Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Fréttum dagblaðanna alfarið stýrt af körlum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Engin kona er í hópi rit- og fréttastjóra á Morgunblaðinu og Fréttablaðinu, eftir breytingar hjá Torgi í vikunni. Framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu segir stöðuna ekki í anda jafnréttislaga. Rannsóknir sýna að kyn ritstjóra skiptir máli þegar kemur að fréttaumfjöllunum.

Engin kona er við stjórn innlendra eða erlendra frétta á ritstjórnum þeirra tveggja stóru miðla sem gefa út dagblöð á Íslandi, hvorki á prenti né á vef. Þetta varð ljóst þegar Torg tilkynnti í vikunni um að Sunna Karen Sigurþórsdóttir léti af störfum sem ritstjóri Fréttablaðins.is. Nú ritstýrir Kristjón Kormákur Guðjónsson Fréttablaðinu.is og Hringbraut.is einn.

Katrín Björg Ríkharðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, segir í samtali við Mannlíf að staðan á þessum miðlum, þegar horft er til stjórnenda, sé ekki í anda jafnréttislaga. Markmið laganna sé að viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Hún bendir á að atvinnurekendum sé lögum samkvæmt skylt að vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns og stuðla að því að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf. Sérstaka áherslu skal leggja á að jafna hlut kynja í stjórnunar- og áhrifastöðum. „Mér sýnist hreinlega, ef horft er til orðalags jafnréttislaganna, að stjórnunarstörf séu orðin að karlastörfum á þessum fjölmiðlum,“ segir hún.

Átta karlar stýra Mogganum

Á Morgunblaðinu eru tveir aðalritstjórar, Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen. Karl Blöndal er aðstoðarritstjóri. Guðmundur Hermannsson er fréttastjóri á blaðinu, og Björn Jóhann Björnsson aðstoðarfréttastjóri. Fréttastjóri viðskipta er Stefán Einar Stefánsson. Á vefnum mbl.is er fréttastjóri Jón Pétur Jónsson en aðstoðarfréttastjóri Þorsteinn Ásgrímsson. Með öðrum orðum eru þeir átta einstaklingar sem stýra fréttaflutningi hjá Morgunblaðinu karlar. Eftir því sem Mannlíf kemst næst eru sérstakir kvöldfréttastjórar einnig allir karlar.

Katrín Björg Ríkharðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, segir að staðan á Morgunblaðinu og Fréttablaðinu sé ekki í anda jafnréttislaga.

Þegar horft er á undirflokka, aðra en viðskiptafréttir, sem Stefán Einar stýrir, sést að menningarritstjóri Morgunblaðsins er karl, rétt eins og yfirmaður íþróttafrétta. Eina konan sem þar kemst á lista er Marta María Jónasdóttir sem er ritstjóri dægurmála á mbl.is.

- Auglýsing -

Afturför hjá Fréttablaðinu

Staðan er ekki betri á Fréttablaðinu, eftir uppsögn Sunnu Karenar Sigurþórsdóttur, ritstjóra vefs Fréttablaðsins. Stutt er síðan Ólöf Skaftadóttir lét af störfum sem ritstjóri blaðsins og Kristín Þorsteinsdóttir sem útgefandi. Á Fréttablaðinu er Jón Þórisson aðalritstjóri í dag en Davíð Stefánsson, sem hefur verið ritstjóri undanfarna mánuði, var látinn fara í vikunni. Kristjón Kormákur Guðjónsson er ritstjóri Fréttablaðsins.is og Hringbrautar en Ari Brynjólfsson og Garðar Örn Úlfarsson voru í vikunni kynntir sem nýir fréttastjórar Fréttablaðsins. Viðskiptablaðamaðurinn Hörður Ægisson er ritstjóri Markaðarins.

Eina konan sem hefur ritstjóratitil hjá Fréttablaðinu er Björk Eiðsdóttir, ritstjóri helgarblaðsins, en þar er áhersla á dægurmál, viðtöl og menningu. Þá er Kolbrún Bergþórsdóttir yfir menningarumfjöllun.

- Auglýsing -

Betra ástand á öðrum fjölmiðlum

Aðra sögu er að segja af öðrum íslenskum fjölmiðlum. DV og Stundinni, sem gefa út fáein blöð í mánuði, er stýrt af konum. Ritstjóri DV er Lilja Katrín Gunnarsdóttir en Einar Þór Sigurðsson er aðstoðarritstjóri. Hjá Stundinni eru þau Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Jón Trausti Reynisson ritstjórar.

Fréttum á RÚV er einnig stýrt af konu. Rakel Þorbergsdóttir er fréttastjóri RÚV en tveir varafréttastjórar, Broddi Broddason og Heiðar Örn Sigurfinnsson, eru karlar. Taka má fram að útgáfustjóri Mannlífs er Roald Eyvindsson og Hólmfríður Gísladóttir er fréttastjóri.

Þórir Guðmundsson er ritstjóri fréttastofu Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Kolbeinn Tumi Daðason er fréttastjóri Vísis og Hrund Þórsdóttir fréttastjóri Stöðvar 2. Sunna Kristín Hilmarsdóttir er staðgengill fréttastjóra á Vísi. Á þessum miðlum eru kynjahlutföll á meðal stjórnenda því jafnari en á dagblöðunum.

Katrín Björg segir að þetta snúist um fjölbreytni. „Fjölmiðlar eru það áhrifaríkir að stjórnendur þeirra ættu að vilja endurspegla fjölbreytileika samfélagsins. Við gerum ekki ráð fyrir því að einungis karlar hafi áhuga á því sem tekið er til umfjöllunar í þessum miðlum. Það hlýtur að þurfa að vera samsvörun þarna á milli.“ Hún bendir á að ýmsir aðrir fjölmiðlar leggi sérstaka rækt við að jafna kynjahlutfall, meðal annars þegar kemur að viðmælendum. „En þarna virðist vera eitthvert glerþak sem konur ná ekki upp í gegn.“

***

Áratugir aftur í tímann

„Þetta er bakslag. Það er alla vega verið að fara áratugi eða tvo aftur í tímann,“ segir blaðamaðurinn Anna Lilja Þórisdóttir um kynjahalla á dagblöðunum. Anna Lilja gegndi stöðu fréttastjóra hjá Morgunblaðinu áður en henni var sagt upp í nóvember. Hún er nú blaðamaður á Stundinni auk þess að vera stundakennari við Háskóla Íslands, þar sem hún kennir nemendum í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku. Hún bendir á að þar hafi konur verið í miklum meirihluta þeirra sem útskrifast, eða 75 prósent að jafnaði. „Hafi einhver í jafnréttisbaráttunni haldið að menntun myndi skila konum fleiri ábyrgðarstöðum þá er sú ekki raunin,“ segir hún og tekur fram að þetta gildi um fleiri fagstéttir.

Anna Lilja Þórisdóttir segir að konur hafi undanfarin ár verið í miklum meirihluta nemenda í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.

Kynjahalli á ritstjórnum er vandamál víðar en á Íslandi. Poynter Institute, þekktasta stofnun Bandaríkjanna á sviði blaðamennsku og ritstjórna, hefur bent á að konur skipi aðeins þriðjung starfa á ritstjórnum í Bandaríkjunum, þó að árum saman hafi ríflega tveir þriðju hlutar þeirra sem útskrifast úr námi í blaðamennsku og almannatengslum verið konur.

Anna Lilja segir það af og frá að konur vilji ekki gegna ábyrgðastöðum á fjölmiðlum. Konur vilji þvert á móti taka ábyrgð. Í stétt blaðamanna séu margar mjög reynslumiklar og vel menntaðar konur. „Það virðist ekki vera horft til þeirra þegar ráðið er í þessar stöður,“ segir hún og spyr hvers vegna önnur lögmál ættu að gilda um fjölmiðlarekstur en um annan rekstur – besta útkoman fáist þegar sem fjölbreyttastur hópur kemur að málum. „Þessar tölur eru engin tilviljun og sýna einfaldlega að jafnréttismál virðast ekki skipta stjórnendur þessara fjölmiðla miklu máli.“

Karlarnir neikvæðari

Í bandarískri rannsókn sem gerð var árið 2004 voru efnistök og áherslur fréttamiðla skoðaðar með hliðsjón af kyni ritstjóra. Greining á 30 fréttamiðlum sýndi ekki mikinn mun á efnistökum, eftir því hvort konur voru áberandi á meðal þeirra sem gegndu ritstjórastöðum eða ekki. Hins vegar reyndist nokkur munur á þeim verkefnum sem kvenkynsblaðamönnum var úthlutað, eftir því hvort aðalritstjóri var karl eða kona. Ekki var merkjanlegur munur á efnistökum blaðamanna eftir kyni, á þeim ritstjórnum sem konur og karlar voru jöfnum höndum við stjórnvölinn. Þar sem karlar voru ráðandi voru konum hins vegar falin önnur viðfangsefni en körlum. Auk þess reyndust fjölmiðlar sem karlar stýrðu velja neikvæðari útgangspunkt í fréttum.

Önnur rannsókn sem birt var í Springer Nature 2018 þar sem rýnt var í 212 bandarísk dagblöð á árunum 2004 til 2009, sýndi að fjallað var um konur á jákvæðari hátt eftir því sem hærra hlutfall var af konum á ritstjórnum. Þó var tekið fram að konum var ekki hyglað sérstaklega. Í niðurstöðum rannsóknarinnar var bent á að jákvæðar eða neikvæðar umfjallanir fjölmiðla geta haft mikil áhrif á líf fólks og frama.

Umfjöllunina má finna í nýjasta Mannlífi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -