Um liðna helgi tók áhöfnin á varðskipinu Þór þátt í árlegu hreinsunarverkefni samtakanna Hreinni Hornstrandir.
Fram kemur á heimasíðu Landhelgisgæslunnar að verkefnið hafi byrjað á föstudaginn er 28 vaskir sjálfboðaliðar fóru siglandi inn í Hrafnfjörð. Þaðan lá leiðin yfir Skorarheiði og niður í Furufjörð.

Ljósmynd: lhg.is
Hitti áhöfn skipsins hópinn fyrir í Furufirði á laugardeginum og byrjað var að ferja ruslahrúgur sem safnast höfðu, um borð í varðskipið. Á heimleiðinni buðu samtökin Hreinni Hornstrandir, sjálfboðaliðum og áhöfninni í grill.

Ljósmynd: lhg.is
Afrakstur helgarinnar, 5,19 tonn af rusli, var settur í land á Ísafirði en samanstóð það að mestu af plasti og netadræsum.