Jóna Aðalheiður Vilhjálmsdóttir, íbúi í smáíbúðahverfinu, varð klökk yfir sönnum jólaanda sem nágranni hennar sýndi. Viðkomanda laumaði jólasendingu til Jónu með fallegri orðsendingu fyrir jólin.
Jóna segir frá hinni fallegu sendingu inni í hópi hverfisbúa á Facebook. „Mikið á ég yndislega nágranna. Takk takk, kæri granni, varð bara klökk þegar ég sá þetta. Sannur jólaandi,“ segir Jóna.
Augljóst er að Jóna sjálf hefur glatt margan nágrannann á liðnum árum ef marka má umræðuna sem skapaðist undir færslu hennar og sjálfa orðsendingu hins hugulsama nágranna. Á korti sem fylgdi með sendingunni stóð nefnilega:
„Hæ kæru grannar. Ég er íbúi í Mosagerðinu og þið gleðjið mig svo mikið á ári hverju með svona vel skreyttu húsi. Takk fyrir það! Gleðileg jól.“