Laugardagur 14. september, 2024
8.4 C
Reykjavik

„Vaknaði hálflamaður hægra megin“: Jón Kristinn Snæhólm um ástina, Sjálfstæðisflokkinn og Úkraínu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jón Kristinn Snæhólm stjórnmálafræðingur ræðir við Reyni Traustason meðal annars um stóru ástina í lífi sínu sem bjargaði væntanlega lífi hans, hann talar um Pútín sem hann segir vera með tsarkomplexa og hann talar um Sjálfstæðisflokkinn sem honum finnst að hafi þrengst og sé orðinn „elítískur”.

„Ég varð virkilega ástfanginn í fyrsta sinn á ævinni þegar ég kynntist gamalli æskuvinkonu minni aftur, Erlu Snæhólm Axelsdóttur, og eigum við bráðum eins árs brúðkaupsafmæli. Hún er menntaður skurðhjúkrunarfræðingur og var að vinna á sjúkrahúsi á Mið-Englandi og ég fór til hennar 24. apríl 2020,“ segir Jón Kristinn Snæhólm og talar um hve súrrealískt það hafi verið þegar hann var næstum því eini maðurinn í Leifsstöð og einn af þremur farþegum í vélinni út. Ástæðan: Covid-heimsfaraldurinn. Það voru fáir bílar á þjóðvegum í Bretlandi þegar hann var kominn út.

Jón Kristinn Snæhólm
Erla og Jón Kristinn í sínu fínasta pússi á brúðkaupsdeginum.

 

Ég kom heim í hjólastól í byrjun júní 2020.

„Ég fór að sofa aðfaranótt 3. maí og vaknaði hálflamaður hægra megin. Maður fær tappa vinstra megin og þá lamast maður hægra megin. Erla sá hvað var í gangi og hljóp inn á baðherbergi þar sem hún átti réttu lyfin til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu á tappa og jafnvel dauða. Svo fór ég í rannsóknir og þar var þetta staðfest. Síðan hefur þetta verið endurhæfing hjá sjúkraþjálfara og sjálfsendurhæfing.

Ég kom heim í hjólastól í byrjun júní 2020 og þeir sögðu að ég fengi hugsanlega inni á Grensás í nóvember það ár. Þannig að við fórum aftur út og vorum með okkar eigið prógramm.“

Jón Kristinn er spurður hvernig hann sé í dag og hann nefnir meðal annars hægri fótinn. „Ég er ekki að hlaupa neitt eða stökkva og jafnvægisskynið er ekki alveg komið. Ég er líka það heppinn að ég er antisportisti. Ég hef aldrei verið með mikla hreyfiþörf.“

- Auglýsing -

Hjónin eiga lítinn hund sem heitir Theodór Snæhólm. „Við förum út að labba með hann og það styrkir mig.“

Jón Kristinn Snæhólm
Göngufélaginn Theodór Snæhólm.

Rússland komið í ruslflokk

Seinni hluti vetrar hefur verið Úkraínumönnum erfiður en Jón Kristinn þekkir Úkraínu og þangað hefur hann komið vegna fyrirtækjareksturs síns en hann rekur innflutningsfyrirtæki sem flytur meðal annars inn eldhúsinnréttingar, hurðir og skápa frá Úkraínu. „Ef fer sem horfir að það verði þarna áframhaldandi ófriður við Rússa þá held ég að þetta fyrirtæki muni verða í læstri hliðarlegu um nokkra tíð en þrátt fyrir þetta er ég að sinna spennandi verkefnum.“

Á þessu nær Pútín að blása upp einhverja fasistagrýlu sem er ekki til staðar í Úkraínu.

- Auglýsing -

Jón Kristinn segist ekki hafa átt von á þessari innrás Rússa. „Ég átti von á alls konar pólitískum og efnahagslegum þvingunum af hendi Pútíns. Þessi nasistagrýla sem hann hefur náð að æsa upp gegn Úkraínu heima fyrir er ekki alveg tilbúin þó svo að Zelenskí sé eins langt frá því að vera nasisti frekar en ég og þú, enda gyðingur. Maður fann fyrir í Úkraínu ákveðinni andúð á Rússum og það ágerðist mikið eftir 2014 eftir að Krímskaginn var innlimaður,“ segir Jón Kristinn og bætir við að það sé mikil andúð á Rússum í öllum Austur-Evrópuríkjunum sem voru undir Sovétríkjunum og í Varsjárbandalaginu og bendir á Eystrasaltsríkin. „Og í þessari andúð eru fasískir flokkar. Fasísk element. En ofboðslega lítið. Þetta er ekkert inni á þingi eða í sveitarstjórnum. Þetta eru nýnasistabullur sem eru einnig í Svíþjóð, Finnlandi, Noregi og Bandaríkjunum. Á þessu nær Pútín að blása upp einhverja fasistagrýlu sem er ekki til staðar í Úkraínu. Það sem er að Úkraínu er landlæg spilling í stjórnkerfinu; Zelenskí ætlaði að uppræta þetta.“

Jón Kristinn segir að engin kona í Austur-Evrópu hafi heyrt um MeToo-byltinguna. Hann nefnir líka lýðréttindi hinsegin fólks. „Ég var að ræða við kunningja minn í einni af mínum síðustu ferðum til Úkraínu. Ég vissi það en ég spurði hann hver væru réttindi homma, lesbía og transfólks. Hann sagði að það hafi verið gay pride-ganga í Kiev og að hann hafi tekið mynd. Svo sýndi hann mér myndina í símanum og þá sáust tveir doberman-hundar standa yfir tveimur mönnum liggjandi á götunni með gay-pride-fánann yfir sér. Þetta er gay pride fyrir þá.“

But Mr. Snæhólm, there are no homosexuals in Moscow.

Jón Kristinn minnist í þessu sambandi á heimsókn til Moskvu en hann var á þeim tíma aðstoðarmaður Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, þáverandi borgarstjóra. Jón Kristinn fór á undan til Moskvu til að ræða við yfirvöld þar um hvað yrði rætt í heimsókn borgarstjórans. „Þeir vildu ræða orkumál, almenningssamgöngur og flugsamning milli Moskvu og Íslands. Við Kristín Árnadóttir, núverandi sendiherra, sögðumst hafa áhuga á að ræða málefni hinsegin fólks í Rússlandi. Þá hallaði utanríkisráðherra Moskvu sér fram á borðið og sagði „but Mr. Snæhólm, there are no homosexuals in Moscow“. Firringin er ennþá þarna.“

Jón Kristinn er spurður hvort hann geti einhvern veginn skilið það sem Pútín er að gera. Hvaða rök eru fyrir þessu? „Þau eru sögulegs eðlis. Rússland hefur litið á umheiminn sem óvin og með réttu, enda ráðist inn í þetta ríki frá sagnaritun. Ég held að ef Pútín væri Lísa í Undralandi þá myndi hann innlima Eistland, Lettland og Litháen og Pólland. Þetta er partur af hinu stóra rússneska keisaradæmi. Pútín er með tsarkomplexa og hann sér sig sem þennan stóra, valdamikla mann sem allir taka mark á í Evrópu. Hann las þetta því miður vitlaust. Hann gerir öll hernaðarmistök sem er að finna í bókinni, sem þýðir að þessi goðsögn um rússneska björninn er hrunin. Hann er búinn að veikjast á alþjóðavettvangi og þá er hann kominn í ruslflokk sem þjóðarleiðtogi. Heima fyrir heldur hann uppi fasískri ógnarstjórn með því að stjórna öllum fjölmiðlum; hann stjórnar umræðunni og hann hefur allar bjargirnar í stjórnkerfinu í hendi sér, þar á meðal hernum og leyniþjónustunni. Meðan það er, er allt Rússland komið í ruslflokk.“

Jón Kristinn Snæhólm

Hægrið

Jón Kristinn Snæhólm er hægrimaður. Sjálfstæðismaður. „Þetta hefur verið þroskaferli hjá mér í Sjálfstæðisflokknum. Ég byrjaði að lesa um stjórnmál 12-13 ára að aldri og þótti ég vera mjög skrýtið barn að vera að tjá mig um þetta í skólanum. Það markaðist af því að það voru mjög vinstrisinnuð element í minni fjölskyldu og svo hægrisinnuð. Halldór Snæhólm, langafi minn, var einn af stofnendum Íslenska kommúnistaflokksins á Akureyri 1930. Njörður afi minn yfirrannsóknarlögregluþjónn var mjög vinstrisinnaður en snerist síðan frá kommúnisma í seinni heimsstyrjöldinni þegar hann barðist með frjálsum Norðmönnum og varð síðan mið-hægrimaður.

Svo voru það Hafsteinarnir; móðir mín er Þórunn Hafstein. Pabbi hennar var Jón Kristinn Hafstein tannlæknir. „Jón Kristinn Snæhólm segir þá ætt vera hægrisinnaða. Nefnir langafa sinn, Júlíus Hafstein, og Jóhann Hafstein sem varð formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. „Svo byrjaði maður að lesa sér til og heyrði þessar sögur og upplifun afanna beggja. Ég var mjög náinn þeim. Sótti mikið í afa mína. Það var tvennt sem kom út úr því. Þeir sögðu báðir að ég ætti ekki að verða kommúnisti eða vinstrimaður af því að það væri svo mikill óánægjuiðnaður í þessu fólki.“

Drengnum var líka ráðlagt að verða aldrei frímúrari. Jón Kristinn Snæhólm varð hvorki kommúnisti, vinstrimaður né frímúrari. Hann varð Sjálfstæðismaður.

Breytti mér mjög mikið; úr hörðu hægri yfir í milt hægri. Umhyggjusamt hægri.

„Ég var varabæjarfulltrúi 1990 í Kópavogi og starfaði með öndvegismönnum, Gunnari Birgissyni og Sigurði Geirdal, í tvö kjörtímabil og lærði mikið. Síðar varð ég aðstoðarmaður Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra,“ segir Jón Kristinn sem er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur. „Það að starfa með Vilhjálmi í þessi tvö ár breytti mér mjög mikið; úr hörðu hægri yfir í milt hægri. Umhyggjusamt hægri.“ Hann viðurkennir að hafa farið svolítið inn að miðjunni. „Já, það má segja það og ég uppgötvaði það að Ísland er land án öfga í stjórnmálum. Ísland vill þetta ekki, það sést kannski best núna í úrslitum bæjar- og sveitarstjórnarkosninganna að fólk sækir inn á miðjuna. Það finnur meiri hlýju og umhyggju þar.“

Jón Kristinn Snæhólm

Mikil undiralda

Sjálfstæðisflokkurinn hafði 24,5% upp úr krafsinu. Hvað er að gerast í flokknum? „Ég er með þá kenningu að á undanförnum árum hafi Sjálfstæðisflokkurinn þrengst. Hann hefur gleymt uppruna sínum,“ segir Jón Kristinn og segist halda að flokkurinn sé orðinn „elítískur“. „Það er ekki pláss fyrir hinn almenna borgara í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Af hverju erum við að horfa upp á það að Sjálfstæðisflokkurinn er að tapa fylgi? Það er vegna þess að einhvers staðar í þessari vegferð þá glataði hann uppruna sínum. Ef stjórnmálaflokkar glata uppruna sínum þá glata þeir trausti og síðan fylgi og hverfa, en það er hægt að ná tökum á þessu.“

Þannig að forysta flokksins verður að fá endurnýjað umboð eða ný forysta að koma fram.

Hverju þarf að breyta?

„Þetta er spurning um að taka þessa umræðu um hvar við erum stödd og síðan þurfum við að finna út af hverju við erum þar. Ég er búinn að nefna eitt: Forysta flokksins og ásýnd hans er þröng. Hvað þarf að gera þá? Þá þarf að kalla til landsfundar,“ segir Jón Kristinn og bætir við að forystan þurfi annaðhvort að horfast í augu við sjálfa sig og segja að okkar tími sé einfaldlega liðinn, það þurfi nýtt fólk til að taka við flokknum, eða sjá hvað setur og sækja nýtt umboð til Sjálfstæðismanna á landsfundi. „Það liggur bara ljóst fyrir að það er það mikil undiralda í flokknum, plús að það hefur ekki verið haldinn landsfundur hjá Sjálfstæðisflokknum út af Covid síðan 2019, þannig að forysta flokksins verður að fá endurnýjað umboð eða ný forysta að koma fram.“

Sjá má viðtalið í heild sinni hér.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -