Lögregla hafði í nógu að snúast í Hlíðunum í gærkvöldi og í nótt. Tveir menn voru handteknir vegna vörslu fíkniefna en annar þeirra er einnig grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna. Hann var því látinn gista í fangaklefa lögreglu. Síðar um nóttina var lögregla kölluð til í Hlíðarnar til þess að vísa óvelkomnum manni úr íbúð. Maðurinn var í annarlegu ástandi og neitaði að yfirgefa íbúðina. Því var lítið annað í stöðunni en að handtaka manninn sem var síðar færður í fangaklefa þar sem hann eyddi nóttinni.
Í Kópavogi hringdi íbúi í lögreglu vegna elds í yfirgefinni skólabyggingu. Þar hafði verið kveikt í rúmdýnu á lóðinni en búið var að slökkva eldinn þegar slökkvilið og lögregla komu á vettvang. Síðar um kvöldið hafði lögregla afskipti af tveimur mönnum í Kópavogi vegna sölu fíkniefna. Þá barst lögreglu tilkynning um umferðaslys í Grafarvogi. Maður á rafhjóli missti stjórn á hjólinu og hafnaði á handriði við göngustíg. Vitni sagði manninn hafa verið á miklum hraða en viðkomandi hlúði að manninum þar til sjúkrabifreið kom og flutti manninn á bráðadeild.