2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Byggja lúxushótel í skugga samdráttar

Íslandshótel vinna að því að reisa fjögurra stjörnu hótel við Lækjargötu þrátt fyrir að hægt hafi á fjölgun ferðamanna að mati forráðamanna í ferðaþjónustu. Á síðasta ári tóku Íslandshótel 2.869 milljóna króna lán til 30 ára í tengslum við framkvæmdirnar.

Íslandshótel vinna að því að reisa fjögurra stjörnu hótel við Lækjargötu. Í hótelinu verða 125 herbergi ásamt veitingastað. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í sumar og að þeim ljúki sumarið 2020. Íslandshótel eru ein af stærstu hótelkeðjum landsins og á fyrritækið 18 hótel víða um land, þar af níu á landsbyggðinni. Á meðal hótela Íslandshótela eru Grand Hótel, Fosshótel sem eru víða um land, Hótel Reykjavík Centrum og fleiri.

Á síðasta ári tóku Íslandshótel 2.869 milljóna króna lán til 30 ára í tengslum við framkvæmdirnar. Í vikunni var birt lýsing í tengslum við umsókn um að skuldabréf í flokknum yrðu tekin til viðskipta í Kauphöllinni. Í lýsingu með láninu kemur fram að hagnaður Íslandshótela nam 401 milljón króna á síðasta ári. Þetta er 57% samdráttur frá árinu 2016 þegar hagnaðurinn nam næstum 940 milljónum króna. Tekjur námu á sama tíma 10,9 milljörðum króna sem var 13% aukning á milli ára. Samdrátturinn skýrist öðru fremur að hærri launaliðum og meiri kostnaði en áður, auk afskrifta og virðisrýrnunar.

Í lýsingu með láninu kemur fram að hagnaður Íslandshótela nam 401 milljón króna á síðasta ári. Þetta er 57% samdráttur frá árinu 2016 þegar hagnaðurinn nam næstum 940 milljónum króna.

Í lýsingunni eru jafnframt talin fram nokkur atriði sem geta haft áhrif á stöðu lánsins. Þar helst eru breytingar á gengi gjaldmiðla á eftirspurn eftir þjónustu Íslandshótela. Tekið er fram að mikil styrking íslensku krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum, geti gert verðlag á Íslandi óhagstæðara fyrir ferðamenn og geti þróunin dregið úr komu þeirra til landsins. Þá gæti neyslumynstur þeirra líka breyst á ferðum þeirra hér, til dæmis ef gestir kjósa í auknum mæli að nýta sér aðra gistimöguleika en hótel. Þá er tekið fram að ferðaþjónusta er fremur vinnuaflsfrek starfsgrein og mikil samkeppni um gott starfsfólk. Það geti leitt til hækkana samningsbundinna launa og launaskriðs sem geti leitt til aukins launakostnaðar og eða lægri teikna og hagnaðar Íslandshótela.

Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Eldeyjar. Mynd / Jónatan Grétarsson

AUGLÝSING


Ekki náðist í Davíð Torfa Ólafsson, framkvæmdastjóra Íslandshótela, í tengslum við fréttina. Haft var eftir honum í Morgunblaðinu á dögunum að færri hópar ferðamanna komi til Íslands frá Evrópu. Á móti vegi að ferðamönnum hefur fjölgað frá Asíu og Ameríku. Þegar árið verði gert upp telji hann að ferðamönnum muni ekki fækka.

Síðasta ár erfitt fyrir ferðaþjónustuna
Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Eldeyjar, sagði í Markaðnum, viðskiptakálfi Fréttablaðsins, í vikunni að ferðamönnum hefði fækkað í apríl í fyrsta skipti á milli ára frá árinu 2010. Hún sagði síðasta ár hafa verið flestum fyrirtækjum í ferðaþjónustu erfitt. Þar hafi spilað inn í sterkt gengi krónunnar og aukinn launakostnaður. Það hafi dregið úr arðsemi í ferðaþjónustu. Erlendir ferðamenn hafi leyft sér minna en áður, fari í færri skipulagðar ferðir og velji ódýrari kosti.

„Ég hugsa að við sjáum mögulega fram á samdrátt í fjölda ferðamanna í ár. Það skiptir máli hvaða augum mál eru litin. Jafnvel þótt það verði lítils háttar samdráttur í ár, verða ferðamenn tvöfalt fleiri en fyrir fimm árum. Það gleymist oft að almennt er talið að 3% vöxtur sé eðlilegur í ferðamennsku.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is