Föstudagur 30. september, 2022
8.8 C
Reykjavik

Tvíhöfði er hættur: „Ég vil ítreka það sem ég sagði hér áður að þetta er algjörlega mín ákvörðun“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -
Tvíhöfði er hættur. Jón Gnarr birti langa færslu þar sem hann útskýrir ástæðuna.

Rétt í þessu birtist löng og á köflum torskilin en auðvitað drepfyndin tilkynning frá Jóni Gnarr, grínista og annar Tvíhöfðabræðra, þar sem hann segir frá því að útvarpsþáttur hans og Sigurjóns Kjartanssonar, Tvíhöfði, sé hættur. Segir Jón að ákvörðunin sé alfarið hans og ekki við Sigurjón eða Rúv að sakast og þaðan af síður honum Dodda litla tæknimanni. Útilokar Jón þó ekki að Tvíhöfði muni snúa aftur einn daginn en nú vilji hann snúa sér að öðrum hlutum.

Tvíhöfði hóf göngu sína árið 1994 á Rás tvö en hét þá Heimsendir en var hann í loftinu í ár. Árið 1996 snéru þeir aftur og kölluðu sig þá Tvíhöfði en voru á Aðalstöðinni sálugu. Þátturinn sló rækilega í gegn en hann hefur farið í loftið víða á öldum ljósvakans, meðal annars á X-inu, Radíó, Kananum, Skonrokk og aftur á Rúv. Þá gáfu þeir félagar út nokkra geisladiska með leiknum bröndurum, tónlist og almennu gríni úr þáttunum. Frá árinu 2019 hefur Tvíhöfði verið hlaðvarpsþáttur hjá Rúv við miklar vinsældir.

Hér fyrir neðan má lesa tilkynningu Jóns Gnarr í heild sinni:

„Kæru Íslendingar

Tvíhöfði hefur um áratuga skeið átt sinn sess í þjóðmenningu okkar. Undanfarin ár hefur hann komið einsog einhver farfugl á hverju hausti og haft vetursetu hér á okkar fallega landi.
Þegar dimmir yfir hafa hinar vinnandi stéttir haft dægrastyttingu og il af söng þessa svo elskaða þjóðarfugls. Hlustendur hætta sínu hversdaglega kvaki en leggja við hlustir. Í lotningu og þögn situr þjóðin, ekki sundruð einsog alltaf, heldur sameinuð í eina hlustönd. Frammi fyrir Tvíhöfða eru öll jöfn, rukkari jafnt sem skuldari, börn jafnt sem gamalmenni, aumingjar jafnt sem auðvaldsherrar. Þetta er það sem Íslandsvinurinn knái Bono kallaði One love. Hann sýnir og sannar hið fornkveðna að margur er knár þótt hann sé smár.
En nú eru blikur á lofti. Váfugl er kominn að ströndum Íslands. Allar hlustendur setur hljóðar, ekki af gleði og eftirvæntingu, einsog áður, heldur af óhug og skelfingu.
Tvíhöfði kemur ekki til landsins með haustskipunum einsog áætlað var. Auðvitað og eðlilega er fólk slegið yfir því.
Móðir mín í hví, hví? spyr þjóðin einsog í dægurlaginu vinsæla.
Áköf gleði og eftirvænting skýn úr saklausum andlitum allra annarra. En ekki úr mínu. Tindrandi barnsleg augu samstarfsfólks míns mæta einungis hörkulegum en um leið sorgmæddum augum mínum.
-Hætta skal leik þá hæst hann stendur! hrópaði Jesú kristur til mannfjöldans þegar hann var leiddur í járnum útúr Getsemane lystigarðinum og veifaði hughreystandi til fólksins. Ég hef, frá því ég var lítill drengur, haft Krist að leiðarljósi í mínu lífi. Og einsog Hann þá skorast ég ekki undan örlögunum, jafnvel þótt þau séu ill.
-Hvað er kærleikur?! spurði Pontíus Pílatus með grátstafinn í kverkunum. Þeirri spurningu verður víst aldrei svarað. En eitt er víst að án kærleikans væri lítið gaman að vera til.
Eins og alþjóð veit, sem fylgst hefur með heilsufari mínu, í gegnum árin, þá greindist ég með illvægilegt líkþorn (Clavus Neurovascularis) á vinstri il fyrir nokkrum árum, aðeins nokkrum árum eftir að ég missti báða foreldra mína með sviplegum hætti.
Sjúkdómar og ástvinamissir setur sín spor á allt fólk, jafnvel mestu heljarmenni.
Ég hef þegar sent Útvarpsráði uppsögn mína. Ég á samt ekki von á að þau svari því erindi frekar en öðrum sem ég hef sent þeim.
Líkþorn er ólæknandi sjúkdómur. En hann er samt ekki lífshættulegur. Ég grátbið ykkur, hlustendur góðar, að hafa ekki áhyggjur af mér. Ég er kannski munaðarlaus með líkþorn og ADHD en ég ber mig vel, bít á jaxlinn og stíg ákveðið í vinstri fótinn.
Það hitti mig maður þegar ég var á göngu í Vesturbænum á dögunum. Hann hafði á orði við mig að ekki sæist á ákveðnu og taktföstu göngulagi mínu að ég væri með líkþorn. Ég tók undir þessa fallegu kveðju en bætti svo við, frá eigin hjarta:
-Eigi skal haltur ganga á meðan báðir fætur eru jafnlangir!
Við hlógum að þessu báðir. Svo kvöddumst við.
Og einsog ég kvaddi þennan góða mann þá kveð ég ykkur hlustendur mínar. Ég er vissulega fullur af sorg og trega. Ég hafði hlakkað mikið til að kynna ykkur fyrir nýjum manni sem er að berjast við það að hætta að drekka. Ég er með svo mörg ný orð sem mig langaði að deila með ykkur. Ég hlakkaði alveg sérstaklega mikið til að heyra Suðu Sigfús kenna okkur að elda hin fullkomnu súkkulaðisvið. Missir ykkar er mikill en þið getið huggað ykkur við að minn er meiri. Það sem fyrir ykkur eru ónot er fyrir mér kvöl.
Ég vil ítreka það sem ég sagði hér áður að þetta er algjörlega mín ákvörðun. Ég þakka Sigurjóni þann mikla stuðning sem hann hefur sýnt mér en grátbið hann um leið að virða ákvörðun mína.
Ástæðan er einföld. Ég hreinlega nenni þessu ekki lengur og langar til að nýta mína skapandi krafta til annars á nýjum og spennnadi vettvangi þjóðmálanna, einsog ég hef gert undanfarin ár. Ég hlakka til að sjá ykkur í leikhúsinu, í Bónus og Costco.
Ég vil að lokum grátbiðja ykkur um að láta Dodda í friði með þetta. Hann er sakleysingi sem einsog aðrar barnssálir í landinu hélt að haustfuglinn kæmi með kólnandi veðri.
En hvað ef og hvað ef? skrækir eflaust mörg öndin. Hvað ef þetta væri sona en annað hinsegin? Tökum dæmi:
Jesú kemur gangandi niður verslunargötu í Jerúsalem með níðþungann trékrossinn á bakinu. Hann hrasar. Múgurinn veitir honum enga hluttekningu heldur hlær bara að honum.
-Þetta er bara skráma! hrópar einn maður. Múgurinn hlær að þessu líka. Engin vita að þessi maður er enginn annar en Barrabas sjálfur. Og auðvitað er þetta bara skráma, örlítil rispa á öðru hnéi Jesúsar. En þetta er hans hné og hvað gerist í því getur enginn skilið, ekki einu sinni Hann. Það eru bara færustu læknar og vísindafólk sem getur skilið það og þau voru bara ekki til á þessum tíma. En hvað ef Jesú hefði bara sagt við Rómversku hermennina að hann nennti ekki að bera þennan þunga kross? Það hefði eflaust komið undrunarsvipur á þá. Hvað hefði þá verið til ráða?
Ég tek þetta bara sem dæmi um það að allar sögur geta haft mismunandi enda. Og stundum þegar ein saga endar þá hefst önnur. Ég man, þegar ég var lítill drengur, hvað ég var leiður þegar The Hobitt endaði. Ég grét mig í svefn í nagandi óvissu. Spurningarnar hlóðust upp í huga mér. Hvað gerist næst fyrir Bilbo? Lendir hann ekki í neinum fleiri ævintýrum? Og hvað verður um Gollum? Og hvað og hvað og hvað?
Mamma gat auðvitað ekki svarað þessum spurningum mínum. Hún hafði ekki lesið bókina og vissi ekkert hvaða fólk þetta var. Og auðvitað tæknilega séð var þetta ekki fólk heldur hobbitar. Meira að segja Gollum var einu sinni Hobbiti. En þá kom höfundurinn sjálfur mér á óvart, einsog hann hafði gert með bókinni, og gaf út nýja bók. Ég er auðvitað að tala um Hringadrottinssögu. Þær áttu eftir að verða þrjár. Mér fannst þær í fyrstu ekki eins góðar og The Hobbit en þær voru það nú samt. Myndin The Hobbit er td ekki eins góð og Lord of the Rings. Eða það upplifði ég að minnsta kosti sem áhorfönd. En nóg um það.
Ég harma að svona sé fyrir okkur komið. Enga tekur þetta sárar en mig. En þetta er ekki í mínum höndum og frjáls vilji aðeins barnaleg blekking. Pontíus Pílatus hefur kveðið upp sinn dóm og gangverk böðlanna hefur verið gangsett.
Ég vil endurtaka það sem ég hef sagt áður að þetta er alfarið mín ákvörðun. Ég er búinn að tala við minn yfirmann hjá RÚV. Ég er búinn að tala við Sigurjón. Hann virðir mína ákvörðun. Ég talaði líka við Þórð Helga Þórðarson. Hann tók þessu þurrlega en grátbað mig að grátbiðja ykkur að láta sig í friði. Hann ber enga sök hér og getur ekkert útskýrt.
Ég útiloka það ekki að Tvíhöfði komi aftur til landsins einn daginn. En það er með það einsog annað í náttúrunni og einsog jarðfræðingarnir segja, þegar þau eru spurð um möguleg eldgos, það er ekki ólíklegt að það gjósi einhvern tímann á næstu 500 árum en hvar það verður og hvenær það gerist er ómögulegt að segja.
Með auðmýkt, hugrekki og birtu heiðarleika að leiðarljósi
Ykkar einlægur Jón Gnarr“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -