Umræðan um heimilisofbeldi hefur hverfst að langmestu leyti um valdníðslu karla gagnvart konum en um hríð hafa þær raddir orðið háværari er krefjast þess að aukinni athygli sé beint að þeim tilvikum þar sem þetta er öfugt, þ.e. kona beitir karl ofbeldi.
Víða hefur komið til tals að opnuð séu karlaathvörf og þeir fái meiri stuðning en þar sem það hefur verið reynt á Norðurlöndunum hafa þau lengst af staðið tóm. Skýringin liggur mögulega í því að birtingarmyndir heimilisofbeldis eru ólíkar eftir því hvort gerandinn er karl eða kona. Vegna þess aflsmunar sem yfirleitt alltaf er á körlum og konum þarf karl sjaldnast að óttast um líf sitt af völdum konu sinnar og sjaldan verða þeir fyrir stórfelldu líkamstjóni.
Þeir þurfa oftar að takast á við andlegt ofbeldi og niðurbrot og alls ekki má gera lítið úr skaðlegum áhrifum þess. Þá gætu margir talið að þetta leiddi fremur til sjálfsvíga meðal karla, enda eru þeir í meirihluta þeirra er falla fyrir eigin hendi. Rannsóknir sýna hins vegar að sjálfsvíg eru algengust meðal ungra óbundinna karlmanna og einhleypra miðaldra manna. Tölfræðin styður og sýnir ótvírætt að konur eru í mun meiri hættu á að verða fyrir líkamstjóni eða hreinlega missa lífið en karlar.
Oft er hjálplegt að líta á tölur þegar verið er að velta fyrir sér hvar sameiginlegum sjóðum almennings sé best varið. Eins geta þær skilað veigamiklum lóðum á vogarskálarnar þegar fólk ákveður hvar helsta áhersla og þungi eigi að liggja í viðhorfum og viðleitni samfélags til að stuðla að breytingum. Þegar horft er á þessar tölur verður ekki annað séð en að enn sem komið er þurfi að leggja meiri þunga í að verja konur.
Sjá einnig: Kynbundið ofbeldi heimsfaraldur