Af hverju á ég að halda kjafti og vera sæt?

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Druslugangan var farin klukkan 14 í dag og í kjölfarið voru fluttar ræður á Austurvelli. Önnur ræðukonan var Sigrún Bragadóttir sem deildi meðal annars reynslu sinni af bataferli eftir kynferðisofbeldi. Hér er ræða í heild sinni.

„Hæ
Ég heiti Sigrún og ég er drusla!
D. R. U. S. L. A.
DRUSLA
En hvað er það og hver ákveður það?
Haldiði ekki bara að árið 2019 skilgreini Íslensk nútímaorðabók druslu sem:
-konu sem hefur litla siðferðiskennd, lausláta konu
en samt líka:
-lélega flík
-lélegan bíll, bíldrusla
-duglaus manneskju, aumingja

Ég veit það sossum ekki fyrir víst EN mig grunar að þegar móðuramma mín,
sjóarinn og smyglarinn, talaði um að hún væri eitthvað drusluleg var hún
pottþétt ekki að meina: „Æji, ég er eitthvað svo agalega lauslát í dag, ha! Ég bara finn hvernig siðferðiskenndin mín hefur bara hríðfallið í dag, já sei sei.” Nei. Hún var pottþétt að meina að hún væri half slöpp, eitthvað „eymingjaleg” eins og hún hefði orðað það.
Árið er 2019 og orðið Drusla er enn notað til að stimpla, aðallega kvenkyns, brotaþola. Stimpillinn er kúgun og stimpillinn er þöggun. Stimpillinn er leið til að segja þeim að halda bara kjafti og vera sætar. Og gerir þær ábyrgar fyrir ofbeldinu. Það er þess vegna sem við tökum þennan stimpil í dag og afhelgum hann, gerum hann okkar. Og það! Það er valdefling.

Þið vitið það rétt eins og ég að brotaþolar eru allskonar. Brotaþolar eru á öllum aldri, af öllum kynjum og með allskonar líkama. Brotaþolar eru líka börn.

Fyrir 3 árum byrjaði ég með rafræna dagbók undir myllumerkinu Bataferli Sigrúnar á Twitter. Ég vildi gefa litlu stúlkunni mér pláss, stúlkunni og unglingnum sem var brotið á. Vildi gefa þeim tilverurétt.
Sjáiði til, áður fyrr ég vildi oft hverfa. Ég vildi segja þessum litlu stúlkum innra með mér að ofbeldið væri ekki þeim að kenna, að þær væru ekki aumingjar. Með sinn loðna lubba og stóru framtennur. Með sinn stóra hlátur sem truflaði marga. Hláturinn sem var við það koðna þegar ég byrjaði að skrifa um afleiðingar. Þetta var í aðdraganda druslugöngunnar 2016 og var líka gert í þeim tilgangi að fjalla um lúmskar afleiðingar kynferðisofbeldis.

Sjáið til, samfélagið, sérstaklega fjölmiðlar, lögreglu-, réttar- og dómskerfið, bíómyndir og þess háttar, er oft alveg úti að skíta þegar kemur að því að vita eitthvað um afleiðingar þess ofbeldis þegar líkaminn, hugurinn og tilveran er valdsvipt með þessum hætti.
Eða kanski bara villl samféalgið ekki vita það því það er svo agalegt óstuð að vera „fórnarlamb“ og ólekkert að hugsa til þess að heimurinn sé ekki öruggur staður að vera í. Hvað þá að brotaþolar geti verið bara venjulegt fólk að þrauka í tilverunni sinni, borga húsnæðislán, bora í nefnið eða að tana á Tene með fjöllunni.

Brotaþolar eru nefnilega allskonar og afleiðingarnar sem þeir druslast með í gegnum lífið og tilveruna eru líka allskonar. Afleiðngar eru nefnilega ekki eins og svona ONE SIZE-FITS ALL peysa úr H&M. Sumir brotaþolar eru reiðir, sumir eru breiðir-með sig. Aðrir brotaþolar eru ennþá dofnir og enn aðrir eru horfnir. Fyrir fullt og allt. Því ómeðhöndlaðar afleiðingar geta drepið. Ég hélt t.d. aldrei að ég myndi lifa svona lengi eins og ég hef gert. En mótþrói getur sko líka verið bjargráð.

Margir brotaþolar eru leiðir og flestir eru líka reiðir. Og viti hvað? Það er bara allt í læ’ þegar ekkert er í læ’. Reiði getur verið holl. Reiði er tilfinning. Og tilfinningar, þær bara eru. Hvorki réttar né rangar. Okkur getur ekki liðið rangt. En tilfinningar geta verið ólíkindatól, jafnvel logið að okkur. Sagt að við séum ógeðsleg, jafnvel aumingjar. Þannig túlka tilfinningar ekki alltaf raunveruleikann. Og fyrir brotaþola er oft kúnst að greina þarna á milli. Því við lærum að efast um dómgreindina okkar. Það gerir mandlan, þessi frumstæði hluti heilans sem
er við stjórnvölin þegar við verðum fyrir áföllum. Hún jafnvel segir okkur að við megum ekki vera reið, en reiðin er eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Að segja brotaþolum að þeir megi ekki vera reiðir er bara ein birtingarmynd af HALTU KJAFTI OG VERTU SÆT
eða sætur – sætt. Því muniði? Brotaþolar eru af öllum kynjum.

Um daginn var ég rosa reið og það var gott. Því í gegnum bataferli mitt get ég beint reiðinni þangað sem hún á heima. Muniði hvað ég sagði með að reiði væri holl? Málið er að reiði getur verið óholl líka. Sérstaklega þegar henni er beint inn á við, að þeim eiga hana ekki skilið og þegar henni er beint að börnum. En um daginn var ég mjög reið. Úff já. Enn ein fréttin um firrtu raunveruleika- sápuóperuna sem hæstaréttur er.

Fjölmenni var í Druslugöngunni sem hófst hjá Hallgrímskikju kl. 14 í dag. Mynd/Mannlíf

Dómar hans í kynferðisbrotamálum gera mig alveg tjúll. Sem er frekar mikið afrek fyrir stútúngskjéllíngu eins og mig. Í marga áratugi deyfði ég mig til að forðast reiðina. En núna fer ég bara í störukeppni við helvítis tíkina, tek á móti, og hnoða jafnvel í eina litla ljóðalíkisdruslu sem ég kalla:HALTU KJAFTI OG VERTU SÆT. Ég set inn viðvörun hérna, því ljóðið samdi ég út frá gerendavænu orðarunkinu sem dynur á brotaþolum daglega.
Sérstaklega í athugasemdum netmiðlanna. Sem minna meira á vörtu á rasskinn Satans en
upplýsta umræðu. Það er líklegra að Þvörusleikir gefi mér juðara í skóinn en að þessir fjölmiðlar …
JÁ ANDSKOTINN HAFIÐA DV.IS ÉG ER AÐ HORFA Á ÞIG!!
… hætti að hafa opið fyrir athugasemdir á vefmiðlum sínum.

Ljóðið er einhvernveginn svona:

Haltu kjafti og vertu sæt
og ef þú værir æt
myndi ég bókstaflega éta þig
upp til agna
Haltu kjafti og vertu sæt
Af hverju ertu alltaf að snapa fight?
Ég hef ekki stjórn á mér
þegar ég er í kringum þig
Var ekki búið að kenna þér
að ÉG get ekki hamið mig?
Æi kommonn kysstu mig!
Vert’ekki svona þver!

Af hverju varstu þá svona ber
á Instagram?
Haltu barasta kjafti
og vertu sæt!
Þú veist’etta var þér að kenna
þér var nær
Það varst þú sem varst í stuttu pilsi
í gær
Þung á brún
há eða sver
hann, hún, hán
því er nú ver
það er þér að kenna
þegar miður fer
það segjaða allir
meira að segja kallarnir í hæstarétti
á Alþingi
OG á Klaustri
æi þessir þarna
sem tala með hraustri
röddu og segja:
haaaltu kjafti og vertu bara sæt
er ekki allt ollrætt?
Ha? Fallegt hatur og fínerí?
Kallarúnk og svínerí!
Já, er þetta ekki allt bara hluti af forleik
jafnvel spennu?

En ef þeir hefðu nú bara nennu
að taka höfuðið úr eigin forréttindarassi
sæu þeir að brotaþolar
eru allskonar fólk
með sitt venjulega líf
að þrauka í trassi
við trega, tráma, og tár.

Já …

En svo er það málið með vonina. Er það eitthvað ofan á brauð? Er eitthvað hægt að púkka upp á hana þegar allt virðist vera á leiðinni í norður og niðurfallið?
Ég mun aldrei segja öðrum brotaþolum hvernig þeir eiga að bera sig að í sínu eigin bataferli. Muniði það sem ég sagði áðan með að afleiðingar væru ekki eins og peysa úr
H&M? Það gildir nefnilega um bataferli líka. Vonin er það sem hélt mér á lífi. Fyrir mér er vonin er falleg og hún er drifkraftur. Og vonin fékk byr undir báða vængi þegar ég byrjaði að skrifa um bataferlið mitt.
Ég hafði ekki verið mikið fyrir að gaspra um mig og mína einkahagi á netinu. Þessi kvenlega hógværð „afsakið mig ef mig skyldi kalla” var nefnilega afleiðing, afleiðing sem var að kæfa mig. Afleiðing sem reyndi að sannfæra mig um að ég ætti ekki tilverurétt.
Og það sem ég var hrædd. Hrædd um að vera hafnað. Þó ég hafi alltaf verið stór og sterk og brussuleg með ADHD fyrir allan peningin, tala hátt og hlæja enn hærra þá fannst mér samt erfitt þegar athyglin beindist að MÉR. Píunni bak við grímuna. Ég hélt að það kæmist upp um mig, rétt eins og ég væri með morðið á Olaf Palme á samviskunni.
En vonin, krakkar mínir komiði sæl, vonin er lúmskur andskoti. Og það er vonin, og ókei … pínulitið mótþróinn líka … sem fær mig til að botna leirburðinn hér að framan. Núna frá sjónarhóli brotaþola til brotaþola að gefa skít í gerendameðvirkni.
Með því óska ég okkur öllum, brotaþolum, ættingjum og gerendum í bata, góðs gegnis í ykkar eigin bataferli.
Upp og áfram!

Lifi byltingin

Móðir, kona, meyja
fósturlandsins freyja
fagra vanadís
trúðu mér þegar ég segi:
ekki hlust’ á’ann
plís!
Hann lýgur meir’ en hann mýgur
Hann er skaðinn, hann er skollinn
og hann er voðinn vís
Sælasti svanni, sprækasta sprund
þetta hér
er þín stund!
Þú ert stormurinn, þú ert hafið
jafnvel með þitt blæðandi hjarta
og gapandi und
Út með sprokið
ég stend með þér
svo þeir fá ekki glæp sínum strokið
af sakramentinu burt
þetta verður ekki létt
þeir munu urrra, bíta og skrækja
HELVÍTIS SKÆKJA
en eitt máttu vita
ég trúi þér
og þér
og þér
Við neitum að halda kjafti
og vera bara sæt
Neitum að þegja og vera æt

Dullist hingað ef þið þorið
við erum tilbúin í’etta fokkíng fight!

Takk fyrir.“

Sjá einnig: Óttaðist að fólki fyndist hún ógeðsleg

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Andrés við fótskör Davíðs

ORÐRÓMUR Ráðning Andrésar Magnússonar, fjölmiðlarýnis Viðskipablaðsins, í starf fulltrúa ritstjóra Morgunblaðsins vekur nokkra athygli, aðallega í fjölmiðlaheiminum.Ýmsar...