Jósefína var alla ævi í sóttkví – Öldruð þegar kom í ljós að hún hafði aldrei verið veik

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Magnús Karl Magnússon, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, rifjar upp á Facebook-síðu sinni ævi og örlög Jósefínu Guðbjargar Guðmundsdóttur, síðasta holdsveikisjúkling Íslands. Saga hennar er merkileg fyrir margar sakir en ekki síst vegna þess að það kom í ljós þegar hún var öldruð að líklega hefði hún aldrei smitast af holdsveiki. Þá hafði hún verið í sóttkví næstum alla ævi.

Magnús deilir myndinni hér fyrir ofan og skrifar: „Síðasti holdsveikisjúklingur á Íslandi. Konan sem hér situr alvarleg og virðuleg á svip í upphlut er síðasti holdsveikisjúklingur á Íslandi. Hún hét Jósefína Guðbjörg Guðmundsdóttir, fædd á Snæfellsnesi 1892. Hér er hún árið 1971 í fermingarveislu Péturs heitins bróður míns.“

Jósefína var næstum alla tíð í einangrun. „Ég þekki ekki vel sögu Jósefínu en hún þekkti langömmu mína, Ingibjörgu Pétursdóttur mjög vel. Ingibjörg langamma átti raunar bróður, Sigurð Kristófer sem einnig var með holdsveiki og er sennilega einn frægasti íbúi Holdsveikisjúkrahússins á Laugarnesi. Jósefína sem hér er á myndinni eignaðist son en var síðar sett í holdsveiki-einangrun og var þar síðan alla tíð. Það er erfitt að ímynda sér slíka raun, en kannski hollt að hugsa um það nú á tímum farsóttar, meðan við kvörtum yfir að komast ekki á vínveitingarhús eða líkamsræktarstöðvar,“ segir Magnús.

Þegar Jósefína var öldruð  þá átti að útskrifa hana af Kópavogshæli. „Mamma sagði mér að Jósefínu hafi raunar verið sagt þegar hún var orðin öldruð að hún hafi hugsanlega aldrei verið með holdsveiki. Það stóð þá til að útskrifa hana af Kópavogshæli en þá á hún að hafa sagt: Þið fluttuð mig hingað þegar ég var ung, nú verðið þið að gera svo vel að sjá um mig það sem eftir er. Hún var aldrei útskrifuð en mátti ferðast út fyrir hælið að vild. Jósefína lést árið 1979. Blessuð sé minning þessar konu sem mátti þola sóttkví af þeirri gerð sem vart er hægt að ímynda sér í dag.“

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -