Grenjaði eins og stunginn grís

Deila

- Auglýsing -

Árni Grétar Jóhannsson, leikstjóri og leiðsögumaður, segist laðast að sögum með sterkum kvenpersónum. Beðinn um að nefna bækur sem hafi haft mest áhrif á hann hefur hann það að leiðarljósi.

Bálskotinn í Snæfríði

„Frá unglingsaldri hef ég, samkynhneigður maðurinn, verið blússandi bálskotinn í Snæfríði Íslandssól. Hún er ekki aðeins hið ljósa man, fallegri en flestar konur á Fróni með sinn álfakropp heldur er hún einnig eitursnögg til svars, hnyttin og ákveðin kona. Í þríleik Halldórs Laxness fylgjumst við með henni frá unglingsaldri, þar sem hún fer strax á móti yfirvaldinu föður sínum, og fram á fullorðinsaldur þar sem forlaganornirnar eru ekki alltaf tilbúnar til að spinna sinn vef henni í hag. Ekki skemma tilraunir Halldórs til að endurskapa íslenskt mál þess tíma fyrir íslenskunördinu mér.“

Sannkölluð kjarnakona

„Líkt og með Snæfríði í Íslandsklukkunni þá er hreinlega erfitt að koma stórum konum fyrir í einni bók og sú er einnig raunin með Karitas sem við fylgjumst með nánast frá vöggu til grafar í Karitas án titils og Óreiða á striga eftir skáldsnillinginn Kristínu Mörju Baldursdóttur. Hvílíkt lífshlaup konu sem aðeins vill fá að sinna listinni í friði. Karlmönnum tekst á einhvern hátt alltaf að leggja stórgrýti í götu hennar en hún, ögnin sem hún er, nær í sögunni alltaf að valhoppa yfir hvert bjargið á fætur öðru. Kjarnakona sem kennir manni að gefast aldrei upp.“

Húmanísk bók – líka fyrir trúlausa

„Ég ætla að enda á nóvellunni sem ég rétti öllum þeim sem segjast langa til að fara að lesa meira sér til skemmtunar. Amma Bleika er kona sem er með stærra hjarta en flestir hér á jörð en Eric Emmanuel Schmitt tekst þó að koma allri hennar gæsku fyrir á merkilega fáum síðum í verkinu Óskar og bleikklædda konan. Nóvellan er hluti af þríleik höfundar þar sem hann skoðar trúarbrögð heims og þessi bók er samansafn bréfa langveiks barns til Guðs. Trúleysinginn ég kolféll fyrir þessu bréfasafni, svo rosalega að ég grenjaði ekki aðeins eins og stunginn grís eftir fyrsta lestur heldur færði ég söguna á svið sem lokaverkefni mitt í leikstjórnarnámi mínu. Án þess að vilja gefa of mikið upp um söguþráðinn þá kennir Amma Bleika okkur það hve hollt og gott það er að gefa af sér án skilyrða. Einstaklega húmanísk bók, líka fyrir trúlausa.“

Mynd / Kristín María

- Advertisement -

Athugasemdir