Yfirlýsing ríkislögreglustjóra vegna ummæla um „skattborgara“

Deila

- Auglýsing -

Embætti ríkislögreglustjóra hefur sent frá sér tilkynningu um samskipti konu við neyðarlínuna. Hringdi konan og óskaði eftir aðstoð vegna karlmanns sem hún og unnusti hennar komu að við Barónsstíg. Sat maðurinn þar og kastaði upp. Í færslu sem konan skrifaði á samfélagsmiðla eftir atvikið segir hún að lögreglumaðurinn sem svaraði neyðarsímtalinu hafi spurt hana hvort maðurinn, sem var ósjálfbjarga, væri skattgreiðandi.

DV fjallaði um málið í dag, en í færslu segir konan að henni finnist ljóst að með spurningunni hafi lögreglumaðurinn verið að spyrja um félagslegt ástand mannsins eða þjóðerni hans. Fannst henni viðbrögðin áhugalaus.

Símtalið var tekið til skoðunar hjá ríkislögreglustjóra, sem hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins:

Embætti ríkislögreglustjóra tók til skoðunar kvörtun sem birt var á samfélagsmiðlum 21. júlí og snýr að samskiptum starfsmanns fjarskiptamiðstöðvar lögreglu í máli sem þar kom inn til afgreiðslu.

Eftir skoðun kom í ljós að samskipti starfsmannsins hefðu mátt vera betri og á því hefur verið tekið.

Tekið skal skýrt fram að umrætt orðalag, sem nefnt er í umræddri stöðuuppfærslu, endurspeglar ekki viðhorf viðkomandi starfsmanns né lögreglunnar í heild til skjólstæðinga hennar. Starfsmaðurinn segir sjálfur að um klaufalegt orðaval hafi verið að ræða þegar hann hafi verið að reyna að átta sig á stöðunni sem hafi alls ekki verið illa meint. Hann áttaði sig á mistökum sínum og gekkst að fullu við þeim. Einnig skal tekið fram að ekki er um að ræða viðtekið orðfæri innan lögreglunnar.

Rætt hefur verið við tilkynnanda í málinu og hann upplýstur um málsmeðferðina og skýringar starfsmannsins. Embætti Ríkislögreglustjóra ítrekar að allir sem leiti til lögreglu eigi rétt á sömu þjónustu og virðingu.

- Advertisement -

Athugasemdir