Kristín Sif um makamissinn: Bréfið frá honum gerði kraftaverk

Deila

- Auglýsing -

Kristín Sif Björgvinsdóttir, útvarpskona og íþróttakona, tjáir sig um sjálfsvíg unnusta síns og barnsföður. Hún segir skömmina í kringum sjálfsvíg búa til endalausar flækjur og lygavef.

„Það bara springur allt í tætlur, heilinn á mér sprakk og hjartað í mér sprakk og mér leið svona eins og ég væri snjórinn í sjónvarpinu þegar loftnetinu er kippt úr sambandi.“ Þannig lýsir Kristín Sif Björgvinsdóttir, útvarpskona og íþróttakona, því hvernig var að koma að unnasta hennar og barnsföður Brynjari Berg Guðmundssyni látnum á heimili þeirra. Hann hafði þá fallið fyrir eigin hendi. Kristín Sif er nýjasti gestur í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar.

„Mér leið svona eins og ég væri snjórinn í sjónvarpinu þegar loftnetinu er kippt úr sambandi.“

„Það voru öll ljósin slökkt og pressukanna á borðinu sem var ekki búið að pressa niður kaffið … og það var eitthvað skrýtið og ég kalla á hann og kalla aftur og ég veit ekki hvort það hafi verið af því hann sagðist ætla að fara að taka til í bílskúrnum og ég fer inn í bílskúr og hann var bara alveg við hurðina og þarna fann ég hann,“ rifjar Kristín upp í þættinum, en þau Brynjar höfðu búið saman í nærri tólf ár.

Sjá einnig: „Þetta er í rauninni bara mín leið til að takast á við sorgina“

Að hennar sögn hafði Brynjar verið í fíkniefnaneyslu án hennar vitneskju, en farið í meðferð á Vogi sem gekk vel. Síðan kom bakslagið sem endaði með þessum hætti.

Segir Kristín Sif að bréf sem Brynjar skildi eftir sig hafi hjálpað henni mikið í bataferlinu. „Í bréfinu stóð hvað hann elskaði mig og krakkana mikið og hvað hann hlakkaði mikið til framtíðarinnar með okkur og þakkaði mér fyrir allan stuðninginn. Þarna tók hann allar þessar sjálfsásakanir sem höfðu poppað upp hjá mér, mörgum mánuðum eftir að hann dó.“

Kristín Sif ákvað strax að halda lífi sínu áfram fyrir sig og börnin sín og reynir að sjá það góða í lífinu. Hún komst nýverið á verðlaunapall á Norðurlandamóti í boxi og var valinn iðkandi ársins í Crossfit Reykjavík.

Viðtal Sölva við Kristínu í heild má sjá hér að neðan.

- Advertisement -

Athugasemdir