Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Leikkonan Tanja Líf Traustadóttir – Fékk raddþjálfun hjá systur Colins Firth.

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tanja Líf Traustadóttir ákvað að verða leikkona þegar hún var átta ára gömul. Þá fékk hún eitt af aðalhlutverkunum í barna- og fjölskylduleikritinu Sitji Guðs englar á fjölum Þjóðleikhússins. Draumur hennar varð að veruleika þegar hún útskrifaðist sem leikkona úr listaháskóla í Barcelona í fyrra. Í vetur lék hún í þýskum sjónvarpsþáttum sem teknir voru upp á Tenerife og landaði svo nýlega aðalhlutverki í íslensku kvikmyndinni Ótta sem tekin verður upp næsta vetur.

Tanja segist hafa vitað frá fyrsta degi á stóra sviðinu að leiklistin væri það sem hún vildi gera að atvinnu sinni í framtíðinni. Frá þeim degi hefur hún viðað að sér reynslu í faginu og þannig gert allt til að komast nær því að uppfylla drauminn: Að starfa við leiklistina.

„Ég skráði mig í alla áfanga sem tengdust leiklist á árum áður og stærsta skrefið tók ég þegar ég komst inn í listaháskólann Institute of the Arts Barcelona, þaðan sem ég útskrifaðist með BA í leiklist seinasta sumar. Það er bara eitthvað við þá tilfinningu að skapa hinar ýmsu tilfinningar innra með áhorfandanum. Þú veist í raun aldrei hvernig áhorfandinn mun bregðast við og því er hægt að segja að engin sýning sé eins, sem er alveg yndislegt. Á hinn bóginn er kvikmyndaleikur alveg frábær líka, en það er allt önnur tækni þar á bak við, en alveg magnað að sjá sjálfa sig festa á mynd að eilífu,“ segir Tanja Líf.

Firth-systir kenndi raddþjálfun

Frá unga aldri hefur Tanja Líf verið smituð af ferðabakteríunni enda búið meirihluta ævi sinnar erlendis. Fyrir vikið kom að hennar sögn einhvern veginn aldrei neitt annað til greina en að fara í háskóla erlendis. Tanja segir námið í Barcelona hafa verið þvílíkt ævintýri.

„Ég hef alltaf átt stóra drauma og heillaði hinn stóri heimur mig frá fyrsta degi. Í Institute of the Arts Barcelona fékk ég þann heiður að vera hluti af frábærum alþjóðlegum bekk, þar sem bekkjarfélagar mínir komu frá ýmsum heimshornum, allir með sama markmið; að verða bestu leikarar sem við mögulega gátum.

- Auglýsing -

IAB, eins og hann er kallaður, er frábær vettvangur fyrir unga, upprennandi listamenn.

Innan veggja skólans er lagt mikið upp úr því að listamaðurinn útskrifist ekki einungis fær í sinni sérgrein, heldur sem alhliða sviðslistamaður. Því fékk ég ekki einungis menntun í leiklist heldur einnig í framsögn, raddþjálfun og raddbeitingu, skapandi skrifum, kvikmyndaleik, listasögu, nútímadansi, samkvæmisdansi, hreyfifræði, dýrafræði, pílates og viðskiptafræði.“

Á lokaárinu í náminu lagði skólinn líka áherslu á að útskriftarnemendurnir fengju tækifæri til að ræða bransann við atvinnufólk í faginu.

- Auglýsing -

„Það reyndist mjög gagnlegt til að fá innsýn í það sem beið okkar eftir útskrift. Við fengum að leikstýra okkar eigin barnaleikriti og fara með það sem farandleikhús í skóla borgarinnar og nágrenni. Síðan var auðvitað rúsínan í pylsuendanum sú að fá Kate Firth, systur Colins Firth leikara, til að kenna okkur raddþjálfun og raddbeitingu. En hún var einmitt raddþjálfari bróður síns í nokkrum af hans frægustu myndum, meðal annars King‘s Speech,“ segir Tanja Líf.

Tók á að leika dauða manneskju

Síðastliðinn vetur lék Tanja í þýskri sjónvarpsþáttaseríu og upplifiði þar eitt sitt erfiðasta hlutverk. Þegar leið á þættina var karakter hennar drepinn og þurfti hún að leika sig dauða tvívegis í þættinum.

„Það er þolraun út af fyrir sig, sérstaklega í kvikmynd þar sem myndavélin er oft kölluð hið alsjáandi auga og þú þarft því bara að gjöra svo vel að halda niðri í þér andanum, þar til þú heyrir „og klippa“, segir Tanja Líf brosandi og rifjar upp fleiri erfið og vandræðaleg atvik í leiklistinni:

„Ég lenti einu sinni í því að bölva óvart á sviði á meðan ég var að leika í Gosa. Þá sló heldur betur þögn á samleikara mína og ég gat séð að þeir urðu furðu lostnir. Svo þegar ég kom baksviðs hlógum við heldur betur að þessu og var ég spurð aftur og aftur, hvort ég hefði í alvöru sagt það sem ég sagði. Leiklistin er heldur betur skemmtileg, þar sem enginn dagur er eins og þú veist ekkert hvað mun gerast þann daginn.

Svo lék ég kvensjúkdómalækni í einni sýningu úti, sem var að framkvæma innri skoðun með eigin höndum, sú sena gat oft verið ansi skrautleg og hlægileg.“

Forréttindi að alast upp erlendis

Eins og áður segir, þá ólst Tanja Líf upp á erlendri grundu. Aðspurð segir hún það hafa verið þvílík forréttindi að kynnast því.

„Nú bý ég að að því að eiga vini frá öllum heimshornum, sem gaman verður að heimsækja í framtíðinni. Auk þess að tala reiprennandi þrjú tungumál og getað bjargað mér á tveimur í viðbót. Þetta opnar svo sýn manns á heiminn. Ég er miklu opnari fyrir breytingum og fer út í lífið með opinn huga. Það hefur kennt mér að heimurinn hefur upp á svo margt skemmtilegt að bjóða og að kynnast sem flestum menningarheimum er mitt markmið í lífinu. Eitt af mínum markmiðum er að vera búin að heimsækja öll undur veraldar fyrir fimmtugt,“ segir Tanja Líf dreymin.

En þá er komið að stóru spurningunni; hvort finnst Tönju betra að búa erlendis eða á Íslandi?

„Úff. Það er eiginlega ekki hægt að svara þessari spurningu. Hvort tveggja hefur sína kosti og galla. Ég hef alltaf verið afskaplega heimakær og Ísland hefur alltaf átt traustan sess í hjarta mínu. En það að vera með mína nánustu hjá mér er mér gríðarlega mikilvægt. Ég hef búið víða með fjölskyldu minni og mér fannst ég alltaf eiga heima á hverjum stað fyrir sig, en ég tel ástæðuna fyrir því vera þá,  að ég var alltaf með foreldra mína og systur hjá mér og átti alltaf góða vini.

Mér finnst að allir ættu að leggja mikið upp úr því að sanka að sér og læra ný tungumál. Að tala mörg tungumál opnar svo margar dyr og gefur þér tækifæri að tjá þig á móðurmáli landsins. Að geta tjáð sig á ólíkum tungumálum er lykilatriði í nútímasamfélaginu og að vera fær um að gera mig skiljanlega á fimm tungumálum er bara alveg æðislegt. Ég stefni á að læra vonandi fleiri tungumál í nánustu framtíð.

Ég er mikil félagsvera og það að vera fjarri fjölskyldu minni finnst mér alltaf erfitt, en á móti því vegur samt, að ég hef oftast búið í löndum þar sem veðrið leikur við mann alla daga og menningin er heillandi. Er ekki bara hægt að segja bæði? Mín starfsgrein snýst samt voða mikið um ferðalög og ég bý mig undir að þurfa að búa tímabundið á hinum ýmsu stöðum á meðan ég er í verkefnum, en ætli Ísland verði ekki alltaf hið endanlega „heima“ þess á milli.”

Ástin beið í crossfit

Þar sem Tanja Líf hefur dvalið langdvölum í ýmsum löndum, þar á meðal á Ítalíu og Spáni, hefði maður haldið að hún hefði jafnvel farið í samband með einhverjum myndarlegum heimamanninum. Eða urðu kannski engir sætir á vegi hennar?

„Jú, auðvitað. Fullt af þeim. En ég var búin að ákveða að binda mig ekki fyrr en að háskólanámi loknu. Ætlunin var bara við að klára námið fyrst og leika mér á meðan,“ segir Tanja Líf hlæjandi.

Þegar hún útskrifaðist sem leikkona í Barcelona var skollinn á heimsfaraldur. Fjölskylda Tönju var að flytja til Íslands á sama tíma og því ákvað hún að skella sér með. Hún hefur ávallt verið mikið fyrir hreyfingu og hreysti þannig hún ákvað að skella sér í prufutíma í crossfit þegar til Íslands var komið.

„Og bang. Ástin beið mín í crossfit og sambýlismaður minn bauð mér á deit eftir þriðja tíma. Við höfum verið saman síðan og erum svakalega hamingjusöm.“

Enginn dagur eins

Þegar Tanja var ung lék hún undir leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar leikara í barnaleikriti á sviði Þjóðleikhússins. Hún man enn þá eftir ráði sem Siggi gaf henni.

„Hann sagði mér að setja handritið mitt undir koddann, því þannig lærðust línurnar betur og að mig dreymdi þær meira að segja. Það má því segja að leikarinn sé alltaf með línurnar með sér, og það er ákveðinn sannleikur í því. Þær eru það fyrsta sem þú hugsar þegar þú vaknar, þú þylur þær í sturtunni, á meðan þú ert úti að hlaupa, yfir matnum og þær eru það síðasta sem þú hugsar áður en draumalandið tekur yfirhöndina,“ segir Tanja Líf.

„Hver og einn leikari hefur sína tækni til að læra línur, eins og í einleikjum, alveg eins og hver og einn er með sinn leiklistarstíl sem gerir okkur einstök á okkar hátt. Við þurfum að vera undirbúin til að gefa okkur öll í hvað sem við tökum okkur fyrir hendur, vera viðbúin því að allt geti gerst á sviðinu, hvort sem það eru óundibúin viðbrögð frá áhorfendum eða að mótleikari þinn fari út af sporinu.

Hjá leikara er enginn dagur eins. Alltaf einhver ný ævintýri og áskoranir til að takast á við. Maður þarf að vera mjög skipulagður hvað varðar undirbúning fyrir hlutverk. Þetta er ekki bara að fá handritið í hendurnar, blikka augunum og „voilá“, þú ert komin upp á svið með meistaraverk. Það þarf að læra línurnar sínar, kryfja karakterinn og hverja línu fyrir sig. Svo þegar þú ert búin að læra línurnar og stúdera handritið í þaula, hefst hin raunverulega gólfvinna. Svo er allt önnur tækni hvað varðar kvikmyndaleik.“

Meðvituð um harkið

Núna býr Tanja Líf á Íslandi og reynir að koma sér á framfæri á þröngum markaði leikara hér. Til að vera alveg hreinskilin segir hún leiklistabransann hér geta verið mikið hark.

„Þrátt fyrir að vera ört stækkandi er hann enn þá lítill og afskaplega mikilvægt að ná að mynda gott tengslanet og koma sér inn á réttu stöðunum. Svo hefur staðan ekkert skánað í þessu Covid-ástandi undanfarið, þar sem mörg verkefni hafa verið sett á bið og eru jafnvel 1-2 árum á eftir áætlun. Mér hefur því fundist of lítið um að leikhúsin og kvikmyndabransinn sé að taka inn nýtt fólk á meðan verið er að vinna úr þessari töf sem varð. Ég bind vonir við prufur hjá leikhúsunum og svo fékk ég nýlega stórt hlutverk í íslenskri bíómynd sem tekin verður upp næsta vetur.

En maður kemur sér inn í smærri verkefni á meðan, þar sem öll reynsla telur. Á sama tíma getur það verið snúið að ganga í augun á bestu umboðsmönnunum, því þeir vilja varla sjá mann nema maður sé kominn með fullt af verkefnum á ferilskrána og í kynningarmyndbandið.“

Leið eins og stórstjörnu

Án umboðsmanns náði Tanja Líf að tryggja sér hlutverk í þýsku sjónvarpsþáttaseríunni Balko, sem tekin var upp á Tenerife síðasta vetur. Þar leið henni eins og stórstjörnu enda dekrað við hana á tökustað frá upphafi til enda.

„Þar leik ég hina forvitnu og uppreisnargjörnu Maríu Vargas. Þetta er sakamálasería þar sem allt fer á annan endann og var ótrúlega gaman, en líka fremur óraunverulegt að sjá sjálfa mig leika í þættinum þegar hann var frumsýndur fyrir stuttu. Að fá þann frábæra heiður að taka þátt í svona stóru verkefni var algjörlega geggjað!“ segir Tanja Líf og heldur áfram:

„Mér leið eins og algjörri stórstjörnu frá A-Ö. Um leið og framleiðsluteymið hitti mig fyrst var alveg greinilegt að það átti að hugsa vel um mig. Ég var spurð í gríð og erg hvort mig vanhagaði um eitthvað. Hvort ég vildi bíða í einkaherberginu mínu á meðan ég biði eftir að mínar senur yrðu teknar upp. „Fá einn stól og vatnsflösku fyrir Tönju, takk“ var setning sem maður heyrði við minnstu bið.

Ég fékk minn eigin húsbíl þar sem ég gat hvílt mig milli sena. Ég mátti ekki brjóta saman mín eigin föt né búninginn, því það var fólk í vinnu við það. Ég var með einkasnyrti- og hárgreiðslukonu og alveg greinilegt að um risaverkefni var að ræða. Ferlið var algjör draumur frá degi eitt. Þótt dagarnir hafi oft verið langir var þetta svo þess virði og ég hlakka mikið til að taka þátt í fleiri svona verkefnum í náinni framtíð.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -