Sigurliði Guðmundsson fæddist í Reykjavík 15. október 1942. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 20. desember 2020, 78 ára að aldri.
Sigurliði eignaðist synina Theodór Gísla og Sigurð Ragnar með Guðbjörgu Theodórsdóttir fyrri konu sinni. Árið 2001 kynntist hann Ríkey Guðmundsdóttir 2001 en hún á börnin Oddný Ósk, Guðmund Elmar, Pálínu Svölu og Kolbrúnu Söndru.
Sigurliði var rafvirkjameistari og einn af frumkvöðlunum hjá Ríkissjónvarpinu en hann var einn af fyrstu starfsmönnum Sjónvarpsins. Var hann í hópi þeirra sem sendir voru til Danmerkur að nema helstu atriði sjónvarpsvinnslu áður en Sjónvarpið fór í loftið haustið 1966 og var lengi tökumaður hjá Sjónvarpinu.
Þá var Sigurliði á setti og kvikmyndaði sjónvarpsmyndir en meðal helstu verka eru Blóðrautt sólarlag (1977) og Vandarhögg (1980). Báðum kvikmyndunum var leikstýrt af Hrafni Gunnlaugssyni.
Sigurliði kom að kvikmyndatöku fjölda annarra verka á þeim árum sem hann starfaði fyrir sjónvarpið. Þá starfaði Sigurliði síðar hjá Vodafone og lét af störfum 67 ára, sökum aldurs.
Á Klapptré, miðli sem sérhæfir sig í umfjöllun um kvikmyndagerð er greint frá andláti Sigurliða og hans minnst.
Þá myndaði Sigurliði heimildamyndina Sálin í útlegð er (1974) sem fjallaði um ævi Hallgríms Péturssonar. Sigurður Sverrir Pálsson leikstýrði eftir handriti sínu og Jökuls Jakobssonar. Einnig kvikmyndaði hann heimildarmynd um höggmyndlistarskáldið, Einar Jónsson.
Útför þessa merka kvikmyndagerðarmanns fór fram í Kópavogskirkju í gær. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu var streymt frá athöfninni.