Þriðjudagur 28. mars, 2023
2.8 C
Reykjavik

Ragnar þvertekur fyrir að bróðir hans hafi framið sjálfsmorð: „Logið að mér um dauða bróður míns“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Þriðji maður. Það var grunur og hefur alla tíð verið grunur um hann og við vitum hver hann er í dag án þess að það sé ástæða til að nafngreina eða aðhafast við hann. Það er bara þannig ástand hjá honum að okkar mati og langt um liðið og hann faðir barns eða barna. Þannig að við aðstandendurnir höfum ekki viljað hreyfa við honum,“ segir Ragnar Agnarsson í viðtali við Hildi Maríu Sævarsdóttur. Ragnar var bróðir Einars Þórs Agnarssonar sem fannst látinn í bíl ásamt félaga sínum, Sturlu Steinssyni, í Daníelsslipp 1. mars árið 1985. Niðurstaða rannsóknar var að þeir hefðu svipt sig lífi en Ragnar er ekki á því.

 

„Okkur var tilkynnt um lát Einars, bróður míns, og Sturlu, vinar okkar, og að þeir hefðu fundist í bifreið niðri í Daníelsslipp og þeir tekið sitt eigið líf,“ segir Ragnar Agnarsson, bróðir Einars heitins, en félgarnir fundust 1. mars árið 1985. Ragnar segir að þeir Einar og Sturla hafi kynnst í meðferð. „Það var það fyrsta sem skeður þarna og ekkert nema sorgarsjokk sem varð næst. Næst var þetta ferli sem var kistulagning og jarðarför.

Ég átti samtal við rannsóknarlögreglu ríkisins, sem var forveri ríkislögreglustjóra, og þar æxluðust málin þannig að ég var fenginn til að jarðsetja Sturlu, vin okkar, á þeirri forsendu að hann hefði verið einstæðingur og lögreglan fyndi engan aðstandanda. Svo kom heldur betur annað í ljós. Sturla var tveggja barna faðir og hann átti fósturmóður. Það var ákveðið drama í kringum þetta allt. Það var séra Hjalti í Landakoti sem vísaði mér á móður Sturlu. Það var margt sem skeði og margt í millitíðinni og er ekki hægt að segja frá öllu í stuttu máli.

Svo var jarðarför og allt gott um það að segja. Fossvogskapella var full út úr dyrum og rúmlega það því að það var mjög stór hópur fyrir utan kirkjuna.“

Ragnar Agnarsson

- Auglýsing -

Þvergirðingsháttur

Svo leið vika til 10 dagar.

„Ég fékk senda heim frá Kirkjugörðum Reykjavíkur tvo svarta ruslapoka með fötum strákanna. Annar pokinn var merktur Einari. Hinn Sturlu. Systir mín og vinkona okkar voru hjá mér þegar ég fékk þessa poka. Ég opnaði pokann með fötum bróður míns og sturtaði úr honum og þá gaus upp mikil gaslykt. Bensínlykt. Annars var ekkert á fötunum að sjá sem voru hrein. Það var bara þessi ofsalega lykt. Ég tók þetta síðan saman og fór með pokann inn í sturtu.

Við sögðum að mennirnir hafi ekki dáið saman.

- Auglýsing -

Svo opnaði ég poka Sturlu og ultu fötin út. Þá var enga lykt að finna annað en ferska lykt. Ferska moldarlykt; enda fötin velt úr mold og í þeim talsvert blóð. Við sögðum að mennirnir hafi ekki dáið saman. Þetta varð til þess að ég fór illur næsta morgun á fund Hauks Bjarnasonar hjá rannsóknarlögreglunni og sagði við hann að ég vildi ekki hafa það að það væri logið að mér um dauða bróður míns. Haukur róaði mig. Hann sagði að ég vissi orðið það mikið að það væri ekki hægt að fela fyrir mér. Sturla átti í miklum átökum þarna, hann varð fyrir kæfingu, lungnapípur sprungu og hann gubbaði blóði. Hann vildi ekki segja mér um andlát bróður míns þar sem ég væri of náinn honum.

Einu og hálfu ári síðar komu krufningsskýrslur loks í ljós og þá stauðfesti krufningsskýrsla Sturlu blóðið sem kom upp úr honum. Þannig að ég hafði ekkert í höndunum þegar ég sagði frá þessu en krufingsskýrslur styðja það.

Það sem skeði í þessu næst var að það varð alger þvergirðingsháttur ríkislögreglustjóra varðandi það að við fengjum vitneskju um dauða strákanna. Bogi Nilsson (ríkissaksóknari) lokaði og skellti í lás ef svo má segja en þarna um áramótin 2007/2008 lét hann af störfum, umboðsmaður Alþingis var kominn í leikinn og Valtýr Sigurðsson tók við sem ríksissaksóknari og umboðsmaður Alþingis hreinlega gerði Valtý það að opna þetta mál þannig að við fengjum aðgengi að krufningsskýrslum. Það var 3. janúar minnir mig sem umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, gerði Valtý það að afhenda okkur krufningsskýrslur. Og það var í ágúst sama ár sem þeir hjá ríkislögreglustjóra afhentu okkur skýrslurnar.“

Ragnar Agnarsson

Þriðji maðurinn?

Ragnar talar um þriðja manninn.

„Þriðji maður. Það var grunur og hefur alla tíð verið grunur um hann og við vitum hver hann er í dag án þess að það sé ástæða til að nafngreina eða aðhafast við hann. Það er bara þannig ástand hjá honum að okkar mati og langt um liðið og hann faðir barns eða barna. Þannig að við aðstandendurnir höfum ekki viljað hreyfa við honum.“

Hvers vegna slapp þriðji maður?

Hann var þá þriðji maðurinn inni í bílnum?

„Já, en lögreglan hefur aldrei viðurkennt það frekar en annað í þessu máli. Þeir viðurkenndu ekki krufningsskýrslur fyrr en ég fann þær sjálfur. Þeir hafa ekki viðurkennt neitt. Þeir hafa bara logið. Það voru engin gögn og það var ekki fyrr en Kristinn Hrafnsson (hjá Kompási) tók myndir af gögnunum, altso möppunum, með þeirra málsnúmeri uppi í vistuðum geymslum í Þjóðskjalasafni; þá fyrst viðurkenndu þeir að það væri eitthvað til um gögn. Það var alltaf bara skrökvað.

Ég hef ákveðnar vísbendingar frá mönnum sem fullyrða.

Hvers vegna slapp þriðji maður? Við skulum spyrja okkur að því. Var verið að kaupa eitthvað eða hvað var í gangi? Í rannsóknarlögreglunni voru almennt ómenntaðir rannsóknarlögreglumenn og oft með ákveðið flokksmerki á sér. Þeir komu inn í lögregluna á flokkspólitík en ekki á verðleikum þess að hafa lært til starfs. Það er bara þannig. Ég lít ekki á þetta sem mál sem hafi orðið þöggun að bráð vegna þess að þeir hafi verið eins og þeir voru, svona ódælir, heldur vegna þess að þarna voru einhver sjónarmið og einstaklingar sem komu nærri sem ekki mátti velta upp. Og ég hef ákveðin rök fyrir því sem ég get eiginlega ekki nafngreint vegna þess að ég hef ekki undir höndum en ég hef ákveðnar vísbendingar frá mönnum sem fullyrða. Leigubílstjórar gefa vitnisburð um að þeir komu inn á Kaffivagninn og drukku kaffi og þá var allt í lagi með þá. Þeir fóru út af Kaffivagninum líklega fyrir klukkan sex; þá fara vísbendingar að benda til þess að eitthvað sé í gangi hjá lögreglu. 06.15 var okkur sagt að fyrsta tillkynning inn í bókun lögreglu í dagbók hafi orðið; þessar dagbækur höfum við aldrei fengið að sjá en þær eru til. Þannig að þarna er eitthvað að ske og þarna dettur manni í hug: Það er staðsetningin á þeim, þeir eru þekktir af lögreglumönnum fyrir ólæti og drykkjuskap án þess að vera í beinum afbrotum, þeir voru á hafnarsvæði og hafnarsvæði þýðir: Er það mögulegt að þeir hafi verið tengdir einhverju ólöglegu varðandi innflutning?“

Ragnar er spurður hvort Einar hafi átt óvini.

„Nei, hann átti ekki óvini. Ég held hann hafi verið frekar vinamargur vegna þess að hann þótti einstaklega skemmtilegur og hafði mikla kímnigáfu. Sturla var kannski öðruvísi. Hann var vinur vina sinna og mér er sagt of snöggur upp á lagið og sterkur maður frekar og átti til í að lenda í kítingi en aldrei alvarlegum sem ég veit um.“

Ragnar Agnarsson

Sömu niðurstöðutölur

Við krufningu kom í ljós blóð á kynfærum Einars.

„Það eru tilgátur sem aldrei fást svör við um blóð á kynfærum bróður míns. Annars vegar kann þetta að hafa verið höggáverki sem er ekkert ólíklegt miðað við það sem Haukur Bjarnason hefur um Sturlu að segja um að þarna hafi átt sér átök en höggáverki hefði getað orðið þar. En svo var hinn möguleikinn líka sem er að þarna hefði orðið blóðleki því bróðir minn var nýkominn úr aðgerð þar sem beinflís var tekin úr mjöðm og færð upp í öxl til að hann færi ekki úr axlarlið. Þetta er möguleiki sem er órannsakaður.“

Lík Einars var með opin augu. Ef þú ert inni í bíl og andar að þér koltvísýringi þá hlýtur þú að kreista augun því þetta ertir.

„Það er ekki bara ertingin. Hitinn frá pústinu er allavega yfir 100 gráður.“

Þeir sjá ekkert á heilabastinu þótt að koltvísýringur hafi átt að dælast inn.

„Nei, en það var samt litróf hjá bróður mínum sem segir mér að þarna hafi eitthvað verið sem var ekki hreint súrefni. Það er það eina. En ef við skoðum blóðrannsókn hjá strákunum, Sturlu og svo Einari, þá eru sömu niðurstöðutölur hjá báðum mönnunum sem mér finnst allundarlegt.“

Þetta var ekki hálft milligramm.

Undarlegt að það skuli vera í báðum tilfellum sama magn í báðum mönnum.

„Þannig að þetta er ekkert sem gefur ástæðu til að vera ástæða eða meðvirk ástæða til dauðsfalls. Hins vegar er það undarlegt að það skuli vera í báðum tilfellum sama magn í báðum mönnum. Er þetta hægt?“

Þetta átti að hafa verið í stolnum bíl. Lykillinn var í svissinum en bíllinn var ekki ökuhæfur.

„Hann er talinn hafa verið óökuhæfur og sá sem tók myndir af vettvangi sagði að bíllinn hafi verið í slæmu ásigkomulagi; hann var dreginn ógangfær úr porti lögreglustöðarinnar upp á Smiðjuveg í Kópavogi og þar var bíllinn grandskoðaður og þeir komu honum ekki í gang þar.“

Samt átti hann að hafa dælt koltvísýringi inn.

„Já, og það er tilgáta sem við höfum heyrt en er ekki rannsökuð sem er að þeir hafi verið ferjaðir á milli bíla. Það á að hafa verið grár Evrópubíll en þessi var rauður og amerískur og þarna skilur mikið á milli. En þetta er óstaðfest og ekki rannsakað. Þannig að við getum ekkert fullyrt. Hins vegar skrifaði Björn Ó. Helgason lögreglumaður ágætis greinargerð sem hann sendi þáverandi ráðherra, Ögmundi Jónassyni, þar sem hann gerði athugasemdir þar sem hann hefði komið að þó nokkrum tilfellum þar sem menn hefðu látist inni í bifreið og hann var þekktur fyrir það að vera kallaður út við vofeilega atburði. Nú ætla ég að lesa:“

Ragnar Agnarsson

Úr greinargerð

Og Ragnar les:

„Rúður bifreiðarinnar eru ekki sótugar. Aðeins morgundögg á þeim að sjá. Við aðkomu þar sem þess háttar hefur orðið að útblástur bifreiðar er leiddur inn í bifreið þá er án undantekninga ljóst að rúður verða sótugar. Þó mismikið eftir þeim tíma sem útblásturinn hefur lekið inn í bifreiðina.“ Þetta er fyrsta athugasemd. Síðan er hann með þessa athugasemd: „Slanga leidd upp í útblástursrör bifreiðar. Engin merki eru um sót á slöngu þótt óþétt rými sé sjáanlegt á milli slöngu og útblásturs.“ Sem sagt það segir okkur að bifreiðin var aldrei í gangi. „Slanga er heilleg að sjá en samsett með grænu límbandi um miðju.

Og því eru tímasetningar í lögregluskýrslu hans rangar.

Á myndum má sjá að neðan við bensínlok bifreiðar er merki um umtalsverðan bensínleka. Vakin er athygli á að föt Einars höfðu mikinn anga af mikilli bensínlykt. Fötin bárust aðstandendum en föt Sturlu höfðu enga slíka lykt.“ Einnig er vakin athygli á að í ótrúverðugri lögregluskýrslu er sagt að mjög sterk gaslykt hafi verið í bifreiðinni. Hér vil ég skjóta inn í: Eftir að hafa skoðað málið og eftir að Björn Ó. Helgason lést þá er ég þess fullviss að Haukur Bjarnason birtist starx um morguninn eftir andlát mannanna. Og því eru tímasetningar í lögregluskýrslu hans rangar. Jón Fr. Bjarnason, nú yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, kom líklega á vettvang þarna undir hádegi og hann skrifaði þá tímasetningu þegar hann kom á vettvang, hvað hann sá og síðan var hann farinn. Hann var ekki að skrökva neinu. Hann sagði bara frá því hvenær hann kom og hvað hann sá og ekkert meira.“

Það var um 11.35.

„Já. Hins vegar eigum við vitnisburð sem er vitnisburður Hans Markúsar Hafsteinssonar sem fyrst sagði Kristni Hrafnssyni frá. Kristinn lét mig strax vita og ég hringdi í Hans Markús Hafsteinsson. Með okkur tókst samtal og síðan ákvörðun um fund næsta dag en af þeim fundi varð ekki þar sem ríkislögreglustjóri gaf Hans Markúsi þau fyrirmæli að eiga ekki orðastað við okkur þar sem hann væri bundinn trúnaði lögreglu. Og við það stóð. En Hans Markús er látinn og því erfitt að leita til hans um vitnisburð en orð mín getur Kristinn Hrafnsson ásamt Ernu, systur minni, borið vitni um.

Þetta hefur Björn Helgason fengið frá Kristni: „Vakin er athygli á vitnisburðum tveggja vitna sem sjá mennina látna inni í bifreiðinni. Það er Hans Markús Hafsteinsson sem segir að maðurinn í framsæti farþegamegin hafi bókstaflega verið svartur og greinilega látinn. Maðurinn í aftursæti var frekar eins og sofandi og hafði eðlilegt útlit. Hans Markús segir sig hafa athugað lífsmörk á honum en sín niðurstaða hafi verið að dauðinn hefði þegar tekið hann.“ Ragnar talar um annað vitni, leigubílstjóra, sem hafi sagt að maðurinn í framsætinu hafi verið grænn en maðurinn í aftursætinu bara dáinn.

Hafi lögregla áhuga á að rifja málið upp þá fá þeir öll nöfn upp á borð.

„Sævar Jóhannesson frá tæknideild rannsóknarlögreglu ríkisins mun hafa komið á vettvang 11.30. Tók hann ljósmyndir og var hans hlutverki þar með lokið. Hann sem sé varð ekki vitni að því hvort að vettvangi hafi verið raskað eða hvort þessum vettvangi hafi verið breytt. En um það eigum við vitnisburð sem eru hjá lögreglumönnum sem við höfum ekki gefið upp nöfnin á enda þeir við almenn löggæslustörf og við höfum viljað halda verndi yfir þeim mönnum og öllum þeim mönnum sem heiðarlega unnu sitt starf. Það er við rannsóknarlögregluna að sakast en ekki lögregluna eða lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Hafi lögregla áhuga á að rifja málið upp þá fá þeir öll nöfn upp á borð, hvort það er þriðji maðurinn í bílnum eða nöfn lögreglumanna sem gættu vettvangs þennan morgun.“

Ragnar segist vera í jafnmikilli óvissu í dag og árið 1985

„Hvað átti sér stað þarna?“

Hann nefnir að eftir að málið fór til lögreglu hafi það síðan farið til umboðsmanns Alþingis og síðan til ríkissaksóknara.

Ragnar Agnarsson

Skömm að þessu

Ragnar er spurður hvort hann haldi að dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóri gætu tekið málið upp aftur og rannsakað það betur.

„Aðvitað vildi ég það. Ef ég ætti orðastað við ráðherra í dag þá vildi ég gjarnan að hann færi aftur í bréfasafnið og læsi bréf umboðsmanns Alþingis um það hvert hlutverk hans er í máli þegar svo háttar sem í þessu máli. Innanríkisráðherra eða dómsmálaráðherra er yfir ríkissaksóknara sem er æðstur lögreglumanna og hann á að hafa valdið. En við lokun ráðuneytis þá var ítrekað sagt að ráðuneytið hefði ekki haft hæfi til að fást við málið. Hvað er verið að gera? Hvaða bull er í gangi? Það er skömm að þessu.“

Ragnari er bent á að við lifum á tímum þar sem auðveldara er að þrýsta á yfirvöld heldur en fyrir 37 árum.

„Ég er búinn að fást við yfirvöld frá því ég var barn. Fyrst yfirvöld barnaverndar og síðan starfði ég lengi innan landhelgisgæslunnar og ég fór í margar skoðanir og leiðangra á vegum hennar. Síðan kom þetta upp og ég eftir að hafa skoðað allt ferlið og veit um margar misfellurnar hvort sem það er barnavernd, gæslan – þar sem ég vann með einstökum mönnum en samt voru þar misfellur sem ég veit um – og síðan þetta mál þá ef ég ekkert álit á stjórnsýslunni. Ekkert. Því að þetta fólk er til að þiggja laun. Ég hef álit á lögreglu; ef ríkislögreglustjóri stendur fram og leggur málin upp þá er ég tilbúinn að vinna með honum. En ekki ráðuneyti. Og ekki stjórnsýslu; við stefnum í efnahagshrun og þá leikur þetta fólk sér úti í heimi. Það er ekki að vinna vinnuna sína.“

Þar er komið fólk með metnað.

Núna er nýtt fólk og nýir tímar hjá lögreglunni.

„Það sem hefur gerst innan lögreglunnar er að þar er komið vel menntað fólk. Þar er komið fólk með metnað. Það er fólk sem lætur ekki segja sér. Og það er akkúrat þetta sem hefur skeð innan lögreglunnar.“

Ragnar segir að það sé ríkissaksóknari eða ríkislögreglustjóri sem hafi vald til að taka málið upp á forsendum þeirrar lokunar sem Ögmundur Jónasson gerði. „Og það eru allar forsendur. Þetta yrði þá opnun í þeim tilgangi að gefa börnum Sturlu færi á því að vita hvað varð föður þeirra að aldurtila og gefa þeim frið í hjarta. Gefa þeim látnu má segja sakaruppgjöf og síðan okkur aðstandendum Einars frið í hjarta. Það er það sem það hefði með sér. Mest þykir mér til um það að börn Sturlu fái vissu og síðan hitt að hinir látnu fái uppreisn þess að vera kallaðir illum nöfnum. Fái sína hvíld og sína réttu málsmeðferð. Þeir eiga rétt á því.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -