Föstudagur 20. maí, 2022
12.8 C
Reykjavik

Trúbrot var úthrópuð en ekki útúrdópuð: „Við erum ekki forfallnir dópistar“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Í ársbyrjun 1970 birtist viðtal við meðlimi hljómsveitarinnar Trúbrots sem skók samfélagið.

Á forsíðu vikunnar var heilsíðumynd af þessari vinsælustu hljómsveit Íslands með fyrirsögninni:

Við reyktum marijuana.

Þessi yfirlýsing var orðrétt höfð eftir Gunnari Þórðarsyni gítarleikara. Viðtalið kom í framhaldi af lögreglurannsókn og miklu umtali í samfélaginu þar sem umtalað var að hljómsveitin væri í dópinu, eins og það kallaðist þá.

Ómar Valdimarsson, blaðamaður Vikunnar, útskýrði í upphafi viðtalsins hver var kveikjan að umfjölluninni.

- Auglýsing -

„Hvar sem maður kemur þessa dagana er talað svo til eingöngu um tvennt: EFTA og dópstandið á Trúbrot. Ég rakst á kunningja minn í strætó um daginn og við fórum að tala um þetta tvennt, þó heldur meira um dópmálið svonefnda,“ skrifar Ómar og segist hafa verið á þeirri skoðun að honum þætti heldur harkalega að þeim félögum í Trúbrot vegið.

Og honum tókst að selja hljómsveitinni þá hugmynd að tala út um málið og játa neysluna undanbragðalaust.

- Auglýsing -

Á þessum tíma var Trúbrot vinsælasta hljómsveit landsins, og stóð flestum öðrum hljómsveitum framar að getu og vinsældum. Hún var súpergrúppa, sett saman úr Hljómum, fyrstu bítlahljómsveit Íslands, og Flowers, sem notið hafði mikilla vinsælda.

Trúbrot var á þessum tíma nánast í guðatölu hjá ungu fólki á Íslandi og hafði gríðarleg áhrif á ungt fólk.

Afhjúpunin var því mörgum reiðarslag.

Ómar hitti Gunnar Þórðarson „gítarleikara hljómsveitarinnar alræmdu“ og fékk hann til að segja allt af létta um þetta mál sem svo mikið hafði verið talað um í blöðum og á götum úti.

Gunnar sagðist sjálfur hafa byrjað að nota „lyfið“ á Englandi þremur árum fyrr þegar fyrri breiðskífa Hljóma var tekin upp þar. Síðan hafi hann neytt maríjúana í Svíþjóð ári síðar en lítið eftir það.

„Ég ætla ekki að þræta fyrir það að það er hitt og þetta til í þessum sögum sem hafa gengið um hljómsveitina í sambandi við kannabisneyslu, en ég harðneita því bæði fyrir mína hönd og eins hinna í hljómsveitinni, að við séum forfallnir dópistar.“

Blaðamaðurinn spurði þá hvar hljómsveitin hefði fengið það maríjúana sem um ræðir; var spurt hvort þau hefðu sjálf smyglað því frá Englandi.

Gunnar upplýsti fúslega hvað var þar um að ræða.

„Við fengum þetta magn hjá Bandaríkjamanni af Keflavíkurflugvelli, sem við höfðum kynnst rétt áður en við fórum til London í haust til að taka upp nýju plötuna. Við komum heim síðast í október, og skömmu síðar bauðst hann til að gefa okkur örlítið maríjúana. Við þáðum það, öll nema Gunnar Jökull trommu­leikari, sem alltaf hefur verið ákaflega mikið á móti þessu. Og ég vil að það komi skýrt fram, að við gerðum allt sem í okkar valdi stóð til þess að halda þessu leyndu og við gáfum aldrei eitt einasta gramm út fyrir hljómsveitina,“ segir Gunnar.

Hann segir neysluna aldrei hafa verið mikla.

„Ég sagði persónulega vinum mínum frá þessu, og reikna með að hin hafi gert það líka, þannig að það er í rauninni okkur að kenna, að einhverju leyti, hvernig komið er. Nei, við vorum ekki stanslaust undir áhrifum þessa, magnið var lítið. Hefði öllu verið rúllað upp í sígarettur, og þessar marijuana­sígarettur eru venjulega ca. helmingi mjórri en venjulegar, þá hefðu þær orðið á að giska 30. Það hefur verið í rúman mánuð sem við neyttum þessa, og þá aðeins um helgar, á tyllidögum, eins og maður segir. Jú, það kom fyrir að við notuðum lyfið á meðan við vorum að spila, en það er alls ekki rétt sem ég var að heyra, að ég og við öll, hefðum ekki getað spilað nema að vera í „dópinu“!,“ sagði Gunnar við Vikuna fyrir 51 ári síðan.

Gunnar segir að neysla hans og annarra hljómsveitarmeðlina hafi verið fikt en ekki hörð neysla.

„Fyrst þegar ég reyndi þetta, þá gerði ég það fyrir hreina forvitni, og það sama er hægt að segja um hin þrjú. Ég þóttist vera búinn að lesa mér nægilega mikið til, til þess að ég væri öruggur um að þetta hefði engin skaðleg áhrif á mig. Og ennþá hef ég ekki rekist á neitt sem ritað hefur verið um þetta, og hef ég þó lesið allt sem ég hef náð í, sem bendir til þess að maríjúana, eða kannabis yfirleitt, hafi skaðleg áhrif á fólk. Og samanborið við vín er þetta, ja, það er eiginlega ekki hægt að bera þetta saman. Vín deyfir mann fyrir umhverfinu, en undir áhrifum marijuana verður maður ákaflega næmur og opinn, og það er ástæðan fyrir því að við notuðum þetta einu sinni eða tvisvar á meðan við vorum að spila. En ég er alls ekki að mæla með þessu,“ sagði Gunnar.

Upphaf þess að málið fór í fjölmiðla var að sögn Gunnars að einhver tók sig til og sendi nafnlaus bréf á fjölmiðla þar sem því var lýst að flugfreyja hefði játað við yfirheyrslu að hafa smyglað maríjúana til landsins fyrir hljómsveitina.

„Þessi stúlka smyglaði aldrei einu eða neinu inn í landið handa okkur, og því síður var hún rekin úr starfi fyrir það. Ástæðan fyrir því að hún hætti í starfinu var sú, að hún var bara ráðin til 1. nóvember eða eitthvað svoleiðis, og sá tími var einmitt útrunninn þegar þetta bréf var samið. Þannig að þessi saga er uppspuni frá rótum.“

Blaðamaður spyr um áhrif þess að hljómsveitin var bönnuð fyrir fullt og allt á skemmtistað auk þess sem samband vínveitingahúsa beindi þeim tilmælum til félaga sinna að Trúbrot yrði ekki látin spila á meðan málið væri í gangi.

„Auðvitað er þetta slæmt, en okkur finnst þetta eiginlega óskiljanlegt. Við höfum ekki gert neitt sem gengur í berhögg við lögin, en samt erum við stimplaðir sem ótíndir glæpamenn og skúrkar, á meðan illmennum eins og þeim sem fleka smábörn og þaðan af verra, er hlíft á allan hugsanlegan hátt af ríkisvaldinu. Mér finnst blaðamennska á Íslandi skítug, en það er varla við öðru að búast, því blöðin verða náttúrlega að innihalda eitthvað sem fólk vill lesa, og æsifregnir eins og „TRÚBROT MEÐ EITURLYF“ er vitaskuld fyrsta flokks söluvara.

Og mér fannst það nokkuð undarlegt, svo ekki sé meira sagt, að háttsettur laganna vörður hér á landi lét hafa það eftir sér í blaðaviðtali að hann „héldi“ að þetta hefðu verið einhverjir meðlimir úr þessari hljómsveit, sem teknir voru fyrir „eiturlyfjaneyslu“,“ svarar Gunnar.

Hann lýsir því þegar lögreglan birtist á heimili hans. Þar voru nokkrir samankomnir til að kveðja Bandaríkjamanninn, sem hafði áður útvegað þeim marijuana.

„Þessa nótt, sem lögreglan kom hér, var ég að kveðja hann, og við sátum hér í stofunni ásamt Rúnari og Shady, konan mín var sofandi inni. Og það er eins satt og að ég er Gunnar Þórðarson, að eina „eitrið“ sem hér var haft um hönd í það skiptið, voru sígarettur af gerðinni Salem; við sátum hér í bróðerni og töluðum um músik. Klukkan hálf fimm, vinur minn bandaríski átti að fara heim um morguninn og því sátum við svona lengi, þá komu inn fimm lögregluþjónar, með aðstoðaryfirlögregluþjóninn í broddi fylkingar.

Ég fór til dyra, og þar er strax borið upp á mig að ég sé þrældópaður, og hvort ég vildi ekki gefa þeim sýnishorn. Því miður varð ég að neita þvi; ég átti bara ekkert sýnishorn handa honum!

Svo vorum við tekin fram, eitt og eitt í einu og yfirheyrð. Síðan kvöddu þeir kurteislega!

Daginn eftir vorum við á æfingu hér í Reykjavík, þegar þessi sami lögreglumaður kom og sagði okkur að við ættum að koma strax með þeim suður í Keflavík, þar sem átti að yfirheyra okkur. Jú, jú, það var í lagi, og við fórum með þeim suðureftir. Þar vorum við yfirheyrðir af íslensku lögreglunni á Keflavíkurflugvelli, og fengum við að vita að Bandaríkjamaðurinn, sem hafði gefið okkur lyfið, hafði verið tekinn fastur.

Síðan vorum við leidd fyrir rétt, og látin bera vitni í máli hans, þar sem við játuðum auðvitað að hann hefði gefið okkur fjórar litlar filmudósir með marijuana. Og það er ekki rétt að það hafi fundist maríjúana hjá Shady við húsrannsókn, því hún afhenti það strax sjálf,“ segir Gunnar.

Blaðamaður segir þá staðreynd blasa við að framtíð meðlima Trúbrots sem tónlistarmanna á Íslandi sé heldur dökk og spyr hvað þau ætlist fyrir.

„Í rauninni getum við ekkert gert. Eina spilið sem við höfum í höndunum er músíkin okkar, og við verðum að vinna í henni. Við höfum öll fjögur ákveðið að gefa öllum örfandi lyfjum frí, en nú er bara að bíða og sjá til hverju fram vindur. Og mig langar til að segja þetta einu sinni enn: Það er undarlegt réttarfar sem stimplar menn ótínda glæpamenn og þrjóta fyrir eitthvað sem ekki er ólöglegt, en lætur svo menn, stórhættulega þjóðfélaginu, hvílast undir verndarvæng ríkisins.“

Blaðamaður slær tóna svartsýnis undir lok viðtalsins og segir að málið hafi valdið aðdáendum hljómsveitarinnar miklum vonbrigðum. Margir hafi snúið bakinu við Trúbroti vegna þess að þeir hafi verið í fíknilyfjaneyslu og tíminn verði að leiða í ljós hvernig fari fyrir hljómsveitinni.

Gunnar sagði að málið hafi ekki haft veruleg áhrif á afkomu hljómsveitarinnar sem átti eftir að ganga í gegnum mikið blómaskeið. Hún var lögð niður árið 1973 eftir að hafa markað sín spor í íslenska tónlistarsögu.

„Það voru einhver gigg afbókuð en fæstir spáðu í þetta. Við vorum auðvitað bítlahljómsveit og þetta þótti sjálfsagt. Við urðum auðvitað að prófa þetta eins og hljómsveitir úti í heimi til að vita hvað þetta væri,“ segir Gunnar. Hann segist hafa notað maríjúana í tíu ár eftir viðtalið fræga þrátt fyrir að hafa lýst yfir að þau væru hætt.

„Við notuðum þetta af og til. En svo var þetta bara svo leiðinlegt að við hættum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -