Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Páll Óskar stórskuldugur eftir Covid: „Fór að efast að maður ætti erindi í þennan bransa“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Allt í einu var manni kippt úr úr eigin lífi svo auðvitað fór maður að hugsa sinn gang. Hvort maður væri á réttum stað í lífinu og fór jafnvel að efast um hvort maður ætti erindi í þennan bransa. En svo þegar ég var búinn að flokka allar ljósmyndir í albúm og raða öllum salt- og piparkornunum í rétta stauka þá vissi maður að þetta er það sem mér er ætlað að gera og hefur alltaf verið ætlað enda á ég 30 ára starfsafmæli í ár,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson, eða bara Palli okkar eins og landsmenn þekkja hann.

Eins dauði er annars brauð

Palli hefur skemmt landsmönnum sleitulaust í þrjá áratugi frá því hann sló í gegn í söngleiknum Rocky Horror og viðurkennir að inniveran og aðgerðarleysið í Covid hafi tekið á, þótt hann hafi aldrei lagt árar í bát. „Það var gott að geta dúllast heima en maður var auðvitað tekjulaus. Tekjufallsstyrkurinn og viðspyrnustyrkurinn björguðu mér fyrir horn svo ég náði alltaf að greiða mínar skuldir og eiga mjólkurfernu í ísskápum. Svo héldu jarðarfarirnar manni dálítið á floti því það nú þannig að eins manns dauði er annars brauð.

En þetta minnti mann svolítið á gamla daga þegar maður var ungur að byrja og reyna að ná endum saman. Það er gott að finna aftur hvað það er sem raunverulega skiptir máli”.

Palli sló fyrst ærlega í gegn í söngleiknum Rocky Horror fyrir sléttum 30 árum. Mynd: Skjáskot YouTube.

Palli segist ákveðinn í því að skemmta landsmönnum út árið. „Ég ætla ekki á neitt spreðerí, engin fatakaup né útlandaferðir. Ég ætla bara að njóta þess að koma aftur fram og borga mínar skuldir, ég er alveg stórskuldugur eftir CovidWork nowplay later er mitt mottó núna. Svo er aldrei að vita nema maður leyfi sér kannski smá sólarferð í janúar sem er góður mánuður í það”.

Aldrei fundið jafn fölskvalausa gleði

- Auglýsing -

Hann getur ekki falið spenning sinn yfir að geta farið að skemmta aftur eftir að Covid bönnum var aflétt enda var honum biðin erfið. „Það er bara einhver sprengja í gangi. Um leið og Svandís tilkynnti afnám haftanna fór bara allt á fullt og við erum í kapphlaupi við tímann að skipuleggja þetta allt saman. Það þurfti að hafa hraðar hendur við skipulagningu því það er svo margt fram undan og kapphlaup við tímann að skipuleggja allt”.

Palli spilaði á fyrsta stóra ballinu sínu á Stöðvarfirði í eitt og hálft ár fyrir sléttri viku og svo á Pollamótinu á Akureyri og er þessi helgi þéttbókuð og er sömu sögu að segja alla laugardaga út árið. „Ég verð að segja að ég hef aldrei á ævi minni kynnst og fundið fyrir jafn fölskvalausri gleði og núna. Það er bara sprengja í gangi. Þetta kom allt til baka og ríflega það.

Pallaböllin trylla. Mynd úr einkasafni.

Þá fékk ég aftur þessa fullvissu um að ég væri réttur maður á réttum stað að gera það sem ég geri best. Ég elska að eiga þetta samtal við áhorfendur, gefa þeim orku og fá hana til baka. Réttu mér míkrófón, ég er fæddur í þetta.” Palli hlær, getur ekki falið spenningin að vera kominn aftur af stað.

- Auglýsing -

Gleði og partýhungur

Komandi Gleðiganga er að sjálfsögðu ofarlega í huga Palla og er hann á kafi við skipulagningu Hinsegin daga. „Þetta verður sko alvöru partí, gleðiganga með öllu”. Auk þess er hann bókaður á bæjarhátíðir þvers og kruss um landið fram á haust. „Ég verð á Kótilettunni í Selfossi í kvöld og í Hjálmakletti í Borgarnesi á morgun þar sem bæði er Hinsegin hátíð Vesturlands og hestamannamóti. Það spái miklu stuði þar“

Palli segir að nú þurfi að bretta upp ermar því bæði þurfi að vinna upp tapað fjör frá í fyrra og halda uppi fjörinu í ár. „Gleði, endalaus gleði og partýhungur. Það er það sem lífið gengur út á”.

En hvernig gengur Palla að vera alltaf svona hress? Verður hann aldrei þreyttur á að bruna landshornanna milli til að skemmta? Hann er sko ekki á því. „Nei, veistu að ég hef alltaf lifað heilbrigðu lífi og farið vel með mig. Ef ég fæ minn 8 tíma svefn get ég troðið upp daglega. Og elska það”.

Hef ekkert að fela

Þegar Palli tekur sér frí horfir hann á gamlar bíómyndir en hann á gríðarlegt safn klassískra kvikmynda á filmu sem hann hefur safnað að sér í gegnum árin. „Ég held að ég eigi sennilega alla klassík kvikmyndasögunnar. Að upplifa filmubíó er eins og að hlusta á 78 snúninga plötu og þannig næ ég minni hvíld og minni jarðtengingu”.

Palli lenti í því í vor að óprúttinn aðili, sem villti á sér heimildir, dreifði af honum nektarmyndum sem Palli hafði sent honum í trúnaði í gegnum stefnumótaforrit. Palli gefur lítið fyrir þessa uppákomu og segist alveg standa á sama. „Skömmin er aldrei hjá þeim sem treystir, skömmin er hjá þeim brýtur traustið. Ég skilaði skömminni fyrir 30 árum og hef ekkert að fela.”

Palli er einhleypur en er einhver rómantík í loftinu þetta gleðisumar? Pallir hlær. „Nei, en endilega hringdu í mig ef þú veist um einhvern sem er skotinn í mér. Nei, nei annars, ég er bara að grínast. Ástin kemur þegar henni er ætlað að koma,” segir Palli sem þarf að rjúka. Hann þarf í sándtjekk.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -