Föstudagur 20. maí, 2022
8.8 C
Reykjavik

Séra Jóna Hrönn var miðborgarprestur: „Margoft var ég óttaslegin og mér var hótað“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Þetta er brot úr helgarviðtali Mannlífs, þar sem Svava Jónsdóttir átti afar áhugavert samtal við séra Jónu Hrönn Bolladóttur, sóknarprest í Vídalínskirkju. Hún á fjölbreyttan feril að baki og hefur frá mörgu að segja; um trúna, lífið, ástina og uppvöxtinn.

Jóna Hrönn var Miðborgarprestur árið 1998-2005. Hvað er eftirminnilegast frá þeim tíma?

„Ástandið var slæmt í miðbænum um síðustu aldamót. Ég man að það fór um mig hrollur þegar vinnuveitendur mínir fóru fram á að keypt yrði fyrir mig sérstök slysatrygging á meðan ég gegndi þessu embætti. Ég varð aldrei fyrir líkamstjóni í starfinu en margoft var ég óttaslegin og mér var hótað.

Á þessum árum var mikil unglingadrykkja í miðborginni og hörð fíkniefni flæddu yfir. Þá voru líka opnaðir nokkrir nektardansstaðir og þeim fylgdi mikil þjáning og sorg. Líkt og í Erninum í dag voru magnaðir sjálfboðaliðar sem komu til samstarfs við mig hverja helgi á efri hæðinni í Austurstræti 20 þar sem Miðborgarstarfið hafði afdrep. Árið 2001 fórum við í það að innrétta neðri hæð hússins sem kaffihús sem fékk nafnið Ömmukaffi. Þetta var kostnaðarsamt verkefni enda var þetta fullbúið kaffihús sem hafði ásýnd heimilis eldri konu. Hugmyndin var að hluta til fengin frá finnsku kirkjunni en einnig frá þeim fjölmörgu unglingum sem höfðu sagt okkur að þeir ættu alltaf afdrep hjá ömmu sinni þegar allt annað þryti. Um helgar komu að meðaltali 50–100 unglingar til okkar í Ömmukaffi. Á daginn var rekið venjulegt kaffihús sem átti marga fastagesti því veitingar voru ljúffengar og staðurinn bar með sér yfirbragð manngæsku og trúar.

Í starfi mínu sem miðborgarprestur horfði ég oft til Kolaportsins og velti því fyrir mér hvort hægt væri að koma til samstarfs við það mikla mannlífstorg. Ég vandi þangað komur mínar um helgar og fann innra með mér að vissulega ætti kirkjan þar erindi. Svo þegar ég kom að máli við Jónu Ásgrímsdóttur, sem þá rak kaffihúsið á svæðinu, og bar undir hana þá hugmynd að hafa guðsþjónustur í kaffihúsinu hjá henni tók hún mér afar vel. Ég fékk með mér presta, djákna og tónlistarfólk til að þjóna við athafnirnar. Bjarni minn var ævinlega með mér í þessu helgihaldi og einnig Þorvaldur Halldórsson tónlistarmaður og Ragnheiður Sverrisdóttir djákni auk annara. Mér þykir óendanlega vænt um það að Bjarni og Ragnheiður skuli halda utan um þessar messur núna 22 árum seinna ásamt Guðrúnu Árnýju Karlsdóttur tónlistarmanni. Og eitt verð ég að segja til viðbótar: Ég lærði að biðja í Kolaportinu. Hvergi hefur mér reynst auðveldara að bera þar upp bænarefni. Þar ríkir mikil samstaða og kliðurinn og köllin um kartöflur og hákarl til sölu er eðlileg staðfesting á því að það skiptir máli að taka þátt í lífinu og að veruleikinn sjálfur er hinn rétti vettvangur bænarinnar. Mitt í hinu lifaða lífi er hjartsláttur trúarinnar heitur og ör í Kolaportsmessunum.“

Mynd: Kazuma Takidawa

 

- Auglýsing -

Hér má lesa viðtalið í heild sinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -