Laugardagur 4. maí, 2024
6.8 C
Reykjavik

Íslensk óveður: „Í Kópa­vogi fuku bílar um eins og eld­spýtu­stokkar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 1981 gekk stormur yfir landið sem fékk nafnið Engi­hjalla­veðrið. Á­stæða þess var að í Engi­hjallanum í Kópa­vogi mátti sjá bíla takast á loft og fjúka um svæðið. Stormurinn olli miklu tjóni á bíla­stæðum við blokkirnar en talið er að þær hafi átt sinn þátt í að skapa snarpar vind­hviður.

Tveir menn létust í Vest­manna­eyjum en þeir voru um borð í bátnum Heima­ey. Brot kom í bátinn og þá tók út. Þá fauk kirkja af grunni sínum í Saur­bæ í Dölum og lenti á fé­lags­heimili sem var við hlið hennar.

Ómar Ragnars­son tjáði sig um ó­veðrið og hafði meðal annars þetta að segja:

„Vindurinn komst í 93 hnúta á Reykja­víkur­flug­velli en það sam­samar 46 m/sek sem er 14 metrum yfir mörkum fár­viðris. Mér er minnis­stætt hve miklu munaði að ég missti flug­vélarnar mínar tvær út í buskann vegna þess að vind­hraðinn var tvö­falt meiri en þurfti til að feykja þeim hvort eð var. En nafnið Engi­hjalli er í margar huga bundið við þetta veður vegna þess að við götu með því nafni austast í Kópa­vogi fuku bílar um eins og eld­spýtu­stokkar.“

Engihjallaveðrið er nefnt eftir götunni Engihjalla í Kópavogi eins og fyrr segir, en þar birtist það í öllu sínu veldi, við háar blokkir sem þar standa. Bílar sem stóðu á bílastæði við blokkirnar hreyfðust margir hverjir úr stað, eða öllu heldur hreinlega fuku. Þakplötur þeyttust af húsunum og þutu hjá gluggum eins og risastór rakvélablöð, eins og því var lýst á sínum tíma.

- Auglýsing -

„Það var ekki stætt hérna á milli húsa. Hviðurnar virtust ganga mest hérna á milli húsa og hér fuku bílarnir bara eins og hráviður,“ sagði Guðjón Einarsson, þegar fréttamaður RÚV bað hann um að lýsa veðrinu kvöldið áður.

„Maður sá ósköp lítið. Hann stóð þarna og svo var hann kominn hingað,“ sagði annar íbúi í Engihjalla við fréttamann daginn eftir ofsaveðrið.

Það hefur gengið á ýmsu hérna í gærkvöldi?
„Já, þetta var allt vitlaust, alveg brjálað. Það flugu hérna járnplötur framhjá gluggunum á áttundu hæðinni,“ sagði íbúi.

- Auglýsing -

Þá skemmdust flugvélar sem stóðu á Reykjavíkurflugvelli, þrjár inni í flugskýli og fuku jafnvel á hvolf á flughlaðinu. Á Vífilsstöðum var mikið tjón þegar þök fuku og fleiri skemmdir urðu.

Kirkjan á Staðarhóli í Saurbæ í Dölum færðist af grunni sínum og hefði eflaust farið lengra ef félagsheimilið Tjarnarlundur hefði ekki verið í veginum.

Á bæjum víða á vestanverðu landinu varð mikið tjón, útihús eyðilögðust og garðyrkjubændur fóru margir hverjir illa út úr veðurhamnum þegar rúður í gróðurhúsum þeirra splundruðust, jafnvel allar sums staðar.

Mikið fjárhagslegt tjón varð vegna veðursins, en mest varð þó tjónið þegar tveir skipverjar á Heimaey VE fórust þegar bátinn rak upp í Þykkvabæjarfjöru.

Óveður sem hafa sett mark sitt á Íslandssöguna

Í gegnum árin hafa hin ýmsu ó­veður skollið á landinu og sum þeirra valdið gríðarlegu tjóni.

Stormurinn sem gekk yfir landið 10. desember 2019 var einn sá versti í manna minnum. Þá sér­stak­lega í huga þeirra sem bjuggu á Vest­fjörðum og á Norður­landi. Einnig gekk mikið á í Vest­manna­eyjum og á Suður­nesjum. Til marks um kraft óveðursins var í fyrsta sinn notast við rauðar merkingar til að vara við hættunni sem stormurinn gæti skapað. Meðal annars lagði varðskip að bryggju í Dalvík til að íbúar þar gætu fengið aðgang að rafmagni.

En það allra versta átti sér stað 3. febrúar 1991 en talið er að skemmdirnar hafi hlaupið á milljörðum króna.

Ó­veðrið árið 1991

Tjón varð á fjölda bygginga í ó­veðrinu og mátti sjá heilu þökin fjúka af húsum. Bátur sökk, þök fuku af fjár­húsum, bátur þeyttist á land og brotnaði og einnig fauk hænsna­kofi með tólf hænum.

Fjöldi farar­tækja skemmdust og mikið tjón varð á gróðri þegar tré rifnuðu upp með rótum og þökur flettust af túnum. Annað af lang­bylgju­möstrunum á Vatns­enda­hæð hrundi, sumar­bú­staður í Önundar­firði fauk á haf út í heilu lagi og í Hruna­manna­hreppi splundraðist fjár­hús. Í Vest­manna­eyjum og í Kefla­vík þurfti að flytja fólk úr í­búðar­húsum sínum og koma því í öruggt skjól.

Lög­regla- og slökkvi­liðs­menn, björgunar­sveitir og aðrir sjálf­boða­liðar lögðu sig víða í mikla hættu við að bjarga verð­mætum en talið er að tjónið hafi kostað að þá­virði meira en einn milljarð króna.

Ó­veðrið árið 2003

Þann 29. desember það ár skall á mikið óveður á suðvesturhorni landsins og náði upp á Snæfellsnes. Það færðist síðan norður- og austur yfir landið líkt og kom fram í Fréttablaðinu þann 30. desember. Mikil og stöðug snjókoma gerði það að verkum að margir ökumenn festu bíla sína í snjó á höfuðborgarsvæðinu og voru björgunarsveitir kallaðar út þar og á Akranesi til að aðstoða ökumenn.

Skömmu fyrir hádegi mynduðust miklar og langar bílaraðir og sátu fjölmargir þeirra fastir. Í Fréttablaðinu kom fram að verst hafi ástandið verið í úthverfum borgarinnar og til dæmis hafi öll umferð um nýja brú í Grafarholti stöðvast í nokkra klukkutíma vegna ófærðar.

Ó­veðrið árið 2012

Af­taka­veður gekk yfir landið þann 2. nóvember árið 2012 og slösuðust margir vegna þess.

 

 

Veðrið var verst á Suður­landi frá Eyja­fjöllum að Vatna­jökli og var þar víða raf­magns­laust um tíma­bil.

Tjón vegna veðursins var gríðar­legt og var fjöldi björgunar­sveitar­manna að störfum við erfiðar að­stæður.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -