfirvinnu.

Starfsfólk á ekki rétt á veikindadögum og vinnuaðstæður eru almennt slæmar. Starfsmaður greindi þá frá því að starfsfólk ætti á hættu að vera sektað eða rekið ef það tekur sér meira en þrjá veikindadaga á mánuðu.

Stundum kemur yfirmaður færibandsins og segir þær vinna hægt og öskrar á þær.

Dauðþreytt vegna langra vinnudaga nýtir starfsfólk sér matar- og kaffihlé til að leggja sig eins og sjá má á myndum sem birtust með umfjöllun The Guardian.

Í dagbók eins rannsakandans kemur fram að margir starfsmenn verksmiðjunnar eru  ómenntaðar eldri konur. „Þær vinna vandlega og hratt en stundum kemur yfirmaður færibandsins og segir þær vinna hægt og öskrar á þær,“ segir í dagbókarfærslunni.

Disney er hluti af alþjóðlegu Ethical Toy Program-samtökunum (ETP) en markmið þess er meðal annars að tryggja gott vinnuumhverfi þeirra sem starfa í leikfangaverksmiðjum.

Í grein The Guardian kemur fram að ETP hafi nú hafið sína eign rannsókn á aðbúnaði og launum starfsfólks Wah Tung-verksmiðjunnar.

Umfjöllunina og myndir úr verksmiðjunni má sjá í heild sinni á vef The Guardian.

Hætti í læknisfræði fyrir leiklistina

Sem barn átti Lára Jóhanna Jónsdóttir sér þann draum að verða vísindamaður þegar hún yrði stór en villtist fyrir slysni inn í leiklistina. Frægð og frami heilla hana þó ekki og hún er alsæl með að lifa bara í hversdeginum.

Leikkonan Lára Jóhanna er skyndilega á allra vörum eftir frábæra frammistöðu í hlutverkum sínum í Lof mér að falla og Flateyjargátu. Hún segist þó aldrei hafa ætlað sér að verða leikkona, var búin með eitt ár í læknisfræði þegar hún komst inn í Listaháskólann.

Leiklistin togaði meira í mig, en ég var samt alls ekki viss og fékk upphaflega bara ársleyfi frá læknisfræðinni.

„Ég var búin með eitt ár þegar ég komst inn í Listaháskólann og hætti,“ útskýrir hún.

„Leiklistin togaði meira í mig, en ég var samt alls ekki viss og fékk upphaflega bara ársleyfi frá læknisfræðinni til að skoða þetta og komast að niðurstöðu um það hvort námið ég vildi. Þegar maður dettur svo inn í leiklistarskólann er það alveg hundrað prósent, það er ekkert pláss fyrir neitt annað. Leiklistin er svo ánetjandi, það er engin leið til baka. Maður var bara allan sólarhringinn að pæla í leiklist og hugsar ekkert um hvort maður vildi kannski gera eitthvað annað.“

Lára Jóhanna prýðir forsíðu nýjast tölublaðs Mannlífs sem kemur út á morgun. Lestu viðtalið við Láru í heild sinni í Mannlífi.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Skráðum í Þjóðkirkjuna fækkar um 2.419

Skráðum í Þjóðkirkjuna fækkar á meðan þeim sem skráðir eru utan trúfélaga fjölgar.

Alls hefur skráðum í Þjóðkirkjuna fækkað um 2.419 manns síðastliðna tólf mánuði samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Á vef Hagstofunnar kemur fram að þann 1. desember voru 232.672 einstaklingar skráðir í  Þjóðkirkjuna miðað við 235.091 fyrir ári. Þetta er fækkun upp á 1,0%.

Á sama tímabili hefur fjölgað um 512 manns í kaþólska söfnuðinum og um 536 manns í Siðmennt. Nokkur aukning var einnig í Ásatrúarfélaginu en um 400 manna aukning varð í félaginu á þessu ári.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar varð þá mest hlutfallsleg aukning í Stofnun múslima á Íslandi eða um 122,1%  sem er fjölgun um 105 meðlimi. Í dag er 191 félagi í trúfélaginu.

Zúistum fækkar

Félagsmönnum fækkaði hlutfallslega mest í trúfélaginu Zuism eða um 306 manns sem er 15,8% fækkun. Einnig fækkaði í trúfélögunum Íslensk kristin þjóð og Bænahúsinu.

Þá vekur athygli að þeim sem eru skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga fjölgar um 9,9% á einu ári. Núna eru alls 24.763 einstaklingar skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga.

Botninum náð í stjórnmálum?

||
||

Eftir frekar tíðindalítið haust í íslenskum stjórnmálum má segja að Klaustursmálið hafi sett allt á annan endann í íslensku samfélagi í síðustu viku. Mögulega fagna stjórnarflokkarnir málinu að einhverju leyti. Sem dæmi birti Fréttablaðið könnun í gær sem sýndi fylgishrun Miðflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð að koma sér undan erfiðum málum eftir að núverandi ríkisstjórn þeirra með Vinstri grænum komst til valda fyrir rúmu ári síðan. Má þar nefna mál Sigríðar Andersen, kjaraviðræður ljósmæðra og umræðu um veiðigjöld en þessi þrjú mál hafa hvílt meira á herðum Vinstri grænna.

Guðlaugur Þór. Mynd / Alþingi

Nú standa spjót á Guðlaugi Þór Þórðarssyni, utanríkisráðherra og áhugavert þykir að sjá hvernig hann tekst á við ummæli Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins og fyrrum utanríkisráðherra, um að hann eigi inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum eftir að hann skipaði Geir H. Haarde sendiherra í Washington. Guðlaugur Þór þykir fimur í erfiðri umræðu.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis samþykkti í gær að kalla Bjarna, Guðlaug Þór, Gunnar Braga og Sigmund Davíð Gunnlaugsson fyrir nefndina vegna ummæla Gunnars Braga um sendiherraskipun er hann gegndi starfi utanríkisráðherra.  Enn sem komið er hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið tiltölulega litla athygli eftir að upptökur frá Klaustursfundi fóru að birtast í fjölmiðlum í síðustu viku.

Þó umrætt mál kunni að vera heppilegt fyrir núverandi stjórnarflokka dregur það hins vegar enn frekar úr tiltrú almennings á þingmönnum Alþingis. Gert er ráð fyrir þinglokum þann 5. júní á næsta ári. Klaustursmálið hefur vissulega náð að skyggja á önnur mikilvæg mál eins og fjárlög, kjaraviðræður, erfiða stöðu á húsnæðismarkaði og umræðu um veiðigjöld svo nokkur séu nefnd.

En ef haldið er áfram að velta fyrir sér Klaustursmálinu þá er það samdóma álit viðmælanda að viðbrögðin frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Gunnari Braga Sveinssyni hafa verið afleit. Sigmundur Davíð hefur vissulega lengi átt í deilum við fjölmiðla en álit almennings  í hans garð hefur hugsanlega sjaldan verið minna.

Þó Gunnar Bragi hafi þótt auðmjúkur í viðtölum daginn sem málið kom upp hefur almenningi þótt litla iðrun að sjá frá honum og Sigmundi. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og fyrrum aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar, virðist hafa náð að koma sér betur undan slæmri umfjöllun. Þá telja margir að ólíklegt að Gunnar Bragi og Bergþór snúi aftur til starfa á Alþingi.

Mun virðing kvenna aukast?

Eftir að málið kom upp hefur verið vakin athygli á hversu lítill flokkur Miðflokkurinn er. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjölda almannatengla á sínum snærum virðist forysta Miðflokksins vera fámennur hópur í kringum Sigmund Davíð. Í umræðunni í þjóðfélaginu hefur verið rætt um þá veiku tilfinningu sem fámennur hópurinn hefur fyrir því hvernig bregðast á við neikvæðri umfjöllun.

Sú mikla kvenfyrirlitning sem þingmennirnir hafa sýnt á meðan samtal þeirra átti sér stað á Klaustur hefur skapað mikla reiði hjá almenningi. Má telja líklegt að þó þetta mál sé ekki hefðbundið þingmál séu þetta tímamót þar sem virðing fyrir konum muni aukast í stjórnmálum.

Skýr skilaboð Lilju

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra þótti mjög ákveðin í viðtali hjá Kastljósi í gærkvöldi.

Lilja Alfreðsdóttir. Mynd / Alþingi

„Ég hefði auðvitað viljað að viðbrögðin hefðu verið önnur og að þeir tækju ábyrgð á því sem þeir hafa sagt. Og að þeir myndu iðrast og að það væri meiri einlægni í því. Þannig að það eru önnur vonbrigði. Svona gera menn ekki,“ var eitt af því sem Lilja sagði. Lítur hún á ummæli þeirra um sig sem ofbeldi og líkt og áður kom fram gæti orðið mjög erfitt fyrir Gunnar Braga og Bergþór að mæta þingkonum ef þeir snúa aftur til baka frá leyfi.

Ég hefði auðvitað viljað að viðbrögðin hefðu verið önnur og að þeir tækju ábyrgð á því sem þeir hafa sagt

Margt fólk vonar nú að þetta mál verða til þess að vinnubrögð batni hjá þeim þingflokkum sem nú sitja á Alþingi. Vantraust almennings hefur líklega sjaldan verið meira. Er ekki að sjá að tiltrú á stjórnmálamönnum hafi batnað undanfarið ár þó núverandi ríkisstjórn hafi lifað af sitt fyrsta starfsár. Áhugavert verður að sjá hver örlög þingmannanna sem komu saman á Klaustri verða á endanum.

Sjá einnig: Vandræðalegt karlagrobb en kallar ekki á afsagnir

Sjá fyrir sér að spila fram í rauðan dauðann

|
|

Síðastliðinn föstudag hófst miðasala á tónleika með hljómsveitinni Ensími í tilefni þess að 20 ár eru liðin síðan fyrsta breiðskífa sveitarinnar, Kafbátamúsík, kom út. Það seldist upp á þá tónleika á mettíma og því var ákveðið að bjóða upp á aukatónleika. Það er ljóst að Ensími á dyggan aðdáendahóp.

Franz Gunnarsson, gítarleikari og söngvari Ensími, viðurkennir að þessi góðu viðbrögð við tónleikunum hafi komið meðlimum Ensími svolítið á óvart. „Viðbrögðin komu nokkuð á óvart þar sem við gerðum ekkert til að kynna miðasöluna. Við settum hana bara í gang og hún rauk af stað,“ segir Franz.

Merkilegra er þó að hljómsveitin sé enn þá í fullu fjör.

Hljómsveitin Ensími var stofnuð árið 1996 og nú eru liðin 20 ár frá því að fyrsta breiðskífa bandsins kom út.

„Það er óneitanlega smá skrýtið hversu langt er um liðið en merkilegra er þó að hljómsveitin sé enn þá í fullu fjöri og er til að mynda að vinna í nýrri plötu um þessar mundir. Ég sé alveg fyrir mér að þessi hljómsveit muni halda áfram að gefa út efni samhliða því að spila lög af Kafbátamúsík fram í rauðan dauðann,“ útskýrir Franz.

Platan Kafbátamúsík var valin ein af 100 bestu plötum Íslandssögunnar í samnefndri bók sem kom út árið 2009. Ensími mun spila þá plötu í heild sinni á tónleikum í mars.

Alltaf sérstök stund þegar Ensími kemur saman

Fljótlega eftir að Ensími kom fram á sjónarsviðið náði hún miklum vinsældum og í dag á hljómsveitin dyggan aðdáendahóp sem fer ört stækkandi.

„Við eigum okkar kjarnahóp en við höfum verið svo heppnir að músíkin okkar hefur líka náð vinsældum hjá yngri kynslóðum. Við þökkum t.d. útvarpsstöðinni X-977  fyrir það, þar er Ensími kynnt fyrir nýjum kynslóðum. Netið gerir það líka að verkum að hljómsveitin er aðgengileg. Þannig að aðdáendahópurinn er að yngjast sem er algjörlega magnað.“

Aðdáendahópurinn er að yngjast sem er algjörlega magnað.

Franz er spenntur að stíga á svið með Ensími í mars og spila Kafbátamúsík fyrir dygga aðdáendur.

„Við höfum ekki verið nógu duglegir að spila saman í gegnum tíðina enda erum við allir mjög aktífir í öðrum tónlistarverkefnum. En þegar Ensími spilar þá er það alltaf mjög sérstök stund. Meðlimir spila samt mikið saman á öðrum vettvangi eins og t.d. með hljómsveitunum Dr. Spock og Warmland. Kjarninn er sem sagt alltaf að spila saman og heldur sér þannig í spilaformi.“

Myndir / Ensími

Vöxtur í grænni fjárfestingu

Á ráðstefnu í nýliðinni viku um Ísland án jarðefnaeldsneytis var síðasta innleggið um grænar fjárfestingar.

Nokkur vöxtur á sér stað í grænni fjárfestingu á fjármálamörkuðum, eftirspurn hefur aukist í grænum skuldbréfum sem eru venjuleg skuldabréf – nema að andvirði þeirra rennur í fjármögnun grænna verkefna á borð við bætta orkunýtingu, vistvænar samgöngur og verndun sjávar.

En sem komið er um að ræða hliðarmarkaði og engin föst lagaumgjörð er um grænar fjárfestingar í heiminum né hér á landi. Til dæmis er ekki að finna neina lagaskyldu að meta áhættu umhverfisáhrifa né upplýsingar þar um til fjárfesta þegar fjárfest er í fjármálagerningum. Ísland er eftirbátur annarra Norðurlanda varðandi útgáfu grænna skuldbréfa, en í dag er aðeins einn útgefandi grænna skuldabréfa þ.e. Landsvirkjun á meðan á Norðurlöndunum eru 58 útgefendur með 149 útgáfur árið 2017, samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum.

Margir erlendir sjóðir hafa tekið við sér í baráttu gegn loftslagsbreytingum og eru að hreinsa eignasöfn sín (e. devestment) af eignum sem tengjast framleiðslu og sölu á jarðefnaeldsneyti. Fjárfesting í iðnaði sem losar mikinn koltvísýring er enda áhættusöm fjárfesting fyrir bæði fjárfesta og jörðina. Staðreyndin er sú að til þess að jörðin verið sjálfbær, þurfa markaðir að vera sjálfbærir. Erlendir leiðtogar hafa kallað eftir víðtæku samstarfi ríkis og einkaframtaksins – nýir sjálfbærir markaðir verði hannaðir og fjárfestar einblíni á sjálfbærar fjárfestingar, nú síðast á World Economic Forum í september.

Aðgerðaráætlun um sjálfbærar fjárfestingar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti aðgerðaráætlun um sjálfbærar fjárfestingar í maí á þessu ári. Aðgerðaráætlunin hefur meðal annars að geyma drög að reglugerð sem býr til ramma utan um slíkar fjárfestingar t.d. hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt svo að fjárfesting geti talist sjálfbær. Þá er einnig að finna drög að reglugerð sem fjallar um upplýsingagjöf og hvernig fjárfestar, stofnanir og þeir sem sjá um stýringu eignasafna færa umhverfisþætti inn í áhættumat og ferla. Líklegt er að þessar reglugerðir verði merktar EES samningnum og Íslandi verði skylt að taka þær upp í gegnum EES samninginn, verði þær samþykktar.

Stórir fagfjárfestar eins og lífeyrissjóðir sem eru í almannaeigu geta sett sér reglur um að hreinsa eignasöfn af fjárfestingu í tengslum við jarðefnaeldsneyti. Þeir geta tekið markviss skref í þá átt í samræmi við ábyrga fjárfestingastefnu sem tekur mið af framtíð sjóðsfélaga og samfélagslegri ábyrgð.

Markaðurinn mun spila stóra rullu í því að rétta af kúrs með því að fjárfesta ekki í atvinnustarfsemi sem skaðar jörðina, rétt eins og að hann gegnir ábyrgð á núverandi stöðu og í því að aðhafast ekki. Ríki og markaður þurfa vinna saman að sjálfbærum mörkuðum. Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum nær t.d. ekki til þess að huga eigi að sjálfbærum atriðum og umhverfisþáttum við fjárfestingar og framkvæmdir á vegum ríkisins eða leggja eigi línur í fjárfestingum lífeyrissjóða. Það ætti að bæta.

Sjá einnig: Ísland – án jarðefnaeldsneytis árið 2030

Birta og Nonni eltu ævintýraþrána

Það þarf hugrekki til að pakka saman heilli fjölskyldu og fyrirtæki og flytja til Spánar.

Það má segja að ævintýraþráin hafi rekið Birtu og Nonna á nýjar slóðir, börnin þeirra tvö, Stormur Björn og Ylva Vár, fóru að sjálfsögðu með og gamli hamsturinn þeirra. Nú eru sex ár liðin síðan fjölskyldan sigldi með fullan bíl af búslóð á vit sólríkra ævintýra og lífið er svo ljúft í furuskóginum þar sem þau búa á Spáni að þau eru ekkert á leiðinni heim.

Birta og Nonni höfðu lengi íhugað að flytja erlendis.

Birta er enn þá að hanna og sauma föt, mála og nú það nýjasta, að gera upp hús ásamt eiginmanni sínum sem er húðflúrlistamaður og þúsundþjalasmiður. Blaðamaður heyrði í Birtu og fékk að heyra meira um lífið í sólinni á Spáni.

„Við vorum búin að hugsa um að flytja erlendis í mörg ár, okkur langaði að prófa eitthvað nýtt og vorum með ævintýraþrá, vissum bara ekki hvert. Sérstaklega þegar sólin hafði varla sést í marga mánuði í skammdeginu, þá spurðum við hvort annað hvað við værum eiginlega að gera á Íslandi?“

Fjölskyldan nýtur þess að vera með náttúruna allt í kring.

Búa í furuskógi umkringd íkornum og uglum

Birta segir að lífið á Spáni sé ótrúlega gott, upphaflega hafi þau bara ætlað að búa úti í 1-2 ár en árin eru nú orðin sex! „Við búum, má segja, í miðjum furuskógi með náttúruna fyrir utan hjá okkur, það fylgir því mikil kyrrð og ró. Við erum mikið náttúru- og dýrafólk og það hentar okkur öllum mjög vel að vera hér. Við erum með mörg dýr á heimilinu og allt í kringum okkur er mikið líf,  það eru íkornarnir í trjánum, uglur „húandi“ á nóttunni og jafnvel villisvínin sem eru bröltandi á götunum.
Lífið er afar þægilegt og stresslaust. Krakkarnir eru í skóla rétt hjá og eru altalandi á bæði katalónsku og spænsku.“

Lífið er afar þægilegt og stresslaust.

Hún segir að það sé yndislegt að vakna allan ársins hring í birtu og heitu lofti.

Birta og Nonni keyptu húsið fyrir tveimur árum.

„Lífið hér er mikið utandyra og félagslega er það töluvert öðruvísi en heima á fróni. Veislur og matarboð fara fram utandyra mestan hluta ársins og börnin eru alltaf með. En án efa söknum við samt oft Íslands og hvað lífið er einfalt heima, sérstaklega tungumálalega séð því það eru töluð tvö tungumál í Katalóníu og nóg sem þarf að læra til að geta bjargað sér.

Þótt við séum sæmileg í spænskunni þá getum við takmarkað tekið þátt í djúpum matarboðsumræðum.

Við erum búin að eignast marga góða vini hér úti, bæði Katalóna og fólk frá öðrum löndum. Megnið af okkar vinum eru þó útlendingar sem eru í svipaðri stöðu og við. Fólk sem hefur búið í Barcelona eða sveitinni í kring í mörg ár. Spænsku vinirnir okkar hafa valist meira eftir enskukunnáttu því þótt við séum sæmileg í spænskunni þá getum við takmarkað tekið þátt í djúpum matarboðsumræðum. Loksins þegar maður er búinn að setja saman skemmtilegt svar við einhverju er löngu búið að skipta um umræðuefni,“ segir hún og hlær sínum smitandi hlátri.

Lífið er ljúft og stresslaust á Spáni að sögn Birtu.

Ný og spennandi verkefni fram undan

Birta var áberandi í tískuheiminum hér heima og segist hafa í mörgu að snúast á Spáni. Hún er enn þá að hanna og sauma föt undir eigin merki, By Birta, og selur bæði á íslenskan og erlendan markað. Það vita eflaust ekki allir að Birta er líka mjög fær með pensilinn.

Viðtalið við Birtu má lesa í heild sinni í jólablaði Húsa og híbýla.

„Ég er að mála portrait-myndir en síðustu tvö ár hefur tíminn minn samt aðallega farið á að gera upp húsið okkar. Það eru nú samt breytingar í vændum því við erum að fara af stað með nýtt verkefni sem felur í sér að kaupa hús hér úti, gera þau upp og selja. Ég get eiginlega sagt það að innanhússhönnun eigi allan hug minn þessa dagana og get ég ekki beðið með að henda mér í drullugallann, rífa út gamlar innréttingar, gera upp og smíða nýtt fínirí,“ útskýrir hún spennt og bætir við að hennar verksvið muni að mestu snúast um hönnunina og handverkið en undanfarið hefur hún æ meira verið að gera hlutina sjálf og viðurinn heillar hana sérstaklega.

„Ég elska að vinna hluti úr tré,“ segir hún alsæl í sólinni á Spáni.

Fleiri myndir af fallega húsinu þeirra og allt viðtalið við Birtu má lesa í jólablaði Húsa og híbýla sem fæst á sölustöðum til 13. desember.

Myndir / Birta Björnsdóttir

Lífið er svo ljúft á Spáni að þau eru ekkert á leiðinni heim að sögn Birtu.

Marenstoppar með heslihnetum og súkkulaði

Aldís Pálsdóttir

Meðfylgjandi er uppskrift að gómsætum marenstoppum með heslihnetum og súkkulaði. Er ekki tilvalið að baka þessa fyrir jólin?

u.þ.b. 20 marenstoppar
3 eggjahvítur, við stofuhita
¼ tsk. cream of tartar
1/8 tsk. salt
150 g sykur
2 msk. flórsykur
50 g ristaðar hakkaðar heslihnetur
100 g saxað dökkt súkkulaði

Hitið ofninn í 120°C. Leggið smjörpappír ofan á ofnplötu og setjið til hliðar. Notið pískinn á hrærivélinni og þeytið eggjahvíturnar, cream of tartar og salt á meðalháum hraða þar til hvíturnar mynda mjúka toppa, u.þ.b. 3 mín.

Bætið sykrinum saman við smám saman, 1 stór msk. í einu, þar til allur sykurinn er kominn í skálina. Þeytið þar til topparnir eru stífir. Blandið saman flórsykri, heslihnetum og súkkulaði í skál og notið síðan sleikju til að blanda varlega saman við eggjahvíturnar.

Notið matskeið, ísskeið eða sprautupoka til að móta marenstoppa ofan á ofnskúffuna, passið að hafa u.þ.b. 3 cm á milli marenstoppanna. Bakið marensinn í 1 klst. og 15 mín.

Slökkvið á ofninum og skiljið ofnhurðina eftir með smárifu og látið marensinn þorna inni í ofninum í a.m.k. 2 klst., einnig er hægt að skilja hann eftir yfir nótt.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Chanel hættir að nota krókódílaskinn og loðfeld

|
|

Franska tískuhúsið Chanel sendi út tilkynningu á mánudaginn þess efnis að ákvörðun hafi verið tekin um að hætta að nota skinn af framandi dýrum í varning Chanel. Sömuleiðis mun tískuhúsið hætta að nota ekta lofeld.

Taska úr 2018 haustlínu Chanel.

Í tilkynningu frá Chanel segir að erfitt sé versla skinn af framandi dýrum sem mæta gæða- og siðferðilegum stöðlum Chanel. Vandamál er tengjast framboði hafi orðið til þess yfirmenn tískuhúss Chanel tóku ákvörðun um að hætta allri notkun á skinni af framandi dýrum. Þetta kemur fram í frétt The Business of fashion.

Krókódílaskinn, eðlu- og snákaskinn og loðfeldur hafa ekki verið sérlega áberandi í Chanel-vörum ef miðað er við mörg önnur tískuhús. En þó er slík skinn að finna í nokkrum handtöskum, skóm og flíkum frá Chanel og er sá varningum mun dýrari en sambærilegar vörur sem eru úr tvíd-efni eða lamba- eða kálfaskinni. Sem dæmi má nefna hefur„classic flap“-taska úr snákaskinni frá Chanel kostað upphæð sem nemur um 1,3 milljónum króna. Samskonar taska úr tvíd-efni kostar nærrum því helmingi minna.

Dýraverndunarsinnar hafa lengi vakið athygli á og fordæmt það þegar stór tískuhús nota skinn af framandi og sjaldgæfum dýrum, jafnvel dýrum í útrýmingarhættu. Svo viðist vera sem sú vinna sé farin að skila sér í því að stór tískuhús og hönnuðir á borð við Tom Ford, Tommy Hilfiger, Vivienne Westwood, Ralph Lauren, Gucci, Armani og nú Chanel eru farin að draga verulega úr notkunn dýraskinna.

Rakst á sjaldgæft hvítt hreindýr

Skjannahvít hreindýr sem þessi eru sögð afar sjaldgæf.

Norski ljósmyndrinn Mads Nordsvee birti myndir af sjaldgæfu skjannahvítu hreindýri á Instagram. Hann rakst á hreindýrið þar sem hann var í gönguferð ásamt nokkrum vinum í norður Noregi. „Það hvarf næstum því alveg í snjóinn,“ skrifaði Mads meðal annars við myndirnar.

Hreindýrið er skjannahvítt vegna gallaðs litagens sem veldur því að ekkert litarefni er í feldinum. Þó er ekki um albínisma að ræða.

Skjannahvít hreindýr sem þessi eru sögð afar sjaldgæf er fram kemur á vef BBC. En árið 2016 sást hvítt hreinddýr hjá sveitabænum Mala í Svíþjóð. Samkvæmt skandinavískri hjatrú boðar það gott að sjá hvítt hreindýr.

Eins og sjá má á myndunum sem Mads deildi var dýrið gæft og kom alveg upp að honum og virtist forvitið um myndavélina.

Mynd / Mads Nordsveen

Varar fólk við eftir mislukkaða fegrunaraðgerð

Andlit breskrar konu að nafni Rachael Knappier afmyndaðist eftir að hún lét snyrtifræðing sprauta fyllingarefni í varir sínar í svokölluðu botox-partýi.

Bresk kona að nafni Rachael Knappier er afar ósátt við vinnubrögð snyrtifræðings sem tekur að sér að setja fyllingarefni í fólk. Varir Knappier urðu afmyndaðar eftir að hún lét sprauta fyllingarefni í þær í svokölluðu botox-partýi sem haldið var heima hjá vinkonu hennar.

Þessu er sagt frá á vef BBC. Þar kemur fram að Knappier hafa öskrað úr sársauka þegar efninu var sprautað í varirnar. Skömmu eftir að efninu var sprautað í varirnar byrjuðu þær að bólgna mikið. Daginn eftir höfðu þær margfaldast í stærð og Knappier fann fyrir miklum slappleika.

Knappier hafði þá samband við snyrtifræðinginn í gegnum FaceTime. Hún segir snyrtifræðinginn hafa tekið andköf þegar hún sá hversu bólgnar varirnar voru. „Hún sagði mér að kæla varirnar.“

Knappier leitaði svo til læknis. Eftir að hafa gengist undir heilsufarsskoðun leysti hjúkrunarkona fyllingarefnið upp og 72 klukkustundum síðar voru varirnar orðnar eðlilegar aftur.

Knappier vill núna vara annað fólk við að kaupa þjónustu snyrtifræðinga sem sprauta fyllingarefni í andlit fólks. Hún bendir á að ekki sé skynsamlegt að kaupa slíka þjónustu af fólki sem er ekki menntað á sviði lýtalækninga. Hún segir að nú sé tími til kominn að herða regluverk um notkun fyllingarefna.

Á vef BBC má sjá myndir sem Knappier tók daginn eftir að fyllingarefninu var sprautað í varir hennar.

Bill Gates prófaði loksins að hugleiða

|
|

Bill Gates hafði ekki áhuga á hugleiðslu á sínum yngri árum en í dag hugleiðir hann nokkrum sinnum í viku.

Bill Gates, stofnandi Microsoft, er farinn að stunda hugleiðslu reglulega. Þessu segir hann frá á vef sínum, Gatesnotes.com.

Gates kveðst ekki hafa haft áhuga á hugleiðslu á sínum yngri árum en fólk í kringum hann hugleiddi töluvert. Í staðin fyrir að hugleiða hætti hann um tíma að horfa á sjónvarp og hlusta á tónlist. Það var hans leið til að núllstilla sig. „Það entist í fimm ár,“ skrifar hann. Í dag er hann mikill aðdáandi þátta á borð við Narcos og hlustar mikið á Bítlana og U2. Hann ákvað svo loksins að gefa hugleiðslu séns og þá var ekki aftur snúið.

„Undanfarið hef ég öðlast betri skilning á hugleiðslu. Ég er alls ekki neinn sérfræðingur en ég hugleiði tvisvar til þrisvar á viku, um tíu mínútur í senn. Ég sé núna að hugleiðsla er einfaldlega æfing fyrir hugann,“ skrifar Gates og líkir áhrifum hugleiðslu á hugann við áhrif íþrótta á vöða líkamans. Hann kveðst þá ýmist hugleiða einn eða með konunni sinni, Melindu. „Við notum þægilega stóla, það er ekki möguleiki fyrir mig að komast í lotusstellinguna,“ tekur hann fram.

Það er ekki möguleiki fyrir mig að komast í lotusstellinguna.

Bill Gates mælir með þessari bók

„Ég veit ekki hversu hjálpleg hugleiðsla hefði verið fyrir mig á Microsoft-árunum vegna þess að ég var algjörlega einbeittur þá. En núna, þegar ég er giftur, á þrjú börn og ég hef breiðara áhugasvið, þá er hugleiðsla frábær leið fyrir mig til að bæta fókusinn,“ skrifar Gates. Hann segir að með hugleiðslunni hafi hann öðlast betri yfirsýn yfir hugsanir sínar og tilfinningar.“

Gates mælir þá með smáforritinu Headspace fyrir byrjendur í hugleiðslu. Sömuleiðis mælir hann með bókinni The Headspace Guide to Meditation and Mindfulness. Hann segir þá bók vera fullkomna í jólapakkann.

„Skrýtin, skemmtileg og dálítið óhugnanleg saga“

||
||

Það er óhætt að segja að nýja barnabókin Milli svefns og Vöku sé öðruvísi en flestar barnabækur. Bókin er fyrsta bók fjölmiðlakonunnar Önnu Margrétar Björnsson og hönnuðarins Laufeyjar Jónsdóttur. Milli svefns og Vöku segir frá dularfullum hlutum sem gerast þegar myrkrið skellur á bókin og inniheldur svarthvítar teikningar eftir Laufeyju.

 

Milli svefns og Vöku er myndskreytt með fallegum teikningum eftir Laufeyju.

Spurð út í hvernig hugmyndin að bókinni kviknaði segir Anna: „Ég var að segja Laufeyju frá því hvernig hún Ása Georgía, yngri dóttir mín sem var fjögurra ára þá, sakaði svokallaðan „leynigest” á heimilinu um allskyns dularfulla hluti sem hún sjálf kannaðist alls ekki við að hafa gert. Við höfðum lengi rætt það að það væri gaman að gera barnabók saman og þarna allt í einu small hugmyndin.  Við notuðum hugmyndina um leynigestinn hennar Ásu, hvernig hún lýsti honum í útliti og gjörðum og unnum út frá því. Úr varð Milli svefns og Vöku, skrýtin, skemmtileg og dálítið óhugnanleg saga um myrkfælna stúlku og samband hennar við dularfulla veru sem býr á heimili hennar en enginn annar sér.“

Mér fannst skemmtilegt að búa til sögu sem fjallar um myrkfælni, sem er eitthvað sem við flest könnumst við held ég.

Að sögn Önnu er bókin skrifuð fyrir börn á aldrinum 6-9 ára en hún tekur fram að fólk á öllum aldri ætti að hafa gaman af henni. „Við vonum að foreldrar hafi gaman af að lesa hana og skoða en myndmálið er gífurlega mikilvægt í bókinni og myndirnar hennar Laufeyjar algjör listaverk.“

Anna kveðst alltaf hafa verið heilluð af myrkrinu og dularfullum sögum. „Mér fannst skemmtilegt að búa til sögu sem fjallar um myrkfælni, sem er eitthvað sem við flest könnumst við held ég. Það er svo oft gert lítið úr myrkfælni barna, þeim er sagt bara að vera ekki hrædd án nokkurra útskýringa. Það voru svo líka mörkin á milli draums og veruleika sem ég var að spá í með söguna, þau geta verið dálítið loðin fyrir börn og jafnvel fullorðna.“

„Vekja vonandi upp nostalgískar tilfinningar“

Anna og Laufey lögðu mikla áherslu á að bókin hefði einstakt útlit og í anda gamalla barnabóka. „Teikningarnar eru að sjálfsögðu frekar óhefðbundnar miðað við það sem gengur og gerist í dag,“ segir Laufey. Hún bætir við: „Teikningarnar vísa, líkt og sagan, til fyrri tíma og vekja vonandi upp nostalgískar tilfinningar hjá fullorðnum lesendum.“

Milli svefns og Vöku segir frá Vöku sem þarf að sigrast á myrkfælni.

Laufey og Anna byrjaði að vinna að bókinni árið 2015. „Ég hóf að skapa persónurnar og myndheiminn 2015 og vann að þróun þeirra þegar færi gafst. Þó maður sé oft ólmur í að klára verkefni held ég að þessi langi tími hafi skilað sér í dýpri heim og þróaðri stíl, en það var örlítið ljúfsárt að leggja loks niður pensilinn og yfirlýsa verkið tilbúið.“

Laufey bendir svo á að aðalsöguhetjan er útsjónarsöm og hugrökk stelpa og það þótti þeim Önnu mikilvægt. „Í bókum finna ungir lesendur sér fyrirmyndir, ég er t.d. mjög þakklát að hafa alist upp með Línu Langsokk og Ronju Ræningjadóttur. En okkur finnst staðalímyndir og skortur á kvenpersónum enn of áberandi í bókmenntum, því þótti okkur mikilvægt að skapa barnabók með hugrakka stúlku í aðalhlutverk, sem ræður eigin örlögum og treystir á gáfur sínar og útsjónarsemi til þess að leysa úr vandamálum.“

Okkur finnst staðalímyndir og skortur á kvenpersónum enn of áberandi í bókmenntum, því þótti okkur mikilvægt að skapa barnabók með hugrakka stúlku í aðalhlutverk.

Spurðar út í hvaða viðbrögð þær hafa fengið við bókinni segir Laufey: „Fyrstu viðbrögð hafa verið framar vonum. Að fá tækifæri til þess að spjalla við börn um bókina hefur verið alveg magnað. Þau eru sérstaklega forvitin um leynigestinn og veltu mörg því mikið fyrir sér hvað hann sé. Hvort hann sé krummi, hundur, mauraæta, skrímsli, draugur, strákur eða stelpa.“

Anna tekur undir það og bætir við: „Þau kannast við ýmislegt í bókinni eins og að vera pínu hrædd við að fara að sofa og að sjá fatahrúgur breytast í eitthvað annað í myrkrinu…þau eru heilluð af þessari dularfullu veru og af þessum fallegu myndum í bókinni og finnst sagan skemmtileg, fyndin og stundum „krípí“.“

Mynd / Saga Sig

Hvetur fólk til að hugsa í umhverfisvænum lausnum

|
|

Í kvöld mun myndlistarkonan Edda Ýr Garðarsdóttir leiða opna smiðju á Borgarbókasafninu í Gerðubergi. Hún mun skoða leiðir til að nýta gamlar bækur, tímarit og jólakort til að pakka inn gjöfum og gera kort og skraut. Einnig verður farið í það hvernig hægt er að nota nánast allt sem til fellur af heimilinu og nýta í eitthvað fallegt fyrir jólin.

Edda Ýr hefur lengi verið mikil áhugamanneskja um endurnýtingu. „Ég hef verið kennari í  leik- og grunnskólum síðan ég útskrifaðist úr Listaháskólanum 2001 og hef alla tíð verið meðvituð um að endurnýta sem mest í listsköpun minni með börnunum. Börn horfa á flest allan efnivið með opnum hug og gefa honum nýjan tilgang í leik sínum og sköpun,“ segir Edda.

Gömul dagblöð nýtast vel sem gjafapappír.

Edda á stóra fjölskyldu og aðfangadagur er fjörugur á hennar heimili. „Pakkaflóðið er gríðarlegt og pappírsrusl, slaufur og skraut út um allt. Okkur blöskrar þetta alltaf jafnmikið og höfum reynt að geyma sem mest af endurnýtanlegum efnivið til innpökkunar eða kortagerðar til næstu jóla. Ein vinkona mín hefur svo verið dugleg að nota falleg bómullarefni sem má nota endalaust og frænka mín hefur notað þykkan handgerðan pappír sem við höfum notað aftur og aftur í örugglega fimm ár,“ segir Edda. Hún vandar valið þegar kemur að því að gefa jólagjafir.

„Við gefum aðeins nánustu ættingjum gjafir og reynum að gefa aðeins það sem hefur notagildi, gefum upplifanir og stundum eitthvað heimagert. En það er auðvelt að gleyma sér í neyslumenningunni og oft erfitt að standast freistingarnar.“

Reynum að gefa aðeins það sem hefur notagildi, gefum upplifanir og stundum eitthvað heimagert.

Spurð út í hvort umhverfisvænu lausnirnar sem hún notar til að pakka inn gjöfum veki ekki lukku segir Edda: „Ég vona að flestir sjái fegurðina í þessu. Þetta þarf hvorki að taka mikinn tíma né vera ofurflókið föndur eða hreinasta listaverk. Þótt tíminn vinni ekki alltaf með manni og sumar gjafir séu óumhverfisvænni en aðrar og jafnvel pakkað inn af verslunarfólki úti í bæ þá skiptir mestu máli að vera meðvitaður og gera sitt besta. Eitt skref í einu er betra en ekkert og um að gera að hvetja sem flesta í kringum sig að hugsa í umhverfisvænum lausnum.“

Skiptir mestu máli að vera meðvitaður og gera sitt besta

Sífellt fleiri afþakka gjafir

Edda tekur fram að hún verði vör við að fólk sé í auknum mæli farið að hugsa út í umhverfisvænar lausnir í kringum allt jólahald. „Ég heyri æ oftar af því að fólk er að afþakka gjafir og gera með sér samkomulag um að fara frekar saman í leikhús eða út að borða. Ég hef heyrt um fjölskyldur sem ákveða að sleppa gjöfunum og eyða kvöldinu frekar í að spila og eiga notalega samverustund. Það er svo margt sem við getum gert umhverfisvænt sem er í anda jólanna, búa okkur öllum til betri heim.“

Þess má geta að viðburðurinn er haldinn frá klukkan 20.00-22.00 í kvöld á Borgarbókasafninu í Gerðubergi. Þátttakendum er bent á að taka með sér gömul jólakort og fallegar bækur til að nýta í tilraunir. Á staðnum verða bækur, tímarit, gömul jólakort, skæri, lím, heftarar, skapalón, og fleira.

„Besta bókin mín alltaf sú næsta“

|
Ragnar Jónasson Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Glæpasögum Ragnars Jónassonar hefur verið vel tekið og þær komið út víða um heim. Einn erlendi útgefand inn vildi skrifa nýjan endi við eina bók Ragnars, honum fannst svo leiðinlegt þegar aðalsögupersónan dó. Nýlega sendi Ragnar frá sér sína tíundu bók, svolítið draugalega spennusögu.

 

Þorpið stendur bara ein og sér og er ekki hluti af syrpu,“ segir Ragnar þegar hann er beðinn um að lýsa nýju bókinni. „Sagan kom bara til mín,“ bætir hann við. „Í mínum huga er þetta spennusaga með smávegis draugagangi en það þarf enginn að óttast að draugurinn myrði, það eru rökréttar skýringar á öllum glæpunum í bókinni.“

Bókin segir frá Unu, kennara sem flytur í afskekkt þorp þar sem aðeins tíu manns búa, þar af tvö börn. Með tímanum fer hana að gruna að þorpsbúar búi yfir stóru leyndarmáli og hún fær á tilfinninguna að hún sé allt annað en velkomin. Sögusviðið eru Skálar á Langanesi, en þorpið þar fór í eyði um miðja
síðustu öld. Bók Ragnars gerist árið 1985 og tekur hann sér þar það skáldaleyfi að halda svæðinu í byggð lengur en raunin var.

Mörgum brá vissulega þegar Hulda dó … og einn útgefandi minn erlendis tók því svo illa að hann skrifaði nýjan endi þar sem hún dó ekki.

„Það var gott að fá svigrúm til að skrifa eitthvað allt annað eftir að bókunum um Huldu lauk.“ Aumingja Huldu sem Ragnar „drap“ með köldu blóði alveg óvænt, ekki við mikla gleði margra lesenda. „Ég er mjög ánægður ef fólk kvartar yfir örlögum sögupersónu, þá veit ég að bókin eða persónan hefur haft áhrif og hrist upp í lesandanum,“ segir Ragnar.

„Mörgum brá vissulega þegar Hulda dó … og einn útgefandi minn erlendis tók því svo illa að hann skrifaði nýjan endi þar sem hún dó ekki. Svo var ég beðinn um samþykki fyrir því en það kom aldrei til greina.“

Mikill aðdáandi Agöthu

Ragnar las mikið í æsku og þegar hann var í tólf ára fór hann að lesa bækur Agöthu Christie. Úrvalið af þýddum bókum eftir hana var ekki mikið svo ef hann langaði að lesa meira varð hann að lesa þær á frummálinu og það gerði hann.

„Það var mjög gott að byrja á Agöthu því hún skrifar frekar einfalt mál og ég veit að margir velja bækur hennar þegar þeir byrja að lesa á ensku. Ég tók upp á því að þýða nokkrar smásögur eftir hana fyrir Vikuna úr ensku á unglingsárunum, en þegar ég var 17 ára, enn ekki kominn með bílpróf, keyrði mamma mig til Björns Eiríkssonar, útgefanda hjá Skjaldborg, en hann gaf Agöthu Christie­bækurnar út. Ég sagði honum að mig langaði til að spreyta mig á því að þýða heila skáldsögu. Björn sem kannaðist við mig sem strákinn sem hringdi reglulega til að spyrja hvenær næsta bók kæmi út og hvaða bók það yrði, tók mér vel og samþykkti að ég þýddi fyrir sig. Ég valdi bókina Endless Night sem var stysta bókin sem ég átti eftir Agöthu. Næstu 15 árin þýddi ég bækur hennar fyrir Skjaldborg og síðar Uglu útgáfu, alls 14 skáldsögur. Þegar sú síðasta sem ég þýddi kom út, árið 2009, kom jafnframt út mín fyrsta skáldsaga, Fölsk nóta.“

Ragnar gat ekki bæði skrifað eigin glæpasögur og þýtt bækur Agöthu og varð að velja. Við lesendur höf um heldur betur grætt á því og ný bók eftir hann komið út á hverju ári. Uppáhaldsbók Agöthu­bók Ragnars er Murder on the Links. „Ég nefni hana alltaf þegar ég fæ þessa spurningu, en hún kom fyrst út á íslensku á fimmta áratug síðustu aldar undir nafninu Dularfullur atburður. Hún var algjörlega ófáanleg í bókasöfnum og bókabúðum svo ég fór með pabba á Landsbókasafnið til að lesa hana þegar ég var eflaust ekki nema tólf eða þrettán ára. Bókin er mjög skemmtileg sakamálasaga, ein af þeim fyrstu sem Agatha Christie skrifaði, og var síðar endurútgefin á íslensku og hét þá Opna gröfin.“

Ragnar hafði ekki verið búsettur í enskumælandi landi en taldi sig þó geta þýtt skáldsögu. „Ég held að lykillinn að þýðingum sé ekki síst tungumálið sem maður þýðir yfir á, og mér fannst alltaf gaman að skrifa og vinna með íslenskuna, en þarna þegar ég var sautján ára hafði ég líka lesið mikið á ensku,“ segir Ragnar. „Ég átti líka góða að, pabbi og mamma lásu yfir þýðingarnar og sömuleiðis amma og afi, allt saman mikið íslenskufólk.“

Iceland Noir í Iðnó

Fyrr í nóvember á þessu ári var haldin glæpasagna hátíð í Iðnó, þriggja daga hátíð sem Ragnar skipu lagði ásamt þremur félögum sínum úr glæpa sagna heim inum, Yrsu Sigurðardóttur, Lilju Sig urð ar dóttur og Óskari Guðmundssyni.

„Árið 2013 vor um við Yrsa á glæpasagnahátíð í Bretlandi, ásamt Quentin Bates, rithöfundi og þýð anda, en hann þýddi síðar bækur eftir mig yfir á ensku. Þar vorum við spurð hvort slík hátíð væri haldin á Íslandi og þá kviknaði hugmyndin. Sex mánuðum síðar var fyrsta Iceland Noir­hátíðin haldin og þar voru þau Ann Cleeves, höfundur bókanna um lögregluforingjann Veru, og Arnaldur Indriðason heiðursgestir. Vinir okkar að utan, hinir ýmsu rithöfundar, skráðu sig og auðvitað Íslendingar líka, og svo var hátíðin haldin aftur á næsta ári. Peter James var einn heiðursgesta þá og tveimur árum seinna voru þau Sara Blædel og Val MacDermid heiðursgestir hátíðarinnar. Í ár kom m.a. Shari Lapena, höfundur metsölubókarinnar Hjónin við hliðina, en auk hennar voru heiðursgestir Sjón, Eliza Reid og Katrín Jakobsdóttir.“

Sjá einnig: Tækifæri til að komast í nálægð við glæpasagnahöfunda

Hátíðir á borð við þessa eru öllum opnar en þá fara fram pallborðsumræður um hin ýmsu efni og höfunda og setið er fyrir svörum. Í ár voru meðal annars umræður sem forsætisráðherrann okkar, Katrín Jakobsdóttir, stjórnaði en Ragnar, Ármann Jakobsson prófessor sem er með sína eigin glæpasögu í ár og Martin Edwards rithöfundur sátu hjá henni uppi á sviði og umræðuefnið var Agatha Christie og bækur hennar. Þarna er einstakt tækifæri fyrir fólk að hitta mögulega uppáhaldsrithöfundinn sinn erlendis frá. Hægt er að kaupa helgarpassa en að sögn Ragnars er sniðugra fyrir landann að kaupa aðgang að þeim viðburði sem mest lokkar, eða viðburðum, og það kostar lítið, en hátíðin er unnin í sjálfboðavinnu og reynt að hafa hana aðgengilega fyrir alla.

Okkur dreymir um að gera hátíðina að árlegum viðburði.

„Næsta hátíð verður árið 2020 og við erum komin með þrjá heiðursgesti, þau Ann Cleeves, Ian Rankin og Louse Penny en hún er vinsælasti glæpasagnahöfundur Kanada og með þeim vinsælli í Bandaríkjunum líka. Okkur dreymir um að gera hátíðina að árlegum viðburði. Í ár héldum við ball þar sem hljómsveit skipuð breskum glæpasagnahöfundum lék fyrir dansi. Svo var Ísnálin veitt fyrir bestu þýðinguna. Bjarni Gunnarsson þýðandi og Jo Nesbø rithöfundur hrepptu Ísnálina að þessu sinni fyrir glæpasöguna Sonurinn, og tók Bjarni við verðlaunum fyrir hönd þeirra tveggja.“

Pressan sem þufti

Ragnar fær hugmyndir alls staðar að, meðal annars úr blaðagreinum.

Glæpasögur njóta mikilla vinsælda um heiminn og á Íslandi eru ekki mörg ár síðan erlendir krimmar í kiljum fóru að koma út allan ársins hring og seljast eins og heitar lummur. Íslenska glæpasagan er heldur ekki mjög gömul því lengi vel þóttu slíkar bækur ekki nógu trúverðugar á litla Íslandi. Ragnar hóf feril sinn á svolítið óvenjulegan hátt, eða tók þátt í samkeppni. Hann vissi fyrirfram að bókin hans myndi ekki sigra en sendi hana samt inn.

„Bókaútgáfan Bjartur auglýsti eftir hinum íslenska Dan Brown, eða bók í anda Browns, árið 2008. Ég var með bók í huga, ekki í þessum anda en notaði tækifærið og sendi hana inn. Þetta var pressan sem ég þurfti til að klára bókina og konan mín ýtti á eftir mér svo að ég skilaði handritinu á réttum tíma. Enginn íslenskur Dan Brown fannst en Veröld, systurforlag Bjarts, gaf bókina mína út og bað um aðra að ári. Þannig að Fölsk nóta sá dagsins ljós og allt fór af stað,“ segir Ragnar og bætir við að fyrsta glæpasaga Lilju Sigurðardóttur hafi einnig sprottið upp úr þessari Dan Brown­samkeppni.

Ragnar fær hugmyndir alls staðar að. „Blaðagreinar sem ég les geta kveikt hugmynd, þarf oft ekki nema eitt orð, einnig fréttir, samtöl þar sem fólk segir mér sögur en það fólk myndi þó aldrei þekkja þær sögur í bókum mínum, enda kveikja þær yfirleitt einfaldlega hugmyndir að einhverju allt öðru,“ segir Ragnar og brosir en hverja af bókum sínum heldur hann mest upp á? „Uppáhaldsbókin mín er yfirleitt alltaf sú nýjasta … og besta bókin alltaf sú næsta.“

Blaðagreinar sem ég les geta kveikt hugmynd, þarf oft ekki nema eitt orð.

Nýr karakter

Ragnar, áminntur um sannsögli, ertu byrjaður á næstu bók og ætlar þú að leyfa aðalpersónunni að tóra eitthvað áfram? „Já, já, ég er byrjaður á nýrri bók og þar er nýr aðalkarakter, lögreglumaður sem fær að lifa,“ lofar Ragnar og bætir við: „Ari lögreglu maður úr fyrstu bókunum er náttúrlega enn á lífi og ég á til einn fjórða úr bók um hann sem ég klára einhvern daginn. Ég er búinn að hugsa þá sögu alveg til enda en hef ekki enn haft tíma til að skrifa hana.“ Ragnar byrjar alltaf á nýrri bók í september, hann þarf að skila handritinu til útgefandans að vori. Það er lesið yfir um sumarið og gerðar athugasemdir, ef þarf. Hann segir að athugasemdum hafi fækkað með hverri bók, ferlið sé mjög lærdómsríkt og hægt að læra af mistökum sínum.

„Ég myndi aldrei senda frá mér bók nema hún fari í gegnum svona nálarauga, þetta er kannski ekki skemmtilegasti tíminn, það eru skrifin sjálf, en hann er býsna mikilvægur. Una hét t.d. stundum Hulda í nýju bókinni en það var auðvitað lagað í yfirlestri,“ segir Ragnar og hlær.

Hann vinnur sem lögmaður á daginn og þá er það samveran með fjölskyldunni. Um tíuleytið á kvöldin, þegar allt er komið í ró, sest hann við tölvuna og galdrar fram alls kyns plott og persónur. Hefði hann trúað því þegar hann sat í háskóla og lærði lögfræðina að ekki svo mörgum árum seinna yrði hann virtur og vinsæll glæpasagnarithöfundur? „Ég sá aldrei sjálfan mig fyrir mér sem rithöfund, ég ætlaði aldrei að skrifa skáldsögur, ég miklaði það fyrir mér en þetta var alltaf draumurinn,“ segir Ragnar einlægur. „Ég ólst upp við bækur, Ólafur Ragnarsson bókaútgefandi var föðurbróðir minn, og faðir minn, Jónas Ragnarsson, hefur skrifað bækur, m.a. Daga Íslands og Jólaminningar. Afi skrifaði bækur um Siglufjörð og ekki má gleyma mömmu sem er læknaritari, hún hefur verið mjög dugleg að lesa bækurnar mínar yfir.“

Gott skipulag galdurinn

Minnstu munaði að Ragnar færi í íslensku í háskóla en hann valdi lögfræðina og hefur aldrei séð eftir því. Starfið segir hann vera mjög skemmtilegt, en hann sýslar með fjárfestingarsjóði hjá fjármálafyrirtækinu Gamma. „Lögfræðistarfið er mjög fjölbreytilegt en mér finnst gott að hafa þetta tvennt alveg aðskilið, ég reyni til dæmis að hafa sem fæsta lögfræðinga í bókunum mínum.“

Ragnar segir að gott skipulag sé galdurinn við að skrifa bækur. „Best er að hugsa um bókina í nokkur ár, skipuleggja sig vel og setjast við skriftir þegar maður sér fyrir söguna, að minnsta kosti aðalatriði hennar, það virkar best fyrir mig. Ég skrifa endalaust niður hugmyndir í minnisbækur eða sendi sjálfum mér tölvupóst með hugmyndum, og svo renna þær oft saman í eina bók.“

Lögfræðistarfið er mjög fjölbreytilegt en mér finnst gott að hafa þetta tvennt alveg aðskilið.

Ragnar er giftur Maríu Margréti Jóhannsdóttur sem vinnur sem almannatengill hjá Wow air, mest í tengslum við markaði félagsins í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þau eiga dæturnar Kiru, átta ára, og Natalíu, fjögurra ára. Spurning hvort rithöfundurinn segi dætrunum ekki spennandi sögur á kvöldin? „Jú, ég segi þeim oft sögur en skrifa þær ekki niður. Ég var eitt sinn með hugmynd að barnabók en ég verð að viðurkenna að ég ver alltaf öllum þeim tíma sem ég gef mér til skrifta í glæpasögurnar.“

Jólin hjá Ragnari og fjölskyldu eru hefðbundin. „Við verðum heima og með hamborgarhrygg í matinn að vanda. Eftirrétturinn er sjaldnast sá sami en við erum alltaf með möndlugraut í forrétt. Dæturnar fá möndluna ótrúlega oft,“ dæsir Ragnar brosandi og segir að þegar komi að því að kaupa jólatré kaupi hann helst stærra jólatré en komist fyrir í stofunni.

„Skemmtilegast er að þurfa að saga það aðeins til svo það passi akkúrat. Fyrir tveimur árum skar ég reynd ar næstum af mér fingurinn við þær æfingar. Svo horfi ég nú oft á sömu gömlu jólamynd irnar á aðventunni, mæli sérstaklega með Die Hard I og II, og The Man who Came to Dinner frá 1942. Já, svo eru jólakveðjurnar á Rás 1 ómissandi á Þorláksmessu og útvarpsmessan á aðfangadagskvöld, bara allt þetta klassíska íslenska,“ segir Ragnar að lokum.

Mynd/ Hákon Davíð Björnsson

Kynlífið kryddað fyrir 500.000 krónur

|
|

Leikkonan Gwyneth Paltrow hvetur fólk til að krydda kynlífið með réttu tólunum.

Þetta kynlífstæki er til sölu á vefnum Goop, það kostar 3,490 dollara.

Leikkonan Gwyneth Paltrow hefur sett saman sérvaldan pakka með kynlífstækjum og tengdum varningi fyrir lífsstílsvef sinn. Allar vörurnar í pakkanum eru til sölu á heimasíðunni Goop. Pakkinn, sem Paltrow kallar „dirty weekend sex kit“, kostar í heild sinni upphæð sem nemur um 500.000 krónum.

„Við erum alltaf til í að prófa eitthvað sem gefur okkur meira sjálfsöryggi og ævintýraþrá í svefnherberginu,“ segir í grein þar sem pakkinn er kynntur til leiks.

Pakkinn samanstendur af fimm hlutum sem eiga að krydda kynlífið. Dýrasti hluturinn á listanum er gyllt kynlífstæki frá merkinu Lelo, það kostar 3,490 dollara.

Á listanum er einnig að finna nuddolíu, smokka, fjaðurhring og sleipiefni.

Villtist inn í leiklistina

|
|

Lára Jóhanna Jónsdóttir er skyndilega á allra vörum eftir frábæra frammistöðu í hlutverkum sínum í Lof mér að falla og Flateyjargátu. Hún segist þó aldrei hafa ætlað sér að verða leikkona, var búin með eitt ár í læknisfræði þegar hún komst inn í Listaháskólann, enda segist hún hafa verið raungreinanörd á yngri árum og ekkert sérstaklega gefin fyrir það að draga að sér athyglina.

Þrátt fyrir að hafa verið að leika í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu nánast stöðugt síðan hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2010 er Lára tiltölulega óþekkt stærð í augum íslensku þjóðarinnar og eftir að við höfum komið okkur þægilega fyrir, pantað te og kaffi og viðhaft eitthvað innihaldslítið snakk um daginn og veginn liggur beinast við að að fyrsta spurningin sé einfaldlega: Hver er Lára Jóhanna Jónsdóttir?

Það kemur pínulítið á Láru, hún átti greinilega ekki von á þessari spurningu, en hún gerir samt sem áður sitt besta til að svara. „Ég er 34 ára gömul leikkona og hef verið að stússast í hinu og þessu í gegnum tíðina,“ segir hún hugsi.

„Ég ólst upp í Breiðholtinu nánast alla mína bernsku. Alveg frá því að ég var þriggja ára og fram á fullorðinsár. Reyndar fluttum við til London og bjuggum þar í tvö ár þegar ég var níu og tíu ára, en svo bara fórum við aftur í Breiðholtið. Núna bý ég reyndar í Vesturbænum með kærustunni minni og sex ára dóttur minni og er á föstum samningi við Þjóðleikhúsið.“

Ég upplifi reyndar ekki að ég sé þekkt andlit.

Þrátt fyrir að hafa verið leika heilmikið í stóru leikhúsunum árum saman hefur Lára lítið leikið í kvikmyndum og sjónvarpi fyrr en hún nánast helltist yfir þjóðina í hlutverki Magneu í kvikmyndinni Lof mér að falla og Jóhönnu í sjónvarpsþáttunum Flateyjargátu. Hvernig er að vera allt í einu orðin þekkt andlit?

„Ég upplifi reyndar ekki að ég sé þekkt andlit,“ segir Lára og fer hjá sér. „Mér fannst mjög gaman að vera með í báðum þessum verkum og það er dýrmæt reynsla. Það var svolítið erfitt að leika í Lof mér að falla því handritið er unnið út frá sögum raunverulegs fólks, bæði sögum kvenna sem eru eða hafa verið í neyslu og sögu Kristínar Gerðar sem svipti sig lífi eftir hrikalega reynslu sem tengdist neyslu hennar. Það gefur myndinni meira vægi í mínum huga og það er líka auðveldara fyrir mann sem leikara að gera það sem maður þarf alltaf að gera, að trúa sögunni þegar maður veit að hún er byggð á reynslu raunverulegs fólks.“

Lára þekkti ekki fíkniefnaheiminn af eigin reynslu áður en hún byrjaði að vinna við myndina. „Ég hef alveg kynnst fólki sem hefur verið í neyslu, en ekki þannig að það hafi verið nálægt mér persónulega og ég hafi þurft að takast á við neyslu þess. Ég hef bara horft á þetta úr fjarlægð.“

Varst þú sem sagt algjör fyrirmyndarunglingur í Breiðholtinu? „Jaaaaá,“ segir Lára og hugsar sig um. „Við í mínum hópi vorum voða róleg. Ég var enginn rosa djammari og prófaði aldrei nein efni eða neitt í þá áttina. Ég er sennilega bara frekar róleg týpa. Var eiginlega hálfgert nörd sem barn og unglingur. Alltaf í einhverjum pælingum sem flestar tengdust raungreinum sem mér fundust skemmtilegastar af öllu í skólanum.“

Ég bara villtist einhvern veginn inn í leiklistina þegar ég var í menntaskóla.

Æskudraumar hennar tengdust því ekki að verða leikkona. „Nei, nei, nei,“ segir Lára ákveðin.

„Ég bara villtist einhvern veginn inn í leiklistina þegar ég var í menntaskóla. Ég tók alltaf þátt í einhverjum leikatriðum með krökkunum í blokkinni á vorhátíðum, en ég var ekki týpan sem tróð upp í matarboðum. Áhugi minn á leiklist kviknaði eiginlega meira út frá félagsskapnum sem var í leikfélaginu í M.S. Þar byrjaði ég líka að hafa áhuga á að standa á sviði. Það var alltaf svo gaman í kringum allar leiksýningar. Krakkarnir í leikfélaginu urðu hópurinn minn og út frá því fór ég að hafa áhuga á að búa eitthvað til. Ég hafði alltaf lifað mig rosalega inn í það að horfa á leikhús, en áhuginn á því að vera með í að búa til leiksýningu kom eftir á. Þannig að ég slysaðist eiginlega inn á þessa braut.“

Lára byrjaði í læknisfræði við Háskóla Íslands en leiklistarbakterían togaði þó alltaf í hana.

Leikarar tala gjarnan um brennandi leiklistarbakteríu og Lára slapp ekki við hana. „Ég fékk hana alveg eftir að ég datt inn í þennan heim og þá fyrst varð þetta virkilega æðislegt,“ segir hún og hlær. „En ekki einu sinni á menntaskólaárunum ætlaði ég mér að verða leikkona. Ég sá mig alltaf fyrir mér sem einhvers konar vísindamann. Ég var á eðlisfræðibraut í M.S. og var þar alveg í kjöraðstæðum. Hitt var meira svona hliðaráhugasvið.“

Mér skilst til dæmis að ég hafi þagað í hálft ár eftir að ég byrjaði í skólanum þar.

Spurð nánar út í árin sem Lára bjó í London sem barn, hvort það hafi verið erfitt fyrir níu ára gamla stúlku að flytja í framandi umhverfi og tala ekki einu sinni tungumálið segir Lára: „Jú, það var erfitt,“ segir hún hreinskilnislega.

„Mér skilst til dæmis að ég hafi þagað í hálft ár eftir að ég byrjaði í skólanum þar. Ég bara þagði þangað til ég kunni málið og þá fór ég að tala. Ég er samt mjög þakklát fyrir að hafa fengið þessa reynslu. Það var dálítið mikið öðruvísi að vera barn á Englandi en á Íslandi, allavega á þessum tíma. Ég fór bara í skólann í hverfinu sem var pínulítill og krúttlegur, og fílaði mig mjög vel þar á endanum. Var með dásamlegan kennara og andrúmsloftið var mjög fallegt.“

Fékk ársfrí frá læknisfræðinni

Foreldrar Láru eru bæði kennarar en hún segist aldrei hafa haft áhuga á því að leggja kennslu fyrir sig. Hún er yngst fjögurra systkina en hún segist samt ekki vera neitt dekurbarn, enda sé stutt á milli þeirra. Í samræmi við raungreinaáhugann byrjaði Lára í læknisfræði við Háskóla Íslands, en leiklistarbakterían togaði þó alltaf í hana og hún fór tvisvar í inntökupróf við sviðslistadeild Listaháskólans.

Hún segist heldur ekki hafa orðið fyrir þrýstingi frá foreldrum sínum um það að leggja eitthvað sérstakt starf fyrir sig, það hafi alfarið verið hennar ákvörðun að skrá sig í læknisfræði í Háskólanum. „Ég var búin með eitt ár þegar ég komst inn í Listaháskólann og hætti,“ útskýrir hún.

Þegar maður dettur svo inn í leiklistarskólann er það alveg hundrað prósent.

„Leiklistin togaði meira í mig, en ég var samt alls ekki viss og fékk upphaflega bara ársleyfi frá læknisfræðinni til að skoða þetta og komast að niðurstöðu um það hvort námið ég vildi. Þegar maður dettur svo inn í leiklistarskólann er það alveg hundrað prósent, það er ekkert pláss fyrir neitt annað. Leiklistin er svo ánetjandi, það er engin leið til baka. Maður var bara allan sólarhringinn að pæla í leiklist og hugsar ekkert um hvort maður vildi kannski gera eitthvað annað.“

Hún segist aldrei hafa séð eftir því að velja leiklistina fram yfir læknisfræðina. „Nei, aldrei,“ segir hún af sannfæringu og hristir höfuðið ákaft. „Það getur vel verið að einhverjar aðrar leiðir hefðu verið praktískari og góðar líka, en ég hugsaði ekkert um það. Hér er ég og það er fínt. Ég myndi ekki vilja vera annars staðar.“

Tveimur árum eftir útskrift úr Listaháskólanum eignaðist Lára dóttur sína með þáverandi kærasta. Þá var hún á samningi hjá Borgarleikhúsinu og þegar hún komst að því að hún væri ófrísk var hún byrjuð að sýna í hlutverki Dóróteu í Galdrakarlinum í Oz.

Hún segir það hafa verið heilmikið mál að fela óléttubumbuna á síðustu sýningunum enda var hún komin sjö mánuði á leið þegar þar var komið sögu. „Ég get svo svarið það að óléttubumban varð ekki áberandi fyrr en eftir síðustu hneigingu,“ segir hún og skellihlær. „En mér þykir dálítið vænt um að dóttir mín skuli hafa verið með mér á sviðinu heilan vetur.“

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Perla Kristín förðunarfræðingur Urban Decay

Ert þú ekki stelpan í íslensku peysunni?

Lára Jóhanna Jónsdóttir

Þótt leikkonan Lára Jóhanna Jónsdóttir hafi ekki verið áberandi í kvikmyndum og sjónvarpi fyrr en núna undanfarið varð andlit hennar þó heimsþekkt í auglýsingu sem gerð var af Inspired by Iceland til að trekkja að ferðamenn eftir gosið í Eyjafjallajökli.

Það hlýtur að hafa verið skrítin tilfinning að vera stoppuð af túristum út á götu eins og kvikmyndastjarna. „Það var nú kannski ekki alveg þannig,“ segir Lára og brosir.

„Þetta var eitthvað sem ég datt bara inn í. Ég var sem sagt stelpan sem myndbandið byrjaði á og talaði eitthvað um hvað Ísland væri æðislegt. Þetta kom reyndar til fyrir algjöra slysni. Það þurfti að seinka tökum og stelpan sem átti að gera þetta var farin til útlanda þegar að því kom að taka myndbandið upp. Þá var hringt í mig vegna þess að ég hafði búið í Bretlandi og er með breskan hreim. Ég var alveg til í það, enda var mér sagt að þetta yrði bara eitthvað lítið vídeó sem yrði ekki einu sinni sýnt í sjónvarpinu heldur bara á YouTube, svo ég stressaði mig voða lítið á þessu. Þetta var tekið upp 2010, árið sem ég útskrifaðist, svo það má segja að þetta hafi verið fyrsta verkefnið mitt sem útskrifuð leikkona. Svo bara fór myndbandið ansi víða og það er ekkert langt síðan túristarnir hættu að stoppa mig og spyrja hvort ég væri ekki stelpan þarna í íslensku peysunni. Það var mjög skemmtilegt verkefni.“

Ég var sem sagt stelpan sem myndbandið byrjaði á og talaði eitthvað um hvað Ísland væri æðislegt.

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Perla Kristín förðunarfræðingur Urban Decay

Tók mér aldrei tíma til að vera góð við mig

Þótt leiklistin eigi hug leikkonunnar Láru Jóhönnu Jónsdóttur nánast allan hefur hún þó fleiri áhugamál, hún er meðal annars útskrifaður kundalini-jógakennari. Svo notar hún tónlist til að kjarna sig.

Lára Jóhanna hefur undanfarið fengið mikla athygli fyrir frábæra frammistöðu í hlutverkum sínum í Lof mér að falla og Flateyjargátu. Í Flateyjargátu leikur Lára einstæðu móðurina Jóhönnu og eflaust ekki einfalt að setja sig inn í tíðaranda þess tíma sem þættirnir gerast á. „Ég var náttúrlega ekki fædd á þessum tíma og get ekki sett mig inn í hvernig fólk hugsaði þá,“ segir hún.

„Nema auðvitað út frá handritinu, eins og maður gerir alltaf. Það er nefnilega á endanum þannig að allt sem maður er að fjalla um er í handritinu þannig að ég reyni bara að tengja við söguna sem við erum að segja. Hún inniheldur allt sem þetta samfélag var að takast á við. Ég lagðist ekki mikið í einhverjar sögulegar pælingar, nema hvað ég kynnti mér sögu femínista á þessum tíma  og hlustaði á franska tónlist frá tímabilinu, þar sem karakterinn er að flytja heim frá París þegar þættirnir byrja. Ég er mjög mikið með tónlist í eyrunum á tökustað til að kjarna mig, annars stekkur hugurinn bara út um allt og það er erfitt að einbeita sér.“

Þegar Lára er spurð hvort hún hafi lesið bókina Flateyjargátan, fer hún pínulítið hjá sér og segist ekki vita hvort hún eigi að vera að uppljóstra því, en nei hún hafi aldrei lesið hana.

Ég forgangsraðaði þannig að bókin væri ekki hluti af undirbúningi fyrir hlutverkið.

„Ég byrjaði reyndar að lesa hana og var komin vel á veg þegar ég áttaði mig á því að karakterarnir í bókinni og karakterarnir í þáttunum eru mjög ólíkir. Þannig að ég forgangsraðaði þannig að bókin væri ekki hluti af undirbúningi fyrir hlutverkið. Ég er mjög spennt fyrir að lesa hana samt og geri það kannski núna þegar ég hef tíma. Þetta er svo stórt hlutverk og ég þurfti að nýta tímann vel til að setja mig inn í þetta þannig að ég vildi ekki sóa tíma í eitthvað sem kæmi ekki að gagni, mér fannst það bara rugla mig hvað þessir karakterar eru ólíkir.“

Lára fer með lítið hlutverk í annarri seríu af Ófærð sem verður frumsýnd um jólin en annað er ekki væntanlegt á skjáinn frá henni. Hún er nú á fullu að æfa í sýningunni Þitt eigið leikrit eftir bekkjarbróður hennar úr Listháskólanum, Ævar Þór Benediktsson.

Það er ansi erfitt hlutverk, þar sem áhorfendur fá að velja framvindu verksins. „Ég er ekki hundrað prósent viss um töluna en ég held það séu 36 útgáfur af leikritinu sem við þurfum að læra,“ útskýrir hún. „Það verður frumsýnt í lok janúar og ég er rosalega spennt að taka þátt í þessu. Síðan fer ég að æfa í uppfærslu Stefans Metz á Loddaranum, Tartuffe, sem verður frumsýnd í vor. Annað er ekki komið á dagskrána hjá mér ennþá, enda er þetta feykinóg til að takast á við í bili.“

Jóga kennir manni hvað skiptir máli

Þótt leiklistin eigi hug hennar nánast allan hefur Lára þó fleiri áhugamál, er meðal annars útskrifaður kundalini-jógakennari. „Ég kenni reyndar ekkert núna,“ segir hún.

„Ég kenndi svolítið á tímabili en það fer bara ekki vel saman við vinnuna mína. Það byrjaði með því að ég fór í kundalini-jógatíma og bara heillaðist algjörlega af því. Það var í fyrsta sinn sem ég kynntist því að veita sjálfri mér nokkurs konar helgistundir í daglega lífinu. Ég hafði aldrei tekið mér tíma til að vera bara í núinu og vera góð við sjálfa mig. Mér fannst jógakennaranámið eiginlega bara rökrétt framhald. Ég hafði aldrei verið í neinum andlegum pælingum, ég var svo mikill nörd og jógað setti hlutina í samhengi fyrir mér.“

Ég er reyndar ekki grænmetisæta eins og margir sem stunda jóga

„En ég stunda alls konar jóga og allan þann lífsstíl sem tengist því; fer í jógatíma og hugleiði, mæti á möntrukvöld og svo framvegis. Eitt af því sem heillar mig við jógað er að þar kynnist maður félagslífi sem er dálítið ólíkt því sem maður er vanur, til dæmis syngjum við mikið saman sem er eitthvað sem maður gerir yfirleitt ekki nema vera í kór. Ég er reyndar ekki grænmetisæta eins og margir sem stunda jóga en ég borða rosa sjaldan kjöt, kannski fimm sinnum á ári, og er mjög meðvituð um að borða sem minnst af því, en auðvitað breytir jógað lífsstílnum heilmikið. Ég held að það hafi haft mjög djúpstæð áhrif á mig að læra jóga, ekki bara á lífsstílinn heldur líka á lífssýnina, á það hvernig maður tæklar hlutina og hvernig maður metur hvað það er sem skiptir máli. Mér finnst það eiginlega stærsta gjöfin sem jógað hefur gefið mér. Ekki það að vera í súperformi eða vera ótrúlega liðug, heldur meira bara slaki gagnvart lífinu almennt.“

Þrátt fyrir að jógaiðkun geti kennt fólki hvað skiptir máli í lífinu, segir Lára erfitt að svara því hvað skipti hana máli. „Það er erfitt að svara því þannig að það meiki sens,“ segir Lára hikandi.

„En ég er til dæmis mjög lítið fyrir það að setja mér markmið eða að ætla að ná eitthvert eða sjá fyrir mér hvar ég verð eftir einhvern ákveðinn tíma. Það er auðvitað frábært ef maður hefur virkilega drauma um að komast eitthvert ákveðið, en mér finnst jógað hafa kennt mér að ekkert skiptir í raun og veru máli – og ég meina það í jákvæðum skilningi. Engin ein ákvörðun skiptir máli heldur eru það allar 170 ákvarðanirnar sem þú tekur á hverjum degi sem móta líf þitt. Það eru litlu hlutirnir sem skipta máli þegar upp er staðið. Það virkar alla vega fyrir mig að vera ekki á þönum við að fylla upp í einhverja mynd af því hvernig maður heldur að lífið eigi að vera, heldur bara að leyfa hlutunum að vera eins og þeir eru og muna að það sem maður er að gera í dag er nóg. Að bara vanda sig við hvert einasta verkefni, það nægir. Að vera bara hér og nú í góðum samskiptum við fólk og vera ekki alltaf að reyna að hafa allt frábært. Það þarf ekkert alltaf allt að vera eitthvað ótrúlega æðislegt, heldur er æðislegast þegar hlutirnir eru venjulegir. Stundum gef ég hlutum of mikið vægi og verð stressuð yfir þeim en ef ég tek aðeins úr sambandi og skoða stóra samhengið þá eru hlutir sjaldnast eins mikilvægir og maður heldur.“

Ég hef drauma um að fá að vinna við það sem ég hef áhuga á og er ótrúlega þakklát fyrir það ef ég fæ verkefni í mínu fagi.

Lára segist ekki hafa drauma um að komast á samning í Hollywood og slá í gegn á heimsmælikvarða. „Nei, alls ekki,“ segir hún og hristir höfuðið. „Ég hef drauma um að fá að vinna við það sem ég hef áhuga á og er ótrúlega þakklát fyrir það ef ég fæ verkefni í mínu fagi. En ef það gerist ekki þá verð ég náttúrlega bara að búa mér til eitthvað annað að gera. Það nægir mér alveg. Frægð og frami heilla mig ekki. Aðalatriðið er að vera sátt í deginum, hvað sem hann býður mér upp á. Njóta þess að vera með dóttur minni og kærustunni að gera hversdagslega hluti saman. Það er alveg nóg.“

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Perla Kristín förðunarfræðingur Urban Decay

Kom í jólafrí til Íslands en snéri ekki til baka

Fagurkerar landsins og áhugafólk um matargerð kannast eflaust margt hvert við Maríu Gomez, snillingin á bakvið heimasíðuna Paz.is. Heimilis-og uppskriftavefurinn hefur vaxið ört á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að hún tók af skarið og opnaði hann, eftir að hafa gengið með hugmyndina lengi í maganum.

Vefurinn og vinnan á bakvið Paz.is sameinar mörg af helstu áhugamálum Maríu en hún leggur áherslu á einfaldleika bæði í eldamennsku og þegar kemur að skreytingum á heimilinu. Sjálf hefur María gengið í gegnum margt í lífinu, en tilvera hennar hefur tekið stakkaskiptum þónokkrum sinnum í gegnum tíðina.

Mynd / Unnur Magna

María á ættir að rekja til Spánar og bjó þar fyrstu árin en faðir hennar er spænskur og móðir hennar íslensk. Fimm ára gömul fór hún til Íslands í jólafrí með móður sinni en dvölin lengdist og fór það svo að þær snéru ekki til baka og hófu nýtt líf á Íslandi.

„Ég veit ekki hvort það hafi verið upphaflegt plan hjá henni að snúa aldrei aftur,“ segir María um ákvörðun móður hennar.

„Það varð úr að hún hringdi í pabba og skildi við hann í gegnum símann. Þá voru tímarnir aðrir, dýrt að fljúga milli landa, langlínusímtöl rosalega dýr og heimurinnn svo miklu stærri og fjarlægðin meiri en er í dag þar sem hægt er að ferðast ódýrt milli landa og spjalla tímunum saman gegnum snjallsímaforrit án þess að það kosti krónu.“

María segir þetta hafa haft bæði góð og slæm áhrif á sig. „Ég var auðvitað búin að tengjast spænsku fjölskyldunni minni sterkum böndum og kunni bara spænsku. Ég var því alveg mállaus þegar við fluttum til landsins en skildi íslenskuna vel og var því fljót að ná henni.

 

Það að heita Gomez vakti alltaf upp spurninguna hvort ég væri ekki íslensk.

María Gomez prýðir forsíðu Vikunnar

Íslenska fjölskyldan mín var mér alveg ókunn nema afi minn sem við fluttum til, ég hugsa að það hafi bjargað mér alveg að hafa búið hjá honum fyrst um sinn með mömmu. Hann var yndislegur og hafði mikla ást á mér, við vorum mjög náin þar til hann dó þegar ég var níu ára. Á þessum tíma var erfitt að vera hálfur útlendingur, Ísland var ekki þetta fjölmenningarsamfélag sem við þekkjum í dag. Það að heita Gomez vakti alltaf upp spurninguna hvort ég væri ekki íslensk.

Ég var líka mjög dökk miðað við íslensk börn. Ég tók þetta afar nærri mér, vildi ekki vera öðruvísi og hætti því alveg að tala spænsku og kenndi mig á tímabili við þáverandi stjúpa minn. Það entist þó ekki lengi því ég er og verð alltaf Gomez.  Ég hef alltaf fundið til mikils söknuðar til spænsku fjölskyldunnar, menningarinnar og matarins en ég er miklu líkari spænska fólkinu mínu og hef alltaf haldið góðum samskiptum við það. Ég hef aldrei tengst íslensku móðurfjölskyldu minni og er í ekki í sambandi við neinn nema móðurömmu og hálfsystur móður minnar, sem ég hef mikið dálæti á.“

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Maríu, en í nýjasta tölublaði Vikunnar má lesa það í heild sinni. Þar má að auki finna uppskriftir frá Maríu af jólamat fjölskyldunnar og myndir af glæsilegu jólaboði sem hún hélt fyrir Vikuna. 

Myndir / Unnur Magna

Ljótur sannleikurinn á bak við vinsælt leikfang frá Disney

|
|

Breski miðilinn The Guardian hefur nú birt ítarlega umfjöllun um aðbúnað starfsfólks í leikfangaverksmiðjunni Wah Tung í Heyuan í Kína. Úttektina vann The Guardain í samvinnu við samtökin Solidar Suisse og vinnueftirlit Kína.

Eitt af því sem kemur fram í grein The Guardian um málið er að fyrir þessi jól rjúka Aríel-dúkkur frá Disney úr hillum leikfangabúða. Disney-dúkkurnar eru framleiddar í Wah Tung-verksmiðjunni. Samkvæmt grein The Guardian framleiðir verksmiðjan einnig Fisher Price leikföng og önnur vinsæl leikfangamerki.

Aríel-dúkkan kostar 35 pund í breskum leikfangabúðum sem gerir um 5.500 krónur. En samkvæmt reiknidæmi The Guardian fær starfsmaður í verksmiðjunni ekki nema eitt penní, sem gerir tæpar tvær krónur, í sinn vasa fyrir vinnu sína á hverja dúkku. Þetta er niðurstaðan ef miðað er við það tímakaup sem starfsfólk verksmiðjunnar er með og þann tíma sem fer í að vinna hverja og eina dúkku.

Á meðfylgjandi mynd sést hvernig The Guardian áætlar hvernig gróðanum er skipt.

Skjáskot af vef The Guardian.

Rannsakandi á vegum The Guardian heimsótti verksmiðjuna fyrr á þessu ári og þá kom ýmislegt upp úr krafsinu. Meðal annars að starfsfólk verksmiðjunnar vinnur afar langa vinnudaga á algjörum lágmarkslaunum, um 133 krónum á dag. Launin eru svo lág að starfsfólk neyðist til að vinna mikla yfirvinnu.

Starfsfólk á ekki rétt á veikindadögum og vinnuaðstæður eru almennt slæmar. Starfsmaður greindi þá frá því að starfsfólk ætti á hættu að vera sektað eða rekið ef það tekur sér meira en þrjá veikindadaga á mánuðu.

Stundum kemur yfirmaður færibandsins og segir þær vinna hægt og öskrar á þær.

Dauðþreytt vegna langra vinnudaga nýtir starfsfólk sér matar- og kaffihlé til að leggja sig eins og sjá má á myndum sem birtust með umfjöllun The Guardian.

Í dagbók eins rannsakandans kemur fram að margir starfsmenn verksmiðjunnar eru  ómenntaðar eldri konur. „Þær vinna vandlega og hratt en stundum kemur yfirmaður færibandsins og segir þær vinna hægt og öskrar á þær,“ segir í dagbókarfærslunni.

Disney er hluti af alþjóðlegu Ethical Toy Program-samtökunum (ETP) en markmið þess er meðal annars að tryggja gott vinnuumhverfi þeirra sem starfa í leikfangaverksmiðjum.

Í grein The Guardian kemur fram að ETP hafi nú hafið sína eign rannsókn á aðbúnaði og launum starfsfólks Wah Tung-verksmiðjunnar.

Umfjöllunina og myndir úr verksmiðjunni má sjá í heild sinni á vef The Guardian.

Hætti í læknisfræði fyrir leiklistina

Sem barn átti Lára Jóhanna Jónsdóttir sér þann draum að verða vísindamaður þegar hún yrði stór en villtist fyrir slysni inn í leiklistina. Frægð og frami heilla hana þó ekki og hún er alsæl með að lifa bara í hversdeginum.

Leikkonan Lára Jóhanna er skyndilega á allra vörum eftir frábæra frammistöðu í hlutverkum sínum í Lof mér að falla og Flateyjargátu. Hún segist þó aldrei hafa ætlað sér að verða leikkona, var búin með eitt ár í læknisfræði þegar hún komst inn í Listaháskólann.

Leiklistin togaði meira í mig, en ég var samt alls ekki viss og fékk upphaflega bara ársleyfi frá læknisfræðinni.

„Ég var búin með eitt ár þegar ég komst inn í Listaháskólann og hætti,“ útskýrir hún.

„Leiklistin togaði meira í mig, en ég var samt alls ekki viss og fékk upphaflega bara ársleyfi frá læknisfræðinni til að skoða þetta og komast að niðurstöðu um það hvort námið ég vildi. Þegar maður dettur svo inn í leiklistarskólann er það alveg hundrað prósent, það er ekkert pláss fyrir neitt annað. Leiklistin er svo ánetjandi, það er engin leið til baka. Maður var bara allan sólarhringinn að pæla í leiklist og hugsar ekkert um hvort maður vildi kannski gera eitthvað annað.“

Lára Jóhanna prýðir forsíðu nýjast tölublaðs Mannlífs sem kemur út á morgun. Lestu viðtalið við Láru í heild sinni í Mannlífi.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Skráðum í Þjóðkirkjuna fækkar um 2.419

Skráðum í Þjóðkirkjuna fækkar á meðan þeim sem skráðir eru utan trúfélaga fjölgar.

Alls hefur skráðum í Þjóðkirkjuna fækkað um 2.419 manns síðastliðna tólf mánuði samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Á vef Hagstofunnar kemur fram að þann 1. desember voru 232.672 einstaklingar skráðir í  Þjóðkirkjuna miðað við 235.091 fyrir ári. Þetta er fækkun upp á 1,0%.

Á sama tímabili hefur fjölgað um 512 manns í kaþólska söfnuðinum og um 536 manns í Siðmennt. Nokkur aukning var einnig í Ásatrúarfélaginu en um 400 manna aukning varð í félaginu á þessu ári.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar varð þá mest hlutfallsleg aukning í Stofnun múslima á Íslandi eða um 122,1%  sem er fjölgun um 105 meðlimi. Í dag er 191 félagi í trúfélaginu.

Zúistum fækkar

Félagsmönnum fækkaði hlutfallslega mest í trúfélaginu Zuism eða um 306 manns sem er 15,8% fækkun. Einnig fækkaði í trúfélögunum Íslensk kristin þjóð og Bænahúsinu.

Þá vekur athygli að þeim sem eru skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga fjölgar um 9,9% á einu ári. Núna eru alls 24.763 einstaklingar skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga.

Botninum náð í stjórnmálum?

||
||

Eftir frekar tíðindalítið haust í íslenskum stjórnmálum má segja að Klaustursmálið hafi sett allt á annan endann í íslensku samfélagi í síðustu viku. Mögulega fagna stjórnarflokkarnir málinu að einhverju leyti. Sem dæmi birti Fréttablaðið könnun í gær sem sýndi fylgishrun Miðflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð að koma sér undan erfiðum málum eftir að núverandi ríkisstjórn þeirra með Vinstri grænum komst til valda fyrir rúmu ári síðan. Má þar nefna mál Sigríðar Andersen, kjaraviðræður ljósmæðra og umræðu um veiðigjöld en þessi þrjú mál hafa hvílt meira á herðum Vinstri grænna.

Guðlaugur Þór. Mynd / Alþingi

Nú standa spjót á Guðlaugi Þór Þórðarssyni, utanríkisráðherra og áhugavert þykir að sjá hvernig hann tekst á við ummæli Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins og fyrrum utanríkisráðherra, um að hann eigi inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum eftir að hann skipaði Geir H. Haarde sendiherra í Washington. Guðlaugur Þór þykir fimur í erfiðri umræðu.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis samþykkti í gær að kalla Bjarna, Guðlaug Þór, Gunnar Braga og Sigmund Davíð Gunnlaugsson fyrir nefndina vegna ummæla Gunnars Braga um sendiherraskipun er hann gegndi starfi utanríkisráðherra.  Enn sem komið er hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið tiltölulega litla athygli eftir að upptökur frá Klaustursfundi fóru að birtast í fjölmiðlum í síðustu viku.

Þó umrætt mál kunni að vera heppilegt fyrir núverandi stjórnarflokka dregur það hins vegar enn frekar úr tiltrú almennings á þingmönnum Alþingis. Gert er ráð fyrir þinglokum þann 5. júní á næsta ári. Klaustursmálið hefur vissulega náð að skyggja á önnur mikilvæg mál eins og fjárlög, kjaraviðræður, erfiða stöðu á húsnæðismarkaði og umræðu um veiðigjöld svo nokkur séu nefnd.

En ef haldið er áfram að velta fyrir sér Klaustursmálinu þá er það samdóma álit viðmælanda að viðbrögðin frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Gunnari Braga Sveinssyni hafa verið afleit. Sigmundur Davíð hefur vissulega lengi átt í deilum við fjölmiðla en álit almennings  í hans garð hefur hugsanlega sjaldan verið minna.

Þó Gunnar Bragi hafi þótt auðmjúkur í viðtölum daginn sem málið kom upp hefur almenningi þótt litla iðrun að sjá frá honum og Sigmundi. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og fyrrum aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar, virðist hafa náð að koma sér betur undan slæmri umfjöllun. Þá telja margir að ólíklegt að Gunnar Bragi og Bergþór snúi aftur til starfa á Alþingi.

Mun virðing kvenna aukast?

Eftir að málið kom upp hefur verið vakin athygli á hversu lítill flokkur Miðflokkurinn er. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjölda almannatengla á sínum snærum virðist forysta Miðflokksins vera fámennur hópur í kringum Sigmund Davíð. Í umræðunni í þjóðfélaginu hefur verið rætt um þá veiku tilfinningu sem fámennur hópurinn hefur fyrir því hvernig bregðast á við neikvæðri umfjöllun.

Sú mikla kvenfyrirlitning sem þingmennirnir hafa sýnt á meðan samtal þeirra átti sér stað á Klaustur hefur skapað mikla reiði hjá almenningi. Má telja líklegt að þó þetta mál sé ekki hefðbundið þingmál séu þetta tímamót þar sem virðing fyrir konum muni aukast í stjórnmálum.

Skýr skilaboð Lilju

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra þótti mjög ákveðin í viðtali hjá Kastljósi í gærkvöldi.

Lilja Alfreðsdóttir. Mynd / Alþingi

„Ég hefði auðvitað viljað að viðbrögðin hefðu verið önnur og að þeir tækju ábyrgð á því sem þeir hafa sagt. Og að þeir myndu iðrast og að það væri meiri einlægni í því. Þannig að það eru önnur vonbrigði. Svona gera menn ekki,“ var eitt af því sem Lilja sagði. Lítur hún á ummæli þeirra um sig sem ofbeldi og líkt og áður kom fram gæti orðið mjög erfitt fyrir Gunnar Braga og Bergþór að mæta þingkonum ef þeir snúa aftur til baka frá leyfi.

Ég hefði auðvitað viljað að viðbrögðin hefðu verið önnur og að þeir tækju ábyrgð á því sem þeir hafa sagt

Margt fólk vonar nú að þetta mál verða til þess að vinnubrögð batni hjá þeim þingflokkum sem nú sitja á Alþingi. Vantraust almennings hefur líklega sjaldan verið meira. Er ekki að sjá að tiltrú á stjórnmálamönnum hafi batnað undanfarið ár þó núverandi ríkisstjórn hafi lifað af sitt fyrsta starfsár. Áhugavert verður að sjá hver örlög þingmannanna sem komu saman á Klaustri verða á endanum.

Sjá einnig: Vandræðalegt karlagrobb en kallar ekki á afsagnir

Sjá fyrir sér að spila fram í rauðan dauðann

|
|

Síðastliðinn föstudag hófst miðasala á tónleika með hljómsveitinni Ensími í tilefni þess að 20 ár eru liðin síðan fyrsta breiðskífa sveitarinnar, Kafbátamúsík, kom út. Það seldist upp á þá tónleika á mettíma og því var ákveðið að bjóða upp á aukatónleika. Það er ljóst að Ensími á dyggan aðdáendahóp.

Franz Gunnarsson, gítarleikari og söngvari Ensími, viðurkennir að þessi góðu viðbrögð við tónleikunum hafi komið meðlimum Ensími svolítið á óvart. „Viðbrögðin komu nokkuð á óvart þar sem við gerðum ekkert til að kynna miðasöluna. Við settum hana bara í gang og hún rauk af stað,“ segir Franz.

Merkilegra er þó að hljómsveitin sé enn þá í fullu fjör.

Hljómsveitin Ensími var stofnuð árið 1996 og nú eru liðin 20 ár frá því að fyrsta breiðskífa bandsins kom út.

„Það er óneitanlega smá skrýtið hversu langt er um liðið en merkilegra er þó að hljómsveitin sé enn þá í fullu fjöri og er til að mynda að vinna í nýrri plötu um þessar mundir. Ég sé alveg fyrir mér að þessi hljómsveit muni halda áfram að gefa út efni samhliða því að spila lög af Kafbátamúsík fram í rauðan dauðann,“ útskýrir Franz.

Platan Kafbátamúsík var valin ein af 100 bestu plötum Íslandssögunnar í samnefndri bók sem kom út árið 2009. Ensími mun spila þá plötu í heild sinni á tónleikum í mars.

Alltaf sérstök stund þegar Ensími kemur saman

Fljótlega eftir að Ensími kom fram á sjónarsviðið náði hún miklum vinsældum og í dag á hljómsveitin dyggan aðdáendahóp sem fer ört stækkandi.

„Við eigum okkar kjarnahóp en við höfum verið svo heppnir að músíkin okkar hefur líka náð vinsældum hjá yngri kynslóðum. Við þökkum t.d. útvarpsstöðinni X-977  fyrir það, þar er Ensími kynnt fyrir nýjum kynslóðum. Netið gerir það líka að verkum að hljómsveitin er aðgengileg. Þannig að aðdáendahópurinn er að yngjast sem er algjörlega magnað.“

Aðdáendahópurinn er að yngjast sem er algjörlega magnað.

Franz er spenntur að stíga á svið með Ensími í mars og spila Kafbátamúsík fyrir dygga aðdáendur.

„Við höfum ekki verið nógu duglegir að spila saman í gegnum tíðina enda erum við allir mjög aktífir í öðrum tónlistarverkefnum. En þegar Ensími spilar þá er það alltaf mjög sérstök stund. Meðlimir spila samt mikið saman á öðrum vettvangi eins og t.d. með hljómsveitunum Dr. Spock og Warmland. Kjarninn er sem sagt alltaf að spila saman og heldur sér þannig í spilaformi.“

Myndir / Ensími

Vöxtur í grænni fjárfestingu

Á ráðstefnu í nýliðinni viku um Ísland án jarðefnaeldsneytis var síðasta innleggið um grænar fjárfestingar.

Nokkur vöxtur á sér stað í grænni fjárfestingu á fjármálamörkuðum, eftirspurn hefur aukist í grænum skuldbréfum sem eru venjuleg skuldabréf – nema að andvirði þeirra rennur í fjármögnun grænna verkefna á borð við bætta orkunýtingu, vistvænar samgöngur og verndun sjávar.

En sem komið er um að ræða hliðarmarkaði og engin föst lagaumgjörð er um grænar fjárfestingar í heiminum né hér á landi. Til dæmis er ekki að finna neina lagaskyldu að meta áhættu umhverfisáhrifa né upplýsingar þar um til fjárfesta þegar fjárfest er í fjármálagerningum. Ísland er eftirbátur annarra Norðurlanda varðandi útgáfu grænna skuldbréfa, en í dag er aðeins einn útgefandi grænna skuldabréfa þ.e. Landsvirkjun á meðan á Norðurlöndunum eru 58 útgefendur með 149 útgáfur árið 2017, samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum.

Margir erlendir sjóðir hafa tekið við sér í baráttu gegn loftslagsbreytingum og eru að hreinsa eignasöfn sín (e. devestment) af eignum sem tengjast framleiðslu og sölu á jarðefnaeldsneyti. Fjárfesting í iðnaði sem losar mikinn koltvísýring er enda áhættusöm fjárfesting fyrir bæði fjárfesta og jörðina. Staðreyndin er sú að til þess að jörðin verið sjálfbær, þurfa markaðir að vera sjálfbærir. Erlendir leiðtogar hafa kallað eftir víðtæku samstarfi ríkis og einkaframtaksins – nýir sjálfbærir markaðir verði hannaðir og fjárfestar einblíni á sjálfbærar fjárfestingar, nú síðast á World Economic Forum í september.

Aðgerðaráætlun um sjálfbærar fjárfestingar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti aðgerðaráætlun um sjálfbærar fjárfestingar í maí á þessu ári. Aðgerðaráætlunin hefur meðal annars að geyma drög að reglugerð sem býr til ramma utan um slíkar fjárfestingar t.d. hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt svo að fjárfesting geti talist sjálfbær. Þá er einnig að finna drög að reglugerð sem fjallar um upplýsingagjöf og hvernig fjárfestar, stofnanir og þeir sem sjá um stýringu eignasafna færa umhverfisþætti inn í áhættumat og ferla. Líklegt er að þessar reglugerðir verði merktar EES samningnum og Íslandi verði skylt að taka þær upp í gegnum EES samninginn, verði þær samþykktar.

Stórir fagfjárfestar eins og lífeyrissjóðir sem eru í almannaeigu geta sett sér reglur um að hreinsa eignasöfn af fjárfestingu í tengslum við jarðefnaeldsneyti. Þeir geta tekið markviss skref í þá átt í samræmi við ábyrga fjárfestingastefnu sem tekur mið af framtíð sjóðsfélaga og samfélagslegri ábyrgð.

Markaðurinn mun spila stóra rullu í því að rétta af kúrs með því að fjárfesta ekki í atvinnustarfsemi sem skaðar jörðina, rétt eins og að hann gegnir ábyrgð á núverandi stöðu og í því að aðhafast ekki. Ríki og markaður þurfa vinna saman að sjálfbærum mörkuðum. Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum nær t.d. ekki til þess að huga eigi að sjálfbærum atriðum og umhverfisþáttum við fjárfestingar og framkvæmdir á vegum ríkisins eða leggja eigi línur í fjárfestingum lífeyrissjóða. Það ætti að bæta.

Sjá einnig: Ísland – án jarðefnaeldsneytis árið 2030

Birta og Nonni eltu ævintýraþrána

Það þarf hugrekki til að pakka saman heilli fjölskyldu og fyrirtæki og flytja til Spánar.

Það má segja að ævintýraþráin hafi rekið Birtu og Nonna á nýjar slóðir, börnin þeirra tvö, Stormur Björn og Ylva Vár, fóru að sjálfsögðu með og gamli hamsturinn þeirra. Nú eru sex ár liðin síðan fjölskyldan sigldi með fullan bíl af búslóð á vit sólríkra ævintýra og lífið er svo ljúft í furuskóginum þar sem þau búa á Spáni að þau eru ekkert á leiðinni heim.

Birta og Nonni höfðu lengi íhugað að flytja erlendis.

Birta er enn þá að hanna og sauma föt, mála og nú það nýjasta, að gera upp hús ásamt eiginmanni sínum sem er húðflúrlistamaður og þúsundþjalasmiður. Blaðamaður heyrði í Birtu og fékk að heyra meira um lífið í sólinni á Spáni.

„Við vorum búin að hugsa um að flytja erlendis í mörg ár, okkur langaði að prófa eitthvað nýtt og vorum með ævintýraþrá, vissum bara ekki hvert. Sérstaklega þegar sólin hafði varla sést í marga mánuði í skammdeginu, þá spurðum við hvort annað hvað við værum eiginlega að gera á Íslandi?“

Fjölskyldan nýtur þess að vera með náttúruna allt í kring.

Búa í furuskógi umkringd íkornum og uglum

Birta segir að lífið á Spáni sé ótrúlega gott, upphaflega hafi þau bara ætlað að búa úti í 1-2 ár en árin eru nú orðin sex! „Við búum, má segja, í miðjum furuskógi með náttúruna fyrir utan hjá okkur, það fylgir því mikil kyrrð og ró. Við erum mikið náttúru- og dýrafólk og það hentar okkur öllum mjög vel að vera hér. Við erum með mörg dýr á heimilinu og allt í kringum okkur er mikið líf,  það eru íkornarnir í trjánum, uglur „húandi“ á nóttunni og jafnvel villisvínin sem eru bröltandi á götunum.
Lífið er afar þægilegt og stresslaust. Krakkarnir eru í skóla rétt hjá og eru altalandi á bæði katalónsku og spænsku.“

Lífið er afar þægilegt og stresslaust.

Hún segir að það sé yndislegt að vakna allan ársins hring í birtu og heitu lofti.

Birta og Nonni keyptu húsið fyrir tveimur árum.

„Lífið hér er mikið utandyra og félagslega er það töluvert öðruvísi en heima á fróni. Veislur og matarboð fara fram utandyra mestan hluta ársins og börnin eru alltaf með. En án efa söknum við samt oft Íslands og hvað lífið er einfalt heima, sérstaklega tungumálalega séð því það eru töluð tvö tungumál í Katalóníu og nóg sem þarf að læra til að geta bjargað sér.

Þótt við séum sæmileg í spænskunni þá getum við takmarkað tekið þátt í djúpum matarboðsumræðum.

Við erum búin að eignast marga góða vini hér úti, bæði Katalóna og fólk frá öðrum löndum. Megnið af okkar vinum eru þó útlendingar sem eru í svipaðri stöðu og við. Fólk sem hefur búið í Barcelona eða sveitinni í kring í mörg ár. Spænsku vinirnir okkar hafa valist meira eftir enskukunnáttu því þótt við séum sæmileg í spænskunni þá getum við takmarkað tekið þátt í djúpum matarboðsumræðum. Loksins þegar maður er búinn að setja saman skemmtilegt svar við einhverju er löngu búið að skipta um umræðuefni,“ segir hún og hlær sínum smitandi hlátri.

Lífið er ljúft og stresslaust á Spáni að sögn Birtu.

Ný og spennandi verkefni fram undan

Birta var áberandi í tískuheiminum hér heima og segist hafa í mörgu að snúast á Spáni. Hún er enn þá að hanna og sauma föt undir eigin merki, By Birta, og selur bæði á íslenskan og erlendan markað. Það vita eflaust ekki allir að Birta er líka mjög fær með pensilinn.

Viðtalið við Birtu má lesa í heild sinni í jólablaði Húsa og híbýla.

„Ég er að mála portrait-myndir en síðustu tvö ár hefur tíminn minn samt aðallega farið á að gera upp húsið okkar. Það eru nú samt breytingar í vændum því við erum að fara af stað með nýtt verkefni sem felur í sér að kaupa hús hér úti, gera þau upp og selja. Ég get eiginlega sagt það að innanhússhönnun eigi allan hug minn þessa dagana og get ég ekki beðið með að henda mér í drullugallann, rífa út gamlar innréttingar, gera upp og smíða nýtt fínirí,“ útskýrir hún spennt og bætir við að hennar verksvið muni að mestu snúast um hönnunina og handverkið en undanfarið hefur hún æ meira verið að gera hlutina sjálf og viðurinn heillar hana sérstaklega.

„Ég elska að vinna hluti úr tré,“ segir hún alsæl í sólinni á Spáni.

Fleiri myndir af fallega húsinu þeirra og allt viðtalið við Birtu má lesa í jólablaði Húsa og híbýla sem fæst á sölustöðum til 13. desember.

Myndir / Birta Björnsdóttir

Lífið er svo ljúft á Spáni að þau eru ekkert á leiðinni heim að sögn Birtu.

Marenstoppar með heslihnetum og súkkulaði

Aldís Pálsdóttir

Meðfylgjandi er uppskrift að gómsætum marenstoppum með heslihnetum og súkkulaði. Er ekki tilvalið að baka þessa fyrir jólin?

u.þ.b. 20 marenstoppar
3 eggjahvítur, við stofuhita
¼ tsk. cream of tartar
1/8 tsk. salt
150 g sykur
2 msk. flórsykur
50 g ristaðar hakkaðar heslihnetur
100 g saxað dökkt súkkulaði

Hitið ofninn í 120°C. Leggið smjörpappír ofan á ofnplötu og setjið til hliðar. Notið pískinn á hrærivélinni og þeytið eggjahvíturnar, cream of tartar og salt á meðalháum hraða þar til hvíturnar mynda mjúka toppa, u.þ.b. 3 mín.

Bætið sykrinum saman við smám saman, 1 stór msk. í einu, þar til allur sykurinn er kominn í skálina. Þeytið þar til topparnir eru stífir. Blandið saman flórsykri, heslihnetum og súkkulaði í skál og notið síðan sleikju til að blanda varlega saman við eggjahvíturnar.

Notið matskeið, ísskeið eða sprautupoka til að móta marenstoppa ofan á ofnskúffuna, passið að hafa u.þ.b. 3 cm á milli marenstoppanna. Bakið marensinn í 1 klst. og 15 mín.

Slökkvið á ofninum og skiljið ofnhurðina eftir með smárifu og látið marensinn þorna inni í ofninum í a.m.k. 2 klst., einnig er hægt að skilja hann eftir yfir nótt.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Chanel hættir að nota krókódílaskinn og loðfeld

|
|

Franska tískuhúsið Chanel sendi út tilkynningu á mánudaginn þess efnis að ákvörðun hafi verið tekin um að hætta að nota skinn af framandi dýrum í varning Chanel. Sömuleiðis mun tískuhúsið hætta að nota ekta lofeld.

Taska úr 2018 haustlínu Chanel.

Í tilkynningu frá Chanel segir að erfitt sé versla skinn af framandi dýrum sem mæta gæða- og siðferðilegum stöðlum Chanel. Vandamál er tengjast framboði hafi orðið til þess yfirmenn tískuhúss Chanel tóku ákvörðun um að hætta allri notkun á skinni af framandi dýrum. Þetta kemur fram í frétt The Business of fashion.

Krókódílaskinn, eðlu- og snákaskinn og loðfeldur hafa ekki verið sérlega áberandi í Chanel-vörum ef miðað er við mörg önnur tískuhús. En þó er slík skinn að finna í nokkrum handtöskum, skóm og flíkum frá Chanel og er sá varningum mun dýrari en sambærilegar vörur sem eru úr tvíd-efni eða lamba- eða kálfaskinni. Sem dæmi má nefna hefur„classic flap“-taska úr snákaskinni frá Chanel kostað upphæð sem nemur um 1,3 milljónum króna. Samskonar taska úr tvíd-efni kostar nærrum því helmingi minna.

Dýraverndunarsinnar hafa lengi vakið athygli á og fordæmt það þegar stór tískuhús nota skinn af framandi og sjaldgæfum dýrum, jafnvel dýrum í útrýmingarhættu. Svo viðist vera sem sú vinna sé farin að skila sér í því að stór tískuhús og hönnuðir á borð við Tom Ford, Tommy Hilfiger, Vivienne Westwood, Ralph Lauren, Gucci, Armani og nú Chanel eru farin að draga verulega úr notkunn dýraskinna.

Rakst á sjaldgæft hvítt hreindýr

Skjannahvít hreindýr sem þessi eru sögð afar sjaldgæf.

Norski ljósmyndrinn Mads Nordsvee birti myndir af sjaldgæfu skjannahvítu hreindýri á Instagram. Hann rakst á hreindýrið þar sem hann var í gönguferð ásamt nokkrum vinum í norður Noregi. „Það hvarf næstum því alveg í snjóinn,“ skrifaði Mads meðal annars við myndirnar.

Hreindýrið er skjannahvítt vegna gallaðs litagens sem veldur því að ekkert litarefni er í feldinum. Þó er ekki um albínisma að ræða.

Skjannahvít hreindýr sem þessi eru sögð afar sjaldgæf er fram kemur á vef BBC. En árið 2016 sást hvítt hreinddýr hjá sveitabænum Mala í Svíþjóð. Samkvæmt skandinavískri hjatrú boðar það gott að sjá hvítt hreindýr.

Eins og sjá má á myndunum sem Mads deildi var dýrið gæft og kom alveg upp að honum og virtist forvitið um myndavélina.

Mynd / Mads Nordsveen

Varar fólk við eftir mislukkaða fegrunaraðgerð

Andlit breskrar konu að nafni Rachael Knappier afmyndaðist eftir að hún lét snyrtifræðing sprauta fyllingarefni í varir sínar í svokölluðu botox-partýi.

Bresk kona að nafni Rachael Knappier er afar ósátt við vinnubrögð snyrtifræðings sem tekur að sér að setja fyllingarefni í fólk. Varir Knappier urðu afmyndaðar eftir að hún lét sprauta fyllingarefni í þær í svokölluðu botox-partýi sem haldið var heima hjá vinkonu hennar.

Þessu er sagt frá á vef BBC. Þar kemur fram að Knappier hafa öskrað úr sársauka þegar efninu var sprautað í varirnar. Skömmu eftir að efninu var sprautað í varirnar byrjuðu þær að bólgna mikið. Daginn eftir höfðu þær margfaldast í stærð og Knappier fann fyrir miklum slappleika.

Knappier hafði þá samband við snyrtifræðinginn í gegnum FaceTime. Hún segir snyrtifræðinginn hafa tekið andköf þegar hún sá hversu bólgnar varirnar voru. „Hún sagði mér að kæla varirnar.“

Knappier leitaði svo til læknis. Eftir að hafa gengist undir heilsufarsskoðun leysti hjúkrunarkona fyllingarefnið upp og 72 klukkustundum síðar voru varirnar orðnar eðlilegar aftur.

Knappier vill núna vara annað fólk við að kaupa þjónustu snyrtifræðinga sem sprauta fyllingarefni í andlit fólks. Hún bendir á að ekki sé skynsamlegt að kaupa slíka þjónustu af fólki sem er ekki menntað á sviði lýtalækninga. Hún segir að nú sé tími til kominn að herða regluverk um notkun fyllingarefna.

Á vef BBC má sjá myndir sem Knappier tók daginn eftir að fyllingarefninu var sprautað í varir hennar.

Bill Gates prófaði loksins að hugleiða

|
|

Bill Gates hafði ekki áhuga á hugleiðslu á sínum yngri árum en í dag hugleiðir hann nokkrum sinnum í viku.

Bill Gates, stofnandi Microsoft, er farinn að stunda hugleiðslu reglulega. Þessu segir hann frá á vef sínum, Gatesnotes.com.

Gates kveðst ekki hafa haft áhuga á hugleiðslu á sínum yngri árum en fólk í kringum hann hugleiddi töluvert. Í staðin fyrir að hugleiða hætti hann um tíma að horfa á sjónvarp og hlusta á tónlist. Það var hans leið til að núllstilla sig. „Það entist í fimm ár,“ skrifar hann. Í dag er hann mikill aðdáandi þátta á borð við Narcos og hlustar mikið á Bítlana og U2. Hann ákvað svo loksins að gefa hugleiðslu séns og þá var ekki aftur snúið.

„Undanfarið hef ég öðlast betri skilning á hugleiðslu. Ég er alls ekki neinn sérfræðingur en ég hugleiði tvisvar til þrisvar á viku, um tíu mínútur í senn. Ég sé núna að hugleiðsla er einfaldlega æfing fyrir hugann,“ skrifar Gates og líkir áhrifum hugleiðslu á hugann við áhrif íþrótta á vöða líkamans. Hann kveðst þá ýmist hugleiða einn eða með konunni sinni, Melindu. „Við notum þægilega stóla, það er ekki möguleiki fyrir mig að komast í lotusstellinguna,“ tekur hann fram.

Það er ekki möguleiki fyrir mig að komast í lotusstellinguna.

Bill Gates mælir með þessari bók

„Ég veit ekki hversu hjálpleg hugleiðsla hefði verið fyrir mig á Microsoft-árunum vegna þess að ég var algjörlega einbeittur þá. En núna, þegar ég er giftur, á þrjú börn og ég hef breiðara áhugasvið, þá er hugleiðsla frábær leið fyrir mig til að bæta fókusinn,“ skrifar Gates. Hann segir að með hugleiðslunni hafi hann öðlast betri yfirsýn yfir hugsanir sínar og tilfinningar.“

Gates mælir þá með smáforritinu Headspace fyrir byrjendur í hugleiðslu. Sömuleiðis mælir hann með bókinni The Headspace Guide to Meditation and Mindfulness. Hann segir þá bók vera fullkomna í jólapakkann.

„Skrýtin, skemmtileg og dálítið óhugnanleg saga“

||
||

Það er óhætt að segja að nýja barnabókin Milli svefns og Vöku sé öðruvísi en flestar barnabækur. Bókin er fyrsta bók fjölmiðlakonunnar Önnu Margrétar Björnsson og hönnuðarins Laufeyjar Jónsdóttur. Milli svefns og Vöku segir frá dularfullum hlutum sem gerast þegar myrkrið skellur á bókin og inniheldur svarthvítar teikningar eftir Laufeyju.

 

Milli svefns og Vöku er myndskreytt með fallegum teikningum eftir Laufeyju.

Spurð út í hvernig hugmyndin að bókinni kviknaði segir Anna: „Ég var að segja Laufeyju frá því hvernig hún Ása Georgía, yngri dóttir mín sem var fjögurra ára þá, sakaði svokallaðan „leynigest” á heimilinu um allskyns dularfulla hluti sem hún sjálf kannaðist alls ekki við að hafa gert. Við höfðum lengi rætt það að það væri gaman að gera barnabók saman og þarna allt í einu small hugmyndin.  Við notuðum hugmyndina um leynigestinn hennar Ásu, hvernig hún lýsti honum í útliti og gjörðum og unnum út frá því. Úr varð Milli svefns og Vöku, skrýtin, skemmtileg og dálítið óhugnanleg saga um myrkfælna stúlku og samband hennar við dularfulla veru sem býr á heimili hennar en enginn annar sér.“

Mér fannst skemmtilegt að búa til sögu sem fjallar um myrkfælni, sem er eitthvað sem við flest könnumst við held ég.

Að sögn Önnu er bókin skrifuð fyrir börn á aldrinum 6-9 ára en hún tekur fram að fólk á öllum aldri ætti að hafa gaman af henni. „Við vonum að foreldrar hafi gaman af að lesa hana og skoða en myndmálið er gífurlega mikilvægt í bókinni og myndirnar hennar Laufeyjar algjör listaverk.“

Anna kveðst alltaf hafa verið heilluð af myrkrinu og dularfullum sögum. „Mér fannst skemmtilegt að búa til sögu sem fjallar um myrkfælni, sem er eitthvað sem við flest könnumst við held ég. Það er svo oft gert lítið úr myrkfælni barna, þeim er sagt bara að vera ekki hrædd án nokkurra útskýringa. Það voru svo líka mörkin á milli draums og veruleika sem ég var að spá í með söguna, þau geta verið dálítið loðin fyrir börn og jafnvel fullorðna.“

„Vekja vonandi upp nostalgískar tilfinningar“

Anna og Laufey lögðu mikla áherslu á að bókin hefði einstakt útlit og í anda gamalla barnabóka. „Teikningarnar eru að sjálfsögðu frekar óhefðbundnar miðað við það sem gengur og gerist í dag,“ segir Laufey. Hún bætir við: „Teikningarnar vísa, líkt og sagan, til fyrri tíma og vekja vonandi upp nostalgískar tilfinningar hjá fullorðnum lesendum.“

Milli svefns og Vöku segir frá Vöku sem þarf að sigrast á myrkfælni.

Laufey og Anna byrjaði að vinna að bókinni árið 2015. „Ég hóf að skapa persónurnar og myndheiminn 2015 og vann að þróun þeirra þegar færi gafst. Þó maður sé oft ólmur í að klára verkefni held ég að þessi langi tími hafi skilað sér í dýpri heim og þróaðri stíl, en það var örlítið ljúfsárt að leggja loks niður pensilinn og yfirlýsa verkið tilbúið.“

Laufey bendir svo á að aðalsöguhetjan er útsjónarsöm og hugrökk stelpa og það þótti þeim Önnu mikilvægt. „Í bókum finna ungir lesendur sér fyrirmyndir, ég er t.d. mjög þakklát að hafa alist upp með Línu Langsokk og Ronju Ræningjadóttur. En okkur finnst staðalímyndir og skortur á kvenpersónum enn of áberandi í bókmenntum, því þótti okkur mikilvægt að skapa barnabók með hugrakka stúlku í aðalhlutverk, sem ræður eigin örlögum og treystir á gáfur sínar og útsjónarsemi til þess að leysa úr vandamálum.“

Okkur finnst staðalímyndir og skortur á kvenpersónum enn of áberandi í bókmenntum, því þótti okkur mikilvægt að skapa barnabók með hugrakka stúlku í aðalhlutverk.

Spurðar út í hvaða viðbrögð þær hafa fengið við bókinni segir Laufey: „Fyrstu viðbrögð hafa verið framar vonum. Að fá tækifæri til þess að spjalla við börn um bókina hefur verið alveg magnað. Þau eru sérstaklega forvitin um leynigestinn og veltu mörg því mikið fyrir sér hvað hann sé. Hvort hann sé krummi, hundur, mauraæta, skrímsli, draugur, strákur eða stelpa.“

Anna tekur undir það og bætir við: „Þau kannast við ýmislegt í bókinni eins og að vera pínu hrædd við að fara að sofa og að sjá fatahrúgur breytast í eitthvað annað í myrkrinu…þau eru heilluð af þessari dularfullu veru og af þessum fallegu myndum í bókinni og finnst sagan skemmtileg, fyndin og stundum „krípí“.“

Mynd / Saga Sig

Hvetur fólk til að hugsa í umhverfisvænum lausnum

|
|

Í kvöld mun myndlistarkonan Edda Ýr Garðarsdóttir leiða opna smiðju á Borgarbókasafninu í Gerðubergi. Hún mun skoða leiðir til að nýta gamlar bækur, tímarit og jólakort til að pakka inn gjöfum og gera kort og skraut. Einnig verður farið í það hvernig hægt er að nota nánast allt sem til fellur af heimilinu og nýta í eitthvað fallegt fyrir jólin.

Edda Ýr hefur lengi verið mikil áhugamanneskja um endurnýtingu. „Ég hef verið kennari í  leik- og grunnskólum síðan ég útskrifaðist úr Listaháskólanum 2001 og hef alla tíð verið meðvituð um að endurnýta sem mest í listsköpun minni með börnunum. Börn horfa á flest allan efnivið með opnum hug og gefa honum nýjan tilgang í leik sínum og sköpun,“ segir Edda.

Gömul dagblöð nýtast vel sem gjafapappír.

Edda á stóra fjölskyldu og aðfangadagur er fjörugur á hennar heimili. „Pakkaflóðið er gríðarlegt og pappírsrusl, slaufur og skraut út um allt. Okkur blöskrar þetta alltaf jafnmikið og höfum reynt að geyma sem mest af endurnýtanlegum efnivið til innpökkunar eða kortagerðar til næstu jóla. Ein vinkona mín hefur svo verið dugleg að nota falleg bómullarefni sem má nota endalaust og frænka mín hefur notað þykkan handgerðan pappír sem við höfum notað aftur og aftur í örugglega fimm ár,“ segir Edda. Hún vandar valið þegar kemur að því að gefa jólagjafir.

„Við gefum aðeins nánustu ættingjum gjafir og reynum að gefa aðeins það sem hefur notagildi, gefum upplifanir og stundum eitthvað heimagert. En það er auðvelt að gleyma sér í neyslumenningunni og oft erfitt að standast freistingarnar.“

Reynum að gefa aðeins það sem hefur notagildi, gefum upplifanir og stundum eitthvað heimagert.

Spurð út í hvort umhverfisvænu lausnirnar sem hún notar til að pakka inn gjöfum veki ekki lukku segir Edda: „Ég vona að flestir sjái fegurðina í þessu. Þetta þarf hvorki að taka mikinn tíma né vera ofurflókið föndur eða hreinasta listaverk. Þótt tíminn vinni ekki alltaf með manni og sumar gjafir séu óumhverfisvænni en aðrar og jafnvel pakkað inn af verslunarfólki úti í bæ þá skiptir mestu máli að vera meðvitaður og gera sitt besta. Eitt skref í einu er betra en ekkert og um að gera að hvetja sem flesta í kringum sig að hugsa í umhverfisvænum lausnum.“

Skiptir mestu máli að vera meðvitaður og gera sitt besta

Sífellt fleiri afþakka gjafir

Edda tekur fram að hún verði vör við að fólk sé í auknum mæli farið að hugsa út í umhverfisvænar lausnir í kringum allt jólahald. „Ég heyri æ oftar af því að fólk er að afþakka gjafir og gera með sér samkomulag um að fara frekar saman í leikhús eða út að borða. Ég hef heyrt um fjölskyldur sem ákveða að sleppa gjöfunum og eyða kvöldinu frekar í að spila og eiga notalega samverustund. Það er svo margt sem við getum gert umhverfisvænt sem er í anda jólanna, búa okkur öllum til betri heim.“

Þess má geta að viðburðurinn er haldinn frá klukkan 20.00-22.00 í kvöld á Borgarbókasafninu í Gerðubergi. Þátttakendum er bent á að taka með sér gömul jólakort og fallegar bækur til að nýta í tilraunir. Á staðnum verða bækur, tímarit, gömul jólakort, skæri, lím, heftarar, skapalón, og fleira.

„Besta bókin mín alltaf sú næsta“

|
Ragnar Jónasson Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Glæpasögum Ragnars Jónassonar hefur verið vel tekið og þær komið út víða um heim. Einn erlendi útgefand inn vildi skrifa nýjan endi við eina bók Ragnars, honum fannst svo leiðinlegt þegar aðalsögupersónan dó. Nýlega sendi Ragnar frá sér sína tíundu bók, svolítið draugalega spennusögu.

 

Þorpið stendur bara ein og sér og er ekki hluti af syrpu,“ segir Ragnar þegar hann er beðinn um að lýsa nýju bókinni. „Sagan kom bara til mín,“ bætir hann við. „Í mínum huga er þetta spennusaga með smávegis draugagangi en það þarf enginn að óttast að draugurinn myrði, það eru rökréttar skýringar á öllum glæpunum í bókinni.“

Bókin segir frá Unu, kennara sem flytur í afskekkt þorp þar sem aðeins tíu manns búa, þar af tvö börn. Með tímanum fer hana að gruna að þorpsbúar búi yfir stóru leyndarmáli og hún fær á tilfinninguna að hún sé allt annað en velkomin. Sögusviðið eru Skálar á Langanesi, en þorpið þar fór í eyði um miðja
síðustu öld. Bók Ragnars gerist árið 1985 og tekur hann sér þar það skáldaleyfi að halda svæðinu í byggð lengur en raunin var.

Mörgum brá vissulega þegar Hulda dó … og einn útgefandi minn erlendis tók því svo illa að hann skrifaði nýjan endi þar sem hún dó ekki.

„Það var gott að fá svigrúm til að skrifa eitthvað allt annað eftir að bókunum um Huldu lauk.“ Aumingja Huldu sem Ragnar „drap“ með köldu blóði alveg óvænt, ekki við mikla gleði margra lesenda. „Ég er mjög ánægður ef fólk kvartar yfir örlögum sögupersónu, þá veit ég að bókin eða persónan hefur haft áhrif og hrist upp í lesandanum,“ segir Ragnar.

„Mörgum brá vissulega þegar Hulda dó … og einn útgefandi minn erlendis tók því svo illa að hann skrifaði nýjan endi þar sem hún dó ekki. Svo var ég beðinn um samþykki fyrir því en það kom aldrei til greina.“

Mikill aðdáandi Agöthu

Ragnar las mikið í æsku og þegar hann var í tólf ára fór hann að lesa bækur Agöthu Christie. Úrvalið af þýddum bókum eftir hana var ekki mikið svo ef hann langaði að lesa meira varð hann að lesa þær á frummálinu og það gerði hann.

„Það var mjög gott að byrja á Agöthu því hún skrifar frekar einfalt mál og ég veit að margir velja bækur hennar þegar þeir byrja að lesa á ensku. Ég tók upp á því að þýða nokkrar smásögur eftir hana fyrir Vikuna úr ensku á unglingsárunum, en þegar ég var 17 ára, enn ekki kominn með bílpróf, keyrði mamma mig til Björns Eiríkssonar, útgefanda hjá Skjaldborg, en hann gaf Agöthu Christie­bækurnar út. Ég sagði honum að mig langaði til að spreyta mig á því að þýða heila skáldsögu. Björn sem kannaðist við mig sem strákinn sem hringdi reglulega til að spyrja hvenær næsta bók kæmi út og hvaða bók það yrði, tók mér vel og samþykkti að ég þýddi fyrir sig. Ég valdi bókina Endless Night sem var stysta bókin sem ég átti eftir Agöthu. Næstu 15 árin þýddi ég bækur hennar fyrir Skjaldborg og síðar Uglu útgáfu, alls 14 skáldsögur. Þegar sú síðasta sem ég þýddi kom út, árið 2009, kom jafnframt út mín fyrsta skáldsaga, Fölsk nóta.“

Ragnar gat ekki bæði skrifað eigin glæpasögur og þýtt bækur Agöthu og varð að velja. Við lesendur höf um heldur betur grætt á því og ný bók eftir hann komið út á hverju ári. Uppáhaldsbók Agöthu­bók Ragnars er Murder on the Links. „Ég nefni hana alltaf þegar ég fæ þessa spurningu, en hún kom fyrst út á íslensku á fimmta áratug síðustu aldar undir nafninu Dularfullur atburður. Hún var algjörlega ófáanleg í bókasöfnum og bókabúðum svo ég fór með pabba á Landsbókasafnið til að lesa hana þegar ég var eflaust ekki nema tólf eða þrettán ára. Bókin er mjög skemmtileg sakamálasaga, ein af þeim fyrstu sem Agatha Christie skrifaði, og var síðar endurútgefin á íslensku og hét þá Opna gröfin.“

Ragnar hafði ekki verið búsettur í enskumælandi landi en taldi sig þó geta þýtt skáldsögu. „Ég held að lykillinn að þýðingum sé ekki síst tungumálið sem maður þýðir yfir á, og mér fannst alltaf gaman að skrifa og vinna með íslenskuna, en þarna þegar ég var sautján ára hafði ég líka lesið mikið á ensku,“ segir Ragnar. „Ég átti líka góða að, pabbi og mamma lásu yfir þýðingarnar og sömuleiðis amma og afi, allt saman mikið íslenskufólk.“

Iceland Noir í Iðnó

Fyrr í nóvember á þessu ári var haldin glæpasagna hátíð í Iðnó, þriggja daga hátíð sem Ragnar skipu lagði ásamt þremur félögum sínum úr glæpa sagna heim inum, Yrsu Sigurðardóttur, Lilju Sig urð ar dóttur og Óskari Guðmundssyni.

„Árið 2013 vor um við Yrsa á glæpasagnahátíð í Bretlandi, ásamt Quentin Bates, rithöfundi og þýð anda, en hann þýddi síðar bækur eftir mig yfir á ensku. Þar vorum við spurð hvort slík hátíð væri haldin á Íslandi og þá kviknaði hugmyndin. Sex mánuðum síðar var fyrsta Iceland Noir­hátíðin haldin og þar voru þau Ann Cleeves, höfundur bókanna um lögregluforingjann Veru, og Arnaldur Indriðason heiðursgestir. Vinir okkar að utan, hinir ýmsu rithöfundar, skráðu sig og auðvitað Íslendingar líka, og svo var hátíðin haldin aftur á næsta ári. Peter James var einn heiðursgesta þá og tveimur árum seinna voru þau Sara Blædel og Val MacDermid heiðursgestir hátíðarinnar. Í ár kom m.a. Shari Lapena, höfundur metsölubókarinnar Hjónin við hliðina, en auk hennar voru heiðursgestir Sjón, Eliza Reid og Katrín Jakobsdóttir.“

Sjá einnig: Tækifæri til að komast í nálægð við glæpasagnahöfunda

Hátíðir á borð við þessa eru öllum opnar en þá fara fram pallborðsumræður um hin ýmsu efni og höfunda og setið er fyrir svörum. Í ár voru meðal annars umræður sem forsætisráðherrann okkar, Katrín Jakobsdóttir, stjórnaði en Ragnar, Ármann Jakobsson prófessor sem er með sína eigin glæpasögu í ár og Martin Edwards rithöfundur sátu hjá henni uppi á sviði og umræðuefnið var Agatha Christie og bækur hennar. Þarna er einstakt tækifæri fyrir fólk að hitta mögulega uppáhaldsrithöfundinn sinn erlendis frá. Hægt er að kaupa helgarpassa en að sögn Ragnars er sniðugra fyrir landann að kaupa aðgang að þeim viðburði sem mest lokkar, eða viðburðum, og það kostar lítið, en hátíðin er unnin í sjálfboðavinnu og reynt að hafa hana aðgengilega fyrir alla.

Okkur dreymir um að gera hátíðina að árlegum viðburði.

„Næsta hátíð verður árið 2020 og við erum komin með þrjá heiðursgesti, þau Ann Cleeves, Ian Rankin og Louse Penny en hún er vinsælasti glæpasagnahöfundur Kanada og með þeim vinsælli í Bandaríkjunum líka. Okkur dreymir um að gera hátíðina að árlegum viðburði. Í ár héldum við ball þar sem hljómsveit skipuð breskum glæpasagnahöfundum lék fyrir dansi. Svo var Ísnálin veitt fyrir bestu þýðinguna. Bjarni Gunnarsson þýðandi og Jo Nesbø rithöfundur hrepptu Ísnálina að þessu sinni fyrir glæpasöguna Sonurinn, og tók Bjarni við verðlaunum fyrir hönd þeirra tveggja.“

Pressan sem þufti

Ragnar fær hugmyndir alls staðar að, meðal annars úr blaðagreinum.

Glæpasögur njóta mikilla vinsælda um heiminn og á Íslandi eru ekki mörg ár síðan erlendir krimmar í kiljum fóru að koma út allan ársins hring og seljast eins og heitar lummur. Íslenska glæpasagan er heldur ekki mjög gömul því lengi vel þóttu slíkar bækur ekki nógu trúverðugar á litla Íslandi. Ragnar hóf feril sinn á svolítið óvenjulegan hátt, eða tók þátt í samkeppni. Hann vissi fyrirfram að bókin hans myndi ekki sigra en sendi hana samt inn.

„Bókaútgáfan Bjartur auglýsti eftir hinum íslenska Dan Brown, eða bók í anda Browns, árið 2008. Ég var með bók í huga, ekki í þessum anda en notaði tækifærið og sendi hana inn. Þetta var pressan sem ég þurfti til að klára bókina og konan mín ýtti á eftir mér svo að ég skilaði handritinu á réttum tíma. Enginn íslenskur Dan Brown fannst en Veröld, systurforlag Bjarts, gaf bókina mína út og bað um aðra að ári. Þannig að Fölsk nóta sá dagsins ljós og allt fór af stað,“ segir Ragnar og bætir við að fyrsta glæpasaga Lilju Sigurðardóttur hafi einnig sprottið upp úr þessari Dan Brown­samkeppni.

Ragnar fær hugmyndir alls staðar að. „Blaðagreinar sem ég les geta kveikt hugmynd, þarf oft ekki nema eitt orð, einnig fréttir, samtöl þar sem fólk segir mér sögur en það fólk myndi þó aldrei þekkja þær sögur í bókum mínum, enda kveikja þær yfirleitt einfaldlega hugmyndir að einhverju allt öðru,“ segir Ragnar og brosir en hverja af bókum sínum heldur hann mest upp á? „Uppáhaldsbókin mín er yfirleitt alltaf sú nýjasta … og besta bókin alltaf sú næsta.“

Blaðagreinar sem ég les geta kveikt hugmynd, þarf oft ekki nema eitt orð.

Nýr karakter

Ragnar, áminntur um sannsögli, ertu byrjaður á næstu bók og ætlar þú að leyfa aðalpersónunni að tóra eitthvað áfram? „Já, já, ég er byrjaður á nýrri bók og þar er nýr aðalkarakter, lögreglumaður sem fær að lifa,“ lofar Ragnar og bætir við: „Ari lögreglu maður úr fyrstu bókunum er náttúrlega enn á lífi og ég á til einn fjórða úr bók um hann sem ég klára einhvern daginn. Ég er búinn að hugsa þá sögu alveg til enda en hef ekki enn haft tíma til að skrifa hana.“ Ragnar byrjar alltaf á nýrri bók í september, hann þarf að skila handritinu til útgefandans að vori. Það er lesið yfir um sumarið og gerðar athugasemdir, ef þarf. Hann segir að athugasemdum hafi fækkað með hverri bók, ferlið sé mjög lærdómsríkt og hægt að læra af mistökum sínum.

„Ég myndi aldrei senda frá mér bók nema hún fari í gegnum svona nálarauga, þetta er kannski ekki skemmtilegasti tíminn, það eru skrifin sjálf, en hann er býsna mikilvægur. Una hét t.d. stundum Hulda í nýju bókinni en það var auðvitað lagað í yfirlestri,“ segir Ragnar og hlær.

Hann vinnur sem lögmaður á daginn og þá er það samveran með fjölskyldunni. Um tíuleytið á kvöldin, þegar allt er komið í ró, sest hann við tölvuna og galdrar fram alls kyns plott og persónur. Hefði hann trúað því þegar hann sat í háskóla og lærði lögfræðina að ekki svo mörgum árum seinna yrði hann virtur og vinsæll glæpasagnarithöfundur? „Ég sá aldrei sjálfan mig fyrir mér sem rithöfund, ég ætlaði aldrei að skrifa skáldsögur, ég miklaði það fyrir mér en þetta var alltaf draumurinn,“ segir Ragnar einlægur. „Ég ólst upp við bækur, Ólafur Ragnarsson bókaútgefandi var föðurbróðir minn, og faðir minn, Jónas Ragnarsson, hefur skrifað bækur, m.a. Daga Íslands og Jólaminningar. Afi skrifaði bækur um Siglufjörð og ekki má gleyma mömmu sem er læknaritari, hún hefur verið mjög dugleg að lesa bækurnar mínar yfir.“

Gott skipulag galdurinn

Minnstu munaði að Ragnar færi í íslensku í háskóla en hann valdi lögfræðina og hefur aldrei séð eftir því. Starfið segir hann vera mjög skemmtilegt, en hann sýslar með fjárfestingarsjóði hjá fjármálafyrirtækinu Gamma. „Lögfræðistarfið er mjög fjölbreytilegt en mér finnst gott að hafa þetta tvennt alveg aðskilið, ég reyni til dæmis að hafa sem fæsta lögfræðinga í bókunum mínum.“

Ragnar segir að gott skipulag sé galdurinn við að skrifa bækur. „Best er að hugsa um bókina í nokkur ár, skipuleggja sig vel og setjast við skriftir þegar maður sér fyrir söguna, að minnsta kosti aðalatriði hennar, það virkar best fyrir mig. Ég skrifa endalaust niður hugmyndir í minnisbækur eða sendi sjálfum mér tölvupóst með hugmyndum, og svo renna þær oft saman í eina bók.“

Lögfræðistarfið er mjög fjölbreytilegt en mér finnst gott að hafa þetta tvennt alveg aðskilið.

Ragnar er giftur Maríu Margréti Jóhannsdóttur sem vinnur sem almannatengill hjá Wow air, mest í tengslum við markaði félagsins í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þau eiga dæturnar Kiru, átta ára, og Natalíu, fjögurra ára. Spurning hvort rithöfundurinn segi dætrunum ekki spennandi sögur á kvöldin? „Jú, ég segi þeim oft sögur en skrifa þær ekki niður. Ég var eitt sinn með hugmynd að barnabók en ég verð að viðurkenna að ég ver alltaf öllum þeim tíma sem ég gef mér til skrifta í glæpasögurnar.“

Jólin hjá Ragnari og fjölskyldu eru hefðbundin. „Við verðum heima og með hamborgarhrygg í matinn að vanda. Eftirrétturinn er sjaldnast sá sami en við erum alltaf með möndlugraut í forrétt. Dæturnar fá möndluna ótrúlega oft,“ dæsir Ragnar brosandi og segir að þegar komi að því að kaupa jólatré kaupi hann helst stærra jólatré en komist fyrir í stofunni.

„Skemmtilegast er að þurfa að saga það aðeins til svo það passi akkúrat. Fyrir tveimur árum skar ég reynd ar næstum af mér fingurinn við þær æfingar. Svo horfi ég nú oft á sömu gömlu jólamynd irnar á aðventunni, mæli sérstaklega með Die Hard I og II, og The Man who Came to Dinner frá 1942. Já, svo eru jólakveðjurnar á Rás 1 ómissandi á Þorláksmessu og útvarpsmessan á aðfangadagskvöld, bara allt þetta klassíska íslenska,“ segir Ragnar að lokum.

Mynd/ Hákon Davíð Björnsson

Kynlífið kryddað fyrir 500.000 krónur

|
|

Leikkonan Gwyneth Paltrow hvetur fólk til að krydda kynlífið með réttu tólunum.

Þetta kynlífstæki er til sölu á vefnum Goop, það kostar 3,490 dollara.

Leikkonan Gwyneth Paltrow hefur sett saman sérvaldan pakka með kynlífstækjum og tengdum varningi fyrir lífsstílsvef sinn. Allar vörurnar í pakkanum eru til sölu á heimasíðunni Goop. Pakkinn, sem Paltrow kallar „dirty weekend sex kit“, kostar í heild sinni upphæð sem nemur um 500.000 krónum.

„Við erum alltaf til í að prófa eitthvað sem gefur okkur meira sjálfsöryggi og ævintýraþrá í svefnherberginu,“ segir í grein þar sem pakkinn er kynntur til leiks.

Pakkinn samanstendur af fimm hlutum sem eiga að krydda kynlífið. Dýrasti hluturinn á listanum er gyllt kynlífstæki frá merkinu Lelo, það kostar 3,490 dollara.

Á listanum er einnig að finna nuddolíu, smokka, fjaðurhring og sleipiefni.

Raddir