Saga Guðmundar Felix Grétarssonar er mörgum Íslendingum kunn. Hann lenti í hræðilegu slysi og missti báða handleggi fyrir um tuttugu og tveimur árum. Síðustu ár hefur hann beðið eftir að gangast undir handaígræðslu eftir að hafa verið 5 ár á biðlista.
Nú hefur kraftaverkið loksins átt sér stað, öllum þessum árum seinna. Rúv greinir frá þessu og vitnar í vef fríblaðs í Lyon. Þar segir að græddar hafi verið hendur á Guðmund og honum sé haldið sofandi og dvelur nú á gjörgæsludeild. Um einstaka aðgerð er að ræða á heimsvísu.
Þá kemur fram á öðrum frönskum miðli að aðgerðin hafi gengið vel. Á vef RÚV segir einnig að yfir fimmtíu læknar og hjúkrunarfræðingar tóku þátt í aðgerðinni.
Aðgerðin sjálf tók 14 klukkustundir Þá kemur fram á vef Rúv að líðan og heilsa Guðmundar sé stöðug.
Í umfjöllun RÚV frá því í maí 2020 var haft eftir Guðmundi:
„Einn daginn fer ég í vinnuna kaldan janúarmorgun, og svo vakna ég tveimur mánuðum síðar.“
Guðmundur var á þessum tíma rafeindavirki, giftur og með tvö ung börn. Slysið átti sér stað þegar hann var að gera við háspennulínu árið 1998.
Guðmundur fékk straum og féll átta metra niður og þríhryggbrotnaði og rifbeinin losnuðu frá hryggjarsúlunni. Þá kviknaði í höndum hans.
Guðmundur komst fyrst almennilega til meðvitundar þremur mánuðum eftir slysið og hefur síðan þá beðið eftir stóru gjöfinni, öll þessi ár.