Föstudagur 26. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Lyktar af þekkingarleysi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bundið slitlag er nú komið á allan þjóðveg númer 1 eftir að nýr vegakafli við Berufjarðarbotn var vígður fyrir skömmu. Árið 2017 var hringvegurinn færður af malarveginum á Breiðdalsheiði og yfir á Suðurfirðina sem voru með bundnu slitlagi en að öðrum kosti má guð vita hvenær Ísland hefði borið gæfu til að skapa þessar sjálfsögðu aðstæður um allan þjóðveg númer 1.

Nýi vegarspottinn um Berufjarðarbotn er tæplega fimm kílómetra langur en samt sem áður var ekki átakalaust að ná framkvæmdinni í gegn og henni ítrekað frestað. Árið 2017 tóku íbúar Berufjarðar á það ráð að loka veginum í mótmælaskyni við enn eina frestunina.

Sjálf er ég alin upp á sveitabæ í um 100 kílómetra fjarlægð frá næsta kaupstað. Vegurinn var holóttur, grýttur, hlykkjóttur, mjór og á köflum niðurgrafinn malarvegur. Brýrnar voru allar einbreiðar og aðstæður við þær í hálku, til hliðar við snarbrött gilin voru ekki til að hrópa húrra fyrir. Ég gekk í heimavistarskóla frá sjö ára aldri, fór í skólann á mánudegi og kom heim eftir hádegi á föstudögum. Yfir vetrartímann gátu þessar ferðir með skólabílnum verið hreinasta martröð. Ég man eftir atvikum þar sem bíllinn festist svo illa að við þurftum að ganga nokkurra kílómetra leið að næsta bæ. Einu sinni var svo mikil hálka á einni brúnni yfir beljandi jökulána að bíllinn festist á henni miðri og komst hvorki lönd né strönd. Á veturna var ekki hlaupið að því að komast undir læknishendur ef eitthvað óvænt kom upp á og til dæmis snjósleðar notaðir þegar færð var slæm.

Vera má að fólki sem lítið hefur komið út fyrir höfuðborgina þyki rómantískt að skrölta um á illfærum vegum yfir brattar heiðar þegar það fer út á land til að upplifa hvað allt var kúl í gamla daga. Konan sem átti barnið sitt í Oddskarði fyrir tíma Norðfjarðarganganna er líklega ekki sammála.

Góðar samgöngur eru mér því hugleiknar og samgöngumannvirki með fallegri mannvirkjum sem ég veit um – upphækkaðir, beinir og breiðir vegir vekja hjá mér aðdáun, svo ekki sé minnst á brýr og jarðgöng. Miklu hefur verið áorkað í þessum málum síðan ég var að alast upp og hver einasta framkvæmd að sjálfsögðu til bóta, hvort sem er í þéttbýli eða dreifðari byggðum landsins. Hitt er svo annað mál að forgangsröðunin er oft og tíðum undarleg og lyktar af þekkingarleysi.

Vera má að fólki sem lítið hefur komið út fyrir höfuðborgina þyki rómantískt að skrölta um á illfærum vegum yfir brattar heiðar þegar það fer út á land til að upplifa hvað allt var kúl í gamla daga. Konan sem átti barnið sitt í Oddskarði fyrir tíma Norðfjarðarganganna er líklega ekki sammála. Íbúar Seyðisfjarðar sem hafa dögum saman verið innilokaðir vegna ófærðar á Fjarðarheiði eru ekki sammála. Pabbi minn sem þurfti að notast við kláf til að komst yfir Jökulsá á Brú fyrstu 20 ár ævi sinnar er ekki sammála heldur. Þetta fólk skilur þörfina fyrir samgöngubætur sem oftar en ekki snúast um líf og dauða.

- Auglýsing -

Að þessu sögðu mæli ég með að næsta samgöngubót verði hafin sem fyrst. Vegurinn um Fjarðarheiði er einn hæsti þjóðvegur landsins í rúmlega 600 metra hæð. Jarðgöng milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar eru löngu tímabær til að rjúfa vetrareinangrun og tryggja öryggi bæði íbúa og ferðalanga.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -