2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Með ólíkindum að svona geti komið fyrir“

Mistök við framkvæmd Reykjavíkurmaraþons í fyrra, þar sem allir tímar í maraþoni og hálfmaraþoni, voru úrskurðaðir ógildir, höfðu ýmis óþægindi í för með sér fyrir hlaupara. Þeir eru ósáttir við að skipuleggjandi hlaupsins ætli ekki að bæta hlaupurum upp fyrir mistökin.

Einar Eiríkur Hjálmarsson var einn þeirra hlaupara sem ekki fengu tíma gilda.

Skráning í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2019 sem fram fer í 36. sinn þann 24. ágúst hófst í síðasta mánuði. Hlaupið hefur um árabil notið gífurlegra vinsælda bæði meðal lengra kominna langhlaupara sem og skemmtiskokkara. Á síðasta ári setti klúður í brautarmælingu Reykjavíkurmaraþonsins hins vegar stórt strik í reikninginn, sem rekja má til þess að færa þurfti grindur við snúningspunkt á Sæbraut stuttu fyrir hlaup vegna umferðar og gleymdist að færa þær til baka.

Afleiðingin var sú að hlaupaleiðin var 213 metrum of stutt og olli því að tímar hlaupara sem kepptu í heilu og hálfu maraþoni urðu ógildir. Í kjölfarið varð Íþróttabandalag Reykjavíkur sem sér um maraþonið að senda út afsökunarbeiðni.

Einar Eiríkur Hjálmarsson var einn þeirra hlaupara sem ekki fengu tíma gilda en hann var að hlaupa í fyrsta sinn heilt maraþon. Í samtali við Mannlíf segir hann að þetta sé bagalegt og geti haft áhrif þegar taka á þátt í hlaupum erlendis.

Í svona stóru hlaupi sem er jafnmikið „hæpað“ upp, að það skuli ekki vera einn undanfari sem þekkir brautina, fari yfir þetta 20 mínútum áður en skotið er af stað og gangi úr skugga um að allt sér rétt.

AUGLÝSING


„Ef þú ætlar í hlaup erlendis, eins og Boston- eða Berlínarmaraþonið, þá þarftu að skila tíma í þínum aldursflokki til að komast fram fyrir almenning. Ef þú ert ekki með tíma ferðu aftast í röðina og þarft að hlaupa í gegnum 50 þúsund manna þvögu. Þannig að þetta getur komið sér mjög illa og ekki síður fyrir Reykjavíkurborg og orðspor keppninnar,“ segir Einar og bætir við að það sé með ólíkindum að svona geti komið fyrir. „Í svona stóru hlaupi sem er jafnmikið „hæpað“ upp, að það skuli ekki vera einn undanfari sem þekkir brautina, fari yfir þetta 20 mínútum áður en skotið er af stað og gangi úr skugga um að allt sér rétt. Sérstaklega á þessum krítísku punktum eins og á viðsnúningunum. Það ætti ekki að vera mikið mál að fara þetta á mótorhjóli. Þetta er stærsta maraþon á Íslandi og mikið kynnt erlendis.“

 Málið vandræðalegt

Þá segir Einar málið vera fyrst og fremst vandræðalegt. „Þetta verður líka svo kjánalegt, eins og með þau sem unnu af Íslendingunum, þau eru Íslandsmeistarar í hlaupi sem er ekki gilt,“ segir hann. Arn­ar Pét­urs­son sem kom fyrst­ur Íslend­inga í mark í heilu maraþoni á tím­an­um 2:26:43 klukku­stund­um, var á besta tíma sem Íslend­ing­ur hef­ur náð í maraþoni á Íslandi og Anna Berglind Pálmadóttir var fyrst íslenskra kvenna. Þau eru því Íslandsmeistarar í maraþoni.

Einar segir jafnframt að mótshaldarar hafi ekki boðið upp á neinar sárabætur. „Það hvarflar ekki að þeim. Nú er einhver meistaramánuður þar sem þú getur fengið einhvern afslátt en það hefði ekki verið neitt mál að bjóða þeim sem fengu ógilda tíma í fyrra að hlaupa ókeypis í ár.“

Mótshaldarar á tánum

Jóna Hildur Bjarnadóttir, verkefnastjóri viðburða-, lýðheilsu- og jafnréttismála Íþróttabandalags Reykjavíkur, segir að allt sé nú gert til að koma í veg fyrir að mistökin endurtaki sig. „Við erum að vinna að drögum um að leggja nýja braut, svo erum við að skerpa á öllu ferlinu varðandi starfsmennina okkar á brautinni. Einnig erum við að uppfæra öryggis- og kortahandbók. Við erum á tánum með það í huga að bæta öll ferli hjá okkur,“ útskýrir hún.

Því miður voru svo margir þættir sem komu þarna inn í sem gerðu það að verkum að við náðum ekki að leiðrétta mistökin í tæka tíð.

Aðspurð um hvort brautin sé ekki yfirfarin rétt áður en hlaupið er ræst segir Jóna Hildur að það sé gert. „Við erum með brautarstjóra sem skipta á milli sín svæðinu og hver kannar sitt svæði, hvort allt sé til reiðu. Því miður voru svo margir þættir sem komu þarna inn í sem gerðu það að verkum að við náðum ekki að leiðrétta mistökin í tæka tíð.“ Hún getur þess að öllum sem taki þátt í hlaupinu í ár verði hins vegar boðið upp á 20% afslátt fram til 6. júní og þeim sem hafi tekið þátt áður verði veittur 10% afsláttur aukalega.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is