Margir minnast Jónínu Benediktsdóttur í Morgunblaðinu en útför hennar fer fram síðar í dag. Jónína lést fyrir aldur fram, skömmu fyrir jól, einungs 63 ára. Jónína var þrígift en tveir þeirra skrifa minningargreinar um hana. Fyrsti eiginmaður hennar var Sveinn Eyjólfur Magnússon, þá Stefán E. Matthíasson og síðan Gunnar Þorsteinsson.
Í hittifyrra var greint frá því að Jónína og Gunnar væru skilin. Gunnar kemst öðruvísi að orði í sinni minningargrein þar sem hann segir að þau hafi aldrei slitið hjónabandinu. „Jónína tjáði mér að hún hefði nælt sér í nýja bók nú á aðventunni eftir einn af mínum eftirlætishöfundum, Jón Kalman Stefánsson. Bókin ber titilinn „Fjarvera þín er myrkur“. Jónína hreifst af efnistökum höfundar og kröftugum stíl. Hún las fyrir mig nokkrar glefsur og þótti mér mikið til koma, enda höfundurinn er ekki einhamur. Lesturinn reyndist tilfinningalega erfiður er á leið, svo erfiður að hún gafst upp og tjáði mér að ég fengi þessa bók í jólagjöf,“ segir Gunnar.
Gunnar fjallar svo nokkuð um trú sína en segir svo: „Ég kynntist Jónínu í gegnum starf hennar að heilsueflingu. Ég fór nokkrar ferðir til Póllands og þar tókst með okkur góð vinátta sem umbreyttist í ást eftir að hagir mínir breyttust. Við urðum óaðskiljanleg og hjónaband varð niðurstaðan. Hjónaband sem við slitum aldrei. Við áttum saman stórkostlegan tíma sem mér mun ekki gleymast. Jónína var óvenjuleg og yfirburðamanneskja á mörgum sviðum. Að fá að njóta kærleika hennar, elsku, umhyggju, fræðslu og almennra samskipta voru forréttindi. Því miður hrönnuðust svört ský við sjóndeildarhringinn og vindurinn varð í fangið. En þegar á reynir má vera ljóst að ástin er sterkasta aflið í veröldinni,“ segir Gunnar.