Sunnudagur 22. maí, 2022
8.8 C
Reykjavik

Rósa bæjarstjóri fullyrðir að hafa ekkert vitað – Leyndu bæjarlögmaður og sviðsstjóri hana gögnum?

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Eins og Mannlíf hefur greint frá eru deilur í gangi á milli meirihlutans í Hafnarfirði undir stjórn Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra, og meirihlutans í Reykjavík undir stjórn Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, varðandi áætlaðan flutning malbikunarstöðvarinnar Höfða frá Reykjavík til Hafnarfjarðar.

Íbúar í Hafnarfirði hafa sett í gang undirskriftarlista þar sem mótmælt er að malbikunarstöðin Höfði verði verði flutt úr Reykjavík í hið vaxandi, blómlega og fjölskylduvæna hverfi í Hafnarfirði, Ásvelli.

Orð stjórnmálamannanna Rósu og Dags um málið eru ansi ólík og margt sem sagt hefur gengur einfaldlega ekki upp, þegar málið er skoðað frá hliðum beggja og krufið til mergjar.

Rósa og meirihlutinn furðaði sig á því á bæjarstjórnarfundi að Reykjavík undir stjórn Dags, væri að koma nánast „bakdyramegin“ með heila malbikunarstöð úr Reykjavík til Hafnarfjarðar. Samkvæmt fundargerðinni vissi Rósa ekki af þessum stóra „gjörningi“ þrátt fyrir að vera æðsti og valdamesti einstaklingurinn í bæ sem telur yfir 30 þúsund íbúa.

Dagur segir aftur á móti að allt varðandi málið sé uppi á borðinu og að lögfræðingur Hafnarfjarðarbæjar, Ívar Bragason, og sviðsstjóri sama bæjar, Sigurður Haraldsson, hafi klárlega vitað af málinu, enda séu gögn til sem sanni það.

Og þá er spurt: Voru Ívar og Sigurður að fara á bakvið yfirmann sinn, bæjarstjórann Rósu Guðbjartsdóttur, eða vissi hún af fyrirhuguðum flutningi Höfða til Hafnarfjarðar, en kaus af einhverju ástæðum að viðurkenna það ekki? Hvers vegna ættu bæjarlögmaður og sviðsstjóri að halda því leyndu fyrir Rósu að malbikunarstöðin Höfði væri að flytja til Hafnarfjarðar?

- Auglýsing -

Þess má geta að Mannlíf hefur sent bæjarlögmanni Hafnarfjarðar, Ívari Bragasyni, og sviðsstjóra, Sigurði Haraldssyni, fyrirspurn með vísan í upplýsingalög nr. 140/2012. þess efnis hvort þeir hafi vitað af málinu og ef svo er þá hvort þeir hafi greint Rósu Guðbjartsdóttur frá því.

Mannlíf sendi fyrirspurn til Rósu Guðbjartsdóttur varðandi málið með vísan í upplýsingalög nr. 140/2012.

Hér að neðan eru samskipti blaðamanns Mannlífs og Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra Hafnarfjarðar; spurningar blaðamanns og svör hennar við þeim:

- Auglýsing -

Blm: Ert þú búin að ræða við Dag B. Eggertsson borgarstjóra um mál Höfða? Ef svo er, þá hvenær og með hvaða hætti, og hvað kom út úr því samtali?

Rósa: Bæjarráð Hafnarfjarðar fól bæjarstjóra að ræða við borgarstjórann í Reykjavík um þetta mál á fundi sínum 1. júlí sl. og ræddum við saman daginn eftir. Ljóst er að við borgarstjóri munum verða í sambandi um málið  áfram þegar frekari upplýsingar liggja fyrir. Andstaða bæjaryfirvalda í Hafnarfirði við fyrirhugaðan flutning þessarar starfsemi frá Reykjavík til Hafnarfjarðar liggur hins vegar skýr fyrir.

Blm: Vissir þú sem bæjarstjóri ekki af fyrirhuguðum flutningi Höfða til Hafnarfjarðar?

Rósa: Fyrirætlanir Malbikunarmiðstöðvarinnar Höfða hf., sem er félag í eigu Reykjavíkurborgar, voru ekki bornar undir mig sem bæjarstjóra Hafnarfjarðar, heldur keypti Höfði lóð að Álhellu 18 í Hafnarfirði þar sem Munck Ísland hefur haft starfsleyfi fyrir mun minni malbikunarstöð. Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar upplýstu Höfða um það starfsleyfi sem Umhverfisstofnun hefur veitt á lóðinni og þurfti ekki aðkomu bæjarstjóra að þeirri upplýsingagjöf. Þegar fréttir fóru að berast um mögulegan flutning allrar starfsemi Malbikunarstöðvarinnar Höfða til Hafnarfjarðar á þessa lóð var málið þegar sett á dagskrá bæjarráðs að frumkvæði meirihluta bæjarstjórnar til þess að ræða möguleg viðbrögð af hálfu bæjarins.

Blm: Ef þú vissir ekki um málið, hvernig stendur þá á því að bæjarstjóri Hafnarfjarðar veit ekki af slíkum risastórum gjörningi í sem æðsti yfirmaður í sínu eigin sveitarfélagi?

Rósa: Viðskipti með lóðir fara fram á milli lóðarhafa og væntanlegra kaupenda og eru bæjarstjóri og bæjaryfirvöld ekki aðilar að viðskiptum með lóðir sem ekki eru á forræði sveitarfélagsins. Hlutverk starfsmanna bæjarins er þá fyrst og fremst að svara fyrirspurnum í tengslum við skipulagsmál og öðrum þáttum er lúta að valdsviði sveitarfélagsins.

Blm: Vissi Dagur B. Eggertsson af fyrirhuguðum flutningi Höfða til Hafnarfjarðar?

Rósa: Spurningum um hvenær borgarstjóra var kunnugt um fyrirætlanir Höfða ber að beina til hans.

Blm: Ljóst er að annaðhvort veistu um það vegna mögulegs samtals við hann sem boðað var til í áðurnefndri fundargerð, eða þá að þú veist ekki hvort hann hafi vitað af þessu vegna þess að þú sért ekki búinn að ræða málið við hann. Hvort er það?

Rósa: Borgarstjóra var kunnugt um málið þegar við hófum okkar samtal enda þegar verið fjallað um það opinberlega.

Blm: Er það rétt að fyrirhugaður flutningur Höfða frá Reykjavík til Hafnarfjarðar hafi verið frágenginn í byrjun maí 2021 og að þessi flutningur hafi staðið til frá því í apríl sama ár?

Rósa: Mér er ekki kunnugt um tímasetningar varðandi áætlanir Malbikunarstöðvarinnar Höfða.

Blm: Fékk Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, vitneskju af þessum fyrirhugaða flutningi á sama tíma og þú? Ef svo er, hvenær var það nákvæmlega? Var það mögulega á fundi þeim sem haldinn var 1. júlí s.l.? (Bæjarráð – 3577. Haldinn í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6, 01.07.2021. 2106621 – Höfði, malbikunarstöð).

Rósa: Fréttir fjölmiðla í lok júní um að Malbikunarstöðin Höfði hefði hug á því að flytja starfsemi sína frá Reykjavík til Hafnarfjarðar komu bæði formanni bæjarráðs Hafnarfjarðar og bæjarstjóra að óvörum. Meirihlutaflokkarnir í Hafnarfirði stóðu svo saman að því að taka málið strax fyrir á fundi bæjarráðs 1. júlí sl.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -