Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fær að heyra það fyrir að segja hugmyndafræði Sósíalistaflokksins skelfilega og það væri svipað því að fara aftur á steinöld að byggja samfélög á sósílisma í nútímanum.
Brynjar gerir Sósíalistaflokkinn að umtalsefni í færslu á facebook. „Ef fer fram sem horfir mun fjölga á Alþingi í hópi smáflokka sem stunda tækisfæris stjórnmál í gegnum fjölmiðla. Fæstir byggja á einhverri hugmyndafræði eða framtíðarsýn og þrífast á því að sá tortryggni og ala á öfund og neikvæðni. Kann að vera að sá sem þetta skrifar sé að kasta steinum úr glerhúsi þegar neikvæðni er annars vegar en látum það liggja á milli hluta að sinni,“ segir Brynjar og heldur áfram:
„Samkvæmt skoðanakönnunum er ekki ólíklegt að eins manns flokkur, sem kallar sig Sósíalistaflokk Íslands komi mönnum á þing eftir næstu kosningar. Sá flokkur má eiga það að hann byggir á einhverri hugmyndafræði og sýn. Hún er að vísu skelfileg og á álíka erindi í nútímann og það að menn taki aftur upp lurkinn til að ná sér í eiginkonu. Menn sem trúi því að sósíalískt samfélag byggt á kenningum og hugmyndafræði Marx og Leníns komi til með að bæta kjör launafólks og gera samfélagið betra hafa annað hvort verið í dái meira og minna alla sína ævi eða bera ekkert skynbragð á manninn og mannlegt samfélag.“
Andri Sigurðsson, stjórnarmaður í félagastjórn Sósíalistaflokksins, gefur ekki mikið fyrir fullyrðingar Brynjars en hann ritar ummæli undir færsluna. „Áróður hægrisins gegn sósíalisma þróast ekki mikið í gengum árin, alltaf það sama: Lenin! Sósíalismi er gamaldags og úreldur! Bööö! Þessu er tönglast á þrátt fyrir að kapítalismi sé augljóslega eldri hugmyndafræði sem veldur bókstaflega kreppum á 4-7 ára fresti og setur samfélagið á hliðina. Hugmyndafræði sem setur gríðarleg völd og auð í hendur örfárra og velur í leiðinni fátækt og skorti. Allt sem er einhvers virði í samfélaginu, réttindi, félagsleg kerfi, er sósíalisma og/eða baráttu sósíalista og verkafólks að þakka. Réttindi sem hafa verið dregin úr köldum krumlum hægrisins og hinna ríku þrátt fyrir mikla andstöðu,“ segir Andri.
Brynjar ryðst þá aftur fram. „Þetta er ekki áróður, Andri, heldur mikilvæg varnarorð gegn hugmyndafræði sem drepur heilu samfélögin, bæði andlega og úr hor,“ segir Brynjar.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, gerir grín að tali Brynjar um hugmyndafræði stjórnmálaflokksins. „Það er svo mikil hugmyndafræði í sjálfstæðisflokknum að fólk þar þarf reglulega að kyngja ælunni…,“ segir Björn. Ólafur Jarl er heldur ekki hrifinn af upphrópunum Brynjar. „Gamall kall öskrar helvítis kommúnismi og sakar ađra um ađ hafa veriđ sofandi í áratugi!,“ segir Ólafur.
Jakob Bjarnar Grétarsson fjölmiðlamaður lætur Brynjar líka heyra það. „Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri sá sami í orði og á borði, ef hann væri ekki þessi hentistefnu- og sérhagsmunaflokkur, væri talsvert meiri þyngd í orðum þínum. En gaman að þér engu að síður,“ segir Jakob.
Grétu Ósk Óskarsdóttur sýnist Brynjari og félögum í Sjálfstæðisflokknum greinilega ekki leiðast að reiða fram sömu súpuna. „Alltaf sama síendurupphitaða orðasúpan um réttindabaráttu fyrir fólkið. Baráttan er góð, orðasúpan er vond,“ segir Gréta.