Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Páll Ásgeir, blaðamaður og fjallagarpur: „Gengum alltaf út frá því að allir væru óhamingjusamir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Páll Ásgeir Ásgeirsson, rithöfundur, blaðamaður og leiðsögumaður, er einn reyndasti fararstjóri Íslands. Hann hefur um árabil starfað fyrir Ferðafélag Íslands og hefur farið fjölmargar ferðir með hópa á Hvannadalshnúk, hæsta tind Íslands. Hann býr sömuleiðis yfir gríðarlegri reynslu í blaðamennsku.

Páll Ásgeir var gestur Reynis Traustasonar í hlaðvarpinu „Mannlífið“.

 

Skammast sín enn fyrir sumar forsíður

Hann hóf blaðamannaferil sinn á Ísafirði, hjá vestfirska Fréttablaðinu.

„Ég held að það hafi verið 1984 eða 1985. Ég held að það teljist vera upphaf þess tímabils ævi minnar. Ég er þá að verða þrítugur.“

„Ég lærði mjög margt í blaðamennskunni. Ég lærði svona lífsmáta. Því að blaðamannshatturinn, hann leyfir þér að spyrja hvern sem er að hverju sem er. Þú þarft enga ástæðu aðra en starfið.

- Auglýsing -

Þetta starf kennir þér líka að horfa gagnrýninn í kringum þig. Blaðamenn læra svolítið vel á samfélagið – svona samsetningu þess og uppbyggingu. Þannig að þetta er skemmtilega fjölbreytt og lifandi starf. En það verður samt í starfi, til dæmis á dagblaði, að einn dagur er öðrum líkur.

Ég var árum saman með helgarútgáfuna og þá hugsar maður í vikum. Föstudagur, sem er skiladagurinn fyrir blaðið, er eini dagurinn í vikunni sem skiptir máli. Maður þarf að vera klár með eitthvað sem er í lagi og það eru sumar forsíður á helgarblaði sem ég skammast mín fyrir enn þann dag í dag, en það eru líka sem betur fer mjög margar sem ég er ánægður með.“

 

- Auglýsing -

Gengu út frá því að fólk væri óhamingjusamt

Páll segir að þegar hann líti til baka yfir fjölmiðlaferilinn geri hann í rauninni ekki upp á milli einstakra mála sem honum þykja minnisstæðust. Honum hafi hinsvegar þótt skemmtilegt þegar blaðamenn settu sér hinar ýmsu vinnureglur.

„Ég man eftir því að einu sinni fengum við mikinn áhuga á því að taka viðtöl án þess að skrifa neitt hjá okkur og án þess að vera með segulband. Við stóðum í þeirri trú að ef viðmælandinn segði eitthvað sem væri þess virði að prenta það í blaðinu myndum við muna það.

Við urðum að hætta þessu, vegna þess að þetta stressaði svo viðmælendurna.

Það var ekki það að – þetta er í sjálfu sér ekkert flókið – þú sest niður með manni og talar við hann í klukkutíma og það sem þú labbar með út úr herberginu … ef þú manst það ekki til þess að skrifa einnar síðu viðtal úr því, þá er það ekki merkilegt. Þá er þetta eitthvað sem skiptir ekki máli. En þetta stressaði viðmælendur óstjórnlega.

Svo man ég eftir annarri handhægri vinnureglu sem við komum okkur upp. Að ganga alltaf út frá því að allir væru óhamingjusamir og öll viðtöl sem við tókum, hvort sem það voru kynningarviðtöl eða fólk stóð í einhverjum áföngum eða átökum í sínu lífi eða eitthvað svoleiðis, þá nálguðumst við viðmælendur okkar alltaf út frá því að þeir væru óhamingjusamir.

Við stóðum í þeirri trú og ég stend enn í þeirri trú að það skili árangri, að horfa þannig á málin.“

 

Eina skiptið í dómsal

Talið berst að stefnu Páls með forsíður á sínum tíma, en þær voru stundum taldar ansi hvassar og vöktu athygli. Í því samhengi nefnir Reynir forsíðu helgarblaðs DV árið 2001 sem bar fyrirsögina „Hvíta Ísland.“ Í helgarviðtalinu sem bar fyrirsögnina var rætt við varaformann Félags íslenskra þjóðernissinna, sem lét þar hafa eftir sér grófa, rasíska orðræðu.

„Það er eina skiptið sem ég hef skrifað eitthvað í blöðin og þurft að mæta í dómsal út af því, vegna þess að hann var kærður. Það er eini dómurinn sem hefur gengið um kynþáttaníð, ef ég man rétt og ég þurfti að mæta í dómsal og staðfesta að ég hefði tekið þetta viðtal og hann hefði sagt þetta allt saman.

Þetta byggðist á þeirri afstöðu að það ætti að lýsa inn í skúmaskotin.

Það voru þrjú systkini undir Eyjafjöllum sem stofnuðu þennan stjórnmálaflokk sem byggðist á hugsjónum nasistanna og það var einhver umræða um það hvort það ætti að hunsa þau, það er að segja ekki vera að kynna flokkinn og þessar hugmyndir, eða hvort það ætti að veita þeim athygli.

Við unnum út frá því að það ætti að lýsa inn í þetta myrka skúmaskot, fórum bara vel að þeim og fengum þetta viðtal.“

 

Skipið sem sökk – DV í klóm pólitískra afla

Um endalok DV þessa tíma segir Páll:

„Skipið sökk. Ég skrifaði þá grein sem ég er alltaf mjög ánægður með, í Tímariti Máls og menningar. Hét hún ekki „Dagurinn sem skipið sökk“? Ég held það.“

Í greininni var sagt frá því hvernig stjórnmálaöflin höfðu teygt sig inn á blaðið, sem endaði með því að Sjálfstæðisflokkurinn var kominn með mann inn í ritstjórnina. Þessi pólitísku afskipti af fjölmiðlum voru sannarlega ekki einsdæmi á þessum tíma.

Páll lýsir atviki á fjölmiðlinum, sem hann skrifaði um í greininni:

„Þetta var rétt fyrir einhverjar kosningar. Maðurinn sem við erum að tala um heitir Ólafur Teitur Guðnason. Það voru átök um það hvað ætti að vera á forsíðu helgarblaðsins föstudaginn fyrir kosningar. Það var þrasað um þetta alla vikuna og á endanum þá sættust menn á það að ég færi norður á Akureyri og tæki viðtal við Kristján Jóhannsson  óperusöngvara.

Það var dásamlegt ferðalag, því Kristján er náttúrlega alveg óstjórnlega skemmtilegur maður. Hann fór í viðtalinu að skammast eitthvað út í menntamálaráðuneytið. Þá var ekki byrjað að byggja Hörpu enn þá. Þetta voru skammir til stjórnvalda fyrir að veita ekki fé í byggingu tónlistarhúss.

Þegar við vorum búin að ganga frá blaðinu, þegar ég var að ganga út úr húsinu þá sá ég út undan mér að Óli Teitur stóð og var að lesa yfir umbrotið og svo kallaði hann í Jónas Haraldsson og Óla Björn og sagði: „Þetta er massívur áróður gegn Sjálfstæðisflokknum. Við verðum að gera eitthvað í þessu.“

Ég man eftir því að þeir horfðu svona til mín, af því að ég var á útleið, svona eins og til að vita hvort ég myndi skipta mér eitthvað af þessu. Ég hélt bara áfram út.

Þú ert orðinn ofboðslega taugastrekktur ef þú heldur að það sem einn óperusöngvari norður á Akureyri segi hafi einhver áhrif á kosningaúrslit. Þá ertu að standa dyggari varðstöðu en var ætlast til af þér, held ég.“

 

Fjöllin og leiðsögumaðurinn

Páll segist ekki hafa fengið skyndilegan áhuga á fjallamennsku, heldur hafi hann verið alinn upp í náttúrunni, í návígi við fjöllin í mikilli útivist og smalamennsku. Hann hafi því alltaf verið handgenginn náttúrunni.

„Ég tala enn þá um þetta eins og að vera úti að leika sér. Það er alveg sama hvað þú ert að gera utandyra, hvort þú ert að ganga eða hjóla eða hlaupa eða klifra eða hvað, aðalatriðið er að vera úti.

Það er samband mannsins við náttúruna – það er orkuuppsprettan. Heilbrigður lífsstíll og vellíðan sem fylgir í kjölfarið er bara bónus. En við erum að næra sálina fyrst og fremst með því að fara út að leika okkur.

Mér finnst ég hafa gert þetta alla mína ævi, en það er ekki fyrr en ég sest í stjórn Ferðafélags Íslands 2005 eða 2006, ef ég man rétt … fram að því hélt ég að ég hefði ekki þolinmæði til þess að vera leiðsögumaður. En svo liðu eitt eða tvö ár og þá fór ég að fást við þetta fyrir ferðafélagið og þá rann það upp fyrir mér að ég var búinn að ná því andlega jafnvægi að geta gert þetta. Því það þarf töluverða þolinmæði í þetta.“

Frá því að Páll fór að starfa sem leiðsögumaður hafa vinsældir hinna ýmsu fjallaferða og annarra útivistarferða stóraukist hjá Ferðafélagi Íslands.

„Þetta helst í hendur við stóraukinn áhuga Íslendinga á sínu eigin landi og aukinn áhuga á útivist og heilbrigðum lífsstíl. En síðan reis svona aukabylgja í Covid-faraldrinum. Þegar Íslendingar komust ekki til útlanda og fóru í auknum mæli að ferðast um sitt eigið land.

Við héldum kannski fyrst að það yrði bara eitt sumar, sumarið 2020, þegar landið var hálfpartinn lokað. Svo sáum við í sumar að þetta heldur áfram, vegna þess að það var ekki minni aðsókn í sumarleyfisferðir og öll þessi verkefni hjá Ferðafélaginu í sumar en sumarið áður.

Ferðafélagið stendur núna þannig að það eru fleiri félagsmenn en nokkru sinni fyrr og starfsemin er í gríðarlega miklum blóma.“

 

Mikilvægt að leiðsögumenn geri sér grein fyrir ábyrgðinni

Páll hefur lent í hinu og þessu í fjallaferðum sínum, þótt hann hafi ekki lent í alvarlegum háska. Hann hefur ekki dottið og meiðst, en hann hefur lent í slæmum aðstæðum, vondu veðri og slíku.

„Þegar ég hef lent í lífshættu hef ég alltaf verið bara með sjálfan mig. Ég hef aldrei sett neitt fólk í lífshættu. Sérstaklega á meðan ég var yngri, þá var maður kappsamari heldur en nú, þannig að stundum göslaðist maður lengra en maður hefði átt að gera, sneri of seint við og svona.“

Honum þykir afar mikilvægt að nýir leiðsögumenn geri sér grein fyrir ábyrgðinni sem fylgir starfinu og ef hann væri að halda erindi fyrir verðandi leiðsögumenn myndi hann ráðleggja þeim að byrja á því að taka sjálfa sig út úr miðjunni.

„Maður er ábyrgur fyrir lífi og öryggi fólks á fjöllum, hvort sem það er verið að fara á Esjuna eða hæsta fjall á Íslandi. Maður má aldrei gleyma því. Þessir leiðangrar, stórir og smáir, snúast ekki um það sem ég get eða það sem ég ræð við, þeir snúast um öryggi hópsins.

Þess vegna þarf maður eins fljótt og maður getur í þessum verkefnum að temja sér þá auðmýkt sem þarf til að taka sínar eigin sjálfstæðu ákvarðanir án þess að láta þrýsting frá hópnum eða einhverja markmiðasetningu trufla sig og snúa bara við þegar maður heldur að hópsins vegna sé þetta orðið gott í dag og það væri verið að hætta öryggi þeirra ef haldið væri áfram.

Það hvort þú myndir persónulega leysa verkefnið og fara á toppinn, það kemur þessu máli ekkert við. En það tekur mann svolítinn tíma að læra þetta og safna sér þeirri reynslu og þeirri innri ró sem þarf til þess að gera þetta svona.“

 

Þarf ekki að verða elstur á Hvannadalshnúk

Þær eru orðnar ansi margar, ferðir Páls upp á Hvannadalshnúk, hæsta tind Íslands:

„Ég fór fyrst upp á Hvannadalshnúk 1994. Svo liðu mjög mörg ár þar til ég fór aftur, en eftir að ég fór að vinna við leiðsögn þá er ég sennilega búinn að fara … ætli það hafi ekki byrjað aftur svona 2006, 2007, eitthvað svoleiðis.

Svo hafa nú stundum komið ár sem ég hef sleppt því, en ég fór upp síðastliðið vor. Það er ekkert kappsmál fyrir mig að vera elstur í hópnum, þannig að ég er að hugsa um að leggja þetta á hilluna. Ég er ekki viss um að ég fari upp í vor, sko. Ég sé það ekki fyrir mér. Ég gæti það alveg, það er ekki það, en það hefur allt sinn tíma.

Þegar ég lít yfir hóp þátttakenda í þessum verkefnum, eins og að ganga á Hvannadalshnúk, ætli meðalaldurinn í þessum hópum gæti ekki verið einhvers staðar á milli 38 og 45 ára. Þetta er fólk svona að nálgast miðjan aldur. Þegar ég var fertugur, ef ég hefði þá verið á leið upp á Hvannadalshnúk, og hefði komist að því að fararstjórinn væri 25 árum eldri en ég … ég er ekki viss um að mér hefði þótt það traustvekjandi. Ég er ekki viss um að mér hefði þótt svona sérstakur ávinningur af því. Elsti maður sem ég hef farið með upp var 75 ára og honum gekk ágætlega, en eins og ég segi, það er mér ekkert kappsmál að vera elstur í leiðangrinum.“

Aðspurður hvernig hann telji að snúa megi við lýðheilsuvanda þjóðarinnar og rísandi tíðni offitu, segir Páll það eflaust geta verið mjög flókið mál.

„Það eina sem ég vil segja um það er að allar rannsóknir sýna að öll hreyfing skilar árangri. Sá sem temur sér það að fara út að hreyfa sig, þótt það séu ekki nema tíu mínútur á dag, ef það er með reglulegum hætti, burtséð frá heilsu þátttakenda og aldri þeirra og ásigkomulagi þegar þetta hefst, þá skilar þetta alltaf árangri. Bæði til bættrar heilsu og síðan, í framhaldinu, þyngdartaps.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -