Föstudagur 26. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Guðmundur Hrafn hélt eldræðu á Austurvelli: „Við megum aldrei gefast upp, aldrei!“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður samtaka leigjenda á Íslandi flutti eldræðu á Austurvelli í dag en þar var samankomnir blautir og óánægðir mótmælendur en boðað hafði verið til mótmæla á Facebook og í fjölmiðlum.

Margt var um manninn þrátt fyrir hellidembu.
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Talsverður hiti var í mótmælendum voru duglegir að kalla slagorð og gífuryrði. Þá kölluðu mótmælendur reglulega í takt: „Rísum upp!, Rísum upp!, Rísum upp!“. Minnti hitinn í mótmælendum blaðamann Mannlífs örlítið á byrjun Búsahaldabyltingarinnar árið 2008 en í hópnum mátti sjá Hörð Torfason tónlistarmann og eina af aðal forsprökkum Búsáhaldabyltingarinnar. Ekki fylltist Austurvöllur alveg enda mikil bleyta í miðbænum í dag en stefnt er á önnur mótmæli eftir viku.

Hörður Torfa.
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Í ræðu sinni talaði Guðmundur Hrafn um vandan sem blasir við leigjendum á Íslandi og sagði hann meðal annars að alþjóðasamfélagi leigjenda blöskri hvernig leigumarkaðurinn hefur þróast hér á landi. „Hvað gerðist eiginlega á húsnæðismarkaði hjá ykkur? Spurðu margir fulltrúar leigjenda á heimsþinginu, en þeir komu hvaðanæva úr heiminum.“

Ræðuna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Takk fyrir að koma hingað kæru félagar, takk fyrir að standa upp fyrir sjálfum ykkur og samferðafólki. Takk fyrir að taka afstöðu með heimilum og fjölskyldum landsins. Takk fyrir að sýna ábyrgð og samkennd. Takk fyrir að leyfa ykkur ekki að sogast inn í andrúmsloft skeytingarleysis, doða og aðgerðarleysis.

Eina leiðin til breytinga er að hafna með öllu því sem leiðir af sér hrakandi velferð almennings, upplausn velferðarkerfisins og áframhaldandi einræði fjármagnsins.

Austurvöllur er eini almenni lýðræðisvettvangur þjóðarinnar. Ráðandi öfl í þeirri stofnun sem er hér handan götunnar hafa sagt sig úr samfélagi við almenning og þjóna í síauknum mæli hagsmunum alþjóðasamfélagi fjármagns og stjórnmála en þar liggur hollusta þeirra miklu frekar en við almenning sem hafa þó svarið þess eið að vinna fyrir.

Íslensk stjórnvöld hafa lengi þjónað innlendum fjármagnsöflum en nú hefur keyrt um þverbak. Gróðaverðbólga og sjúkleg árátta þeirra til að mylja undan fjölskyldum landsins bæði með ámælisverðu sinnuleysi á víðsjárverðum tímum og með beinum og meðvituðum aðgerðum.

En það er héðan sem gagnsóknin gegn þessu félagslega og efnahagslega óréttlæti hefst. Við fólkið í landinu eigum þennan stað og héðan munum við stuðla að nauðsynlegum breytingum, vinnum að því að lögbundin réttindi almennings séu virt og að nýjum mannúðlegum samfélagssáttmála.

Við hefjum héðan gagnsókn gegn grimmilegri aðför að heimilum landsins, aðför sem staðið hefur sleitulaust í tvo áratugi.

Það var ekki nóg fyrir herdeild fjármagnsins á alþingi að vinna fullnaðarsigur á tugþúsundum fjölskyldna við bankahrunið og á sama tíma setja samfélagssáttmálann í tætarann á skrifstofu Viðksiptaráðs og heita því fullkomna hollustu.

Það var ekki nóg að valda félagslegum og fjárhagslegum harmleik með angist og örvæntingu íbúa landsins eftir sjúklega samfélagstilraun, heldur hefur stjórnvöldum síðan fundist þau þurfa að niðurlægja og smána hina sigruðu allar götur síðan.

- Auglýsing -

Við sem hér stöndum, ásamt öllum þeim sem hafa fengið sig fullsadda rísum nú upp og segjum nú er komið nóg. Við líðum ekki augnabliki lengur að fjölskyldur landsins séu eins og blóðmerar fyrir hið sjúklega samfélag stjórnmála og fjármagnsins.

Við megum aldrei gefast upp, aldrei! Við verðum að halda lífi í glæðum réttlætis og mannúðar því við vitum aldrei hvenær gustur samastöðunnar blæs yfir tún og engi.

Við getum þakkað mörgum fulltrúum okkar í verkalýðshreyfingunni, sönnum bandamönnum almennings sem reynt hafa af öllum mætti að athafna sig inn á alþingi, ótal husgjónafólki og eldhugum bæði nútíðar og fortíðar sem aldrei misstu trúnna á að hið þunga fljót mannúðar og samkenndar myndi rjúfa múra fjármagns og samtryggingar.

Við sem störfum að hagsmunabaráttu leigjenda eigum forverum okkar mikið að þakka. Við getum þakkað öllu því hugsjónafólki sem vék sínum eigin högum og velferð til hliðar í andstyggilegu andrúmslofti sjálfhygli og skeytingarleysis. Við minnumst Jón frá Pálmholti, frumkvöðuls í hagsmunabaráttu leigjenda sem um tveggja áratugaskeið barðist fyrir því að heimilum á leigumarkaði væri tryggð öryggi og velferð. 

Staðan á leigumarkaði er hættuleg, og hefur verið um nokkurra ára skeið. Við sjáum mikinn fjölda fjölskyldna, einstæðra foreldra og ungt fólk verða heimilislaust um þessar mundir. Gífurlega streita og örvænting hefur hreiðrað um sig í samfélagi leigjenda vegna húsnæðisskorts og sífelldra hækkana á húsaleigu. 

- Auglýsing -

Leigjendur búa ítrekað við yfirvofandi húsnæðismissi og sífellda flutninga. Stór hluti þeirra búa við fátækt sem er til komin vegna hárrar húsaleigu og margir verða fyrir langvarandi heilsubresti af þeim völdum með alvarlegum persónulegum afleiðingum.

Staðan á íslenskum leigumarkaði er svo slæm að þrátt fyrir að leigjendur eigi undir högg að sækja víða í okkar heimshluta þá blöskrar alþjóðasamfélagi leigjenda hvernig leigumarkaðurinn hér hefur þróast. 

Á nýliðnu heimsþingi alþjóðasamtaka leigjenda sem fulltrúi íslenskra leigjenda sótti kom fram að staða leigjenda er hvergi verri í álfunni. Blöskraði þeim svo mikið að alþjóðasamtökum leigjenda þykir tilefni til að athuga hvort ekki sé farið eftir mannréttindasáttmálum og tilskipunum Evrópusambandsins.

Hvað gerðist eiginlega á húsnæðismarkaði hjá ykkur? Spurðu margir fulltrúar leigjenda á heimsþinginu, en þeir komu hvaðanæva úr heiminum. Það er auðvitað of langt mál að fara yfir það hér, en það snýst fyrst og fremst um fjármálavæðingu á húsnæði undanfarna tvo áratugi sem hefur valdið umpólun í eignarhaldi.

Tæp 70% allra íbúða sem hafa bæst hafa við íslenskan húsnæðismarkað frá árinu 2005 hafa verið keyptar af fjárfestum sem vilja maka krókinn á verðhækkunum og leigjendum. Aðeins 30% íbúð hafa verið keyptar af fjölskyldum og einstaklingum sem hafa verið að leita sér að heimili.

Það eru ekki fjölskyldur í heimilisleit sem hafa valdið fordæmalausum hækkunum á húsnæði sem er aðalorsök þeirrar verðbólgu sem við búum við, heldur eru það fjársterkir einstaklingar og fjárfestar sem hafa leikið sér að því. Þeim er alveg sama hvað húsnæðið kostar þeir munu ekki þurfa greiða fyrir það sjálfir, því það munu leigjendur að gera fyrir þá. En leigjendur munu samt aldrei eignast neitt í húsnæðinu þrátt fyrir að borga fyrir það með striti sínu og fórnum, og þeir munu heldur aldrei geta eignast sparnað.

Verð á húsnæði hefur tífaldast á rúmu tveimur áratugum, á sama tíma hefur skipulega verið unnið að því að mylja undan valkostum landsmanna í búsetu. Stjórnvöld hafa beitt fyrir sér spilltri stjórnsýslu til þess að skapa hér ófremdarástand, ástand sem verður að skrifast að fullu á þá sem einhvern tímann hafa haft tækifæri til að beygja af þessari leið hörmungar, en látið það ógert. Við þurfum hinsvegar ekki að tíunda hver þau öfl eru sem hafa haft skipulega unnið að því að skapa núverandi ástand og haft það að markmiði sínu, þau öfl þekkjum við öll.

Það er ekki undarlegt að 90% leigjenda vilja alls ekki vera á leigumarkaði þar sem ríkir algjör sjálftaka, hömluleysi og grimmd. Þar sem skorti á húsnæði er meðvitað viðhaldið af ráðandi öflum, bæði af fjárfestum og yfirvöldum. Þar sem félagslega rekið leiguhúsnæði er í mýflugumynd og öllum meinuð sjálfsbjörg í hverri mynd sem er.

Það er ömurlegt samfélag stjórnvalda sem líðir það að fjörtíu þúsund heimili á leigumarkaði séu föst þar gegn vilja sínum. Það eru til dæmis meiri líkur á því að læknast ef ebólu, skæðustu pest lífríkisins en fyrir leigjendur yfir þrítugu að komast af leigumarkaði.

Það er ömurlegt samfélag stjórnvalda sem ýtir undir fátækt á meðal leigjenda. Sem dæmi er fátækt meðal leigjenda vegna húsnæðiskostnaðar nærri sexfalt algengari en hjá þeim sem eru að eignast eigið húsnæði. Það sama skapi eru þeir sem þurfa að leita sér aðstoðar vegna framfærslu eru næstum því allt leigjendur.

Það er ömurlegt samfélag stjórnvalda sem meðvitað veldur leigjendum bæði skaða og skelfingu til þess eins að þjóna fjárfestum.

Það er ömurlegt samfélag stjórnvalda sem á sama tíma og velferð leigjenda hrakar er  viðhaldið hér einu lakasta regluverki á leigumarkaði sem fyrirfinnst á meðal siðmenntaðra ríkja. Stjórnvöld hafa ekki viljað bregðast við áskorun allsherjarþing sameinuðuðu þjóðanna um að tryggja íbúum landsins þau réttindi sem kveðið er á um í lögfestum alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, en hann inniheldur vel skilgreindan “rétt til viðeigandi húsnæðis”.

Það er ömurlegt samfélag stjórnvalda sem sífellt veikir veikburða réttarvernd fyrir leigjendur þrátt fyrir augljósar staðreyndir um skelfilega stöðu þeirra.

Það er ömurlegt samfélag stjórnvalda sem þráast við að bregðast við ákalli leigjenda um réttarbætur, öryggi og jafnræði.

Það er ömurlegt samfélag stjórnvalda sem bregður fyrir sig spilltri stjórnsýslu til að afvegaleiða almenning og umvefja sig rökstuðningi fyrir sinnu- og skeytingarleysi.

Hvað hafa leigjendur eiginlega gert af sér?

Þetta ömurlega samfélag stjórnvalda hefur meðvitað skapað þetta ástand, ástand þar sem leigjendur eru auðlind fyrir fjárfesta. Ástand sem veldur áhlaupi fjárfesta á húsnæði með tilheyrandi hækkunum og verðbólgu. Ástand sem kemur í veg fyrir að leigjendur og ungt fólk komist í húsnæðisöryggi og ástand sem skapar fátækt, örvæntingu og heilsubrest

Það verður að stöðva þessa galeiðuför stjórnvalda með öllum tiltækum ráðum. Til þess erum við samankomin hér í dag. Því nú rísum við upp, nú er komið nóg!

Ef þú togar, og ég ýti þá fellur staurinn eins og segir í kvæðinu.

Við getum þetta saman, við setjum heimilin í fyrsta sæti.!

Takk fyrir mig.

Guðmundur Hrafn

Samtök leigjenda á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -