Hin ósnertanlegu

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

SÍÐAST EN EKKI SÍST

Bjarni Ben er orðinn hundleiður á Klaustursmálinu. Svo sagði hann í það minnsta í Kryddsíldinni á Stöð tvö á gamlársdag og bætti við að hann teldi að venjulegt fólk fengi ekki neitt út úr umræðum um þetta mál og að á meðan við værum föst í að tala um mál eins og Klaustursmálið þá gerðist ekkert í þeim málum sem máli skiptir.

Bjarna finnst það sem sagt ekki skipta máli, eða að minnsta kosti ekki verulegu máli, að sex þingmenn setjist að sumbli á bar meðan fundur stendur í löggjafarsamkomunni sem þeir eru kjörnir til setu á og sitji þar klukkutímum saman og raði út úr sér ummælum um fólk, fyrst og fremst um konur, fatlað fólk og samkynhneigt, sem bera vitni um djúpa mannfyrirlitningu. Auk þess sem lagt er á ráðin um plott sem eru í besta falli siðlaus.

Og Sigmundur Davíð, höfðinginn á samkomunni á barnum, sagði í sama sjónvarpsþætti að það sem honum þætti standa upp úr varðandi Klausturmálið væri skinhelgi og tvískinnungsháttur. Hann hefur enda hafnað því að takast á við innihald samtalsins á Klaustri og leitast við að beina umræðunni að því hvernig þessar samræður komust fyrir augu og eyru almennings. Hann lítur á sig og sitt fólk sem ósnertanlegt meðan konan sem tók þau upp á barnum er það sannarlega ekki í hans huga.

En hvers vegna er ekki bara hægt að verða leiður á Klaustursmálinu? Það er vegna þess að samtalið á Klaustri var ekki bara drykkjuraus sem engu máli skiptir. Það hlýtur að skoðast í stærra samhengi. Orðræðan sem þarna átti sér stað tengist með beinum hætti orðræðu valdamikilla karla um allan heim og er Donald Trump þeirra þekktastur og valdamestur.

Þá hefur Klaustursmálið ekki enn farið í formlegan farveg innan Alþingis og afsökunarbeiðnir sexmenninganna hafa ekki einkennst af iðrun heldur verið með fyrirvörum. Í raun má nota orð Sigmundar sjálfs og segja að viðbrögð þeirra hafi einkennst af skinhelgi og tvískinnungshætti þeirra sem líta á sig sem ósnertanleg.

Það er þess vegna sem Klaustursmálið er eitt af þeim málum sem einmitt skipta máli fyrir almenning. Hatursorðræða valdafólks er alvarleg og má aldrei verða ósnertanleg. Eitt af stóru verkefnum ársins 2019 er að svo verði ekki.

Höfundur / Steinunn Stefánsdóttir

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Sigríður er fúl og niðurlægð

OrðrómurSigríður Andersen, alþingismaður Sjálfstæðisflokks og brotthrakinn dómsmálaráðherra, er til ófriðs í stjórnarsamstarfinu. Eins og kom fram í...