Hlaupari slasaðist í gær í utanvegahlaupinu The Puffin Run og var Björgunarfélag Vestmannaeyja kallað út til aðstoðar.

Ljósmynd: Landsbjörg
Fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg að svo virðist sem hlauparinn hafi dottið á hlaupum og hlotið höfuðmeiðsl sem gerði það að verkum að sækja þurfti viðkomandi þar sem hann var. Eyjar.is sagði frá málinu.
Einnig kom fram í tilkynningunni að staðsetning hlauparans hafi verið talsvert frá akvegi og því hafi sjúkraflutningsmenn kallað til björgunarsveitina svo hægt væri að koma hlauparanum af slysstað og í sjúkrabílinn. Tíu meðlimir í Björgunarfélagi Vestmannaeyja héldu því af stað á fótum á slysstað með börur á hjóli.
„Ekki eru upplýsingar um líðan sjúklings, en hann var fluttur til aðhlynningar. Vel gekk að koma sjúklingi í börur og þangað sem sjúkrabíllinn beið,“ segir að lokum í tilkynningunni.