Föstudagur 26. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

„Ein kerling étur ekki svo mikið“ – Bettý einangruð í tvo mánuði – Björgunarsveitin kom með mat

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það var að verða lítið eftir í kotinu enda hefur ekki fallið til ferð í tvo mánuði. Björgunarsveitin á Flateyri hjálpar mér stundum þegar erfitt er um færð og búrið að tæmast“ segir Elísabet Anna Pétursdóttir bóndi á Sæbóli á Ingjaldssandi.

Elísabet, eða Bettý eins og hún er jafnan kölluð, hefur í tvo áratugi verið einbúi í þessari afskekktu sveit sem líkast til er einangruðust allra sveita á Íslandi þar sem hún kúrir í skjóli hárra fjalla við utanverðan Önundarfjörð.

Bettý ólst að töluverðu leiti upp á Sandinum og hóf þar eigin búskap fyrir liðlega þremur áratugum. Árið 2001 var hún ein orðin eftir í dalnum, aflokuð á vetrum með son sinn sem nú er fluttur að heiman og sestur að handan fjarðar á Flateyri.

Dimmir langir vetur eru harðir og erfiðir þannig að ekki verður skotist í búð þegar eitthvað vantar. „Ein kerling étur ekki svo mikið að þetta sé vandamál. Ef mig langar í eitthvað framandi eins og grænmeti er lítið annað að gera en að setjast niður og bíða eftir að þörfin líði hjá. Ég er ekki alin upp við mikið grænmetisát. Hér voru borðaðar rófur með mat framan af vetri og svo auðvitað kartöflur en grænmetið var og er Ora baunir í dós.
Eini munaðurinn sem ég verð að eiga er súkkulaði. Þó það skemmist í búrinu líður mér illa ef ég á það ekki til.“

Frelsandi englar af fjalli

Björgunarsveitarmenn fóru um síðustu helgi upp úr Valþjófsdal, tveimur dölum innan við Ingjaldssand, og þaðan út fjallgarðinn og um Sandsheiði og niður í byggð til að færa Bettý vistir. Einn björgunarsveitarmannanna er Þór Engholm sonur Bettýar og að vonum urðu fagnaðarfundir hjá þeim mæðginum.

„Þeir koma af fjallinu eins og frelsandi englar með allar þær nauðsynjar sem mig vanhagar um. Strákurinn stakk inná sig nokkrum banönum fyrir gömlu konuna en þeir frusu á leiðinni þrátt fyrir að vera undir úlpunni hans. En það kemur að því að ég fæ banana aftur, þeir hafa svo sem aldrei verið hluti af vetrarfæðu hérna.“

- Auglýsing -

Erfið færð hlýtur samt að skapa mikla erfiðleika fyrir þessa harðgerðu konu sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Þegar barist er við heiðina í vetrarbyrjun eru oft svellalög og glæfrafærð sem ekki öllum er gefið að leggja út í.

„Auðvitað er færðin á þessari leið oft erfið þegar enn er hægt að komast um en ég þarf ekkert að vera á stöðugu útstáelsi og er sjálfri mér nægur félagsskapur. Ég þarf að sýsla við féð og svo er alltaf eitthvað viðhald, nú er ég að ditta að íbúðarhúsinu. Það kemur reyndar oft fyrir að það vanti þriðju hendina eins og þar stendur.“

Sumir koma að skoða mig

Bettý er listakona, hún hvílir ekki vinnulúna fingur þegar degi hallar, heldur sest við og skapar með huga og hönd fjölbreytt handverk sem hún selur þeim fjölda gesta sem koma á Sandinn til að berja augum þessa afskekktu sveit hvar Bettý býr ein og unir sér í dalnum sem ól hana í baráttu við náttúruöfl hafs og fjalla.

- Auglýsing -
Elísabet Anna Pétursdóttir á Injaldssandi
Bettý og Þór sonur hennar við vistasleðann sem búið var að brjótast með eftir vestfirska fjallgarðinum vestan Önundarfjarðar
Ljósmynd: Eyþór Jóvinsson

„Ég reyni að dunda við handverkið þegar færi gefst, það koma margir hér á sumrum til að skoða sig um. Sumir koma bara til að skoða mig held ég, segjast hafa heyrt af gamalli einsetukonu sem gaman sé að heimsækja.

Aðrir kaupa eitthvað þannig að ég verð að eiga eitthvað fallegt fyrir það fólk sem tímir að draga upp budduna.

Dagatal Vegargerðarinnar segir að vegurinn verði opnaður í maí og ég vona bara að það verði í byrjun maí en ekki um miðjan mánuð eða síðar. Það er alltaf ákveðinn léttir og fögnuður að geta kíkt á sitt fólk án þess að eiga á hættu einhver ævintýr að hætti útilegumanna“ segir þessi ótrúlega kona og hlær við.

Skemmtilegt verkefni

Eyþór Jóvinsson, einn björgunarsveitamanna, sagði þetta með allra skemmtilegustu verkefnum sem sveitin fengist við.

„Það er gaman að fara svo ferðir í góðu veðri og horfa af fjöllunum á hina dýrðlegu fegurð Önundarfjarðar sólbakaðan í vetrarbúningi. Ekkert er fallegra og svo er auðvitað ævintýri að hitta Bettý og gera gagn og gleðja. Allt í einni ferð.“

 

Texti: Guðmundur Sigurðsson.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -