Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður er síður en svo sáttur við svör lögreglunnar varðandi atvikið á Keflavíkurflugvelli þegar Isavia kom í veg fyrir myndartöku Rúv af brottflutningi lögreglunnar á flóttafólki. Isavia hefur gefið þau svör að fyrirtækið hafi einungis verið að framfylgja beiðni lögreglunnar og beðist afsökunar á því. Lögreglan hefur sagst ætla að rannsaka málið betur og endurskoða verkferla.
„Þetta gengur engan veginn. Svona kattarþvottur á ekki að líðast þegar um er að ræða tilraunir lögreglu og einkafyrirtækja til að hafa áhrif á mikilsverð störf fjölmiðla í þágu samfélagsins. Það VERÐUR að upplýsa hver gaf skipunina og hverjir hlýddu. Ef við eigum að vera alvöru samfélag verður að taka svona mál alvarlega,“ skrifaði Illugi á Facebook en færslan hefur vakið mikla athygli.