Föstudagur 26. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Jólin í minningu Árna Árnasonar símritara í Vestmanneyjum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir tæpum áratug kom út bókin Eyjar og úteyjalíf. Þar er að finna úrval verka eftir Árna Árnason símritara frá Grund.

„Þar er vísað til Árna Árnasonar (1901-1962) sem jafnan var og er nefndur Árni símritari í Eyjum enda hans aðalstarf frá því um tvítugt til æviloka. Ástríða hans var að safna hvers kyns heimildum um Vestmannaeyjar fyrri tíðar. Enda þótt bókin sé tæplega 500 síður er þar aðeins að finna sýnishorn af eljuverki hans. Að gefa verk Árna út í heild sinni hefði orðið mikið ritsafn en í Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja eru varðveittir 12 kassar með 338 stökum efnisatriðum eða umfjöllunarefnum með hendi hans.

Innan marka þess að Vestmannaeyjar er eina viðfangsefnið má undarlegt heita hversu efnið er ótrúlega fjölbreytilegt. Mestur bjórinn er í greinargerð Árna um bjargveiðimenn í Vestmannaeyjum frá upphafi og fram yfir 1950. Þar eru tilgreindir 175 bjargveiðimenn og um flesta tekin saman ítarleg ættrakning og oftast bráðskemmtilegar og lifandi persónulýsingar.

Þá hefur Árni tekið saman miklar heimildir um tónlistarsögu Vestmannaeyja og upphaf kórastarfs hér sem og um sögu leiklistar í Eyjum. Einnig er þar að finna samantektir um svo óskyld efni sem um fuglaveiðar, minnistæða einstaklinga úr Eyjum, hrakningar á sjó, búhætti á fyrri tíð, atvinnusögu, eigin kveðskap og annarra, upphaf ýmissa nú hversdagslegra þæginda á borð við handvagninn, bifreiðina, reiðhjólið, lagningu vega, jafnvel saga fyrstu rakvélarinnar í Vestmannaeyjum er rakin!

Af þessari upptalningu, sem aðeins nefnir fáeina efnisþætti, má ljóst vera að ekki kennir ýmissa heldur allra grasa í gögnum Árna. Það er létt og ljúft að týnast þar inni!

Rétt er að taka fram að heildarsafn Árna er öllum aðgengilegt þar sem það sem ekki komst í bókina var sett inn á menningarvef Vestmannaeyjabæjar, heimaslóð.is.

- Auglýsing -

Í tilefni jóla skal hér gripið niður í þennan ótrúlega sjóð þar sem Árni ræðir um jólin og kirkjuferðir fyrir um 150 árum síðan hér í Eyjum. Til hægðarauka eru settar millifyrirsagnir og samantekt hans stytt nokkuð. Rétt er að geta þess að útgangspunktur Árna er heimilið á Vestari-Bústöðum, sem hann þekkti vel til. Bæði var Árni sjálfur þar fæddur og þar bjuggu lengi móðurafi og –amma hans, sæmdarhjónin Lárus Jónsson hreppstjóri og Kristín Gísladóttir.

Hefjum för okkar á deginum í dag – fyrir réttum 150 árum.

Þorláksmessa:

Á Búastöðum, sem var stórt og allvel efnað heimili á síns tíma vísu, var á Þorláksmessu hafður fiskur að morgni. Síðar um daginn voru stundum höfð fisktálkn, sem rifin höfðu verið úr hausum daginn áður og lögð í bleyti. Þau voru gjarna soðin í hangikjötssoði og framborin með flatkökum eða brauði. Þetta þótti ágætur matur og sjaldan mun hafa heyrst að hann væri ekki samboðin degi hins heilaga Þorláks. Ekki var þetta fastur siður en ekki óalgengur meðal bænda. Sést af því að flest var notað og nýtt til hins besta. Um kvöldið var svo saltaður fugl ásamt garðamat og gjarna flatkaka með.

- Auglýsing -

Aðfangadagur jóla:

Á aðfangadag jóla var einnig hafður fiskur um morguninn, nýr ef til var en annars og oftast saltaður eða siginn. Um hádegið var haft kaffi, smurt brauð og kökur, en í miðdegismat kjötsúpa og síðan kaffi með kökum. Þá var t.d. höfð hin svonefnda “Imbukaka“ með kaffinu, sem síðar hlaut nafnið jólakaka. Hún var hnoðuð, bökuð í potti á hlóðum og ílát hvolft yfir meðan að hún bakaðist. Ekki verður nú vitað hvaðan þetta Imbunafn á kökuna er komið, en sennilega frá einhverri Ingibjörgu, sem fyrst hefir komið með uppskrift hennar til Eyja. Sennilega nokkuð gömul nafngift.

Jóladagur:

Á jóladaginn var farið á fætur klukkan sex, gefið kaffi og brauð. Þareftir var jólalesturinn lesinn. Til morgunverðar var oft hafður hrísgrjónagrautur með rúsínum í og sætri mjólk útá, ásamt smurðri flatköku. Klukkan tíu var búið að borða og fór þá fólk að búast í sparifötin, allir sem það gátu. Enginn sem heilsu hafði mátti sitja heima. Þegar komið var frá kirkjunni fékk fólkið kaffi með smurðu brauði og kökum. Seinnipart dagsins var haft kjöt til matar ásamt garðamat. Fékk hver maður t.d. vænan saltkjötsbita, álíka af hangikjöti, 1 til 2 flatkökur, 2 til 3 rúllupylsusneiðar, og þessutan eitt eða tvö hangikjötsrif. Auðvitað fékk hver og einn jólakerti og var það skammtað um leið og maturinn. Að sjálfsögðu var íslenskt smjör með brauðmatnum og munu flestir hafa haft a.m.k. einhvern vott af því um jólin. Á Búastöðum var oftast nægilegt af íslensku smjöri þó ekki væri bruðlað með það. Hversdagslega var að langmestu leyti notaður bræðingur.

Heimboð milli hátíða:

Hér voru mikið tíðkuð heimboð búenda í milli húsa um jólin og nýárið. Þáðar voru góðar veitingar og ýmislegt sér til gamans gert t.d. mikið spilað á spil og voru algengustu spilin „púkk“ og „alkort“. Til gjaldmiðils í spilum hafði fólk fiskikvarnir eða jafnvel glerbrot en síðar óbrenndar kaffibaunir. Á meðan húsbændurnir voru í heimboðum til kunningjanna, fékk heimafólkið að skemmta sér. Fékk það þá oftast mat í eina góða máltíð.

Gengið til kirkju:

Oft var nokkrum erfiðleikum bundið að komast til kirkju t.d. aftansöngsins og vera á ferli utan þorpsins í myrkri. Vegir voru fáir um þorpið sjálft og helst engir utan þess, nema Kirkjuvegurinn „neðan úr sandi“ og upp að kirkju, Vilborgarstaðavegur frá verslunarstaðnum og upp á Vilborgarstaði. Aðalvegur þorpsins var annars Strandvegurinn, sem var frá Austurbúðinni meðfram aðalathafnasvæðinu við hrófin, fiskikrónum og Læknum, vestur að Júlíushaab, (Tanga).

Engin voru götuljósin og allt hulið glórulausu myrkri. Var göngufæri þessvegna stundum slæmt vegna bleytu og moldareðju um troðninga og þröngar slóðir. Umferðina bættu mikið ljósluktir, sem hvert heimili átti og notaði til kirkjuferða og annarrar umferðar er kvölda tók. Þetta voru litlar handluktir úr þunnum við og léttum. Þær höfðu gler á þrem köntum en renniloka á einum. Í luktinni brann eitt kertaljós og var loftræsting undir handfanginu. Hún var borin fyrir gangandi fólkinu og lýsti furðu vel þareð líka oft voru margir á ferð saman með luktir t.d. í kirkjuferðum. Ekki þættu þessar luktir merkilegar nú til dags, en þá þóttu þær fínar og ómissandi hverju heimili.

Það var mjög skemmtilegt og hátíðlegt að sjá frá Búastöðum, þegar ljósin komu austan frá Kirkjubæjunum í langri röð eftir götuslóðunum á túnunum á leið til aftansöngsins. Framhjá Búastöðum fór hópurinn klukkan hálf sex og hélt vestur eftir. Þar bættust svo við í röðina fjölskyldur Búastaða, Nýjabæjar og Ólafshúss. Varð þetta þá orðinn allfjölmennur hópur, máske 25 til 30 manns og margar luktir lýstu leiðina.

Í forkirkju Landakirkju höfðu margir þann sið að skipta um skó, áður en þeir gengu í kirkjuna. Var þetta tíðum nauðsynlegt ef kirkjufólkið hafði lent í slæmri færð og veðri. Skammt ofan og sunnan við Landakirkju stóð til skamms tíma hlaðin grjótvarða. Hún var nokkru hol að innan neðst. Þar geymdu ofanbyggjarar þ.e. þeir, sem bjuggu fyrir ofan hraun, stundum líka nefnd „fyrir ofan leiti“, skó sína meðan þeir gengu í kirkjuna. Fólk úr ,,uppgirðingunni“ þ.e. Vesturhúsum, Ólafshúsum, Nýjabæ, Búastöðum, Oddsstöðum og Túni geymdu skó sína í forkirkjunni, er þurfa þótti í svonefndum skópokum. Það voru litlir pokar saumaðir upp úr strigapokum.

Varðan fyrir sunnan kirkjuna dró nafn sitt af skógeymslu Ofanbyggjara og var nefnd Skóvarða. – Kirkjuferðin á stórhátíðum var ekki svo lítill viðburður í lífi almennings. Ljósadýrð kirkjunnar hreif fólkið, því lítið var um ljós í þann tíma á heimilum manna, nema til allra nauðsynlegustu þarfa. Kirkjan uppljómuð af kertaljósum, var í augum fólksins ógleymanlegt musteri ljóss og dýrðar. Ljósahjálmarnir þrír, ljósboginn framan kórsins, altarisstjakarnir berandi stór og mikil ljós, auk minni tvíarma kertastjaka frammi yfir bekkjaröðunum niðri, allt glóði þetta í birtu og undrafegurð svo fólk fékk ofbirtu í augun.“

Heimild:

Kári Bjarnason. 2021, 23. desember. Jólin í minni Árna Árnasonar símritara. Vestmanneyjar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -