Þriðjudagur 30. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Ítalska eldhúsið án pítsu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég hef oft verið innt eftir því hvað sé uppáhaldsmaturinn minn en þeirri spurningu hef ég alltaf átt svolítið erfitt með að svara. Mér finnst nefnilega svo margt gott, hver getur til dæmis gert upp á milli grillaðs humars með hvítlaukssmjöri og cacio e pepe eða hinnar dásamlegu taílensku tom kha kai-súpu og nautasteikur með béarnaise, þetta eru allt frábærir réttir séu þeir gerðir eftir góðum uppskriftum og úr gæðahráefni. Og þar er komið svarið við spurningunni um uppáhaldsmatinn minn, allt sem er vel gert úr fyrsta flokks hráefni – sem sagt gæði. Auðvitað er ég samt meira fyrir ákveðnar matargerðir og sumt hráefni finnst mér betra en annað. En smekkur manna breytist líka með árunum og það sem mér þótti einu sinni gott finnst mér ekki endilega gott í dag. Það er gaman að ganga í gengum mismunandi tímabil og fá hálfgert æði fyrir einhverjum mat eða matargerð en gæðin verða alltaf að vera í fararbroddi.

Í lok maí fór ég hringinn um landið sem var hreint dásamlegt enda fáir á ferli. Á þessu ferðalagi fór ég á nokkuð marga veitingastaði úti á landi en þeim hefur fjölgað mikið undanfarin ár, þökk sé erlendum ferðamönnum. Almennt séð fékk ég góðan mat og nokkuð víða voru gæðin framúrskarandi en svo virðist sem verð og gæði fari ekki alltaf saman. Í einu ágætu sjávarþorpi fór ég á tvo matsölustaði, annar var á hóteli en þar kostaði mjög góð sjávarréttarsúpa með heimabökuðu sælkerabrauði og þeyttu smjöri rétt undir tvö þúsund krónum á meðan sjávarréttasúpa á hinum staðnum kostaði 2.550 kr. og þar var brauðið vont og smjörstykki í plastumbúðum hent með og ég þarf ekkert að ræða gæðamuninn á súpunum. Mér finnst grátlegt að borga dýrum dómi fyrir vondan og lélegan mat en sé yfirleitt aldrei eftir aurnum ef ég hef verið mjög sátt. Ég mæli í það minnsta með því að fólk leiti uppi bestu veitingastaðina í hverju plássi en það er best gert með því að spyrja hlutlausa heimamenn, þeir hafa líklega prófað staðina og eru ólíklegir til að vera í „samstarfi“ við ákveðna staði.

Fátt finnst okkur hér á ritstjórn Gestgjafans skemmtilegra en að ferðast og fara á nýja og framandi veitingastaði í útlöndum. Það reyndist því svolítið erfitt að vinna þetta ítalska blað í farbanninu en við höfðum stefnt á ferðalög til Ítalíu einmitt til að skanna matargerðina og matsölustaðina og Folda matreiðslumaður átti meira að segja bókaðar tvær Ítalíuferðir í vor og byrjun sumars. En í stað þess fórum við saman til Ítalíu í gegnum matinn sem við bjuggum til í þessu blaði og óhætt að segja að ástríðan á ítalskri matargerð hafi skinið í gegn í hverjum einasta rétti. Helsta vandamálið var að takmarka okkur við stærð blaðsins sem er 100 síður en við vorum fljótt komnar með efni í heila bók sem er önnur saga. Ofan á varð að við myndum velja nokkra af okkar uppáhaldsréttum og viti menn, þar var engin pítsa, en það er allt í lagi því ítalskur matur er svo miklu meira en hin margrómaða flatbaka. Þá er ekkert annað eftir en að setja ítalska tónlist á fóninn, hella smávegis rauðvíni í glas og byrja að elda allar munúðarfullu uppskriftirnar og njóta „la dolce vita“ sem Ítalir kunna svo sannarlega að gera.

Buon appetito Hanna Ingibjörg

Ritstjórapistill úr 7. tbl. Gestgjafans – Ítalska blaðið

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -