Sunnudagur 5. desember, 2021
-2.4 C
Reykjavik

Alice er í krabbameinsmeðferð: „Sagði mér strax að þetta liti ekki vel út“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Alice Olivia Clarke heldur úti versluninni Tíra í Firði verslunarkjarnanum í Hafnarfirði þar sem hún selur ljómandi fylgihluti sem hún hefur hannað og búið til frá árinu 2008. Hlutirnir eru úr samofnum lopa og er endurskinsþráður undirstaða Tíru, sem hefur hjálpað ótal Íslendingum að verða sýnilegri á undanförnum árum.

Ástæða þess að hún hóf framleiðslu á þessum fallegu endurskinsmerkjum er að engu munaði að hún hafi ekið á manneskju sem var nær ósýnileg í dökkum fötum í vetrarmyrkrinu á Íslandi. Þá fór Alice að líta í kringum sig og tók eftir að of fáir voru með endurskinsmerki. En nú snýst þetta ekki bara um sýnileika í svarta myrkri heldur mun fremur um að upplýsa. Auka vitneskju um brjóstakrabba og að minna á brjóstasjálfsskoðun.

Nýir fylgihlutir gera það á einstakan hátt, en Alice er sjálf í miðri krabbameinsmeðferð og er stærsta æxlið á stærð við Djúpalónsperlu

Fjölskylda og vinir hafi myndað skjaldborg um hana

Hugmyndin af þessu verkefni kviknað út frá því þegar: „ég fann sjálf æxlið,“ segir hún í samtali við Steingerði, blaðamann Vikunnar. „Ég var bara að dansa heima, svona eins og maður gerir. Ég hef alltaf tékkað af og til og allt í einu fann ég eitthvað undir fingurgómunum og hugsaði með mér: Hey, hvað er í gangi. Eitthvað óvenjulegt var í brjóstinu þannig að ég færði fingurna neðar og undir hendurnar og þar var eitthvað meira. Læknirinn minn, hún er dásamleg. Hún sagði mér strax að þetta liti ekki vel út og upp í hugann kom bara: Já okei. Ég var komin í brjóstamyndatöku innan örfárra daga og fékk nákvæmari skoðun. Ég fór líka í sónar og allan tímann meðan á því stóð fundust mér æxlin helst líta út eins og steinarnir á Djúpalónssandi og þá fæddist þessi hugmynd.“

Ágóði af sölu þessara einstöku fylgihluta mun renna til Krabbameinsfélagsins og styrkja rannsóknir á brjóstakrabbameini. Alice segir að fjölskylda hennar og vinir hafi myndað um hana skjaldborg og sýnt henni einstaka umhyggju en það hafi samfélagið í Hafnarfirði gert líka.

- Auglýsing -

Þegar ég fékk greininguna hélt Kári í höndina á mér. Ég fann að ég varð að loka á allt í smástund og sagði við hann: „Þú verður að hlusta og taka inn allar upplýsingarnar. Ég verð bara að vera hérna inni í mér.“ Hann svaraði. „Já, ég geri það.“ Allt í einu kom hjúkrunarfræðingurinn með alls konar bæklinga og upplýsingar um Ljósið og fleiri úrræði og ég tók við þeim og fór að skoða þá. Þá rann upp fyrir mér að þar voru engir eins og ég og ég velti fyrir mér, er ekkert dökkt fólk með krabbamein?“

„Fjölmenningarsamfélagið er tiltölulega ungt á Íslandi og vantar enn þá fleiri liti hins mannlega litrófs í bæklingana hér,“ segir Steingerður Steinarsdóttir, blaðamaður Vikunnar. Alice tekur heils hugar undir það en bætir við: „en við erum með alls konar fólk núna, í það minnsta er einn í hverri fjölskyldu sem er alls konar. Við verðum að fara að opna augun fyrir því. Það var meðal annars þess vegna sem ég vildi takast á við þetta verkefni. Hluti af því er að opna augu samfélagsins fyrir fjölbreytninni. Ég og Embla Sigurgeirsdóttir leirlistakona völdum saman pallettu alls konar lita svo vörurnar væru ekki bara bleikar, bláar eða hvítar til að skapa eitthvað sem tekur meira tillit til allra. Þetta er mjög spennandi. Í stað þess að hrópa upp yfir mig, ooo af hverju er þetta svona hugsa ég alltaf, gerum eitthvað í því, breytum því.“

Var að hefja kynleiðréttingaferli

„Á þessum tíma var sonur okkar að hefja kynleiðréttingarferli. Við erum svo heppin að eiga þá stund sem mælikvarða á þær breytingar sem hafa orðið í lífi okkar og þær áskoranir sem við höfum þurft að takast á við.“

- Auglýsing -

Sigtýr, eldri sonur Alice og Kára, er transmaður og fjölskyldumyndin er tekin á mjög dýrmætu augnabliki. „Eitt af því merkilegasta við þetta verk er að það er tímamælir. Það gerist á þessari upphafsstundu ferlisins og fangar það augnablik um eilífð. Sonur okkar var á þessum tíma rétt að hefja kynleiðréttingarferlið. Við erum svo heppin að eiga þá stund sem mælikvarða á þær breytingar sem hafa orðið í lífi okkar og þær áskoranir sem við höfum þurft að takast á við. Þegar ég er búin í lyfjameðferðinni og þessu er öllu lokið ætla ég að fara út til Danmerkur og horfa á myndverkið. Það verður áhugavert að sjá hversu mikið hán hefur breyst síðan þá. Það má líkja þessu við þegar börnin eru lítil og við horfum stundum á þau og veltum fyrir okkur hvernig þau muni líta út þegar þau vaxa upp. Nú horfi ég á son minn og sé hversu myndarlegur, hæfileikaríkur og sterkur hán er og það er dásamlegt. Að geta horfið aftur til þess augnabliks þegar allt þetta var að hefjast er svo magnað.“

Styrmir, yngri sonur Alice og Kára, er núna í Lýðháskóla í Danmörku að læra innanhússhönnun, húsgagnahönnun, leirlist og eitt enn fag sem mamma hans man ekki hvað er í augnablikinu. „EEH, eitthvað skemmtilegt, eitthvað sem passar inn í þennan heim,“ segir hún og skellihlær. Kári átti dótturina Ýr fyrir og Alice fékk hana í kaupbæti. „Ég er búin að þekkja hana mjög lengi,“ segir Alice og væntumþykjan leynir sér ekki í röddinni.

Kynntust í Kanada

En hvernig stóð á því upphaflega að stúlka frá Ottawa í Kanada tók sig upp og hélt til Íslands? „Ég kynntist manninum mínum, Kára Eiríkssyni, þegar hann var að læra arkitektúr úti í Kanada fyrir þrjátíu árum. Við höfum verið saman lengi, lengi,“ segir hún og brosir sínu ljómandi brosi. Það er augljóst að árin hafa liðið fljótt og ekki verið leiðinleg. Þau bjuggu í Kanada í tvö ár meðan Kári var að klára námið en fluttu hingað árið 1993. „Ég hef í raun búið lengur á Íslandi en í Kanada,“ segir hún. „Ég var tuttugu og tveggja þegar ég kom og er nú fimmtíu eins árs.“

Hjónin búa í gömlu húsi í miðbæ Hafnarfjarðar. Þar er meðal annars að finna falleg mósaíkborð eftir hana og í kjallaranum er arkitektastúdíó Kára og vinnustofa.

 

Heimild:

Steingerður Steinarsdóttir.2021. „Ég vel mína slagi vandlega.“ Vikan.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -