Föstudagur 26. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Jóhannes varar landsmenn við að stunda viðskipti við Sigurð Örn: „Þessi framkoma er ekki boðleg“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jóhannes Bjarni Guðmundsson flugmaður varar við fyrirtækinu Bláfugl í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu. Hann segir fyrirtækið, sem sér um fraktflug til og frá Íslandi, stunda gerviverktöku með þeim afleiðingum að það skilar litlu til sameiginlegra sjóða á Íslandi. Forstjóri fyrirtækisins er Sigurður Örn Ágústsson en erlendur risi, Avia Solutions Group, keypti félagið fyrir um ári síðan.

Jóhannes útskýrir þetta nánar í pistlinum. „Gerviverktaka er meinsemd á evrópskum vinnumarkaði. Með gerviverktöku spara fyrirtækin sér kostnað sem samfélagið þarf að bera í staðinn, sama samfélag og gerir þeim kleift að starfa. Í alþjóðlegri starfsemi eins og flugi er þetta mikið vandamál. Fyrirtækin leita leiða til að spara og horfa til lægsta samnefnara til samanburðar. Ef hin fyrirtækin gera þetta, af hverju ekki við?,“ spyr hann.

Hann segir verktaka fyrirtækisins í raun starfsmenn í fullu starfi. „Gerviverktaka þýðir að launamaður er gerður að verktaka, þrátt fyrir að hann geti ekki á neinn hátt talist verktaki. Launafólk, eins og áhafnir flugvéla, ræður ekki hvernig eða hvenær það vinnur sín verk því það er flugfélagið sem setur því það fyrir samkvæmt ákveðnum lögum og reglum. Launafólk í flugvélum hefur heldur ekki umráð yfir þeim tækjum sem notuð eru og flugáhafnir fá mjög skýrar verklagsreglur til að vinna eftir frá sínu flugfélagi. Þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir komast flugfélögin sum hver upp með að „bjóða“ starfsfólki sínu eingöngu verktakasamninga. Þetta er bara það sem er í boði og ef þú vilt þetta ekki, þá eru nógu margir aðrir sem munu þiggja þessi kjör,“ segir Jóhannes.

Jóhannes lýsir svo aðstæðum í fyrirtækinu. „Bluebird Nordic eða Bláfugl ehf. er íslenskt flugfélag með flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu. Félagið gerir út á fraktflug til og frá landinu og nýtir til þess flugvélar og starfsfólk með aðsetur á Íslandi. En nú ætlar fyrirtækið að skilja sig frá íslenskum markaði og segja sig frá íslensku samfélagi, með því að segja upp þeim 11 flugmönnum félagsins sem starfa á íslenskum kjarasamningi og ráða gerviverktaka í staðinn. Eða eins og félagið kallar það: „sjálfstætt starfandi flugmenn“. Þannig losnar fyrirtækið undan því að greiða opinber gjöld eins og tryggingagjald og lífeyrissjóð af launum fyrir þessa starfsmenn. Hinir sjálfstætt starfandi flugmenn skulu sjálfir skila þeim greiðslum af verktakagreiðslum sínum,“ lýsir Jóhannes.

Hann skorar að lokum á alla þá sem standa í inn- og útflutningi að taka afstöðu og velta fyrir sér hvort þau vilji taka þátt í þessu. „Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja er æskileg en hún verður ekki meiri en siðferði stjórnenda þessara sömu fyrirtækja. Þetta mál Bláfugls og framkoma þeirra gæti verið prófsteinn á það sem koma skal. Hverjir ætla að stunda viðskipti við Bláfugl núna? Ætla inn- og útflytjendur að láta sig það einhverju varða að þetta fyrirtæki undirbjóði og hunsi íslenskan vinnumarkað á þennan hátt? Nútímaleg fyrirtæki eru flest með sýn og stefnu um samfélagslega ábyrgð. Nú þurfa þau að sýna þessa stefnu í verki og velja þá sem þau skipta við. Ég skora á alla þá sem standa í inn- og útflutningi með flugfrakt til og frá Íslandi að taka nú afstöðu. Þessi framkoma Bláfugls er ekki boðleg fyrir fyrirtæki á Íslandi. Hvar á að stoppa í gerviverktakavæðingunni? Eða eigum við öll að vera gerviverktakar með okkar eigið pósthólf á aflandseyju? Þá yrði sennilega lítið til í sameiginlegum sjóðum til að takast á við næstu kreppu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -