Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Marinó þekktasti svindlari landsins lést á Filippseyjum: „Setti bara smá vodkalögg á kaffibrúsann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Marinó Einarsson var litríkur karakter sem rataði í ítekað fréttir vegna svikamála á tíunda áratug síðustu aldar. Hann kynnti sig meðal annars sem dönskukennara, heilaskurðlækni og bróður hins margverðlaunaða hestamanns, Sigurbjörns Bárðarsonar.

Marinó fæddist árið 1961 og ólst upp í Hafnarfirði. Ungur lenti hann upp á kant við skólakerfið og var farinn að selja áfengi og sígarettur á svarta markaðnum. Hafði hann orðið sér úti um varninginn um borð í erlendum skip í höfninni. Hann stundaði síðar sjómennsku og þótti hörkuduglegur til vinnu.

Vodkalögg á kaffibrúsann

Ekki leið á löngu þar til Marinó fór að sýna á sér fleiri hliðar. Eitt haustið réði hann sig sem dönskukennara í grunnskóla á Suðurlandi, kvaðst vera Dani og bar danskt nafn. Marinó varð strax hrókur alls fagnaðar. Skólaganga Marinós hafði aftur á móti verið með stysta móti og hafði hann vart lokið grunnskóla. Það vakti athygli hvað Daninn káti hafði náð góðum tökum á íslenskunni en dönskukunnáttan var ekki á pari. Reyndar þóttu nemendur Marinós liprari í tungumálinu.

Aðspurður síðar um reynsluna af kennslu kvað Marinó hana verið góða. „Þetta gekk mjög vel, þakka þér fyrir, ég setti bara smá vodkalögg á kaffibrúsann.”

Guðhræddi Færeyingurinn

- Auglýsing -

Marinó tók eina vertíð í Ólafsvík og kynnti sig þar sem guðhræddan Færeying. Kvaðst hann vera með svarta beltið í karate og sérfræðing í siglingafræði. Sitthvað þótti þó vanta upp á færeyskuna svo og kunnáttuna í siglingafræði. Fjótlega sáu heimamenn í gegnum hann en þó ekki allir eins og Alfons Finnsson sagði í samtali við Helgarpóstinn árið 1995: „Hann var alveg kostulegur og ég get svarið það að faðir minn, sem er Færeyingur, stendur enn á því að Marinó sé landi hans.”

Alfons sagði í sama viðtali sögu af því þegar Marinó hugðist sýna samstarfsfélaga úr Ólafsvík hús sitt á Arnarnesi. „Það er ekki að því að spyrja, hann ók upp að flottasta húsinu, en þegar þeir voru á leiðnni inn kveðst hann allt í einu hafa gleymt lyklunum hjá móður sinni í Færeyjum.”

Sterkefnaði skipstjórinn

- Auglýsing -

Á tímabili kynnti Marinó sig sem sterkefnaðan skipstjóra á einum aflahæsta togara landsins. Í bókinni Sérstæða sakamál, sem Jóhanna S. Sigþórsdóttir, skráði segir að Marinó hafi sagt fólki, einkum konum, að þrátt fyrir rikidæmið hefði lífið ekki alltaf verið honum auðvelt. Með tárin í augunum sagði hann konu sína hafa ekið ásamt barni þeirra í Vestmannaeyjahöfn. Hefði hann náð að bjarga barninu en kona hans farist.

Marinó náði með sögunni að heilla konu sem var dóttir hjóna sem ráku þjónustufyrirtæki fyrir sjávarútveg. Hann plataði þau til framleiðslu á dýrum togarahlerum en þegar honum var tilkynnt að þeir væru tilbúnir flúði hann heimilið með þeim orðum að hann væri að fara í kvöldverð með sjávarútvegsráðherra.

Hinum raunverulega skipstjóra á umræddum togara, Benóný Benónýssyni, var ekki skemmt þegar fjöldi kvenna sem Marinó hafði svikið hafði samband við hann. „Þetta finnst mér ekki mikill heiður,” sagði Benóný aðspurður.

Marinó hafði þá flutt upp á Skaga þar sem hann hélt leiknum áfram áður en upp um hann komst. Fór hann þá vestur á firði og endurtók leikinn þar til upp um hann komst.

Guðmundur heilaskurðlæknir verður til

Marinó breytti sögunni í kjölfarið fór að kynna sig sem mikinn hestamann og eiganda fjölda gæðinga. Á hestamótum erlendis kynnti hann sig sem bróður Sigurbjörns Bárðarsonar og voru honum allar dyr opnar í hestaviðskiptum í kjölfarið. Ferðaðist hann um sveitir landsins og keypti hesta til útflutnings.

Sigurbjörn Bárðarsson þurfti að leita til lögreglu til að sverja af sér allann skyldleika við Marinó.

Ekki löngu eftir það hafði norska lögreglan samband við Sigurbjörn og spurði hann út í heila- og taugaskurðlækninn Guðmund Ólafsson sem væri að kaupa hesta sem nýta ætti til endurhæfingastarfs fyrir sjúklinga í Noregi. Þar var Marinó á ferð og hafði enn notað nafn Sigurbjörns í svindlinu. Fljótlega vaknaði þó grunur um að ekki væri allt með feldu og hafði einn hestamaður samband við Læknafélagið sem tilkynnti honum að eini íslenski læknirinn með þessu nafni væri látinn.

Fékk tár í augun og allt

Í dagblöðum frá þessum tíma er að finna fjölda frásagna einstaklinga af kynnum sínum við Marinó. Í Helgarpóstinum árið 1995 er að finna frásögn Kristen M. Svenson, bandarískrar konu sem hafði auglýst eftir hestum til kaups. „Í forstofunni á leiðinni út fór hann svo allt í einu að útskýra af hverju hann, þessi frábæri reiðmaður, hefði sést svona lítið á hestamannamótum. Ástæðuna kvað hann þá að hann hefði misst son sinn úr hvítblæði – hann fékk tár í augun og allt.”

Fjöldi einstaklinga hafði bæði ama og kostnað af svindli Marinós. Aðrir munu hafa haft gaman af lygasögum hans og höfðu einhverjir á orði að hann ætti Óskarsverðlaun skilið, svo fær var Marinó í að spinna sögur.

Marinó lenti í alvarlegu vinnuslysi í Noregi áður en hann flutti til Filippseyja þar sem hann veiktist hastarlega og lést langt um aldur fram árið 2011.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -