Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Hrafnhildur „Shoplifter“: Stórhættulegt að skilja mig eftir lengi eina, kyrra á einhverjum stað

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það var einhvern veginn „now or never“ að setja verkið upp og gefa því heimili á Íslandi. Mér fannst þetta bara vera svo töff og kúl. Ég hef alltaf dáðst að þessum körlum sem hafa gert þetta; höggmyndagæjunum,“ segir listakonan Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, sem hefur ásamt samstarfskonu sinni til margra ára, Lilju Baldursdóttur, opnað eigið menningarhús í gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekku þar sem innsetning Hrafnhildar, Chromo Sapiens, er til sýnis. Verkið var framlag Íslendinga til Feneyjatvíæringsins árið 2019 og Hrafnhildur segir það vera 500 fermetra hárgreiðslu. Hrafnhildur er þekkt víða um heim einmitt vegna listaverka sinna sem eru úr bæði gervi- eða mannshári.

 

Chromo Sapiens. Það er eitthvað grand við þetta nafn. Stórt heiti á stóru verki. „Litrófsmeðvitund“.

Chromo Sapiens er heiti á um 500 fermetra listaverki Hrafnhildar Arnardóttur, Shoplifter, sem var framlag Íslendinga á Feneyjatvíæringnum árið 2019. „500 fermetra hárgreiðsla,“ segir listakonan sem er þekkt víða um heim fyrir listaverk sín úr hári; bæði mannshári og gervihári. Hafnhildur festi í fyrra kaup á tveimur af sjö bröggum gömlu kartöflugeymslunnar í Ártúnsbrekku og opnaði ásamt Lilju menningarhúsið Höfuðstöðina 2. janúar.

„Þetta er búin að vera týpísk meðganga, það eru níu mánuðir frá því ég fékk hugmyndina,“ segir Hrafnhildur sem hefur verið búsett í New York í 25 ár en hefur dvalið á Íslandi um það bil frá því að heimsfaraldurinn skall á eða frá því í mars 2020. „Í apríl í fyrra var ég að leita mér að stærri vinnustofu til að leigja í Reykjavík þegar ég sá fasteignaauglýsingu þess efnis að til sölu væru tveir þessara sögufrægu bragga sem ég hef horft löngunaraugum á í fjölda ára og þá bara fann ég að þarna yrði ég að setja upp Chromo Sapiens og gefa verkinu framtíðarheimili á Íslandi, því það yrði aldrei til betri staður né stund til að láta þann draum rætast. Ég hringdi í Lilju sem sá þetta alveg jafn vel fyrir sér, enda hefur hún starfað mjög náið með mér undanfarin fimm ár og við rætt það áður að fara í þessa átt með þetta verk, svo við tvær ákváðum að ráðast í þetta hugsjónarverkefni saman.“ Framkvæmdin tók þó lengri tíma en þær gerðu fyrst ráð fyrir, en þar sem Lilja er flutt til Íslands og heldur utan um verkefnið hefur þetta gengið upp og Hrafnhildur er nú meira á Íslandi fyrir vikið, en er áfram búsett í New York þar sem hún er með unglinga í skóla.

Hrafnhildur Arnardóttir.
Höfuðstöðin. (Mynd: Víðir Björnsson)

 

- Auglýsing -

Yfirnáttúra

Aftur að Höfuðstöðinni. Jú, Chromo Sapiens vakti mikla athygli á Feneyjatvíæringnum og um 500 fermetra hárgreiðslan í öllum regnbogans litum og rúmlega það gladdi augað. Gladdi sálina. Verkið er unnið úr gífurlegu magni af fjöldaframleiddu þráðum og er þannig uppsett að gestir ganga í gegnum þrjú ólík rými og hluti af verkinu er tónlist hljómsveitarinnar HAM. Fyrsta rýmið sem gengið er inn í ber heitið Primal Opus, eða Frumstæð tónsköpun, og er lágreistur hellir þar sem dökkar litasamsetningar eldhræringa eru ráðandi. Þá blasir við stór hvelfing, Astral Gloria, eða Óður til útgeislunar, sem er fyllt skærlituðum hárbreiðum. Og svo himneski hellirinn Opium Natura, eða Víma náttúru, sem einkennist af mjúkum litatónum sem umvefja áhorfandann.

Það var athyglisvert að upplifa lok Feneyjatvíæringsins með flóði og svo nokkrum mánuðum seinna kom heimsfaraldur og tvíæringnum hefur verið frestað síðan að heimsfaraldurinn kom upp.

Feneyjatvíæringurinn er opinn í sjö mánuði og var lokað með látum það árið því haustið 2019 gerðist það sem kallast Aqua Alta, náttúruhamfarir; háflóð sem sökkti borginni í sjó í nokkra metra víðast hvar. Chromo Sapiens skemmdist að hluta, það sem næst jörðu var, en var svo endurbætt áður en það var tekið niður og sett í 40 feta flutningagám. Gondólarnir í Feneyjum og Markúsartorgið minningar einar. Leið Chromo Sapiens lá þá til Íslands yfir hafið bláa hafið og um 500 fermetra hárgreiðslan lagðist að bryggju í Sundahöfn og var flutt inn í Hafnarhúsið til sýningar á vegum Listasafns Reykjavíkur. Sú sýning var opnuð 23. janúar 2020 og lauk eftir sex vikur með heimsfaraldrinum og laðaði á þeim stutta tíma að sér yfir 32.000 gesti. Því má segja að mikið hafi gengið á með sýninguna síðastliðin ár og forvitnilegt í ljósi þess að yfirskrift Feneyjatvíæringsins 2019 var heitið „May you live in interesting times“ en það er í raun tilvitnun í kínverska bölvun.

- Auglýsing -

„Það var athyglisvert að upplifa lok Feneyjatvíæringsins með flóði og svo nokkrum mánuðum seinna kom heimsfaraldur og tvíæringnum hefur verið frestað síðan að heimsfaraldurinn kom upp. En nú verður spennandi að sjá hvaða snilld Sigurður Guðjónsson sýnir í Íslenska skálanum í Feneyjum í ár þegar tvíæringurinn snýr aftur.

Eftirspurn verksins lét ekki á sér standa og þegar það var vandlega pakkað í sinn gám og erlend söfn farin að sýna áhuga á að setja upp verkið þá var það í flestum tilfellum of dýrt í framkvæmd eða hreinlega passaði ekki inn í húsnæðið. Og hjá mér óx sú tilfinning að verkið ætti alls ekki að fara frá Íslandi; það bara varð að eiga heima hérna og skjóta rótum. Þetta var framlag Íslands til sýningarinnar með hljóðmynd eftir HAM, rammíslenska rokkhljómsveit með aðstoð Skúla Sverrissonar, og verkið í heildina algjörlega klæðskerasniðið fyrir íslenska skálann í Feneyjum og hugmyndafræðilega þróað verkefni fyrir akkúrat þessa sýningu. Hugmyndin um að það yrði að einhvers konar „farandverki“ bara passaði því ekki. Chromo Sapiens er áfangastaður en ekki ferðalangur.“

Hrafnhildur Arnardóttir
Verk Hrafnhildar, Chromo Sapiens. (Mynd: Carmeni)

Hrafnhildi fannst vera tilvalið að eignast braggana tvo til að hýsa þar til frambúðar verkin sín og um 500 fermetra hárgreiðsluna, Chromo Sapiens, og gera þar rými fyrir gesti þar sem hægt væri að staldra við og njóta samveru við aðra. Úr varð að hún festi kaup á þessum tveimur af sjö bröggum gömlu kartöflugeymslunnar og stofnaði af því tilefni fyrirtæki vegna kaupanna sem heitir Artafl. Það er orðaleikur, en ef sett er „k“ fremst og „a“ aftast þá er það orðið „kartafla“.

Lilja Baldursdóttir, sem hefur starfað hjá Hrafhildi um árabil, tekur þátt í þessu ævintýri með henni. „Ég hef fíflast með það, að það sé stórhættulegt að skilja mig eftir eina lengi, kyrra á einhverjum stað, af því að þá fer ég bara fram úr sjálfri mér og veit ekki fyrr en ég er „óvart“ búin að opna safn.

Ég hef alltaf dáðst að þessum körlum sem hafa gert þetta; höggmyndagæjunum.

Það var einhvern veginn „now or never“ að setja verkið upp og gefa því heimili á Íslandi. Mér fannst þetta bara vera svo töff og kúl. Ég hef alltaf dáðst að þessum körlum sem hafa gert þetta; höggmyndagæjunum. Aldrei þessu vant dvaldi ég á Íslandi og gat gefið þessu þann tíma sem þurfti því flestum sýningum sem voru á dagskrá var frestað og ferðalögunum þar af leiðandi líka, svo hægt var að staldra við og taka púlsinn á vinnunni og lífinu eftir svakalega törn.

Svo er bara að sjá hve lengi sýningin ber sig með sitt segulmagn og svo er alltaf hægt að skipta sýningunni út ef maður vill. Verkin mín eiga nú að minnsta kosti þak yfir höfuð sér því ég virðist ekki vera mínímalisti enn sem komið er. Annar bragginn er sýningarsalur og hýsir verkið og hinn er endabraggi með stórum gluggum til suðurs með sólpalli og hentar vel sem samkomustaður, fjölnota rými, með kaffihúsi og hönnunarverslun, en einnig er hægt að leigja þann hluta fyrir viðburði og veislur. Ég lít á þetta eins og safn; þeir Einar Jónsson og Ásmundur Sveinson byggðu sér hof utan um myndlist sína og það hafa í gegnum tíðina fleiri gert erlendis, svo sem Donald Judd í Marfa, Texas, og því ekkert nýtt af nálinni. En ég er stolt af því að vera, að því ég best veit, fyrsta íslenska konan sem ræðst í svona verkefni upp á eigin spýtur fyrir sín verk. Við eigum þó söfn sem bera heiti listakvenna einsog Gerðarsafn, en þau eru þá stofnuð til heiðurs viðkomandi að þeim látnum. Ég hef alltaf verið brött og stórhuga í mér, bjartsýn og áræðin og geri mér fyllilega grein fyrir því að þetta ber einnig með sér slatta af hégóma. En verkið á þetta bara svo skilið og það hefur þannig aðdráttarafl, og er þess eðlis sem í dag má kalla upplifunarverk, að það ræður við þetta sjálft og væri sorglegt ef það fengi ekki að líta dagsins ljós og verða að því „monumenti“ sem það einhvern veginn varð með gífurlegri aðsókn bæði í Feneyjum og á Íslandi, eins og margar af stærri innsetningum mínum og að vera fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum markar ákveðin vatnaskil á mínum ferli.“

Hrafnhildur segir að verkið sé eins og yfirnáttúra sem verður einkennileg blanda af áhrifum frá bæði íslenskri náttúru en svo líka litskrúðugri fjölmenningu New York-borgar og poppkúltúr og það sem oft er talið vera yfirborðskennd menning Bandaríkjanna. „Eitt er að verkið á sér sannarlega djúpar rætur á Íslandi þar sem ég sleit barnsskónum og bjó á mínum helstu mótunarárum til 25 ára aldurs. Tónmyndin sem HAM skapaði fyrir verkið í samvinnu við Skúla Sverrisson tónlistarmann hefur verið ríkjandi „soundtrack“ í lífinu og á vinnustofunni vegna hráleika, ryþma, ofurdrama og stórkostlegrar textagerðar; þetta gerir verkið frekar íslenskt en svo blandast það áhrifum af þeim 25 árum sem ég hef verið búsett í New York með sínum aragrúa af fólki, ýktri birtingarmynd neyslumenningar, hraða og því litríka lífi sem ég hef lifað þar. Þannig að ef ég leyfi mér að einfalda þetta rosalega, þá er hér samruni moldarkofans og blikkandi rússíbana.“

Hrafnhildur Arnardóttir
Chromo Sapiens. (Mynd: Carmeni)

Hrafnhildur segir að höfuðstöðin sé eins og Lilja réttilega kalli hana fyrst og fremst áningarstaður fyrir fólk á öllum aldri. Plastplan með Björn Steinar Blumenstein í fararbroddi hannaði innviði en Hrafnhildur kynntist honum á Lunga-hátíðinni þar sem þau voru bæði leiðbeinendur með námskeið, en hún hefur brennandi áhuga á endurnýtingu á plasti í hönnunartilgangi sem er í takt við hvernig hún sjálf kýs að endurnýta allan sinn efnivið aftur og aftur á fjölbreytilegan hátt. Þær Lilja ákváðu að hafa hönnunarbúð með ýmsum vörum sem Hrafnhildur hefur verið að hanna alla tíð út frá myndlist sinni og heimfærir á nytjahluti eins og fatnað, fylgihluti og plaköt. Með tilkomu safnbúðarinnar er líka kominn vettvangur til að framkvæma og bjóða upp á, á einum stað, muni sem falla meira undir nytjalist og hönnun en myndlist þótt það haldist í hendur fagurfræðilega og sé í samhengi við list Hrafnhildar sem er líka þekkt fyrir hönnun sína og samstarfsverkefni með fyrirtækjum og hönnuðum á borð við & Other Stories, Noir by Kei Ninomyia hjá Comme des Garcons, Bioeffect og Moncler. Svo er hægt að staldra við og njóta útsýnis og náttúrunnar í Elliðaárdalnum og fá sér veitingar.

Hrafnhildur Arnardóttir
Höfuðstöðin. (Mynd: Víðir Björnsson)

 

Náttúruleg víma

Hár. Það eru þessi hár sem eru uppspretta listaverkanna og eru í öllum regnbogans litum og meira en það. Túlka gleði og sorg. Eins og ástin sem kviknar og jafnvel ástin sem slokknar. Litadýrð lífsins. Tilfinninganna.

Hrafnhildur, sem er 52 ára og skartar gráu hári, var 18 ára dökkhærður starfsmaður verslunarinnar Fríðu frænku þegar hún eignaðist litla blómagrein úr mannshári. „Þetta var hárblóm; hefð sem hægt er að tengja allt til um ársins 1600 og er kallað „Victorian memory flowers“. Þetta snerti einhverjar taugar í mér bæði hvað varðar hvað þetta var fallegt en líka hvað þetta var „morbid“, því þetta er í rauninni úr líkama annarrar manneskju. Ég upplifi þetta sem minnisvarða um manneskjuna sem var algengara áður en ljósmyndin kom til sögunnar. Þetta var það eina sem fólk gat haldið í eftir að ástvinur var farinn.“

Hún lauk síðar námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og segist hafa gert alls konar myndlist eftir það. Það liðu mörg ár þar til hár varð aðalhráefnið í list hennar.

„Smátt og smátt fóru að rifjast upp fyrir mér allavega tengingar og hughrif sem eiga sér uppsprettu tengda hári í gegnum tíðina, til dæmis það að amma mín átti fléttu sem hún hafði klippt af hári sínu þegar hún var ung kona. Fléttan var geymd í skúffu í snyrtiborðinu hennar og kíkti ég oft á hana þegar ég var barn. Þetta var minnisvarði um hennar yngri ár, æskuljóma hennar, þannig að með tíð og tíma hafa flotið upp á yfirborðið úr undirmeðvitundinni allavega ástæður fyrir því að ég dróst að þessum efnivið frekar en öðrum. Svo hafa verk mín vakið athygli og það hefur verið mikil eftirspurn eftir þessum innsetningum, þannig að þetta leiddi mann áfram af sjálfu sér.“

Hrafnhildur segir magnað hvað manneskja býr til og framleiðir mikið af skrýtnum hlutum og í stórum stíl. „Á það meðal annars við um gervihár sem þá sprettur upp út frá notkun á mannshári í margs konar tilgangi þannig að úr verður áhugaverð hringavitleysa, að manni finnst stundum, en samt svo heillandi mannfræðifyrirbrigði. Til að byrja með snerist þetta svolítið meira um manneskjuna, hégóma og sjálfsímynd og ég man þegar ég keypti fyrstu hárlenginguna í búð í New York. Síðan fann ég mannshár og fór að nota það og af því að ég mundi eftir þessu hárblómi þá reyndi ég að læra þá tækni, en það tókst ekki betur en svo að ég rambaði síðan á íslenska konu, Ástu Björk hjá Hárverk, sem hefur lært þessa hefð. Þegar ég gerði til dæmis Bjarkarplötuna, Medúlla, þá pantaði ég blómsveiga úr bæði mannshári og hrosshári frá henni sem ég svo keypti af henni og notaði á höfði Bjarkar í myndatökunni í bland við hennar eigið hár ásamt minni skúlptúrum úr mannshári sem ég var búin að vefa og flétta saman. Svo nálgaðist ég verkefnið eins og ég væri að gera „still life“ blómaskreytingu.“

Hrafnhildur segir að í byrjun hafi fléttuverkin svolítið tengst því að sjá hár í öðru samhengi og ýktum stærðarhlutföllum en við erum vön. „Síðan þegar ég fór að vilja nota meiri liti, ekki bara vera með tengingu við manneskjuna heldur líka við poppkúltúrinn og þessa hárkolluáráttu, þá fór ég að nota meira gervihár og þá er líka hægt að fá lengra hár til þess að gera lengri fléttur. Ég hef ekki haft efni á því að gera þetta úr mannshári og það er ekkert nauðsynlegt, heldur skiptir máli hvernig gerviefniviðurinn getur samt skilað af sér hughrifum af mannshári.

Ég fór síðan að gera litrík fléttuverk og fyrsta verkið sem ég gerði þannig var í glugga í MoMA, Museum of Modern Art í New York; þetta var risastórt gluggaverk, litrík lágmynd á vegg og þá var ég í rauninni að nálgast þetta eins og málverk sem þá varð að einhvers konar expressjónísku textílmálverki. Það er forvitnilegt í ljósi þess að ég útskrifaðist frá málaradeild Myndlista- og handíðaskólans þar sem mér fannst alls ekki nægja mér að vinna með pensil á tvívíðan flöt.“

Þessir æpandi litir sem ég nota smjúga inn um sjónhimnuna og örva skilningarvitin svo taugaendarnir í heilanum fara á fullt að framleiða dópamín og þessi „feel good“-efni í líkamanum sem skipta svo miklu máli að fái örvun.

Jú, litadýrðin í verkum Hrafnhildar er stórkostleg.

„Ég les mikið um taugasálfræði og um hvers kyns áhrif á heilastarfsemina, efnafræðina í heilanum og hvernig heilinn pumpar út vellíðunarefnum og öðru til þess að létta okkur lífið. Þessir æpandi litir sem ég nota smjúga inn um sjónhimnuna og örva skilningarvitin svo taugaendarnir í heilanum fara á fullt að framleiða dópamín og þessi „feel good“-efni í líkamanum sem skipta svo miklu máli að fái örvun. Það er búið að sanna þetta vísindalega síðan ég fór að spá í þetta. Þannig að þetta er raunverulega bara náttúruleg víma sem ég er að bjóða fólki upp á.“

Hrafnhildur Arnardóttir
Broskarl. (Mynd: Jan Berg)

Broskarlar Hrafnhildar hafa glatt margan manninn. „Það er ákveðinn húmor og léttleiki í þeim; poppkúltúr og popplist. Ég er sennilega þráðlistamálari sem gerir popplist með poppkúltúráhrifum og með tilvísun í eins og þessa broskarla sem fljúgast á í skilaboðunum á milli okkar viðstöðulaust. Þessi broskarlaárátta hefur verið með okkur í tugi ára. Það er bara eitthvað við þá. Þeir gleðja mann fáránlega mikið og þegar þeir eru orðnir svona loðnir og krassandi og komnir með svona mikinn karakter, þá finnst mér þeir ómótstæðilegir. Ég nota allavega liti og litasamsetningar og teikna aftur hvern og einn í hvert skipti þannig að þeir eru aldrei eins. Þeir eru í ýmsum stærðum og svo klippi ég þá til eftir á; þannig gef ég þeim sína eigin hárgreiðslu og sumir eru loðnari en aðrir og með þessu fá allir sinn eigin karakter.“

Hrafnhildur segist alltaf vera með einn eða tvo starfsmenn á launum í stúdíóinu í New York en þegar stór verkefni eða sýning er fram undan fjölgar aðstoðarmönnunum og verða þeir þá fimm til tíu. Það þarf að klippa niður og blanda hárið og setja í knippi og binda á net fyrir stórar innsetningar eða flétta risastórar flétturnar. „Þeir aðstoða mig við það sem aðrir geta gert jafn vel og ég, en svo geri ég það sem enginn annar getur gert.“

Ég fer til Ítalíu í febrúar að setja upp stóra sýningu í Bramante-klaustrinu í Róm og verð svo með aðra sýningu í Svíþjóð á Market Art Fair í apríl í samvinnu við Larsen Warner Gallery.

Listaverk Hrafnhildar Arnardóttur, Shoplifter, eru einstök og það er margt fram undan. „Ég fer til Ítalíu í febrúar að setja upp stóra sýningu í Bramante-klaustrinu í Róm og verð svo með aðra sýningu í Svíþjóð á Market Art Fair í apríl í samvinnu við Larsen Warner Gallery. Það er spennandi að sjá að verkefnin poppa upp í inboxinu þétt og örugglega, margt mjög spennandi en sumt kannski ekki og dettur inn ein og ein fyrirspurn sem er virkilega út úr kú fyrir mér, eins og að vera þátttakandi í föndurkeppni í raunveruleikaþætti í Hollywood. Takk, en neitakk. En góða skemmtun!“

Lilja Baldursdóttir og Hrafnhildur Arnardóttir.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -