Fimmtudagur 7. desember, 2023
2.1 C
Reykjavik

Vandræðaleg mistök Önnu á Tenerife: „Ég reyndi að kalla í hann en hann svaraði engu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Kristjánsdóttir skrifar vinsælustu og að margra mati skemmtilegustu Facebook-færslur landsins ef ekki Norðurlandanna, í það minnsta. Færslurnar eru vanalega stútfullar af kalhæðni og húmor en örsjaldan glittir í alvarlegan undirtón en þær fjalla um líf hennar í Paradís sem aðrir kalla Tenerife.

Í nýjustu færslu Önnu er hægt að sjá allt þetta, húmor, kaldhæðni og alvarleikann blákaldann. Í fyrripartinum talar hún um gamlan skólafélaga og breskan tvífara hans:

„Dagur 1193 – Óskar.

Einn af skólafélögum mínum í Vélskólanum var Óskar, strákur aðeins eldri en ég frá Skagaströnd, einn af þessum rólegu hæglátu drengjum sem voru ekkert að flíka með kunnáttu sína en samt vinir vina sinna. Hann með sitt eldrauða hár eins og sannur Íri, en alltaf í góðu skapi. Sumarið 1975 vorum við á sinn hvorum japanska skuttogaranum, hann á Arnari, ég á Vestmannaey. Svo gerðist það sem endranær að við lukum námi við Vélskólann, hann 1976, ég 1977 og hann hvarf mér sjónum. Frétti þó eitthvað af honum í Landssmiðjunni. Áratugum síðar er hann orðinn tækjavörður í Vélskólanum, en ég í starfi hjá Orkuveitu Reykjavíkur, en átti það til að reka inn nefið hjá kennurum Vélskólans í verklegum fögum þegar verið var í eftirlitinu með borholum og dælustöðvum og sníkja kaffi hjá kollegunum og hitti oft Óskar.
Þetta er auðvitað allt liðin tíð, Óskar kominn yfir sjötugt og sjálf er ég sjötug og því erum við engir unglingar lengur.
Í fyrrakvöld sat ég á húsbarnum og kneifaði mitt öl er Óskar gekk framhjá. Ég reyndi að kalla í hann en hann svaraði engu og gekk framhjá og í burtu. Í gærkvöldi sátum við Drífa á húsbarnum er Óskar gekk framhjá, en þá áttaði ég mig á að þessi Óskar var mun yngri en Óskar okkar, vart meira en fimmtugur. En það má Óskar vita að hann á breskan tvífara sem er staddur á Tenerife þessa dagana.

Ég reyni að ná mynd af honum einhvern næstu dagana.“

Í seinni hlutanum mælir Anna eindregið með því að fólk sem komið er yfir léttasta skeiðið fari í ristilspeglun, það sé dauðans alvara:

„Góð vinkona, reyndar ein af mínum uppáhalds er stödd á Íslandi þessa dagana vegna veikinda móður sinnar. Hún notar tækifærið og fer í allsherjar læknisskoðun í leiðinni, þar á meðal ristilspeglun. Eftir að hafa lent í slíku get ég fullvissað hana og aðra um að það er „pís of cake“, en samt nauðsynlegt fyrir allt fólk sem er komið yfir fimmtugt.
Ég man þegar ég fór í slíka rannsókn fyrir fáeinum árum síðan og læknirinn úrskurðaði í kjölfarið að ristillinn í mér væri eins og nýskeint barnsrassgat. Himinlifandi ánægð hélt ég heim eftir rannsóknina en er ég kom heim hitti ég gamlan skipsfélaga á bílastæðinu fyrir utan blokkina mína, en móðir hans bjó í þarnæsta stigagangi. Hann tjáði mér að hann væri hættur að vinna, hefði greinst með ristilkrabbamein. Hann lést þremur mánuðum síðar.
Sem ég segi. Öll yfir fimmtugt fari í skoðun áður en það er um seinan. Þetta er spurning upp á líf eða dauða.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -